Færsluflokkur: Bloggar

Listaskáldin góðu

4E861081-BDE1-4F56-9E50-087995EFFB80

Listaskáldin góðð

Í dag er dagur íslenskrar tungu. Stundum eru búnir til dagar þessa eða hins til að selja okkur eitthvað. Í dag þurfum við ekki að kaupa eitt eða neitt, við erum að fagna því sem við eigum öll, fagna móðurmálinu.

Ég hef verið að lesa bókina Sjö bræður  í þýðingu Aðalsteins  Davíðssonar. En ég ætla ekki að skrifa um bókina nú, heldur höfundinn, finnska skáldið Alekis Kivi (fæddur 1834, dáinn 1872). Allt í einu slær það mig að hann og afmælisbarnið Jónas Hallgrímsson(fæddur 1807, dáinn 1845)  eiga margt sameiginlegt.

Kivi er nú þekktur fyrir að vera brautryðjandi í að rita bókmenntir á finnskri tungu, Jónas fyrir að reisa íslenskuna til vegs og virðingar.

Þeir komust báðir til mennta þrátt fyrir lítil efni í háskólum þar sem móðurmál þeirra var óbrúklegt. Hvorugur lauk námi. Þeir dóu báðir í blóma lífsins, 38 ára gamlir. Við andlát þeirra var ekki til af þeim nein mynd og þá var teiknuð  af þeim látnum. Í báðum tilvikum var síðan listamaður fenginn til að gera mynd eftir þeim  í mynd, helgrímunni.

Afmælisdagur Jónasar 16. nóvember haldinn hátíðlegur sem dagur íslenskrar tungu og 10. október, sem er fæðingardagur Kivi er haldinn hátíðlegur í Finnlandi sem dagur finnskra bókmennta.  Það munar bara nokkrum dögum.

Báðir þessir menn höfðu orð á sér fyrir að vera vínhneigðir, þrátt fyrir það komu þeir miklu í verk.

Á morgun ætla ég að segja örstutt frá bókinni Sjö bræður. Mér fannst ég ekki geta skrifað um útlenda bók á þessum merka degi, jafnvel þótt þýðingin sé afbragð. Svona setur maður sig ósjálfrátt í stellingar.

Fróðleikur minn um Aleksis Kivi er sótt í formála þýðanda að Sjö bræður og á netið. 

Myndin er eftir minn fyrrverandi mann Magnús Þór Jónsson (Megas). Þetta er skissa, unnin í sambandi við fyrstu bókina hans.


Demantstorgið: Mercé Rodoreda

19C5B733-A736-4523-A091-97302037A460

Demantstorgið kom  út 1962 á frummálinu, katalónsku, en hér kom bókin út 1987 í  þýðingu Guðbergs Bergssonar úr. Það er líka hann sem skrifar eftirmála bókarinnar. Bókin er eftir Mercé Rodoreda  (fædd 1908, dó 1983). Sagan og gerist í Barcelona í aðdraganda spænsku borgarastyrjaldarinnar og á árunum sem sem við tóku eftir að Francostjórnin tók við. 

Aðalpersóna sögunnar er ung alþýðustúlka, hún er lífsglöð og á lífið framundan. Hún verður ástfangin, hittir mannsefnið sitt á Demantstorginu, sem bókin heitir eftir.  Hann byggir handa henni hús og þau eignast tvö börn. Hann kallar hana gælunafninu Dúfa og er hugfanginn af dúfum. Hann byggir líka gús handa Dúfu num. En stríðið breytir framgangi lífsins. Maður hennar fellur í stríðinu og hið unga lýðveldi er brotið á bak aftur. Lífið verður óbærilega erfitt. Fólkið í Barcelona lifir við hungurmörk.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar. Þess í stað ætla ég að reyna að gera grein fyrir því sem gerir þessa bók svo sérstaka, það er frásagnarmátinn, stíllinn. Það er erfitt að lýsa stíl, og ekki öruggt að mér takist það.

Lifandi hugur

Það er eins og höfundur sé staddur inn í höfði ungu konunnar og lýsi  straum hugsana um leið og þar flæða fram. Oftast kvikna þær af einhverju áþreifanlegu en svo veit maður ekki alltaf hvað gerist í raun og hvað gerist í hugarheimi. Hvernig mætast hugur og veruleiki? Frásögnin er myndræn og lýsandi.

Við upphaf bókarinnar er Natalía, aðalpersónan, ung og óþroskuð. Allt of snemma mætir hún mótlæti sem hún ræður ekki við, hún fær því ekki tækifæri til að þroskast, að vaxa með aukinni ábyrgð sem fylgir lífinu. Stundum veit maður ekki hvað í frásögninni er tilbúningur hugsana og hvað er veruleiki. Niðurstaða mín var því sú að kannski gerum við raunveruleika raunheimsins of hátt undir höfði, kannski er hugarheimur það sem lífið ræðst af.

Hvað er veruleiki?

Veruleikinn, huglægur eða hlutlægur, sem þessi bók lýsir er nístandi. Hvernig líður manneskju sem horfir upp á að börnin hennar eru hungruð og að veslast upp?

Mér fannst bókin góð, þó ég sé ekki  viss um að ég hafi skilið hana til fulls.

Ég hef sjálf tvisvar verið í Barcelona. Ég hélt upp á jólin þar í fyrra. Það er erfitt í velsæld að hugsa sér veruleikann sem bókin lýsir. En við  vitum samt að allt of víða eru sveltandi börn og mæður sem hafa engin ráð til að metta þau. 

Eftirþanki: Það rifjaðist upp mér bók sem ég las fyrr á þessu ári. Hún er eftir Carmen Laforet (f.1922, d. 2004), Nada og gerist líka í Barcelona. 

Myndinar sótti ég á netið. Hún er af styttu á Demantstorginum sem vísar til Dúfu.


Smásögur heimsins, Rómanska -Ameríka

 871F20E6-31D4-4E87-A49F-09EF20A3555A

Þegar ég var að skrifa um bókina Soralegi Havanaþríleikurinn, rifjaðist upp fyrir mér, að ég var ekki enn búin að skrifa um hina ágætu bók, Smásögur heimsins, Rómanska-Ameríka (En ég hef það fyrir ásetning að skrifa um hverja bók sem ég les).Sagan sem rifjaðist upp var Eyrnalokkarnir sem vantar á tunglið eftir Ángel  Santiesteban.

En fyrst um, Smásögur heimsins, Rómanska-Ameríka.

Ástæðan fyrir því að ég hafði dregið að skrifa um bókina,  var að verkefnið er svo stórt  og erfitt að ná utan um það  í stuttum pistli eins og ég er vön að skrifa. Bókin er númer tvö í ritröð sem ber yfirskriftina Smásögur heimsins. Fyrst  kom  út Smásögur heimsins Norður-Ameríka og þá eru eftir smásögur frá Evrópu, Asíu, Eyjaálfu og Afríku.

Eftir að hafa lesið tvær fyrstu bækurnar, finnst mér merkilegt hvað svona söfn skilja eftir magnaða tilfinningu, allt öðru vísi en þegar maður les eina og eina sögu á  stangli eða stök smásagnasöfn. Hér fær maður  á tilfinninguna að maður hafi kynnst heilli heimsálfu.  Samtímis  gerir maður sér grein fyrir  fyrir fjölbreytileikamum sem er í algjörri mótsögn við  þá hugmynd.

Vandað til verka

Það er mikið lagt upp úr vali sagnanna. Ekki bara bókmenntalegu gildi þeirra, það er einnig leitast við að höfundar, sem valdir eru, spegli sem flesta þjóðfélags­- og menningarhópa. 

Hvað þessa bók varðar, setur þessi fjölbreytni svo sannarlega svip á bókina, mér finnst sú Rómanska-Ameríka sem ég geng með í kollinum hafa breyst.

Í bókinni eru 22 sögur. Þær eru hver annarri betri og það er ógjörningur að gera upp á milli þeirra. Auk þess er örstutt umfjöllun um hvern höfund, sem er afar fróðleg.  

Ástæðan fyrir því að sagan um Eyrnalokkana sem vantar á tunglið ýtti við mér,  var umfjöllun um vændi í Soralega Havanaþríleiknum. Í frásögn sögumanns,  lítur út fyrir að þetta sé eins og hver önnur vinna sem gefst. Í smásögunni Eyrnalokkarnir sem vantar á tunglið er sýnt inn í nöturlegan  heim  ungrar konu sem vinnur þannig fyrir sér og fjölskyldu sinni. Maðurinn hennar er skilningsríkur  og hjálpsamur. Alveg til fyrirmyndar þangað  til að því kemur, að kúnninn er í raun að falast eftir honum sjálfum.

Ég er svo þakklát

Ég er svo þakklát og um leið stolt af því að svona framtak skuli eiga sér stað í okkar fámenna landi. Þjóðarstoltið bærir á sér.

Nú er þriðja bókin, Smásögur heimsins – Asía, að koma út, eða komin út. Það er því ekki seinna vænna tjá þakklæti sitt fyrir þetta frábæra framtak.

Hljóðbókin

Ég er í þeirri sérstöðu að ég þarf að hlusta á bækur í stað þess að lesa. Bókin  sem ég naut, var því  lesin inn á vegum Hljóðbókasafns Íslands. Enn er  mer þakklæti í huga, hversu vel er að verki staðið.  Hver upplesarinn öðrum betri.  En ég viðurkenni að mér fannst biðin eftir því að hún kæmi út sem hljóðbók löng.  

Bækur til að eiga

Þegar ég les bækur á borð við Smásögur heimsins, hugsa ég, svona bók ætti að vera til á hverju heimili. Um leið verður mér hugsað til vina minna, sem stöðugt eru að lýsa áhyggjum sínum yfir allt of mikilli bókaeign, þeim finnst að bækurnar séu fyrir sér og hafa áhyggjur út af því hversu erfitt það verði fyrir afkomendur þeirra að sitja uppi með  draslið.

Mér sem er hálfblind, finnst unun af því að hafa bækur nærri mér og nýt fulltingis eiginmannsins sem er með safnaraáráyyu og fulla sjón. Mér finnst mikilvægt að handleika bækur sem ég hlusta á. Ég sé nægilega til að  átta mig betur á útliti þeirra og skipulagi.

Á sænsku er til orðið att dödstäda, sem þýðir að taka til fyrir dauða sinn. Mér finnst þetta óþarft og mikilvægara að nota tímann til að lifa.


Soralegi Havannaþríleikurinn : Mig langar ekki til Kúbu.

 

5212F7E0-D900-4C89-89A1-4517D8913A7DMig langar ekki til Kúbu.

Ég hef verið að lesa Soralega Havanna þríleikurinn  eftir Pedro Juan Gutierrez, hann er þýddur af Kristni  R. Ólafssyni.

Um langt skeið hafa bækur frá hinum spænskumælandi heimi heillað mig og ég sit um hverja bók. Það var því ekkert eðlilegra en að grípa tækifærið og lesa bókina um leið og búið var að þýða hana og lesa hana inn hjá Hljóðbókasafninu. Það er Sigurður H. Pálsson sem les og hann gerir það vel. Ég vissi ekkert um bókina nema það sem titillinn segir til um.

Frásagan er lögð í munn nafna höfundar, hann er líka jafnaldri hans og á  margt sameiginlegt með honum. Hann er hvítur og hefur verið blaðamaður og fæst af og til við skriftir. Hann lifir frá degi til dags, býr stúlkum sem sjá fyrir sér með vændi. Eins og ekkert sé eðlilegra en að láta þessar stúlkur sjá fyrir sér. 

Sagan er gerð úr mörgum mislöngum frásögnum og hefst árið 1994. Fall Sovétríkjanna var farið að segja til sín, Kúba gat ekki lengur reitt sig á viðskipti við þá eða stuðning. Það var atvinnuleysi, vöruskortur og fólk var svangt. Það ríkti vonleysi.

Allar frásagnirnar fjalla um það sem sögumaður telur að einkenni líf örvæntingar og vonleysis, þ.e. kynlíf, romm og dóp. Hvað annað? Skítur, drulla og ofbeldi eru reyndar hluti af pakkanum.

Ég er skítahrærari, er heiti eins kaflans. Þar lýsir sögumaður því yfir að það sé hlutverk hans að hræra í skít. Sumir haldi að hann sé að leita að einhverju verðmæti en svo sé ekki. Honum líki einfaldlega við skítinn, hann sé  sjálfur tilgangurinn. Yfirlýsing eins og þessi verður til að ég hætti að taka hann bókstaflega, trúa honum. En einmitt í þessum kafla er ein af mörgum perlum bókarinnar.  Þar lýsir hann eðli skáldskapar. Það felst einfaldlega í því að grípa sannleikann, hver svo sem hann er og láta hann falla niður á autt blaðið. Í hans tilviki er þetta skítur.

Ekki beinlínis bók fyrir mig

Mér fellur illa að lesa grófyrði og klám og ég hef enga ánægju af kynlífslýsingum. Mér finnst ég því vera svolítið í hlutverki skítahrærarans þegar ég legg á mig að lesa þessa bók en ég er að leita að  perlum. Það er einfaldlega  fullt af þeim í þessum texta. Flestar tengjast þær  heimspekilegri afstöðu höfundar til lífsins, sprottnar af því að lifa á heljarþröm.

Meira um klámið

Það sem slær mig í síendurteknum frásögnum höfundar af bríma (ég kann betur við það orð en greddu), er dýrkunin. Hún nær hæstum hæðum í   lýsingunum á getnaðarlimnum, brundurinn sem úr honum kemur er líka hálfheilagur. Allt er magngert, besefinn er mældur í tommum, brundurinn í  bollum (minnir mig) en fullnægingar konunnar eru einfaldlega taldar.

Me too

Me too byltingin á greinilega langt í land á Kúbu. Sögumaður gerir greinilega ráð fyrir því að stúlkum finnist afar gaman að horfa á menn veifa sköndlinum og sömuleiðis gerir hann ráð fyrir því að þeim finnist ofbeldi gott - innst inni.

Ekki bók fyrir mig?

Afstaða mín til þessarar bókar er svo tvíbent að ég á erfitt með að segja frá henni. En ég ætla að reyna að draga það  saman.

Það sem er jákvætt er að þetta er bók um umhverfi sem er  gjörólíkt okkar.   Það er verið að lýsa lífi og viðhorfum fólks sem lifir á ystu nöf. Það hefur orðið rof, gömul gildi eru ógild.  Reisn er ekki lengur hluti af lífi þessa fólks. Bókin lýsir veruleika sem maður vonar að þurfa   aldrei sjálfur að kynnast.

Það sem er neikvætt er skíturinn, ólyktin, klámið og ofbeldið. Það er erfitt að vera í þessum heimi, þótt það sé bara í þykjustunni. Það er fjölmargt sem ég hef ekki sagt um það sem gerir þessa bók sérstaka. Eitt er að lesandinn, alla vega ég vissi oft ekki hvað mér átti að finnast. Ýkjurnar eru oft slíkar að mann langar til að hlæja en á bágt með það, því það sem í henni felst er svo voðalegt. Samfélagið er gegnsýrt af ofbeldi og mannfyrirlitningu.

Auðvitað er ég búin að lesa mér svolítið til um bókina. Einverjir gagnrýnar hafa leikið  sér með að kalla stíl höfundar soraraunsæi. Sú flokkun kallast á við töfraraunsæi sem  einkennir sumar bækur Suður- Ameríku.    

Að lokum langar mig að tala um þýðinguna. Ég get reyndar ekkert sagt um hversu nákvæm hún er, því ég les ekki spænsku. Ég ætla einungis að tala um textann sem ég las. Hann er framúrskarandi, lifandi, spennandi, fjarstæðukenndur og kaldhæðinn eftir því hvað við á. Oft dáðist ég að þýðanda hversu ríkan orðaforða hann hafði yfir þetta fyrirbæri sem við í daglegu tali köllum tilla.  Í eitt skipti held ég að hann hafi komið með nýyrði. Það er orðið hreðjafeykir sama sem maður sem veifar á sér skaufanum og fær fé fyrir. 


Hin hljóðu tár: Hetjusaga

4D09E538-87E8-4D47-8D9C-54BCD992BB7C

Ég rakst á þessa bók af tilviljun. Var fyrst hikandi hvort ég ætti að lesa hana, bók um konu sem ég þekkti ekki eftir höfund sem ég kannaðist ekki við. En ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Einhvern vegin hefur hún farið fram hjá mér þegar hún kom út 1995. Hvar var ég eiginlega þá?

Sagan segir sögu konu sem hefur reynt margt. Það er Sigurbjörg Árnadóttir sem skráir og hún kann sitt verk. Ég dáist að því hversu vönduð bókin er og fæ á tilfinninguna að Sigurbjörg sé góður hlustandi.

Ásta Sigurbrandsdóttir man fyrst eftir sér í Flatey, þar er hún fædd 1918 og þar býr hún hjá foreldrum sínum og systkinum fyrstu æskuár sín. Flatey er á þessum tíma lítið þorp. Allt var í föstum skorðum. Hagir fjölskyldunnar áttu eftir að breytast þegar faðirinn yfirgaf fjölskylduna, eldri börnin fóru þá að vinna sem matvinnungar en móðirin fór í kaupavinnu upp á land og hafði Ástu með sér. Seinna flutti móðirin til Reykjavíkur til að vinna í fiski og bjó með telpuna í verbúð. Ásta átti því eftir að alast upp í Reykjavik og móðirin styður hana til mennta í Kvennaskólanum. Að námi loknu ræður hún sig á Landakotsspítala og tekur ákvörðun um að læra hjúkrun í Danmörku. Lýsingin á lífinu Reykjavík þessa tíma er sérlega góð og um margt einstök.

Til Kaupmannahafnar siglir hún 1938. Myndin sem hún dregur upp af sjálfri sér er af glaðværri ákveðinni stúlku, sem gengur að  því sem gefnu, að lífið sé fyrirhafnarsamt.  Stúlka sem vill ekki vera sett til hliðar þarf að vanda sig og standa á sínu.

Landið er hernumið 1940. Það kom mér á óvart hversu þessi duglega og klóka stúlka er illa að sér um pólitík. En þannig lýsir hún sjálfri sér. Eitt er þó á hreinu. Á meðan afstaðan til hernámsins klauf dönsku þjóðina, er alveg ljóst hvoru megin Ásta stóð. Hún var á móti nasisma.   

Ástin vitjar hennar í Danmörku,  hún kynnist ungum þýskum hermanni. Þegar hann er sendur á vígstöðvarmar og hún hefur lokið hjúkrunarnáminu og kemst ekki heim til Íslands, dettur henni í hug að vinna við hjúkrun í Þýskalandi. Hana langaði til að komast nær væntanlegum tengdaforeldrum og vinnan er líka vel borguð. Þetta endaði með ósköpum. Það var hart sótt að þýskum borgum og Ásta kaus að slást í för með fjölda flóttafólks. Lýsingin á þessum örvæntingarfulla flótta er hápunktur þessarar bókar.

Ásta á enn eftir að verða fyrir mörgum áföllum. Ástvinur hennar er dáinn og hún fær berkla. Hún sigrast á berklunum og kynnist manni á berklahælinu og flytur með honum til Finnlands. Hún missir þennan mann líka. Hún kynnist nýjum manni, giftist og flytur með honum út í finnska sveit.Það er stundum erfitt að greina á milli hvað er sigur og hvað er ósigur. Með þessum manni, sem reyndist ekki sá maður sem hún hélt, eignast hún tvo drengi. Samkomulagið við nýju fölskylduna var ekki eins og best verður á kosið og hana langar  oft heim. En hún ákveður að þrauka, vill að börnin njóti þess að eiga föður.

Það sem mér fannst mest gefandi við þessa góðu bók er sjónarhorn þessarar lífsreyndu konu. Það er einkum tvennt sem mér finnst einkenna hana. Hún er stolt og krefst virðingar og hún Ákveður að horfa fram á veginn.

         


Katrín frá Bóra, kona Lúthers

69283149-8306-4B3C-8009-5510C1928223

Eftir að hafa sökkt mér í hugmyndaheim Lúthers, var kærkomin hvíld að dveljast stundarkorn með konu hans, sem var þægilega jarðbundin ef marka má heimildakonu  mína Clara Schreiber. Ég var svo heppin að finna lítið bókarkorn um hana á Hljóðbókasafninu  og það ekki af verri endanum.   

Frásögnin var reyndar full tilfinningaþrungin fyrir minn smekk, en ég hélt að höfundurinn vær 19. aldar kona og fannst það eðlilegt. Skáld 19. aldar leyfa tilfinningum að flæða.   

Góður misskilningur

Ég hafi flett nafninu upp á Google og fundið þar Clara Schreiber sem er fædd 1848 í Vínarborg og trúði að hún væri höfundurinn. Ég hef   mætur á höfundum 19. aldar og les þá mér til mikillar ánægju. Nöfn eins og Elisabeth Gaskell, Charles Dickens og svo ég tali nú ekki um Edith Wharton kveikja hjá mér bæði hlýju og söknuð.

Spenna og ráðdeild

Hljóðbókin hefst á inngangi um eiginmann söguhetjunnar. Sagan hefst á frásögn um 9 ungar stúlkur sem eru að flýja úr klaustri.  Þær hafa falið sig í vöruvagni sem flutti bjór og síld til klaustursins. Vagninum stýrir Köppe vinur Lúthers. Þetta er uppreisn. Ferðinni er heitið í Ágústínusarklaustur, þar sem Lúther var einu sinni munkur en býr nú sem óbreyttur. Flóttinn tekst. Er hægt að hugsa sér meira spennandi upphaf á bók?

Stúlkurnar 9 voru frjálsar. Eða hvað? Það fyrsta sem Lúther, auðvitað stóð hann á bak við uppátækið, segir þeim,er að þær verði að giftast og hann hafði reyndar útvegað nokkrum þeirra eiginmenn. Söguhetjan okkar Katrín giftist reyndar ekki strax, henni er fundin vist á góðu heimili. Síðar giftist hún Lúther, hún vill bara þann besta. Hún var þá 26 ára og Lúther 41 árs. Hann hafði ekki viljað gifta sig því hann var bannfærður af páfanum.

Hin ráðdeildarsama Katrín 

Lúther er andríkur hugsjónamaður, fræðimaður, skáld og auk þess leikur  hann á lútu. En honum lætur ekki vel að hugsa um veraldlega hluti eða hvernig eigi að standa straum af því að reka stórt heimili,(einhvern veginn finnst mér ég kannast við slíka menn). Katrín er fyrirhyggjusöm og dugnaðarforkur. Hún tekur til í klaustrinu, ræktar landið, bruggar, bakar og elur upp grísi. Að lokum var niðurnítt klaustrið orðið eins og herragarður. Auk þessa alls elskaði hún manninn sinn og dáði og ól honum sex börn.

Heilsu Lúthers fór hrakandi og loks deyr hann (1546)  frá konu, börnum og mikilvægu starfi. Sagan segir að hann hafi sem betur fer haft þá fyrirhyggju að ganga þannig frá erfðamálum sínum að efnahag ekkjunnar var vel borgið.En Lúther sá ekki fyrir styrjaldir og farsóttir sem áttu eftir að herja. Katrín dó árið 1552. 

Einhversstaðar í lestrinum fór ég að efast um að þessi bók gæti verið skrifuð á 19. öld og enn leitaði ég á netinu. Þá fann ég bók eftir Clara S. Schreiber auglýsta á Amazon. Sú bók kom út í Ameríku 1954. Um þann höfund fann ég lítið en bók hennar, Katherine wife of Luther. Og kemur út 1954.

Upplýsingar um bækur eru mikilvægar

Sem notandi Hljóðbókasafnsins, hef ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar pirrast yfir skorti á upplýsingum um innlesnar bækur. Það er mikilvægt að vita hvað maður er með í höndunum eða eyrunum. Ég ætlaði að fá bókina lánaða á Borgarbókasafni, en var sagt að þar væri hún ekki til. Þegar ég spurðist fyrir um hana á Þjóðarbókhlöðunni,  fékk ég sama svar.

Kannski er bókin sem ég var að lesa ekki til

Hljóðbókin sem ég las og hreyfst af, er gerð eftir upplestri sögunnar í útvarp árið 1984. Það er Helgi Elíasson sem les, þýðingu Benedikts Arnkelssonar. Kannski hefur bókin aldrei verið gefin út. Mér finnst það synd, því ég held að fleiri en ég gætu haft gaman að lesa bókina.Þetta er saga um konu eftir konu. Hún er skáldskapur, byggð á sagnfræði. Ég er ekki í stakk búin að meta hversu sönn hún er, en mér nægir að hún var spennandi aða minnsta kosti framan af. Mér finnst ég vita meira um konuna í lífi Lúthers. Og mér finnst ég vita meira um stöðu kvenna á 16. öld.

Myndin er af Katrínu er máluð af  Lucas Cranach eldri, en Katrín var í vist á heimili hans áður en hún giftist.


Skollabrækur og aur ekkjunnar

9F9F7A2F-033C-4103-9102-82FD9C4C2768 

Skollabrækur

Gamlar þjóðsagnir bera oft í sér mikil sannindi. Nýleg frétt varð til þess að gömul sögn rifjaðist upp fyrir mér.   Tilefnið var  saga  úr listaheiminum, þegar málarinn Þrándur Thoroddsen fékk ekki að hengja upp mynd í Hannesarholti sem sýndi fjármálaráðherrann okkar klæða  sig í nábrækur.

Mensaldur í Papey

Sagan sem sem rifjaðist upp var um Mensaldur, sem kenndur er við Papey. Um hann gengu margar sagnir á Austfjörðum þegar ég var að alast upp. Í frásögn móður minnar hafði Mensaldur búið á Melrakkanesi í Álftafirði. Sá bær hafði vissan ljóma í frásögn mömmu, því þar höfðu afi og amma verið vinnuhjú -, áður en þau urðu eigin húsbændur.

Mensaldur þessi vissi ekki aura sinna tal og það gekk sú saga að hann hefði efnast með hjálp Skrattans. Sá gamli hafði aðstoðað hann við að verða sér úti um skollabrækur, þær voru gerðar úr skinni af dauðum manni. Ég sá þetta allt lifandi fyrir mér, enda vön að fylgjast með hvernig skrokkar voru flegnir og gærur verkaðar.  Það var mikilvægt fyrir þann, sem átti slíkar brækur, að losa sig við þær fyrir andlátið.   Ef ekki var Skrattinn vís. Sagan segir að á efri árum hafi Mensaldur gerst örlátur á fé   og nutu sveitungar hans góðs af. Látið var að liggja, að buxurnar hafi óróað hann,  góðverk voru Guði þóknanleg og honum veitti ekki af guðs blessun. Þetta örlæti hans  gæti skýrt vinsældir hans og orðspor. Fjöldi barna þar um slóðir bar seinna nafn hans, Mensaldur eða Mensaldrína.

Eðli skollabróka

Vasinn á skollabrókum virkar þannig, að hver skildingur sem í hann er settur, tvöfaldast. En helst þarf fyrsti skildingurinn að vera stolinn frá fátækri ekkju á helgum degi.

Sagt er að þegar Mensaldur komst  á efri ár, hafi hann  fitnað  og átti  í  basli með að koma að sér brókunum. Það sýnir að það var litið á skollabrækur sem íveruklæði.

Þegar Mensaldur dó, kom upp sú sögn að hann hefði falið eitthvað af fé sínu í Papey. Fólk þóttist sjá þar loga, ókennilegan loga um nætur.

Skollabrókamenn vorra tíma

Okkar núverandi skollabrókaeigendur eiga það sameiginlegt með Mensaldri, að það er talið að þeir hafi falið fé sitt á eyjum, þó ekki Papey. Hvort þar brenni logi hef ég ekki heyrt af. Það fara heldur engar sögur af gjafmildi þeirra og ekkert bendir til , að þeir hafi losað sig við auðsöfnunarbrækurnar.

En Skrattinn sækir sína.


Guð blessi Ísland; Fræði Lúthers

 

1A59CE87-7825-437A-A0A5-7BF50072D9C1Val mitt á lesefni er ekki tilviljun, það ræðst af röð atvika. Einhverskonar keðjuáhrif, rökrétt, drifið áfram af þörf. 

Það er ekki tilviljun að ég hef sökkt mér niður í fræði Lúthers. Í fyrsta lagi finnast mér trúmál áhugaverð, það er merkilegt að sjá hvernig þau í senn spegla og móta söguna og í öðru lagi finnst mér merkilegt hversu samtíminn gerir sér litla grein fyrir kenningunni sem flestir hafa játast undir. 

Í þrjár vikur sökkti ég mér á kaf í ævi Lúthers og Lútherisma. Ástæðan fyrir því að ég hafnaði þar var, að ég hafði hlustað á Sverrir Jakobsson flytja fyrirlesturinn, Hvernig skal Krist kenna, hjá Miðaldastofu. Hann hefur skrifað samnefnda bók, þar sem hann rannsakar sögnina um Krist með vinnubrögðum sagnfræðings.

Fyrirlesturinn var hrífandi og heimkomin, langaði mig að líta mér nær og skoða kristindóminn sem hefur mótað mig. Það sem ég hef lært í gegnum skólalærdóm (Biblíusögur) og fermingarundirbúning (kverið - Vegurinn eftir Jakob Jónsson). Það er útbreiddurr misskilningur að fólk kunni lítið, að það sé engin innræting í gangi. Líklega á þetta lútherska uppeldi mitt þátt í að ég lít á það sem skyldu mína að vera meðvituð, skilja.

Eftir fyrirlesturinn ákvað ég að skoða það sem stendur mér nær en frumkristnin og dembdi mér í Lúther. Í  mínu bókasafni", Hljóðbókasafninu eru tvær bækur um Lúther, bók Karls Sigurbjörnsonar, Lúther:ævi - áhrif - arfleifð,  sem er ný og bók Ronalds H. Bainton, Marteinn Lúther frá 1984. Bók Gunnars Kristjánssonar, Marteinn Lúther:Svipmyndir siðbótar hefur ekki verið lesin inn sem hljóðbók. Í staðin hlustaði ég á fyrirlestur Gunnars í tilefni af útkomu bókarinnar á youtube. 

Ég valdi bók Karls. Hún er stutt, nánast kver en innihaldsrík og spennandi. Í bókinni nær höfundur að höndla allt í senn, sögulegar aðstæður sem Lúther fæðist inn í, persónuna Martein Lúther og innihald kenninga hans um eðli Guðs, hvernig maðurinn skilgreinir sjálfan sig í ljósi þessa. Aðlaðandi lesning. Ef ég hef skilið bókina rétt, býr Lúther til hinn frjálsa einstakling sem stjórnast af samvisku sinni og er einungis ábyrgur fyrir Guði.

Og vegna þess að bóklestur fer aldrei fram í tómarúmi, heldur er í gagnvirku sambandi við innri og ytri veröld lesandans, hugsa ég mitt upp úr lestrinum, Geir Haarde hefði frekar átt að biðja fyrir sjálfum sér en þjóðinni. Og allra helst hefði hann auðvitað átt að iðrast og biðja Guð að fyrirgefa sér. 

Ég lauk lestri þessarar góðu bókar án þess að geta gert það upp við mig hvað ég sem trúleysingi ætla að gera við þessa kenningu. Það er ekki mitt að meta hver biður fyrir hverjum eftir að menn hafa verið blekktir eða blekkt aðra í ofsa græðginnar. 

Ég ákvað að skoða hvað kona Lúthers, Katrín frá Bóra, hefði til málanna að leggja, en það er til bók um hana í mínu góða safni, Hljóbókasafninu. Meira um hana síðar. 

 


Hinir smánuðu og svívirtu: Fjodor Dostoevjevski

 7458A74C-13C6-4F3F-A61C-ABC7A1A1F0D9

Ég á mörg uppáhaldsskáld en ég er á móti því að raða þeim á einhverskonar keppnislista, HVER ER BESTUR?. Þetta væri eins og búa til slíkan lista um vini sína eða börn sín og barnabörn. En ég hef miklar mætur á Fjodor Dostojevskí og hef einhvern tíma látið það út úr mér að Karamazovbræðurnir sé mín uppáhaldsbók, best bóka. 

Það varð mér því til mikillar gleði, hjartað sló aukaslag í brjósti mínu, þegar ég sá, að það var ekki bara búið að þýða nýtt verk eftir Dostojevskí, heldur líka lesa það inn sem hljóðbók. Verkið, bókin heitir Hinir smánuðu og svívirtu.Hún kom út 1861 og var fyrsta bókin sem Dostojevskí skrifaði eftir að kom úr fangelsi og útlegð.

Það var Ingibjörg Haraldsdóttir sem hóf þýðinguna en henni entist ekki heilsa og aldur til að ljúka henni. Gunnar Þorri Pétursson tók við verkinu og lauk því. Hjá mér var hátíð í bæ, líklega er ég óþolandi meðan ég er að lesa Dostojevskí, því það kemst ekkert annað að, hvorki Hrun-afmæli, skattlagning á fiskveiðar eða óheppileg framkoma hátt settra starfsmanna Orkuveitunnar. Þetta hverfur allt í  skuggann af frásögnum um ástandið  í Pétursborg árið 1861. 

Ungur rithöfundur liggur fyrir dauðanum og ákveður að skrifa um nýliðna atburði, sem hvíla þungt á hjarta hans. Þetta er snauður maður sem hefur gefið út eina bók. Það sem íþyngir honum, hugur hans dvelur við atburði sem hann var þátttakandi í og einhvers konar umboðsmaður réttlætis, málsvari hinna smánuðu og svívirtu. 

Fjölskylda hans, þ.e. fjölskyldan sem tók hann að sér, því hann er munaðarlaus, er í vanda stödd.  blekkt og svikin af manni sem hún treysti.  Samviskulaus maður ásælist eignir hennar og það sem verra er, er sami maður, sem tekst með klækjum, að eyðileggja ástarsamband dótturinnar og sonar hans. Hann vill að hann giftist til fjár. Þarna er á ferð Vasily fursti. Unga skáldið sem ber ástarhug til fóstursystur sinnar er göfugmenni og reynir eins og honum er unnt að hjálpa henni. Í raun er vandinn sá að ungi maðurinn, sonur furstans, er einfeldningur, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Við þessar áhyggjur unga skáldsins bætist að hann hefur nýlega tekið að sér   munaðarlaust og sárveikt stúlkubarn, Nellý. Hennar saga er í senn dramatísk og átakanleg. 

Ég ætla ekki að rekja þennan þráð lengra hér, mig langar til að víkja að því sem mér finnst ekki síður heillandi við söguna, persónusköpun hennar, flækjur og spennandi atburðarás.  Það  er andrúmsloftið, lífið í Pétursborg þess tíma. Fátæktin var slík að fátæklingar á leigumarkaði urðu að sætta sig við að leigja, ekki íbúð eða herbergi,, heldur herbergishorn. Ríka fólkið átti ekki aura sinna tal og auðmennirnir voru grimmir og gráðugir. Þá sem nú.

Sumir halda að bækur Dostojevskís séu erfiðar og tormeltar. Mér finnst það ekki. Og þó svo væri, myndi ég lesa þær. Í bókmenntum gildir ekki brellumálshátturinn MIKIÐ FYRIR LÍTIÐ. Nei alls ekki.

Mín reynsla er að maður þarf oft að hafa dálítið fyrir góðum bókum. Þessi bók er full af ástríðu, ást og visku. Er það ekki eitthvað að orna sér við?


Allt sundrast: Chinua Achebe

BA0172EE-79F6-483A-8D23-5A9DC480EE9D

Bókin Allt sundrast eftir nígeríska höfundinn Achebe (f. 1930 d. 2013) kom mér á óvart. Í kynningu í káputexta er sagt að í bókinnni sé sagt frá glímu- og bardagakappanum Okonkwo, sem hafi verið þekktur í hinum níu þorpum. Jafnframt er sagt, að með útkomu bókarinnar hafi orðið kaflaskil í söguritun  Afríku.

Sagan gerist í Nígeríu í lok 19. aldar. Höfundurinn er Igbo maður og sögusviðið er Igbo- þorp. (Í Wikipediu las ég að Igbo-tungumálið sé talað af 18 milljónum). Bókin kom út 1958 og fór sigurför um heiminn. 

Fram til þess tíma hafði söguritun verið í höndum erlendra höfunda, þessi saga er skrifuð af heimamanni. Ég skildi mikilvægi þessa enn betur, eftir að ég var komin inn í bókina. Þessa sögu gæti enginn skrifað nema sá sem þekkir samfélagið sem hann er að lýsa af eigin reynslu og hefur verið hluti af því. Það var afar fróðlegt  að kynnast samfélagi sem er svo ólíkt okkar en minnir stundum á þjóðfélag sem við þekkjum í gegnum fornbókmenntir okkar. Ég hugsaði oftar en einu sinni til Eyrbyggju og fleiri sagna.

Það sem kom mér á óvart, var hvað  bókin er spennandi og oft launfyndin.  Sagan er að því leyti merkileg að hún segir sögu samfélags, sem grundvallast á allt öðrum hugmyndum en okkar. Sumar þeirra eru grimmar frá okkur séð, aðrar eru beinlínis heimskulegar. Um leið eru margar hugmyndir góðar og skynsamlegar, ég tek dæmi um að hafa friðarviku til að mýkja hug guðanna áður en ræktun er hafin. Ég held að friðarvikur eigi alltaf við. Mér fannst lýsingin á dómstólunum snilld. En það sem mestu máli skiptir er að persónurnar lifna við og lesandanum er ekki sama hvernig örlög þeirra ráðast. 

Í lok sögunnar er hvíti maðurinn kominn til sögunnar og í hans huga er aldrei neinn vafi á hvað sé best fyrir þessa villimenn. Ég hef lesið mér til um bókina og höfundinn. Og nú veit ég að þetta er fyrsta sagan af þrem og ég vona svo sannarlega að hinar eigi eftir að koma út á íslensku.

Myndin af höfundi er sótt á netið 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 190339

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband