Vályndi eftir Friðriku Benónýsdóttur: íslenskur veruleiki

B9B10A3E-B54A-4C9F-843C-C0CC8FEB7B6DÍslenskur veruleiki
Vályndi eftir Friðriku Benónýsdóttur er glæpasaga sem gerist á Húsavík. Það finnst látinn maður í gufubaði sundlaugarinnar og lát hans hefur ekki borið eðlilega að, heldur með saknæmum hætti. Kvöldið áður hafði hinn látni verið að skemmta sér með vinafólki sínu, í hjónaklíku sem djammaði mikið saman. Þau eru heimamenn og hafa þekkst lengi. Öll nema Róbert hinn látni sem var aðkomumaður að sunnan sem kemst inn í klíkuna í gegnum hina fallegu og hæfileikaríku Söndru. Strax í upphafi beinist rannsókn lögreglumannsins að þessum vinahópi. Það hafði komið til átaka milli Stefáns og Róberts. Við frekari athugun kemur í ljós að flestir ef ekki allir í þessum hópi áttu honum gjöf að gjalda, hann var ófyrirleitinn kvennaflagari og nú var svo komið að það voru ekki afbrýðisamir eiginmenn sem hugsuðu honum þegjandi þörfina, heldur eins víst að táldregnar konur hefðu séð í gegnum hann. En óvinsældir hins myrta náðu út fyrir vinahópinn. Róbert átti sér vafasama fortíð. Fyrir sunnan hafði hann verið fjáraflamaður, fyrirtækið fór á hausinn, bókhaldið var í ólagi og félagi hans til margra ára sat uppi með svindlið og þurfti að afplána fangelsisdóm. Slíkt svíður.


Þetta þarf hinn óreyndi Tómas að takast á við og ekki bætir úr skák að hann treystir samstarfsmönnum sínu ekki í löggunni fyllilega, óttast að þeir séu flæktir í eitthvað ólöglegt og auk þess er hann aðkomumaðurinn settur yfir þá. Allt er þetta mjög klassískt.
Það er mikið spilað á ríginn sem er á milli dreifbýlis og þéttbýlis.
Það sem mér fannst svolítið erfitt við lestur þessarar sögu, var að henda reiður á þessari sögu var að henda reiður á klíkunni, hver var giftur hverjum og hver svaf hjá hverjum. Öll sögðu þau ósatt svo Tómas þurfti að fara margar umferðir og alltaf kom eitthvað nýtt í ljós. Mér var farið að leiðast þessi klíka og langaði til að sjá meira af Húsavík. Eftir alltof marga hringi í klíkunni, leystist málið en þó ekki eins og Tómas hefði viljað. En hann gat á vissan hátt sjálfum sér um kennt. Hann yfirgefur staðinn og spilar Skálmöld á fullu.
Þegar ég frétti af þessari bók á sínum tíma og að hún gerðist á Húsavík, datt mér helst í hug að hér væri á ferðinni pólitísk saga um átök milli erlendra stóriðjuburgeisa og náttúruverndarsinna. Nei aldeilis ekki, Bakki var hvergi nefndur á nafn og þaðan af síður nokkur burgeis eða náttúruverndarsinni. Þess í stað mallaði glæpurinn í litlum hópi fólks sem átti einungis sameiginlega tilfinninguna um að lífið sé runnið úr greipum þess og vill bæta sér það upp með drykkju og kynlífi.
Ég skil vel að Tómas setji á Skálmöld og er sjálfa farið að langa til að hlusta á Jón Leifs. Mest langar mig til að ganga á hið lúpínuvaxna Húsavíkurfjall í annað sinn og njóta víðáttunnar sem við blasir.


Þegar ég les yfir það sem ég hef skrifað, finnst mér það geðvonskulegt. Ég hef látið vinaklíkuna fara allt of mikið í taugarnar á mér. Sannleikurinn er að bókin er spennandi. Gamaldags glæpasaga þar sem frásögnin fer í hringi og tekur u- beygjur. Þetta er íslenskur veruleiki og það gerir mann viðkvæmari en ef þetta væri ensk yfirstétt á bökkum Nílar. Gallinn við bókina að mínu mati er að hún gæti gerst hvar sem er á Íslandi. Húsavík verður svolítið út undan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 186934

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband