Saga Ástu: Jóm Kalman

F6DC77C8-3625-426D-BB09-D4D60537D32E

Jón Kalman er einn þeirra höfunda sem ég hef hvað mest dálæti á. Í fyrstu bókunum hreifst ég af tærum stíl hans, það var eins og að lesa ljóð. Fáir höfundar lýsa betur tilfinningum,von,  þrá og æðruleysi. Hann notar allan skalann, litróf tilfinninga, án væmni. Bækurnar eru sprottnar úríslenskum veruleika og ég tók eftir hversu vel honum lætur að lýsa venjulegu fólki. Fólkið hans á einmitt vonir og þrár sem eru ofar hversdagslegu striti, tilgangi lífsins.  

Ég hlakkaði til að lesa  Sögu Ástu, nú er hún búin enfólkið úr sögunni býr enn með mér. Þótt bókin fjalli um liðinn tíma, eru ekki á ferð svipir fortíðar, heldur sprelllifandi manneskjur. Þannig upplifi ég lesturinn. Eins og stundum áður tengist fólkið höfundi, sumt þeirra hef ég hitt áður í öðrum bókum. Bókin er sem  sagt að hluta til  byggð á fólki sem var til í raunveruleikanum, ekki uppdiktuð. Ég veit hver konan á bak við Ástu er. Nöfnum er breytt, atburðum hnikað til, en engu að síður get ég sem lesandi alltaf tengt. Bókin segir frá mínum samtíma, mínu samtíðarfólki.

Hugurinn þeytist milli sögunnar sem ég er að lesa og sögunnar sem ég hef sjálf búið til úrfrásögnum og því sem ég þekki sjálf til. Þetta truflar mig. Hvorri sögunni á ég að trúa, þeirri sem ég hef púslað saman eða þeirri sem birtist hér? Ég reyni að minna mig á að bókin er skáldskapur en fletti samt upp minningargreinum um fólkið sem ég veit að frásögnin byggir á.

Bókin er um Ástu, litlu stúlkuna, sem móðirin fór frá agnarsmárri, meðan faðirinn var á sjónum. Það var fyrir tilviljun að eldri koma heyrir barnsgrát og kemur til bjargar. Bókin fjallar  um móður hennar, Helgu sem er lífsglöð en gefst upp og fer. Og um föðurinn hinn sívinnandi Sigvalda,gæðablóðið, sem skilur ekki hvað er að gerast. Ásta dafnar eins og fífill í túni hjá fóstru sinni þangað til hún kemst á unglingsár, þá lendir hún í vandræðum með að fóta sig, hún skammast sín fyrir fátæklegt umhverfi sitt og fóstru sína. Hún er bráðgreind,uppreisnargjörn og leitandi. Hún er send í afskekkta sveit. Það er eins og nýr heimur gleypi hana. Þar kynnist hún ungum manni sem á eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar.Frásagan um sveitardvölina er snilld.

Ásta á eftir að menntast í mörgum löndum, einnig hún er lífsþyrst. 

Þetta er sterk saga og hún rígheldur í mann. Ég ætla ekki að rekja hana frekar hér  en víkja að vandkvæðum mínum við lesturinn.

Eftir að hafa nýlokið við að lesa Min kamp eftir Karl Ove Knausgård ætti ekki að standa í mér að lesa opinskáa frásögn sem byggir á lifandi  fólki. En þetta eru ólíkar frásagnir. Bók Knausgårds er um hann sjálfan, aðrir eru aukapersónur sem hann lýsir utanfrá. Í Sögu Ástu gerir höfundur fólki upp hugsanir, tilfinningar og athafnir. Í þessu tilviki fer höfundur hvað eftir annað með fólkið út fyrir þann velsæmisramma sem tíðkast hjá fólki, að minnsta kosti mér. Ég á erfitt með að lesa lýsingar á kynlífi, nema ef vera skyldi fræðsluefni. Auk þess breyta þessar frásagnir oftast litlu um atburðarás og hvað manni finnst um persónur. Og í raun eru jafnvel vönduðustu ástalífslýsingar jafn ófullkomnar í að skapa unaðkynlífsins og mataruppskriftir eru í að lýsa bragði .  En auðvitað er þetta hluti mannlegrar tilveru og ekki lítill.

Meðan ég gat enn lesið bækur í bókarformi, þurfti ekki að hlusta, fletti ég hratt í gegnum þessar lýsingar. Nú sit ég uppi með þær í fullri lengd. Auk þess skammast ég mín fyrir að vera svona pempíuleg. Nú hef ég sagt það.

Eins og lesendur mínir, sem lesa pistla mína um bækur vita, fjalla þeir um samband mitt við bækurnar sem ég les, þeir eru ekki ritdómar.

Sambönd er alltaf gagnkvæm.

Mér finnst Sögu Ástu ekki vera lokið og bíð eftir næstu bók

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 187197

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband