4.10.2022 | 17:31
Dauðinn og mörgæsin Andrej Kurkov
Ég las bókina, Dauðinn og mörgæsin strax og hún kom út en þá var hún kynnt af höfundi á bókmenntahátíð í Iðnó. Þetta hefur líklega verið 2005. Höfundurinn, Andrej Kurkov, var gestur á hátíðinni og kynnti bókina sjálfur. Andrej Kurkov er fæddur í Leníngrad 1961 en flutti tveggja ára með foreldrum sínum til Úkraínu. Hann skrifar á rússnesku.
Sagan
Bókin fjallar um hæglátan rithöfund sem býr einn. Honum hefur haldist illa á konum og honum hefur líka gengið illa að fá verk sín útgefin. Kannski er ekki rétt að hann búi einn því hann á mörgæs og hún tekur mikið pláss í lífi hans og í þessari bók. Honum gengur best að semja stutta texta. Af tilviljun sendir hann einn slíkan til Höfuðstaðsblaðsins. Eftir það fær hann beiðni frá ritstjóranum um að skrifa fyrirfram minningargreinar um þekkt fólk. Það er gott að eiga þær á lager og tiltækar, segir hann. Allir deyja einhvern tíma. Ritstjórinn stingur sjálfur upp á um hverja skuli skrifað og leggur honum til heimildir. Það lítur út fyrir að Viktor hafi dottið í lukkupottinn. En það fylgir böggull skammrifi. Viktor tekur eftir því að persónurnar sem hann hefur skrifað um, látast gjarnan fljótlega eftir að hann hefur skilað inn skrifum sínum um þær.Allt þetta gerist nokkru eftir fall Sovétríkjanna og það eru mikil umbrot í þjóðlífinu, ríkiseignir komast í einkaeign.
Fjölskyldan stækkar
Um svipað leyti og úr rætist með fjarhag Viktors biður vinur hans hann fyrir Sonju, fjögurra ára dóttur sína um stundarsakir. Þegar það dregst að hún sé sótt, ræður hann unga stúlku til að gæta hennar svo það eru orðnir fimm í heimili. Með mörgæsinni meðtalinni.
En líf hans er ekki áhyggjulaust. Mörgæsin vanþrífst. Hún reynist vera með hjartagalla og þarf nýtt hjarta. Hjarta úr barni. Þetta er viðburðarík og spennandi frásögn en ég ætla ekki að rekja hana frekar hér.
Að lesa bók tvisvar
Það eru gömul sannindi að það er ómögulegt að stíga tvisvar í sama lækinn. Eins er þetta með bóklestur, bókin tekur sífelldum breytingum. Ný bók við hvern lestur. Þegar ég las þessa bók í fyrra skiptið, fannst mér hún fyrst og fremst fyndin. Það gerði mörgæsin. Það er eitthvað dæmalaust fyndið við mörgæsir. Líklega er það göngulagið og hvað þær eru líkar mönnum.
Þegar ég las bókina núna fann ég til ótta. Það var eitthvað óhuggulegt í gangi eins og enginn væri óhultur. Og svo voru það veikindin á mörgæsinni.
Ekki veit ég hvað verður í forgrunni þegar ég les hana næst. Ef mér endist aldur. En ég hef það til siðs að lesa góðar bækur oft.
Bókin í paddanum
En ég hafði næstum gleymt því að ég les ekki lengur bækur. Ég hlusta. Þannig verður
bókin sem ég les, verk margra. Það er Áslaug Agnarsdóttir sem þýðir bókina úr rússnesku. Hjálmar Hjálmarsson les hana fyrir Hljóðbókasafnið.
Ég sakna þess að það skuli ekki fylgja henni formáli því mér þykir líklegt að bókin sé fyrst og fremst fyrir heimamenn og það sé margt í henni sem er þeim ætlað og ég skil ekki eða misskil. Ég finn þó að það er margt sem kraumar undir í þessari bók. Og svo minnir hún auðvitað á stríðið, sem við fáum daglegar fréttir af. Einhvern tíma verður hægt að heimsækja Úkraínu.
Kannski og vonandi.
Myndin á ekkert skilt við greinina. Hún er úr mínum heimahögum og er til skrauts.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2022 | 16:52
Á nótttinni er allt blóð svart
Á nóttinni er allt blóð svart eftir David Diop er ein besta bók sem ég hef lengi lesið. En það er ekki áreynslulaust að lesa hana, því hún segir frá svo skelfilegum hlutum að maður vill helst ekki vita að þeir séu til. Á erfitt með að meðtaka þá, því þeir kollvarpa hugmyndum okkar um heiminn. Bókin segir frá stríði. Dags daglega heyrum við talað um stríð eins og einhvers konar keppni, þar sem eðlilegt er að fara eftir leikreglum, dómarinn fylgist með og blæs í flautuna þegar reglur eru brotnar og veifar spjaldi sem allir skilja og eru tilbúnir til að taka mark á. Í rauninni er ekkert skylt með stríði og íþróttum. Þjóðir hafa að vísu reynt að koma sér upp leikreglum en þær eru þverbrotnar og virtar að vettugi þegar á reynir. Sigurvegari fer oftast með hlutverk dómara.
Sannleikskornið í þessari sögu
Í heimsstyrjöldinni fyrri, vildu Frakkar styrkja stöðu sína með því að fá unga menn frá Vestur Afríku, Senegal, til liðs við sig. Sagt er að þeim hafi verið ætlað að hræða andstæðinga með útliti sínu og villimannslegri framkomu. Þeim var fengin sveðja, auk riffils til að berjast með. Sagan segir frá einum þessara ungu manna, Alfa Ndiaye. Þegar hann var tvítugur lét hann skrá sig í herinn ásamt vini sínum og uppeldisbróður.Þannig vildu þeir öðlast frama. Þeirra beið skotgrafahernaður á Vesturvígstöðvunum. Þegar vinur hans særist alvarlega, var ristur á hol með iðrun úti, situr Alfa hjá honum meðan hann er að deyja. Hann veður vitni að þjáningum hans en treystir sér ekki til að verða við bón hans um að hjálpa honum til að deyja, stytta kvalastríðið hans. En hann hét því að hefna hans. Hann ákveður að gera það með því að láta óvinina kveljast á sama hátt og vinur hans gerði. Í raun brjálast hann.
Erich Maria Remarque hefur lýst skotgrafalífinu á óviðjafnanlegan hátt í bók sinni Ekkert að frétta á Vesturvígstöðvunum og sú bók kemur því upp í hugann við þennan lestur. Sú bók er um bláeygu óvinina, sem þeir félagar voru að berjast við. (þetta var útúrdúr).
Félagar Alfa og og höfuðsmaðurinn, yfirmaður hans, vissu hvað Alfa aðhafðist, hann kom alltaf til baka með afskorna hönd sem sigurtákn. Í fyrstu þrjú skiptin hrósuðu þeir honum fyrir hetjuskap. Eftir það sniðgengu þeir hann. Þegar hann hafði átta sinnum hefnt sín með því að misþyrma óvinum, var hann sendur á geðsjúkrahús. En bókin er ekki bara um stríð, hún fjallar líka um lífið í Senegal og uppvöxt hans,fólkið hans og vininn sem hann missti og vildi hefna. En fyrst og fremst fjallar þessi bók um geggjun stríðsins
Frásagnarmátinn
En það er ekki bara efni bókarinnar sem gerir hana sérstaka, heldur frásagnarmátinn. Hann er alveg sérstakur og hrífur mann með sér. Stundum eins og ljóð, sundum eins og romsa eða þula. Og oft miklar endurtekningar. Trúlega er aldrei hægt að segja hvað gerir texta að skáldskap. En það er göldrum líkast.
Um höfundinnn
David Diap (fæddur 1966) höfundur þessarar bókar er Senegal-Franskur. Hann er fæddur í Frakklandi og uppalinn í Senegal til 18 ára aldurs. Eftir það fer hann til náms í Frakklandi og lærir bókmenntir. Hann býr nú í Pau í Suður-Frakklandi þar sem hann kennir og vinnur að rannsóknum á frönsku og bókmenntum 18. aldar. Þessi bók kom út 2018. Hún hefur fengið fjölda verðlauna.
Þýðingin
Það er mikill fengur að hafa fengið þessa bók þýdda á íslensku. Það er Ásdís R. Magnúsdóttir sem þýðir hana og ég er sannfærð um að þýðingin er góð því hún talar bæði til vitsmuna og hjarta. Árni Blandon les bókina, hann er vanur og traustur lesari.
Angústúra
Það er Angústúra sem gefur bókina út. Þetta forlag á þakkir skilið, því alveg síðan það kom á bókamarkaðinnn, er greinilegt að það vill stækka heiminn.
Myndin tengist ekki efninu. Hún var tekin á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum.
Bloggar | Breytt 29.9.2022 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2022 | 21:45
Blaðalestur
Um nokkurt skeið hef ég ekki lesið blöð. Ég get ekki sagt að það hafi verið mér þungbært miðað við annað sem ég hef farið á mis við vegna sjónskerðingar minnar. En þó?
Nú hef ég fengið hjálpartæki sem gerir mér kleyft að lesa texta. Það er hægt að stækka upp heilar eða hálfar síður. Hingað til hef ég einungis notað tækið til að lesa ljóð, þau henta vel því stuttar línur er eitt af því sem gerir texta læsilegan. Nú datt mér í hug að ég ætti aftur að hefja blaðalestur, svo ég ákvað að reyna.
Fyrst var að æfa mig, gera tilraun. Fyrir valinu varð Helgarútgáfa Fréttablaðsins 10. september.
Æfingin
Þegar dagblöð eru lesin með hjálp stækkarans, þarf maður að taka blaðið í sundur og brjóta það síðan í hæfilegar einingar til að leggja undir stækkarann. Þannig fær maður nokkurn veginn yfirsýn yfir hálfa síðu í senn. En Fréttablaðið er að magninu til myndir og aftur myndir plús auglýsingar. Ég ákvað að sleppa auglýsingunum alveg. Þannig slapp ég við að skoða fjöldann allan af síðum.
Hvað gaf þetta mér svo?
Í þessu blaði voru nokkrar frásagnir eða viðtöl við einstaklinga sem sögðu frá lífi sínu eða lífsreynslu sem það hafði orðið fyrir. Ég þori næstum ekki að segja það, að ég sneiði yfirleitt hjá slíkum viðtölum. Ég vil að blöð fjalli um pólitík, aflabrögð, stöðu krónunnar og ef til vill náttúruhamfarir og heyskap. Í þetta skipti lét ég mig hafa þð að lesa þessar fréttir af fólki, því ég var að æfa mig. Það glaðnaði þó yfir mér þegar röðin kom að frásögn um Britney Spears. Hún er undantekning frá reglunni að lesa ekki um einstaklinga. Því fylgir saga.
Á hjólaverkstæðinu.
Ég er afar illa að mér um frægt fólk sem gerir það gott í tónlistarbransanum. Ég hef þurft að þola háð fyrir þetta heima fyrir þar sem fjölskylda mín er afar vel að sér um allt sem þetta varðar. Allt límist inn.
Fyrir nokkrum árum þ
urfti ég að láta gera við reiðhjólið mitt, Meðan ég beið þarna á hjólaverkstæðinu eftir að borga, rek ég augun í umslag sem hengt var á vegg. Á því stóð: Söfnum fyrir Britney Spears. Það virtist sem að það hefði þegar safnast þó nokkuð fé, því umslagið virtist troðfullt. Ég spurði viðgerðarmanninn hver" þessi kona væri. Hann sagði mér í fáum orðum deili á henni og hvaða órétt hún þyrfti að þola. Þetta sagði hann án þess að skensa mig. Fyrir það var ég þakklát. Líklega sá hann sem var að ég var bara illa upplýst gömul kona. Í frásögninni um Britney Spears í Fréttablaðinu núna, var sagt frá áralöngum erfiðum veikindum og frelsissviptingu tónlistarkonunnar. Þetta virðist þó ganga skár hjá henni núna, því hún er á fullu að sinna list sinni.
Til baka í lestrar-æfinguna. Annað sem vakti athygli mína var afar vönduð mynd af Karli II Bretakonungi eftir Gunnar. Það fylgir því aukaerfiði að skoða myndir, því þá þarf að breyta stillingu á græjunni. Fyrir neðan myndina af Karli var grein eftir Sif Sigmarsdóttur, sú grein hafði farið fram hjá mér við fyrstu yfirferð í gegnum blaðið. Í greininni fjallar Sif um ógnina sem stafar af flokkum sem gæla við nasisma. Sporin hræða.
Lokaorð
Þessi lestraræfing gerði mér gott. Mér fannst hann vera skref í áttina að því að vera virkur og ábyrgur þjóðfélagsþegn. En ég var búin að gleyma hvað blöð eru sóðaleg, ég varð alveg svört um hendurnar og þurfti að nota bæði sápu og bursta til að ná því af mér. þetta sem ég segi hém ég segi hér er ekk nein úttekt á Fréttablaðinu, þetta var einubgis tiltaun mín til að ná tökum á því að nota nýtt hjalpartæki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.9.2022 | 18:05
Er fólk hætt að lesa Pearl S. Buck ?
Stundum langar mig að lesa langar bækur. Langar bækur gera manni kleyft að komast inn í framandi heim og dvelja með áður ókunnugu fólki dögum saman. Í leit minni að slíkri, rakst ég á Pearl S. Buck. Ég hef aldrei lesið bók eftir hana, en þekkti til hennar frá því bók eða bækur eftir hana voru lesnar í útvarpið. Það var á þeim tíma sem ég hafði ekki eða þóttist ekki hafa tíma til að setjast niður og hlusta á bóklestur í útvarpinu.
Hver Var hún?
Pearl S. Buck er bandarískur rithöfundur fædd 1892 og dáin 1973. Hún var fædd í Bandaríkjunum en alin upp í Kína frá því hún var fjögurra mánaða. Foreldrar hennar voru trúboðar. Hún fékk háskólamenntun sína í Bandaríkjunum en fluttist síðan aftur til Kína, þar sem hún vann með manni sínum John Lossing Buck. Þau giftust 1917 en hjónabandið var ekki farsælt og þau skildu 1935 þann sama dag giftist hún útgefanda sínum Richard John Wash. Þetta voru umbrotasamir tímar í Kína sem lauk með byltingu, þ.e. yfirtöku kommúnista 1948. Um allt þetta og meira til skrifar Pearl S. Buck. Hún fékk Pulitzer verðlaunin 1932 og Nóbelsverlaunin 1938.
Ég hef þegar lesið/hlustað á þrjár bækur sem þýddar hafa verið á íslensku: Austan vindar og vestan, Synir trúboðanna og Dætur frú Liang. Og þá eru eftir fyrir mig að lesa: Kvennabúrið; Í huliðsblæ; Í munarheimi; Drekakyn; Gott land og Móðirin. Nú hef ég talið upp þær sögur sem þýddar hafa verið á íslensku, held ég. En kannski eru þær fleiri. En Buck skrifaði óhemjumikið og margt af því er upplesið og aðgengilegt fyrir mig til að hlusta á frummálinu, ensku.
Það er einkum tvennt sem mér finnst merkilegt við stöðu Buck hér á Íslandi.
Í fyrsta lagi undrast ég hversu mörg verka hennar hafa verið þýdd, í öðru lagi undrast ég að nafn hennar virðist vera fallið í gleymsku.
Það virðist sem þessi mikla baráttu- og bókmenntakona sé svo gott sem horfinn úr umræðunni. Pearl S. Buck tók nefnilega afstöðu til margra mála sem enn brenna á fólki. Ég tek sem dæmi baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og að bera virðingu fyrir fólki óháð húðlit og uppruna. Hún taldi að engin menning væri annarri æðri. Það var meðal annars þess vegna sem hún efaðist um hvort trúboð ætti rétt á sér. Með því að efast hjó hún nærri sinni eigin fjölskyldu.
Föðurland?
Hún elskaði Kína og fannst það vera sitt raunverulega föðurland og tók nærri sér að geta ekki heimsótt það eftir byltinguna. Í bók sinni, Dætur frú Liang bregður hún upp mynd af því sem henni fannst að byltingarmenn hefðu gert rangt. Það var að hennar mati ekki það sem sneri að yfirtöku eigna hinna ríku, heldur það að bera ekki virðingu fyrir arfleifð sögunnar. Í bókinni Synir trúboðanna lýsir hún lífi tveggja manna sem, eins og hún,voru uppaldir í Kína og fóru aftur til gamla landsins. Annar setti sér það sem markmið að verða ríkur. Hann réðist í blaðaútgáfu. Gaf út blöð sem einkenndust af góðum ljósmyndum og stórum fyrirsögnum. Það tókst, hann varð moldríkur. Hinn ungi maðurinn setti sér það markmið að finna ráð til koma algjörlega í veg fyrir hungursneyðir. Það fer ekki milli mála hvor þessara manna fellur höfundi betur.
Lokaorð
Ég ætla að búa í heimi Pearl S. Buck enn um sinn. Bækur hennar eru í senn fræðandi og spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.8.2022 | 16:03
Dagbók úr fangelsi Sigurður Gunnarsson
Það er aldrei einfalt að ljúka bók og velja nýja. Fyrst þar f maður að kveðja þá sem er búin, síðan hefst leitin að nýrri. Bækur hafa margvís leg áhrif á líðan, þær gleðja, fræða, róa og eru góðar til að sofna útfrá. En fyrst og fremst hafa þær þó sögu að segja sem þú getur speglað þig í.
Vandinn við að velja bók við hæfi.
HBS birtir jafnóðum lista yfir bækur sem hafa verið lesnar inn og auðvitað hefur það líka áhrif á valið. Þegar ég sá að lesin hefði verið inn Dagbók úr fangelsi, hvarflaði ekki að mér að lesa hana, datt ekki í hug að þetta væri bók fyrir mig. Ég hef svo sem oft lesið frásagnir um fangelsisdvöl og nú síðast bókina Ef þetta er maður eftir Primo Levi. Ég hef enn ekki sagt frá henni hér, er að safna kjarki. Áður í sumar las ég bókina Istanbúl Istanbúl eftir Burhan Sönmez.
En síðan varð forvitnin yfirsterkari: hvernig skyldi lífið vera í íslensku fangelsi?
Og þar með var áhugi minn vakinn.
Litla Hraun
Bókin er eftir Sigurð Gunnarsson. Hún er eins og titillinn segir, dagbók. Dagbókin rekur það sem á dagana dreif nokkurn veginn frá degi til dags þessa fimm mánuði sem fanginn situr inni. Við þetta bætast ýmis fylgiskjöl, svo svo sem bréf sem höfundur skrifar fyrir samfanga sína og hans eigin bréf. En fyrst og fremst er dagbókin hugleiðingar höfundar um samskipti hans við aðra fanga og við fangaverði. Bókin er gagnrýni á fangelsið, margt gæti verðið betra, oft er réttur fanganna ekki virtur og auðvitað eru fangelsi algjör vitleysa. Hver verður betri maður af því að vera í fangelsi? Auk þess kosta fangelsi heilan helling og þeim peningum væri betur varið til að gera ýmislegt annað. Ég held að það sem segir hér að framan, sé nokkurn veginn það sem Höfundur leggur áherslu á. Hann er fullur af réttlætiskennd. Hann er vel að sér og vill að það sé farið að lögum. Oft aðstoðar hann samfanga sína þegar ágreiningur kemur upp í samskiptum þeirra við fangelsisyfirvöld.
Ég var hissa á því hversu oft þetta snerist um vinnu innan fangelsisins. Það virðist vera skortur á vinnuframboði og fangar vilja gjarnan vinna þótt kaupið sé lúsarlega lágt.
En það er ekki allt neikvætt við að vera í fangelsi. Sigurður hefur gaman af tónlist og talar oft um það sem hann er að hlusta á og og hann tekst einnig á við að þýða bók. Það skín við í gegnum alla frásögnina að hann vill láta gott af sér leiða.
Gamall kunningi
Ég var ekki komin langt inn í bókina þegar ég áttaði mig á því að ég þekkti höfund bókarinnar. Hann tilheyrði nemendahópnum frá því ég var í Uppsölum 1977-1980. Auðvitað breytti þetta upplifun minni af lestrinum. Ég varð jákvæðari og hugsað nú með sjálfri mér þegar mér fannst hann vera að sökkva í dý neikvæðni. Framan af lestrinum hafði ég oftar en einu sinni látið það fara í taugarnar á mér hversu neikvæður höfundur var út í starfsmenn fangelsisins og yfirstjórn fangelsismála og túlka allt á versta veg, en eftir að ég vissi hver maðurinn var, hugsaði ég bara æ, æ, Siggi.
Ég vissi sem er að öll ákvarðanataka í stjórnkerfinu er sein í vöfum, svo ekki sé meira sagt. Mér fannst oft túlkun hans jaðra við ofsóknarfælni. En það er ekki mitt að koma með greiningar á fólki og fella dóma. Ég á að halda mér við að skilja bækur mínum skilningi og til þess er ég að skrifa þessa pistla. Oft vantar fé til úrbóta.
Þótt bókin sé í dagbókarformi og því eðlilega full af endurtekningum, er hún skemmtileg aflestrar. Það er greinilegt að að Sigurður er góður penni.
Það er Árni Blandon sem les, hann er úrvalslesari.
Lokaorð
Ég nefndi hér að framan þær bækur sem gerast í fangelsum, sem eru mjög ólíkar því sem lýst er í þessari bók. Önnur bókin, Ef þetta er maður gerist í útrýmingarbúðum. Hin gerist í tyrknesku fangelsi, þar sem reynt er að pína fólk til sagna. Auðvitað er slíkt ekki til á okkar litla Íslandi. (Ekki lengur). Eina bók hef ég þó lesið sem gæti verið sambærileg við þessa. Hún heitir 30 dagar í Sunnefjord og er eftir Vigdis Hjort. Þar lýsir hún lífi sínu í fangelsi þegar hún sat inni fyrir umferðalagabrot. Það var mikið áfall fyrir hana, því hún er þjóðþekktur einstaklingur. Gagnrýni hennar í bókinni beinist fyrst og fremst að henni sjálfri. Hún er full af skömm. Já bækur eru alltaf hver annarri ólíkar, eins og fólkið sem skrifar þær. Allar auka þær okkur skilning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2022 | 19:55
Frásagnir af Þögla : Cecil Bødker
Frásagnir af Þögla
Í gamla daga þegar ég var ung fylgdust nær allir með sögum sem lesnar voru í útvarpið. Frásagnir um Þögla er ein af þeim. Hún var lesin 1986 og það er Nína Björk sem les en hún er einnig þýðandi sögunnar. Bókin er eftir danska höfundinn Cecil Bødler. Bækur sem lesnar hafa verið í útvarp eru gjarnan aðgengilegar í HBS.
Það var fyrir algjöra tilviljun að ég rakst á þessa bók á ráfi mínu um vef HBS. Þetta er áhugavert hugsa ég úr því Nína Björk hefur valið hana til að þýða og lesa í útvarp. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.
Sagan
Allt í einu er ég komin í annað land. Til Danmerkur,held ég. Drengurinn, sem gengur undir nafninu Þögli er að uppgötva sjálfan sig og heiminn. Hann hefur hlustað á önnur börn tala um mömmu og pabba og dettur þá allt í einu að hann hljóti einnig að eiga foreldra. Hann hefur alist upp hjá ömmu sinni og spyr hana. Auðvitað átt þú móður segir hún, allir eiga móður. Maður fær að fylgjast með nokkrum samtölum þeirra í sögunni, þau eru sérstök. Allt er sérstakt i þessari bók. Lesandinn fær að fylgjast með nokkrum svipmyndum úr ævi Þögla, fær að sjá hann þroskast.
Þetta er dásamleg bók, ekki síst fyrir það sem er látið ósagt.
Nína Björk
Sjálfsagt á Nína Björk sinn þátt í því, hversu gaman og gott fyrir sálina er að hlusta á söguna um Þögla. Það var hún sem valdi söguna, þýddi hana og les. Ég veit ekki hvort þessi saga var einhvern tíma gefin út sem bók . Grunar að svo sé ekki. Hvað sem því líður er þessi litla saga perla.
Um höfundinn
Cecil Bødker er danskur rithöfundur, fædd 1927 og dó 2020. Hún hefur alveg farið fram hjá mér, þó las ég talsvert af dönskum bókum hér áður fyrr. Það var auðvelt að finna þær í bókabúðum. Nú virðist sem bækur á ensku hafi tekið við. Ef leitað er að bók á norðurlandamáli finnur maður hana á nsku. Hér er best að slá botni í þennan pistil, ég er komin langt frá efninu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2022 | 17:31
Strendingar: Yrsa Þöll Gylfadóttir
Loksins gafst mér tækifæri til að lesa/hlusta á Strendinga, bók Yrsu Þallar Gylfadóttur, sem kom út 2020. Það er sem sagt búið að lesa hana inn.
Þetta er fjölskyldusaga, saga dæmigerðrar íslenskrar fjölskyldu, mamma, pabbi og þrjú börn. Sagan gerist í þorpi, á landsbyggðinni. Móðirin Eva vinnur sem byggingafulltrúi og stendur í ströngu því hugmyndir hennar um að laga gömlu kirkjuna í stað þess að byggja nýja stangast á við hugmyndir hinna í stjórn bæjarins. Þegar hún kemur úr barneignaleyfi, er búið að samþykkja byggingu nýrrar kirkju og steypa sökkulinn. Eva fær taugaáfall, verður veik.
Pétur maður hennar hefur unnið á auglýsingaskrifstofu, en er nú heima í barneignarfríi.
Silja, elsta barnið og stjúpdóttir hans er á kafi í tölvuleikjum. Hún skrifar líka sögu sem hún setur á netið og slær í gegn.
Miðjubarnið, Steinar, sex ára, verður afar hændur að afa sínum Bergi, sem dvelur tímabundið á heimilinu.
Litla stúlkan, Ólafía, er rétt byrjuð að tala sín fyrstu orð. Á heimilinu er líka köttur.
Ég ætla ekki að rekja söguþráð þessarar bókar frekar, heldur tala um það sem mér finnst sérstakt við þessa bók. Þ.e. stíllinn og frásagnarmátinn. Yrsa ljær öllum persónum sínum rödd, líka kettinum. Þess vegna er sagan margradda, sjónarhorn þeirra eru ólík. Eva sem er í eðli sínu raunsæiskona hefur verið slegin út af laginu. Það er ekki bara stjórn bæjarfélagsins, sem er á móti henni, heldur allt þorpið. Hinn orðhaga Pétur langar að skrifa ljóðabók. Kaflinn sem hann leikur sér að orðum og stöfum er framúrskarandi. Það kom mér á óvart hvað þessi litla bók er efnismikil.
Ég má ekki láta hjá líða að ræða sérstaklega um gamla bóndann, Berg. Hann er kominn út úr heiminum og lifir í sínum einkaheimi sem er fullur af firrum. Synir hans hafa ekki hugmynd um það. En þegar Pétur tekur hann heim til sín er þó svo mikið eftir af honum að hann verður kærkominn félagsskapur fyrir drenginn Steinar.
Skiptir staðsetning máli?
Þegar ég les íslenskar sögur get ég aldrei varist að reyna að staðsetja þær. Ég brenn í skinninu. Og þar sem höfundurinn segir ekkert um þetta, ákveð ég það fyrir hann. Ég set byggðarlagið í Sjálfstæðu fólki hiklaust niður á Jökuldalsheiðina og þorpið hennar Sölku Völku kalla ég í huga mínum Þórshöfn. Ég veit að ég hef ekkert fyrir mér í þessu en hætti samt ekki að leita að stað fyrir sögur með skálduðum nöfnum á landakortinu. Auðvitað er ég búin að finna stað fyrir Stapaströnd en ætla að halda því fyrir mig.
Ég hef þegar talað um hversu vel Yrsa Þöll lýsir lífi gamla bóndans Brands. Samt get ég ekki staðist að láta vissa ónákvæmni um orðalag fara í taugarnar á mér. Maður talar ekki um bása í fjárhúsum og sauðir eru ekki lengur hluti af hjörðinni. Nema ef vera skyldi staka forystusauður. Ég get reyndar ekki fullyrt neitt um þetta með vissu nema það sem tíðkaðist í Breiðdalnum í eldgamladaga.
Heimiliskötturinn Mjálmi er merkilegur með sig, telur sig vera hefðarkött og heita Sahure og vera langt yfir aðra hafinn.
Allt í einu er sagan búin, mér finnst hún vera endaslepp. En hugsa svo hún er eins og lífið, maður ræður engu um lengd þess.
Vonandi kemur Yrsa Þöll fljótlega aftur með nýja bók. Og vonandi klárar fjölskyldan í Stapafirði sig án mín.
Lokaorð
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók, hún var oft fyndin (ég gleymdi að segja frá því). Það er María Lovísa Guðjónsdóttir sem les.Ég hefði viljað fá hana fyrr, því ég er bókaunnandi og skrifar um bækur. Það er leiðinlegt að skrifa um nýja bók sem er að verða þriggja ára gömul.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.8.2022 | 15:29
Ru: Kim Thúy
Ru
Ru er lítil bók sem leynir á sér. Hún er eftir Víetnam-kanadiska rithöfundinn Kim Thúy (fædd 1968) sem Vkom með foreldrum sínum sem bátaflóttamaður til Kanada tíu eða ellefu ára gömul. Fyrstu Víetnamarnir sem komu hingað voru líka bátafólk.
Ég vildi óska að ég hefði verið búin að lesa þessa bók þá, því það kom í minn hlut að fylgjast með hvernig börnunum vegnaði í skóla. Nú finnst mér að ég og við öll hafi vitað svo lítið.
Að flýja ættland sitt
Þegar her Norður- Víetnam hafði sigrað í stríðinu og sameinað Norður og Suður- Víetnam reyndu margir að flýja land, þar á meðal fjölskylda Kim. Þau voru efnafólk, sem kom sér vel, því fargjaldið í bátunum kostaði sitt. Ferðin yfir hafið var hættuleg og aðbúnaðurinn var líkari gripaflutningum en farþega flutningum. Þau voru heppin. Það var ekki ráðist á skipið af sjóræningjum og þau komust heilu og höldnu til Malasíu þar sem þau voru vistuð í yfirfullum flóttamannabúðum. Ástandið þar var hræðilegt. Loks bauðst þeim að flytja til Kanada, til Quebec. Þar tók við hið erfiða og stóra verkefni að læra nýtt mál og aðlagast nýju landi. Það virðist hafa gengið vel því Kim tókst að menntast og finna sér hlutverk.
Bókin
Ru er fyrsta bók höfundar. Hún kom út 2009 en síðan hafa komið út fleiri bækur eftir hana.
Ru er lítil bók, safn frásagna og hugleiðinga. Hún minnir helst á ljóð. Hún er að hluta til ævisöguleg, byggir á reynslu hennar og minningabrotum án þess að rekja söguna í heild sinni. Hún segir frá fjölskyldu sinni í gamla landinu og frá tímanum fram að flóttanum, eftir að kommúnistar höfðu tekið hús þeirra eignanámi og úthlutað þeim ákveðnu rými til afnota.
Faðir Kim hafði svo illan bifur á kommúnistunum að hann sagði dóttur sinni seinna að ef fjölskyldan hefi fallið í hendur kommúnista eða sjóræningja, hefði hann verið tilbúin til að drepa þau öll með blásýru.
Hvað er mikilvægt?
Það er trúlega ekki ytri veruleiki sem vegur þyngst í lífi fólks, það sem gerir útslagið er hvernig unnið er úr honum. Mér fannst skemmtilegast að lesa það sem hún skrifar um tungumálið.
Orðin eru margræð, í þeim leynist dulin merking. Hún tekur dæmi af eigin nafni og nafni móður sinnar(á víetnömsku). Fljótt á litið virðast nöfnin eins, einungis ein komma greinir þau að. Hennar eigið nafn þýðir innri friður, nafn móður hennar þýðir kyrrlátt umhverfi.
Nafn bókarinnar, Ru, merkir lækur á frönsku eða það sem streymir. Á víetnömsku þýðir orðið vögguvísa eða þann sem raular eða fer með vögguvísu.Þessi bók kom mér á óvart. Fyrst hlustaði ég á hana sem hljóðbók. Hún var vel lesin en samt skilaði hún sér ekki almennilega. Það var ekki fyrr en að ég fékk hana í hendurnar og gat rennt henni undir lessjána (stækkunartæki sem gerir mér fært að lesa bækur) að ég áttaði mig á henni.
Lokaorð
Ég þurfti að hafa talsvert fyrir þessari bók. Það stemmir við hugmyndir mínar um bóklestur, góðar bækur þarf maður að lesa oft.
Eins og alltaf hlýnar mér um hjartaræturnar af þakklæti.
Bókin er þýdd úr frönsku af Arndísi Lóu Magnúsdóttur og hljóðbókin er lesin af Súsönnu Margréti Gestsdóttur.
Ru er bók til að eiga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2022 | 16:52
3 bækur Åsne Seierstad
Þrjár sögur eftir Åsne Seierstad
Það kann að virðast skrýtið og tilgangslaust að lesa gamlar og löngu útkomnar bækur. En því miður er það ekki svo. Heimurinn hefur lítið breyst. Bækurnar hitta beint í mark. Líka núna. Þetta eru bækur eftir norska blaðamanninn og rithöfundinn Åsne Seierstad (fædd 1970). Þær fjalla allar um áhrif stríðs og ofbeldis á líf fólks. Ég ætla að ræða lítillega um þær allar í þessum pistli í þeirri röð sem ég las þær.
Tvær systur
Bókin kom út í Noregi 2018. Ég hlustaði á bókina á sænsku. Ég hefði frekar viljað hlusta á hana á norsku en það var ekki í boði hjá HBÍ. Því miður. Sagan segir frá fjölskyldu frá Sómalíu. Þau komu til Noregs sem flóttamenn á tímum stríðsins í Sómalíu. Þegar sagan hefst hefur fjölskyldan komið sér vel fyrir í Noregi, í Asker. Börnin ganga í skóla eins og norsk börn. Aðalpersónu sögunnar Ayan gengur vel, svipað má segja um yngri systur hennar Lailu. Ayan er fyrirmyndar námsmaður. Hún er um það bil að verða stúdent og dreymir um að verða diplómat eða vinna hjá Sameinuðu þjóðunum. Skyndilega hverfa þær. Koma ekki í matinn. Fjölskyldan er sem lömuð. Það kemur í ljós að systurnar hafa farið til Tyrklands og þaðan til Sýrlands til að berjast með Isis. Faðir þeirra fer á eftir þeim og ætlar að fá þær til baka. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu lengra hér.
Tilraun til að skilja
Áður en þær fóru höfðu ýmsar breytingar á hegðun komið í ljós, sem bentu á að ekki var allt sem skyldi.
Saga þessarar fjölskyldu er tilraun til að skilja hvað fyrir þeim vakir og ekki síst til að skilja hvað fór úrskeiðis hjá Norðmönnum. Hvað gerðu gerðu þeir rangt. Þeir sem vildu svo gjarnan verða að liði og hjálpa? Seierstad rannsakar málið eins og blaðamaður. Sem hún er. Hún spyr spurninga og leitar svara. Hún svarar þó aldrei neinum spurningum sjálf, heldur leggur málið á borðið handa okkur, það er ekki hennar að svara. Það er okkar lesenda að draga ályktanir út frá því sem leggur fram. Hlutverk blaðamannsins er að rannsaka og upplýsa.
Einn af okkur
Bókin kom út í Noregi .og hér 2016. Það er Sveinn H. Guðmarsson sem þýðir.
Þetta er löng bók 20:21 klukkustundir í upplestri. Það liggur fyrir mikið efni, sem fjalla þarf um til að leitast við að skilja það sem leiddi til fjöldamorðanna í Útey.
Fyrst kynnir hún til sögunnar nokkrar fjölskyldur sem eiga það eitt sameiginlegt að þær eiga bráðgeran ungling sem er með áhuga á þjóðfélagsmálum.
Gerandinn Síðan segir hún frá drengnum Anders Behring Breivik. Fyrst fá æskuárum og síðan frá unglingnum og loks fullorðna Breivik sem er fullur af hatri. Hún segir frá árásinni og hvernig krakkarnir eru skotnir. Frásagan er nákvæm. Þau eru skotin eitt af öðru. Mér finnst næstum eins og hún segi enginn skal undan líta
Ég hef aldrei lesið átakanlegri frásögn.
Hún lýsir líka viðbrögðum lögreglu sem voru til skammar. En fyrst og fremst hörmuleg. Það er merkilegt til þess að hugsa að æðsti maður þjóðarinnar, sem bar með ábyrgð á vanhæfni lögreglunnar, skyldi síðar vera valinn sem framkvæmdastjóri NATO.
Loks rekur höfundur það sem gerðist við réttarhöldin, dóminn og að endingu aðbúnað Breiviks í fangelsinu.
Að endingu segir höfundur frá sorginni. Foreldrar barnanna sem dóu, verða aldrei samir.
Bóksalinn í Kabúl.
Bókin kom út 2002 og var þýdd af Ernu Árnadóttur og kom út á Íslandi 2016. Af einhverjum ástæðum lét ég þessa bók fram hjá mér fara. Þetta er bókin sem geði Seierstad heimsfræga.
Seierstad hafði unnið um skeið sem blaðamaður í Afganistan. Þegar því starfi lauk dvalist hún um skeið í Kabúl þar sem hún kynnist bóksala. Það samdist um með þeim að hún fengi að búa hjá fjölskyldu hans. Hana langaði til að skilja betur líf Múslima og hugmyndaheiminn sem lagður er til grundvallar. Hún fylgdist með og spurði spurninga. Fjölskyldan var stór og allt var samkvæmt gömlum siðvenjum. Allir urðu að lúta vilja húsbóndans. Konurnar máttu ekki einu sinni hugsa. Það var synd að sætta sig ekki við ákvarðanir fjölskylduföðurins, hann sótti vald sitt í sjálfan Kóraninn.
Blaðamaðurinn skráði hjá sér. Spurði og tók viðtöl. Úr öllu þessu varð bókin til. Hún varð metsölubók. En auðvitað varð bóksalinn reiður. Honum sárnaði og hann kærði.Og það urðu réttarhöld og Seierstad var dæmd. Fékk sekt. En bókin lifir.
Lokaorð
Það hafa komið út fleiri bækur eftir Åsne Seierstad og ég brenn í skinninu að fá þær sem hljóðbækur. Helst á norsku.
Ég finn til þakklætis
Ég finn alltaf til þakklætis þegar ég les/hlusta á góðar bækur. Ég er þakklát höfundi fyrir að hafa skrifað þær, þýðanda fyrir að þýða þær og lesara fyrir að lesa. Og auðvitað er ég þakklát fyrir að hafa aðgang að hljóðbókasafni sem gerir mér og öðrum blindum/sjónskertum kleift að njóta bóka. Engu að síður er ég stundum óþolinmóð, finnst erfitt að bíða eftir bók eða það þurfi að lesa inn enn fleiri bækur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2022 | 14:30
10 dagar sem skóku heiminn John Reed
Tíu dagar sem skóku heiminn
Þegar ég hafði lesið Þrjár systur eftir Helen Rapaport, fannst mér ég þurfa að lesa mér til um það sem var að gerast í Rússlandi á síðust dögum keisaraveldisins. Fyrir valinu varð bók John Reed, Tíu dagar sem skóku heiminn. Þessi bók kom fyrst út árið 1919 og sjálfur Lenín fylgdi henni úr hlaði. Skrifaði formála.
Um höfundinn
John var bandarískur blaðamaður kominn af auðugu fólki. Hann hafði sem blaðamaður fylgst með stríðinu í Mexíkó. Nú lá leiðin til Rússlands. Hann var róttækur sósíalisti og fékk sem slíkur sérstakan aðgang að því sem var að gerast á vinstri væng stjórnmálanna í Rússlandi. Sat m.a. annað þing Komintern 1920. Það er því engan veginn hægt að líta á skrif hans sem hlutlausa blaðamennsku (ef hún er þá til?). Hann fær því tækifæri til fylgjast með því sem er að gerast. Hefur beinan aðgang að vettvangi pólitískra átaka. Allt þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á framsetningu efnisins.
Keisaraveldið fellur
Það er stríð, sem síðar var kallað heimsstyrjöld. Rússlandi vegnaði illa í styrjöldinni og alþýða manna bjó við kröpp kjör. Sumir sultu. Hermenn ræddu sín á milli að það væri brýnna að berjast við auðvaldið en að drepa þýska félaga sína og bræður.
Bylting
Löngu fyrir þennan tíma hafði byggst upp öflug hreyfing vinstri manna. Líklega væri réttara að tala um hreyfingar, því þær voru margar og þær tókust á um hvaða leið ætti að fara.
En þessi umræða var ekki bara bundin við Rússland. Hvarvetna í heiminum var rætt um að það væri nauðsynlegt að bæta kjör verkamanna og að færa þeim meiri völd. Þeir sem stóðu lengst til vinstri trúðu því, það myndi verða heimsbylting.
Lifandi frásögn
John Reed lýsir umræðunni og því sem ber fyrir augu eins og hann sé alltaf viðstaddur. Og stundum er hann það trúlega. Fundirnir eru hávaðasamir, það er mikið reykt og stundum ganga menn á dyr fússi í til að undirstrika óánægju sína með það sem sagt er eða ákveðið. Inn á milli útskírir höfundur stöðu og þróun stjórnmála í Rússlandi og skilgreinir pólitísk hugtök. Mér fannst þessi kafli um umræðuna ekki síst merkileg af því hún líkist því sem ég þekkti og gat rifjað upp endurómun hennar hér á Íslandi. Það er trúlega óþarfi að rekja það að það varð bylting og það voru hugmyndir Bolsevíka sem urðu ofaná. Því fór sem fór.
Það er næstum annarlegt að lesa um allt þetta eftir rúmlega 100 ár.
Mikill fengur
Það er fengur í þessari bók, hún er merkileg söguleg heimild. Þorvaldur Þorvaldsson er þýðandi bókarinnar. Hann segir frá því að hann hafði lengi gengið með þá hugmynd að snúa bókinni á íslensku en það varð ekki af því fyrr en 2017 á 100 ára afmæli byltingarinna. Þetta er stórvirki og ég er sannfærð um það er vel af hendi leyst. Þorvaldur gerir sjálfur grein fyrir því hlutverki sem hann ætlar bókinni . Hann sér fyrir sér að hún geti bæði nýst sem söguleg heimild og innlegg í pólitíska umræðu. Hann nefnir reyndar líka að það megi einnig lesa hana sem spennusögu. Það hafði mér ekki dottið í hug en get borið vitni um að vissulega er þetta spennandi frásögn, þrátt fyrir að maður þekki endalokin.
Til baka til höfundar
John Reed (fæddur 1897 dó 1920 )
ætlaði að skrifa aðra bók og hafði þegar lagt drög að henni. Hún átti að fjalla um byltinguna í víðari samhengi og um friðarsamningana við Þýskaland.
En sú bók var aldrei skrifuð. John Reed veiktist af taugaveiki og andaðist 1920, þá aðeins 32 ára.
Lokaorð
Lenin fékk heldur aldrei að útfæra sína byltingu, skapa stéttlaust ríki, alræði öreiganna. Hann lést árið 1924 eftir erfið veikindi. .
Það var Stalín sem tók við keflinu. Við þekkjum framhaldið.
Það er Jón St. Kristjánsson sem les bókina.Hann hefur þægilega rödd og kemur textanum vel til skila.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 189263
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar