Færsluflokkur: Bloggar

Bókin og myndin

C2BB7E5B-3A04-4A9C-8A2E-9C44096C3120 

Ég er ekki ein um að eiga í vandræðum við að staðsetja tenginguna á milli bókar og myndar, enda eru þessi tengsl margvísleg. Myndin er ekki sama og bókin, segja menn og halda að þar með sé málið afgreitt. Staðhæfingin sem slík er augljóslega  rétt en svarar ekki spurningunni um hvað vill kvikmyndagerðar maðurinn með einmitt þessa bók.   

Það er út af þessari pælingu sem ég dembdi mér í að lesa eða endurlesa bækur um leið og ég frétti af því, að það eigi að fara að sýna mynd sem er byggð á bók.

Þegar von var á Flateyjargátu í sjónvarpinu lagði ég dag við nótt við að endurlesa bókina. Ég sé ekki eftir því, bókin var enn betri en mig minnti. Fljótlega gerði ég mér þó grein fyrir því að það hafði verið gerð önnur saga fyrir sjónvarpsmyndina. Auðvitað sætti ég mig við það. Ef það hefði verið gerð  mynd eftir efni bókarinnar, sér í lagi ef vísanir í Flateyjarbók sjálfa hefðu fylgt, hefði sú mynd verið hrottaleg glæpasaga og alls ekkert til að horfa á í stofum landsmanna.

Það var betra að fá mynd um heimilisofbeldi og kvenfyrirlitningu.

Reyndar féll mér nýja sagan vel en það var eitthvað sem ekki gekk upp við að koma henni til skila.   

Úrvalsmynd frá Ítalíu

Sama sagan endurtók sig þegar til stóð að sýna sjónvarpsþætti, sem gerðir eru eftir bók ítalska rithöfundarins Elena Ferrante, Framúrskarandi vinkona. Ég hóf endurlestur bókanna sem eru fjórar. Bækur Ferrante líta á yfirborðinu út fyrir að vera einhvers konar „sápa“, en þarna er á ferðinni grípandi samfélagslýsing og grimm ádeila á spillingu og stéttaskiptingu. Sögumaður og aðalpersóna  Framúrskarandi vinkona er jafnaldra mín. Ósjálfrátt bar ég samfélagsþróunina  saman við það sem var að gerast hér á Íslandi. Það er undarlega margt líkt.  Í tilviki þáttanna sem gerðir eru eftir  Framúrskarandi vinkonu er greinilegt að myndhöfundur leitast við að fylgja efni bókarinnar eftir föngum. Það er gaman að sjá söguna lifna við. Þetta eru frábærir þættir.

Ófærð

Og svo eru myndir sem fylgja eigin sögu, handriti. Það á við um  Ófærð.  Ég er eins og  aðrir Íslendingar alltaf þakklát þegar ég fæ íslenskt efni. Ég er jákvæð. Ég veit að íslenskir leikarar geta leikið ef þeim er rétt stjórnað.  

Mér fannst gaman af fyrri seríunni, fannst hún lukkast, en nú hreinlega leiðist mér. Hélt  fyrst að um væri kenna aðför  myndarinnar að landafræðikunnáttu minni, en sá svo að vandinn er djúpstæðari.

Sagan er slæm. Öllu ægir saman og engu eru gerð nein skil. Listi um efnisþætti gæti verið þessi:

Græðgi

náttúruvernd

vandi sauðfjárbænda

ruglaðir unglingar

staða samkynhneigðra

útlendingahatur

og fleira og fleira

Þetta hljómar allt kunnuglega í eyrum en það örlar ekki á samfélagssýn höfunda. Hvað þá sannfæringu.

Og svo vantar ófærðina. En það var ófærðin sem hélt spennunni uppi fyrri seríunni.


Brúin á Drinu: Ivo Andric

A390BB60-6E2C-4704-AC2D-A30708946C0B

Í bók sinni, Með skör járntjaldsins, segir Jón B. Björnsson segir frá heimsókn sinni á  heimili Ivo Andric í Belgrad. Andric fæddist árið 1892 og lést 1975 en heimili hans hefur verið varðveitt sem safn.  Þessi stutta frásögn varð til þess ég ákvað að lesa einu bók sem hefur verið þýdd eftir hann á íslensku. Aðallega af forvitni um hvers vegna bókin hafði farið fram hjá mér þegar hún kom út 1963.  

Þetta er sérkennileg bók, það er eins og brú sé nokkurs konar sögumaður. Þessi brú var byggð 1577 við Visegrad í Bosníu á dögum Ottomanveldisins. Verkinu stýrði  Sinan, frægasti arkitekt og byggingameistari síns tíma. Bók er aldafarslýsing  sem hefst við byggingu brúarinnar og lýkur við lok fyrri heimstyrjaldar.

Í raun er bókin safn sögulegs fróðleiks í bland við sagnfræði.  Persónur og og atburðir eru sviðsettir. Persónur eru vel dregnar og frásagan oft dramatísk. Þannig öðlast fortíðin nálægð og mannkynssagan lifnar við.

Sumir atburðirnir eru átakanlegur og sumir hroðalegir. Þó er undirtónn sögunnar lágstemmdur.   Áhersla höfundar er á mannlífið sjálft. 

Höfundur lýsir hefðum og siðvenjum  ólíkra menningarhópa, kristinna, múhameðstrúar, gyðinga og sígauna. Oftast tekst þeim að  lifa saman  árekstralaust, en um leið og stjórnvöld blasa í herlúðra riðlast allt. Það er eins og stríðin komi að ofan. Ekki frá fólkinu.

Þessi saga minnir því á fljót eða á. Flesta daga fellur áin hljóðlát í farvegi sínum en svo koma í hana flóð, hún verður óútreiknanleg og eirir engu. 

Bókin kom út 1945 í heimalandi hans en hér kom hún út 1963.

Ivo Andric fékk Nóbelsverðlaun 1961 og þar með varð hann heimsfrægur. Séra Sveinn Víkingur hreifst af þessari bók og þýddi hana. Það kemur fram í formála, sem hann skrifar að hann hafi talið að bókin væri góð lesning fyrir okkur Íslendinga til að spegla okkur í. Einhvern veginn þannig orðar hann þetta. Þýðing hans byggir á danskri þýðingu. Mér finnst hún lipur.

En af hverju las ég ekki bókina á sínum tíma? Ég er ekki viss. Ég var enn í menntaskóla og smekkur minn hafði breyst, ég var hætt að vera alæta á bækur og farin að þróa með mér eitthvað sem ég hélt að væri bókmenntasmekkur. Ég hneigðist til ljóða. Reyndar er ég fegin að ég reyndi ekki að lesa þessa bók þá, ég hefði ekki skilið hana.

Í raun er saga þessarar gömlu fallegu brúar enn sorglegri í dag en hún var þegar hún kom út. Í Bosníu- stríðinu kom hún mjög við sögu. Hún var þá sem fyrr notuð til illra verka. Og af því ég er hálft í hvoru farin að skynja hana sem persónu, langar mig að segja að það var ekki henni að kenna, hún var þolandi.


Með skör járntjaldsins: Jón B. Björnsson

23920759-9468-458C-85D4-5D7EA7C21FB5

Hjólað inn í nýtt ár.

Nú er ég búin að lesa tvær bækur um hjólaferðir, ég er líka búin að hjóla óvenjumikið sjálf enda hefur verið verið einstaklega gott til útivistar.

Bækurnar sem ég hef lesið eru báðar eftir Jón B. Björnsson og heita Rassfar í steini og Með skör járntjaldsins. Hún verður efni þessa  pistils. 

Jón fer þessa ferð í tveimur áföngum, fyrra árið (2003) hjólar hann frá Gdansk til Kraká og hið síðara (2004)frá   Kraká til Istambúl.Á milli ferða fékk hann hjólið og afaní-vagninn geymdan á skjalasafni Kráká-borgar. Sagan um þá samninga er dásamleg og minnir á að Jón var ekki ókunnugur stjórnsýslu.

Leiðin sem Jón valdi frá Gdansk og Istanbúll var nokkurn vegin sú sama og   hið dýrmæta raf var flutt á markað á miðöldum. Ástæðan fyrir nafni bókarinnar er að þessi leið, rafvegurinn, fellur að hluta til saman við hið ósýnilega járntjald sem síðar varð.  

Það er engin tilviljun að undirtitill bókarinnar er, Hugsað upphátt, því það lýsir vel þessu ferðalagi. Það er aldrei betra að hugsa en á hjóli, nema ef vera kynni fótgangandi. En það er sérstakt að skrá þetta hjá sér og það er það sem Jón gerir.

Hver kafli leiðarinnar  sem lagður  er að baki kallar á nýtt hugarástand og nýjar hugsanir.

Meðan Jón einbeitir sér að því að fylgjast með þessari 50 sentimetra breiðu rönd,  sem hver hjólreiðarmaður  hefur til umráða vinnur hugurinn óskiptur að      úrvinnslu á úr því sem hann hefur lært á ferð sinni og undirbúningi að því sem hann ætlar að skoða. Hugsanirnar eru óbundnar tíma og rúmi, það er því vandalaust að bregða sér á milli húnversks reynsluheims sem hann þekkir og til þess að skilja betur framandi heim.  Það er margt sem rekur á fjörur fundvíss ferðalangs. Sumir kaflarnir eru afrek út af fyrir sig, ég veit bara ekki hvort Jón ætti að fá orðu í bókmenntum, náttúruvísindum eða guðfræði. Einn af mínum uppáhaldsköflum ber yfirskriftina Hin nytsama iðja ánamaðkanna. Sú frásögn er þarft innlegg í vistfræðiumræðu og skiljanleg hverjum manni.

Ein lítil frásögn af safnaheimsókn leiddi mig yfir í nýja bók sem heitir Brúin á Drinu.  Af hverju var ég ekki búin að lesa hana? Hefur örugglega verið til heima. 

Eftir að hafa lesið bækur Jóns B. Björnssonar langar mig enn meira til að hjóla  og mér finnst mikilvægt að leggja hjólavegi samhliða hringveginum. Það er mikið hægt að hugsa á hringferð um Iceland. Hugsum til framtíðar. 

Nú er ég greinilega komin út fyrir efnið. Langar samt til að sá sem les þetta, skilji að það er ekki hægt að endursegja góða bók.  

Að lokum. Þetta er gamansöm alvara. Eða öfugt.

 


Rassfar í steini: Jón B. Björnsson

 93E58233-E298-47C2-9076-E6B3AF36B6A0

Rassfar í steini

Það er eitthvað með mig og jólabækur, ég forðast í lengstu lög að lesa þær. Mér er ekki fyllilega ljóst hver ástæðan er, en held að hún sé þessi: Í  auglýsingahamförum jólabókaflóðsins er höfundum  gjarnan stillt upp sem  keppendum, mönnum eða hestum sem maður veðjar á og með því að kaupa bók eða lesa. Allt í einu  er ég orðin þátttakandi í einhverri keppni, sem ég vil helst ekkert vita um. Ég stend nefnilega með öllum.

Ef skilgreining á jólabók er, bók sem kemur út fyrir jólin, er ég að gera undantekningu nú, þegar ég lesbók Jóns B. Björnssonar nú. Ég veit ekki hvort það er myndin af rassfarinu sem prýðir kápuna eða af því Jón er gamall vinur og ég á  von á góðri bók.

Bókin segir frá ferðalagi Jóns, við annan mann, um Ólafsveginn sem liggur þvert yfir Skandinavíuskagann frá Selånger til Niðaróss. Þetta er leiðin sem Ólafur helgi fór í sinni hinstu för, þegar hann ætlaði að endurheimta konungdóm í Noregi en heimamenn vildu hann ekki og drápu við Stiklastaði sem frægt er orðið. Munurinn á ferðamáta Jóns og Ólafs er að hann reið fyrir miklum her en Jón hjólaði með friðsemdarmanni. Auðvitað er út í hött að bera þetta saman, allt er breytt og þó sérstaklega hugmyndir mannanna og tíðarandinn og það er einmitt þetta tvennt, sem Jón tekur að sér að lýsa.

Það mætti orða það svo að Jón  hjólar í gegnum söguna, því um leið og hann lýsir ferð sinni rifjar hann upp frásagnir af atburðum fortíðar. Margar þessar sögur tengjast Ólafi helga og köppum fortíðar og hugmyndum þeirra tíðar manna við að kristna fólk en alls ekki allar. Maður á reiðhjóli hefur góðan tíma til að hugsa og stundum fer  hjólreiðarmaðurinn út um víðan völl og fræðir mann um líf þessa heims og annars og hann munar ekkert um að taka jarðsöguna í leiðinni.

En fyrst og fremst er þetta hugmyndasaga. Þótt máltækið segi að Orð séu til alls fyrst er það í raun hugsunin sem er aflvaki alls sem gert er.

 Ég verð líklega að láta þess getið að það sem einkennir frásagnarmáta Jóns er hans sérstaki húmor, sem ég treysti mér ekki til að lýsa. Held reyndar að það sé jafn vitlaust að lýsa húmor og að útskýra  brandara.

Ég hafði áður lesið bók Jóns Á JAKOBSVEGI, HUGSAÐ UPPHÁTT (2002) en átti ólesna bók hans úr Austurvegi, sem hann nefnir MEÐ SKÖR JÁRNTJALDS, HUGSAÐ UPPHÁTT  (2006). Henni lauk ég í framhaldi af Rassfarinu og mun segja frá henni í næsta pistli. Allar þessar bækur eru klassík, þ. e. Það má lesa þær óháð útgáfuári.                      


Sorgarmarsinn:Gyrðir Elíasson

CE0BAB69-C0C3-4B16-A6CC-4EB4AF2E3FA9

Bækur Gyrðis Elíassonar hafa svo sterka nærveru að ég man nákvæmlega hvar ég var stödd þegar las þær. Rétt eins og þegar ég frétti af Vestmannaeyjargosinu og morðinu á Kennedy. Þó einkennast þessar bækur af lágstemmdri frásögn um hversdagslega hluti.  

Sorgarmarsinn bókin sem kom út núna 2018 tengist tveimur fyrri bókum hans, Sandárbókinni (2007)  og Suðurglugganum (2012). Sandárbókina las ég meðan augun mín gátu enn þjónað duttlungum mínum, hinar hef ég hlustað á sem hljóðbækur. Það sem þessar bækur eiga sameiginlegt, er að þær fjalla allar um mann á miðjum aldri, sem dvelur í sumarhúsi. Einn með sjálfum sér. Það er eins og lífið hafi numið staðar. Þessir menn ígrunda stöðu sína, hvers vegna er svona komið fyrir þeim.

Hafa þeir kosið sér þetta hlutskipti, einveruna, eða eru þeir yfirgefnir af öllum. Allir eiga þeir það sameiginlegt að þeir fást við listsköpun.

Sandárbókin fjallar um listmálara, Suðurglugginn um rithöfund og Sorgarmarsinn um mann sem fæst við tónlist.

Mér finnst þó ekki að höfundur sé endilega að kryfja stöðu listamannsins. Viðfangsefni hans er annað og meira. Hann er að fjalla um líf allra manna. Lífið sjálft.

Ég var ekkert sérstaklega hrifin af Sandárbókinni við fyrsta lestur. Vandræðagangurinn á manninum pirraði mig. Mig langaði til að taka í öxlina á honum og hrista hann til. Þetta var 2007 og mikil uppgangur í samfélaginu og fólk framkvæmdaglatt.

Suðurglugginn hitti beint í mark. Ég var af tilviljun sjálf stödd í sumarhúsi á Arnarstapa og mér fannst að maðurinn gæti verið í næsta bústað. Það er mikill húmor í þessari bók, þótt hann liggi ekki alveg á yfir borðinu. Ég hló oft innra með mér við lesturinn og stundum upphátt.

Við lestur Sorgarmarsins varð ég næstum meðvirk með aðalpersónunni. Nú fór vandræðagangurinn ekki lengur í taugarnar á mér. Ég varð meðvirk og langaði mest að fara austur og hjálpa honum að slá garðinn og setja kannski í þvottvévélina fyrir hann. Þessi bók er líka launfyndin.

Mér fannst gaman að glímu mannsins við tónlistina. Hvaðan kemur hún og hver á hana?

Best þótti mér þó að bókin kom mér til að hugsa að bækur eins og tónlist, hana má spila aftur og aftur. Sama gildir um bækur. Þetta hafði reyndar reynslan kennt mér áður en mér fannst gott að skilja betur hvers vegna.

Það sérkennilega við bækur Gyrðis, sem ég kann ekki að skýra, er að þótt þær séu oft dapurlegar , skilja þær eftir mikla gleði í sálinni.


Lifandilífslækur: Bergsveinn Birgisson

1898210E-7E40-4395-9A54-DE9BC9EB4D97

Árið er 1784. Það er hörmungaástand á Íslandi, eldgos, hallæri, pestir og ótraustar skipakomur. Það hefur verið rætt um það hjá yfirstjórn Íslandsmála í Kaupmannahöfn að réttast væri að flytja íbúana til byggilegri landsvæðis. Danmörk og Finnmörk hafa verið nefndar. Þó þykir rétt að kortleggja ástandið og gera skýrslu.

Til þessa verkefnis er sendur einn landkönnuður í hvern landsfjórðung. Magnús Árelíus er sendur í Vesturfjórðunginn, hann er hálfur Íslendingur og kann málið, svona nokkurn veginn. Magnús er innblásinn af hugmyndum upplýsingastefnunnar og hugsar sér gott til glóðarinnar að finna hið rétta og sanna. Hann trúir ekki á yfirskilvitlega hluti eða á hindurvitni. 

Sagan segir af rannsóknarferð hans, leiðin liggur úr Húnavatnssýslu og norður á Strandir, allt til Skjaldarbjarnarvíkur á Hornströndum. Ég er kunnug á þessum slóðum og finnst gaman að fylgjast með för hans, sérstaklega þar sem ég hef gengið sjálf. 

Það er greinilegt að höfundur vill höndla andrúmsloft liðins tíma, hvernig hugsaði fólk og hvað sagði hjartað? En mér finnst líka greinilegt að það er annað og meira sem vakir fyrir höfundi. Hann vill tala beint til sinnar eigin samtíðar, til mín og þín.

Skýrsla Magnúsar Árelíusar er hugsuð fyrir stjórnvöld í Kaupmannahöfn. Sama sama gæti átt við um þessa bók, efni hennar kallast á við skýrsluskrif okkar tíma. Nú eins og þá er ekki hægt að sanna allt með “vísendum” (tungutak 18.aldar).

Mér fannst gaman að lesa þessa bók, þótt hún sé um hörmungar og endi illa. Er ég að segja of mikið? Honum tekst vel að lýsa fólki sem er í tengslum við náttúruna, nánast hluti af henni og lýsa  manni sem ætlar að læra um náttúruna utan frá.Hann er ekki einu sinni í góðu sambandi við sjálfan sig. Hann sér sýnir, honum fylgja draugar sem hann trúir ekki á. Hann er jú maður vísinda.Þetta eru afturgöngur harðræðis og misréttis.  Það er ekki fyrr en hann getur rökrætt við þessar verur sem hann öðlast örlítið innsæi um sjálfan sig.

Mér fannst persónurnar (dauðar og lifandi) vel dregnar.

Þessi bók er full af vísunum milli gamals og nýs tíma. Hver er tunguskorna konan? Er hún kannski tákn fjölmiðla sem bannað er að flytja fréttir sem gætu verið óþægilegar fyrir suma?


Fjallið í Kaupmannahöfn: Kaspar Colling Nielsen

2DF2BE0D-EEE8-4EF1-B8D7-0D10DDEB5CE7

Nýlega las ég afar sérstaka bók, sem gerist í óræðum tíma í okkar gömlu höfuðborg , Kaupmannahöfn. Bókin er eftir Kaspar Colling Nielssen (fæddur 1974) og kom út 2011. Nú loksins hefur henni verið snúið á íslensku af Höllu Sverrisdóttur. Ég hrekk við. Mér finnst að ég hefði átt að  fylgjast betur með, ég er jú ágætlega læs á dönsku.

Það er búið að byggja fjall í suðaustur Kaupmannahöfn. Það er 3500 metra hátt, ummálið er 55 kílómetrar og það tók 200 ár í byggingu. Það breytist margt við komu þessa fjalls og sagan segir frá því.

Það er ekki bara það að við þetta eignast Danmörk fleiri tegundir af loftslagi, sem breytir lífríkinu, fólkið og samfélagið breytist líka. Sagan fjallar um allt þetta. Ég var dálitla stund að átta mig á uppbygginu verksins. Hún er tvískipt, annars vegar fjallar hún um fjallið, hins vegar segir hún af fólki. Allt í einu fannst mér sagan vera í laginu eins og jólatré eða keila, það er fjallið. Á það eru hengdar margar smásögur eins og skraut. Líklega hefur þessi myndlíking komið til mín af því jólin nálgast.

Þessar sögur fjalla um undarlega hluti og ekki alla skemmtilega og alls ekki jólalega. Þær eru hver annarri betri og gætu í raun hver um sig staðið sem sjálfstæð smásaga. En fjallið er þarna og þær  tengjast því.

Þó sagan gerist í óræðum tíma, vísar hún greinilega á gagnrýninn hátt inn í danska samtíð. Nú kemur sér illa hve langt er liðið frá útkomu hennar.

Þetta er sem sagt afar spennandi bók bæði að efni og uppbyggingu. Ekki spillir það fyrir mér sem hlusta á hana sem hljóðbók að hún er framúrskarandi vel lesin af Ingunni Ásdísardóttur.

Nú hef ég lofað sjálfri mér því að fylgjast betur með í dönsku menningarlífi og sérstaklega Kaspar Colling Nielssen en hann hefur gefið út fleiri bækur.


Eftirbátur: Rúnar Helgi Vignisson

F945EEF1-835C-44AD-803D-3B30761F88DA

Eftirbátur

Þetta er ekki bók fyrir mig, hugsaði ég eftir að hafa hlustað á kynningu á bókinni. Bók um sjómennsku og karlmaður að leita að sjálfum sér. Og ég rýndi í daufgráa kápumyndina. Er þetta ekki örugglega mynd af sæðisfrumu þarna fyrir miðri mynd?

Söguþráður

Ungur maður, sem er búinn að koma sér vel fyrir í lífinu, fær upphringingu um nótt. Móðir hans segir honum að  föður hans sé saknað, bátur hans hafi fundist mannlaus. Ungi maðurinn ákveður strax að fara vestur til Ísafjarðar og leita að föður sínum. Hann fer í róðra með samstarsfmanni hans og þeir fara á þær slóðir sem hann var vanur að stunda veiðarnar.

En auðvitað er þetta engin venjuleg leit. Hann leitar hans í sjálfum sér, eiginlega hafði hann ekki þekkt hann. Hann villist inn í horfna veröld. Veröld liðins tíma.

Tímaflakk

Ég var örlitla stund að fatta að þetta var tímaflakk en eftir að mér var það ljóst gekk allt betur. Ég hef nefnilega gaman af tímaflakki, þótt það sé pirrandi að það gengur aldrei röklega upp, þá er gaman að hugsa en hvað er ef þetta eða hitt hefði gerst.

Höfundur hefði ekki getað valið betri stað fyrir flakk en Hornstrandir og Jökulfirði fyrir mig. Ég hef ekki tölu á ferðunum sem ég hef gengið og leiðunum sem ég hef þrætt. Alltaf með hugann fullan af sögum og sögnum af lífi fólksins sem bjó þarna forðum. Ég þekki t.d. vel Jónmund prest á  Stað í Grunnavík og gremst hversu illa er um hann talað. Tek afstöðu með presti,og hugsa um tóftina af steinhúsinu, líklega fyrsta fjölbýlishúsinu á landinu, sem hann  lét byggja fyrir sveitunga sína.Ég gleymi mér í tímaflakkinu og gleymi sögunni. Getur ungi maðurinn sem er að leita föður síns fiktað í ættartölu sinni og orðið afi sjálfs sín? Nei,tímaflakksævintýri ganga aldrei upp.

Og í þetta skipti eru þau órafjarlægð frá því sem hinn leitandi maður ætti að vera á útkikk eftir. Hvað er að gerast hjá hans litlu fjölskyldu? Strax í upphafi bókarinnar er tónn sleginn sem boðar að það sé eitthvað sem hafi týnst í sambandi hans og konu hans.

Ég er ekki viss um að mér finnist þetta fullkomlega heppnuð bók en ég hafði ánægju af því að lesa hana og hún rifjaði upp fyrir mér smásögu sem ég las eftir Rúnar Helga fyrir mörgum árum, SAMFERÐA, úr bókinni Ást í meinum sem kom út 2012. Í þeirri sögu er líka lýst löskuðu sambandi. Frábær saga. En kannski er ég ekki fyllilega dómbær því merkilegt nokk, vísar þessi saga einnig til Hornstranda og  gönguslóða sem mér eru kærar.

Nú sit ég hér og læt mig dreyma um enn eina gönguferð á Hornströndum. Er meira að segja búin að ræða um það við manninn.   


Eitraða barnið: Guðmundur Brynjólfsson

929D7BFB-5AF5-425D-B7F2-4E41FCCF2140

Eitraða barnið

Titillinn er sláandi. Þetta er lítil bók sem gerist á Eyrarbakka. Ísland er enn konungsveldi og umhverfið minnir  meira á 19. öldina en þá 20. 

Ég er ekki alveg ókunnug á Eyrarbakka, tengdamóðir mín blessuð, Lilja Þórarinsdóttir var fædd þar 1921 og ólst þar upp. Þess vegna finnst mér ég eiga svolítið í þessu þorpi. Ég veit að höfundur hefur bara fengið það að láni til sviðsetningar á glæpasögu. Meðan ég les lít ég í kring um mig eftir fólki sem ég þekki af afspurn og vonast til að sjá það ekki. 

Söguþráður

Þegar ungi sýslumaðurinn, Eyjólfur Jónsson, tekur við embætti, gamli sýslumaðurinn hafði látist óvænt, beið hans leiðindamál. Kornung stúlka, nánast barn,  hafði fyrirkomið barni sínu. Þar að auki var hún bæði fáráðlingur og vitstola, að því er virtist, og því ekki viðræðuhæf. Ungi sýslumaðurinn er óreyndur. Það hafði tekið hann 10 ár að ljúka lögfræðinni í Kaupmannahöfn, hann er drykkfelldur og þunglyndur en faðir hans og tengdafaðir hafa séð til þess að honum tekst ekki áform sitt að halda drykkjunni áfram í höfuðborg Íslendinga, Kaupmannahöfn. Og svo á hann þessa fallegu og góðu konu, sem passar ekki bara upp á hann, heldur lítur hún líka til með honum í embættisfærslum hans. Það sem gerir sýslumanni starfið enn erfiðara, er að hann treystir ekki undirmanni sínum, óberminu Kár Ketilssyni.

Glæpir eru fyrst og fremst ljótir

Þetta er spennandi saga. Glæpurinn er ljótur og viðbjóðslegur og höfundurinn er ekkert að skafa utan af óhugnaðinum. Mynd hans af umkomuleysi og vonleysi fórnarlambsins er ekki síður vel dregin.

Það sem ræður miklu um karakter þessarar bókar, er að höfundi lætur vel að lýsa þessum horfna tíma sem er svo ólíkur okkar, þó sum húsin standi enn. Andrúmsloft og allar aðstæður voru sannfærandi og trúferðugar. Meira að segja ég, sem rýni mikið í smáatriði sögunnar, fann ekkert aðfinnsluvert, nema ef vera skyldi að klæða mann í lopapeysu. Það var ekki prjónað úr lopa um aldamótin 1900. Ekki mér vitanlega.

Þetta er góð bók og ekki spillir að hún bíður upp á framhald. Þannig ræð  ég endirinn.

Eftirþanki

Höfundur les sjálfur bókina og gerir það prýðisvel, eins og tryggir lesendur pistla minna vita, les ég ekki,ég hlusta. 


Sjö bræður eftir Aleksis Kivi

 6C8AD3B0-6D6B-4A10-9739-0EC1C7845DC5

Auðvitað les ég góðar bækur. Ég vel þær sjálf. Alltaf er einhver ástæða fyrir valinu, ég renni aldrei blint í sjóinn. Nú síðast var valið óvenjulegt, ég hafði verið að lesa ævisögu Ástu Sigurbrandsdóttur, Hin hljóðu tár. Þar sagði hún frá því að kennari hennar í finnsku hefði viljað að láta hana lesa Sjö bræður eftir Alexis Kivi sem kom fyrst út 1870. En það leist henni ekki á og sagði honum upp. Nú langaði mig sem sérfræðingi í lestri (ef ég er sérfræðingur í einhverju, er það lestur) að meta hvernig þessi bók væri. 

Ég hafði heyrt um bókina vegna myndarinnar sem var sýnd, þekkti hana aðallega í gegnum Spaugstofuna.

Bókin kom út hér 1987 í þýðingu Aðalsteins Davíðssonar. Ég hlustaði á hana sem hljóðbók,lesinni af Sigurði Karlssyni. Frábær lestur. En ég fékk hana líka lánaða í bókasafninu, til að átta mig á uppsetningunni og til að skoða myndirnar. Þær eru eftir Akseli Gallen- Kallela sem er þekktur í listamaður í Finnlandi. 

Hvað á manni að finnast um slíka bók?

Bókin segir frá frá Jukola- fólkinu en þó aðallega bræðrunum, því þegar hin eiginlega saga hefst eru foreldrar þeirra dánir. Þeir heita Juhani, Tuomas, Aapo, Simeon, Timo, Lauri og Eeroo. Sá elsti er tuttugu og fimm ára og sá yngsti er 18 ára. Þeir eru hraustir og kraftmiklir og hafa sínar hugmyndir um heiminn. Þegar móðir þeirra deyr og þeir taka við býlinu Jukola, er það í niðurníðslu, þeir hafa ekki góða fyrirmynd í búrekstri því faðir þeirra hafði meiri áhuga á veiðum en búrekstri. Það má því segja að þetta sé þroskasaga þessara pilta. En sá þroski kemur ekki átakalaust, því það er ýmislegt sem gengur á í lífi þeirra. Margt fer úrskeiðis í lífi þeirra og þeir geta oft sjálfum sér um kennt. Þá setjast þeir á rökstóla og ræða málin.

Lesandinn veit ekkert hvernig hann á að skilja þessa orðræðu, sem er í senn barnaleg og háheimspekileg. Þetta er spriklandi skemmtileg bók. Stíllinn er dálítið eins og í Íslendingasögunum, öllu lýst utanfrá  í stuttum meitluðum setningum. Við þetta bætast undurfagrar náttúrulýsingar og þjóðsögur og kvæði. Ég gerði mér fljótlega grein fyrir að bókin lumaði á margþættum sannindum og það væri betra að lesa hana oft. Núna í mínum fyrsta lestri einsetti ég mér að  og hafa fyrst og fremst gaman af henni, læra nöfnin á bræðrunum og átta mig á karakter hvers um sig.

Þarna er sem sagt komin ein af þessum stóru skáldverkum sem maður getur lesið aftur og aftur eins og Íslendingasögurnar, bækur Laxness, Tolstoy, Lagerlöf og fleiri og fleiri. Ég er strax farin að hlakka til næsta lesturs. Það er ótrúlegt að þetta skuli vera bók sem er skrifuð 1870 hún virkar frekar eins og nútíma framúrstefna fyrir mig.

Léttlestrarbók?

Það sem kemur á óvart, er að það er létt að lesa þessa bók. Setningar eru stuttar og frásögnin ljós og atburðarásin án útúrdúra.

 Myndin er úr bókinni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 190339

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband