Kamilla Einarsdóttir: Kópavogskróníkan og Tilfinningar eru bara fyrir aumingja

686FE8B3-A81C-4242-B52A-77B2818A1316Kamilla Einarsdóttir

Nýverið las ég tvær bækur eftir Kamillu, Kópavogskróníkuna og Tilfinningar eru fyrir aumingja. Að vísu las ég þær í öfugri röð, þ.e. ég las bókina um tilfinningarnar fyrst. Í þessum pistli ætla ég að tala fyrst um Kópavogskróníkuna. Ég þekkti bókina af afspurn svo hún kom mér ekki alveg á óvart.

Kópavogskróníkan kom út 2018 og var fyrsta bók höfundar. Hún er að formi til bréf frá móður til dóttur, þar sem hún segir frá sjálfri sér og sér í lagi kynlífi sínu og væntingum sínum til karlmanna. Inn á milli ávarpar hún Kópavog og vandar honum ekki kveðjurnar. Ég hafði samúð með stúlkunni, ungu konunni sem bókin fjallar um. Hún er á villigötum. Hana vantar sjálfstraust og virðist trúa því að hún efli það með því að stunda kynlífsathafnir með karlmönnum. Já og stundum kvenmönnum, ég gleymdi því.

Það sem mestu ræður í þessari bók er samt stíllinn, frásagnarmátinn. Kamilla er bæði orðheppin og frumleg í framsetningu sinni, þar sem hún lýsir lífi  þessarar óhamingjusömu konu. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um hispurslausar frásagnir hennar af kynlífinu. Þær minntu mig meira á samtöl um tilhleypingar en samskipti fólks. En í æsku hlustaði ég á árviss samtöl karlmanna um þennan hluta vinnunnar við gegningar. Jafnvel í sveitasímanum. Í raun leiðist mér slík umræða en ef til vill má líta á þetta sem það hefur aunnist kynfræðslu.

Tilfinningar eru fyrir aumingja er rökrétt framhald af Kópavogskróníkunni. Nema að Kópavogur kemur þar minna við sögu.  Nú snýst umræðan ekki lengur um eina persónu heldur um hóp, ungs fólks, sem hefur kynnst í Menntaskólanum við Ármúla. Þau hneigjast  til lista og hafa stofnað hljómsveit og ætla jafnvel að þiggja það að vera boðin í þáttinn hjá Gísla Marteini. Þau plana mikið en minna verður af hljóðfæraleiknum. Þessi saga er ekki alveg í fríi frá kynlífsorðræðu. Þó ber hærra afar góð lýsing á ofbeldissambandi. Kannski ekki svo mikið um barsmíðarnar heldur meira um lítilsvirðandi umræðu.

Ég veit vel að ég 80 ára gömul konan tilheyri   ekki markhópi þessara bókar og hugsa, „já svona er þetta hjá unga fólkinu núna“. Um leið finnst mér að þessi samskipti hafi kannski lítið breyst. Nema að fólk er flinkara að orða hlutina.

Það er alla vega liðin sú tíð að aðalfrétt Hvítasunnunnar sé um hóp ungmenna sem flýr bæinn til að tjalda, drekka og gera hitt. Ég fór aldrei á slíka hátíð en mikið held ég að krakkagreyjunum hafi oft verið kalt.

Myndin er af riddaraspora. Í bók Kamillu kom Riddarinn nokkuð við sögu, þess vegna mátti ég til með að taka þessa mynd, þegar eg gekk fram hja honum í gær.


Kjörbúðarkonan: Sayata Nurata

45F76CE0-14D0-4B1C-B2E1-D9DA41DF3769

Kjörbúðarkonan

Það er nær pottþétt að velja sér Angústúru bók, ef maður  er að velja sér bók að lesa. Þær opna oftast fyrir þér nýjan heim. Samt kom Kjörbúðarkonan eftir Sayata Nurata mér á óvart. Hún heillaði mig.

Hún segir frá ungu stúlkunni Keiko Furukura sem er enn í menntaskóla. Á leið sinni heim úr skólanum villist hún inn í hverfi sem hún þekkir ekki og þar sér hún að það er auglýst eftir afgreiðslustúlku. Hún slær til og sækir um.

Handbók kjörbúðarinnar

Keiko hefur átt í erfiðleikum með að læra á heiminn, hún skilur ekki til hvers er ætlast af henni og hefur því valið þann kost að vera sem mest ein. Þegar hún kemur til starfa (hún er í hlutastarfi) þarf hún að vera á námskeiði. Henni er fengin í hendur bók, handbók verslunarinnar, þar sem nákvæmlega er sagt frá því hvað hún á að gera, hvernig hún á að haga sér. Það sem stendur í handbókinni verður henni opinberun.  Nú veit hún hvernig henni ber  að vera. Og ef hún er í vafa um eitthvað , getur hún flett því upp. Loksins líður henni vel.

Lífið er ekki bara kjörbúð

Þegar hún er búin í skólanum heldur hún áfram að vinna í búðinni. Hún flytur að heiman og fær sér íbúð. Þegar hún er búin að vinna 16 ár í kjörbúðinni skynjar hún að fólki finnst að það sé engan veginn eðlilegt fyrir konu á hennar aldri að vinna endalaust í kjörbúð. Hún þarf að gifta sig og eiga börn eða fá sér starf sem er hærra metið. Allir virðast vera sammála um þetta. Ekki bara vinkonurnar og foreldrar hennar, heldur líka yngri systir hennar sem skilur hana og hefur oft leiðbeint henni.

Ekki bara í Japan

Ég játa að framan af lestrinum hugsaði ég „svona er þetta í Japan, Ísland er öðru vísi“. Eða ég hugsaði, „Þessi stúlka er greinilega á einhverfurófinu. Líklega Azberger“. Samt sem áður læddist að mér sú hugsun að Nurata væri ekki bara að skrifa um lífið í kjörbúðum. Að kjörbúðin stæði fyrir eitthvað annað og meira. Og mér leið ónotalega.

Vantar okkur handbók?

Auðvitað þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af mér og minni aðlögum, ég hef fyrir löngu lært það sem ég kem til með að læra í samfélagi sem var allt öðru vísi þá en nú. Komin á grafarbakkann. Kannski hef ég aldrei lært að haga mér. Heimurinn í dag er þó miklu flóknari og það er meira frelsi. Og því meira frelsi því meira þarftu að kunna.

Lokaorð

Mér fannst  þetta merkileg bók. Hún vekur áleitnar spurningar. Eins og:

Hvernig lærir maður að laga sig sem best að samfélaginu sem maður býr í ?

Og

eigum við að laga okkur að því?

Eða

Þá hverju?

 Myndin er af hófsóleyjum á árbakka og kemur ekki efninu við: Einungis til að gleðja augað.

 


Markús: Á flótta í 40 ár: Jón Hjaltason

9F6C9A34-C1E9-42B6-B94C-FAB1BF74248B

Markús: Á flótta í 40 ár

 Sagnfræðingurinn, Jón Hjaltason segir, að hann hafi einhvern tíma látið það út úr sér, að besta Íslandssagan, og sú sem fólk væri líklegt til að lesa, væri ævisagan. En þá þyrfti skrifa ævisögur þriggja einstaklinga af ólíkum stigum. Á þennan hátt mætti fanga ríkjandi hugarfar, stjórnarfar og efnahag.   Auðvitað sagði hann þetta ekki svona, þetta er túlkun mín á hans texta. Eftir að hafa sagt þetta tók hann til við að safna gögnum. Síðan tóku önnur verkefni við.  

Og nú tekur Jón Hjaltason sjálfan sig á orðinu og skrifar þá fyrstu bokina. Hún segir okkur sitt hvað um 19. öldina sem er forvitnileg, því hún liggur svo nærri okkur í tíma.  Afar mínir og ömmur voru fædd á þessari öld. Þau sögðu mér ýmislegt beint, annað höfðu foreldrar mínir eftir þeim. Mest lærði ég þó af föðurömmu minni, sem bjó á heimilinu.

Markús Ívarsson

Jón velur sér Markús Ívarsson sem viðfangsefni. Hann segist hafa rekist á hann þegar hann var að skrifa sögu Akureyrar. Markús  er fæddur árið 1833  að Torfum í Eyjafirði. Jón telur að uppeldi hans hafi ekki  verið verið frábrugðið því sem þá tíðkaðist.

Hann var sonur efnalítlla foreldra sem flosna síðan upp. Frá 8 ára aldri er Markús hjá vandalausum og verður loks vinnumaður. Hann er vel að manni og virðist hafa haft mikla kvenhylli. Hann eignaðist 15 börn með 8 konum. Það var þó ekki þess vegna sem hann komst í kast við lög, heldur hitt að hann var uppvís að því að stela kindum. Hann var dæmdur í tvígang. Í annað skipti í fangelsi í Kaupmannahöfn og í hitt skipti flúði hann úr fangelsi áður en dómur var upp kveðinn. Þá hvarf  hann í 40 ár.  

Dæmisaga

Í bókinni rekur höfundur sögu Markúsar og gerir grein fyrir samferðafólki hans. En af og til rýfur hann frásögnina með því sem hann kallar millikafla þar sem hann segir frá „kerfinu“ sem þá gilti og skýrir orð sem koma fyrir í textanum.

Heimildavinna

Öll sagan er rakin samkvæmt heimildum. Hann segir frá heilmildum sínum jafnóðum. Þetta gerði að ég sem lesandi fannst ég vera á vissan hátt þátttakandi í þessari rannsóknarvinnu. Að sjálfsögðu vísar hann
til annarra fræðimanna og oft sendir hann þeim pillu um að þeir hafi fullyrt of mikið, alhæft á grundvelli of lítilla rannsókna.

Mín upplifun

Mér fannst þetta skemmtileg lesning og fannst oft á tíðum að bókin hefði mátt vera lengri. Að vísu fannst mér stundum erfitt að átta mig á landafræðinni í Eyjafirði, hefði viljað sjá þetta á korti. Kannski eru kort í bókinni en ég meðtók söguna sem hljóðbók. En þegar frásagan færðist vestur á Snæfellsnes, en þangað fór Markús, var ég ekki í neinum vandræðum  með að átta mig á staðháttum.

Þarf 3 ævisögur

Ég er sammála höfundi að ævisagan sé góð nálgun þegar kemur að því að rannsaka söguna. En þurfum við þrjár? Er ekki búið að skrifa nægilega mikið af sögum ríkra og frægra? Kannski vantar okkur nú bara sögu alþýðukonunnar.

 


Utangarðs? Bækur eftir Auði Jónsdóttur og Steinunni Sigurðardóttur

60495545-D41A-4622-9C1F-A4DAB4A44CC2

Utangarðs

Ég var að ljúka við að  lesa tvær bækur, Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur og  Allir fuglar fljúga í  ljósið eftir Auði Jónsdóttur. Báðar þessar bækur fjalla um konur sem  virðast hafa kosið að lifa utan við  samfélagið.  Eða að minnsta kosti til hliðar við  það.

Allir fuglar fljúga í ljósið

Ég las Auðar bók fyrst.

Aðalpersóna bókarinnar, Björt, virðist hafa bugast þegar maðurinn sem hún elskar segir henni upp. Hún hefur áður verið gift manni sem var ríkur og þekktur. Þau lifðu hátt og voru á forsíðum slúðurblaðanna. Hún átti líka góða vinkonu, Veru. Þær tengdust báðar tískubransanum, voru fyrirsætur. Nú leigir Björt  herbergi í húsi sem er leigt út til fólks sem er í svipaðri stöðu og hún. Björt skilgreinir sjálfa sig sem ráfara. Hún ráfar um og fylgist með fólki. Stundum dregur hún upp  minnisbók og skrifar hjá sér athuganir sínar.  

Systu megin

Systa sér fyrir sér með því að safna dósum. Hún býr í kjallarakompu, hefur ekki aðgang að baðherbergi. Hún notar kemískt klósett og  fer reglulega í Sundhöllina að baða sig. Hún nýtur þess að setjast inn á bókasöfn, vera þar í hlýjunni og lesa. Þarna hefur hún líka að sjálfsögðu aðgang að vatnsklósetti.  Systa á líka vinkonu, Lóló. Hún er enn verr sett en hún, einfætt drykkjukona. Ástæðuna fyrir því að  svona  komið fyrir Systu er móðir hennar. Hún er vond við börnin sín, Systu og Brósa. En faðir þeirra var góður við þau og þegar hann deyr flytur Systa að heiman og tekur upp þennan lífsmáta. Bróðir hennar flýr líka heimilið en segir sig ekki úr lögum við það sem  telst vera „eðlilegt líf“. Móðir þeirra situr eftir í fínu húsi á Fjólugötunni og er virðuleg kona sem sinnir mannúðarmálum.

Líkt og ólíkt

Það sem er sameiginlegt með þessum konum er að þær eru báðar afskaplega skipulagðar. Þær skipuleggja tímann sinn og vita nákvæmlega hverju þær hafa efni á og hverju ekki. Þær vilja vera sjálfstæðar, ekki þiggja neitt, vera frjálsar. Eða hvað?

Þessar sögur eiga enn eitt sameiginlegt; það er að ég skil þær ekki almennilega.  Tengi ekki við persónurnar.

Mig langar að sjá hvernig fer fyrir þessum konum, sitja þær fastar í sama farinu?

Veislan

Auður líkur sinni  sögu með því að láta Björtu  bjóða samleigjendum sínum í mat. Hún gerir dýrindis nautakjötspottrétt, Buff Stroganoff, handa þeim, hellir rauðvíni í glös. Það er skálað. Heimur Bjartar byrjar að breytast strax og hún tekur ákvörðun um að bjóða til veislu. Fásagan af matreiðslunni er stórkostleg. Er til nokkuð félagslegra en að borða saman.  Líf Bjartar  hefur öðlast tilgang.

Undirskriftin  

Síðasti hluti í bókar Steinunnar er torræðari. Frásagnarhátturinn breytist, verður allt að því absúrd. Stundum er frásögnin runur af samhengislausum orðum. Minnti mig á þegar ég hlustaði á leiklestur á Sköllóttu söngkonunni eftir Eugene Ionessco  fyrir margt löngu.

Það kemur nýtt fólk til sögunnar. Meðal annars Ketill, maður með austrænt útlit sem talar lýtalausa íslensku. Hann er forstöðumaður fyrirtækis eða safnaðar sem heitir Kvennabrekka. Systu stendur til boða að vinna hjá honum og fær þá mat og húsnæði ævilangt. Þegar kemur að því að skrifa undir samning sér hún að samningurinn er á tælensku. Ketill er ekki tilbúinn að þýða hann á íslensku. Ber því við að  það sé of tafsamt. Systa minnist þá ráðgjafar móður sinnar um að skrifa aldrei undir eitthvað sem þú skilur ekki. Hún hættir við að ráða sig þótt hún sé búin að segja upp húsnæðinu. Hún hefur ekki í neitt hús að venda. Það er frost og hríð. Eins og af tilviljun finnur hún Lóló vinkonu sína gegnumkalda.

Ég lesandinn, veit ekki hvað er framundan. Hún druslar vinkonu sinni  upp á vagninn hjá sér og stefnir til sjávar. Ætlar hún að ganga í sjóinn?

Er engin von?

Utangarðs

Það var tilviljun að ég las þessar bækur hvora á eftir annarri og fór að bera þær saman. Utangarðskonurnar sem lýst er, eru ekki líkar, það eru kringumstæðurnar sem tengja þær. Sjálfsagt er því einnig þannig varið með annað utangarðsfólk. Það er jafn ólíkt og það er margt.

Í mínum huga felur orðið utangarðs í sér útilokun frá samneyti við annað fólk og það nær út fyrir gröf og dauða. Það er svo sannarlega ástæða til að kryfja af hverju þetta stafar. Þýðir utangarðs e.t.v. það sama og útskúfun?

Lokaorð

Báðir þessir höfundar, Auður og Steinun skrifa leikandi létt, eru stílistar.  En það breytir ekki því að mér finnst að ég viti ekki almennilega  hvað þær eru að meina með sögum sínum. Og mér er ekki sama.

Myndin er af verki eftir Sölva Helgason 


Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu: Olga Tokarczuk

7C6AF791-2F9B-458E-95C0-545877A3EFD6Bein hinna dauðu

Í bókinni, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk, fær lesandinn að kynnast aldraðri og veikri konu, Janinu sem býr í afskekktu sumarhúsaþorpi í Póllandi. Hún lítur eftir húsum nokkurra kunningja sinna sem eiga þarna hús líka. Reyndar finnst mér dálítið erfitt að átta mig á henni. Ég veit ekki einu sinni hversu gömul hún er. En skiptir það máli?  Auk þess að líta eftir húsunum, vinnur hún að því í samvinnu við vin sinn og fyrrum nemanda að þýða verk Williams Blake á pólsku.

Árátta eða tæki til að skilja heiminn?

Þetta er sérstök kona. Hún trúir á stjörnuspár. Líf mannanna í heiminum stýrist af gangi himintunglanna. Já, ekki bara líf mannanna, heldur allt það sem gerist í heiminum. Og Janina kann að gera stjörnuspár, með því að draga upp kort af gangi stjarnanna. Hún veit hvenær hún á að deyja. En það er ekki bara þetta sem er sérstakt við hana, hún hefur mikla ást á dýrum. Öllum dýrum. Og hún trúir því að öll líf, líf manna og dýra, séu jafn verðmæt.

Á gönguferðum sínum hefur hún fylgst með dýrunum í nágrenni þorpsins og hún veit að það eru stundaðar ólögmætar  veiðar á villtum dýrum. Hún hefur sent inn kærur til yfirvalda þar að lútandi. Tíkurnar hennar, sem hún kallar stelpurnar sínar, hafa horfið.

Að vetrarlagi er bara búið í þremur húsum í þessu þorpi. Þegar nágranni hennar bakar uppá hjá henni að næturlagi og segir henni að nágranni þeirra sé dáinn má segja að þá hefjist nýr kafli í þessari sögu. Það týnast fleiri menn. Sagan breytist að einhverju leyti í glæpasögu.

Gamla konan, aðalpersóna sögunnar, er reyndar ekki svo upptekin af þessum mannslátum. Hún sér engan mun á því að einn og einn maður hverfi og á því að það fækki í rádýrahjörðinni sem kom frá Slóvakíu.  Og svo stendur þetta allt saman skrifað í stjörnurnar.

Er þetta ekki bara klikkuð kerling?

Hvað er það þá sem er svo merkilegt við þessa kerlingu? Er hún ekki bara klikkuð eins og yfir völd segja um hana, ekki við hana, þegar hún skrifar þeim kvörtunarbréf. Kannski er hún það en málefnin sem hún trúir á og vill fá umfjöllun um eru merkileg og hennar tími og okkar tími kallar á umfjöllun um þau. Hvað er brýnna í nútímanum en að fjalla um og skilja náttúruna allt í kringum okkur. Og þá sér í lagi að skilja samskipti manns og náttúru?

Og hitt málefnið, sem hún er svo upptekin af, trúir á, þ.e.a.s. að allt sé fyrirfram ákveðið og hægt sé að lesa það út frá gangi himintunglanna. Er þarna ekki bara verið að varpa fram spurningu um frelsi mannsins. Er maðurinn frjáls og kann hann að nýta það?

En hvað þá með Blake gamla? Hvað stendur hann fyrir? Er hún ekki bara að benda á líkn listarinnar fyrir manninn á þessum óvissutímum sem hann valdi sjálfur með því að borða af skilningstré góðs og ills?

Mér fannst gaman að lesa þessa bók, af því að hún þvingaði mig til að hugsa um það sem er mikilvægt, vegna þess að við þurfum að geta svarað spurningum sem ef til vill er ekkert svar við.

Glæpasagan í sögunni spillti ekki, en í raun var hún bara eðlilegur hluti sögunnar.

Það var Árni Óskarsson sem þýddi og mikið var ég fegin að fá hana á íslensku, tungumálinu sem ég hugsa á, tungumáli drauma minna. Ég hef áður hlustað á Jakobsböckerna eftir samka  höfund á sænsku, stórkostleg bók en það hefði berið enn betra að hlusta á hana á íslensku.

Örstutt um höfundinn

Olga Tokarczuk pólskur rithöfundur, fædd 1962. Hún er menntuð sem sálfræðingur og hefur unnið sem slík. Jafnframt því að vinna að list sinni, hefur hún verið virk í jafnréttis- og lýðræðisbaráttu  í heimalandi sínu. Hún fékk Nóbelsverðlaunin 2018.


Vítislogar:Heimur í stríði 1939 -1945: Max Hastings

D134F902-88C8-426F-8344-18FC6DE64241
Heimsstyrjöldin síðari

Lesið á ferðalagi

Þegar ég hafði komið mér notalega fyrir á hótelherbergi í Berlín, hugaði ég að því að velja mér bók til lestrar. Það er lán í óláni fyrir blinda og sjónskerta að þeir geta tekið bókasafnið sitt, Hljóðbókasafn Íslands, með í ferðalög. Ég sá að það var búið að setja inn bækur um heimstyrjöldina síðari. Þær heita Vítislogar:Heimur í stríði 1939 – 1945 og eru eftir Max Hastings.  Magnús Þór Hafsteinsson hefur þýtt þær og les þær sjálfur. Eftir nokkuð hik ákvað ég að lesa þær en gerði mér um leið grein fyrir að það er stórvirki að lesa slíkar bækur, bæði vegna lengdar þeirra og  efnisins vegna. Þær taka 20,42 +20,56 +16,36 klukkustundir í hlustun. Auðvitað veit kona á mínum aldri ýmislegt um stríðið, ég man meira að segja eftir því (fædd 1942). Ég veit ekki hvort það sé rétt að tala um stríðið, því það voru mörg stríð í gangi. Höfundur gerir grein fyrir efnistökum í inngangi. Segist ætla að draga upp heildarmynd í tímaröð af framgangi stríðsins. Hann ræðir fátt um aðdragandann, dembir sér beint að segja frá innrásinni í Pólland. Bretar og Frakkar sem höfðu lofað Póllandi stuðningi voru óviðbúnir.

Síðan er gangur stríðsins rakinn nokkurn veginn í tímaröð. En þetta er ekki bara saga hernaðar, höfundur leitast við að lýsa baklandi hinna stríðandi fylkinga, hvað vill almenningur ? En slíkar pælingar ná auðvitað bara til lýðræðisríkja. Einræðisríki þurfa engan að spyrja.

Stríðin utan Evrópu

 Auðvitað vissi ég að það voru háð stríð utan Evrópu en ég vissi lítið um þau stríð, hafði ekki lagt mig eftir því að fræðast. Það litla sem ég vissi var úr bókum og kvikmyndum.

Þurfum við að vita þetta?

Ég held að það hafi verið vegna stríðsins  í Úkraníu,  sem ég ákvað að lesa þessa bók og að hluta til vegna þess að ég var stödd í  Berlín. Ég hraðlas, staldraði ekki við neitt, reyndi að ná þessari heildarsýn sem höfundur lofar. Það var mikið af tölum. Tölur fallinna og látinna, í bland við þetta voru frásögur  af einstaklingum sem ýmist dóu eða lifðu stríðið af en urðu aldrei samir menn. Það er merkilegt hvað maður hefur mikla samúð með einstaklingum og frásaga af tugþúsund og/eða hundruðum þúsunda lætur  mann lítt snortinn.

Stríð er glæpur

Höfundur leitast við að leggja mat á hvað er rétt og hvað er rangt í þessu stríði. Hann gerir það vel og af mikilli alvöru. Ég hugsa: Stríð er bara vont.

Fyrir nokkrum árum las  ég bók Svetlönu Aleksíevítsj;Stríðið hefur enga  kvenlega ásýnd. Hún byggir bókina á viðtölum sem hún átti við fjölda kvenna sem börðust í her Sovét. Mér fannst þetta grípandi bók. Las hana á sænsku og hugsa oft til þess að þessa bók þyrfti að þýða.

Að lokum

Ég hef heyrt útundan mér að vopnaframleiðendur hafi sett allt á fullt og hjá þeim sé bjart framundan. Auðvitað.

En ég hef minna heyrt af því að fólk kalli eftir vinnu sem miðar að því að breyta heiminum á þann veg að það skapist ekki stríðsástand. Mér finnst að efi bókarinnar um heimsstyrjöldina síðari kalli á að við lærum af mistökunum.

Þakkir

Það er stórvirki að þýða þessa bók og ég kann þýðanda Magnúsi Þór Hafsteinssyni þakkir fyrir. Já og líka fyrir lesturinn

Myndin er tekin af málverki á Berlínarmúrnum.


Hús harmleikja: Guðrún Guðlaugsdóttir

Lestur á ferðalagi

Þríbólusett og búin a566A007C-4B2A-4E8F-A785-CC6454CBB2C7ð veikjast einu sinni af kóvít, fannst okkur hjónunum kominn tími til að ráðast í utanlandsferð. Berlín varð fyrir valinu. Ég ætla ekki að skrifa um þá ferð hér, heldur hvaða bækur ég las/hlustaði  á í ferðalaginu.

Hús harmleikja

Á leiðinni í flugrútunni lauk ég við að lesa Hús harmleikja eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Þetta er 7. bókin í bókaseríunni um Ölmu blaðamann. Henni hefur verið sagt upp á blaðinu og ætlar að láta verða af því að skrifa bók. Hún hefur verið að kynna sér reynslu fólks af því að búa í húsum þar sem fólk hefur látist voveiflega. Hún fær af tilviljun boð um að vinna að skriftunum á Eyrarbakka í húsi sem stendur autt og er til sölu. Þangað fer hún. Hún vill vinna sína rannsóknarvinnu og tekur fólk tali. Fljótlega kynnist hún hinni líflegu Oktavíu sem vinnur sem safnvörður til bráðabirgða í Húsinu. En í rauninni er hún leikkona sem vonast eftir hlutverki í kvikmynd sem stendur til að gera á Bakkanum. Og auðvitað spyrst Alma fyrir um hús þar sem eitthvað hörmulegt hefur gerst.

Rithöfundar þurfa að sitja við

Mér finnst hún sinna skrifunum óþægilega lítið. Brátt dúkka upp tveir handritshöfundar og auðvitað fá þeir að gista hjá Ölmu í húsinu sem hún hefur til umráða að skrifa í. Ég dæsi og spyr sjálfa mig hvort hún ætli aldrei að læra, til þess að skrifa, þá  verður hún setjast við tölvuna og vera ein með sjálfri sér.  Kvikmyndaleikstjórinn mætir á svæðið og brátt gerast óhugnanlegir hlutir.

Ég ætla ekki að rekja þessa frásögn lengra. En væntanlegir lesendur geta treyst því að  allt fer þó vel að lokum frá sjónarhorni Ölmu. Hún reynist lögreglunni betri en engin við að greiða úr flækjum og leysa málið. Hún yfirgefur húsið

á Bakkanum  án þess að hafa skrifað mikið og Gunnar maður hennar tekur glaður á móti henni.

Mér fannst gaman að lesa þessa bók og ég undrast hvers vegna, því í rauninni fellur mér engan veginn við Ölmu. Mér finnst hún hnýsin og blanda sér í það sem henni kemur ekkert við. Hún minnir á Miss Marble en það vantar prjónana. Og eins og alltaf velti ég fyrir mér hvort það sé ekki eitthvað rangsnúið við að hafa gaman að lesa glæpasögur og sér í lagi  þær sem gerast í friðsælu íslensku þorpi?

Reyndar veit ég alveg hvað gerir þessa bók skemmtilega. Persónur eru á einhvern hátt kunnuglegar og frásagan er oft fyndin. Mér finnst þetta skemmtilegasta Ölmubókin til þessa.


Hyperíon: Friedrich Hölderlin: Arthúr Björgvin Bollason

EA266862-E10F-4B90-AFF2-8D178C301091
Það gleður mig að kynnast Hölderlin

 Hölderlin er maður sem mig hefur lengi langað til að kynnast.  Ég  hef svo oft heyrt talað um hann. Hann fylgir gjarnan með í kippunni þegar talað er um þýsk skáld og heimspekinga 18. og 19. aldar. Svo sem Schiller, Göethe og Hegel.

 Friedrich Hölderlin er fæddur í Þýskalandi 1770 og dó 1843. Hann er aðallega þekktur fyrir ljóð og sum hafa verið þýdd á íslensku. Ég hef spreytt mig á að lesa þau og líka ljóð sem þýdd hafa verið á  sænsku en ekki náð almennilega sambandi, mig vantar bakgrunninn.  

Nú færir Arthúr Björgvin Bollason okkur skáldsögu eftir þennan sama mann á silfurfati, auk  ítarlegs formála. Þökk sé honum.

Sagan heitir  Hyperíon, eða einfarinn á Grikklandi. Sagan er eins og langt ljóð.

Það gladdi mig  að lesa þennan óviðjafnanlega texta um manninn, ástina, náttúruna og Guð. Einmitt það sem við þurfum núna. En það tók mig nokkra stund og  vangaveltur að átta mig á honum.En ég sé ekki eftir því. Það er svo margt ómerkilegt sem á manni glymur að það er hugarfró að lesa texta sem skilur eitthvað eftir og kallar á vangaveltur og ósvaraðar spurningar.

Sagan

Sagan er í bréfformi. Sögumaður, Hyperíon, skrifast á við ástina   Díótínu og vini sína. Hann er staddur á Grikklandi því hann, þessi góði maður, hefur ályktað að hann geti bætt heiminn með því að taka þátt í baráttu þeirra við Tyrki. Hugleiðingar hans í lok orrustu, þegar hann horfir yfir vígvöllinn eiga vel við nú.

Ég ætla ekki að reyna að rekja söguþráðinn frekar hér en reyni að gera grein fyrir hugmyndum hans eins og ég skil þær. Mér finnast þær merkilegar út frá því hversu vel þær falla að því sem er brýnast í heiminum í dag.

Ástin, náttúran og listin

Það sem bjargar Hyperíon eftir óhugnað stríðsins, er vorið og náttúran. Hann lýsir þessu í bréfi til  elskunnar  sinnar fullur af fögnuði.

Sagan er einber skáldskapur. Þótt sagan gerist á Grikklandi hafði Hölderlin  aldrei komið til Grikklands.  Grikkland var í hans huga tákn frelsisins. Hann las sér til um það og notaði ferðabæklinga til að sviðsetja atburðina og notaði hugaraflið og skáldskapinn.

Lokaorð

Náttúruverndarfólk  gæti fundið margar góðar setningar í þessari bók til að rökstyðja og styrkja málstað sinn. Sagan gæti líka verið kennslubók fyrir alla um hvernig er hægt að njóta og gleðjast.

Eftirþanki

Ég hef gleymt að segja frá því að þótt Hölderlin yrði 73 ára gamall varð starfsævi hans ekki löng. Hann varð veikur á geði frá því  í kring um 1800 og var síðar vistaður á geðdeild á sjúkrahúsi. Það er falleg sagan af því þegar smiður í  í Tübingen bauð honum að búa hjá sér í turni húss sem hann hafði byggt. Þetta gerði hann af einberu þakklæti vegna sögunnar um Hyperíon. Þar lést hann 1843.

Eftirþanki 2

Ég sé að ég hef líka gleymt að geta þess að það er Árni Blandon sem les bókina. Hann gerir það ljómandi vel. 


Ljósgildran: Guðni Elísson

170C723B-062F-4BC6-B691-8DB8659A03C1
Ljósgildran

Jæja.

Loksins hef ég lokið við að lesa/hlusta á Ljósgildruna eftir Guðna Elísson prófessor Það tók u.þ.b. 30 klukkustundir í upplestri og það var Margrét Örnólfsdóttir sem las. Hún er öruggur lesari sem kemur innihaldi bóka  og blæbrigðum vel til skila.

En ég er ekki bara búin að hlusta, ég hef endurhlustað og glöggvað mig á mörgum köflum bókanna, því þetta eru tvær bækur. Það er erfiðara að glöggva sig á hljóðbókum en bókum á pappír. Það er ekki hægt að blaða og fletta, hvað þá setja gula miða eða undirstrika.

Fyrstu viðbrögð

Ég hef aldrei lesið neitt eftir þennan höfund enda er þetta hans fyrsta bók. Ég var því forvitin um hvað biði mín.  Ég hafði ekki lesið langt þegar ég hugsaði:“Þessi maður kann að skrifa, íslenskan hans er  hrein og tær“. Það er ekkert sjálfsagt að prófessor í íslenskum skóla  skrifi gott mál. Margir vel menntaðir menn eru hallir undir enskuna án þess að vita af því. Guðni skrifar ekki bara góðan texta, margar setningar eru svo góðar að mann langar til að kunna þær og geta vitnað í þær.

Um hvað er þessi bók?

Þetta er bók um íslenskan veruleika eins og hann blasir við á árunum eftir hrun á tímum kóvít.

Þræðir sögunnar eru nokkrir. Skáldin tvö HMS Hermann og Jakob eru uppstaða þessarar bókar.  Þeir verða hvor um sig kandídatar ólíkra stjórnmálaafla án þess að bera sig eftir því. Hermann er bjartasta von forsetans,  Sjálfstæðisflokkurinn veðjar á Jakob en flokkurinn hefur ákveðið að bregða út af vana sínum. Hætta að veðja einungis á dráttarhesta atvinnu- og fjármála og koma sér upp listamanni. Þeir hafa stofnað til eigin verðlauna. Forsetinn vill vekja áhuga á sjálfum sér  sem manninum sem manni menninga og lista og plottar stuðning við Hermann. Kapítóla forsetafrú er ósammála manni sínum. Ívaf sögunnar er fjölbreytt og litríkt.

 Hans Húbert formaður í loftslagsfélaginu Kaldrana bætir enn við breidd sögunnar. Það  berst fyrir því að leiðrétta hugmyndir fræðimanna um hlýnun jarðar og sýna fram á hið gagnstæða. Pollýanna mætir óvænt á fund með afa sínum og styður málflutninginn. Ég átti svolítið bágt með að sætta mig við hlutverkið sem uppáhaldinu mínu, hinni ríflega 100 ára gömlu Pollýönnu,  var úthlutað. Hvað hefur orðið um rótæknina og gleðina  og hver er þessi afi hennar? Hún sem átti engan afa.

Nú er ég dottin í gryfju sem erfitt er að komast upp úr, það er ógjörlegt að endursegja efni bókarinnar. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast á Valhallarkaflann. Hann er stórkostlegur í heild sinni. Reyndar var það einmitt í þeim kafla sem ég var að hugsa um að hætta lestri.

Það skemmtilega við Ljósgildruna er að flestir sem þar koma við sögu, eiga sér raunverulegar fyrirmyndir. Eða gætu átt sér. Er t.d. forsætisráðherrann Bjarni eða Geir? Eða er forsetinn Guðni eða Ólafur Ragnar? Og Hermann? Er þetta nokkuð Hermann vinur minn? Þarna í Valhallarkaflanum leið ég fyrir það að ég er svo vel upp alin.Mér,okkur var uppálagt að tala ekki illa eða niðrandi um annað fólk og alls ekki tala um lýti þess eða kalla það ónöfnum. Takk pabbi og mamma. Ég hef ekki breytt um skoðun. Þessi kafli var bara einhvers konar bókmenntalegt forarfen sem ég þurfti að svamla vegna bókmenntanna sem mig langar svo til að skilja.

Kaflinn um náðhúsið á Stöng sem höfundur hefur komið fyrir á efstu hæðinni í Valhöll er meistaraverk. Svo ég tali ekki um hugleiðingar hvernig hugleiðingar skáldsins um hvernig slíkt náðhús gæti auðgað flokkstarfið og stuðlað að betri liðsheild. Þarna eru tvisvar sinnum 11 setur hlið við hlið. Passlegt fyrir þingflokksfundi.

Það er þarna sem rithöfundurinn Hermann  hittir púkann á fjósbitanum.

Gangtegundir

Það er ógjörningur að lýsa þessari sögu svo vel sé. Mér dettur í hug  að það mætti líkja höfundi við hest sem kann margar gangtegundir. Kaflarnir um Jakob væri þá mjúkt  skeið, kaflinn um forsetann væri tölt en í Valhallarkaflanum brokkar fákurinn og hleypur út undan sér, eys og prjónar.

Tilvitnanir

Þessi bók er full af tilvitnunum í gömul skáld og ný. Sum þekki ég önnur ekki. Mér finnst gaman þegar ég þekki til skáldanna og pirrast ekki þegar ég þekki ekki til þeirra. Hugsaði hlýlega til skáldanna „kannski les ég þig seinna“.

Framtíðin

Það er lítil framtíð í þessari bók, þetta er bók sem verður að lesa núna. Hún er um okkur. Höfundurinn verður heldur ekki frægur í útlöndum, því bókin er fyrst og fremst fyrir Íslendinga, það er svo gaman spá í hver er hver . Og þó, Söguramminn er svo góður að það mætti ef til vill selja hann einan og sér.

Lokaorð

Ég er á móti því að flokka bækur. Hver bók er eins og manneskja, alveg sérstök. En ef ég myndi nú flokka bækur (sem ég geri ekki) myndi ég setja þessa bók  í flokk með Eyrbyggju, Karamazov bræðurna og Sturlungu, bækur sem ég les reglulega.´´

Eftirþanki

Ég nenni ekki að tala um kynjahallann. Ég er ekki viss um að mig langi í viðlíka bók um konur.


Pollýanna

A044C37C-BE11-4E6D-B7C7-3EDEF8201F9A
Pollýanna

Núna hef ég hafið lestur/hlustun á bók Guðna Elíssonar, Ljósgildran. Þetta eru tvær bækur, sem taka 15:10 + 14:09 klukkustundir í upplestri. Það er Margrét Örnólfsdóttir sem les.

Þegar ráðist er í svo stórt verkefni, þarf áætlun. Ég hafði hugsað mér að taka eina til tvær klukkustundir á dag og lesa eitthvað annað og léttara efni við hliðina. Strax á öðrum lestrardegi kom hliðarbókin upp í hendurnar á mér. Höfundur segir frá heimsókn Pollýönnu til landsins. Í Ljósgildrunni er oft  vísað til bóka. Oftast þekki ég þær  en Polllýönnu hafði ég ekki lesið, svo ég ákvað að taka hana sem „hliðarbók“. Þessi pistill minn er um Pollýönnu.

Bókin um stelpuhnokkann með þessu óvenjulega nafni kom út hér á Íslandi 1945. Hún er þýdd af Freysteini Gunnarssyni menntafrömuði,  þeim sama sem þýddi Litlu gulu hænuna.

Þegar ég hóf lestur Pollýönnu hélt ég að Freysteinn hefði verið að þýða nýútkomna bók. Af hverju voru notaðir hestvagnar? Kannski þyrfti að spara bensín út af stríðinu. Viðmiðunarrammi minn var rangur. En þegar ég loks gáði að því hvenær hún kom út í heimalandinu, gekk allt upp.Bókin kom út í  Bandaríkjunum 1913.

Sagan fjallar um litla munaðarlausa stúlku sem komið er fyrir hjá frænku sinni Pollý. Hún er ekkert fyrir börn en vill gera skyldu sína. Hún er ísköld. En Pollýanna sem hefur þurft að takast á við foreldramissi og fátækt hefur lært að það er hægt að gera allt þolanlegra með því að horfa á björtu hliðarnar. Hún kallar þetta leik og kennir hann öllum sem hún umgengst. Nema frænkunni.

Reyndar vissi ég nokkurn veginn um hvað bókin snerist, efni hennar kemur svo oft fyrir í umræðu. Ég hélt að bókin væri væmin. En það er hún ekki, hún er skemmtileg.

Eftir lesturinn reyndi ég að lesa mér til um höfundinn, Elenor H. Porter, fylltist ég undrun. Porter er fædd 1868 og eftir hana liggur fjöldi bóka. Hvernig gat þessi koma rambað á hjálpleg ráð fyrir fólk í vanda, sem færustu sálfræðingar hafa fundið eftir áratuga rannsóknir?

Þetta var um Pollýönnu, þ.e.á.s. Fyrri bókina af tveimur. Ég er ekki búinn að ákveða hvot ég les þá seinni, sem segir frá ungu stúlkunni Pollýönnu. 

Myndin af blóminu var tekin í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 187318

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband