Færsluflokkur: Bloggar

Vályndi eftir Friðriku Benónýsdóttur: íslenskur veruleiki

B9B10A3E-B54A-4C9F-843C-C0CC8FEB7B6DÍslenskur veruleiki
Vályndi eftir Friðriku Benónýsdóttur er glæpasaga sem gerist á Húsavík. Það finnst látinn maður í gufubaði sundlaugarinnar og lát hans hefur ekki borið eðlilega að, heldur með saknæmum hætti. Kvöldið áður hafði hinn látni verið að skemmta sér með vinafólki sínu, í hjónaklíku sem djammaði mikið saman. Þau eru heimamenn og hafa þekkst lengi. Öll nema Róbert hinn látni sem var aðkomumaður að sunnan sem kemst inn í klíkuna í gegnum hina fallegu og hæfileikaríku Söndru. Strax í upphafi beinist rannsókn lögreglumannsins að þessum vinahópi. Það hafði komið til átaka milli Stefáns og Róberts. Við frekari athugun kemur í ljós að flestir ef ekki allir í þessum hópi áttu honum gjöf að gjalda, hann var ófyrirleitinn kvennaflagari og nú var svo komið að það voru ekki afbrýðisamir eiginmenn sem hugsuðu honum þegjandi þörfina, heldur eins víst að táldregnar konur hefðu séð í gegnum hann. En óvinsældir hins myrta náðu út fyrir vinahópinn. Róbert átti sér vafasama fortíð. Fyrir sunnan hafði hann verið fjáraflamaður, fyrirtækið fór á hausinn, bókhaldið var í ólagi og félagi hans til margra ára sat uppi með svindlið og þurfti að afplána fangelsisdóm. Slíkt svíður.


Þetta þarf hinn óreyndi Tómas að takast á við og ekki bætir úr skák að hann treystir samstarfsmönnum sínu ekki í löggunni fyllilega, óttast að þeir séu flæktir í eitthvað ólöglegt og auk þess er hann aðkomumaðurinn settur yfir þá. Allt er þetta mjög klassískt.
Það er mikið spilað á ríginn sem er á milli dreifbýlis og þéttbýlis.
Það sem mér fannst svolítið erfitt við lestur þessarar sögu, var að henda reiður á þessari sögu var að henda reiður á klíkunni, hver var giftur hverjum og hver svaf hjá hverjum. Öll sögðu þau ósatt svo Tómas þurfti að fara margar umferðir og alltaf kom eitthvað nýtt í ljós. Mér var farið að leiðast þessi klíka og langaði til að sjá meira af Húsavík. Eftir alltof marga hringi í klíkunni, leystist málið en þó ekki eins og Tómas hefði viljað. En hann gat á vissan hátt sjálfum sér um kennt. Hann yfirgefur staðinn og spilar Skálmöld á fullu.
Þegar ég frétti af þessari bók á sínum tíma og að hún gerðist á Húsavík, datt mér helst í hug að hér væri á ferðinni pólitísk saga um átök milli erlendra stóriðjuburgeisa og náttúruverndarsinna. Nei aldeilis ekki, Bakki var hvergi nefndur á nafn og þaðan af síður nokkur burgeis eða náttúruverndarsinni. Þess í stað mallaði glæpurinn í litlum hópi fólks sem átti einungis sameiginlega tilfinninguna um að lífið sé runnið úr greipum þess og vill bæta sér það upp með drykkju og kynlífi.
Ég skil vel að Tómas setji á Skálmöld og er sjálfa farið að langa til að hlusta á Jón Leifs. Mest langar mig til að ganga á hið lúpínuvaxna Húsavíkurfjall í annað sinn og njóta víðáttunnar sem við blasir.


Þegar ég les yfir það sem ég hef skrifað, finnst mér það geðvonskulegt. Ég hef látið vinaklíkuna fara allt of mikið í taugarnar á mér. Sannleikurinn er að bókin er spennandi. Gamaldags glæpasaga þar sem frásögnin fer í hringi og tekur u- beygjur. Þetta er íslenskur veruleiki og það gerir mann viðkvæmari en ef þetta væri ensk yfirstétt á bökkum Nílar. Gallinn við bókina að mínu mati er að hún gæti gerst hvar sem er á Íslandi. Húsavík verður svolítið út undan.


Líf í tónum: Ævisaga Jóns Leifs eftir Árna Heimi Ingólfsson

 1D75EF1E-CC15-43FE-AAF6-22C8EA7994AE

Líf í tónum

Loksins hef ég lokið við bók Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs, Líf í tónum. Hún kom út 2009. Hún var keypt á heimilið sama ár en ég lagði hreint ekki í hana. Hún er í stóru broti, 368 síður, auk tilvísana, heimildaskrár, tónverkaskrár og fleiri skráa. Og svo voru augun farin að gefa sig. 
Tíminn leið. Þegar ég sá að það var búið að lesa bókina inn hjá Hljóðbókasafni Íslands, lét ég verða af því. Ég var forvitin um þennan mann sem ég hef heyrt svo margar misjafnar sögur um.


Bókin hreif mig þegar í upphafi. Þetta er klassísk ævisaga. Hefst á því að segja frá ætt og uppruna, föðurættin að norðan, úr Austur-Húnavatnssýslu og móðurættin að vestan, frá Reykhólum. Stöndugt og vel þokkað fólk. Jón fæddist á Sólheimum í Svínavatnshreppi 1899 en fjölskyldan flutti suður ári síðar til Reykjavíkur og þar ólst hann upp í stórum barnaskara. Hann lagði stund á tónslistarnám og fann að framtíð hans lá þar. Sótti um nám í tónlistarháskólanum í Leipzig og hóf nám þar 1916. Þar, lærði hann og lagði grunninn að lífi sínu sem tónlistarmanns og persónu.

Árni Heimir lýsir þessu öllu undur vel. En hann lýsir ekki bara Jóni og lífi hans, hann lýsir um leið samfélaginu sem mótaði hann, fyrst á Íslandi, síðar í Þýskalandi. Bókin er því allt í senn, ævisaga þessa undarlega manns, tónlistar – og menningarsaga þessa umbrotatíma.
Árni Heimir fjallar ítarlega um tilurð verka hans og hvað vakti fyrir höfundi. Það kom mér á óvart, hversu vel mér gekk, ótónlistarlærðri manneskjunni, að fylgja honum. Fyrir þá sem meira kunna er bókin eflaust enn meira gefandi. Ég ætla ekki að rekja efni sögunnar frekar hér.
Jón var umdeildur maður á sínum tíma og eftir að hafa lesið þessa bók skil ég vel hvers vegna. Árni Heimir er hreinskilinn um galla hans og reynir hvorki að afsaka hann eða áfellast. Þegar mér ofbauð drambið og frekjan hugsaði ég ósjálfrátt um sambandið á milli listamanns og verka hans. Jón Leif er ekki eini listamaðurinn sem kveikir þá tilfinningu hjá manni að langa ekki til að hafa hann nærri sér, þótt hann hafiskapað falleg verk.


Bókin kveikti í mér. Ég er búin að taka fram það sem til er á heimilinu af tónlist Jón Leifs og ég er búin að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja Eddu ll í Hörpu . Í gær skoðaði ég litla sýningu un Jón Leifs í Þjóðarbókhlöðunni. Hvar endar þetta?


Ég hef lært að hlusta betur og nú veit ég að maður áekki að láta verkin líða fyrir skapara sinn.


Þessi bók skilur mikið eftir og mig langar í lokin til að hrósa Árna Heimi fyrir hve vel honum tekst að koma flóknu efni til skila.


Mannsævi: Robert Seethaler

3BCEA2C7-5C52-4A69-9CBF-2C80B5D5005D

 

Nú er er komið að því sem er leiðinlegast af öllu. Að segja frá bók sem ég náði ekki almennilega sambandi við. Ætti ég ekki bara að sleppa því? Nei, hugsa ég,þá er grundvöllurinn hruninn. Var ekki tilgangur skrifanna og að setja þær á netið að kryfja bækurnar sem þú lest? Ég verð að segja sannleikann hugsa ég, eins og alkóhólisti á AA fundi. Svona tek ég mig alvarlega.


Bókin Mannsævi eftir Robert Seethaler (f. 1966). Þetta er lítil saga. Hún rekur ævi Egger, sem kemur sem barn til fjallaþorps í Ölpunum um aldamótin og elst þar upp við slæmt atlæti. Afar slæmt. Hann dvelur í þessu þorpi til æviloka, þó með þeirri undantekningu, að hann fer sem hermaður í seinni heimsstyrjöldinni til Sovétríkjanna. Hann hafði heima í þorpinu unnið sem sprengju- og fjallaklifurmaður, í stríðinu í Kákasus reyndi á þessa hæfileika. En stríð hans verður ekki langt, einungis tveir mánuðir. Hann er tekinn til fanga og síðar sendur í vinnubúðir, Gúlag. Hann er alls átta ár í Sovét. Heimkominn að stríðinu og fangavistinni lokinni,vill hann taka til þar sem frá var horfið. Hann sækir um vinnu hjá fyrirtækinu sem hann vann hjá. Það olli straumhvörfum þegar það kom til þorpsins á sínum tíma en tímarnir hafa breyst. Hans er ekki þörf svo hann gerðist fjallaleiðsögumaður
Fyrir stríð upplifði Egger ástina. Hún var skammvinn því aurskriða sem féll úr fjöllunum svipti burt ástinni, heimili hans og jarðarskika sem hann hafði keypt. Allt í einum vettvangi.


Egger fæðist og deyr sem einstæðingur. Ég sé, af því að ég hef lesið mér til um höfundinn og bókina að hann fær hrós fyrir hversu vel honum tekst að láta lífshlaup eins manns á spegla framvindu 20. aldarinnar í Evrópu. Ég læt mér fátt um og finnst. Flestar vel skrifaðar bækur spegla aldarhátt, hann er sögusvið lífs og atburða. En mikið er þessi heimur ólíkur þeim sem Stefán Zweig lýsir í Veröld sem var. Öll berum við okkar heim inni okkur. Virðumst með hann. 


Þetta er lítil bók, nóvella. Hún er fallega fágengin en hreif mig ekki. Ég trúi ekki því sem sagt er, það snertir mig ekki og ég hef velt fyrir mér hvers vegna. Er flensan enn að skrattast í mér? Bókin er vinsældabók (best seller) svo mér finnst að ég þurfi að vita af hverju ég dáist ekki að henni líka.


Ég held að það hafi með flöktandi sjónarhorn frásagnarinnar að gera. Stundum tjáir sögumaður innsta hug og minningar Eggers, aðalpersónu sögunnar, nánast eins og hann segi sjálfur frá. En samtímis lýsir hann honum utanfrá eins og hann sé vitni að því sem gerist. Þá minnir frásögnin mig á sögur okkar af kynlegum kvistum.
Þetta flökt á staðsetningu gerir mig sjóveika.


Lokaorð
Þegar ég næ ekki sambandi við bók sem allir hrósa, sit ég uppi með tilfinninguna að það sé eitthvað að mér. Þess vegna þessi pistill.


Framtak eða frekja?

C909AB31-C287-45D4-B41E-05D646ADF4C8

Eitt af því sem ég geri mér til gleði og heilsubótar er að fara í sund. Ég hef komið mér upp fastri rútínu sem ég fylgi stíft. Það er þægilegast þannig.

Fyrst syndi ég skylduna, 200 m. Með blandaðri aðferð. Síðan dvel ég í nuddpottinum og læt hitann og nuddið vinna á stífum vöðvum. Svo tutt loftbað. Þá fer ég í heitasta pottinn og ef enginn er í pottinum, læt ég mig fljóta á bakinu og horfi á himininn. Þetta er toppurinn á sundferðinni en honum fylgir sá óvissuþáttur, að ef einhver kemur í pottinn, verð ég að hætta. Loks fer ég í loftbað eða sólbað eftir aðstæðum. Sundferðinni lýk ég svo með því að fara í eimbað.

Í tvígang hefur það gerst, nú í síðustu sundferðum, að þegar ég er búin að koma mér fyrir í gufunni, að inn kemur einn og sami maðurinn og  án þess að spyrja nokkurn, fiktað hann við hitaútblasturinn með  þeim afleiðingum að hitinn snarhækkar.  Þetta er eitthvert trix sem ég kann ekki. Laks dæsir karlinn harla ánægður með sig. 

Ég fyrir mitt leyti vil helst ekki hafa baðið mjög heitt, svo þetta styttir dvöl mína og ruglar rútínuna sem mér finnst svo þægileg.

Þetta er ekki stórt mál og alls ekki vandamál. En ég velti fyrir mér hvort þessi hegðun mannsins væri sprottin af frekju eða framtaksemi. 

Kannski fer þetta tvennt saman. 

 

 


Töfraveröld Heinesen: Vonin blíð og Glataðir snillingar

 

C43D119C-0F4D-44BD-AFCB-1FD14D84E6ABHeinesen er höfundur sem maður getur lesið aftur og aftur. Alltaf eitthvert nýtt sjónarhor.
Í þetta skipti var það lestrarfélagið mitt sem bar ábyrgð á valinu(ég kýs að orða það svo, bókaklúbbur er leiðinlegt orð). Fyrst lásum við Vonin blíð, síðan Glataðir snillingar. Ég hafði lesið þær báðar áður.

Vonin blíð

Vonin blíð er 17. aldar saga, sem segir frá prestinum og húmanistanum Peder Börresen og átökum hans við spillt og grimm yfirvöld.Fulltrúi þeirra er Gabel lénsherra. Báðir þessir menn eiga sér fyrirmyndir, höfundur breytir nöfnum, endurskapar tíðarandann og vekur til lífs fjöldann allan af persónum. Þetta er sem sagt söguleg skáldsaga sem byggir á raunverulegum atburðum.

Frásögnin er í bréfformi, presturinn skrifar starfsbróður sínum, Jónasi í Noregi bréf, þar sem hann rekur það sem á daga hans drífur um leið og hann léttir á hjarta sínu. Jafnframt er hann að gera skýrslu, sem hann hyggst senda til yfirvalda um ástandið í Færeyjum. Það er mikið sem mæðir á Peder Börresen. Hann er breyskur maður og lýsingin sem hann gefur af sjálfum sér er engin hetjulýsing. En samúð hans er með lítilmagnanum og hann er þess fullviss að réttlætið sé hans megin.
En það er ekki bara erlent vald við að eiga. Átakalínan í Færeyjum þessa tíma liggur ekki bara á milli erlends valds og heimamanna. Þéttbýlismyndun er hafin og innlendir höfðingjar standa saman, þeim stendur ógn af fátæklingum, sem eru þeim óháðir. Íslenskar hliðstæður í tíma eru Jón lærðu. Morðin/aftakan á skipbrotsmönnunum, minnir óneitanlega á Spánverjavígin. Stundum hvarflaði hugurinn til Íslandsklukkunnar.


Ein ástæðan fyrir því að ég var spennt fyrir því að lesa þessa bók aftur, var hugsun sem kviknaði þegar ég las bók Kim Leine um spámennina í Botnleysufirði. Í báðum bókunum er aðalpersóna guðsmaður sem tekur að sér starf í ókunnu landi og verður vitni að misbeitingu valds. Ég velti fyrir mér hvort Vonin blíð, væri e.t.v. fyrirmynd Kim Leine.
Ekki ekki treysti ég mér mér til að segja neitt um það en efnistök þessara tveggja manna eru ólík.

Þessar vangaveltur mínar gerðu kröfu um að ég endurlæsi Spámennina. En það gaf mér ekki sömu ánægju og að lesa Vonin blíð. Svo ég afréð að hraðspólaða í gegnum hana en það get ég gert af því ég er með hana sem hljóðbók. Þetta geri ég yfirleitt ekki, finnst það óvirðing við góða lesara.


En skoðanir eru til að breyta þeim. Nú finnst mér hraðspólun sambærileg við að fletta í gegnum bók, sem ég gerði oft og gjarnan áður en sjónin sveik mig.


Glataðir snillingar
Glataðir snillingar er bók sem hægt er að lesa oft og hún á alltaf við. Hún lyftir andanum, gleður og sættir mann við lífið. Allt í senn. Hún segir frá sonum Kornelíusar kirkjuvarðar sem hafði smíðað vindhörpur, þeir heita Márus, Síríus og Kornelíus yngri. Þeir eru allir snillingar, ást á tónlist er þeim í blóð borin og þeir laða að sér fólk sem er sama sinnis og e.t.v. einnig fólk sem á ekki í önnur hún að venda. Andstæða snillinganna eru heittrúaðir vandlætarar með Ankersen í fararbroddi. Þeir berjast í orði gegn drykkjuskap. Í raun eru þeir á móti allri lífsgleði. Persónur þessarar bókar eru ógleymanlegar og verða vinir manns út lífið.


Vangaveltur
Ég ætla ekki að rekja söguna hér. Í staðinn ætla ég að víkja að grufli mínu við að skilja þýðingarsögu bókarinnar. Bókin sem ég las, á sínum tíma hét Slagur vindhörpunnar. Hún kom út 1956 og var þýdd af Guðfinnu Þorsteinsdóttur (Erlu skáldkonu). Bókin sem ég hlustaði á nú heitir Glataðir snillingar. Hún er í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar og kom út 1984. Ég velti fyrir mér af hverju Þorgeir valdi að endurþýða hana. Nú er ég ekki svo minnug að ég geti borið þessar þýðingar saman, of langur tími hefur liðið. En mér dettur að Guðfinna fari frjálslegar með textann, að Þorgeir sé nær danska textanum. Til þess bendir val á titli, en bókin heitir á dönsku Det blide håb. Ég sé líka að viðurnefni og staðarnöfnum eru önnur.
En það er ekki á færi nú að finna út úr þessu en mér sárnar hálfpartinn fyrir hönd Guðfinnu.
Þýðingar- og útgáfusaga hinnar blíðu vonar er enn flóknari. Magnús Jochumsson og Elías Mar eru skráðir fyrir þýðingu bókarinnar sem ég var að hlusta á (kom út 1970) en Elías Mar er einn skráður þýðandi að bókinni sem ég á hér uppi í hillu.
Þetta ósamræmi ergir mig. Ég veit að því fyrr sem ég sleppi þessum þræði ergelsis, því betra. Nógar eru bækurnar að lesa, nýjar og gamlar.
Meðan ég var að lesa Snillingana, hvarflaði allt í einu að mér að það liggja sterkir þræðir milli Car Jóhan Jensen í Ó: sögur um djöfulskap og snillinga Heinesen. Þetta þarf ég að skoða betur.

Töfrar 
Já það eru einhverjir töfrar í gangi varðandi Heinesen. Þegar ég kom við í Norræna húsinu um daginn, til að skila bókum, blasti við mér bók sem heitir William Heinesen myndlistamaður. Þetta er bók á færeysku með ljósmyndum af verkum hans. Dásamlega falleg.
 


Eyjan undir sjónum: Ísabella Allende

C6B198FF-C40F-482B-A315-D99D85A8027A

Þegar ég tók eftir hvað það er langt síðan ég hef lesið bók eftir Ísabellu Allende, ákvað ég að bæta úr því. Ég fann bókina Eyjan undir sjónum á Hljóðbókasafninu og hófst handa.
Bókin fjallar um þrælahald og líf þræla og eigenda þeirra. Hún hefst á eyjunni Saint-Domingue í kringum 1770. Á þeim tíma skiptist eyjan á milli Frakka og Spánverja.
Fjölmargar persónur koma við sögu. Lífinu á þessari fyrrum nýlendu Frakka er lýst annars vegar út frá sjónarhorni “frjálsra” ellegar þræla, en það leynir sér ekki hvar samúð höfundar liggur.


Í aðdraganda frönsku byltingarinnar, fer Toulouse Valmorain, frjálslyndur Frakki til eyjarinnar,faðir hans, sem rekur plantekrur fjölskyldunnar, liggur veikur. Hann ætlar ekki að staldra lengi við, einungis hjálpa föður sínum í veikindum hans. En örlögin haga því á annan veg. Faðir hans deyr og hann tekur við plantekrunni.Hann lítur á þrælahald sem illa nauðsyn en trúir því að að það sé hægt að gera það mannúðlegt.Líklega sami hugsunarháttur og að vera góður við dýrin sem við borðum.


Aðalpersóna sögunnar er þó Zarité, sem hann kaupir handa konunni sinni þegar hann giftist. Hún er kynblendingur, dóttir afrískrar konu og einhvers sjóara á skipinu sem flutti hana til nýja landsins. Örlög þeirra eiga eftir að tvinnast saman, þó ekki með hennar vilja.
Bókin segir frá örlögum fjölda fólks. Persónur eru vel dregnar, þær eru margar eftirminnilegar.Ísabella Allende á létt með að spinna söguþráð sem rígheldur lesanda sínum. bókinni er mál málanna á þessum tíma, þrælahald, í forgrunni. Ég fræddist mikið. Og í lýsingum Allende er lesandanum ekki hlíft, það er átakanlegt að fylgjast með grimmdarverkunum á báða bóga. Þrælarnir gerðu ekki bara uppreisn heldur byltingu og til varð ríki svartra, Haiti. 

Eftir að þrælarnir gera uppreisn, flýr Toulouse Valmorain til Kúbu. Það var ambáttin Zarité sem gerði honum það kleyft, hún vildi bjarga börnunum, annað barnið hafði hún fóstrað fyrir hann hitt áttu þau saman. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra en ósjálfrátt hvarflar hugurinn til þess hvað var að gerast á okkar köldu eyju. Björn Halldórsson var búinn að koma sér upp kartöflugarði og þjóðin glímdi við óblíða náttúru og sendi bænabréf til kóngsins í Kaupmannahöfn en við vorum frjáls, eða hvað.Þessi saga er til um Björn. 

Björn og gapastokkurinn 

Sagt er að séra Björn hafi verið bæði siðavandur og refsingasamur og setti sóknarbörn sín stundum í gapastokk. Vinnumaður var þar í sókninni er Guðbrandur hét, fremur fávís. Var það eitt sinn er hann bar húsbónda sinn af skipi, er þeir komu úr fiskróðri, að hann sagði þá er hann setti hann af sér, því að honum þótti byrðin þung: „Mikil bölvuð þyngsli eru á líkamanum á þér, Jón“! Þá er bóndi kom til kirkju næsta sunnudag á eftir, sagði hann prófasti frá þessu, en honum þóttu ummælin svo óhæfileg, að hann lét setja Guðbrand í gapastokk um messuna fyrir þetta.

Kannski er þessi bók hálfgerð sápa en ólíkt öðrum sápum skilur hún mikið eftir og var kærkomið tilefni til að rifja upp söguna. Og það var margt nýtt sem ég lærði af þessum lestri. Sérstaklega fannst mér merkilegt hvernig Ísabella leggur sig fram um að lýsa menningunni sem ófrjálsa fólkið kom með sér, trúarbrögðum og lækningum.


Yrsa Þöll Gylfadóttir, Móðurlíf, blönduð tækni

B8199544-0399-47D4-8540-DD22BF82D571

Þegar ég frétti að von væri á bók frá Yrsu Þöll, varð ég spennt. Ég las Tregðulögmálið sem kom út 2010 og líkaði hún vel. Þarna var greinilega pælari á ferð, ung kona sem,vill skoða stöðuna í nútímanum í ljósi feminiskra fræða og gilda. Þannig er þetta í minningunni. Síðan eru átta ár.

Móðurlíf
Eftir að hafa hlustað á kynningu á bókinni í Kiljunni og á Yrsu Þöll sjálfa lesa úr henni á bókarkynningu hjá MFÍK, fannst mér ég vera vel undir lesturinn búin. Ég beið þolinmóð eftir að hún væri lesin inn sem hljóðbók hjá hbs. Það er nefnilega betra að vera þolinmóður ef maður stríðir við þá fötlun að geta ekki lengur lesið sjálf.


Yrsa les bókina sjálf og hún er glettilega góður lesari.
Ég átti von á bók um konu sem er að glíma við að fá hið erfiða dæmi, að vera í senn listakona, móðir og eiginkona, til að ganga upp. Bók eitthvað í líkingu við Dísu Mjöll eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur frá 1953. Dísa Mjöll er myndlistarkona en ég skildi að Þórunn var að skrifa um eigin stöðu. Frábær bók. Dæmið gekk ekki upp hjá Dísu Mjöll.


Aðalpersónan í bók Yrsu er Kamilla, dóttir framsæknu listakonunnar Sirríar. Listakona sem setti svip á listalífið á síðari hluta 20. aldar er nú látin fyrir 15 árum. Sirrí var umdeild á sínum tíma, bæði fyrir list sína og líferni. Nú hefur listaheimurinn enduruppgötvað hana og ætlar að setja upp sýningu á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjórinn Þórey, leitar til Kamillu um að vera sér innar handar. Reyndar leitar hún líka til bróður síns Ágústs en hann er bitur út í móður sína, finnst hún hafa svikið fjölskylduna og vill ekki koma nálægt þessu.
Kamilla, aftur á móti, sér þetta sem tækifæri til að kynnast móðurinni sem hún þekkti svo lítið og slær til.


Hún hefur tíma, eina barnið, drengur, næstum fluttur að heiman til kærustu. Kamilla lifir átakalitlu lífi. Hún er menntuð söngkona en andstætt móður sinni, sættir hún sig við að vera ekki að umbylta list sinni og keppa við þá bestu. Hún vinnur fyrir sér með því að syngja við jarðarfarir og taka að sér smærri verkefni.Þegar kemur í ljós að lítið er vitað um árin sem Sirrí var í Ameríku við nám, tekur Kamilla að sér að skoða þann þátt í lífi móður sinnar. Þetta verkefni á eftir að vinda upp á sig. En ég ætla ekki að rekja þráð sögunnarlengra. Endirinn verður að fá að koma á óvart.

Þessi bók leynir á sér. Hún er lágstemmd, frásögnin byggir á innra samtali Kamillu, hún er að ráða ráðum sínum. Hvað eftir annað er vikið að stöðu listarinnar í samfélaginu, spennunni sem myndast við kröfuna um að list sé í senn sígild og í stöðugri endurskoðun. Krafan um að skapa og rífa niður getur virst óleysanleg mótsetning. Kannski á þetta eitthvað skylt við klemmuna sem Kamilla er búin að koma sér í, hún vill greinilega forðast að feta í spor móður sinnar. Kamilla tekur ekki áhættu og reynir í lengstu lög að taka ekki afstöðu til móður sinnar, slétta úr misfellum og vera sátt. En sannleikurinn vitjar hennar.
Og hvað gerir Kamilla þá?


Brotamynd

00993209-7CE2-49C0-9F82-299A8FBCF76A

Brotamynd
Stundum tekur fræðimaðurinn Ármann Jakobsson sig til og semur „venjulegar“ bækur. Ég hef lesið Vonarstræti, Glæsi og Síðasti galdrameistarinn, sem er barnabók. Þessar bækur eru hver með sínu móti svo það er í raun erfitt að festa fingur á hvers konar höfundur Ármann Jakobsson er. Það hefði því ekki átt að koma mér á óvart að sagan Brotamynd væri sérstök bók. Ég held að ég hafi verið að vona að hún líktist Vonarstræti.
Ung blaðakona, fær það verkefni að skrifa bók um hina róttæku Herdísi Pálsdóttur sem hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum og er nú látin. Það sem virðist hafa kveikt hugmynd ritstjórans sem úthlutaði blaðakonunni ungu verkefninu að skrifa ævisöguna, er það undarlega uppátæki Herdísar er að hún arfleiðir vandalausan bandarískan ungling. Þetta vakti forvitni, því enginn vissi hvernig þau tengdust.
Blaðakonan sem er menntuð í þjóðfræði, tekur verkið að sér og hefst handa við að taka viðtöl við fólk sem þekkti Herdísi vel.
Og ég sem kunni svo vel við Vonarstræti bíð spennt eftir ævisögunni sem svarar ekki bara spurningunni um arfinn, heldur færi mér heillega mynd af þessari merkilegu konu.
Ég varð fyrir vonbrigðum, í hverju viðtali sem blaðakonan tekur, birtist ný kona. Og blaðakonan sem tekur að sér þetta gæluverkefni ritstjórans, er full efasemda. Hana langar til að skilja þessa konu, sjá heiminn með hennar augum og finna hvernig henni leið,vera hún, þó það væri bara andartak.
Smám saman geri ég mér grein fyrir að þetta er alls ekki ævisaga, þetta er saga um að skrifa slíka sögu. Blaðakonan og viðmælendur hennar eru ekki síður söguefni og e.t.v. forsenda þessa að skilja það sem þau hafa að segja. Blaðakonan efast margoft um að það sé yfirleitt hægt.
Loks var ég komin þangað í lestrinum að ég hafði ekki síður áhuga á þessari ungu konu, sem var frökk á yfirborðinu og tjáði sig á twitter (sem ég kann ekki) en undirniðri var hún óörugg og sjálfsmyndin í molum.
Hún er einhver konar táknmynd nútímakonu, sem er búin að sigra karlmennina og heiminn en stendur á berangri, þar sem ekkert skjól er í sjónmáli. Mig langar mikið til að henni lukkist með verkefnið, því það myndi styrkja hana, minnka óöryggið. Kannski getur hún þá hætt að láta ömmu sína fara í taugarnar á sér. En amman er líklega eina manneskjan sem elskar hana í raun. Mér finnst amman líka áhugaverð og finnst eins og ég kannist við hana. Aftur á móti hef ég hina mestu skömm á ritstjóranum og vona að hún losi sig sem fyrst við hann út úr lífi sínu.
Þetta eru sem sagt margar sögur og lesandinn situr uppi með að hafa látið plata sig. Eða sættir sig við að hafa fengið verðuga lexíu, áminningu um að það er ógjörningur að íklæðast hugsunum annarra. Hvað þá tilfinningum.
Síðasti kaflinn gefur mér þó von. Mér finnst sem blaðakonan sé í þann veginn að ná utan um verkefni sitt. Í þessum kafla er hún allt í einu hætt að vera miðpunktur. Í staðinn er sagt frá gamalli konu sem tekur strætó í Mjóddinni. Hún er komin á þann aldur að það tekur enginn eftir henni.

Lokaorð og líklega aukaatriði

Umræða um kynlíf í bókinni fór í taugarnar á mér. Það var opið og um leið yfirborðslegt. Það er sjálfsagt engin tilviljun að það er á þann veg, það er dæmigert fyrir yfirborðslegt líf ungu konunnar sem lengst af er í forgrunni. Ég þoli klám ömmunnar betur, hún minnir mig á ónefndar frænkur mínar. Reyndar snerti þetta mig svo lítið að þetta hefðu alveg eins verið lýsingar á krossfit. 


Flensu lestur: Leif G.W. Persson

 

imageÞað væri illa farið með góðar bókmenntir að lesa þær meðan flensan herjar. En eitthvað verður maður að lesa til að hafa ofan af fyrir sér og það verður að vera krassandi til fanga hug manns svo maður hætti að vorkenna sjálfum sér.
Kan man dö tvo gånger (2016) eftir Leif G.W.Persson var rétta bókin.
Þetta er ein af bókum Perssons með Bäckström lögregluforingja í aðalhlutverki.

Bäckström lögregluforingi, er afar ógeðfelld persóna.
Hann kallar besefann á sér súpersalami,annast um hann eins kæran félaga.
Hann er gjörspilltur og hikar ekki við að misnota aðstöðu sína þegar færi gefst, hann er húðlatur og ekki treystandi fyrir horn. Þá sjaldan sem Bäckström mætir í vinnuna býr eitthvað einkahagsmunalegt undir. En hann, það er að segja teymi, sem hann stýrir skorar hátt í því að leysa morðmál.


Það er nefnilega eitt í sambandi við afspyrnulélega yfirmenn sem allt of lítill gaumur er gefinn. Einmitt vegna þess að þeir eru óhæfir um að stjórna, spretta fram duglegir starfsmenn og oft snillingar. Þeir gera það sem þarf og á endanum situr yfirmaðurinn uppi með heiðurinn og fagnar.

Bókin hefst á því að granni hans, litli Edvin hringir á dyrabjöllunni og leitar ráða hjá honum. Hann hefur fundið hauskúpu á lítilli ey í Mälaren.Viðkomandi hefur verið skotinn. Með nútíma rannsóknartækni tekst að finna DNA en vandinn er að sú, þetta er kona fórst á Tælandi í Suami flóðbylgjunni, lík hennar fannst og var brennt. Það vaknar því spurningin, er hægt að deyja tvisvar. Hið góða rannsóknarteymi Bäckström fer á fullt.
Þessi saga er eins og kennslubók í rannsóknarvinnu. Hvað er hægt að sanna og afsanna. Person er þarna á heimavelli því hann er menntaður afbrotafræðingur og prófessor með meiru.
Það þarf sjálfsagt ekki að taka það fram, að auðvitað deyr maður bara einu sinni.
Það er gaman fyrir Svíavini að lesa bækur Leifs G.W. Persson. Hann skrifar gullaldarsænsku er bæði ósvífinn og kaldhæðinn.


Þó ég hafi hina mestu skömm á Bäckström lögregluforingja, hef ég lúmskt gaman af því þegar sagt er frá matarvali hans. Hann er hinn mesti sælkeri og raðar í sig alls konar lostæti. Lesandinn fær vatn í munninn. Þetta er engin Hemsley- systra eldamennska!



Úti að aka

8E154B6D-EF94-44E4-9654-A5D09F0FB1B3

Eg er búin að liggja í flensu en veikindin sitja enn í mér. Mér finnst allur matur smakkast eins og tveggja daga kaldur hafragrautur, drykkir eins og upppvottavatn, bækur sem ég les óáhugaverðar og öll umræða í fjölmiðlum óhemjuvitlaus. 

Ég ætla að tala um fjölmiðlaumræðu. Ég held að það sé nú búið að ræða um aksturskostnað þingmanna á fimmtu viku og enn er það aðalfrétt. Umræða um heilbrigðismál hefur eins og gufað upp ef undan er skilin umræða um umskurn sveinbarna, sem við fáum fréttir af í hverjum fréttatíma. Jarðskjálftar á Skjálfanda gefa smávon um tilbreytingu en engum, ekki einum einasta, dettur í hug að spyrja út í hvort það hafi ekki verið mistök að leggja út í uppbyggingu stóriðju á Bakka. Hvað þá um hvort þessar hræringar gætu sett strik í reikninginn.  Það er eins og það hafi slokknað á hugsuninni. Mér sýnist að bilunin sé víðtæk.

Er það út af flensunni sem mér finnst allt ömurlegt? Einu sinni í gamla daga, meðan veröldin fékk enn að vera dularfull, las ég um það, að ástæðan fyrir því að Agatha Christie týndist um skeið, hvarf, hafi verið að hún þjáðist af þunglyndi eftir slæma inflúensu. Ég trúi þessu vel núna, þótt það hafi reyndar komið fram aðrar skýringar.

Það eina sem hefur glatt mig í veikindum mínum er grein Pavels Brtoszek Einföld lausn á  umferðarvandanum í Fréttablaðinu um vannýtta vegi og vegslóða. Hún er reyndar svo skemmtileg að ég hlæ innvortis, gleðst, í hvert skipti sem ég hugsa um hana. Það besta við þessa grein var þó að hann minntist ekki á akstur alþingismanna og nefndi ekki Ásmund Friðriksson á nafn. 

Flensan er búin og nú veit  ég ekki hvort ólyst mín á mat og óánægja mín með innihaldsleysi frétta séu eftirköst eða raunveruleiki. Ég bíð eftir því að ýtt verði á rofann sem stýrir því að þjóðin hugsi. Að kerfið fari í gang. 

Dökkur dill. Mynduna tók höfundur 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 190332

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband