Færsluflokkur: Bloggar
19.5.2018 | 19:16
Hnattvæðing, Jón Ormur og kóngabrúðkaup
Samtími okkar einkennist af víðtækum og djúpstæðum breytingum í heiminum í pólitískum, efnahagslegum, lýðfræðilegum og menningarlegum skilningi. Um leið hefur heimsvæðingin séð til þess að það sem áður var fjarlægt er komið í návígi og mótar aðstæður fólks og möguleika. Ný stórveldi eflast, sum stórkostlega eins og Kína og brátt Indland, en önnur eru að missa mátt sinn til áhrifa. Sagan sýnir að breytingum á valdahlutföllum hafa jafnan fylgt sérstakar hættur og alvarleg átök. Við lifum því viðsjárverða tíma þegar miklu skiptir að skilja hagsmuni, styrk, veikleika og fyrirætlanir ríkja og stórvelda. Bókin Breyttur heimur varpar ljósi á ýmsar óraflóknar og hnattrænar átakalínur okkar tíma og sýnir þær sem samhangandi og skiljanlega heild.
Sem sjá má er þessi klausa innan gæsalappa og því ekki mín. Ég er að lesa/hlusta á bók Jóns Orms Halldórssonar, Breyttur heimur og tekin úr innihaldslýsingu á vef Hljóðbókasafnsins Íslands. Þetta er merkileg bók, Jón Ormur gerir nákvæmlega það sem segir í titlinum, hann dregur upp mynd af nýjum oh breyttum heimi. Valdahlutföllin hafa kannski ekki breyst enn, en efnahagsleg staða er allt önnur. Það þarf að huga að mörgu. Hvaða hagkerfi, stjórnkerfi, menningarherrar, standa best? Fyrirtækjaheimurinn liggur þvert á landamæri. Lýðræði og lífskjör fara ekki endilega saman. Það er eins og tími og rúm hafi skroppið saman, fjarlægðir hafa minnkað og allt gerist hraðar.
Ein af stóru breytingunum sem Jón Ormur lýsir er dvínandi áhrif breska heimsveldisins. Nú eru áhrif þeirra frekar menningarleg en heimsvaldaleg. Næstum því upp á punt. Og það er einmitt það sem er að gerast í, þegar heimurinn skemmtir sér við að horfa á konunglegt brúðkaup. Það gerði ég ekki. Þess í stað las ég vænan skammt í Breyttur heimur. Þetta er löng bók, sem rétt er að taka í áföngum.
Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, er hugurinn er stilltur inn á hvað skiptir máli hér og nú. Hversu mikil áhrif einstaklingur getur haft með atkvæði sínu. Ég fyllist ugg um að fólk sé leitt á pólitík, sérstaklega þegar kemur að því að hinu stóra samhengi. Kannski getur eitt lítið vel heppnað kóngabrúðkaup lífgað upp á pólitíska hugsun. Eða svæft hana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2018 | 19:14
Pólitísk sjálfshjálparbók fyrir lýðræðið: Timothy Snyder. Harðstjórn
Í stofum landsmanna ríkir linnulaust stríðsástand, við blasa hrunin hús og fólk á flótta. Margir fyllast vonleysi og viðbrögð er ýmist þau, að menn ýmist vilja sem minnst af þessu vita eða þeir skipta um rás. Það er bæði eðlilegt og mannlegt að taka bágindum annarra nærri sér og það er í raun mannskemmandi að sitja uppi með tilfinninguna um að geta ekkert gert.
Það var því kærkomið tækifæri fyrir mig að rekast á bók eftir þekktan fræðimann, sem talar beint til fólks og ráðleggur því hvað hver og einn geti gert til að gera skyldu sína sem borgari. Hann setur hluti í samhengi og tekur dæmi úr sögunni af því þegar viðbrögð einstaklinga hafa skipt sköpun um hvernig mál ráðast.
Bókin er stutt, tekur 2 tíma í aflestri. Hún skiptist í 20 kafla, sem hrista: Nokkur kaflaheiti: Ekki hlýða fyrirfram: Takið ábyrgð á ásýnd heimsins: Skerðu þig úr: Trúið á sannleikann: Rannsakið:
Ég hafði sérstaklega gaman af kaflanum þar sem höfundur hvatti menn til að lesa bækur, ekki bara fræðibækur, heldur líka skáldsögur og nefndi meira að segja Karamazóbræðurna uppáhaldið mitt.
Þessi lestur kom sér alveg sérstaklega vel í gær, var að koma af mótmælafundi vegna ástandsins í Palestínu. Ég var hrygg. Réttara sagt miður mín. Miður mín út af því að ríkisstjórnin hefur ekki enn brugðist við og fordæmt voðaverkin eða bent á að það hvernig Ísrael hundsar lög.
Ræða Ögmundar Jónasson var góð og það var næstum eins og hann hefði verið að lesa bók Snyders, kaflann þar sem hann fjallar um hvernig harðstjórar vinna markvisst að því að fá almenning til að fá fólk sitt til að líta á glæpi sína sem normalt ástand. Það er þarna sem rödd okkar skiptir máli. Við eigum að leita sannleikans. Rannsaka.
Þetta var stutt bók og þess vegna á þessi pistill að vera stuttur. Þetta er sannkölluð sjálfshjálpar, bók til að eiga og grípa til. Handbók og upplögð gjöf til að gefa vinumvinum, ættingjum og barnabörnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2018 | 22:34
Feðgar á ferð eftir Heðin Brú
Líklega hefði ég aldrei ratað á þessa bók nema af því bókaklúbburinn minn ákvað að vinna með færeyskt þema. Bókin er skrifuð 1940 og kom út á íslensku 1941 í þýðingu Aðalsteins Sigmundssonar. Þetta er lítil bók, tekur 5 klukkustundir í aflestri.
Þegar ég leit yfir hvað til var að færeyskum bókum á Hljóðbókasafni Íslands varð hún fyrir valinu eftir að ég hafði lesið á Wikipediu að Heðin Brú væri einn merkasti rithöfundurinn í Færeyjum á fyrri hluta síðustu aldar. Þetta var aðdragandinn.
Sagan segir frá gömlum hjónum í afskekktu byggðarlagi. Hjá þeim býr fullvaxa sonur þeirra, hann gengur til verka með föður sínum. Búskapurinn er allur með gamla laginu og lífsbaráttan er hörð. Í upphafi sögunnar er sagt frá því þegar feðgarnir Ketill og Kálfur fara til grindadráps. Þetta er mögnuð lýsing. Ketill finnur að kraftar hans til að takast á við erfiðið eru ekki samir og fyrr. Ekki bætir úr skák, að með þátttökunni steypir hann sér í skuld, sem hann er ekki viss um að ráða við. Veiðunum fylgir skattur, sem rennur til stýra veiðunum og leggja til báta. Grindin er góð búbót til heimilisins en ekki endilega söluvara til að afla peninga. Hann hefur miklar áhyggjur af því hvernig hann geti staðið við þessar skuldbindingar. Það sem á eftir kemur í þessari sögu, fjallar um stríð hans við að standa í skilum.
Þetta er skrítin saga. Höfundur er spar á nöfn, aðeins örfáar persónur hafa nafn og einungis karlmenn. Konan er nefnd Ketilskona og ekkert barna þeirra hjóna sem kemur við sögu eru nefnt með nafni nema Kálfur, þau eru nefnd synir dætur og tengdadætur og viðlíka.
Þótt lífsbarátta gömlu hjónanna sé í forgrunni sögunnar, fjallar hún ekki síður um breytta tíma og átök á milli kynslóða. Nýir búskaparhættir eru að ryðja sér til rúms í Færeyjum svo kynslóðabilið verður að gjá. Húsakynni gamla fólksins, Ketils og Ketilskonu eru sóðaleg enda þakið farið að leka. Híbýli yngri kynslóðarinnar skína af hreinlæti og lykta af sápu. Gamla fólkið þusar um tepruskap og Ketilskonu liggur afskaplega illt orð til tengdadætra sinna. Gjáin milli kynslóðanna er þó ekki dýpri en svo að gömlu hjónin þiggja hjálp þegar á reynir. Kálfur, yngsti sonurinn og eina barnið sem er nefnt með nafni, er greinilega ekki í lagi. Það er ekki sagt beint út en lesandinn getur sér þess til af textanumÞessi.Þessi saga er greinilega full af táknum og líkist um margt þjóðsögu eða dæmisögu.
Höfundur sögunnar er fæddur 1901 í Skálavík á Sandey og líklega tekur sagan mið af aðstæðum þar. Hann heitir í raun Hans Jacob Jacobsen. Hann fór á lýðháskóla í Færeyjum og seinna til náms í Landbúnaðarskóla í Danmörku og vann síðar sem ráðunautur í Færeyjum jafnframt því að vinna að ritstörfum. Það er margt sem minnir á íslenskan veruleika í þessari bók og ósjálfrátt vaknar hjá mér spurningin, hvaða íslensku skáldi hann líkist mest. Tilfinning mín er sú að hann líkist meira Gunnari Gunnarssyni en Guðmundi Friðjónssyni. Hvorugur passar þó alveg.
Ég hef þrisvar komið til Færeyja og er heilluð af landinu. Við þetta bætist að nú í vetur hef ég lesið og endurlesið bækur eftir þrjá færeyska höfunda sem mér finnast frábærir. Þeir eru Heinesen, Carl Jóhan Jensen og Jóanes Nielsen.
Þegar ég les Heðin Brú hugsa ég til hans sem brautryðjanda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2018 | 21:08
Saga Ástu: Jóm Kalman
Jón Kalman er einn þeirra höfunda sem ég hef hvað mest dálæti á. Í fyrstu bókunum hreifst ég af tærum stíl hans, það var eins og að lesa ljóð. Fáir höfundar lýsa betur tilfinningum,von, þrá og æðruleysi. Hann notar allan skalann, litróf tilfinninga, án væmni. Bækurnar eru sprottnar úríslenskum veruleika og ég tók eftir hversu vel honum lætur að lýsa venjulegu fólki. Fólkið hans á einmitt vonir og þrár sem eru ofar hversdagslegu striti, tilgangi lífsins.
Ég hlakkaði til að lesa Sögu Ástu, nú er hún búin enfólkið úr sögunni býr enn með mér. Þótt bókin fjalli um liðinn tíma, eru ekki á ferð svipir fortíðar, heldur sprelllifandi manneskjur. Þannig upplifi ég lesturinn. Eins og stundum áður tengist fólkið höfundi, sumt þeirra hef ég hitt áður í öðrum bókum. Bókin er sem sagt að hluta til byggð á fólki sem var til í raunveruleikanum, ekki uppdiktuð. Ég veit hver konan á bak við Ástu er. Nöfnum er breytt, atburðum hnikað til, en engu að síður get ég sem lesandi alltaf tengt. Bókin segir frá mínum samtíma, mínu samtíðarfólki.
Hugurinn þeytist milli sögunnar sem ég er að lesa og sögunnar sem ég hef sjálf búið til úrfrásögnum og því sem ég þekki sjálf til. Þetta truflar mig. Hvorri sögunni á ég að trúa, þeirri sem ég hef púslað saman eða þeirri sem birtist hér? Ég reyni að minna mig á að bókin er skáldskapur en fletti samt upp minningargreinum um fólkið sem ég veit að frásögnin byggir á.
Bókin er um Ástu, litlu stúlkuna, sem móðirin fór frá agnarsmárri, meðan faðirinn var á sjónum. Það var fyrir tilviljun að eldri koma heyrir barnsgrát og kemur til bjargar. Bókin fjallar um móður hennar, Helgu sem er lífsglöð en gefst upp og fer. Og um föðurinn hinn sívinnandi Sigvalda,gæðablóðið, sem skilur ekki hvað er að gerast. Ásta dafnar eins og fífill í túni hjá fóstru sinni þangað til hún kemst á unglingsár, þá lendir hún í vandræðum með að fóta sig, hún skammast sín fyrir fátæklegt umhverfi sitt og fóstru sína. Hún er bráðgreind,uppreisnargjörn og leitandi. Hún er send í afskekkta sveit. Það er eins og nýr heimur gleypi hana. Þar kynnist hún ungum manni sem á eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar.Frásagan um sveitardvölina er snilld.
Ásta á eftir að menntast í mörgum löndum, einnig hún er lífsþyrst.
Þetta er sterk saga og hún rígheldur í mann. Ég ætla ekki að rekja hana frekar hér en víkja að vandkvæðum mínum við lesturinn.
Eftir að hafa nýlokið við að lesa Min kamp eftir Karl Ove Knausgård ætti ekki að standa í mér að lesa opinskáa frásögn sem byggir á lifandi fólki. En þetta eru ólíkar frásagnir. Bók Knausgårds er um hann sjálfan, aðrir eru aukapersónur sem hann lýsir utanfrá. Í Sögu Ástu gerir höfundur fólki upp hugsanir, tilfinningar og athafnir. Í þessu tilviki fer höfundur hvað eftir annað með fólkið út fyrir þann velsæmisramma sem tíðkast hjá fólki, að minnsta kosti mér. Ég á erfitt með að lesa lýsingar á kynlífi, nema ef vera skyldi fræðsluefni. Auk þess breyta þessar frásagnir oftast litlu um atburðarás og hvað manni finnst um persónur. Og í raun eru jafnvel vönduðustu ástalífslýsingar jafn ófullkomnar í að skapa unaðkynlífsins og mataruppskriftir eru í að lýsa bragði . En auðvitað er þetta hluti mannlegrar tilveru og ekki lítill.
Meðan ég gat enn lesið bækur í bókarformi, þurfti ekki að hlusta, fletti ég hratt í gegnum þessar lýsingar. Nú sit ég uppi með þær í fullri lengd. Auk þess skammast ég mín fyrir að vera svona pempíuleg. Nú hef ég sagt það.
Eins og lesendur mínir, sem lesa pistla mína um bækur vita, fjalla þeir um samband mitt við bækurnar sem ég les, þeir eru ekki ritdómar.
Sambönd er alltaf gagnkvæm.
Mér finnst Sögu Ástu ekki vera lokið og bíð eftir næstu bók
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2018 | 11:07
Morðið í leshringnum: Guðrún Guðlaugsdóttir
Oft hellist yfir mig löngun til að fylgjast betur með og lesa fleiri nýjar íslenskar bækur. En þegar maður hneigist til eldri bóka, helst þeirra sem maður hefur lesið áður verður nýmetið út undan. Ég tala nú ekki um þegar maður festist í löngum bókum. Af og til sting ég þó inn á milli bók og bók.
Nýlega lauk ég við bók Guðrúnar Gunnlaugsdóttur, Morðið í leshringnum. Ég er sjálf í tveimur leshringjum.
Blaðakonan Alma fær tilboð til að skrifa ævisögu fjármála- og ævintýrakonunnar Kamillu von Adelbert. Þetta er tilboð sem hún getur illa hafnað, því blaðamennska í blaðaheiminum í dag getur verið ótryggur starfsvettvangur. Alma er hikandi, því henni fellur ekki við við,æla dansinn en Skörungurinn Kamilla von Adelbert er ekki vön því að tilboðum hennar sé hafnað.
Blaðakonan Alma stendur á vissum tímamótum í lífinu. Hún er skilin (maðurinn fór frá henni), dæturnar búa erlendis og hún er nýflutt inn í nýja íbúð. Hana hefur lengi langað að skrifa um sína eigin ættarsögu og þegar hún kemst að því að saga Kamillu tengist hennar eigin sögu verður það henni hvatning til að taka tilboðinu og sætta sig við viðmælandann eins og hann er. Hún á eina nána vinkonu, samband þeirra er náið. Þær tvær ákveða að fara á kyrrðarviku í Skálholti. Og viti menn, þar er Kamilla von Adelbert líka mætt með bókaklúbbinn sinn. Nú fer ýmislegt óvænt að gerast. Gömul kona, einn þátttakandinn kyrrðarvökunnar finnst látin.
Þegar Alma sem er þaulvanur blaðamaður er búin að taka upp fleiri, fleiri spólur mað viðtölum við Kamillu, vill sú síðarnefnda að hún hitti vinkonur sínar, til að hún fái gleggri mynd af því hvað hún stendur fyrir. Þetta er gamall vinkvennahópur, sem hefur haldið saman síðan þær voru í Húsmæðraskólanum á Ísafirði meðan hann var og hét.
Lát konunnar í Skálholti bar ekki að með eðlilegum hætti og þegar blaðakonan Alma fer að kryfja málið (reyndar með aðstoð kunningja í löggunni) kemst hún að því að rætur glæpsins liggja djúpt. Þessi bók minnir mig á sögur Camillu Läckberg nema að mér finnst hún enn betri. Öllum smáatriðum er mjög vel lýst og það koma í ljós sögur inni í sögunni, sem eru ekki síður spennandi en sjálf glæpasagan. Er hægt að blása lífi í kulnað ástarsamband? Verður framtíð stjúpsonar vinkonunnar sem hefur alist upp í Frakklandi e.t.v. á Íslandi eftir allt saman?
Mér fannst sem sagt mjög gaman að lesa þessa bók en þetta er, þótt skömm sé frá að segja, fyrsta bókin sem ég les eftir Guðrúnu en hún hefur skrifað fjölda bóka.
Fyrir nokkru las ég bók Ármanns Jakobssonar, Brotahöfuð. Þar segir líka frá blaðakonu sem tekur að sér að skrifa ævisögu mest vegna þess að vinnan hennar , blaðamennska n,er svo ótrygg. Eins og við þurfum nú á góðri blaðamennskun að halda í heimi sem þenst út og verður sífellt flóknari.
Góðar sögur eru spegill samtíðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2018 | 23:15
Barátta mín: Karl Ove Knausgård
Nú er lokið baráttu minni við að lesa sögu Knausgårds, sem hann kallar, Barátta mín, Min Kamp. Hún er 3769 blaðsíður og síðasta bókin ein er 47 klukkustundir og 37 mínútur í hlustun.Ég ætla ekki að reyna að endursegja hana. Ég hlusta á hana sem hljóðbók á norsku. Það er Anders Ribu sem les. Hann gerir það listavel. Fyrstu þrjár bækurnar las ég í fyrra. Síðan tók ég mér hlé en ég er vön að ljúka bókum sem ég byrja á.
Barátta mín kom út á árunum 2009 - 2011 og sló rækilega í gegn.Ekki bara í Noregi heldur um allan heim.
Knausgård er fæddur í Osló 1968 en elst upp í Tromøya við Arendal og síðan í Kristiansand í Suður-Noregi. Móðir hans var hjúkrunarkona og faðirinn kennari. Hann á einn bróður. Karl Ove var lítill í sér. Hann var stöðugt hræddur við föður sinn en hændur að móður sinni. Hann var metnaðarfullur, bráðþroska en stöðugt óöruggur um sjálfan sig. Hann ákveður snemma að hann ætli að verða rithöfundur. Ekkert annað kemur til greina.
Í raun er fjölskylda Knausgårds ósköp venjuleg. Án stórátaka. Um það er þessi bók.
Hvað er það sem gerir hana að mest seldu bók Noregs? Sjálfsagt eru á því margar skýringar. Ein er frásagnarmátinn.Flæðið í frásögninni minnir meira á læk en straumþunga á. Hann segir frá hversdagslegum hlutum.
Dæmi:Þegar strákarnir kúka út í skógi. Hann segir ekki bara frá því sem atviki sí svona,heldur innan frá, tilfinningunni í þörmunum í smáatriðum, með tilheyrandi stunum og hljóðinu sem myndast þegar maður rembist. Hann segir frá morgninum eftir kvöldið, þegar hann gekk ekki frá eftir kvöldmatinn. Eldhúsvaskurinn fullur, allt í bendu, leirtau, pylsupotturinn með fljótandi fituskán og sprungnum pylsum, brauðmylsna og leikföng hvað innan um annað á gólfinu. Hann lýsir þessu nákvæmlega og það verður eins og málverk. Hann segir frá eigin kynlífsvandamálum, og að hann byrjar ekki að fróa sér fyrr en hann er 18 ára. .
Þetta er sjálfsævisaga, hann breytir ekki nöfnum, hvorki á stöðum né fólki. En það getur enginn sagt frá sjálfum sér án þess að segja um leið frá öðru fólki. Hann lætur þetta ekki aftra sér og segir frá foreldrum, föðurfjölskyldu og móðurfjölskyldu, vinum og vinkonum.Og seinna frá konum og börnum. Þetta er eins og í raunveruleikaþætti. Myndavélin er í höfðinu á honum.
En af hverju gerir hann þetta?
Tilfinning mín er að einfaldlega sú að hann hafi neyðst til þess. Þetta hófst á tíma þegar hann var með ritstol, ófær um að skrifa. Hann var búinn að gefa út tvær bækur og hafði fengið hrós. Nú finnst honum hvíla á sér krafa um að skrifa stóra verkið í lífi sínu. Hann minnir á langhlauparann sem hefur náð góðum tíma á millivegalengdum en rekst á ósýnilegan vegg.
Ég held að bókin sé til komin af brýnni þörf Knausgårds tilað gera upp líf sitt. Í staðinn fyrir að leggjast á bekkinn hjá sálfræðingi og tala, skráir hann hugsanir sínar. Í staðinn fyrir sálfræðing sem hlustar, geta allir sem vilja lesið.
Mér finnst ég sjá Karl Ove vaxa, þroskast og verða til meðan ég les. En mikið var ég stundum orðin örvæntingarfull, hvað ætlaði að verða úr þessum unga manni? Allan tímann þótti mér samt vænt um hann og vonaði hið besta. Hann hefði getað verið sonur minn.
Bækurnar eru ekki í tímaröð. Fyrsta bókin er um æsku hans og um dauða föðurins. Hún vakti miklar deilur því hann var svo berorður. Seinna þegar hann er að verja sig, segir hann að allt sem skrifar í bókinni sé eðlilegt og gerist í raunveruleikanum hjá venjulegu fólki. Enginn hneykslist. Það er til alkóhólismi í öllum fjölskyldum, fólk er ótrútt, menn fróa sér svo dæmi séu tekin. Það er fyrst þegar þetta er hengt á raunverulegt nafn, sem fólk hneykslast.
Í síðustu bókinni segir Knausgård frá því þegar hann situr með vini sínum og fylgist með uppistandi nú sem verður þegar fyrsta bókin er að koma út. Það varð vesen. Föðurbróðir hans snerist gegn honum. Forlagið réði lögfræðing, fólkið í Noregi komst í uppnám og skiptist í tvo flokka. Það var ekki um annað talað. Knausgård er þegar hér er komið sögu, orðinn fjölskyldumaður, á konu og þrjú börn. Hann býr í Svíþjóð og er að sjá um börnin sín og samtölin við forlagið verða þétt.
En allt í einu er eins og sagan taki u-beygju. Hann er ekki lengur að segja frá húsverkunum og vini sínum sem er í heimsókn. Sagan verður eins og ritgerð. Í fyrstu snýst frásögnin um bókmenntir, síðan tekur hvað við af öðru. Hann fer vítt og breytt um veraldarsöguna, gerir upp afstöðu sína til hugmyndasögu, skoðar gildismat kristninnar með því að rýna í forna texta, rekur ástandið sem leiddi til seinni heimsstyrjaldarinnar, fjallar sérstaklega um Hitler, Helförina og bókmenntir sem henni tengjast.
Í fyrstu hélt ég að ég hefði ruglast á hljóðdiskum og tekið disk sem tilheyrði einhverri annarri sögu. Ég tók diskinn úr spilaranum og gáði. Nei, engin mistök.
Ég áætla að um það bil fjórðungur sjöttu bókar hafi farið í þennan útúrdúr (Síðasta bókin er eins og fyrr sagði 47 tímar og 37 mínútur í hlustun).
Ég játa að mér fannst mikið til um þekkingu hans en stundum var erfitt að fylgja honum. Ég var sérstaklega hrifin af krufningu hans á textum úr Biblíunni og þá rifjaðist upp fyrir mér að Knausgård hefur unnið sem ráðgjafi hjá hópnums sem annast nýjustu þýðinguna á Biblíunni í Noregi.
Svo var frásögnin allt í einu komin á sinn stað, Knausgård heldur áfram að segja frá daglegu lífi sínu með Lindu og börnunum og hann er að bíða þess að bók 2 komi út. Hann segir frá veikindum Lindu konu sinnar.Linda sem er líka rithöfundur og er andlega veik, þjáist af geðhvarfasýki. Ein bók Lindu Boström, Velkomin til Ameríku ,hefur verið þýdd á íslensku.
Veikindin eru öllum erfið og mér finnst átakanlegt hvernig líf þessarar fjölskyldu er undirlagt af veikindunum.
Nokkurn veginn þarna endar bókin.
Knausgård hefur náð markmiðum sínum en líf hans er í rúst.
Ég finn til léttis að vera búin með þessa bók, hafa haldið út. Mér fannst ég skuldbundin en er líka þakklát.
Ég veit ekki hvort það er siðferðilega rétt að gera það sem Knausgård gerði. Ég á eftir að vinna úr því.
Nú fylgist ég með lífi hans og fölskyldu hans í gegnum netið. Ég er búin að lesa bók Lindu konunnar. Hún er eins knöpp í forminu eins og þessi er löng. Mæli með henni.
Ég ætla ekki að missa af því þegar hann kemur næst til Íslands. Og svo vona ég að hann hætti að reykja. Mér er annt um Knausgård
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2018 | 23:11
Sjálfrennireið
Af og til hlusta ég á fréttir um hvernig heimurinn verður þegar 4. iðnbyltingin hefur komist á það stig að vélmenni annast flest störf sem eru nú eru unnin af fólki. Auðvitað eru þetta ekki vélmenni eins og við þekkjum úr Star Wars, E-3PO og R2 D2 eða hvað þeir nú hétu, heldur kassalaga tölvur og og tilheyrandi vélbúnaður. Ég veit ekki hvað ég hef oft hlustað á fréttir um að nú sé alveg komið að því að bílar verði sjálfkeyrandi, sannkallaðar sjálfrennireiðar. Ekki sækist ég þó eftir þessari fræðslu, veit að það er svo margt sem vísindin geta ekki séð fyrir. Ekkert er öruggt nema dauðinn og ég er orðin gömul kona.
Í gær heyrði ég sagt í mín eyru að í raun væru tölvur miklu betri að taka flóknar ákvarðanir en menn. Þær væru fljótari að vinna úr miklu gagnamagni, vega það saman og taka hlutlausar ákvarðanir. Þetta fannst mér frábært. Svona þyrfti NATO að fá sér, hugsaði ég.
Það væri einfalt og lítið mál að hlaða inn í tölvuna krstnum gildum sem nær allar NATO þjóðirnar eru sammála um (nema kannski Tyrkland).
Hviss, burr og niðurstaðan spýtist út.
Friður
Eða hvað haldið þið kæru vinir mínir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2018 | 12:35
Nú getur ekkert bjargað okkur nema sprengjan
Í vikunni sem leið hlustaði ég á mann gera tilraun til bremsa af umræðu um viðbrögð við meintri notkun eiturefna með því að segja að það væri barnalegt að vera á móti stríði.
Á meðan sprengjurnar falla og heilu borgirnar líta út eins og ruslahaugar ræðum við um hvernig best sé að flokka rusl. Það má. En Það er ekki ætlast til að við að ræðum stríð. Það á láta það öðrum eftir. Og framkvæmdina líka. Að sprengja. Þannig óhreinkum við okkur ekki.
Okkur, sem nær öll erum alin upp við hugmyndafræði kristninnar um að snúa hinni kinninni að, er ekki treyst til að hafa vit á því hvað sé skynsamlegt.
Engin er samt alveg rólegur. Allra síst nú þegar stórt frekt barn situr í forsæti þeirra sem hafa tekið að sér að gæta okkar.
Í gær hlustaði ég á leiklestur í Hannesarholti á leikriti Svövu Jakobsdóttur, Lokaæfing. Það var svo sannarlega rétta andrúmsloftið. Fjölskyldufaðirinn hafði komið sér upp fullkomnu úrræði til að lifa af í stríði. Hann og kona hans höfðu komið sér fyrir í neðanjarðarbyrgi, við í leikhúsinu fengum að fylgjast með þessari merkilegu tilraun, lokaæfingu. Reyndar læddist að manni sá grunur að þetta væri ekki bara æfing. Heldur dauðans alvara. Þegar lokasetnig leikverksins hljómaði fór hrollur um mann. Nú getur ekkert bjargað okkur nema sprengjan.
Áður hafði ég hlustað leikritið, Æskuvinir. Í því verki reifar Svava hættuna sem felst í því að framselja frelsi sitt og öryggi í hendur annarra.
Látum ekki þagga niður í okkur. Tökum ábyrgð á eigin gerðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2018 | 11:22
Langar bækur: Min Kamp og Ó, sögur um djöfulskap
Ég hef ekki á móti því að bækur séu langar. Þvert á móti. Ef þær eru góðar er það kostur. Ég er núna að lesa tvær langar bækur. Önnur er Min kamp eftir Karl Ove Knausgård. Ég hafði lesið þrjár fyrstu bækurnar áður en tók nú til við að lesa þær þrjár síðustu. Þessar bækur eru samtals 3769 blaðsíður en ég les ekki, ég hlusta á hana á norsku. Síðasta bókin tekur 47 klukkustundir og 37 mínútur í lestri og ég er stödd í henni miðri. Þetta er afar sérstök bók, annars væri ég ekki að lesa hana en ég mun geyma að tala um efni hennar þangað til ég hef lokið henni.
Einu sinni, það var áður en sjónin sveik mig, las ég Biblíuna frá upphafi til enda. Hún var 1347 blaðsíður fyrir utan Apókrífubækurnar, sem ég las líka. Ég leit á þetta sem verkefni og tók eitt ár til þess. Það var lærdómsríkt og gefandi.
Hin bókin Ó: sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen er líka löng, 40 klukkustundir og 54 mínútur í hlustun. Ég hef lesið hana áður svo ég veit að hverju ég geng. Satt best að segja finnst mér hún enn betri við endurlesturinn. Þetta er ekkert léttmeti. Ekki bara stundum, heldur oft, þarf ég að staldra við og lesa aftur. Það var því viss uppgötvun, fannst mér, þegar ég áttaði mig á því, að hér myndi passa vel að nota Eyrbyggjuaðferðina. En Eyrbyggja er mín uppáhalds fornsaga. Hún opnaðist fyrst fyrir mér þegar ég tók eftir því, að í raun eru þetta ekki ein saga heldur nokkrar sögur sem tengjast.
Ég skil Ó: sögur um djöfulskap betur nú, tek mér góðan tíma og er alveg tilbúin til að lesa hana einu sinni enn. Það er þess virði. Bókin sem er færeysk er þýdd á íslensku af Ingunni Ásdísardóttur, það er afrek, því textinn er svo margslunginn bæði hvað varðar orð, hugsun og tilfinningu. Þótt hún sé bæði gróf, grimm og oft átakanleg er hún líka ljóðræn og spaugileg. Í raun er þetta ein bók en hún er gefin út í tveimur bindum.
Ég les Min kamp á kvöldin og Ó:sögur um djöfulskap á morgnana áður en ég fer á færur. Þetta eru forréttindi konu sem er hætt að vinna. Er ekki lífið dásamlegt?
Eini ókosturinn við að lesa svona langar bækur, er að stundum fær maður samviskubit yfir því að fylgjast ekki með. Þær eru margar bækurnar sem bíða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2018 | 23:57
Æskuvinir Svövu Jakobsdóttur í Hannesarholt
Ég má til með að hafa orð á því, það er svo mikilvægt að hrósa því sem er vel gert. Það er sem sagt verið að leiklesa verk Svövu. Ég þekkti vel Hvað er í blýhólknum, það kom mér ekki á óvart. Ég sá það í áhugamannaleikhúsinu Grímu í Lindarbæ 1971 og man enn sum samtöl nokkurn veginn orðrétt. En ég hafði ekki séð Æskuvini og vissi ekki á hverju ég átti von. En fljótlega kannaðist ég við tímann og andrúmsloftið.
Loftið var lævi blandið. Kona sem er nýbúin að missa manninn situr uppi með gest sem gerir sig stöðugt meira heimakominn. Hún er óörugg og veit ekki hvernig hún á að taka á þessu. Þetta líktist aðstæðum í Leigjandanum en hér var gengið skrefi lengra. Alla leið. Þetta er sem sagt táknræn saga um hvernig einstaklingur eða þjóð felur sig verndara og missir frelsið sem átti að gæta.
Þetta verk var flutt í Iðnó á 80 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur og það duldist engum að það vísaði í pólitísk átök um herstöðvamálið og NATO. Ég man umræðuna þótt ég sæi ekki verkið. En á sunnudaginn þegar ég hlustaði á leiklestur á því, gerði ég mér grein fyrir að leikritið er mun flóknara. Svava skoðar hugtök eins og frelsi og sjálfstæði einnig út frá heimspekilegum og trúarlegum hugmyndum. En fyrst og fremst er þetta gott leikverk, það er beitt en um leið bæði fyndið og sorglegt.
Það er eitthvað við leiklestur sem hæfir mér sérstaklega vel. Leikarinn verður að koma texta höfundar til skila. Annað hefur hann ekki. Engin eða lítil hætta á nýjum túlkunum. Mér og leikhúsgestum er treyst fyrir því að túlka. Ég man en þegar ég hlustaði á skólafélaga mína í MA lesa Sköllóttu söngkonuna undir stjórn Karl Guðmundssonar leikara. Þetta kvöld breyttust allar hugmyndir mínar um list.
Leikhópurinn sem stendur á bak við leiklesturinn á þakkir skilið.
Bloggar | Breytt 10.4.2018 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 190336
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar