Soralegi Havannaþríleikurinn : Mig langar ekki til Kúbu.

 

5212F7E0-D900-4C89-89A1-4517D8913A7DMig langar ekki til Kúbu.

Ég hef verið að lesa Soralega Havanna þríleikurinn  eftir Pedro Juan Gutierrez, hann er þýddur af Kristni  R. Ólafssyni.

Um langt skeið hafa bækur frá hinum spænskumælandi heimi heillað mig og ég sit um hverja bók. Það var því ekkert eðlilegra en að grípa tækifærið og lesa bókina um leið og búið var að þýða hana og lesa hana inn hjá Hljóðbókasafninu. Það er Sigurður H. Pálsson sem les og hann gerir það vel. Ég vissi ekkert um bókina nema það sem titillinn segir til um.

Frásagan er lögð í munn nafna höfundar, hann er líka jafnaldri hans og á  margt sameiginlegt með honum. Hann er hvítur og hefur verið blaðamaður og fæst af og til við skriftir. Hann lifir frá degi til dags, býr stúlkum sem sjá fyrir sér með vændi. Eins og ekkert sé eðlilegra en að láta þessar stúlkur sjá fyrir sér. 

Sagan er gerð úr mörgum mislöngum frásögnum og hefst árið 1994. Fall Sovétríkjanna var farið að segja til sín, Kúba gat ekki lengur reitt sig á viðskipti við þá eða stuðning. Það var atvinnuleysi, vöruskortur og fólk var svangt. Það ríkti vonleysi.

Allar frásagnirnar fjalla um það sem sögumaður telur að einkenni líf örvæntingar og vonleysis, þ.e. kynlíf, romm og dóp. Hvað annað? Skítur, drulla og ofbeldi eru reyndar hluti af pakkanum.

Ég er skítahrærari, er heiti eins kaflans. Þar lýsir sögumaður því yfir að það sé hlutverk hans að hræra í skít. Sumir haldi að hann sé að leita að einhverju verðmæti en svo sé ekki. Honum líki einfaldlega við skítinn, hann sé  sjálfur tilgangurinn. Yfirlýsing eins og þessi verður til að ég hætti að taka hann bókstaflega, trúa honum. En einmitt í þessum kafla er ein af mörgum perlum bókarinnar.  Þar lýsir hann eðli skáldskapar. Það felst einfaldlega í því að grípa sannleikann, hver svo sem hann er og láta hann falla niður á autt blaðið. Í hans tilviki er þetta skítur.

Ekki beinlínis bók fyrir mig

Mér fellur illa að lesa grófyrði og klám og ég hef enga ánægju af kynlífslýsingum. Mér finnst ég því vera svolítið í hlutverki skítahrærarans þegar ég legg á mig að lesa þessa bók en ég er að leita að  perlum. Það er einfaldlega  fullt af þeim í þessum texta. Flestar tengjast þær  heimspekilegri afstöðu höfundar til lífsins, sprottnar af því að lifa á heljarþröm.

Meira um klámið

Það sem slær mig í síendurteknum frásögnum höfundar af bríma (ég kann betur við það orð en greddu), er dýrkunin. Hún nær hæstum hæðum í   lýsingunum á getnaðarlimnum, brundurinn sem úr honum kemur er líka hálfheilagur. Allt er magngert, besefinn er mældur í tommum, brundurinn í  bollum (minnir mig) en fullnægingar konunnar eru einfaldlega taldar.

Me too

Me too byltingin á greinilega langt í land á Kúbu. Sögumaður gerir greinilega ráð fyrir því að stúlkum finnist afar gaman að horfa á menn veifa sköndlinum og sömuleiðis gerir hann ráð fyrir því að þeim finnist ofbeldi gott - innst inni.

Ekki bók fyrir mig?

Afstaða mín til þessarar bókar er svo tvíbent að ég á erfitt með að segja frá henni. En ég ætla að reyna að draga það  saman.

Það sem er jákvætt er að þetta er bók um umhverfi sem er  gjörólíkt okkar.   Það er verið að lýsa lífi og viðhorfum fólks sem lifir á ystu nöf. Það hefur orðið rof, gömul gildi eru ógild.  Reisn er ekki lengur hluti af lífi þessa fólks. Bókin lýsir veruleika sem maður vonar að þurfa   aldrei sjálfur að kynnast.

Það sem er neikvætt er skíturinn, ólyktin, klámið og ofbeldið. Það er erfitt að vera í þessum heimi, þótt það sé bara í þykjustunni. Það er fjölmargt sem ég hef ekki sagt um það sem gerir þessa bók sérstaka. Eitt er að lesandinn, alla vega ég vissi oft ekki hvað mér átti að finnast. Ýkjurnar eru oft slíkar að mann langar til að hlæja en á bágt með það, því það sem í henni felst er svo voðalegt. Samfélagið er gegnsýrt af ofbeldi og mannfyrirlitningu.

Auðvitað er ég búin að lesa mér svolítið til um bókina. Einverjir gagnrýnar hafa leikið  sér með að kalla stíl höfundar soraraunsæi. Sú flokkun kallast á við töfraraunsæi sem  einkennir sumar bækur Suður- Ameríku.    

Að lokum langar mig að tala um þýðinguna. Ég get reyndar ekkert sagt um hversu nákvæm hún er, því ég les ekki spænsku. Ég ætla einungis að tala um textann sem ég las. Hann er framúrskarandi, lifandi, spennandi, fjarstæðukenndur og kaldhæðinn eftir því hvað við á. Oft dáðist ég að þýðanda hversu ríkan orðaforða hann hafði yfir þetta fyrirbæri sem við í daglegu tali köllum tilla.  Í eitt skipti held ég að hann hafi komið með nýyrði. Það er orðið hreðjafeykir sama sem maður sem veifar á sér skaufanum og fær fé fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er að ljúka við þessa bók og verð að segja að ég er búinn að fá upp í kok af staglkenndum lýsingum hins daglega lífs sem þarna er fjallað um. Að vísu virðist hressilega fært í stílinn í lýsingum, sér í lagi kynlífslýsingum og rommdrykkju. En hvað veit maður svosem?

Mér finnst þetta ekki góð bók.

Haukur Már Haraldsson (IP-tala skráð) 4.11.2018 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 186934

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband