Færsluflokkur: Bloggar

Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, þrenna eftir Jon Fosse

 AF5B7F6B-EF3E-4C99-9F2E-178FE6D67997Þeir sem hafa lesið pistlana mína, vita að að í hálft ár hef ég legið í rússneskum bókum um stríð. Þessar bækur eiga það sameiginlegt að lýsa umhverfi, atburðarás og fólki svo vel og ítarlega að það er eins og maður sé þátttakandi.

Til upprifjunar nefni ég þær: Sívagó læknir eftir Pasternak, Lygn streymir Don eftir Sjolokhov og Stríð og friður eftir Tolstoj.  Auk þess las ég bókina Dagur í lífi Ivans Denisovitch eftir Solsenitsyn sem segir frá einum degi í fangelsi. 

Eftir þessa Bjarmalandsdvöl voru það  viðbrigði að lesa bækur norðmannsins Jon Fosse (f. 1959). Ég var ekki undir það búin. Textinn er knappur. Meðan rússnesku bækurnar flæða fram eins og breitt fljót, minna bækur Fosse meira á nið lækjarsytru. Bækurnar heita Andvaka, Draumar Ólafs og  Kvöldsyfja. Þær mynda eina  heild, og segja sögu norsks alþýðufólks frá fyrri tímum. Bækurnar eru stuttar og  ljóðrænar. Frásögnin er svo knöpp að það jaðrar við naumhyggju.

Þær komu út í Noregi á árunum 2007, 2012 og 2014. Og 2015 voru höfundi veit Norrænu bókmenntaverðlaunin fyrir verkið í heild. Á Íslandi komu þær út 2016 en voru lesnar inn fyrir Hljóðbókasafnið 2018.

Hjalti Rögnvaldsson hefur þýtt bækurnar. Hjalti er leikari og  hefur lesið inn fjölda bóka fyrir Hljóðbókasafn Íslands og er hann  einn af mínum uppáhaldslesurum. En það er ekki hann sem les í þetta skipti, heldur Stefán Jónsson sem gerir  það listavel. Lesturinn skiptir enn meira máli þegar textinn er ljóðrænn, finnst mér. Ljóð eiga svo greiðan aðgang að hjartanu. 

Ég hef ekki lesið Fosse fyrr, en heyrt af honum, hann er jú margverðlaunaður fyrir bækur sínar og leikverk. Loks þegar ég las, Min kamp eftir Knausgård, ákvað ég endanlega að ég yrði að lesa þennan höfund. Knausgård  talar oft um hann og af mikilli virðingu. Þess vegna gladdist ég þegar ég sá að búið var að lesa þær inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Ég fylltist þakklæti. Þannig líður sjónskertri bókamanneskju þegar hún fær nammið sitt.

Mér finnst mikill fengur í að fá þessar bækur á íslensku, þær eru fallegar, bæði hvað varðar útlit og allan frágang. 

Nú veit ég að það finnast fleiri bækur eftir Fosse á því góða safni. En best væri auðvitað að verða sér út um bækurnar á norsku úr því ég er svo heppin að skilja það fallega mál.

 

 

 


Ævisaga Hans Roslings: Hver var hann?

B66B2E3F-B332-47A5-96D4-8F59E0929007

Stundum er eins og lánið leiki við mann. Þannig var því varið hjá mér þegar  ég var að leita mér að bók til að lesa/hlusta eftir á, eftir að hafa legið í rússneskum stríðsbókmenntum í fjóra mánuði. 

Ég ákvað að breyta til og velja sænska bók, Hur jag lärde att föstå världen. Hún er eftir og Hans Rosling og Fanny Härgestad. Hún gekk frá bókinni og byggði á efni Roslings og viðtölum sem hún átti við hann. Auk þess notar hún efni sem hann hafði sjálfur skrifað en bókin kom út að honum látnum. 

En hver var Hans Rosling? Hann var sænskur læknir og prófessor sem varð heimsfrægur fyrir fyrirlestra sína um þróun heilbrigðismála og lýðheilsu, einkum þann þátt sem sneri að fátækum löndum. Bókin er ævisaga, fyrst gerir hann  grein fyrir bakgrunni sínum, segir frá öfum sínum og ömmum sem fæddust, uxu upp og störfuðu í “fattig Sverige” (fátæku Svíþjóð) og síðan foreldrum sínum sem urðu bjargálna og tókst að koma syni sínum til mennta. Þessi hluti sögunnar er eiginlega nauðsynlegur inngangur, hann lýsir þar  hvernig hann lítur á fátækt og þróun. Það er að segja, þróun sem er mögulegt af það eru skapaaðar réttar aðstæður. Það gerðu Svíar á sínum tíma og það eru aðrar þjóðir að gera nú. 

Það er svo margt merkilegt sem Rosling segir í þessari bók, uppgötvanir sem hann gerði með því að hugsa og draga ályktanir. Hann segir t.d.frá því hvernig hann fékk áhuga á  heimsmálum sem lítill drengur þegar hann er að hlusta á fréttirnar með foreldrum sínum. “Það var ekki það sem ég heyrði í fréttunum,heldur hvernig foreldrar mínir brugðust við því”. Þá varð mér hugsað til hins nýja íslenska siðar, sem lýsir sér í því að stöðugt er sagt: “Þetta þarf að verða verkefni skólanna.”

Aftur að bókinni.

Saga Roslings er merkileg. Hún hefst á því  að segja frná ungum manni, sem vill láta gott af sér leiða. Hann menntar sig sem lækni og stofnar fjölskyldu. Seinna fer fjölskyldan til Mósambík og þar  hann vinnur þar sem læknir í tvö ár. Það er merkilegt að fylgjast með honum og fjölskyldu hans, en merkilegast er þó að heyra frásagnir hans af ályktunum sem hann dregur. Hann kennir manni að hugsa. Seinna tekst honum með hjálp tengdasonar síns og tengdadóttur að gera tölfræði rannsókna lifandi og skiljanlega með vel útfærðri tölvu grafík og verður eftirsóttur fyrirlesari um allan heim. Hingað kom hann 2014 og talaði í Hörpu. Ég var ekki þar. 

Þessi bók var kærkomin lesning eftir allar hörmungarnar í rússsnesku stríðsbókunum. Hún er full af bjartsýni.  Auk þess er hún er stutt, létt aflestrar og hún skilur mikið eftir. 

Eftir lesturinn horfði ég á nokkur myndbönd á netinu með fyrirlestrum Roslings.


Að segja bless við bók: Stríð og friður

 AF35AB96-DFC8-4CDB-A5C1-DFA7F666ED8C

Það fylgir því viss angist að ljúka bók. Þannig er þessu a.m.k. farið hjá mér. Ég tala nú ekki um, ef bókin er löng og það eru margar persónur sem þarf að kveðja. 

Ég var að ljúka við Stríð og frið eftir Leó Tolstoj. Sagan er í fjórum bókum og hún tekur u.þ.bil 31 klukkustund í hlustun. Bókin kom út í heimalandinu,

Rússlandi, 1865 til 1869, hér á Íslandi 1954. Hún segir frá baráttu Rússa við Napóleon og rússnesku samfélagi þess tíma, þ.e. þeim hluta þess, sem varðar aðalsfólk. Á þessum tíma ríkir enn bændaánauð,bændur gengu kaupum og sölum og Tolstoj, sem var frjálslyndur maður, víkur oft að meðferðinni á bændum. Alls staðar skín þó í gegn, að skilningur hans er takmarkaður. Stundum er umræðan líkarþví, þegar við tölum um, okkur beri vera góð við dýr.

Margar persónur koma við sögu en fá mismikið pláss, sumar hverfa af vettvangi næstum jafnskjótt og þeirra er getið, aðrar loða við út söguna.

Í raun er þetta saga fjögurrafjölskyldna. Þær eru:

Hinir viðsjáverðu Kuragínar.

Hið skemmtilega en síblanka Rostoffólk.

Hin ríka og alvarlega Bolkofskíjs-fjölskylda.

Og svo auðvitað aðalpesónan, Pétur Besukof, sem er einhvers konar rödd höfundar.

Rússneska nafnahefð er erfið, ég tala nú ekki um, ef maður þarf að “lesa með eyrunum” eins og ég. En þegar maður hefur náð utan um þessar ættir veitist lesturinn léttari. 

Sagan fjallar ýmist um daglegt líf þessara fjölskyldna eða um það sem er að gerast á vígstöðvunum, en allar fjölskyldurnar tengjast stríðinu.

Þegar Tolstojfæðist, eru einungis fjórtán ár liðin frá því að Napóleon yfirgaf Rússland, drengurinn hefur því eflaust alist upp við umræður um þessa afdrifaríkuatburði.Og seinna þegar hann tók til að skrifa Stríð og frið, hafði hann enn góðan aðgang að fólki sem mundi stríðið eða hafði beinlínis tekið þátt í því. Mér finnst umfjöllun Tolstojsum stríðið afar fróðleg og er í raun sama um hvort allt er nákvæmlega rétt. En á vissan hátt er gaman að sjá hvernig friðarsinninnTolstoj tekst á við þetta verkefni. Það er greinilegt að hann vill draga fram grimmd og hörmungar stríðsins, þó leynir sér ekki, að hann á sér sínar hetjur, eins og Kuluzofhershöfðingja. Snilldarlega vel dregin persóna. Persónusköpun Tolstojs er óviðjafnanleg.

En það fer ekki hjá því, eftir að hafa lesið slíka bók, að maður hugsi um fyrirbærið stríð fyrr og nú. Vopnin hafa breyst og líklega hefur föllnum hermönnum fækkað. Það er minna barist í návígi. Í dag er augljóst að stríð bitna fyrst og fremst á almennum borgurum. En ég held að það sé blekking að halda að fyrri tíma styrjaldir hafi ekki bitnað á almennum borgurum.

Herir fyrri tíma fóru eins og logi yfir akur, rænandi og ruplandi. Það var beinlínis ætlast til þess. Rétt eins og hermönnum okkar tíma er eira engu, hvorki lifandi né dauðu.

Ég vildi að ég gæti sagt skilið við stríð en haldið friðnum og dvalið með Pétri og Natösjuá búgarði þeirra og jafnvel aðstoðað þau við bústörfin. En það er auðvitað ekki hægt. Í staðinn fer ég inn í minn heim og fylgist með árásunum á Idlib.  

 


Feitar kýr

5BD2A9F8-26E0-4499-8305-B38CFED0407C

Það mikið er rætt um velsæld. Þetta hefur ekki farið fram hjá mér, þótt ég sé ekki viss um hvað átt sé við.  Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri (er sagt)  og einkaneyslan er í hámarki. Ýmsir benda þó á að hér í okkar ríka lendi sé fjármunum misskipt. Í umræðuna um kaupmátt er miðað við meðaltöl, sem er fölsk sannindi, því hér ríkir ekki jöfnuður. Langt í frá.

Flestir aðspurðir sjórnmálamenn segja, að þeir vilji stuðla að bættum kjörum hinna verst settu, en lítið gerist.

En mig langar til að skoða þennan hugmyndaheim, sem skilgreinir velsæld út frá krónum og aurum  (aurar heyra reyndar sögunni til). Mig langar til að skilja þankaganginn. 

Í mínum huga er Velsæld svo yfirgripsmikið hugtak, það nær langt út fyrir allt það sem við getum keypt, með því að draga fram budduna eða kortið. Í orðinu felst einnig  vitundin um að maður lifi eftir því gildismati, sem maður telur rétt, sé sannfærður um að maður sé góð manneskja og  vonin um að maður sjálfur og samfélagið sé á réttri leið. 

Þegar ég heyri talað um góðæri, detta mér alltaf kýrnar hans Faraós í hug. Ég kann mína Biblíu, trúlaus konan. Ótrúlega góð dæmisaga um hvað ber að gera í góðæri.

Smáupprifjun, því ég treysti því ekki að allir kunni þessa sögu.

Faró dreymdi að upp úr ánni Níl stigju sjö feitar kýr. Á eftir komu aðrar sjö magrar, sem gleyptu hinar í sig. Enn fremur dreymir hann sjö væn kornöx og sjö mjóslegin. Enginn ráðgjafi Farós treysti sér til að ráða drauminn. Útlendingurinn Jósef var kallaður til, sóttur í fangelsi. Hann réði draumana sem fyrirboða um hallæri. Jafnframt ráðlagði hann Faró að safna byrgðum til hörðu áranna. Að safna einum fimmta, hvorki meira né minna. Faró fannst þetta svo viturlegt að hann gerði Jósef  að fjármálaráðherra. 

Reyndar held ég að við Íslendingar ættum ekki að safna peningum, krónan okkar er svo dintótt og ekki treystandi. Ég held að við ættum heldur að leggja fyrir til mögru áranna með því að byggja upp innviði samfélagsins, samneysluna, listir og menntun og fleira og fleira. 

Af hverju hefur fjármálaráðherranum okkar ekki dottið þetta í hug? Ætli hann hafi skrópað í tímanum þar sem kennt var um drauma Faraós?


Í útlandinu

703C52E1-75BB-4230-8F53-E4757F1E201DÉg hef nú verið rúman hálfan mánuð á ferðalagi og er því farin að hugsa heim. Það er ekki nema eðlilegt að velta því fyrir sér um hvað ferðalög snúist eiginlega. Trúlega finnst ekkert eitt svar. Í mínu tilviki er ég að stækka heiminn, og svo tek ég eftir því, að ég er að hluta til alltaf stödd á Íslandi. Ég er stöðugt að bera saman. Nú er ég stödd í Hamborg og mér finnst að hjólastígarnir í Reykjavík séu betri. Veðrið er betra í Hamborg að því leyti að hér er hlýrra. Það getur líka verið ókostur en rigningin er þægilegri að því leyti að að hér nægir regnhlíf, heima þarf regngalla eða pollagalla. 

 

Hér í Hamborg fá hundar að ferðast í lestunum og ég sat við hlið hundaeiganda í morgun. Hundurinn var með blíðlega augu og það hefur eigandinn eflaust haft líka. Ég horfði meira á hundinn. Ég hef líka tekið eftir að víða við dyr verslana og veitingastaða eru dallar með vatni handa hundum til að lepja í hitanum. Þetta er ekki til heima, það er óþarft.

En ég hef ekki bara verið að skoða hundamenningu hér í Hamborg. Ég er búin að skoða margar kirkjur. Þær eru glæsilegar og allar opnar. En fólkið sem ég sá, var ferðamenn. Það er eins og hlutverki kirknannan sé lokið, nema til að beran vitni um fortíð. Ég velti ósjálfrátt fyrir mér hvað hafi tekið við. Hvað tignum við í dag?

Í gær sá ég í leikhúsinu leikrit Brechts, Góða sálin í Sesúan. Og ef ég man það rétt þá var þar söngur um peninga. Jafnvel gefið í skyn að þeir séu Guði æðri. Dásamlegt leikrit. 

En það verður gaman að koma heim í hverdaginn.

Sjáumst.


Dagur í lífi Ívans Denisovich

7D3BD486-5B7B-4D64-9CB9-404D6E777E74

Eftir að hafa lesið tvær bækur, Sívagó lælni og Lygn streymir Don, kaus ég að lesa stutta bók, Dagur í lífi Ívans Denisovich eftir Alekander Solzhenitsyn (fæddur 1918 dó 2008). Ég hafði lesið hana áður, svo ég vissi að hverju ég gekk. Bókin fjallar um einn dag, eins og ráða má af titlinum. En þar með er ekki sagt að hún sé stutt, því þetta er ósegjanlega langur dagur. Tíminn er svo lengi að líða að lengd hans er óskiljanleg, eins og fjarlægðir í geimnum. 

Bókin segir frá fanganum Ívan, hann er að afplána átta ára dóm. Hann er í vinnuhóp sem vinnur að því að byggja raforkuver, það er fimbulkuldi. Hann kann orðið á lífið í búðunum og veit hvað er hægt að gera og hvað ekki. Lesandinn fylgir honum í gegn um daginn og fræðist, því hann er stöðugt að meta hvað er skynsamlegt og hvað er hægt.

Hann er múrari og vinnur að því að byggja vegg. Hann keppist við, því þannig er best að halda á sér hita og fá daginn til að líða. Um leið og hann bollaleggur um eigin framtíð, sem hann ræður engu um, tekur hann dæmi af öðrum föngum svo lesandanum finnst hann fá nokkið breiða mynd af lífinu þarna. 

Solzhenitsyn hafði sjálfur verið í fangabúðum, hann notar þá reynslu sem efnivið. Samt er þessi bók ekki sjálfsævisöguleg. Það er Krabbadeildin aftur á móti, sem kom út 1967. Þá bók las ég á ensku stuttu eftir að hún kom út. Hún hafði mikil áhrif á mig. 

Bókin, Dagur í lífi Ívans Denisovich er fyrsta útgefna verk höfundar en hún er snilld. En vegna þess að hún hafði svo mikla pólitíska þýðingu, beindist athyglin fremur að pólitísku gildi hennar en að því bókmenntalega. Þetta sé ég þegar ég les mér til um umræður þessa tíma. 

Það er auðveldara að lesa þessa bók nú, heldur en í andrúmslofti kalda stríðsins, hún fær betur notið sín. Þá fannst manni að bókin fjallaði fyrst og fremst um Sovét og ógnartíma Stalíns. Nú veit maður að harðstjórarnir eru margir. Fer í raun fjölgandi.

Solzhenitsyn segir að það hafi slegið sig, þegar hann fór að kynnast fangabúðarvistinni, hvað margt var líkt með því sem hann upplifði eða frétti af og því sem hann þekkti úr sögusögnum frá tíma Zarins. 


Rússneskir risar

42D3C581-85A1-4EE0-B630-AEFCF547B39B

Mér finnst mikið til um rússneskar sögur svo að ég get ekki slitið mig frá þeim. Því  lengri því betri. Persónurnar eru svo margar að maður týnist í mannhafinu og atburðarásin er eins og röð af Ragnarökum. Ástandið getur ekki versnað og svo versnar það.

Ég er sem sagt búin að vera stödd í Rússlandi síðan í júní. Fyrst, Elísabet mikla eftir Jón Þ. Þór, síðan Sívagó læknir og Lygn streymir Don og loks, Dagur í lífi Ívans Denisovich. Kosturinn við að taka svona skorpu, er að þá verður lesturinn áhrifameiri. Nú er ég orðin svo tengd Rússlandi (og Sovétríkjunum), að í hvert skipti sem ég tek til við lesturinn, finnst mér eins og að ég sé komin heim. Til Rússlands. 

Alltaf þegar fjallað er um rússneskar bækur, snýst umræðan að hluta til um pólitík. Þetta hafði áhrif á mat manna og hefur ef til vill enn. Ég er þar engin undantekning. Af því ég vissi að Sjolokov hefði verið tiltölulega þægur flokksmaður og af því að bækur hans  fengust gefnar út í Sovét, hélt ég að þetta væri  meinlaus bók í anda ráðstjórnarraunsæisstefnunnar. Það er rangt, sagan er grimm og gagnrýnin. Stríð er fyrst og fremst ómanneskjulegt, ekki hetjuskapur.

Tímaramminn er nokkurn veginn sá sami og í Sívagó lækni,  en stríðslýsigarnar eru enn óhugnanlegri. Og eftir að rússneski herinn hættir að berja á Þjóðverjum og snýr sér að byltingu og gagnbyltingu er grimmdin engu minni en enn átakanlegra þegar hún beinist að eigin fólki. 

Lygn streymir Don hefst sem sveitalífslýsing, segir frá lífi kósakka sem búa á bökkum Don í nágrenni Rostov. Að hluta til er þetta saga um ást í meinum, eins og sagan um Sívagó, en ástin lítur í lægra haldi, týnist í ringulreið stríðsins. Það er næstum falskt fyrir mig Íslendinginn að lesa stríðsbókmenntir, því við íslenskan á engan virkan orðaforða um tignarheiti  í hermennsku. Sem betur fer. Menn hafa að vísu lagt sig fram um að þýða þetta og búa til orð en í raun er þetta eins og að lesa nöfn á jurtum sem tilheyra ekki íslenskri flóru. 

Útgáfusaga þessarar sögu er ekki síður spennandi en sagan sjálf. Hún kom út á árunum 1925 til 1940 og  Sjolokhov er því kornungur  þegar fyrsta bókin kemur út. Á Íslandi kom hún út þegar 1945 í þýðingu Helga Sæmundssonar.  Nú þegar ég hef lokið lestri hennar og les mér til, sakna ég þess hversu umræða um bókmenntir var meiri þá en nú. Það er ekki þar með sagt að hún hafi verið betri.

Næsta rússneska bókin í langdvölum mínum í landi Pútíns er Dagur í lífi Ívans Denisovich eftir Alexander Solzhenitsyn. Hana hef ég lesið áður en góðar bækur  er gott að lesa oft. Þær batna við hvern lestur. 

Líklega er rétt að lesa Lygn streymir Don fljótlega aftur. 

Myndin er af auglýsingu um jólabókina 1945.


Sivagó læknir: Boris Pasternak l

F7AA57BE-C04A-419A-86DF-10191BAFDDA6

Ég held að ég eigi eftir að minnast þessa sumars, sem Rússlandssumarsins mikla. Það var ekki samkvæmt áætlun. Ég hef lært að láta oft tilviljanir ef þær eru góðar, stjórna lífi mínu. Það var í senn tilviljun og heppni að ég rakst á bók Jóns Þ. Þór um Katrínu miklu og las hana. Þá var ekki aftur snúið. Slík lesning kallar á framhald.

Fyrir valinu varð Sívagó læknir eftir Boris Pasternak (fæddur 1890 dó 1960). Hana hafði ég ekki lesið áður, Sem betur fer. Bókin kom út 1959 hjá Almenna bókafélaginu. Það var tveimur árum eftir að hún kom út á Ítalíu (fékkst ekki útgefin í Sovétríkjunum) ári eftir að og hann fékk Nóbelsverðlaunin, sem hann þáði ekki. Líklega tilneyddur.

Það passar ekki illa að lesa bókina í framhaldi af sögu Katrínar miklu, drottningar upplýsingastefnunnar. Hún hafði séð að byltingin í Frakklandi var afleiðing þessarar stefnu og reyndi að draga í land.

Sagan um Sívagó er í raun saga fyrri hluta 20. aldarinnar í Rússlandi. Þetta er breið saga, eitthvað í líkingu við Stríð og frið Tolstojs, nema að það vantar friðinn í hana. Hún er í senn átakanleg og fræðandi. Hún er löng (tekur 29 og hálfa stund í afspilun), persónur eru margar og rússneska nafnakerfið þvælist fyrir manni, jafnvel þó maður þekki það.

En fyrst og fremst er þetta pólitísk saga, já og heimspekileg. Pasternak skýtur föstum skotum á valdhafa  og miðar á valdhafa og skotin geiga ekki.

En Pasternak var enginn hægri maður. Síður en svo. Það kemur fram oftar en einu sinni, að í raun lætur hann viðkunnanlegar persónur segja, að ofstopamenn hafi stolið byltingunni sem þurfti að gera í Rússlandi á þeim tíma.

Það spillir svolítið fyrir mér að mér leiddist ástarsagan, sem er límið í bókinni. Mér fannst hún í senn ótrúverðug og oft væmin.

Nú liggur fyrir að ég þarf að sjá kvikmyndina, sem ég hef reyndar séð áður. Svo ætla ég að lesa bókina upp á nýtt.

Þetta er sem sagt afar góð bók.

Það er Skúli Bjarkan sem þýðir bókina en Sigurður  A. Magnússon þýðir það sem er í bundnu máli. Ég get ekki dæmt um þýðinguna. Því miður er ljóðum sem fylgja aftast í bókinni sleppt í hljóðbókarútgáfunni.

Gísli Halldórsson les textann. Hann gerir það listavel.


Jarðnæði 2: Rósa á Hraunum

 6963CBDB-CF56-416E-8A1A-EBFA5BE4ECBDÁrið 1930 fannst Sigurrós Gísladóttur, vinnukonu í Breiðdal nóg komið af vinnumennsku og ákvað að byggja bæ og vinna að sínu. Sigurrós, alltaf kölluð Rósa, var fædd 1875. Samkvæmt heimild minni, Sveitir og Jarðir í Múlaþingi III (1976), voru foreldrar hennar Sigurlaug Sigurðardóttir og Gísli Erlendsson. Faðir hennar var tvígiftur og eignaðist hana á milli kvenna (merkilegt orðalag).

Hún var sem sagt 55 ára  þegar hún hafði fengið nóg af því að vera annarra hjú. Hún fékk skika til að setja niður bæ sinn í inn og upp af Dísastöðum, þar sem hún hafði verið lengi í vist. Bærinn var með gamla laginu, tvílyftur, hlaðin tóft fyrir féð og þiljuð baðstofa uppi. Vallinkunnir handverksmenn komu að smíðinni. Einar Jónsson frá Kleifarstekk sá um hleðsluna og Hóseas í Höskuldsstaðaseli annaðist tréverkið.

Þetta er allt úr bókinni góðu, Sveitir og jarðir í Múlaþingi, en það sem á eftir fer er mitt eigið. Sem barni fannst mér eitthvað ævintýralegt við Rósu.  Í fyrsta lagi var hún með gullhringi í eyrunum, það var þá óþekkt,  í öðru lagi bjó hún ein og hafði aldrei átt mann. Seinna kom ég oft til hennar.Það sem mér fannst mest til um var garðurinn. Hann var ekki stór en þar komst margt fyrir. Fyrst tók maður eftir reyniviðarhríslunni, sem var jafn há bænum. Annað sem maður tók eftir, voru margvísleg villt blóm, sem hún hafði komið fyrir til skrauts. Og svo var náttúrlega kartöflugarður. Sagan sagði að hún vildi ekki hafa grösin há, því það slæfði vöxt kartaflanna og að  hún slægi ofan af þeim  til að þau yrðu ekki of há. Ekki veit ég um sannleiksgildi þessa.

Fallegustu blómin í garðinum hafði ég ekki séð (okkar bær stóð langt frá sjó), sem var blálilja, blóm sem hún hafði flutt utan frá Breiðdalsvík. Ekki veit ég hvort þetta blóm lifði lengi hjá henni því það þrífst einungis við sjó. En ég sá það, hreifst og lærði nafnið.

Það gekk sú saga að Rósa væri algjörlega laus við lofthræðslu og að hún klifraði upp þverhnípt klettabelti yst í Ásunnarstaðafelli,  til að fylgjast með hrafnshreiðri sem þar var. Það þótti merkilegt ekki síst vegna þess að þá tíðkaðist að steypa undan hröfnum. Og svo var þetta eiginlega ókleift.

Seinna kynntist ég Rósu vel af því ég var í vist hjá frænku minni sem var nágranni hennar og vön að hjálpa henni eftir því sem hún gat. Rósa var vön að nýta ýmislegt sem féll til í sláturhúsinu svo sem kinda lappir, vambir og fleira. Það kom í minn hlut að bera nýmetið upp að Hraunum en þangað var enginn bílvegur. Þetta sauð hún síðan og lagði í súrt og matreidd í á sína vísu.  

Rósa varð háöldru, dó 1965, og síðustu árin var hún hætt með búskap en hún bjó að sínu. 

Kveikjan að þessum skrifum var bók Oddnýjar Eirar, Jarðnæði. Á tímum Rósu var jarðnæðisvandinn eitthvað í líkingu við húsnæðisvandann í dag. Það var ekki á allra færi að búa fyrir sig. 

Rósa var stolt af bænum sínum. Þess vegna slær það mig þegar höfundar, Sveitir og jarðir í Múlaþingi, kjósa að kalla bæinn kofa. Þeir eru ekki einir um það að tala niður til fortíðarinnar.

Hvernig verður talað um okkur?

Myndun  er af blálilju, tekin af pistlahöfundi nú í sumar.  


Jarðnæði: Oddný Eir Ævarsdóttir

F76D6420-ED38-437A-88FB-C0CEF429B110

Ég hef verið að lesa bókina Jarðnæði (kom út 2011) og velti því ósjálfrátt fyrir mér hver sé kjarni þessarar bókar. Að forminu til byggist hún á dagbókarfærslum höfundar og er því ævisöguleg. En hvað þýðir það? Það er eðli hverrar sjálfsævisögu, að hún hleypir fólki ekki nær höfundi en hann vill sjálfur. Það sem hann kýs að segja er meðvitað  og einkennist ýmist af því, hvaða mynd hann vill draga upp af sér eða hvaða boðskap hann vill koma  á framfæri. Nema hvort tveggja sé. 

Í tilviki Oddnýjar finnst mér áherslan sé einkum á hið síðarnefnda, hún vill kryfja hvernig   landið, þjóðin, maðurinn og tungan tengjast og deila því með okkur lesendum sínum . Ekkert minna. Unga konan í bókinni er menntuð og nógu vel stæð til að valið er hennar. Hún vill vanda sig, velja sér land og búsetuform út frá sjálfri sér. Út frá sinni sögu, sögu fólksins síns og  því sem hentar henni, nútímakonunni. Það er mikilvægt að ganga ekki á rétt landsins. Hún vill vera sönn og frjáls. Móta líf sitt. Framtíðin er óútfyllt blað, umsókn um jarðnæði.

Bókin kemur út 2011 og er því skrifuð í kjölfar HRUNSINS, fólk er enn að leita svara um hvernig gat svona lagað gat gerst, vill læra af mistökunum og móta Lífið sitt upp á nýtt. Mér finnst frískandi að anda að mér þessu andrúmslofti.  

Þráður sögunnar er ferðalag höfundar um heiminn og Ísland þar með talið. Ég las bókina fyrir nokkru, þegar ég var sjálf í heimsókn á æskustöðvunum, gekk grónar götur og skoðaði húsatóftir bæjar sem var og hét meðan jarðnæði var enn eign. Ég var því sérstaklega móttækileg fyrir því sem ég tel aðalefni bókarinnar, að lifa í sátt við sjálfan sig og landið. Kannski hef ég lesið þetta inn í bókina, því það var áhrifamikið að heimsækja sveitina mína sem ekki er  lengur til (Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðarbyggð í síðustu kosningum).

Heimsókn hennar á slóðir Wordsworth systkinanna er bókmenntalega fróðleg, auk þess setti hún í gang vangaveltur  um nálægð. Hversu mikið þarf maður að afsala af sjálfum sér til að öðlast nálægð? Er kannski best að vera einn.

Það er margt fleira til umfjöllunar í þessari bók en jarðnæði, að lesa hana er svolítið eins og að eiga samtal við höfundinn, hún segir frá svo mörgu sem kveikir hugsanir, innra samtal.

Þegar ég yfirgaf æskuslóðir mínar voru tvær flugvélar á Egilsstaðaflugvelli. Mér var sagt að sú stærri væri í eigu mannsins sem er að kaupa upp jarðir á á Austurlandi. Hin var  frá flugfélaginu sem ég átti flug með. Það heitir erlendu nafni sem ég ætla ekki að læra.

Já, þessi bók er eins og samtal.

Myndin er frá mínum æskuslóðum.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 190338

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband