Það vorar í hug Gunnars Braga

image

Ég heyrði það í fréttunum í strætó (Bylgjan) að Gunnar Bragi teldi góðar líkur á því að von bráðar yrði Ísland strikað út af lista sem hugsanlegur umsóknaraðili að bandalagi Evrópuþjóða. 

Ég hrekk svolítið við, ég var nefnilega að ljúka lestri á Stríð og friður, Tolstojs og er að hluta til stödd á 19. Öldinni. Ég er búin að fylgjast með herjum Rússlandskeisara, verjast innrásarher Napóleons. Lestur Stríðs og friðar hefur tekið u.þ.b. 33 tíma og sem hliðarlesningu hef ég lesið mér til um Napóleonstríðin og fleiri stríð, til að skilja betur það sem er að gerast hjá Tolstojs. Þessi stríð voru mikil blóðtaka fyrir. Evrópu, í bókstaflegum skilningi. Og enn eru háð stríð en mér finnst svo voðalegt að hugsa um þau að ég held mig við 19. öldina. Ég fæ kökk í hálsinn þegar ég hugsa um Sýrland. 

En ,,við" viljum ekki vera á lista sem sem umsóknarland að bandalagi við þjóðir í Evrópu. ,,Við" viljum bara vera á lista viljugra þjóða um innrás í Írak. Erum við ekki enn á þeim lista? 

Þessi von utanríkisráðherra kom eitthvað svo flatt upp á mig þar sem ég sat í strætó. Ég hafði sperrt eyrun, vegna þess að ég átti von á fréttum, um hvað stjórmvöld hygðust gera til að stuðla að farsælli lausn kjaradeilnanna. En þar ríkir stríðsástand en sem betur fer ekki blóðugt. Og skyndingu er ég komin til baka inn í 19. öldina og hugsa um hvað hafi áunnist síðan þá. Það er sem betur fer margt. Í bókinni, Stríð og friður eru átakanlegar lýsingar af aðstæðunum á hersjúkrahusunum, þar sem vanrækslan blasir við. Þarfir hersins eru teknar fram yfir þarfir limlestra.  Það er reyndar oft vikið að starfi lækna og hjúkrunarfólks í þessari bók og ég hugsa um hvað læknavísindunum hefur fleygt fram. Eitt af læknisráðunum var blóðtaka og ég fyllist óþoli fyrir hönd sjúklingsins. 

Já, blóðtaka er ekki lengur viðhöfð til að lækna fólk. Við höfum lært margt. Stríðstólin verða stöðugt öflugri en þegar kemur að því að jafna deilumál og koma á friði erum við enn í sporum blóðtökulækninganna. 

Við Íslendingar höfum sem betur fer lifað utan blóðvalla styrjalda. Við erum heppin. Á 19. öldinni þeysti Napóleon um Evrópu í krafti hugsjónar um að koma á lýðræði. Þegar hann réðist inn í Rússland til að frelsa þá frá sjálfum sér, hafði hann á að skipa á milli 600 og 700 þúsunda liði. Í dag eru Bandaríkin tekin við því þessu lýðræðiskefli.

Og við Íslendingar viljum heldur vera í hernaðarbandalagi en ljúka umræðu um hvort það gæti hugsanlega verð skynsamlegt að vera í bandalagi Evrópuþjóða. Og svo er umrætt bandalag kannski  hernaðarbandalag og er meira að segja svo hættulegt að það er varhugavert að ræða um það.

Og ég er föst í 19. öldinni og langar ekki heim þrátt fyrir vorið og framfarirnar. 

Myndin sem fylgir er af Kútúzov sem leiddi her Rússa í stríðinu 1812 og fleiri stríðum þar áður. 

 


Þegar stórt er spurt eru svörin óhlutbundin

image

Dagurinn í gær var helgaður leikhúsinu. Fyrst fór ég í Bæjarbíó í Hafnarfirði til að fylgjast með því þegar Leynifélagið (Vesturbæjarskóli) sýndi afraksur vetrastarfsins. Þrír leikhópar fluttu frumsamda einþáttunga. Sá fyrsti var um einelti og lausn þess. Sá næsti, sem gæti hafa heitið Pönkarinn, var um
unglingaheiminn. Sá þriðji og síðasti var um jólasvein sem kom til byggða til að leita svars við hvort það væri jól eða sumar. Auk þess vildi hann leita lækninga fyrir ímyndunarveikan kött. Allir þættirnir einkenndust af mikilli leikgleði og það leyndi sér ekki að höfundunum lá mikið á hjarta. Ég hafði mest gaman af því að sjá hvernig heimur barnanna speglar fullorðnisheiminn um leið og þau eru að reyna að lýsa sínum eigin. 

Það var tilviljun að leiksýningin Segulsvið í Þjóðleikhúsinu bar upp á sama dag og sýning leikhópsins. Ég var fegin að sýningarnar rákust ekki á en þó búin að ákveða að sýning barnanna hefði forgang. Ég var enn undir áhrifum frá sýningunni barnanna þegar ég settist inn í Kassann til að horfa á verk Sigurðar Pálssonar og ég vissi einhvern veginn að þetta væri sýning fyrir mig. Sigurður Pálsson er nefnilega eitt af þeim skáldum sem tjáir betur hugsanir mínar og skoðanir en ég sjálf. Ég elska að lesa hann og hlusta á hann.

Sem betur fer rættust væntingar mínar, ég heillaðist. En um hvað er svo þetta leikrit? Ég er ekki viss um að  ég geti svarað því en ég held að það fjalli um lífið sjálft, um það litla í hinu stóra og um tilvist mannsins og um spurningu allra manna: Hver er ég og hvers vegna er ég hér. En það er ekki hægt að lýsa því frekar en áhrifum frá leikgleði barnanna úr Vesturbæjarskóla, einungis hægt að upplifa það. 

Verk Sigurðar er um tilvist manneskjunnar, samspil einstaklings við samfélagið og samspil manns og náttúru. Það er bæði fyndið og sorglegt en þó alltaf fallegt. Eins og leikgert ljóð. Ég hugsaðu strax meðan ég var að horfa og reyna að skilja, að loksins hefði ég fundið þörf til að nota orðið óhlutbundið. Því þannig er það. 

En Sigurður er ekki einn á ferð. Kona hans, Kristín Jóhannsdóttir leistýrir verkinu og Reynir Grétarsson hefur búið því sviðsmynd sem hæfir. Leikhóparinn er samstæður og sér um sitt. 

Ég finn til djúps þakklætis. 

Á leiðinni heim á þessu kalda sumri, vék sér að mér kona í strætóskýlinu og spurði hvort ég gæti gefið henni stætómiða. Ég gat það en tók eftir að vandi hennar var ekki leystur því með henni í för var maður sem var með svefnpokann sinn í fanginu og hún gekk að næsta manni og bað annan miða. Ég vissi að hún hafði tekið ábyrg á þeim tveim. Parið tók síðan sama vagn og ég með mínum manni. Við fórum heim og ég velti fyrir mér hvort þau ættu eitthvert ,,heim".  Svona er lífið. Ekki bara í leikhúsi heldur allt um kring. 


Stríð - ekki friður í augsýn

image

Meðan ég fylgist með fréttum af því hvernig samninganefnd ríkisins hundsar starfsfólk sitt, les ég Stríð og frið (Tolstoj). Þetta er undarleg saga um ástir og drauma ungs fólks, um misspillt hefðarfólk og um stríð sem skekur alla Evrópu.

Ég er nú þar stödd í sögunni, að orusturnar við Austerlitz og fleiri orustur eru að baki, hin svikula sátt Napóleons er líka að baki, hann hefur ráðist inn í Rússland og Rússar svara með herbragðinu, sviðin jörð.

Tolstoj er snillingur að mála upp myndir af því sem gerist og ósjálfrátt trúir maður honum. Innst inni veit ég þó að þetta hefur allt verið enn voðalegra. Einstakar lýsingar segja meira en fræðilegar samdar sögubækur. Inn á milli eru lýsandi frásagnir af því hvernig hefðarfólkið heFur ofan af fyrir sér í iðjuleysinu með veiðiferðum. Meira að segja hinn síblanki Rostov greifi verður að halda 40 hesta og 20 hestasveina til að geta brugðið sér á veiðar. 

En þetta er allt hræðilegt. Sagan er svo breið að höfundur skilur við persónur sínar þegar síst skyldi. Maður er kannski á kafi í bardaga og svo er allt í einu klippt inn í ástamál aðalborinna unglinga. Ég er miður mín að vita ekki hvernig hermönnunum reiðir af. Og á hverju lifðu bændurnir þegar búið var að brenna þorpin?

Ég hef t.d. ekki hugmynd um hvernig Denisof hefur reitt af en eftir hrakfarir hans þegar hann dvaldist með liði sínu í yfirgefnu þýsku þorpi sem búið er að rústa af bæði Frökkum og síðan Rússum. Hermennirnir sultu og það varð. Það er apríl eins og nú. Hermennirnir hafa fundið rót sem þeir grafa upp til að seðja sárasta hungrið. Þessi rót er kölluð, sætrót Maju. Þeir veikjast og hrynja niður og rótinni kennt um. Hestarnir eru fóðraðir á hálmi af húsþökum. Denisof lætur sér annt um sína menn og ræðst í að taka fulllastaða birgðavagna traustataki. Sá matur var ætlaður öðrum og hann fær á sig kæru um þjófnað. Hann ber fyrir sig, að hann sé að bjarga mannslífum. Seinna lendir hann inn á herspítala, þar sem það vantar allt til alls. 

Hetjan mín í þessari bók,  Andrei reynir að koma honum til hjálpar. Lýsing hans á þjáningum sjúklinganna er hjartaskerandi. Vanræksla hernaðaryfirvalda er himinhrópandi. Og öllu þessu slær saman við fregnir ísleskra fjölmiðla um hundsun íslenskra yfirvalda á kjaradeilunni sem nú ógnar lífi fólks. Svona er að lesa Stríð og frið. 

Einhvers staðar er yfirstéttin að skemmta sér. Veiða? 

Hvað er okkar yfirstétt að gera?


Pílagrímsferð til að skoða vorið

image

Ég er farin að sjá verr, ég er að missa sjónina. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Ég velti fyrir mér hvort hún (sjónin) endist mig eða hvort ég fari á undan.

Eftir að þetta varð ljóst, hafa göngu- og hjólaferðir mínar öðlast nýja merkingu. Svo ég tali nú ekki um hlaupin.  Ég nýt enn betur þess sem augað sér. Ég gleðst. Á þann máta hefur sjón mín skerptst. 

Þessi stutti pistill er skrifaður eftir stutta gönguferð í Grasagarðinn í Laugardal, ég fer þangað reglulega til að tigna vorið. Þetta eru mínar pílagrímsferðir.

Ég ætlaði ekki að vera væmin, en er það kannski. Þetta með sjónina er ekki grín en heldur ekki neitt til að gera að harmsögu. Lífið réttir okkur alltaf eitthvað sem við höfum ekki beinlínis pantað, þá er að taka því. Ég einbeiti mér að því sem ég hef, get gert og að hjálpartækjum. Og úr því ég er byrjuð á þessu, má ég ekki gleyma læknavísindunum og því sem þau geta gert. Án þeirra væri ég líklega orðin staurblind. Ég er þakklát. 

Þessi pistill er helgaður vorinu. Og enn er eg orðin væmin. Til að bæta fyrir það ætla ég að bæta því við að í bjartsýni minni er ég ekki búin að gleyma óstjorninni í landinu og flæði heimskunnar. Ég vona bara að þeim takist ekki að rífa niður allt hið góða sem tekist hefur að byggja upp í þessu landi. Það eru fleiri en ég sem þurfa að reiða sig á heilbrigðiskerfið. 


Leitin að tilgangi lífsins

image

Menn þurfa að vera talsvert vel settir í lífinu, til að finna sig knúna til að leita að tilgangi lífsins. Margt fólk lætur sér einfaldlega nægja að komast af, eiga í sig og á leitast við að skapa öryggi í kringum sig og sína.

Í gær átti danska drottningin afmæli og okkur gafst tækifæri til að fylgjast með hirðlífi. Það er litskrúðugt. Þegar ég fæddist áttum við enn konung. Eina minning mín um það er umræða um að litla prinsessan og Ásdís systir mín eigi næstum sama afmælisdag (Ásdis er fædd 17.april). Mér fannst þetta öfundsvert. 

Eina kóngafólkið sem lifði af lýðræðisholskefluna, er fólk sem hafði vit og gæfu til að stíga ti hliðar og láta þinginu eftir að stýra landinu. Það er enn verið að launa því það. Við eigum forsetanefnu sem skilur þetta ekki. Það er önnur saga.

En ég er enn stödd á 19. öldinni. Eitt af því sem særði Önnu Karenínu var að hún var útilokuð frá hirðlífinu. Maður hennar sem var samviskusamur og duglegur embættismaður fékk orðu fyrir frá keisaranum um það leyti sem það var búið að ákveða á æðri stöðum að starfsframa hans væri lokið. Karenín vann að einhverjum umbótum á stjórnarfari og ekki hátt skrifuð persóna í sögunni hjá skapara sínum Tolstoj. Annað gildir um landeigandann Ljovin, Tolstoj hefur hann á hægra brjóstinu, sem er kannski ekkert merkilegt því hann er honum líkur um margt. Ljovin hefur óbeint á samkvæmislífinu og flýr á vit hins óbrotna og einfalda sveitalífs, en hann er svo heppinn að eiga óðal og jarðir. En það er í mörgu að snúast, eftir að bændaánauðinni var áflétt er erfitt að reka góss. Þau bera sig ekki og Ljovin hugar að umbótum á landbúnaði og fundar sér við býflugnaræktun. Hann ræktar garðinn sinn, hefur fundið tilgang lífsins.

Ein dásamlegasta sena bókarinnar á sér stað í lok sögunnar við býflugnabúin. Meðan Dollý mágkona hans matar börnin á ferskum gúrkum og hunangi, ræða karlmennirnir um hugtakið þjóð. Þeir ræða um tilvist þjóðarsálarinnar. Ljovin dregur það mjög í efa.

Ástæðan fyrir þessari umræðu er stríð Tyrkja við Serba. En þar sem Serbar eru slavar eins og Rússar rann þeim blóðið til skyldunnar og þyrptust sem sjálfboðaliðar í stríðið, til að hjálpa bræðraþjóð. Keisarinn hafði ekki lýst yfir stríði og Ljovin sem var friðarsinni gaf lítið fyrir hugtakið þjóðarvilji og frændskapur. Það gat ekki réttlætt dráp á Tyrkjum sem er menn eins og við. 

En það átti margt eftir að drífa á daga Rússa eftir að Tolstoj féll frá (1910). Keisarafjölskyldan myrt, bæmdur sviptir eignum sínum og síðan sveltir og nú sitja þeir uppi með Pútín. 

En það eru fleiri en Birtingur og Ljovin sem finna sig í garðræktinni. Ég er sjálf búin að leigja mér lítinn skika af Borginni og þar ætla ég að grafa eftir tilgangi lífsins næsta sumar sem ég veit, hvað sem öllum spám líður, að verður gott sumar. 


Ráðaleysi Önnu Karenínu

image

Ég hef nú í meira en mánuð dvalið með rússnesku fólki. Fyrst með Karamazovfjölskyldunni í boði Dostojevskís og síðan með skylduliði Önnu Karenínu og hefðarfólkinu í Pétursborg og Moskvu í boði Tolstojs.Þetta eru ólíkir heimar, Dostojevskí tilheyrir ekki efnastéttinn,Tolstoj hrærist í fínni kreðsum. Ég sakna enn Karamazov en í þessum stutta pistli ætla ég að tala um Önnu.

Eiginlega er Anna aukapersóna í eigin sögu. Tilvist hennar skiptir í raun ekki miklu máli, hún er þarna einungis til að upplýsa okkur um hvar jaðar mannlífsins er fyrir konur. Sú sem stígur út fyrir hann hrapar, ferst. Anna verður óvart ástfangin af glæsimenni og verður fangi ástarinnar. Hún ræður ekki lengur yfir lífi sínu og hefur kannski aldrei gert það.  Hún hefði vel getað stofnað til ósköp venjulegs framhjáhalda, eins og konur á þessum tíma gerðu en hjá henni var ástin allt eða ekkert. Viðbrögð samfélagsins eru skýr, hún er hundsuð og útlokuð. Þannig er henni refsað. Og hún brotnar. 

Annars fáum við ekki mikið að vita um persónu Önnu. Hún er falleg og töfrandi. Hún er vel að sér, les bækur og fylgist vel með umræðum í blöðum. Hún hefur yndi af börnum, a.m.k. framan af. Hún vinnur að því að skrifa barnabók. Eftir að hún hefur verið útilokuð frá samkomum fína fólksins (en unnusti hennar heldur áfram að skemmta sér), verður hún haldin sjúklegri afbrýðisemi, hún er æst, á erfitt með svefn og fær róandi (ópíum). Leiðin liggur niður á við.

En af hverju segi ég að hún sé aukapersóna í eigin sögu? Það er vegna þess að það er mjög greinilegt hver er aðalpersóna sögunnar, sá sem ber hana uppi. Dálæti höfundar á draumlynda sveitamanninum og gósseigandanum Ljovin leynir sér ekki. Ljovin fær að hugsa allar fallegu hugsanirnar, honum er kannski svolítið stirt um mál en hann er góður. Hann trúir á kærleikann og tengsl rússneska bóndans við gróðurmoldina. Hann unir sér við að rækta býflugur og koma á umbótum í landbúnaði.Gott ef þau eru ekki bæði til staðar í honum Bjartur og Rauðsmýrarmaddaman. En það var ekki hann sem ég ætlaði að tala um hér, heldur Anna.  

Hún var vel sett, gift manni í góðri stöðu, meðan hún fór ekki af básnum sínum. En hún fór, leið á karlinum og ástfangin af glæsimenni. Þegar henni er hafnað af samfélaginu er hún varnarlaus. Hún gerir aldrei þá uppreisn sem hún hefði þurft að gera, það vantaði í hana uppreisnarandann. Engin kom henni til bjargar.

Elsku Anna. Af hverju laukst þú ekki heldur við bókina sem þú varst að skrifa og hugsaðir um Önnu litlu og fósturdótturina sem þú varst svo góð að kenna?

Hvað hefðir þú, Anna, gert i dag?

Elsku allar Önnur Karenínur. Ekki leyfa neinum að gera ykkur að aukapersónum í sinni sögu.


Þeim er skítsama

image

Meðan íslenska vorið kemur í áföngum, tvö skref áfram og eitt aftur á bak, les eg rússnesskar 19. aldar bókmenntir. Út undan mér fylgist ég með því sem er að gerast í þjóðmálunum hjá okkur. Bækurnar sem ég er að lesa og hef svo gaman af, fjalla ekki um rússneska alþýðu, þó henni bregði fyrir í svip. Ríkt fólk þarf þjónustufólk til allra hluta, það getur ekki einu sinni klætt sig sjálft. Bændaánauðinni hefur nýlega verið aflétt, landeigendur eiga í basli með að reka óðul sín og selja frá sér skóginn. 

Það úir og grúir af tignarheitum og titlum svo að í morgun reyndi ég að lesa mér til um merkingu þeirra, en í þeim frumskógi er auðvelt að villast. Þegar ég var búin að lesa um fursta, stórfursta, greifa og fleira og fleira, komst ég að þeirri niðurstöðu að mér nægði einföld skilgreining. "Þetta eru allt forréttindi sem ganga í arf og þau tengjast á einn eða annan hátt keisaranum".

Og allt í einu hvarflaði minn reikuli hugur til nútímans, hefur þetta eitthvað breyst? Nú er hugur minn hjá Íslendingum. Við höfum reyndar aldrei átt aðal, er sagt. En er það svo? 

Meðan verkalýðurinn sem þarf að heyja verkfallsbárattu til fá vinnuveitendur sína að samningaborðinu, frílista ráðherrarnir sig í útlöndum. Þeim er skítsama. En veiku fólki og aðstandendum þeirra er ekki sama.

Og ég sný mér aftur að yfirstéttinni í Rússlandi á 19. öldinni. Þetta er tilfinningaríkt fólk og það grætur og verður jafnvel veikt af ástarsorg. Anna Karenína er enn ekki búin að kasta sér fyrir lest, það er ekki komið að því. Og ég les áfram. 


Aftur til fortíðar

image

Þótt nú sé endalaust rætt um að lifa í núinu, stend ég mig stöðugt að því að dveljast á öðrum tímaskeiðum. Ég lifi að vísu í núinu en ekki á rauntíma. Ég hef nú um nokkurt skeið valið mér 19. öldina og finnst hún svo spennandi. Þetta er öld nýrra og mililvægra óspilltra uppgötvana. Það er búið að finna upp sósíalisma ef það er hægt að segja svo en ekki búið að klúðra honum. Kvenréttindi eiga vinsældum að fagna sem hugmynd og útfærslan er bara eftir. Fólk sér tæknilegar framfarir sem upplagt tækifæri til að auka velsæld alþýðunnar.

Fólk hefur tíma til að slúðra, halda framhjá og vera ástfangið. Og best af öllu er að það er ekki kominn Sími hvað þá snjallsímar og ekki sjónvarp. 

Ég hef sem sagt dvalið með Dostojevskí og Tolstoj (Karamazovbræðurnir og Anna Karenina)í Rússlandi. Ég get ekki að því gert að bera þá saman. Tolstoj skrifar um fína fólkið en Dostojevskí um minna fínt fólk, ég finn mig betur í félagsskap þess síðarnefnda. 

Þetta hefur ekki verið svo galin föstu- og páskalesning. Það er mikið rætt um trúmál, það þykir sjálfsagt. Og svo heldur fólk að það sé nóg að sjá kvikmyndina. Nei, maður þarf að lesa þetta vandlega frá orði til orðs. Og þjást. 

Ég er ekki viss um að ég vilji snúa aftur. 

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2015
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 187200

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband