Fjalla-Eyvindur og Halla í Ölpunum

image

Við hjónin sáum leiksýningu Þjóðleikhússins á leikritinu um Höllu og Fjalla-Eyvind. Við vorum á 2. sýningu og ég var þá ekki búin að heyra eða sjá neinar umsagnir. Ég hafði ekki séð þetta leikrit áður en ég hafði heyrt það og þekkti söguna. Ég þekkti hana reyndar svo vel að mér fannst næstum eins og ég hefði séð það. En það stemmir ekki. Þegar ég hugsaði um verkið (fyrir fram) sá þau hjónaleysin mæta á svæðið í þunglamalegum leikhúsútfærslum af þjóðlegum búningum og kveið því svolítið. Ég hafði líka búið mig undir að horfa á leikgert, gamaldags íslenskt sveitalíf, og kveið fyrir, ég er viðkvæm fyrir svona lýsingum, því því þær ganga aldrei upp (finnst mér).

En ég fékk þennan kvíða minn ekki uppfylltan, ef svo má segja. Það var létt yfir fólkinu. Það var eitthvað miðevrópskt við það, skórnir snotrir og pils kvenfólksins náðu einungis niður á miðjan kálfa. Réttarstemmningin minnti mig meira á hjarðljoðarómantík en á íslenskar réttir. Sviðsmyndin var alveg einstaklega falleg og tónlist og hljóðheimur verksins féll mér vel í geð. Allt í einu fór ég að hugsa um einhverja mynd utan á konfektkassa og fékk á tiolfinninguna að þetta gerðist allt í Ölpunum. Mér fannst það í góðu lagi. 

Siðan ég sá verkið er ég búin að heyra oftar en einu sinni að Halla og Fjalla-Eyvindur, sé besta leikverk sem skrifað hafi verið á Íslandi. Merkilegt að það skuli vera hægt að segja svona. Það er alveg eins og að segja hver hafi verið næst besta hetja fornaldar (ég segi þetta því mig minnir að það hafi staðið svo í Íslandssögunni sem ég las og ég hafi stöðugt verið að leita að hver var mesta hetjan). Það er líka merkilegt hvernig hver étur upp eftir öðrum. En merkilegast finnst mér þetta þó vegna þess að mér finnst það alls ekki gott verk, sagan er einhvern veginn svo ósannfærandi og nær ekki að hrífa mig með. Ég trúi henni ekki. Ekki eitt augnablik. En það eru margar góðar setningar í þessum texta og leikararnir stóðu sig vel. 

Einn leikdómara heyrði ég segja að verkið væri skrifað alveg eftir formúlunni um hvernig á að skrifa leikrit. Mér finnst það ekki meðmæli ef útkoman gagnast ekki til að hrífa mig. Svona er ég kröfuharður leikhúsgestur. Á meðan ég var að hlusta og horfa, hugsaði ég um hver væru Eyvindur og Halla nútímans. Líklega er þau helst að finna í einhverju dópbæli. Sú mynd gæti a.m.k. alveg passað við barnsmorðin.

Lokaorð

Ég kann betur að meta þjóðsöguna en leikritið. Hún er margsaga og í henni rúmast draumurinn um frelsið og betra líf. En þótt hugur minn fljúgi viða á leiksýningum kann ég að njóta. Mér fannst gaman. Líklega var það ekki síst vegna þess að það var léttleiki og húmor í sýningunni og svo var öll umgjörðin svo dæmalaust falleg.


Ættgöfgi?

image

Þegar kattarkvikindinu var komið fyrir á heimili mínu, var mér sagt að hann væri norskur skógarköttur. Hin raunverulega ástæða var, að hann er með meðfæddan galla sem leiðir til sýkinga í þvagrás og þarf því að vera á sérfæði. Það er rándýrt. Þetta er m.a. talið stafa af göfugu ætterni hans. 

Þetta var ég að hugsa, þegar ég notaði góða veðrið úti á svölum til að kemba kattarófétinu. Ég hugsaði um hvað þetta dýr er víðsfjarri því að geta bjargað sér í hinum norsku skógum. Hann þrífst ekki nema með því að vera á stöðugum díet og það þarf að baða hann reglulega og klippa á honum klærnar, hann á til að festa þær í teppi eða mottu og getur þá ekki losað sig hjálparlaust. Ef hann fær að ráða mataræði sínu sjálfur (en það fær hann ekki), vill hann einungis grænmeti. Hann elskar gúrkur og tómata og kemur hlaupandi um leið og hann finnur lyktina. Maðurinn minn annast aðalleg köttinn og hann lagði m.a. á sig að hjóla alla leið niður á Skólavörðustíg til að kaupa sérfæðið hans.

Það sem er þó óeðlilegast við þennan kött, er að hann leggur sérstaka ást á mig, sem geri ekki annað en sjá um onduleringarnar, sem hann virðist ekki njóta. Hann eltir mig á röndum og ég get hvergi sest eða hallað mér án þess að hann sé kominn. Hann fer í taugarnar á mér. 

Um þetta var ég að hugsa meðan ég var að kemba honum út á svölum og um víkingana, sem flestir eru sagðir hafa komið frá Noregi, ættgöfugir menn. Hverju breytti það? Voru þeir eitthvað betur settir í okkar harðbýla landi en ættlausir menn. Stóðu þeir betur af sér hamfarir og hallæri. Einkennilegt orðatiltæki, ættlausir menn.

Að lokum

Þetta átti að vera öðru vísi Blogg. Ég hef tekið eftir því, að það blogg sem mest er lesið og mest vitnað í, er skrifað af karlmönnum og það er oftast um pólitík eða um málfar. Ég les það líka.  En mig langaði til að skrifa um eitthvað hverdagslegt, tengt lífinu eins og það birtist mér á sólríkum degi. 

Ég hefði alveg getað hugsað mér að skrifa um kosningarnar í Nígeríu sem ég hef verið að lesa mér til um. En satt best að segja næ ég ekki utanum það verkefni. Það eru heldur engin úrslit komin. Satt best að segja held ég hvorugur þessara karla, sem valið virðist standa um, sé góður kostur.

 


Krefjandi fjölskylda

image

Það var 16. mars sem ég hóf lestur Karamazovbræðranna eftir Dostojevskí, síðan hefur þessi fyrirferðarmikla fjölskylda og fylgifiskar búið hjá mér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hleypi þeim inn, ég las bókina fyrst í Svíþjóð á áttunda áratugnum og síðar þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur þegar hún kom út 1991.

Eiginlega er ekki rétt, í þetta skipti, að tala um lestur. Því ég hlusta. Sjónin er að versna hjá mér og þá má líta á það sem lán í óláni, að þá fær maður aðgang að Hljóðbókasafni Íslands. En ég ætla ekki að ræða meira um ólanið hér, heldur um lánið og svo auðvitað um Karamazovana sem liggja mér framarlega á tungu. Þeir eru fyrirferðarmiklir. 

Það er öðru vísi að hlusta á bækur en að lesa þær. Þegar maður les, túlkar maður textann sjálfur og skapar söguna sem maður les með höfundi, þegar maður hlustar er kominn milliliður sem milli mín og textans. Það skiptir því miklu máli hvernig hann kemur sögunni til skila, hann túlkar. Ég hefði kosið að ég þyrfti ekki á þessum túlk að halda og les því oft bækur með stækkunargleri að vopni frekar en sætta mig við lélegan eða geldan lestur.

Í þetta skipti hafði ég heppnina með mér, því bókin er lesin af Sigurði Skúlasyni og hann les listavel. Bókin tekur u.þ.b. 36 tíma í lestri og hún er ekkert léttmeti. Hvort sem það er Sigurði að þakka eða kenna, fór ég allt í einu að hugsa um Bræðurna Karamazov sem glæpasögu, krimma. Réttarhöldin bera af öðrum glæpasöguréttarhöldum sem ég hef lesið. Já, það eru mörg matarholan á Karamazov. 

Jafnframt því að lesa þessa bók, get ég ekki stillt mig um að lesa mér til um höfundinn, Dostojevskí (f. 1821 d. 1881). Hann var merkilegur maður og líf hans var óvenjulegt miðað við skáld þessa tíma, held ég. Kannski er bölvuð vitleysa að segja svona, því hver og ein ævi er einstök.Ég fæ ekki betur séð en Dostojevskí gæði allar persónurnar einkennum frá sjálfum sér. Ég fór fyrst að hugsa um þetta út frá bræðrunum. Hinn lífsþyrsti svallari Dmítri hafði verið í hernum, menntamaðurinn Ívan, var gagnrýninn raunvísindamaður og hinn blíðlyndi Alexei, var á kafi í guðfræðilegri heimspeki. Launbróðirinn, Smerdjakov sem aldrei var tekinn inn í hópinn, var flogaveikur. Og það er næstum sama hvaða persóna er skoðuð, öllum persónum leggur hann til eitthvað sem hann á sjálfur til og gjörþekkir.

Ég kem til með að ljúka þessari bók í dag en ég á ekki von á að það breyti miklu í bráð. Þetta fólk á eftir að ílendast hér á heimilinu.

Verði svo og verði svo. 

 


Þægu börnin og Lína

image

Ég fór í leikhús í dag og sá Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu. Salurinn var troðfullur af börnum, pöbbum, mömmum, öfum og ömmum. Og sjálfsagt fleira fólki sem var að gleðja barnið í sér eða hafði fengið lánuð börn. Þótt allir þekki söguna um Línu, biðu allir óþreyjufullir eftir því að tjaldið væri dregið frá. Það var dauðaþögn í salnum og ég man ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma séð svona mörg þæg börn samankomin.

Lína kom með hvelli og hún var sjálfri sér lík. Sviðið er dásamlegt. Fallegt og fullt af spennandi hlutum. Ég gleðst alltaf þegar ég hugsa um innanhúss arketektúr Línu. En aðallega er Lína þó þekkt fyrir viðhorf sitt til ríkjandi hefða um hvað megi og eigi og um það hvernig fólk lætur tjóður vanans hefta sig í að njóta lífsins. Og svo er hún líka skemmtileg af því hún er sterk og rík en þó aðallega hugmyndarík. 

Þegar þessi bók kom út á sínum tíma (1945), voru margir með efasemdir um boðskapinn. Var ekki varasamt að sleppa þessari ósiðuðu stelpu inn í heim barnanna? En börnin voru aldrei í neinum vafa, þau elskuðu Línu og skildu boðskap bókarinnar líklega betur en margur fullorðinn. Þau skildu að Lína er að boða annað og meira en óþægð og uppreisn. Börn skilja nefnilega alveg það sem er undirliggjandi uppátækjunum, Lína vill að börn séu virt sem manneskjur og þau þurfi að fá leyfi til að leika sér, gleðjast og skapa. 

Ég man vel þegar ég las mína fyrstu Línubók. Bókin kom inn á heimilið með stúlku að sunnan sem var fóstruð á næsta bæ. Ég man að ég var þá sjálf með efasemdir í garð Línu. Er þetta í lagi hugsaði ég. Enda stillt stúlka (reyndar hef ég komist að því núna að flest börn hugsa um sig sem þæg börn) og óvön svona bókum. 

Í dag hugsaði ég um hversu börnin í leikhúsinu voru prúð. Svo fór ég að hugsa um hvernig Lína dagsins í dag þyrfti að vera til að ganga fram af fólki, nú þegar ekki er lengur hægt að ganga fram af fólki. Ekki fann ég neitt svar við því enda kannski alveg óþarfi að uppfæra Línu. Ég gat ekki betur séð en allir skemmtu sér. 

Leikhús er töfrar og það fær mann til að samþykkja og trúa þeirri veröld sem það skapar. Þannig var þetta í Borgarleikhúsinu í dag. Leikur, söngur, tónlist og dans, allt gekk upp og sviðið var hrífandi. Það var aðeins eitt sem ég var ekki ánægð með en það var hljómurinn í græjunum. Söngurinn var oft eins og gjallandi, næstum holur á hæstu tónunum. Þetta var ekki söngvurumum að kenna, ég veit það af því ég þekki þá. Af hverju er ekki hægt að stýra þessari tækni? 

Ég segi því eins og Lína: Maður fær nú að reyna ýmislegt áður en eyrun detta af manni (þetta er tilvitnun eftir minni í fyrstu bókina sem ég las um Línu).

 

 


Kári hefur talað

image

Kári hefur talað og nú spyrja allir, hvernig ber að túlka orð hans. Þannig er það allavega í mínum vinahópi. Og spurningarnar eru margar. 

1. Var orðið gen í eintölu eða fleirtölu?

2. Var orðið sem hann notaði með einu eða tveimur Téum? Gæti verið, að hann ætti eingöngu við eitt gen?

3. Var hann að meina að við nýttum genin okkar lítið og ættum að taka okkur á?

4. Getur verið að við öll búum yfir duldum hæfileikum, einhverju sem við vitum ekki um?

Ég verð að játa að ég skildi hann ekki. Hann getur ekki einfaldlega átt við, það sem allir vita, að ýmiskonar sjúkdómar liggi í ættum, það vita allir og því er það ekki frétt til að fara með í útvarpið á besta útsendingartíma. Það myndi enginn blaðamaður láta bjóða sér slíkt. Það  getur heldur ekki verið að hann hafi einungis verið að auglýsa sig og stofnun sína Íslenska erfðagreiningu og því það væri ósvífið. Spurningarnar eru margar. 

En þar sem ég hef lært að einbeita mér frekar að því mögulega en ómögulega, hef ég kosið að skija Kára á þann veg að við vannýtum genin okkar og ætla því að því að leita að og virkja, ef ég þá finn það, genið sem stýrir tiltektarhvötinni. 

En fyrst af öllu þarf ég að leggja frá mér iPaddinn, stíga upp úr sófanum og hætta að skrifa einhverja vitleysu sem er ekki einu sinni fyndin.

 

 


Samfylkingin í ljósi Dostojevskís

image

Daginn sem sólmyrkvinn varð og ég gerði misheppnaða tilraun til að sitja landsfund Samfylkingarinnar, lauk ég fyrra bindi bókarinnar um þá Karamazovbræður. Daginn eftir las ég fyrsta kaflann í síðara bindinu. Fyrir þá sem ekki vita, lýkur fyrra bindi á dauða öldungsins Zosima og samantekt á hugleiðingum hans um Guð og hlutverk mannsins í sköpunarverki hans. En seinna bindið hefst á undirbúningi útfarar öldungsins. 

Það var þarna sem ég var stödd, þegar fregnir fóru að berast af fundi Samfylkingarinnar. Kaflinn heitir Rotnunarstækja, en kæru vinir, verið nú ekki allt of fljótir til að draga ályktanir. Eins og þið munið er Zosíma andaður, líkið stendur uppi og það hefur drifið að svo margt fólk, sem vill kveðja hann að það þarf að hleypa því inn í hollum. Herbergið er lítið, glugginn er lokaður og það hefur enginn viljað ríða á vaðið með að stinga upp á því að opna hann. Ástæðan er svo sú, að í Rússlandi þess tíma, var sú skoðun útbreidd að lík heilagra manna rotnuðu ekki, heldur þvert á móti, af þeim legði angan. Það var hik á mönnum, þvi með því að opna glugga væri látið að því liggja að Zosíma væri ekki helgur maður. 

Nú víkur sögunni að þagnarmunkinum og meinlætamanninum Ferapont. Hann var var öfundarmaður Zosímas og hafði lengi stundað undirróður gegn honum. Hann sagði, að kenning Zosíma um kærleikann sem vopn gegn syndinni, græfi undan Guði sjálfum. Ekki bætti úr skák að Zozima hafði gert lítið úr logum helvítis. 

Þegar vanræðagangur viðstaddra út af lyktinni stóð sem hæst, kemur Ferapont á vettvang. Hann fer mikinn og ber fyrir sér kross og gerir krossmörk út í öll horn. Auk þessa þylur hann bænir eins og hann sé að reka út illa anda. Og það var einmitt það sem hann var að gera, því Ferapont var þekktur fyrir að sjá púka á ólíklegustu stöðum. Upphófst nú talsverð ringulreið, faðir Paísi bað Ferapont að trufla ekki þessa kveðjustund en Ferapont ásakaði hann og hans menn fyrir að sjá ekki púka og bætti því við að Guð hefði sent ólyktina sem sönnun þess að hann hefði andúð að boðskap Zozimas. Faðir Paísi varði sig með að það væri fullkomlega eðlilegt að það kæmi lykt af líki sem stæði uppi.

Og nú ætla ég að fylgja þér alla leið, kæri lesandi og segja þér hvernig þetta minnir mig á uppþotið sem varð vegna framboðs Sigríðar Ingibjargar.

Það er eðlilegt að fólk takist á í pólitík og það er líka eðlilegt að nota til þess landsfund. Það er ekki síður eðlilegt að sitjandi formanni bregði, þegar hann allt í einu og óvænt fær mótframboð. Hann þarf ekki bara að skrifa nýja ræðu, hann þarf einnig að hugsa ýmislegt upp á nýtt.

Það er til fólk, jafnvel nú á dögum, sem sér púka í hverju horni og brúkar það sem sönnun þess að skrattinn sé í nánd. Í augum þessara púkasjáenda er eitthvað bogið við það að tapa með einu atkvæði og formaður sem ekki fær rússneska kosningu, hefur tapað.

Svona er nú þetta í ljósi Dostojevskíjs.

 

 

 


Ánægjuleg fýluferð

image

Daginn sem sólmyrkvinn varð, tók ég strætó sem leið liggur vesur í bæ. Ferðinni var heitið á Hótel Sögu, á landsfund Samfylkingarinnar. Ég stóð nefnilega í þeirri trú að ég væri kjörinn fulltrúi. En annað kom í ljós. Ég hafði lesið póstinn minn hroðvirknislega og skilið tilnefningu sem kjör. En á því er reginmunur. Efir smá vafstur á milli starfsmanna sem sáu um skráningu fulltrúa, neyddist ég til að gangast við heimsku minni og viðurkenna mistök mín. Ég skammaðist mín mikið. 

En það er gott veganesti að hafa hlotið þjálfun í að anda djúpt. Eftir að hafa kyngt skömm minni ákvað ég að einbeita mér að því sem væri jákvætt í stöðunni. Ég sá strax að ég hafði grætt tvo daga, ég var nefnilega búin að afþakka tvö heimboð og segja mig frá húsverkum. Það fyrsta sem ég gerði var að heimsækja vinkonu, sem ég hafði ekki séð lengi. Hún bauð mér í skoðunarferð í gróðurhúsið, að skoða plönturnar. Þær voru allar byrjaðar að teygja sig  út í vorið og ein pelagonían meira að segja komin með blóm. Á eftir fengum við okkur kaffi.

Maðurinn minn tók mér bara vel þegar ég skilaði mér óvænt heim til hans en það skipti reyndar ekki miklu máli, því ég sneri mér beint að fólkinu í kringum Karamasovbræðurna. Nú var það þagnarmunkurinn, faðir Ferapont sem var í sviðsljósinu. 

Lokaorð. Þegar ég gerði upp daginn í ljósi þessarar undarlegu uppákomu, kom nokkuð óvænt í ljós. Ég komst nefnilega að því að það var ferðin á fundinn þar sem ég átti ekki að vera, sem stóð upp úr. Meðan í vafstrinu í kringum misskilning minn stóð, hafði ég hitt ótrúlega mikið af vinum og kunningjum sem mér fannst gaman að hitta. Og ég fór að hugsa um þá mynd af fólki í pólitík sem stöðugt er haldið að okkur í gegnum net og fjölmiðla. Það er því miður neikvæð mynd. Fólk í pólitík er oft ósammála á milli flokka og innan flokka. Það er eðlilegt. En þetta er yfirleitt duglegar og vel meinandi manneskjur. En það sem skiptir mestu máli er að vera heiðarlegur og segja sannleikann. 

Svona var nú þessi ferð. Næst mun ég segja ykkur meira frá föður Ferapont.


Fyrirferðarmikil fjölskylda

Loksins varð  bókaklúbburinn minn við ósk minni að við læsum saman Karamazovbræðurna, en þó var sú ósk sett fram þegar á fyrsta fundi okkar. Nú er það ekki svo, að ég hafi ekki lesið bókina, því þetta er a.m.k. í fjórða sinn, sem ég sem ég tek þessa fyrirferðarmiklu fjölskyldu inn á heimili mitt.  En mig langaði til að fá tækifæri til að ræða hana við aðra til að öðlast betri skilning á karakterunum svo ég tali nú ekki um boðskapinn. Það er skemmtilegra að lesa góðar bækur en vondar og það gerir ekkert til þótt þær séu gamlar, því það sem einkennir góðar bækur er að maður getur lesið þær aftur og aftur. Maður kynnist alltaf nýjum hliðum á bókunum, karakterunum og á sjálfum sér. Þannig er nú það.

Bókin er sú sama en maður hefur sjálfur breyst og svo les maður bókina við nýjar aðstæður. Nú veit ég ekki hvort, þú lesandi minn,ert kunnugur Karamazovfeðgunum, en ef þú hefur ekki kynnst þeim nú þegar, ættir þú að stofna til kunningsskapar við þá.  

Í þetta skipti hefur athygli mín beinst sérstaklega að pabbanum, Fjodor Karamazov. Hann er óþokki, ræfill og óreglumaður sem hefur ekki stjórn á eigin lífi. En merkilegt nokk heppnast fjármálagerningar hans ævinlega. Hann leggur stund á flesta lesti sem voru þekktir á þeim tíma og þessir lestir eru reyndar ekki svo ólikir löstunum okkar.  

Nú vildi svo til að ég var stödd í kaflanum um heimsókn feðganna í klaustrið, til öldungsins Zosima, þegar umræður um bréf utanríkisráðherra stóðu sem hæst. Að sjálfsögðu lituðu þessar aðstæður upplifun mína á textanum og gæddi umræðuna um bréfið nýrri merkingu. 

Það er í þessum kafla sem höfundur lýsir loddaranum og lygaramum Fjodor og það er nokkurn veginn svona:

- Þegar Fjodor hafði logið, vissi það sjálfur og vissi að allir vissu það, færðist hann allur í aukana og bætti í lygarnar. Vildi þannig sanna uppspunann með enn meiri uppspuna. - 

Alveg fannst mér þessi lýsing í takt við ýmislegt sem ég hef séð og heyrt í pólitík nú á síðustu og verstu tímum. 

 En þetta með lygina var nú bara útúrdúr. Bókin er listaverk og það er þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur líka. Ég hef ekki lesið eins góða bók síðan ég las Biblíuna. 

Best þykir mér þó hversu löng hún er og að ég er enni ekki hálfnuð með fyrra bindið.


Viljugar og óviljugar þjóðir

image

Einu sinni var ríkistjórn sem skráði þjóð sína á lista viljugra þjóða. Svo var önnur ríkisstjórn sem sendi béf með beiðni um að láta taka sig af lista. En þetta var ekki sami listinn og ekki sama ríkisstjórnin. Sú fyrri vildi láta þjóð sína standa á lista um innrás í annað ríki. Sú síðari vildi láta afnám nafn þjóðar sinnar af umsóknarlista í bandalag sem var stofnað með frið á stefnuskrá sinni.

En þessu hvoru tveggja fylgdi mikil leynd.

Í fyrra tilvikunu voru þetta reyndar einungis tveir menn en í hinu síðara virðist sem það hafi verið splæst í fund. En þau spöruðu frímerkið.


Vandinn að ljúka bók sem manni leiðist

image

Þegar ég lendi í því að leiðast bók sem aðrir lofa,verð ég rökstyðja vel fyrir sjálfri mér, hvers vegna mér fellur ekki bókin. Og nú, eftir að ég fór að hugsa upphátt á netinu, finnst mér að ég þurfi að greina öðrum frá því líka. Bókin sem síðast geri mig að fórnarlambi sínu heitir Alex eftir Pierre Lemaitre. Hún er margverðlaunuð og sögð meistaraverk. Þetta er saga um vont og ómerkilegt fólk, raðmorð og kynferðisofbeldi og fleira.

En fyrst og fremst er þetta saga um vont og lítilfjörlegt fólk. Það er falskt, lygið, ljótt og hjákátlegt. Það er engin von, engin birta neins staðar. Meiri hluti sögunnar er sagður út frá sjónarhorni hins agnarsmáa lögregluforingja, Camille. Hann er ekkert of öruggur með sig en hikar ekki við að hóta fólki, tala niður til þess og niðurlægja það. Samstarfsmenn hans eru annarsvegar stelsjúkur nirfill og hins vegar maður sem gengur í merkjafötum. (Það er verst að nöfnin að merkjunum segja mér ekki neitt, er illa að mér um merki.) En samstarfið hjá þeim gengur vel og þeir eru duglegir í vinnunni. 

Í þessum vonda heimi eru glæpir nánast eðlilegir. Hvernig ætti annað að vera enda er þetta glæpasaga. Reyndar segir það ekki neitt því þær eru ólíkar. Þegar ég var komin í miðja bók var ég komin að þeirri niðurstöðu að bókin væri kveljandi leiðinleg, að  hún væri ekki bók fyrir mig en ég ákvað samt að ljúka henni. Mér leðast lýsingar á pyndingum, sóðaskap og hrottaskap. Raðmorð eru endurtekningar með varíasjónum, nokkurs konar mínímalismi í hrottaskap. Frekar leiðigjörn. En verst þóttu mér þó heimssýn lögreglumannanna sjálfra, algjört svartnætti. 

Þegar þangað var komið í lestrinum og ég var búin að skilgreina fyrir sjálfri mér hvers vegna mér felli ekki bókin, fór ég allt í einu að hugsa um aðra bók, sem er líka frönsk og vissulega mætir sögumaðurinn miklu mótlæti og þarf að horfa upp á enn verri hörmungar,en raðmorð. En lífssýn hans er full vonar enda lifir hann í besta heimi allra heima. Eftir þessa uppgötvun, kannski kallast bókin Alex á við Birtíng, varð upplifun mín af bókinni önnur og næstum gefandi. 

Ég lauk þessari bók og hún hefur kveikt ýmsar hugmyndir, hún er vel skrifuð og oft fyndin. Ég er að vissu leyti þakklát, því mikið er ég fegin að lifa í betri heimi en þeim sem bókin lýsir. Í minum heimi heyrir svikult, illkvittið, ómerkilegt fólk til undantekninga, það er svo fátítt að það er vandi að sneyða hjá því. Fólk sem myndi falla í þennan flokk fær sýna þjónustu (ef upp kemst) hjá okkar hógværa og kurteisa sérstaka saksóknara og lögreglu sem ég held að sé upp til hópa normal. En ég er e.t.v. í ætt við Birting og tel mig lifa í besta heimi allra heima.

Þó svo að þessi bók kallast e.t.v. á við Birtíng, held ég að hún verði ekki á metsölulistum eftir 256 ár.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2015
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband