Orðspor/fótspor

718880C2-365B-4FDF-9E0B-94ECF54BBB69

Hann hefur trúlega lítið verið að velta fyrir sér kolefnissporinu sínu milljónamæringurinn, sem kom hingað á 18 manna einkaþotu á Reykjavíkurflugvöll í dag.

Næsta frétt á undan sýndi brennandi skóga í Evrópu og i Ameríku. Og mér sýndist viðmælandinn, sem tók a móti honum væri ansi ánægður líka.

Er kolefnissporið ef til vill okkar?

Ekki veit ég það.

En ég held að það sé kominn tími til að reikna þetta Út.

 


Dansað í friði: Elsa Margrét Böðvarsdóttir

F254E771-9D95-43F1-819C-FABDB116DD9E

Dansað í friði

Mér finnst nauðsynlegt að fylgjast meðnýjum höfundum, þótt ég hafi mest gaman að lesa og endurlesa höfunda sem ég þekki. Fyrsta bók Elsu  Margrétar  Böðvarsdóttur heitir Dansað í friði.

Sagan segir frá ungri stúlku af Akranesi sem er að stíga sín fyrstu skref í háskóla. Hún hefur valið sér viðskiptafræði.

Hún hefur ákveðið með sjálfri sér að fara nú að lifa lífinu. Hún fer á kynningu á hvaða félagslíf er í boði. Í framhaldi af því gefst henni tækifæri til að taka þátt alþjóðlegu starfi. Þar hittir hún Thomas.Það er ást við fyrstu sýn. Það er mikið drukkið og dansað í þessari bók. En Marta lætur þetta ljúfa líf ekki trufla námið.

Ég var nokkra stund að átta mig á hverskonar bók væri hér á ferðinni. Í fyrstu minnti hún mig á bók Hlínar Agnarsdóttir, Blómin frá Maó. Þar er einnig sagt frá stúlku af landsbyggðinni með álíka ásetning. Hún fellur fyrir Maóista  og heimsmynd hennar breytist um hríð. Sú stúlka klúðrar náminu og þarf að fara aftur á byrjunarreit. Nei, þessar stúlkur eru ekki líkar og þessar bækur eru allsólíkar.

Ástarsaga

Saga Elsu Margrétar er ástarsaga af gamla skólanum. Eins og ég tók með mér þegar ég fór í útilegu . Af einhverjum ástæðum sem ég man ekki lengur, voru þessar bækur sem ég las oftast á dönsku.

Sagan Dansað í friði er ástarsaga með boðskap. Aðalsöguhetjan, Marta hefur fundið það út að dansinn er á vissan hátt frelsandi. Sá sem dansar getur aldrei alið á illum hugsunum. Hann er frjáls, honum líður vel. Hann er friðsamur og fullur af ást. Samkvæmt þessu væri trúlega árangursríkast  fyrir heimsfriðinn að láta þjóðarleiðtoga  dansa heldur en að setjast við borð.

Niðurstaða

Í raun er þetta ekki bara ástarsaga, þetta er um leið ævintýri. Ungi maðurinn í sögunni er nefnilega nokkurs konar prins eins og í Öskubusku og móðir hans er norn.

Tímarnir hafa breyst og ég hef breyst. Ég var ekki á ferðalagi þegar ég las bókina og hún var ekki á dönsku.


Eða

Kannski er ég of gömul fyrir þessa tegund bóka, því hún var ekki nógu sannfærandi fyrir mig. Ég  sem venjulega  trúi öllu meðan ég er að lesa bók. Ég sannfærist.

En boðskapur bókarinnar féll mér vel  og það er alltaf gaman að kynnast nýjum höfundum.

Það var Anna Björk Jónsdóttir sem las, ég man ekki til þess að hún hafi lesið fyrir mig áður. Mér féll vel við lesturinn.


Fjórar systur: Helen Rappaport

8FDB015D-695E-4DE4-B7E1-B76D3B9AB364Um leið og ég sá bókina Fjórar systur  eftir Helen Rappaport á vef  Hljóðbókasafnsins, vissi ég að þarna  væri komin bók fyrir mig.

Í Fyrsta lagi er hún löng, tekur rúmar 19 klukkustundir í upplestri. Í öðru lagi er hún þýdd af Jóni Þ. Þór sagnfræðingi sem er sá hinn sami sem skrifaði bók um Katrínu miklu. Auk þess er hann skólabróðir minn. Í þriðja lagi er hún um efni sem mig hefur lengi langað að fræðast  meira um.

Bókin fjallar um dætur Rússakeisara, fjórar talsins. Þannig er nafnið til komið. Hún fjallar að vísu líka um bróðurinn og um fjölskylduna í heild. Það eina sem ég vissi um þessar systur var endalokin. Þær  Olga, Tjatiana, Maria og Anastasia voru allar skotnar.

Aðrir tímar

Veruleiki þessarar sögu er svo fjarri mér að ég á erfitt með að ímynda mér hann. Þó ég hafi lesið Tolstoj. Sögupersónur hans lifðu og hrærðust í þessum veruleika. Það er óravegur á milli ríkra og fátækra. Og valdhafarnir sitja á toppnum. Það gerir stéttaskiptingin. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að hún hafi ekki verið til staðar hér, því það var hún. Hún var öðru vísi.

Vesalings litlu Zardínurnar!

Keisaradæturnar voru dótturdætur Viktoríu drottningar. Eftir lestur bókarinnar  sýnist mér að móðir þeirra, Alexandra sé valdamesta persóna bókarinnar. Samt á hún við mikla vanheilsu að stríða. Þegar hún var 32 ára hafði hún alið 5 börn og  misst fóstur að minnstakosti tvisvar. Eftir fyrstu fæðinguna virðist hún hafa fengið grindargliðnun sem er mjög kvalafull. Maðurinn hennar keisarinn virðist vera rola, fer blint eftir vondum ráðleggingum. En þau elska stelpurnar  og leitast við að ala þær upp til að verða gott yfirstéttar kvonfang. Líf litla drengsins, ríkisarfans mótast fyrst og fremst  af því að hann er haldinn lífshættulegum sjúkdómi.  Mér finnst merkilegt að fylgjast  með því hvernig höfundi tekst að draga upp heildstæða mynd af öllu þessu fólki. Af þessu sér maður hvað það liggur mikil heimildavinna að baki við þessa bók. Á þessum tíma skrifuðu menn bréf og færðu dagbækur.

En Zarinn skilur ekki kall tímans og því fer sem fer.

Ef og hefði

Ég er þó nokkurn veginn sannfærð um að þótt Zarinn hefði reynt að koma umbótum í kring, þá hefði það ekki dugað til, byltingaröflin voru sterkari og kænni en hann. Aftaka keisarans og fjölskyldu hans minnir mig á aftöku Jóns Arasonar og sona hans. Öxin og jörðin geymir þá best.

Hvað finnst okkur svo um dauðarefsingu?

Ég býst við að flest fólk, við Íslendingar, séum alfarið á móti þeim enda tala menn um að aftaka vesalinganna Agnesar og Friðriks, sé síðasta aftakan á Íslandi. Vissulega. En bandamenn okkar beita þó aftökum þegar svo ber undir. Margir muna, að hafa horft á það í sjónvarpinu í stofunni sinni, þegar Saddan Hússein var tekinn af lífi. Og stóð ekki sjálfur Obama fyrir því að láta myrða Osama Bin Laden og fjölskyldu hans?

Kannski er erfiðara í að komast, en um að tala, að vera þjóðhöfðingi. Og auðvitað eru stríð ekkert annað en ein tegund aftaka.

Ég gleymdi Raspútín

Áður fyrr, þegar ég las um fall einræðisherrans í Rússlandi var gjarnan vikið að Raspútín. Að hann   hefði skaðað orðspor keisarafjölskyldunnar. Þetta var aldrei útskýrt. Loksins fékk ég skýringuna.Þegar litli drengurinn var veikur og vart hugað líf, leitaði fjölskyldan til furðufuglsins Raspútíns. Hann var sagður geta læknað fólk, gert kraftaverk. Þessu trúði hannl íklega  sjálfur. Þau hjónin ánetjuðust honum.  Illar tungur héldu því fram að hann ráðskaðist með þau. Væri farin að stýra landinu. Það var ekki fyrr en að ég fór að velta fyrir mér hvernig þetta var hérna heima á þessum tíma. Margt fólk, var á kafi í dulspeki og leitar jafnvel til miðla. Fólk í æðstu valdastöðum.

 Um höfundinn

Helen Rappaport er fræikona og hefur skrifað fjölda bóka um sögulegt efni. Það er Helga Elínborg  Jónsdóttir sem les hana inn. Það er mikill fengur í þessari bók.


Játningar Bóksala: Shaun Bythell

 

DA8C850A-210F-4148-A7DB-A81B4D382E36Játningar bóksala eftir Shaun Bythell er óvenjuleg bók. Hún er að forminu til dagbók bóksala. Þaö sem er skráð  allt sem er mikilvægt fyrir starfið. Það er kaup og sala á bókum og frásagnir um bókasöfn sem hann skoðar með það í huga hvort hann ætli að kaupa eitthvað eða ekki. Við þetta bætist ýmislegt sem varðar starfsfólk og viðskiptavini. Já og köttinn. Mér fannst í fyrstu að frásagan væri aðallega  neikvæð og niðrandi.

Góð bók til að sofna ut frá

Í byrjun var ég  í vafa um hvort ég ætti að lesa bókina og ákvað svo að nota hana sem „sofna út frá bók“. Það gekk prýðilega því bókin er flöt og laus við spennu. Smám saman var ég þó vör við að ég var farin að vera svolítið spennt fyrir hvernig honum gekk að selja og sá búðina hans fyrir mér. Hún var ólík þessari einu fornbókabúð sem ég þekki, Bókabúð Braga, að því leyti að það var meira flokkað og betur raðað í hillurnar. Já, og bóksalinn í Wigham gat verið neikvæður og leiðinlegur við fólk, það var Bragi ekki. Dagarnir eru hver öðrum líkir í þessu starfi, salan er oftast lítil. Eina undantekningin er þegar búðin tekur þátt í einhvers konar bæjarhátíð, þá er starf bóksalans spennuþrungið og frásögnin iðar af fjöri.

Það er nauðsynlegt að trúa

Þegar ég les bækur trúi ég öllu, tek allt bókstaflega. Þessi bók var engin undantekning. Þess vegna tók ég nærri mér, hvað sögumaðurinn, bóksalinn var leiðinlegur við starfsmanninn sinn og hugsaði neikvæðar hugsanir um fólkið í kringum sig. Þó vissi ég að ég átti að álykta sem svo að þarna væri  þessi fræga breska kaldhæðni á ferðinni. „Mig myndi ekki langa til að kaupa bækur hjá þessum karli“, hugsa ég.

Niðurstaða

Mér fannst gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Það var ljúft að sofna út frá henni. Nú veit ég líka að Það er til önnur bók eftir sama höfund, hún heitir Dagbók bóksala. Það hefði eflaust verið betra að byrja á henni. 

Nú er eg jafn vel farin að velta fyrir mer að heimsækja Wigtown.

 

Myndin er tekin í Breiðdal.


Tíu dagar í Helvíti

B42FB887-88A8-4110-92A8-6B2E30656564

Tíu dagar í (Helvíti) heitir saga eftir Magnús Lyngdal Magnússon. Það er sagt að þetta sé hans fyrsta bók. Hún er stutt og snýst um afmarkað efni, drykkjuskap. Sögusviðið er hugur karlmanns á miðjum aldri. Hún hefst þegar hann vaknar upp í áður ókunnu herbergi. Honum finnst að það gæti minnt á fangaklefa. Já, og þetta er fangaklefi. Þetta er honum ný reynsla. Hann drekkur að vísu, og þarf stundum að nota lyf, en hann er ekki alkóhólisti, af því hann á sitt eigið húsnæði og er í góðu starfi. Þetta er hans skilgreining á því að vera ekki alkóhólisti.

Gloppur

Nú man hann    ekki hvað gerðist. Fær að vita að hann var hirtur upp af gangstétt fyrir utan bar. Kvíðinn magnast, gerði hann eitthvað af sér. Bíllinn er ekki heima þar sem hann á að vera. Hann hefur sem sagt verið á bílnum. Drap ég einhvern, hugsar hann. Kvíðinn er næstum óbærilegur en hann getur ekki rætt þetta við neinn. Það gerir skömmin. Skömmin yfir því að ráða ekki við drykkjuna. Bókin er í senn átakanleg og fyndin. Átakanleg vegna þess hversu hann á bágt og fyndin vegna þess hvernig hann leitast við að blekkja sjálfan sig.

Aðgengi

Líklega hefði ég ekki  lesið þessa bók ef ég hefði haft augu til að lesa og valið mínar bækur sjálf . Nú ræðst bóklestur minn algjörlega af því hvað hefur verið lesið inn hjá Hljóðbókasafni Íslands.

Þetta minnir mig ósjálfrátt á umræðuna um vín og aðgengi. Það hefur sýnt sig að gott aðgengi að alkóhóli  eykur víndrykkju. Að sjálfsögðu. En það er munur á. Vín getur verið skaðlegt, bækur ekki.

Útúrdúr

Að vísu man ég eftir gömlum manni í Breiðdal bernskunnar sem hélt því fram að bóklestur væri ekki síður ávanabindandi  en tóbak. Ég held að það sé nokkuð til í þessu. En ég hef enn ekki heyrt nokkurn halda því fram að bóklestur skaði heilsuna.

Það er von

Maðurinn í sögu Magnúsar veit að það er hægt að leita sér hjálpar. Hans er valið.

Það er Árni Blandon sem les. Hann er snilldar lesari.


Stjarna Strindbergs; Jan Vallentin

D3C23D1C-EB2B-4F2B-836F-6B0BE4D7094D

Stjarna Strindbergs eftir Jan Vallentin er sænsk  bók sem kom út í heimalandinu 2011. Hún var þýdd af Þórdísi Gísladóttur og er nú komin á hljóðbók. Það er Valdimar Örn Flygering sem les.

Ég las þessa bók fyrir misskilning. Hélt að þetta væri ósköp venjuleg glæpasaga en trúlega flokkast hún frekar sem vísindaskáldsaga. Maður nálgast bækur alltaf út frá einhverjum væntingum (fordómum í jákvæðum skilningi). Það er hluti af bóklestri. Það er betra ef þeir eru nokkurn veginn réttir.

Í þetta skipti var það ekki svo, því þetta er trúlega vísindaskáldsaga, þótt vissulega komi glæpir  við sögu. Einu sinni hafði ég miklar mætur á vísindaskáldsögum en smekkur minn hefur greinilega breyst. Mér leiddist bókin. Þó eftir á að hyggja var margt skemmtilegt. Til dæmis er aðalpersónan Don Titelman vel gerð og eftirminnileg persóna. Hann er á vissan hátt aumkunarverður, væskill og háður lyfjum sem hann skammtar sér sjálfur úr hliðartösku sem hann ber stöðugt með sér.

Sagan hefst á líkfundi.  Þegar kafari kafar í gömlum námugöngum  í námunda við Falun í Dalarna finnur hann ekki bara lík, heldur einnig hlut sem hefur afl, sem ekki sést á yfirborðinu.

Fræðslugildi sögunnar

En sagan á sér aðdraganda. „Hluturinn“ má ekki komast í hendur illra afla og þau eru vissulega til. Um þetta snýst sagan.

Inn í framvindu sögunnar blandast raunverulegt fólk. Til dæmis þátttakandi í leiðangri   Andrées sem farinn var 1897, það er Strindberg. Ég var alveg búin að gleyma þessum heimsfræga leiðangri. Ef ég hef þá vitað það.

Það skemmtilegasta við þessa bók var í rauninni fróðleikurinn sem ég aflaði mér til að skilja hana. Þessi leiðangur var hörmulegt dæmi hverju heimska og metnaður geta komið til leiðar.

Úthald við að lesa bækur

Ég hefði trúlega aldrei lesið þessa bók ef ég hefði ekki sett mér þá meginreglu að ljúka alltaf bókum sem ég er byrjuð á. Ég er engu að síður sátt við að hafa lesið hana. Hún færði mér ævintýrið um Andrée og félaga hans til viðbótar við sjálfa söguna.

Er barnið í mér dautt?

Einu sinni hlustaði ég á fyrirlestur (Glasser),  þar sem því var haldið fram, að þegar fólk hættir að hafa gaman að því að leika sér, sé það raunverulega orðið gamalt. Fyrr ekki. Leikur og ævintýri eru náskyld fyrirbæri, þess vegna er mér ekki sama um það, þegar ég hrífst ekki með í ævintýraheimi vísindaskáldsagna. Er bókin léleg eða er barnið í mér dautt, hugsa ég. Nú sé ég það sem verkefni að hlúa að barninu í mér.


Í útlegð: Joseph Roth

530302F5-074B-438A-9270-FC3CD66E6D84

Í útlegð eftir Joseph Roth inniheldur tvö verk: Helgisaga drykkjumanns og Mannsandinn  brenndur á báli.

Sagan um heilaga drykkjumanninn er skáldsaga en skrifin um bókbrennurnar er ritgerð.

Sagan um heilaga drykkjumanninn

Fjallar um líf drykkjumanns sem sefur undir brúnum í París. Hún hefst á því, að til hans kemur snyrtilega klæddur maður sem gefur honum peninga. Upphæð sem um munar. Drykkjumaðurinn vill ekki skilgreina sig sem betlara, hann er stoltur fyrrverandi námuverkamaður. Gjafmildi herramaðurinn segir að hann geti endurgreitt peninga til dýrlingsins Theresu litlu. Þetta reynist þó þrautin þyngri, áfengið heimtar sinn toll í réttu hlutfalli við peningana í vasanum. Eitt kraftaverkið tekur við af öðru en alltaf fer á sama veg. Þó má túlka söguna sem svo að Theresa fái sitt að lokum.

Bókabrennur

„Þeir sem brenna bækur enda á því að brenna fólk“, er haft eftir Heine.  Joseph Roth leggur út af þessari setningu í ritgerðinni og vísar til þess að mannsandinn búi í bókum og því sé verið að brenna það dýrmætasta sem við eigum. Hann fullyrðir að með því að ráðast gegn Gyðingum séu Þjóðverjar að ráðast gegn sjálfum sér, því allt það mesta og besta í menningu þeirra og vísindum sé frá þeim komið. Síðan telur hann upp fjölda nafna. Loks ræðir hann um Evrópu sem heild og brýnir fyrir þeim að með því að láta þetta óátalið séu þeir meðsekir. Þetta er þörf ábending til okkar enn í dag.

Um höfundinn.

Jóseph Roth er fæddur 1896 í þorpinu Brodi, sem þá tilheyrði Austurísk-Ungverska- furstadæminu, en er nú í Úkraínu. Foreldrar hans voru Gyðingar. Hann fékk klassíska menntun þangað til hann gekk í herinn í fyrri heimsstyrjöldinni sem liðsmaður austurísk-ungverska- keisaradæmisins „þessa eina föðurlands sem ég hef átt“, er haft eftir honum. Eftir stríðið sneri Joseph aftur til Vínar og hóf að skrifa í blöð og tímarit. Auk þess skrifaði hann skáldsögur. Síðan   settist hann að í Berlín og hélt áfram ritstörfum. Þegar Hitler kemst til valda flýr hann Þýskaland og fer til Parísar þar sem hann hélt áfram skrifum sínum.

Þar dó hann síðan 1939.

Lokaorð

Það var merkilegt að lesa þessa bók. Hún er ekki bara góð, hún knýr mann til að rifja upp sögu Evrópu og skoða hvernig landamæri og þjóðríki hafa riðlast í kjölfar styrjalda. Allt bitnaði þetta á fólkinu sem bjó þar, ekki síst þeim sem ekki kölluðust þjóð, svo sem Gyðingar. Nú er ég komin langt út fyrir efnið.

Hingað heim

Það er Jón Bjarni Atlason sem þýðir þessa bók og Jóhann Sigurðsson les hana fyrir okkur sem notum og njótum HBS þ.e. Hljóðbókasafn Íslands.

Myndin er fra Berlín


Reimleikar: Ármann Jakobsson

 7FBB1E73-9405-4E2D-BD7F-497B42E150D0Reimleikar er 5. bókin í röð sagnaflokks Ármanns Jakobssonar um geðfellda lögregluteymið sem þau Bjarni og Kristín leiða. Þau eru ólík og vinna vel saman.

Sagan hefst á morði eins og vera ber og þau eiga eftir að verða fleiri. Þegar bakgrunnur hinna myrtu er skoðaður kemur í ljós að það er aðeins eitt sem þeir eiga sameiginlegt, það er að þeir hafa verið saman í fótbolta fyrir 19 árum. Morðin eiga það sameiginlegt að það er notaður klútur sem áður fyrr var þekktur sem morðvopn á Indlandi og kallast rúnal. Þetta "vopn" var einnig notað í fyrri sögu Ármanns og morðinginn sem notaði það þá situr inni og er því útilokaður sem gerandi.

Vandinn við að  skrifa um glæpasögur er að það má lítið segja, því það gæti spillt ánægju væntanlegra lesenda. Ég ætla þó að leyfa mér að segja að bakgrunnur þessara morða er sorgarsaga, sem því miður gæti hafa gerst hér á okkar litla Íslandi.

En ég mæli með þessari bók. En bendi um leið væntanlegum lesendum á að það er betra að lesa fyrri bækurnar fyrst og í réttri röð. Það veitir fimmfalda ánægju.

Myndin er af Elliðaá og trngist ekki efninu.

 

 


Istanbul Istanbul: Butham Sönmez

 

C53248DD-7097-472A-BC62-BE449C887755Istanbúl, Istanbúl, bók eftir Burhan Sönmez, er ein besta bók sem ég hef lengi lesið. Hún er í senn heimspekileg, fyndin og átakanleg.

Ég veit ekki mikið um höfundinn, vissi ekki einu sinni að hann væri til, fyrr en ég sá bókina Istanbúl, Istanbúl.  Nú veit ég að hann er tyrkneskur maður af kúrdískum ættum, fæddur 1965. Hann er menntaður í lögum og hefur unnið sem slíkur. En fyrst og fremst virðist hann hafa starfað fyrir frjáls félagasamtök sem tengjast mannréttindamálum. Árið 1996 varð hann fórnarlamb lögregluofbeldis. Ensk samtök komu honum til hjálpar og í kjölfarið ílendist hann í Bretlandi og býr nú ýmist þar eða í Tyrklandi.

Sagan

Sagan segir frá fjórum mönnum sem sem hafa verið vistaðir í þröngum klefa í  kjallara fangelsis í Istanbúl. Það er vetur og það er kalt. Þeir hafa hvorki rúm til að sofa í eða ábreiðu til að breiða yfir sig  og hnipra sig saman eins og hvolpar hver að öðrum. Á milli þess að þeir eru yfirheyrðir og pyndaðir segja þeir hver öðrum sögur til að stytta sér stundir. Það eru þessar litlu sögur sem gera bókina óviðjafnanlega.   Í þorpinu sem Burham Sönmez ólst upp var rík sagnahefð og móðir hans var  góður sögumaður.

Inn á milli þessara sagna er sögð sjálf sagan sjálf, saga fanganna  og óbeint sagt frá því sem er að gerast í landinu. Ég segi óbeint, því sú frásögn er meira og minna á mörkum raunveruleika og óraunveruleika. Hér ætla ég að stoppa því ég finn að mér tekst engan veginn að lýsa töfrum þessarar bókar.

Að lokum

Þýðandi bókarinnar er Ingunn Snædal og Guðmundur Ólafsson sem les bókina. Þau eru hvort um sig góð á sínu sviði. Ég verð næstum klökk af þakklæti þegar mér er færð bók eins og þessi til að hlusta á/lesa.


Skuggi ástarinnar: Mehmed Uzum

D893FA04-A674-4203-A84C-D66C1175F984
Ég hélt að bókin væri öðru vísi. Ég vissi að hún fjallaði um frelsisbaráttu Kúrda og hafði búið mig undir skelfingu og óhugnað. En sú varð ekki raunin.

Það er tilviljun sem ræður því að ég hef um árabil fylgst með vonlítilli baráttu Kúrda fyrir rétti sínum sem þjóð. Það sem réði því að ég vissi um tilvist þeirra yfirleitt,var að sveitungi minn, Dagur Þorleifsson, sem nú er látinn,var fyrstur Íslendinga (að ég held) sem vakti máls á þvi óréttlæti,sem þeir urðu að búa við. Og auðvitað var ég áhugasöm um að lesa það sem sveitungi minn skrifaði um þetta mál. Hann fór sem ungur maðir á slóðir Kúrda og setti sig inn í aðstæður. En aftur að bókinni. 

Bókin Skuggi Ástarinnar eftir Mehmed Uzum er söguleg skáldsaga um Memduhs Selim sem var kúrdiskur menntamaður og leiðtogi Kúrda á árunum 1927-1939, þegar þeir gerðu uppreisn gegn Tyrkjum.

Þetta er þó fyrst og frems ástarsaga full af trega.  Í upphafi sögunnar dvelur  Mehmed Selim í útlegð vegna skoðana sinna. Hann er fyrst og fremst menntamaður með áhuga á listum. Hann verður ástfanginn af ungri konu, biður hennar og fær jákvætt svar. Þau gera áætlanir um brúðkaup en hann vill bíða þess að faðir hans og systir komist. Meðan beðið er hefst uppreisnin sem kennd er við Ararat. Hann er kallaður á staðinn og fer þangað.  Síðan líða 3 ár. Á meðan bíður brúðurin eftir brúðkaupi. Loks gefst hún upp og giftist öðrum manni. Uppreisnin er bæld niður. Þegar Mehmed kemur til baka grípur hann í tómt. Hann reynir að fá giftingunni rift en það tekst ekki. Þannig verður hann fyrir tvöföldu áfalli, tapar í stríðinu við Tyrki og missir frá sér konuna sem hann elskar. 

Síðar giftist hann annarri konu en það er ekki stóra ástin. Ég ætla ekki að rekja söguna frekar en víkja að stílnum. Sagan er lágstemmd og minnir stundum meira á ljóð en sögu. Nú veit ég ekki hvernig hún hefur hljómað á frummálinu, en þannig virkar hún á mig í íslenskri þýðingu Einars Steins Valgarðssonar. Það er Olga Guðrún sem les.

En til baka til höfundarins Mehmed Azum. Mig grunar að hann eigi margt sameiginlegt með sögupersónu sinni. Hann þurfti eins og hann að flýja land og valdi Svíþjóð. Þar bjó hann árum saman. Þegar ég var í Svíþjóð við nám man ég eftir hópi kúrdiskra karlmanna á Karólinska bókasafninu. Ég sé þá enn fyrir mér, alvarlegir svartklæddir menn sem töluðu mál sem ég þekkti ekki.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband