Færsluflokkur: Bloggar
8.7.2018 | 22:17
Jón Þ. Þór skrifar bók um Katrínu miklu.
Katrín mikla fædd 1729, dáin 1796.
Það er alltaf jafn gaman að rekast á bók, sem grípur mann svo sterkum tökum að hún ráðskast með mann. Ég á við að hún yfirskyggir það sem er að gerast í kringum mann, lætur mann sjá allt í einhverskonar endurskini frá heimi bókannar. Ég veit að ég verð eiginlega óþolandi, Þótt ég reyni að gæta mín. Það sem einkennir slíkar bækur er að það þarf að hafa talsvert fyrir þeim, jafnvel endurlesa kafla og kafla.
Ég hef verið að lesa bók Jóns Þ. Þórs sagnfræðings umKatrínu II. keisarynju, sem oftgengur undir nafninu Katrín mikla. Katrín tók völd í Rússlandi eftir að hún hafði steypt manni sínum Pétri III. af stóli. Það var hún sem gerði Rússland að raunverulegu stórveldi.
Sagan er ekki bara um Katrínu og það sem var að gerast í Rússlandi þess tíma, hún er um leið saga pólitískra hræringa í Evrópu og átaka við Tyrki.
Manneskjan Katrín II.
Katrín hét áður Sophie Friederike Auguste von Anhalt-Zebst, var af þýskum aðalsættum en fékk nafnið Katrín, þegar hún var endurskírð 1745 er hún trúlofaðist drengnum, Karl Peter Ulrik von Holstein-Gottorp, keisaraefni. Hún var þá 16 ára og hann 15 ára. Sophia var bráðgáfuð og vel menntuð en mannsefnið enn að leika sér með tindáta. Það virðist sem sagt ekki hafa verið jafnræði með þeim og hjónabandið var misheppnað frá byrjun, Katrín ól honum þó son, Paul (sem þó var líklega ekki hans). Þar með var fyrirhuguðu hlutverki hennar lokið. En Katrín var klók.
Það er vonlaust að endursegja þessa bók en mig langar að fara fáum orðum um það sem mér fannst merkilegast.
Drottning upplýsinga- stefnunnar
Kaflinn um samskipi Katrínar við páfar upplýsingastefnunnar er frábær. Þar er lýst hvernig Katrín mótar sér stefnu sem hún fylgir staðfastlega allt þar til franska byltingin (1789) reið yfir. Þá skildi hún að hugmyndir um jöfnuð, mannúð og frelsi geta snúist í andhverfu sína.
Lagabætirinn Katrín
Katrín hafði mikinn áhuga á að bæta lagakerfið þar sem hvað rak sig á annars horn. Það var gamalt og þar gætti mikils ósamræmis. Hún hóf þessa vinnu með að skrifa uppkast að lögbók, Nakaz. Í framhaldi af þeirri vinnu boðaði hún til þjóðfundar til að ræða um drögin. Þetta var stórvirki en skilaði ekki árangi sem skyldi, því annað kom á milli, stríð við Tyrki. Þessi vinna var þó óhemju fagmannleg og endalokin minntu mig á eitthvað kunnuglegt.
Ástir og völd
Á þessum tíma voru ástir og völd nátengd. Yfirleitt var ráðskast með konur en Katrín sneri þessu við. Margir elskhugar hennar fengu hlutverk sem ráðgjafar og stjórnendur en aldrei stærra hlutverk en Katrín vildi. Ég sé Potemkin í nýju ljósi eftir lestur þessarar bókar. Hann var bæði skynsamur og frækinn.
Lokaorð
Þegar maður les sögulegar ævisögur veltir maður því ósjálfrátt fyrir sér hvað hafi áunnist og hvað standi í stað eða sé jafnvel verra nú en þá. Framfarirnar fyrst. Staða kvenna hefur tvímælalaust batnað. Sama og jafnvel í enn ríkara mæli er hlutur læknavísinda. Mér sýnist að áhrif sem frá þeim stafar hafi aukið velsæld meira en allt annað. Makk þjóðhöfðingja er er um margt líkt og forðum. Þá er komið að því hvort eitthvað hafi beinlínis versnað. Fyrst hélt ég að þessi reitur væri auður En þá mundi ég eftir Trump. Í framhaldi af því fór ég að hugsa að einvöldum hefði ef til vill ekki fækkað eins og oft er látið. En eitt er víst að menntun þeirra hefur versnað umtalsvert.
Jón Þ. Þór á þakkir skyldar fyrir þessa bók. Hún er skemmtileg og góð viðbót við þekkingu sem hjálpar manni til að skilja heiminn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2018 | 20:01
Þessi pistill er um fótbolta
Þessi pistill er tileinkaður fótbolta. Ég er hugsi yfir því hversu margir, einkum kynsystur mínar ,láta heimsmeistarakeppnina í Rússlandi fara í taugarnar á sér. Sjálf nýt ég hennar í botn. Ég held að það vanti fræðslu um fótbolta, helst stutt námskeið, til að kenna fólki sem ekki hefur lært að njóta þess að horfa á fótbolta. Eitthvað fyrir byrjendur, ekki þetta samtal fótboltavitringa fyrir og eftir leik.
Ég er nefnilega sjálf alin upp við mikla fótboltagleði, Breiðdælingar voru engir aukvisar í fótbolta á eftirstríðsárunum. Þar var rík og góð fótboltahefð. Margir vildu þakka hana áhrifum frá séra Róbert Jack, sem var stuttan tíma prestur á Eydölum. Koma hans til Íslands var fyrir tilstilli Alberts Guðmundssonar. Var mér sagt. Sagan sagði að presturinn hefði átt það til að lýsa því yfir úr stólnum að þetta yrði stutt messa en síðan yrði æfing á Stöðulbarðinu, sem var fyrsti fótboltavöllur Breiðdælinga. Eftir messu snaraði presturinn sér úr hempunni og stýrði æfingu.
Alla vega skapaðist sú hefð, að fótboltakeppnir voru oft tengdar hátíðum og skemmtanahaldi. Fyrst fótboltaleikur, síðan samkoma og loks dans. Ég man eftir æsispennandi keppni milli Breiðdælinga og Stöðfirðinga. Því miður tíðkaðist ekki að konur tækju þátt í þessari íþrótt fremur en öðrum íþróttum. Þær horfðu á.
En ég nota heimsmeistarakeppnina ekki einungis til að horfa á leiki. Ég nýt þess að dýpka landafræðiþekkingu mína og fletta þjóðum og keppnisstöðum upp á Google og gera margvíslegan samanburð.
Og í þetta skipti hefur áhugi í minn beinst að Rússlandi.
Það var sérstakt happ í hita keppninnar að rekast á nýlega bók eftir Jón Þ. Þór,skólabróður minn. Kaflinn um Katrínu miklu keisarynju (fædd 1729 , dáin 1796). Hún tók völd 1762 eftir að hafa steypt manni sínum Pétri III. af stóli. Hún ríkti síðan til dauðadags 1796. Það var kannski eins gott að steypa honum því hann var að undirbúa innrás í Holsetaland. Okkur hefur líklega aldrei staðið meiri ógn af Rússum. Á þessum tíma heyrði Holsetaland undir Dani og það gerði Ísland líka.
Það er gaman að lesa um þessa drottningu upplýsingatímans, ég ætla að segja frekar frá bókinni þegar ég hef lokið henni.
Ég held að hugmynd mín um námskeið eða æfingabúðir sem miði að því að kenna fólki að njóta þess að horfa á fótbolta sér til ánægju, sé í anda upplýsingastefnunnar.
Myndin er af Katrínu miklu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2018 | 22:30
Blátt blóð: Oddný Eir Ævarsdóttir
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
(Úr lofsöng Hönnu:Dómarabókin)
Ég hafði fylgst með kynningu á bókinni, Blátt Blóð og umræðum í fjölmiðlum,vissi hvert var viðgangsefnið. Ég ég hóf lesturinn með hálfum hug og hugsaði: Þetta getur enginn. Það er dæmt til að mistakast.
Bókin fjallar um þrá konu eftir því að verða móðir og baráttuna við að sigrast á ófrjósemi. Og um sorgina sem fylgir því að fá ekki von sína uppfyllta.
Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt viðfangsefni, það er víða vikið að barnleysi í bókmenntum en ég hef aldrei séð það tekið sem aðalefni, frekar í jaðri frásagnar um annað og oft afgreitt með einni setningum. Þeim varð ekki barna auðið,eða því er lýst sem óljósum skugga.
Sara kona Abrahams, hvetur hann til að liggja með ambátt sinni Hagar og hún ól honum son. Söru sem var komin af barneignaldri fannst hún niðurlægð. En Guð miskunnaði sig yfir haona og hún ól honum soninn Ísak.
Konan í bók Oddnýjar Eirar er menntuð nútímakoma og nýtir sér þekkingu nútímans. Hún fylgist með tíðahringnum og hagar ástalífi eftir því. Þegar allt kemur fyrir ekki nýtir hún sér tæknifrjóvgun.Samband hennar við manninn þolir ekki álagið.
Ég ætla ekki að rekja söguþráð bókarinnar því í bókum Oddnýjar er söguþráður ekki aðalatriði.Það sem gefur bókum hennar líf og gerir þær spennandi, eru tengingar í allar áttir. Oft heimspekilegar, sögulegar eða bókmenntalegar og oft fyndnar. En þótt höfundur leiki sér með heimspekina í hverdeginum, finnur maður tregann undir niðri.
Skáldin birtast henni í draumi og í vöku. Nietzsche svarar því til, þegar húnn biður hann að verða barnsfaðir sinn, Þú átt verkin mín.. Simon de Beauvoir sýnir henni hillu með bókunum sínum, þegar hún spyr hana út í barnleysið. Sjálf hugsar hún, konan í bókinni, öll góð listaverk eru gædd lífsneista. Að skapa listaverk er eins og að ala af sér líf.
Ég á erfitt með að halda þeim aðskildum, höfundi og aðalpersónu bókarinnar enda veit ég að Oddný byggir á eigin reynslu.
Eftir að hafa lesið bókina, finnst mér að það sé afrek að skrifa um þetta tilfinningahlaðna efni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2018 | 14:45
Undirferli: Oddný Eir Ævarsdóttir
Stundum fæ ég samviskubit yfir því að vanrækja nýja höfunda. Þá tek ég mér tak og les nokkrar bækur í röð. Ég verð yfirleitt ekki fyrir vonbrigðum en svo sækir í sama farið, ég leggst í gamlar bækur. Ég er strax farin að gæla við að næsta bók verði Eyrbyggja.
Eg hef lengi ætlað að lesa bækur eftir Oddnýju Eir, hef fylgst með henni. Ég held að kveikjan að því að ég lét verða af lestrinum, sé kápan á bókinni Undirferli, síðustu bók hennar. Mikið óskaplega er bókin falleg. En fyrst las ég Blátt blóð (2015) og Jarðnæði (2011). Ég ætla að segja frá þeim í öfugri röð, skrifa fyrst um Undirferli.
Þetta er stutt bók, tekur aðeins 4 klukkustundir í hlustun, höfundur les bókina sjálfur og gerir það vel. Bókin er að forminu til glæpasaga og rammi frásagnarinnar er annars vegar skýrsla sem er gerð á Lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum og hins vegar skýrsla sálfræðings í Reykjavík, sem hjálpar vísindakonunni Írisi og Smára sem vinnur sem aðstoðarmaður hennar, að vinna úr áföllum sínum, en það tekur á að vera botin röngum sakargiftum, ég tala nú ekki um þegar ákæran kemur frá þeim sem maður treystir.
Málið snýst um rannsóknir á veiru sem hefur fundist í Surtsey og um hvernig maður umgengst verðmæti, sem tengjast náttúrunni og því að því að bera ábyrgð á einstakri náttúru. Þótt sagan hverfist um glæp er sú framvinda aðalatriði þessarar bókar. Aðalatriði hennar fjölmargt og ég ætla að nefna nokkir málefni. Bókin fjallar um samskipti fólks, hvernig manneskjan getur verið heiðarleg við sig og aðra. Hvernig maður umgengst náttúruna og hvernig fólk deilir verðmætum og síðast en ekki síst hvernig við umgöngumst jörðina. Öll frásagan er með ævintýrablæ. Við sögu kemur mælitæki sem Smári eðlisfræðingur er að þróa og bilið á illi yfirskilvitslegra hluta og jarðbundinna er hverfandi. Það er eiginlega merkilegt að ég, þessi jarðbundna kona skuli hafa gaman af þessu. En það sem heillar mig er leikur skáldsins með málið, hvernig hún hoppar á milli þess hversdagslega í núinu yfir í gamlar mýtur og bókmenntalegar og trúarlegar vísanir. Og svo hefur hún lúmskan kittlandi húmor. Ég gleðst oft yfir fundvíst hennar. En þetta er ekki bara saga um glæp, þetta er líka ástarsaga.
En af því að bókin er byggð upp eins og sakamálasagna, bjóst ég alveg eins við að í lolin kæmi einhvers konar twist eða brella þar sem öllu yrðisnúiða hvolf. En svo varð ekki. Í staðinn verður frásagan en ævintýralegri. Stundum fannst mér ég vera að lesa unglingabók í ætt við Harry Potter.
Þessi bók gladdi mig.
Næst ætla ég að segja frá bók Oddnýjar, Blátt blóð, sem fjallar um þrá konu eftir því að verða móðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2018 | 18:11
Glansmyndasafnararnir: Færeysk snilld
Ég veit ekki hvar ég var þegar Glansmyndasafnararnir komu út. Það var árið 2013 og ég tók ekki eftir því. Þó hef ég sérstakt dálæti á færeyskum bókum, hef reyndar lesið nokkrar á frummálinu með hjálp orðabókar. Það var meðan augun voru enn í lagi. Þetta get ég ekki lengur og ég skil ekki talaða færeysku og get því ekki nýtt mér hljóðbækur. Ergilegt. Kannski vantar mig bara þjálfun.
Ég rakst á Glansmyndasafnararana fyrir heppni. Lestrarfélagið mitt hafði ákveðið að hafa færeyskt þema. Allir lásu færeyska bók að eigin vali. Þá allt í einu blasti við mér þessi undarlega bók (sjá mynd).
Strax í upphafi sögunnar er manni dempt inn í óhugnanlega atburðarás. Sögumaður gerir grein fyrir efni bókarinnar. Hún fjallar um örlög sex drengja sem allir gengu í kaþólskan einkaskóla í Þórshöfn. Þeir voru fæddir 1952 og allir dánir þegar sagan er sögð. Að loknum þessum inngangi hefst hin eiginlega frásögn. Hún grípur mann strax. Ég fór meira að segja að velta því fyrir mér hvort sagan sé sönn, að hún byggi á raunverulegu fólki og raunverulegum atburðum. Ekki veit ég hvernig því er háttað en það er ekki ný upplifun fyrir mig, ef mér finnst bók góð, trúi ég hverju orði.
En sagan segir ekki bara sögu þessara sex einstaklinga, heldur sögu fjölda fólks sem tengdist þeim. Bókin er í raun mögnuð aldarfarslýsing. Örlög þessara drengja og seinna ungu manna, sem ná að komast á legg, snertu mig djúpt.
Höfundurinn Jóanes Nielsen er fæddur 1953. Hann er þekktur fyrir ritstörf sín í Færeyjum, þetta er þriðja skáldsaga hanns, en hann hefur einnig skrifað ljóð og leikverk. Ég hef sem sagt ekki verið með á nótunum. Bókin er þýdd af Kristínu Svanhildi Ólafsdóttur og hljóðbókin er lesin af Sigurði Skúlasyni, sem er frábær lesari. Þetta var sem sagt veisla fyrir bókelskandi konu eins og mig. En efnið var nístandi svo samlíkingin um veislu er e.t.v. ekki vel valin.
Þessi bók er svo vel skrifuð að oft langaði mig til að muna orðin og setningarnar. Þetta er þriðji Færeyingurinn í röð sem ég les, sem hefur snilligáfu. Ber af. Hinir eru Heinesen og Carl Jóhan Jensen. Hvað er með þetta litla land að það skuli ala af sér svona marga snillinga?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2018 | 19:37
Bækurnar sem ég les
Fyrir allmörgum árum ásetti ég mér að skrifa um bækur sem ég les og gera upp hug minn um lesturinn. Tilgangur skrifanna var að glöggva mig á því hvað bókin gaf mér, gera upp hug minn. Rökstyðja fyrir sjálfri mér hvers vegna mér fannst si eða so. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að setja þessar hugleiðingar á netið, var að ég vildi veita sjálfri mér aðhald. Seinna þróaðist þetta í þá átt, að mér fannst ég eiga í samtali við lesendur mína.
Ég tók eftir því í gær að ég hef ekki staðið við þennan ásetning minn, það hefur safnast upp langur hali bóka sem ég ekki gert formlega upp við. En loforð er loforð, jafnvel það sé gefið sjálfum sig. Ég ætla að taka mér tak.
Fyrsta langar mig til að segja frá tveimur bókum eftir Jón Orm Halldórsson, báðar eru þær mikil gersemar.
Islam - Saga pólitískra trúarbragða
Bókin kom út 1991. Hún greinir frá tilurð Islam, sögulegum og félagslegum aðstæðum, jarðveginum sem trúbrögðin spruttu úr. Þar er sagt frá spámanninum Múhameð, Kóraninum og kenningum um hvernig hann varð til . En Kóraninn lýsir ekki bara trúarhugmyndum, í honum koma einnig fram veraldlegar hugmyndir um rétta og ranga breytni enda er hann um leið undirstaða laga þeirra sem játa þessa trú. Í bókinni er rakið hvernig trúin breiddist út og samspili trúarbragða og því sem við köllum stjórnmál. Auk þess gerir hann lauslega grein fyrir öðrum trúarbrögðum, til samanburðar og lýsir muni þeirra og hvað er sem ber á milli og aðgreinir þau.
Bókin er fræðileg og vitnað í fjölda rannsókna, jafnvel að stundum fannst mér einum um of. Það er öðru vísi að heyra þetta lesið í samfelldum texta en að fá það í bók, þar sem maður fer gjarnan fljótt yfir sögu þegar kemur að tilvitnunum í heimildir.
Það er mikill fróðleikur í þessari bók, jafnvel svo að maður er ekki fyrr búinn þegar maður fær þá tilfinningu, að maður þurfi að endurlesa til að glöggva sig betur.
Breyttur heimur
Bókin kom út 2015. Þetta er löng bók (tekur um 20 klst í hlustun). En hún skiptist í marga kafla sem hver um sig fjallar um ákveðið afmarkað efni svo hún er auðlesin og síður en svo leiðigjörn. Ég hef tekið hana í áföngum og er enn að. Bókin er í raun eins og röð fréttaskýringa, sem maður hefði átt að fá, svarar ótal spurningum sem maður hefur spurt sig eftir fréttalestur og talar beint inn í pólitíska umræðu dagsins í dag.
Það sem gerir bókina einstaka er hið mikla vald sem höfundur hefur á að halda utan um flókið og víðfemt samspil stjórnmála, viðskipta og hugmyndaheima í tíma og rúmi. Ég hef ekki lesið skemmtilegri bók síðan ég las bók Einars Más Jónssonar, Örlagaborgin, þótt þær séu ólíkar.
Eins og fram hefur komið hef ég ekki enn lokið bókinni. Engu að síður þori ég að fullyrða að þessi bók ætti að vera til á hverju heimili, hún er létt, fræðandi og uppbyggileg lesning. Það er mikill fengur í þessari bók einmitt núna þegar svo margir hafa áhyggjur af stöðu lýðræðis í henni veröld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2018 | 22:52
Framlengjum Borgarlínu í Íslandslínu
Almenningssamgöngur eru mannréttindi.Við þurfum ekki bara borgarlínu við þurfum líka Íslandslínu. Með Íslandslínu á ég við samgöngur hringinn í kringum landið. Áætlunarferðir sem hægt er að treysta. Ég man þá tíð að almenningssamgöngur voru sjálfsagt mál, það er langt síðan. Þetta var fyrir mörgum árum, áður en einkabíllinn tók völdin af fólkinu. Nú er ekki hægt að hreyfa sig út fyrir þéttbýli án þess að kvabba í fólki.
Ef ég ætla að heimsækja æskustöðvarnar austur í Breiðdal er um tvennt að velja. Fara með strætó á Höfn eða fljúga í Egilsstaði. Í báðum tilvikum vantar tengingu við áfangastaðinn, Breiðdal.
Þegar ég yfirgaf æskustöðvarnar á sínum tíma, voru ýmsir kostir í boði, hægt var að velja á milli þess að fara landleiðina með áætlanabíl eða (norður fyrir) sjóleiðina, sem var algengast eða taka flug frá Höfn eða Egilsstöðum.
Þetta var í gamla daga og ég er ekki að velta fyrir mér að fara baka til fortíðar, heldur hvað ætti að koma nýtt, sem uppfyllir kröfur tímans. Við þurfum umhverfisvæna þjóðbraut í kringum landið, vel undirbúna, þar sem hugað er að þörfum bæði innfæddra og ferðamanna. Fyrst þyrfti að vinna að tengingum, skynsamlegum lausnum út frá þörfum fólksins. Almenningssamgöngur eru mannréttindi eins og fyrr sagði. Hugsum fram í tímann.
Í gær horfði ég á frétt um tengingu strætó við Grímseyjarferjuna. Hann stoppaði svo langt frá ferjunni að farþegar misstu iðulega af henni og stóðu eftir sem strandaglópar. Það var ekki hægt að breyta þessu, það rúmast ekki innan fjáhagsrammans. Þarna held ég að vanti hugsun og S eygja leika en ekki krónur og aura.
Við þurfum stórhuga fólk á landsvísu sem hugsar fram í tímann og kann að sjá fyrir sér breytingar sem taka mið af framtíð, ekki bar rýna í kosningaspár.
Við þurfum líka kjósendur sem sem ætla sér að móta stefnu sem býr í haginn fyrir hag barna og barnabarna. Við kjósendur erum samábyrg í öllu sem gert er.
Eg vil sem sagt sjá samgönguráðherra sem lýsir því yfir að hann sé að undirbúa Íslandslínu ekki ráðherra sem finnst það í lagi að miða umbætur á hringveginum við Suðurland austur að Kirkjubæjarklaustri (hér er vísað í sjónvarpsviðtal við ráðherra frá því í vetur eftir slys sem höfðu orðið í hálku).
Og helst af öllu ætti að hafa það sem vinnureglu við uppbygginguna að leggja reiðhjólastíg meðfram öllum hringveginum jafnóðum og unnið er að umbótunum.
Hugsum til framtíðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2018 | 22:37
Nada: Meira um spænskar bækur
Lesendum mínum fer fækkandi. Þeir sem lesa bloggið mitt vita að ég er með æði fyrir spænskum bókum. Kannski er það ástæðan.
Í framhaldi af af hinni dásamlegu Ana María Matute, rakst ég á Carmen Laforet (f.1921 d.2004) aðra spænska skáldkonu frá sama tíma. Bókin sem ég las heitir Hljómkviðan eilífa og er þýdd af Sigurði Sigmundssyni. Á spænsku heitir hún Nada, sem þýðir ekkert.
Mitt bókasafn er hbs.is,(Hljóðbókasafn Íslands),ég hlusta, les ekki. Í þetta sinn, skipti það máli, því að um gamla upptöku er að ræða og hún er ekki eins vönduð og þær sem gerðar eru núna. Þetta er sem sagt útvarpsupptaka frá því bókin var lesin í útvarp 1986 og það er þýðandinn sem les.
Sagan fjallar um ungu stúlkuna, Andreu, sem kemur til Barcelona til að mennta sig. Stríðið (borgarastyrjöldin 1936 - 1939) er nýlega búið. Andrea hlakkar til að koma til borgarinnar sem hún þekkti sem barn. Hún er 17 ára og full af þrá eftir lífinu og að mennta sig.
En borgin er ekki sú sem hún var og ættingjar hennar eru ekki það heldur. Eða er það hún sem hefur breyst? Við henni blasir við fátækt, borg í niðurníðslu og soltið fólk. Fólkið hennar, amma, föðurbræður og föðursystir eru óútreiknanleg. Þarna er líka konan annars bróðurins, Gloría og lítill drengur. Bræðurnir tæta hvor annan í sig, systirin vill ráðskast, Gloría, er ofsótt af mágkonu sinni og lamin af eiginmanni. Öll orka fólksins fer í að rífa hvert annað niður, þau hirða ekki um eigið hreinlæti, hvað þá heimilisins. Aðeins amman er góð en hún er bara orðin svo gömul að hún getur ekki stýrt neinu.
Þetta er mín lauslega samantekt en sagan er sögð út frá sjónarhorni Andreu, 17 ára heimsspekistúdents. Þetta eru ósamhangandi frásagnir af atvikum, nánast eins og stakar tifinningaþrungnar dagbókarfærslur. Í forgrunni eru vonir, vonbrigði og kvíði. Andrea er ein og veit ekki hvernig hún á haga sér til að vera tekin inn í hópinn. Mest af öllu langar hana þó til að eignast vinkonu. Það tekst.
Mér fannst erfitt að henda reiður á frásögninni, fannst hún tætingsleg. Oft velti ég því fyrir mér hvort rétt væri þýtt eða hvort ég hefði hlaupið yfir, misst af einhverju.
Eftir lesturinn las ég mér til um höfundinn. Þar kom fram, að með útkomu þessarar bókar hefði verið brotið blað í skáldsagnagerð á Spáni, sagan var tímamótaverk en bókin kom út 1944, þá var Carmen Laforet 23 ára.
Gamlar bækur eiga sér sögu , sem oft á tíðum er líka merkileg. Hér vekur athygli hvað höfundurinn er ungur og að bókin kom út í upphafi Francótímans.
En það er þýðandinn sem stelur senunni. Sigurður Sigurmundsson var sjálfmenntaður í spænsku. Hann hófst fyrst handa að þýða spænsk enska orðabók á íslensku svo tók hann til við námið. Hann var bóndi og þekktur fyrir skrif um margvísleg málefni. Sérstaklega er hann þekktur fyrir skrif sín um Njálu. Það er merkilegt að hann falli fyrir bók eftir þessa ungu spænsku konu, en hann er 71 árs þegar hún kemur út ( ég miða við árið sem hann las hana í útvarpið).
Ég hef tvisvar dvalið sem ferðamaður í Barcelóna og nú langar mig að fara þangað í þriðja sinn á söguslóðir þessar sögu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2018 | 20:52
Skólaus á öðrum fæti: Ana María Matute
Bóklestur minn stýrist af hughrifum. Ekki dintum. Stundum langar langar mig einungis til að lesa bækur úr hinum spöskuumælandi heimi. Þeim fylgja einhverjir töfrar sem ég kann ekki skil á. Fyrir nokkru setti ég inn leitarorðið spænskar bókmenntir á hbs.is. Ég fékk langan girnilegan lista. Fyrir valinu varð Skólaus á öðrum fæti eftir Ana María Matute. Umsögn hbs.is segir:Áhrifamikil en um leið falleg saga um litla stúlku, Gabríelu, sem höfð er útundan og hvernig hún í einmannaleika sínum býr til sinn ævintýraheim. Frábærlega skrifuð og margræð saga sem á erindi til fólks á öllum aldri. Ana María Matute er á meðal þekktustu og áhugaverðustu núlifandi rithöfunda Spánar.
Þetta er dásamleg bók, sem flytur lesanda á vit ævintýra eins og þau gerast best en jafnframt segir hún sögu litlu stúlkunnar sem var alls staðar fyrir og enginn vildi leika við.
Gabríela sögupersóna þessarar sögu er yngst í systkinahópnum, faðir hennar er fjarverandi vegna vinnu sinnar em móðirin á greinilega ekkert afgangs fyrir barnið. Hún finnur huggun í að fylgjast með þjónustufólkinu, sem á í mörg horn að líta. Og svo býr hún sér til ævintýraheim og heimur ævintýranna og veruleikans renna saman. Það er sagt að það sé erfitt að flokka bækur Matute, setja þær í ákveðið bókmenntahólf. Talað hefur verið um ljóðrænt raunsæi. Hljómar vel. Í þessari sögu bregður fyrir mörgum kunnuglegum ævintýraminnum. Það gerir ánægjuna við lesturinn enn meirI.
Það sem gerir útgáfu þessarar bókar enn meira spennandi er að hún er tvímála, þ.e.a.s. önnur hver blaðsíða er á spænsku. Þetta get ég því miður ekki nýtt mér vegna þverrandi sjónar, eins mikið og mig langar til að læra spænsku. Ég verð að láta mér nægja að hlusta á hljóðbókina. En það get ég þó þökk sé tækninni. Bókin er listavel lesin af Jóni B. Guðlaugssyni.
Ana María Matute (f. 1925 d. 2014) er margverðlaunaður höfundur. Hún byrjaði að skrifa kornung og gerði útgáfusamning við forlag áður en hún varð myndug. Faðir hennar undirritaði fyrir hennar hönd. Næsta samning um útgáfu bókar undirritaði eiginmaður hennar, því þá var einræðisstjórn Francos búin að svipta konur lögræði. Þetta voru umbrotatímar.
Skólaus á öðrum fæti, (kom út 2013) er gefin út í minningu Kristínar Baldursdóttur, sem ætlaði að gera þýðingu bókarinnar að útskriftarverkefni sínu í þýðingar fræðum. Hún er styrkt af foreldrum hennar og mig langar til að þakka þeim. Þýðinguna annast Kristinn R. Ólafsson en eftirmáli og fræðileg umfjöllun um Matute er eftir Erlu Erlendsdóttur.
Þetta var bókin sem ég var að leita að. Ég veit ekki hvað það er við spænskar bókmenntir sem heillar mig. Þær eru einhverskonar djúpnæring fyrir sálina, snerta við tilfinningum sem ég þekki ekki einu sinni sjálf. Eins og jóga sem þjálfar alla litlu vöðvana sem þú veist ekki um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2018 | 20:41
Bréf úr myllunni minni: Alfonse Dautet
Hef verið að lesa bók efti Alphonse Daudet (f. 1840 d. 1897). Hafði aldrei heyrt hann nefndan, rakst á hann af tilviljun. Tilviljanir eru merkilegar og ég hef tekið þá afstöðu, að grípa þær og láta þær stýra lífinu. Var að leita að bók eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur en þá kom upp Bréf úr myllunni minni sem hún les.
Þetta er 19. aldar saga, full af rómantík. Bókin hefst á frásögn af því þegar rithöfundurinn kaupir gamla myllu í Provence, þar sem hann hyggst skrifa, fjarri skarkala heimsins. Takið eftir að jafnvel þá er kvartað yfir skarkala. Svo koma frásagnirnar hver af annarri. Sögur af fólki, dýrum, ljóð, ævintýri, þjóðsögur. Samhengislaust. Ég var stöðugt að búast við samhengi, að þær mynduðu heild. En af hverju ættu sögur alltaf að tengjast og mynda heild? Lífið gerir það ekki. Samhengi hlutanna, heildarmynd er oftar en ekki tilbúningur hugans.
Þessar frásagnir eru eins og nosturlega unnin málverk, gæti verið eftir Eggert Pétursson. Að viðbættum fuglasöng, gróðurilm, hughrifum. Öllu því sem hugurinn skynjar í þessari dásamlegu náttúru Suður Frakklands. Meira að segja fólkið og fortíðin verða eins og partur af náttúrunni.
Þetta er unaðsleg lesning. Helgi Jónsson hefur þýtt bókina sem kom út á íslensku 1965. Ég kann því miður ekki deili á þýðanda, en bókin er á fallegu og blæbrigðaríku máli.
Ég tek til baka það sem ég sagði í upphafi, um að ég þekkti ekkert til Daudet. Þegar ég fór að lesa mér til um hann rifjaðist upp fyrir mér að ég las sögu eftir hann á frönsku hjá kennara mínum Friðriki Þorvaldssyni í MÁ. Sagan heitir Síðasta kennlustundin. Mikið hefur mér farið aftur í því fagra máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 190336
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar