Færsluflokkur: Bloggar
9.2.2018 | 17:31
Góðar Bækur: Svetlana Alexievich og Sovét
Ósjálfrátt hefur maður komið sér upp flokkunarkerfi og talar um að bók sé góð eða vond án þess að velta því mikið fyrir sér. Rétt eins og maður sé að tala um matinn eða veðrið.
Ég veit að smekkur fólks er ólíkur og tala því einungis að út frá mér og mínum smekk. Ég ætla að skrifa um bók Svetlönu Alexievich. Bókin heitir á ensku Second-Hand Time: The Last of the Soviets. Ég hlustaði á hana á ensku. Svetlana er af blönduðu þjóðerni, móðir hennar var frá í Úkraníu en faðirinn frá Hvíta Rússlandi þar sem hún ólst upp. En fyrst og fremst var hún sovétborgari og hefur skrifað allar sínar bækur á rússnesku.
Ég er svona lengi að koma mér að efninu, af því ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari bók. Það er langt síðan ég byrjaði á henni og margoft tók ég aðrar bækur fram yfir og setti hana í bið. Ástæðan var að hún er bæði þung og það tekur á mann að hlusta endalaust á raunalegar frásagnir fólks af lífi sínu. Oft algjört vonleysi.
Bókin er er eins og aðrar bækur Svetlönu byggð á viðtölum hennar við fólk. Í þetta skipti fléttar hún saman ótal frásögnum fyrrverandi Sovétborgara um vonir og vonbrigði með hrun heimsveldis, föðurlands þeirra. Og það er ekki bara verið að tala um væntingar, margar frásagnirnar segja frá átakanlegum aðstæðum fólk, sem missir viðurværi sitt og borgaraleg réttindi og er sett út á kaldan klakann. Sumir harma gamla Sovét, aðrir eru vonsviknir, héldu að að frelsið myndi leiða til betra lífs en finnst nú að þeir hafi verið sviknir, finnst að landinu þeirra hafi verið stolið.
Bókin hefst á sögulegum inngangi og svo taka viðtölin við. Fólkið sem hún talar við hefur ólíka sögu að segja og Svetlana vefur þetta saman í eina heild. Það eru engir bjartir litir í þeirri voð.
Þetta var sem sagt jólalesningin mín. Ég vissi að hverju ég gekk, því ég hef áður lesið eina bók eftir Svetlönu. Bókina um ungu konurnar sem fóru í stríð til að bjarga fósturjörðinni (bókin heitir á sænsku Kriget har inget kvinnligt ansikte).
Er nema von að ég velti fyrir mér hvort það sé hægt að tala um að bók sé góð ef hún tekur svo á mann að maður kvíðir lestrinum? En þessi bók skilur mikið eftir, kannski er það betri mælikvarði en að velta fyrir sér hvort bók sé góð eða vond.
Svetlana fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2015 en bækur hennar hafa ekki verið þýddar á íslensku. Mér finnst það miður, því það væri fengur í því fyrir íslenskar bókmenntir að hafa betri aðgang að henni því verk hennar eru sérstök. Meira að segja svo sérstök að um það er deilt hvort þau eigi að flokkast sem bókmenntir eða blaðamennska. Reyndar finnst mér að þau hafi líka mikið pólitískt gildi, því hún sýnir svo ótvírætt að pólitík snýst um fólk. Líf fólks.
Þótt lestur þessarar bókar væri erfiður og sæktist mér seint, mun ekki líða á löngu áður en ég verð mér út um næstu bók eftir Svetlönu Alexievich, hún hefur fundið sérstaka leið til að vera milliliður fólks, sem bæði hefur skoðanir og frá miklu að segja.
Bók sem skilur mikið eftir hjá lesanda sínum er góð bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2018 | 15:13
Bókin og myndin: Svanurinn
Um leið og ég ákvað að sjá kvikmyndina Svaninn, ákvað ég að endurlesa bókina. Ég hafði lesið hana árið sem hún kom út og það sem eftir sat var undarleg blanda af ónotatilfinningin og fegurð. Endurlesturinn nú var aðeins til að magna enn þessa tilfinningu.
Bókin er stutt en ég var samt ekki nema rétt hálfnuð þegar ég sá myndina. Ég var ákveðin í að blanda ekki saman bók og mynd en það breytti því ekki að ég bar þessi tvö verk saman í huganum.
Bókin segir frá níu ára gamalli stúlku sem er send í sveit vegna þess sem hún hefur gert, sveitin á að gera henni gott, hjálpa henni að þroskast. Vitneskja lesandans um það sem gerðist og gerist er fastbundinn hugarheim stúlkunnar, hann veit ekkert meira en hún og sér heiminn með hennar augum eins og hún túlkar hann. Hún er hugmyndaríkur krakki, sem spinnur upp sögur og draumar hennar, hvort sem er í vöku eða draumi, blandast veruleikanum. Útkoman úr þessu er vægast sagt ónotaleg. Á móti kemur að stúlkan skynjar djúpt fegurðina, sem birtist henni í ótal myndum. Á meðan ég las fann ég fyrir óþoli yfir að vera fastreyrð við heim stúlkunnar og langaði að sjá út fyrir hann, sjá það sem raunverulega gerðist.
Myndin
Um leið og myndin kemur sýn stúlkunnar vel til skila, rýfur hún dulúð hún dulúð sögunnar, nú er það ekki bara stelpan sem sér og túlkar. Við gerum það líka. Um leið verður ónotatilfinningin bærilegri.
Á meðan ég horfði á myndina velti ég fyrir mér hvort það væri betra eða verra og komst að því eins og alltaf að bókin og myndin væru aðskilin listaverk.
Myndin er frábær. Ég þurfti að hlusta á eintal manns fyrir aftan mig sem af og til lýsti því yfir að þetta væri nú of hæggengt fyrir sig, það vantaði fúttið, um leið og hann lét skrjáfa í popkornpoka. Ég hugsaði honum þegjandi þörfina.
Þegar ég kom heim lauk ég við bókina um Svaninn og hugsaði um myndina.
Myndin er af sóleyjarbreiðu frá liðnu sumri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2018 | 18:43
Arv og miljø: Vigdis Hjorth
Síðastliðinn þriðjudag fór ég á höfundakvöld í Norræna húsinu til að hlusta á Vigdis Hjorth tala um bók sína Arv og milljø, sem var tilnefnd af Norðmönnum til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ég hafði áður lesið eina bók eftir Vigdis, Tretti dagar í Sandefjord og var forvitin. Sú bók byggði á hennar eigin reynslu, þegar hún þurfti að sitja í fangelsi fyrir ölvunarakstur.
Sunna Dís Másdóttir stýrði kynningunni í Norræna húsinu og fórst það einkar vel úr hendi. Vigdís er lífleg kona og meira en reiðubúin til að segja frá sér og verkum sínum.
En ég fór ekki tómhent heim! Mér hugkvæmdist nefnilega í hléinu að kanna hvort bókasafnið væri opið og hvort bókin væri til og til útláns. Og sú var reyndin, meira að segja á diski, upplesin af höfundi. Nú hef ég lokið því að hlusta og er hugsi.
Hvað er sannleikur og hver á hann?
Bókin, Arv og miljø segir frá Bergljot, sem er gagnrýnandi. Saga hennar er rakin í gegnum hugleiðingar hennar eftir að hún fréttir af veikindum móður sinnar og síðar föður.
Móðir hennar hefur tekið inn overdos og jafnar sig, faðir hennar hefur dottið í stiga og er í öndunarvél. Fjölskyldan kemur saman og tekur ákvörðun um líf hans eða öllu heldur dauða. Nema Bergljot.
Bergljot hafði ekki haft samskpti við fólkið sitt í þrjátíu ár. Hún trúir því að faðir hennar hafi misnotað hana sem barn og vill að hann biðjist fyrirgefningar. Hann þrætir fyrir þetta og fjölskyldan velur að trúa honum. Bergljot heldur að afstaðan þeirra mótist fyrst og fremst af hvað sé þægilegast fyrir þau, þeim sé sama um sannleikann.
Saga fjölskyldunnar birtist brotakennt, það er lesandans að raða þeim saman og rýna í myndina og afgera hvað raunverulega gerðist. Tekur hann afstöðu með Bergljot eða fjölskyldunni? Stundum fær lesandinn á tilfinninguna að Bergljot sé sjálf óörugg um hvað raunverulega gerðist. Hún veit að það er eitthvað mikið að og minningarnar sem hún byggir á hafa komið til hennar í erfiðri viðtals-meðferð hjá sálfræðingi.
Í Noregi olli bókin uppnámi. Systir höfundarins, Helga Hjorth, ásakaði Vigdis fyrir að ráðast á fjölskyldu sína og sérstaklega hana og sverta minningu föður þeirra. Hún segir að Vigdis noti raunverulega atburði úr lífi fjölskyldunnar. Fyrst gagnrýnir hún hana opið í fjölmiðlum og loks skrifar hún aðra fjöskyldusögu. Báðar þessar bækur hafa rokselst.
Nú þegar ég er búin með bókina sit ég eftir með óþægilega tilfinningu um að ég hafi óvart þvælst inn í fjölskyldudeilu. Það truflar mig að vera stöðugt að velta fyrir mér hvort það sé Bergljot eða Vigdis sem ég á að hafa samúð með.
Það er eitthvað verulega ónotalegt við þessa frásögn. Hún vakti ekki bara upp spurningu um hvort óljósar minningar Vigdis væru sannar, heldur líka spurningu um raunverulegt innihald deilu þessa fullorðna og að því er virðist vel stæða fólks um arf sem það hafur enga þörf fyrir. Er hlutdeild þeirra í arfinum, táknræn fyrir ást foreldranna?
En Norðmenn eru ekki óvanir því að rithöfundar skrifi bækur sem byggja á þeirra eigin lífi. Karl Ove Knausgård gerði það opið í bókum sínum, Min kamp. Hann breytti ekki nöfnum en það gerir Vigdis Hjorth engu að síður fannst mér erfiðara að lesa hennar bók.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2018 | 14:18
Borgarlínan: Draumur
Mér fannst ég vera stödd vestur í bæ, hafði mælt mér mót við vinkonu mína sem býr þar, við höfðum sammælst um að fara saman á kaffihús. Við vorum þegar draumurinn hófst, staddar á Hofsvallagötu, ekki langt frá Vesturbæjarlaug. Ég hafði heyrt af kaffihúsi, sem tengdist á einhvern hátt Gísla Marteini og stakk upp á því að við færum þangað, en þangað hafði ég aldrei komið.
Nei, Bergþóra, segir vinkona mín, nú ertu alveg úti að aka. Við förum á kaffihúsið í Borgarlínunni, og bendir í átt að Nesvegi. Áður en tími var fyrir frekari útskýringar sá ég hvar eitthvert stórt farartæki á hjólum kom brunandi. Það staðnæmdist örskotslengd frá okkur. Ég vissi bara ekki um þetta, segi ég og skammaðist mín í leyni fyrir að hafa ekki fylgst betur með umræðunni. Ég tek það fram hér að ég er mikil áhugamanneskja um samgöngur, ekki síst almenningssamgöngur. Farartækið var gríðarstórt, margir samtengdir vagnar á hjólum, kaffihúsvagninn var tveggja hæða og hægt að ganga upp í hann beint af götunni. Og það gerðum við. Hún (Borgarlínan) fer hring um austurborgina og Kópavog og það passar alveg fyrir okkur, við getum svo farið úr hér, sagði vinkona mín.
Þetta var sem sagt draumur. Tilfinningin á bak við drauminn, en draumtilfinning skiptir miklu máli ef rýnt er í drauma, var notaleg. Ég hlakkaði til þessarar kaffihúsaferðar en draumurinn varaði ekki lengur.
Síðan mig dreymdi drauminn hef ég af og til reynt að ráða í merkingu hans. Reyndar er ég þeirrar trúar að draumar fólks segi oftast meira um hugarástand þeirra sjálfa en framtíðina og framvindu mála. Ekki hefur mér þó tekist að tengja þennan draum við neitt í fortíð minni eða væntingum. En síðan þessi draumur var dreymdur, hef ég fylgst betur með öllum fréttum um Borgarlínuna. Mér þykir miður hvað umfjöllun er oft neikvæð og einkennist af alls kyns hrakspám en aðallega þó íhaldssemi.
Lokaorð.
Ég læt þessa frásögn af draumi flakka þó að það sé niðurstaða rannsókna að sjaldnast takist að segja draum svo vel sé. Fólki leiðist draumar annarra. Kannski er það einmitt það sem er líkt með draumi og framtíðarsýn. Fólki leiðist hún, það er svo erfitt að koma henni til skila svo vel sé.
Myndin er af gangstétt í Berlín
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2018 | 23:23
Sóleyjarsaga: Elías Mar
Sóleyjarsaga
Ég hafði aldrei lesið Sóleyjarsögu og skammast mín fyrir að segja frá því. En ég var svo heppin að ég kynntist Elíasi Mar.
Sóleyjarsaga segir frá fjölskyldu sem býr í bragga á Skólavörðuholtinu, þar sem nú er Hallgrímskirkja. Þau berjast í bökkum því það er litla vinnu að fá og auk þess er fjölskyldufaðirinn drykkfelldur ofbeldismaður. Elsti sonurinn, Eiður Sær er með skáldadrauma og fluttur að heiman. Sóley, aðalpersóna sögunnar er 18 ára og yngsta barnið, Sólvin litli, er kominn að fermingu.
Þó Sóleyjarsaga hverfist í kringum Sóleyju og sé hennar saga, er sagan um leið saga þorpsins Reykjavíkur , sem rembist við að verða borg, eins og unglingsgrey sem vill vera tekinn í tölu fullorðinna. Þetta er líka síðast en ekki síst samtímasaga, saga tíðaranda.
Það sem heillar mig þó mest við þessa bók, er frásagnarmátinn. Elías beitir þeirri aðferð að það skiptast á kaflar sem eru svo vel skrifaðir, að þeir minna á ljóð og upplýsandi kaflar, sem líkjast um margt góðri blaðamennsku. Mestu máli skiptir þó að hann hefur vald að galdra fram þá blekkingu að lesandanum finnst hann þekkja þetta fólk og þetta umhverfi. Ég byrjaði að lesa bókina áður en ég lagði í langferð, lauk fyrra bindi á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll. Ég hlusta á bækur, les ekki, því gat ég ekki tekið bókina með mér. Mitt fyrsta vek, þegar ég kom í flugrútuna, komin úr langferð, var að sækja seinna bindið í Hljóðbókasafnið og halda áfram að hlusta.
Það sem einkennir stíl Elíasar eru þurrar hlutlægar lýsingar, lesandinn fær að fylgjast með því sem gerist eins og í gegnum augu og hugskoti persónanna. Þannig er lesandinn frjáls að því að taka afstöðu, láta sér líka vel eða illa. Í köflunum þar sem mér finnst líkjast blaðamennsku, fer höfundur í fræðarahlutverkið og fellir dóma. Þarna kunni ég síst að meta hann. Ég velti því t.d. fyrir mér hvort persónan Erlendur Mikjáll eigi nokkurt erindi í bókinni. Þó má e.t.v. segja að þarna hafi birst einna greinilegast mynd af aldarhættinum og ólíkum hugmyndum manna um rétt og rangt og hver bar hina raunverulegu ábyrgð á hörmungum mannanna.
Ég var sem sagt heilluð af þessari bók,bý enn að hluta til í bragganum, horfi á Sóleyju laga kjólana sína til að eltast við tískuna, hlusta á stunur veiku konunnar, móður hennar, og hef áhyggjur af handritinu sem aldrei var skilað til skáldsins. Mér er kalt. Það skýrist af svellinu undir gólfinu.
Sóleyjarsaga kom út í tveimur bindum, það fyrra kom út 1954 og það síðara 1959.
Það fór ekki hjá því að mér varð oft hugsað til Uglu í Atómstöðinni þegar ég las um Sóleyju. Hvernig er varið skyldleika þessara kvenna?
Atómstöðin kom út 1948 ef mér skjátlast ekki.
Þótt það væri yfirlýstur tilgangur Elíasar að kryfja samtíð sína og leggja sitt að mörkum til að breyta henni er fjölmargt í þessari bók sem talar beint inn í okkar eigin samtíð. Bara ef við leggjum við hlustirnar.
Takk Elías.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2017 | 13:49
Skyndilokun á skotelda
Ekki eru allar hefðir eða siðvenjur góðar, sumar eru siðferðilega vafasamar eða rangar. Það er t.d. ekki lengur sjálfsagt skemmta sér við að horfa á dýr kveljast í hanaati og nautaati. Íslendingar eru löngu hættir að leiða saman hesta sína. Kötturinn er þó enn sleginn úr tunnunni á Akureyri, aðallega til að gleðja börn, sem vita ekki að þessi gamla hefð fól í sér að kvelja ketti.
Ég tók þessi dæmi um dýrin til að sýna fram á hliðstæðu í nútímanum þar sem hefð stuðlar að vanlíðan og flýtir fyrir dauða fólks. Ég er að tala um þá tiltölulega nýju hefð, að skjóta upp flugeldum. Þegar ég segi nýjú, er ég að tala um Ísland, en hefðin á sér langa sögu í Kína og fleiri löndum.
Það hafa ekki allir gaman af flugeldaskothríðinni, sumum leiðist hún og halda sig innan dyra. Öllu alvarlegra er þó, að margt fólk þolir illa mengunina sem þeir valda. Mest er talað um veikt fólk og gamalmenni en nú hefur komið í ljós að mengun frá skoteldum er slæm fyrir alla, það gera þungmálmar sem fara út í andrúmsloftið. Slík mengun safnast fyrir í líkamanum. Það eru sem sagt engin skynsamleg rök fyrir að því að skjóta. Nema sú skemmtilega mótsögn að þessi sala, einu sinni á ári, er alveg lífsnauðsynleg fyrir björgunarsveitirnar. Segja menn.
En þessi rök duga ekki einu sinni á mig, sem á þó björgunarsveit lífið að launa. Hef reynslu af því að veikjast skyndilega á gönguferð á Hornströndum og bíða eftir þyrlunni. Kemur hún? Getur hún lent? Já, hún kom og ég lifi. Ég hef aldrei fyrr eða síðar keypt flugelda, það má styrkja björgunarsveitirnar á annan veg.
Ég get vel unnt fólki þess að gleðjast svo fremi sem það skaðar ekki sjálft sig eða aðra. Og nú á dögum þurfum við að hugsa enn lengra, við þurfum að hugsa um náttúruna og framtíðina. Þess vegna finnst mér að það ætti að finna aðra aðferð til að kveðja árið.
Í fiskveiðistjórnunarkerfinu tíðkast það að setja skyndilokun á veiðar á svæðum ef grunur vaknar um að veiðarnar gangi út yfir náttúrleg mörk. Allt í einu er barasta bannað að veiða á Berufjarðargrunni, svo ég taki dæmi. Væri ekki hægt að taka sér þetta til fyrirmyndar í stjórnun loftgæða? Væru ekki eðlilegt að setja skyndibann á skotelda í Reykjavík þegar mengun fer yfir leyfileg heilsuviðmið?
Eitthvað þarf að gera.
En gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og takk fyrir árið sem senn er liðið. Og látið ykkur líða vel í kvöld. Ég ætla að vera inni með kisu þegar nýja árið gengur í garð. Okkur líður best þannig.
Eftirþanki.
Væri ekki upplagt að skapa þá nýju hefð að slökkva öll ljós og horfa á stjörnuhimininn?
Myndin er tekin í Marakkó. Blóm eða stjarna málað á skáphurð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2017 | 20:54
Föðurlandsstríðiðið mikla: Ótrúlega góð bók
Föðurlandsstríðið mikla og María Mitrofanova eftir G. Jökul Gíslason er ótrúlega góð bók. Ég ætla í þessum stutta pistli að gera grein fyrir því af hverju mér finnst hún góð. Ég valdi bókina eftir að hafa hlustað á viðtal við höfundinn, þar sem hann rakti aðdraganda þess að hann ákvað að skrifa hana. Sá aðdragandi er langur.
Sem lítill drengur hafði hann heillast af því að leika sér með dót sem einu sinni var kallað tindátar en er trúlega núna úr plasti, ég þekki ekki þennan heim. Þá geta börn, aðallega drengir (held ég) stillt upp heilu orustunum og barist. Þannig fá þeir betri innsýn í það sem gerðist. Þetta er sama hugmyndin og liggur að baki prjónaverkefninu mínu að prjóna allar helstu persónur Sturlungu en það er seinlegt. Höfundur hefur aldrei hætt að leika sér en notar leikinn núna til að rannsaka það sem gerðist og skilja betur gang styrjaldarinnar.
Fyrri hluti titils bókarinnar vísar til þess, að í Rússlandi er síðari heimstyrjöldin kölluð Föðurlandsstríðið mikla en síðari hluti titilsins vísar til Maríu Mitrofanovu, sem var hermaður í síðari heimstyrjöldinni en býr nú á Íslandi. Jökull kynntist þessari konu af tilviljun, hún sagði honum sögu sína en Jökull fékk leyfi til að nota sögu hennar og flétta hana inn í frásögnina.
Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les um þessa styrjöld. Ég hef m.a. lesið bók Svetlönu Alexievich Nóbelsverðlaunahafa (2015) Stríð hefur enga kvenlega ásjónu. Sú bók byggir á viðtölum Svetlönu við fjölda kvenna sem börðust og fóru flestar kornungar í stríðið, eins og María. Þótt þessar bækur séu ólíkar stemmir frásögn Jökuls vel við bók Svetlönu. Jökull er með herfræðina á hreinu og notar hana til að skilja gang styrjaldarinnar. Hann er ekki lengur barn, hann rannsakar. Hann lýsir herbúnaði, nefnir hershöfðingja og gangi einstakra orrusta. Hann segir líka frá mannfalli, sulti og stríðsglæpum. Konurnar sem Svetlana talar við tala meira um tilfinningar og líðan. Hvernig það er að hafa ekki sokka eða leppa í stígvélunum, hvernig er að horfa á vini sína deyja og af hverju þær þola ekki rauða litinn, lit blóðsins.
En Jölull er ekki bara góður að lýsa gangi styrjaldarinnar, hann er einkar góður í að kryfja pólitískt ástand, sem leiddi til stríðsins og afleiðingum styrjaldar sem ekki sér fyrir endann á.
Bókin er vel uppbyggð, í raun er hún eins og kennslubók með tímaás og skýringamyndum. Það sem skiptir þó mestu máli, er tónninn. Bókin er manneskjuleg og hlý.
Þessi bók er snilld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.12.2017 | 14:46
Til hvers les ég? Og áramótaheit verður til
Ég les reyndar ekki, ég hlusta af því ég er sjónskert, en ég tala um að lesa.
Í þessum pistli ætla ég að reyna að finna út til hvers ég er að lesa bækur. Auðvitað er ég að gera þetta fyrir mig, en mér finnst það viðeigandi að velta þessu fyrir mér, ég skipulegg tíma minn sjálf og ég ver verulegum hluta hans í lestur.
Ég ætla að reyna að komast að þessu með því að búa mér til lista yfir allar ástæður sem mér koma í hug í fljótu bragði
Listinn
- Mér til ánægju
- Af forvitni
- Til að fræðast
- Til að fylgjast með
- Til að róa hugann fyrir svefninn
- Vegna þess að bókaklúbburinn hefur ákveðið það
- Til að hafa ofan af fyrir mér
- Til að halda mér við í tungumálum sem ég hef lært
- Af því einhver bendir mér á bókina og mér finnst ég skuldbundin
- Til að stækka heiminn
- Til að dýpka minn eiginn veruleika
- Til að flýja raunveruleikann
Ég hafði í hugsunarleysi gert ráð fyrir því að fyrsta ástæðan, sem mér kom í hug vægi þyngst, að ég læsi bækur ánægjunnar vegna. En þegar ég renndi yfir bókavalið síðustu mánuðina, fann ég að flestar bækur sem ég hafði lesið tóku mjög á mig. Þær færðu mér ekki gleði heldur kvíða, depurð en þó stundum einhverja von um betri heim. Þessar bækur fjölluðu nær allar um ýmsar birtingarmyndir ofbeldis og um kúgun. Ég ætla að nefna nokkrar:
Heimför (Yaa Gyasi) fjallar um þrælahald og nær allar tegundir ofbeldis.
Með lífið að veði (Yeonmi Park) segir frá unglingsstúlku sem flýr heimaland sitt vegna pólitískrar kúgunar.
Medan han lever (Elaine Eksvärd) fjallar um misnotkun föður á dóttur.
Die Frauen der Rosenvilla (Teresa Simon)segir frá ungri stúlku sem erfir hús og ætlar að koma sér upp og reka súkkulaðiveitingastað. Fortíðin vitjar hennar og hún leggst í grúsk. Öllum smáatriðum er vendilega lýst,hvort sem er í útliti fólks, áferð á sjölum, kjólum eða í bragði súkkulaðisins sem hún er að þróa framleiðslu á. Í bókinni er lítið sem ekkert um ofbeldi nema sagt er frá tveimur heimsstyrjöldum svona í forbífarten.
Þessar ólíku bækur eru misvel skrifaðar og ekki get ég sagt að ég hafi lesið þær mér til ánægju en ég fræddist. Þýska bókin gerði sitt gagn, tosaði einhverri þýsku upp á yfirborðið. Eftir að hafa lesið dulitla bók um raðmorð Ósýnilegi verndarinn eftir Dolores Redonde,sem ég þegar hef skrifað um, hóf ég lestur á bókinni Föðurlandsstríðið mikla eftir Gísla Jökul Gíslason. Þetta er stórmerkileg bók,ég ætla að um fjalla hana í næsta bloggi.
Lokaorð
Ég veit ekki hvort ég hef komist nokkuð nær því að vita af hverju ég les. Mér finnst líklegt að svarið sé blandaðar ástæður. Það olli mér vonbrigðum að komast að því hvað ánægjan ein og sér virðist léttvæg í því sambandi. Ég sé líka að ljóðabækur komast ekki á blað en áður fyrr voru þær minn allra besti yndislestur. Ég veit hver ástæðan er. Ég hef sætt mig við að hlusta á bækur, neyðin kennir. Það á við allar bækur nema ljóðabækur, ég kann ekki að láta aðra lesa þær fyrir mig. S
Ég finn að ég fæ kökk í hálsinn þegar ég segi þetta. Ég verð að taka mér tak, finna leið.
Loksins urðu þessar vangaveltur mínar til einhver gagns. Mér hefur fæðst áramótaheit. Þrjú ljóð á dag næsta árið.
Bloggar | Breytt 11.12.2017 kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2017 | 12:32
Spænskur krimmi: Ósýnilegi verndarinn
Eftir að hafa lesið þrjár bækur um ofbeldi í röð, langaði mig að lesa eitthvað léttara og valdi nýútkomna glæpasögu eftir spænskan höfund. Mér finnst í augnablikinum að allt sem ég les eftir spænskumælandi höfunda gott, en ég get því miður ekki lesið spænsku.
Bókin er eftir Dólores Redonde (f. 1969) og gerist á Norður Spáni í héraði sem kennt er við Baztán-ána í Baskalandi. Í kynningu, kom fram að bókin er fyrsta bók af þrem.
Aðalpersóna sögunnar duglegi lögregluvarðstjórinn Amaia Salazar, þarf að rannsaka morð í fyrrum heimabæ sínum. Unglingsstúlka hefur fundist látin. Málið á eftir að vinda upp á sig, þegar kemur í ljós að fleiri stúlkur finnast látnar og að ummerkin eru öll þau sömu.
Amaia dvelur hjá frænku sinni meðan hún vinnur að rannsókn málanna og það kemur í ljós það var ekki að ástæðulausu sem Amaia yfirgaf heimabæ sinn kornung og sneri um leið baki við fjölskyldu sinni og fyrirtæki, gamalgrónu bakaríi. Þegar samskipti hefjast að nýju, rifjast upp erfiðar minningar og á tímabilili mátti ekki á milli sjá hvort væri mikilvægari þáttur sögunnar, að komast til botns í sálarlífi lögregluvarðstjórans eða að finna morðingann.
Þetta virtist sem sagt alls ekki vera bók fyrir mig, því ég hef lýst því yfir að ég þoli ekki raðmorð og þaðan af síður bækur með yfirskilvitlegu ívafi. En það var samt eitthvað við þessa bók sem hreif mig,hún er nefnilega vel skrifuð.
Bók sem flytur mann úr stað í tíma og rúmi og lætur manni finnast eins og maður myndi þekkja persónurnar á götu, ef maður mætti þeim, er vel skrifuð. Ég sá aðstæður ljóslifandi fyrir mér og fannst ég vera stödd þarna í þessu litla sveitaþorpi að leggja tarrotspil með Amaju, frænku hennar og systur. Ég fékk brennandi áhuga á kökunni chanchigorri, sem komið var fyrir á vettvangi glæps og eyddi hálfum degi við að reyna að finna uppskrift á netinu. En uppskriftirnar stönguðust allar á og ég gafst upp.
Í kynningu á bókinni er hún kölluð svört glæpasaga. Það er meðvitaður tilgangur höfundar að kynna sagnaarf alþýðufólks í Baskalandi. Það er sem sagt engin tilviljun að aðstoðarmaður lögreglukonunnar er með háskólapróf bæði í mannfræði og fornleifafræði. Þetta eru gagnleg fræði í landi þar sem ókennd dulmögnuð náttúruöfl eru enn á sveimi. Í miðjum lestri ákvað ég að gleyma því hvað mér finnst um raðmorðsbækur og yfirskilvitlegar bækur og fór í staðinn að hugsa um Jordskott, sænska sjónvarpsseríu sem mér fannst alveg frábær.
Það var gaman að lesa þessa bók og ég bíð spennt eftir hinum tveimur sem á eftir koma. Ég veit að það er búið að gefa þær út.
Þýðandi bókarinnar er Sigrún Ástríður Eiríksdóttir.
Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók. Hún er lesin af Helgu Elínborgu Jónsdóttur sem er frábær lesari og augljóslega góð að skila frá sér nöfnum á fólki og stöðum með með spænskum framburði. Mér fannst það setja punktinn yfir i-ið.
Myndin er af höfundi. Hún er fengin að láni á netinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2017 | 22:20
Medan han lever ( Meðan hann lifir):Elaine Eksvärd
Elaine Eksvärd er nú orðin þekkt persóna í sænskum fjölmiðlum. Hún skrifar blogg, rekur rágjafarstofu sem heitir Snacka Snyggt, er eftirsóttur fyrirlesari og hefur verið ráðgjafi virtra fyrirtækja og opinberra stofnana. Einu sinni var hún það ekki, hún var bara lítið barn.
Móðir hennar var brasilískur innflytjandi en faðirinn ósköp venjulegur Svíi. Eða virtist vera það. Þegar foreldrarnir skildu, var gerður ósköp venjulegur skilnaðarsamningur, hún var áfram hjá móður sinni, pabbinn varð helgarpabbi.Elaine elskaði pabba sinn út af lífinu, henni fannst hann skemmtilegur og góður. Hann gældi við hana og á kvöldin horfðu þau saman á vídeó. Auk þess leyfði hann allt sem mamman bannaði.
Elaine var líka eðlilegt barn að því leyti, að hún hélt að lífið sem pabbi hennar bauð henni upp á, væri eðlilegt líf. Hún þekkti ekkert annað. Smám saman fór hana þó að gruna að sumt væri ekki í lagi. Skilningur hennar á því sem var að gerast og uppgjörið við föðurinn kom löngu seinna.
Í bókinni (ég las bókina á sænsku) skiptist hún á að segja frá réttarhöldum og eigin lífi, sérstaklega bernskunni. Þetta er áhrifamikil frásögn og það er á vissan hátt merkilegt að sjá hvernig þessi töff kona verður lítil þegar kemur að uppgjörinu við skömmina, svikunum. Eru til alvarlegri svik heldur en að svíkja barn sem maður á að verja fyrir öllu illu?
Þegar Elaine var 33 ára gömul kærði hún föður sinn fyrir kynferðislega áreitni. Hann hafði sent henni klámmyndband. Hún hafði reyndar áður reynt að kæra hann en var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum. Nú hafði hún sönnunargagn. Móðir hennar hafði líka á sínum tíma reynt að fá breytingar á umgengnisrétti og leitað til barnaverndaryfirvalda en var ekki trúað.
Gælurnar sem pabbinn gerði við dóttur sína veru engar venjulegar gælur og myndböndin sem þau horfðu á voru gróft porr.
Mér fannst erfitt að lesa þessa bók, það er ónotalegt að fá nákvæmar lýsingar á því hvernig barnið bregst við misnotkun, heldur í lengstu lög í að svona eigi þetta að vera. 14 ára sagði hún skilið við föður sinn og innsýn hennar kemur smámsaman. Lengi hélt hún í vonina að hann myndi iðrast og biðja hana fyrirgefningar, sem aldrei varð.
Frásaga Elaine af unglingsárum sínum þegar hún var í senn að takast á við að þroskast og við skömmina virkaði ruglingslega á mig enda mikið í gangi. En þrátt fyrir allt ruglið ákveður hún að læra eitthvað nytsamlegt og velur sér fagið retorik (mælskulist). Það hafði aldrei neinn trúað henni og hana langaði að ná valdi á málinu til að geta sannfært fólk.
Í kaflanum um æskuna minnti unglingurinn Elaine mig stundum á kóreönsku stúlkuna Yaonmi sem ég skrifaði um í síðasta bloggi. Þær leita báðar til trúarhreyfinga en einungis tímabundið. Í báðum tilvikum vilja þær tjá sig um reynslu sína.
Elaine segir frá reynslu sinni til að útskýra fyrir fólki hve misnotkun er lúmsk og hversu vandamálið er alvarlegt. Til að gera þetta enn augljósara bætir hún statistikk við frásögn sína, tölfræði sem, ef ég skil rétt, byggist á áætluðum tölum að hluta. Þessari viðbót við frásögnina fannst mér ofaukið.
Það var tilviljun að ég valdi þessa bók, ég vissi ekki um hvað hún var. Forsíða var svo falleg en hún er af lítilli stúlku sem horfir kotroskin á heiminn. Meðan ég las, sá ég litlu stúlkuna fyrir mér. Opinn svipur barnsins gerir frásöguna enn áhrifameiri.
Ég las bókina í andrúmslofti umræðu um valdbeitingu og alls kyns kynferðislega áreitni sem konur hafa þurft að þola. Áhrifin eru sterk en ég finn að ég fyllist bjartsýni. Þessi umræða á eftir að breyta miklu. Ég er nefnilega viss um að þeir sem áreita og beita valdi, vita alveg hvað þeir eru að gera. Þess vegna geta þeir hætt, breytt hegðun sinni. Þeir hafa komist upp með það. Ástæðan er í höfðinu á þeim en ekki í klofinu eins og oft er látið í veðri vaka. En ástæðan er líka í samfélagi sem lætur þeim líðast.
Bókin um litlu stúlkuna sem seinna vann dómsmal gegn föður sínum er vel skrifuð enda ekki fyrst bók höfundar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 190333
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar