Old Filth: Munaðarleysingi heimsveldis

image

Ég hef verið að hlusta á  söguna Old Filth, í símanum mínum þegar ég skokka og þegar ég fer í strætó. Ég er svolítið tortryggin á að hlusta á bækur í stað þess að lesa þær, ég er að æfa mig. Ég sé að unga fólkið er alltaf með eitthvað í eyrunum, af hverju ekki ég líka?

Bókin er eftir Jane Gardam (f. 1928), breskan höfund, sem ég kunni engin deili á en hef lesið mér til. Þessi kona er vel þekkt, hóf að skrifa um fertugt. Hún hefur skrifað barnabækur, smásögur og skáldsögur og er margverðlaunuð. 

Bókin fjallar um gamlan mann sem hefur misst konu sína og rifjar upp líf sitt. E.t.v væri réttara að segja að hann reyni að kryfja líf sitt, komast að því hver hann er. Minningar vella fram, það er eins og hann ráði ekki við það. 

Hann hefur verið lögmaður og dómari og unnið í Hong Kong. Nafn hans, sem er um leið nafn bókarinnar felur í sér brandara eða sögu. Það er sagt að hann sé maðurinn á bak við orðatiltækið ,, Fail in London, try Hong Kong". En það var einmitt það sem hann gerði. 

Þau hjónin höfðu búið í Hong Kong þar sem hann starfaði sem dómari og þau fluttu ,,heim" til Bretlands til að eyða þar ævikvöldinu. Þau fluttu til Wales. Ég hef heim innan gæsalappa því að eitt af því sem gamli maðurinn stríðir við að finna út úr er hvað er heim fyrir hann.

Hann er fæddur í Malasíu, þar sem faðir hans starfar fyrir heimsveldið. Faðirinn hafði barist í fyrri heimsstyrjöldinni og er farinn illa. Móður sína þekkir drengurinn ekki af því hún lést við fæðingu hans, svo hann er alinn upp af fóstrum. Þegar hann er 5 ára sendir faðir hans hann ,,heim" til að læra tungumálið. Síðan tekur við dvöl á heimavistarskólum. Þeim er reyndar ekki borin illa sagan. Í upprifjun gamla mannins á ævi sinni birtist honum óreiða. Auk þess burðast hann með hræðilegt leyndarmál.

Ég ætla ekki að rekja söguna lengra en í henni felst grimm ádeila á hvernig börn urðu fórnarlömb sóknar heimsveldis eftir völdum og auði. Og enn eru þau fórnarlömb, en þá hugsa ég  til stríðsátaka og flóttafólks.

Bókin er hrein perla, bæði spennandi, hrífandi og á einstaklega fallegu máli. 

Ég ætla að lesa meira eftir þessa konu, t.d The Man With the wooden Hat sem kom út 2009.

Ég er orðin 73 ára og ég veit vel að það fer mér ekki að vera með ,,earhpons" og reiðhjólahjálm og mér finnst ekki enn að hlustun jafnist á við lestur. En það kemur með æfingunni. Jane Gardam var 76 þegar hún skrifaði þessa bók. 


Fávitinn

image

Ég fæ stundum svo mikið dálæti á bókum og höfundum þeirra að það jaðrar við áráttu eða það er eins of að vera ástfangin. Núna byrjaði þetta með Karamazovbræðrunum sem ég las með bókaklúbbnum. Síðan tók Fávitinn við og nú hef ég hafið lestur á Glæpi og refsingu. Reyndar tók ég nokkrar bækur Tolstojs sem hliðarspor. Ég er ofurseld Rússum og það er ekkert óþægilegt. Allar þessar bækur eru þýddar af Ingibjörgu Haraldsdóttur. 

Fávitinn reyndist mér strembnari lesning en Karamasovbræðurnir, hann gekk á vissan hátt nærri mér. Það er eitthvað svo átakanlegt með þennan unga mann sem kemur heim til Rússlands eftir að hafa dvalið langdvölum erlendis vegna veikinda sinna en snýr nú heim til föðurlandsins eftir að hafa fengið lækningu. Að því er virðist. Hann á enga að og hefur misst langan kafla úr lífi sínu, ekki menntast og er allslaus. Að því er virðist. En hann er þó greifi og leitar því uppi fjölskyldu eina ættingja síns sem hann veit um. 

Þótt við liggi, að honum sé þar vísað á dyr, sér frænka hans Lísaveta og maður hennar, hershöfðinginn, Ivan Fjodorovits, aumur á honum. Þar með hefst flókin atburðarás sem ég ætla ekki að rekja hér. Hann kynnist mörgu fólki og af misjöfnu sauðahúsi og það eru þessir karakterar og samtölin sem gera þessa bók að meistaraverki. Reyndar væri stundum réttara að tala um einræður en um samtöl. Nær öllum þessum persónum er svo vel lýst að mér finnst ýmist að ég þekki þær og ef ekki, ef ég myndi mæta þeim á götu myndi ég þekkja þær og heilsa þeim með virktum. 

Þegar furstinn/fávitinn kemur heim til Pétursborgar, kemst allt í uppnám, að minnsta kosti hið innra með fólki. Hann er nefnilega góður. Elskar alla, er fullkomlega hreinskilinn, kann ekki að ljúga eða látast. Þetta raskar öllu jafnvægi í þessu stéttskipta þjóðfélagi sem byggist á ættum, peningum og spillingu. Fólk fer ósjálfrátt að spegla sig í honum og þar að auki er hann efnaður. Það hefur nefnilega komið í ljós að  velgjörðarmaður hans, sem stóð að því að vista hann á heilsuhælinu, hefur látið eftir sig arf og furstinn er lögmætur erfinginn hans. 

En þetta er ekki samtalsbók með myndum af fólki, þetta er ástarsaga með glæp og hún er spennandi. Mikið er ég fegin að Dostojevskí skrifaði sínar bækur áður en það þótti sjálfsagt að setja ritsjóra yfir rithöfunda til að sníða vankanta af bókum. Þessi bók er full af útúrdúrum og ég nýt þeirra. Hún tekur u.þ.b. 40 stundir í lestri. Það er ein vinnuvika. Það er eins gott að vera hætt að vinna. 

Ef þið hafið gaman af því að hlusta á fyllibyttur en viljið spara útgjöld við að fara á bar, lesið Fávitann. Ef ykkur langar að hlusta á heimspekilegar umræður og/eða guðfræðilegar,lesið Dostojevskí. Og ef ykkur langar hlusta á yfirgengilega lygalaupa, lesið kallinn.

Það er merkilegt hvað margt er líkt með Íslandi í dag og með Rússlandi 19. aldar.

Mig langar að ljúka þessum pistli með orðum Lísavetu, frænku furstans. Hún er artarleg kona  og heimsækir frænda sinn með föruneyti á hælið í Sviss en þangað er hann kominn af því sjúkdómur hans (flogaveiki) hefur tekið sig upp. Hann þekkir hana ekki lengur vegna ástands síns og hún ergir sig á öllu og langar heim:

,,Ég fékk að minnsta kosti að gráta á rússnesku yfir þessum vesalingi ...nú er nóg komið af þessari vitleysu, það er kominn tími til að hlýða skynseminni.  Allt þetta, öll þessi útlönd, og öll þessi Evrópa yðar, allt er þetta einber ímyndun, og við hér í útlöndum erum ekki annað en ímyndun... minnist orða minna, þér eigið eftir að sjá þetta sjálfur... " 


Bara börn

image 

Ég hef verið að undirbúa mig fyrir síðasta bókafund ársins í öðrum af tveimur bókaklúbbun sem ég tilheyri. Ég er búin að lesa bókina sem við settum okkur fyrir á síðasta fundi sem var haldinn stuttu eftir andlát Günter Grass (f. 1927). Köttur og mús, varð fyrir valinu. Ég hafði ekki lesið hana áður, en fyrir nokkrum árum las ég Blikktrommuna (í hinum bókaklúbbnum mínum). Á eftir fékk ég dellu fyrir Grass og reyndi að lesa Beim Häuten der Zwiebel á frummálinu en gafst upp og las hana á ensku, Peeling Onion. Mér finnst gaman að fá góða listamenn á heilann. 

Bókin, Köttur og mús, er stutt...drengjasaga. Hún segir frá unglingum í menntaskóla í Danzig á 4.áratug 20. aldar, árum í aðdraganda stríðsins. Danzig er að hluta til pólsk og hefur stöðu fríríkis, reyndar bara að nafninu til þegar hér er komið sögu. En drengirnir eru ekki uppteknir af því. Þeir lifa í sínum unglingaheimi og í upphafi sögunnar eru þeir uppteknir af ævintýrum sem fylgja því að synda út í skipsflak í inn siglingunni og kafa niður í vistarverur þess.

Það er kórdrengurinn Pilenz sem segir söguna, sjónarhornið er hans og stundum talar um hvað vakir fyrir honum. Hann er að skrifa um Mahlke, sem er einn af þeim drengjunum en samt alveg sérstakur. Lesandinn veit að það er stríð í uppsiglingu en drengjahópurinn er ekki upptekinn af því, ef frá er talinn áhugi þeirra að kunna allt um orustuskip, kafbáta. Þeir romsa upp úr sér nöfnum þessara hertóla, stærð og búnaði, eins ég gæti ímyndað mér að okkar gætu gert ef þeir væru að tala um uppáhalds hljómsveitir.

En stríðið mallar allstaðar undir  í frásögninni en þetta eru bara börn. Nálgun höfundar er að því leyti sérstök að bókin er eins og skýrsla um þennan dreng, Mahlke. Hann er  einn af þeim en öðru vísi, hann þarf ekki á þeim að halda. Fullorðna fólkið er að vissu leyti utan við sjónarhorn þessarar skýrslu og frásögnin varð á vissan hátt spennandi af því lesandinn þarf stöðugt að geta sér til um það sem ekki er sagt og hvers vegna. 

En stríðið nær þeim, stríðshetjurnar koma til þeirra inn í skólann og þeir eru undirbúnir fyrir sína þátttöku. Þessir drengir útskrifast ekki út í lífið eða til fara í háskóla. Þeir útskrifast í stríðið. 

Günter Grass hefur verið gagnrýndur fyrir þátttöku sína í stríðinu og fyrir að hafa ekki verið hreinskinn. Hann gekk í herinn 17 ára. Hann er orðinn 79 ára þegar hann gerir grein fyrir þessu í bókinni ,,Að flysja lauk". Nú þegar ég hef lesið þessar þrjár bækur, sem eru, Blikktromman, Köttur og mús og Að flysja lauk, finnst mér þær fjalla allar um þennan sama efnivið, undirbúning stríðs.

Ósjálfrátt bætist ein frásögn enn við í huga mér, bók Marchel Reich Ranicki, Mein Leben. Lýsing hans á menntaskólaárunum í Þýskalandi er hliðstæða við þessa frásögn. Ranicki er að vísu ekki í leikjaheimi, líf hans snýst um tónlist og bókmenntir. Þegar hann er 18 ára er honum  allt í einu er honum kippt upp með rótum, hann og fjölskylda hans eru send til Pólands þegar pólskættuðum Gyðingum er vísað úr landi. Þar bíður þeirra gettó. Ranicki tókst reyndar að sleppa þaðan og bjargaðist.  

Allar þessar bækur um unglinginn sem stendur frammi fyrir stríði hljóta að leiða huguann að stríðumum okkar í dag. Enn eru unglingar sem fara í stríð, ýmist viljugir eða tilneyddir. Og heimurinn er fullur af flóttafólki. Við huggum okkur með að stríðin séu langt í burtu en heimurinn er lítill. 


Sprell

image

Það er sól, það er vor og ég glöð og veit ekki hvort ég á að hjóla eða hlaupa.

Ég las í blaðinu í dag, eða var það í fréttunum, að það er búið að reikna það út að Íslendingar eru latir og þess vegna eiga þeir ekki skilið að fá hærra kaup.

Ég veit ekki um nokkurn mann sem veit hvað það eru mörg stéttarfélög í verkfalli eða á leiðinni í verkfall. Listamennirnir okkar eru óbrúklegir í útlöndum. En við getum verið sátt, því við eigum svo góða stjórnendur á æðstu stöðum að við þurfum að borga þeim formúur til að þeir verði ekki keyptir til útlanda. Og svo þurfum við að borga þeim bónus ofan á það.

Ég er löngu hætt að vinna og hef sjálfsagt verið löt. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa áhyggjur, minn tími er búinn. En mér finnst það einhvern veginn óþægilegt að dingla svona. Mér finnst eins og ég hangi í lausu lofti. Mér finnst að ég sé eins og sprellikerling það sé verið að leika sér með mig.

Og þegar ég hugsa líkinguna til enda, veit ég að ég að ég dingla og það eru sprellikarlar sem halda í spottann sem heldur mér uppi. 

Í gamla daga þegar til var alvörufólk var þetta betra. Krónan reyndar var ónothæf þá eins og nú en menn sættu sig við höftin og skömmtunina líka ef með þurfti. Við stunduðum vöruskipti við land sem líka átti mynt sem bara var til heimabrúks. Allir græddu. En það voru aðrir tímar. 

En það er sól. Það er vor. 


Norwegian by night

Nú stendur svo undarlega á í lífi mínu að ég er föst í þremur bókum samtímis. Það er eðlilegt. Eina er ég að lesa fyrir bókaklúbbinn (Köttur og mús: Günter Grass), aðra vegna þess að ég get ekki yfirgefið Rússland og 19. öldina (Fávitinn: Dostojevskí), en sú þriðja er í símanum mínum og ég hlusta á hana í strætó og þegar ég skokka. En ég ætla að bara tala um hana hér. 

Hún heitir Norwegian by night og er eftir Derek B. Miller. Ég fékk þessa bók með símanum og vissi ekkert um höfundinn enda kannski ekki von því þetta er fyrsta bókin hans. 

Aðalpersóna bókarinnar er 82 ára, Bandaríkjamaður, sem er nýbúinn að missa konuna. Hann er einstæðingur og flytur með sonardóttur sinni til Noregs. Þessi stúlka er reyndar nokkurs konar dóttir, því hún er alin upp hjá afa sínum og ömmu. 

Fyrsta hugsun mín, þegar ég byrjaði að lesa þessa bók, var hvort gamlingjsögur væru að komast í tísku. Kannski er það? En þessi gamlingi,er 82 ara en hann hefur líka verið ungur. Þegar þarna er komið sögu, dvelur hugur hans oft í fortíðinni og hann talar við dáið fólk. Konan hans, sem nú er dáin,  hélt að e.t.v. væri hann kominn með Alzheimer og það er m.a. þess vegna sem sonardóttirin drífur í að taka hann með til Ósló. 

Gamlingjasaga eður ei? Fljótlega upphefst æsispennandi atburðarás. Það er framið morð, unga konan í næstu íbúð er myrt en sonur hennar felur sig inn í skáp og gamli maðurinn er einn heima. Hann vill bjarga þessum dreng.

Horowitz, sem er gyðingur, þekkir stríð. Kynslóð foreldra hans fylgdist á sínum tíma með örlögum gyðinga í Evópu. Hann var sjálfur of ungur til að berjast í síðari heimsstyrjöldinni og skráði sig síðar í Kóreustríðið. Fyrir föðurlandið, eða þannig lítur hann á þetta. Sonur hans skráir sig í Víetnam stríðið og fellur þar. Allt þetta rifjar gamli maðurinn upp þegar hann flýr Ósló með litla drenginn sem hann er að bjarga undan morðingja sem enn er fastur í stríði (Kosovo) sem þó er búið.  Samtímis gerir þessi gamli maður upp líf sitt. Hann finnur til sektar. 

Þetta er bók með boðskap. Stríð er óhugnaður, ekki hetjuskapur. Þetta sér þessi gamli maðu en það fullseint. En þetta er sem sagt spennandi bók. Hún er byggð upp sem reifari en málfarið er bókmenntalegt. 

Ég var hrifin af þessari bók, hún er afdráttarlaus þegar hrottaskapur og tilgangsleysi stríðs eru máluð upp. Höfundurinn er vel heima í því sem hann er að fjalla um. Engu að síður var ég ekki sátt. Þrátt fyrir alla gagnrýnina, æpir vöntun á gagnrýni höfundar á þætti Ísraels í því sem nú er að gerast á lesandann. Eða missti ég af einhverju? Það er öðru vísi að hlusta en lesa. 

Eftir 9 ár verð ég 82 ára og ég tala mikið við dáið fólk. Það er með mér. En mitt fólk hefur hefur aldrei barist í stríði ef lífsbaráttan er undantekin. Það er gott.

En ég mæli með þessari bók. 


Að heyra saumnál detta

 

Mig langar að talaimage um tónleikana sem ég og maðurinn minn fórum á síðastliðinn fimmtudag hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við erum með fasta áskrift. Við byrjuðum á þessu þegar við fluttum aftur í bæinn eftir að hafa búið bæði í Borgarnesi og Austur-Húnavatnssýslu. Okkur langaði til að prófa að vera forréttindafólk og völdum þetta. Þetta er ein besta ákvörðun sem tekin hefur verið um ráðstöfun peninga á þessu heimili. Stöðugt eitthvað til að hlakka til. 

Fimmtudagurinn í síðastliðinni viku er þar engin undantekning. Ég vissi reyndar svolítið á hverju var von, því hingað voru komnir góðir gestir frá Rússlandi, hjónin Postnikova og Rozhdestvenskíj. Ég hafði heyrt til þeirra áður og féll fyrir þeim. Hún er einhver besti píanóleikari sem ég hef hlustað á. Þangað til núna, hélt ég að mér fyndist hún svona góð, vegna þess að það var svo mikil mýkt í leiknum. Núna fannst mér hún svo góð vegna þess að hún var grimm. Hann er alveg sérstakur stjórnandi, því mér finnst eins og hann kunni listina að láta öll hljóðfærin njóta sín. 

Nú finnst mér eins og ég verði að bæta því inn í þessi skrif að ég hef ekkert vit á tónlist, það eina sem ég kann, er að njóta hennar. Á þessum tónleikum voru flutt verk eftir rússnesk tónskáld: 

Stravinskíj --- Pulcinella

Rajkhmanínov --- Píanókonsert nr 4 í g-moll

Tsaikovskíj--- Hljómsveitarsvíta nr 3 í G- dúr

Allt var þetta mjög skemmtilegt og þar sem ég er ekki tónlistargagnrýnandi ætla ég ekki að reyna að útskýra hvers vegna mér fannst það. Kannski er ég að skrifa nöfn höfundanna til að ná betur valdi á að segja þau. En er það ekki merkileg tilviljun, að ég sem er að hluta til horfin aftur á 19. öld, skuli fá að hlusta á alla þessa Rússa fædda á 19. öld. Og ekki skaðar að sjálfur stjónandinn og einleikarinn eru samlandar þeirra. Þau eru reyndar bæði nokkuð við aldur svo þau ná í skottið á 19. öldinni. 

Að lokum langat mig, kæru lesendur að tala um hvað mér finnst vera hápunktur hvers verks. Það er augnablikið sem kemur rétt áður en stjórnandinn mundar tónsprotan, augnablikið þegar það ríkir algjör þögn og það mætti heyra saumnál detta. Stjórnandinn hefur framkallað þetta augnablik og hlustandinn veit innan í sér hvað bíður hans. 

 

 


Fortíðarþrá

image

Eins og vinir mínir vita og verða að umbera, er ég haldin fortíðarþrá, ég veit ekki hvort á að segja sjúklegri fortíðarþrá. Á köflum er hún svo mikil, að við liggur að ég flytji inn í 19. öldina, sem mér finnst hún svo heillandi. Þetta er öld hugsjóna og hugmynda sem ég met mikils. Ég væri líklega löngu flutt þangað, aftur til fortíðar, ef ég vissi inn í hvaða stétt ég myndi lenda. Það verður nefnilega að viðurkennast, þótt okkur finnist að lítið hafi áunnist í því að bæta kjör verkalýðsins,að margt hefur áunnist. 

Í dag 1. maí, held ég mig heima vegna kverkaskíts sem aldrei ætlar að sleppa tökunum. Í staðinn fyrir að fara í kröfugöngu, les ég mér til um 1. maí.

1. maí er afkvæmi 19. aldarinnar og minnir okkur á að staða ýmiss réttinda og bætt kjör hafa ekki komið af sjálfu sér. Það sem hefur áunnist hefur fengist vegna baráttu og þrautseigju fólks sem barðist fyrir umbótum. Sögu þessa baráttudags má rekja til blóðugra átaka sem áttu sér stað á Heysölutorginu í Chicago 4. maí 1886, þegar lögreglu var att gegn fjöldafundi, fólks sem setti fram kröfuna um átta tíma vinnudag. Og átökin voru ekki einungis blóðug, eftirleikurinn var enn hörmulegri, því þessu var fylgt eftir með handtökum og aftökum. Það var framið réttarmorð. Ári seinna var fórnarlamba þessara atburða minnst 1. maí. Þessi dagur festist síðan í sessi (m.a. vegna samþykktar á fundi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga) sem alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Einnig það kostaði baráttu.

Það er hollt að minna sig á, að forfeður- okkar og mæður hafa unnið fyrir okkur og þar er hollt að  vera þakklát. En það er ekki síður þörf á að vera vakandi fyrir því baráttumálum dagsins í dag, sem mér finnst allt of oft einkennast af því að þurfa að vera varnarbarátta. 

Nú tíðkast mikið að tala niður allt pólitískt starf og sér í lagi starf verkalýðsfélaga og félagshyggjufólks.  Hversu oft heyrist ekki, það sé sami rassinn undir þeim öllum. Þegar illa gengur er forystumönnum á vinstri væng kennt um. Það er ekki tekið með í reikninginn að andstæðingarnir (ég meina það) hafa haft lag á að skipuleggja sig í sínum herbúðum og brýna vopnin. Um leið eru þeir alveg tilbúnir til að njóta allra þeirra hagsbóta sem verkalýðsstéttin hefur komið á. Hefur einhver heyrt um hægri mann sem ekki finnst sjálfsagt að sækjast eftir stjórnunarstörfum hjá ríki og sveitarfélögum, sem eru í raun rekin fyrir almannafé? 

Verum vakandi og stöndum saman. 

Sýnum samstöðu um að berjast fyrir mannsæmandi kjörum og stöndum vakt um að láta ekki rífa niður velferðarkerfið. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2015
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 187189

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband