15.1.2023 | 14:27
Gleðilegt nýtt ár
Það er drembilæti að láta sem maður geti ráðið við náttúruöflin. Einhvern veginn hefur þetta prentast inn í mig. Innst inni trúi ég því að það sé varasamt, jafnvel hættulegt að tala óvarlega um náttúruöflin. Mér gæti hefnst fyrir það.
Ég er þó engin trúkona. Amma mín Sigurbjörg, botnaði oft ræðu sína með setningunni,Ef Guð lofar.
Þess vegna hrökk ég við þegar ég nýlega heyrði mann (ég man ekki hvern) segja Þetta skal ekki koma fyrir aftur. Umræðan snerist um færð á vegum og þó sérstaklega á Reykjanes brautinni. Stundum engu líkara en það hafi gleymst að við búum á Íslandi.
Sama gildir í umræðunni um færðina á götum Reykjavíkur að viðbættum gangstígum og hjólastígum. Færðin er nokkurn veginn í lagi fyrir venjulegt fólk en fyrir fatlaða og fólk með barnavagna er hún ómöguleg.
Þó hef ég enn ekki séð nokkurn mann með skóflu að moka.
Þetta var nöldur.
En mér tókst að stöðva mig áður en ég fór út í Í gamla daga þegar ég var ung.
Það finnast bækur, þar sem baráttunni við náttúruöflin er vel lýst. Þar er fyrst að telja, Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Ég man líka eftir góðum snjóköflum í bókum Jóns Kalmanns, sérstaklega í bókaflokknum sem hefst á bókinni Himinn og Helvíti.
Snjór hleypir af stað röð minninga. Já og tilfinninga. Ég hugsa um Reynistaðabræður, Harðskafa Arnaldar Indriðasonar og um afa minn Björgvin, sem beið af sér blindbyl, næturlangt upp á Reindalsheiði.
Snjórinn í Reykjavík er öðru vísi en snjór bernskunnar. Hann er ekki hreinn. Það stafar engin ógn af honum. Hann er bara fyrir. Hálkan er verri. Hún er hættuleg.
Ég fer samt daglega í gönguferðir, nota brodda og göngustafi til að auðvelda mér gönguna.
Gleðilegt ár
Þetta er fyrsti pistill minn á nýju ári. Ég vona að það verði gott en það eru blikur á lofti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2023 | 14:21
Sturlunga: Ekki jólalestur?
Maður getur lesið hana oft og öðlast stöðugt nýja sýn á efni hennar. Þessari útgáfu, sem kom út 1948, stýrir Guðni Jónsson. Hún er í þremur bindum og Guðni skrifar einnig formála að þeim öllum.
Ég hlustaði reyndar, las ekki. Bókin, bækurnar eru eru lesnar af Ólafi Jenssyni, ekki veit ég hvort það er læknirinn Ólafur Jensson en hann er áheyrilegur lesari. Þetta er ótrúleg bók og engin jólalesning. Hún segir annars vegar frá átökum íslenskra höfðingja og hins vegar frá þreifingum norskra konunga um að eignast Ísland. Þetta vita víst allir og ekki þörf á að orðlengja það hér. En það sem mér finnst merkilegast við Sturlungu eru samskipti Íslenginga og þá fyrst og fremst valdastéttarinnar. Samkvæmt Sturlungu takast á nokkrar ættir. Þessar ættir tengjast reyndar allar.En það kemur ekki í veg fyrir ósætti og hefndaraðgerðir. Sögupersónur Sturlungu eru flestar karlkyns. Þær
konur sem nefndar eru til sögunnar fara þó með býsna stórt hlutverk ef að er gáð, svo sem Valgerður á Keldum og Þórdís Snorradóttir. Þegar ég les sögu sem þessa, finn ég þó nokkuð til fötlunar minnar, það er sjónskerðingarinnar en ákveð með sjálfri mér að velta mér ekki upp úr því að vera leshömluð á gamals aldri.
Samtímasaga?
Þegar ég les Sturlungu trúi ég hverju orði. Reyndar geri það oftast þegar ég les, það er forsenda þess að njóta bóka, held ég. Höfundur nýtir sér ýmis triks til að sagan verði trúverðug. Hann nefnir nöfn, jafnvel þótt persónan komi lítið við sögu og lýsir smáatriðum , þótt þau skipti litlu máli , samanber síðustu orð Snorra Sturlusonar, Eigi skal höggva.
Jólaannir
Þessi pistill ber þess merki að hann er ekki nýr. Ég hóf að skrifa hann fyrir jól en lauk honum ekki því jólaannirnar hvolfdust yfir mig.
Nú er ég að lesa jólabækur. Var að ljúka við að lesa, Hamingja þessa heims:Riddarasaga; eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Þetta er svolítið tyrfin saga, dálítið í ætt við Sturlungu. Mér fellur hún vel. Meira um hana síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2022 | 21:46
Bækur lýsa upp skammdegismyrkrið
Oft er erfitt að velja sér bók. Það er eins og að margar bækur kalli á mann í einu. Þess vegna þarf maður að velja bækur af kostgæfni. Í mínum veruleika er ekki nóg að bókin komi út, það þarf að lesa hana inn, því ég hlusta í stað þess að lesa. Sá sem les er nokkurs konar milliliður og vald þeirra er mikið.
Munurinn á að hlusta og lesa er mikill. En þetta venst.
Ég sakna þess að geta ekki lesið en um leið er ég þakklát að þetta skuli vera hægt. Ég hef tamið mér að láta mér líka við lesarann og hef mikið dálæti á sumum. En ég sakna bókarinnar.
Til að gera sjónleysið bærilegra, reyni ég því oft að útvega mér bækurnar sem sem ég er að hlusta á, handleika þær, þreifa á þeim. Stundum sting ég þeim undir stækkunartækið sem ég hef að láni og skoða þær rækilega.
Sjónskerðing er aldrei eins. Í raun sé ég heilmikið, en ekki nóg til að geta lesið. Lestur er flókið fyrirbæri. Það veit ég sem fyrrverandi sérkennari. Stundum tortryggði fólk sjónskerta. Hélt að það væri að gera sér upp fötlun til að komast hjá vinnu. Um þetta vitna tvær örsögur sem ég lærði sem barn.
Saga 1
Allir í baðstofunni sátu að tóvinnu, að einum manni undanskildum. Hann sat og leitaði sér lúsa. Þegar hann loks náði einni, virti hann hana fyrir sér og tautaði.Ég sé lítið, ég sé lítið. Ég sé augun í lúsinni.
Saga 2
Annar karl, í annarri baðstofu sat iðjulaus meðan allir aðrir sátu við tóvinnu. Allt í einu segir hann. Mér fannst ég heyra svartan ullarlagð detta.
Þessar tvær sögur voru sagðar til að sýna fram á að það er varhugavert að treysta fólki sem segist vera sjónskert.
Jólabækur Íslendinga
Ég held að hið svo kallaða jólabókarflóð sé einstakt íslenskt fyrirbæri. Þegar Íslendingar hættu að gefa hver öðrum kerti og spil, ákváðu þeir að gefa bækur í staðinn. Þess vegna koma margar bækur út fyrir jól. Allir tala um bækur og maður hefur ekki við að fara í útgáfuhóf. Jólabækur lýsa upp skammdegið ekki síður en jólaljósin.
En mér finnst erfitt að lesa nýju bækurnar meðan á flóðinu stendur, veit ekki alveg hvers vegna. Þess vegna les ég gjarnan ekki nýjar bækur meðan ég bíð þess eftir því að flóðinu ljúki. Les eldri bækur.
Nú hef ég lesið tvær bækur eftir Jónínu Leósdóttur, Launsátur og Varnarlaus. Þetta eru ekki bækur um forvitna og afskiptasama eftirlaunaþegann, með Eddu í aðalhlutverki. Þess í stað eru það fyrrverandi hjónaleysin, sálfræðingurinn Adam og lögreglukonan Soffía sem leysa málin þvert gegn vilja sínum. Eftir að hafa lokið þeim lagðist ég í að lesa Sturlungu. Ekki í fyrsta skiptið og vonandi ekki það síðasta. Sturlungu getur maður lesið aftur og aftur. Mér finnst aðdragandi jóla dásamlegur tími.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2022 | 18:52
Millibilsmaður: Hermann Stefánsson
Millibilsmaður
Bókin Millibilsmaður eftir Hermann Stefánsson er í senn skemmtileg og spennandi. Ég lauk við hana klukkan 3 að nóttu. Gat ekki hætt. Nú, þegar ég er án allra skuldbindinga finnst mér gott að láta það eftir mér að gleyma mér yfir bókum. Sagan segir frá ungum læknishjónum í upphafi 20. aldar. Þetta er söguleg skáldsaga. Höfundur greinir frá þessu í stuttum formálsorðum. Jafnframt lætur hann þess getið að aðalpersónan, Jannes eigi ýmislegt sameiginlegt með Guðmundi Hannessyni langafa hans. Ég ímynda mér svo að sama gildi um Mekkín,konu læknisins. Guðmund kallar höfundur Jannes. Persónur sögunnar eru meira og minna landsþekktar persónur sem heita ýmist eigin nöfnum eða nöfn eru brengluð. Ég geri mér ekki grein fyrir hvað ræður.
Vísindi og trú
Læknirinn er menntaður og hugsar sem vísindamaður. Hann vill ekki bara þekkja kvillana, hann vill skilja hvernig þeir tengjast samfélaginu þar sem þeir þrífast í. Læknirinn og kona hans vinna náið saman en þau hugsa ólíkt. Hann vill ekki láta skíra börnin. Honum finnst það beinlínis ljótt, því skírninni er ætlað að hreinsa þau af erfðasyndinni. Það er ljótt að klína svona löguðu á börn. Hann hugsar eins og ég og Helgi Hóseasson sveitungi minn. Konu hans Mekkín finnst rétt að fylgja hefðinni og skíra börnin. Kannski er hún trúuð, hugsar hann.
Læknisfræðin byggir á vísindalegri hugsun og hann hefur tamið sér að hugsa þannig. Það þarf að vera hægt að sanna eða afsanna.
Fjölbreytt efni
Efni bókarinnar er fjölbreytt. Jannes hefur áhuga á svo mörgu. Auk læknastarfsins lætur hann sig varða umhverfismál og pólitík. Svo stendur hann í húsbyggingu og kennir læknisfræði. Hann hefur áhuga á fólki og blandar geði við hvern sem er. Frásagan um samskipti hans við utangarðsfólkið Zakkarías og Konkordíu er til marks um það. Og kveðskapur Konkordíu er glæsilegur.
Spíritismi
Í Reykjavík þessa tíma blómstrar spíritismi. Hluti af menntaðri borgarastéttinni lítur á spíritisma sem svar trúaðra við vísindahyggjunni. Þeir vildu á þann hátt sanna trú sína, með því að gægjast inn í annan heim. Þetta eru ólíkir hugmyndaheimar sem takast á. Miðilsfundir eru vísindaleg sönnun á framhaldslífi. Hugsa þeir.
Um leið er tekist á um stöðu Íslands gagnvart Danmörku.
Ólíkir hugmyndaheimar
Í þessari bók er sagt frá væringum á milli þessara hópa. Fyrir mér er þetta kunnuglegt. Þegar ég var barn, fann ég bók sem gaman var að glugga í. Þetta var tímaritið Dvöl. Pabbi hafði meira að segja bundið hana inn. Þar var fjallað um Spíritisma og það voru meira að segja myndir.
Þegar fortíðin lifnar við
Það var gaman að lesa þessa bók, það var eins og að vera stödd þarna. Mér fannst það merkilegt, því ég man ekki betur en að tímabilið upp úr 19-hundruð, væri leiðinlegasti kaflinn í Íslandssögunni á sínum tíma.
Hljóðbókin
Ég móttók bókina sem hljóðbók. Það er Árni Blandon sem les. Mér fellur vel lestur hans. En bókin sjálf er til hér á heimilinu. Hún er afar falleg. Innábrot kápunnar er blómum skreytt og mér varð hugsað til Mekkín, skyldi þetta vera hennar handverk? Ég efast reyndar um það en í bókinni er sagt frá því þegar hún mitt í öllum erlinum á fjölmennu heimili, dundar við að mála blóm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2022 | 16:55
Þormóður Torfason eftir Bergsvein Birgisson
Hver var þessi Þormóður Torfason?
Það gladdi mig ósegjanlega, þegar ég sá að það var búið að lesa inn nýja bók eftir Bergsvein Birgisson. Bókin er um mann sem er fæddur á 17. öld, þessari myrku öld galdra og dómhörku. Við vitum svo lítið um þessa öld. Ég tala auðvitað bara fyrir mig .
Þormóður Torfason var fæddur í Engey 1636 og dó í Noregi 1719. Bergsveinn rekur ævi hans út frá heimildum, sem eru takamarkaðar og prjónar við eftir því sem honum finnst líklegt út frá stöðu hans og tíðaranda.
Glæst braut
Þormóður fór til náms í Skálholtsskóla og þótti afbragðs námsmaður. Þaðan fór hann til náms í Kaupmannahöfn. Eftir að hafa lokið námi þar, hóf hann að vinna að því að afrita handrit.
Þetta var á þeim tíma sem Svíar og Danir tókust á um hvorir ættu að vera forystuþjóð á Norðurlöndum og augu manna höfðu opnast fyrir því að Íslendingar höfðu skrásett ýmislegt sem sem vitna mátti í til að styrkja stöðu sína. Þormóður sat sem sagt við að afrita Flateyjarbók og þýða yfir á dönsku. Efni Flateyjarbókar var þá pólitískt og brennheitt. Á tímabili var Þormóður meira að segja kominn með skrifborðið sitt inn í höll konungs, sem þá var Friðrik 3. Sá hinn sami sem var fyrstu til að gerast einvaldskonungur yfir okkur. En eitthvað fór úrskeiðis hjá Þormóði. Hann kunni sig ekki fór flatt á hirðsiðunum að haldið er. Hefði ef til vill ekki átt að lesa upp úr Bósasögu fyrir hirðmeyjarnar. Við vitum það ekki. En allt í einu er honum varpað á dyr, án skýringa og gert að flytja til Noregs með illskiljanlegt embættisbréf. Þar hófst nýr kafli í sögu hans. Þormóður festi ráð sitt í Noregi en ég ætla ekki að rekja þá sögu frekar hér. Í staðinn langar mig að tala um það sem mér finnst vera best gert í þessari sögu, en það er lýsing á tíðaranda og hugmyndaheimi þessa tíma. Völdin eru Guðs gjöf og þar með stéttaskiptingin. Stéttaskipting réðist af ætt og eignum. Flestar sögur frá fyrri tímum fjalla um fólk úr efstu lögunum. Fátæklingar koma lítt við sögu nema þeir gerist brotlegir við lög. Sama má segja um konur. En það er hægt að geta sér til. Í lýsingu Bergsteins á Þormóði er honum lýst sem sundurgerðarmanni í klæðaburði. Það er til af honum mynd (sjá Wikipediu) þar sem hann er uppstrílaður en karlmenn höfðu leyfi til að punta sig meir þá en nú.
Að prjóna við
Ég hef áður sagt að þar sem heimildum sleppir, þá prjónar höfundur við, leiðir líkur að. Þetta kemur ekki að sök því höfundur leyfir lesendum að fylgjast með röksemdafærslunni og hefur þar með leyfi til að hafna eða samþykkja.
Þarna hefur Bergsveinn sama hátt á og í bók sinni, Svarta víkingnum.
Bókin kom fyrst út í Noregi, það var Vésteinn Ólason þýðir hana á íslensku.
Hljóðbókin er lesin af Árna Blandon. Hann er traustur lesari.
Myndin af hreindýrunum er tekin af Arnaldi Sigurðssyni austur í Breiðdal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.11.2022 | 16:57
Eitt satt orð og Harðar saga Grímkelssonar eða Hólmverjasaga
Ekki veit ég hvaða orð lýsa bók Sveinbjörn Arngríms ssonar best. Þetta er saga um glæp en alls ekki spennusaga. Þetta er hægfara saga sem fjallar um hjónaerjur. Hún segir frá
pari á óskilgreindum aldri. Þau eru bæði heimavinnandi. Dag einn biður
konan sambýlismann sinn um að koma með sér upp í Hvalfjörð. Hana langar til skoða litla eyju eða hólma til að öðlast betur tilfinningu fyrir námsefni sem sem hún er að semja. Hann langar ekki, en fer samt. Andrúmsloftið í bílnum á leiðinni upp í Hvalfjörð er þrúgandi. Þau fara saman út í hólmann. Konan fer svo ein til baka, vill refsa manninum fyrir að vera í fýlu. Þegar hún snýr aftur til að vitja hans, er hann ekki þar. Í framhaldi af þessu lætur hún hefja leit að honum en segir ekki satt um viðskilnað þeirra í hólmanum. Hún skrökvar og skrökvar. Er hrædd um, að ef upp kemst, verði hún sótt til saka fyrir að skilja hann einan eftir í hólmanum.
Hún fær mikla hjálp frá lögreglunni við að leita mannsins, sérstaklega frá einum eldri manni, sem ávarpar hana vina mín.
Konan býr til aðra sögu um hvernig maðurinn hvarf, sleppir að segja frá ferðinni upp í Hvalfjörð og út í hólmann.
Þetta er sem sagt dálítið sérstök saga ef maður nálgast hana sem glæpasögu, því hún er fyrst og fremst lýsing á persónu sem festist í eigin lygavef og á ekki afturkvæmt. Hún er eins og staður hestur. Ég velti því fyrir mér hvort henni þætti vænt um mann sinn eður ei. Alla vega þykir henni vænna um sjálfa sig svo hún lýgur og eyðileggur þar með alla leit.
Önnur saga
En bókin ýtti við mér til að lesa aðra bók þar sem hólminn kemur við sögu.
Hún er merkileg saga sökum margs. Þar segir m.a. af mögnuðum hjónaerjum og átökum um barnauppeldi. Hjónabandið rétt lafir á einum manni sem er vinur beggja. Í veislu sem haldin er að loknu blóti á bæ þeirra, Ölvisvatni, er lýst uppákomu sem verður í veislunni. Móðirin situr í stól sínum á miðju stofugólfi og í knjám hennar hvílir forláta men, dýrgripur. Drengurinn Hörður sem er þriggja ára og ekki farinn að ganga, skríður um gólf. Allt í einu rís hann upp hinum megin í stofunni, gengur til móður sinnar og hrasar.Við það fellur menið góða í gólfið og brotnar. Móðirin segir þá við drenginn sinn: Ill var þín fyrsta ganga og munu svo margar eftir fara og verst hin síðasta (tilvitnun eftir minni). Maður hennar tók þá drenginn og kvað vísu. Þau hjón yrktust gjarnan á.
Auðvitað fór svo sem vísan segir til um. Drengurinn Hörður endaði ævina ásamt ræningjaflokki sínum í hólmanum.
Bók kallar á bók
Eftir lestur bókar Arngríms velti ég því fyrir mér, hvort hann hefði lesið Harðarsögu. Hún fjallar vissulega um hjónabandserfiðleika.
Ekki veit ég hvort erfiðleikar parsins í Eitt satt orð, vísi til Harðarsögu en ekki spillir að lesa báðar.
Ég ætla að láta hér staðar numið. Átti erfitt með að koma mér af stað með að skrifa þetta. Jólabókunum rignir inn. Og mig langar að lesa þær allar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2022 | 19:38
Hugleiðingar um bækur og bóklestur
Auðvitað les/hlusta ég mikið á bækur. Ég hef alltaf gert það og nú hef ég ekkert annað að gera. Auk þess skrifa ég pistla um það sem ég les. Ekki til að flokka þær í góðar og vondar, heldur til að greina betur efni þeirra og upplifun mína af því að lesa þær. Flestar bækur sem ég les eru skáldsögur. Oftast spennusögur. Á þessu eru þó fjölmargar undantekningar. Fyrir algjöra tilviljun las ég t.d. bók Bergsveins Birgissonar, Landslag er aldrei asnalegt. Hún kom bara upp í hendurnar á mér. Ég hélt að ég hefði lesið allt sem út hefur komið eftir Bergsvein, en svo er ekki. Bókin minnir í senn á þjóðlegan fróðleik og á bækur Jóns Kalmanns. Er um leið fyndin og full af trega.
Nú, þegar líður að jólum fjölgar bókum á markaði mjög mikið, sumir tala um flóð. Auðvitað get ég ekki komist yfir allt og ég verð að bíða eftir því að bókin sé lesin inn.
Megnið af bókum sem koma út eru spennusögur. Ekki veitir okkur gamla fólkinu af að fá einhverja spennu í lífið. En eintóm spenna er þreytandi. Þess vegna tók ég því með þökkum þegar ég sá að búið var að lesa inn bók Sigríðar Víðis Jónsdóttur, Vegabréf íslenskt. Ég hafði áður lesið eftir hana, Ríkisfang ekkert og vissi að hún kann að skrifa læsilegar bækur um fólk sem býr við aðstæður sem eru ólíkar okkar.
Vegabréf íslenskt er einskonar ferðasögubrot frá því Sigríður var ung kona, blaðamaður og full af ferðaþrá. Það er engu líkara en hún rambi alltaf inn í miðju stormsins. Það gengur svo mikið á í veröldinni. Við vitum það úr fréttum en það lítur öðru vísu út þegar maður er staddur á vettvangi.
Lokaorð
Ég finn að þessi pistill minn er dálítið sundurlaus en svona blasir lífið við akkúrat núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2022 | 14:02
Farsótt: Kristín Svava Tómasdóttir
Líklega les ég aldrei meira en á ferðalögum. Trúlega er ástæðan sú, að það tekur lengri tíma að róa hugann fyrir svefn þegar maður er ekki heima hjá sér. Ekki tengdist þó lestur minn Spáni og þaðan af síður fjölþjóðaborginni Torrevieja þar sem ég dvaldi.
Bókin sem ég las
Farsótt er eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur sagnfræðing og ljóðskáld.
Hún fjallar um lífið á Íslandi við lok 19. aldar og upphaf þeirrar 20. Reyndar afmarkar höfundur tímann ekki sérlega stíft. Efni bókarinnar hverfist um húsið Farsóttt, sem enn stendur. Hún hefst á að segja frá byggingu þess og lýkur á að segja frá einhvers konar vandræðagangi við að finna því tilgang.
Í rauninni er bókin ekki fyrst og fremst um Farsótt, heldur um stöðu heilbrigðismála hér á Íslandi og sér í lagi í Reykjavík við lok 19. aldar. Þetta var tími farsótta, sullaveiki og berkla. En við áttum öfluga en fámenna heilbrigðisstétt. Þá sem nú, virðast yfirvöld líta á það sem hlutverk sitt að halda fast um pyngjuna. Það voru komin hér tvö erlend sjúkrahús, áður en hafin var bygging á Landsspítala, þ. e. Landakotsspítali og Franski spítalinn.
En íslensku læknarnir voru duglegir og það voru konurnar líka, sem sáu um rekstur þessa fyrsta spítala sem íslendingar komu á fót.
En bókin er ekki fyrst og fremst um sjúka og fátæka, hún er um fólk og samfélag. Læknar eru að sjálfsögðu í stóru hlutverki og það eru læknanemar líka. Ekki veit ég hvernig hefur ræst úr þessum nemum en þeir voru fullir af gáska og léku sér meira að segja með líkin.
Það er greinilegt að Kristín hefur miklar heimildir til að vinna úr. Sagan er bæði djúp og breið, full af sögum af fólki. Það er sláandi að hún er um fólk en ekki endilega um fyrirfólk eins og margar sögur frá þessum tíma.
Lokaorð
Það var ekki bókinni að kenna en þó í beinu framhald af lestri hennar, að þegar ég hugði á heimferð, var ég komin með pest og er nú viku seinna loks að losna við þann ófögnuð.
Aftur að bókinni
Ég hafði ekki fyrr lokið bókinni að ég var ákveðin í að lesa hana aftur. Á henni eru margar matarholur. Ég ætla líka að skoða þetta hús betur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2022 | 21:07
Ida Pfeiffer : Íslandsför
Ida Pfeiffer, landkönnuður. Fædd 1797 og dáin 1858
Hér á árum áður, tíðkaðist að menn legðu á sig ferðalög til að kanna ókunn lönd. Oftast voru þetta karlmenn og ekki einir á ferð. Þetta voru leiðangrar. Landkönnuðurinn Ida Pfeiffer var undantekning. Hún var kona (ekkja) sem lagðist í ferðalög þegar synir hennar tveir voru ouppkomnir. Hún ferðaðist vítt og breitt um veröldina og skrifaði bækur um ferðir sínar. Ferðabækur hennar seldust vel og fjármögnuðu ferðirnar að einhverju leyti.
Frásagan um Íslandsferðina hefur nú komið út í íslenskri þýðingu Guðmundar J. Guðmundssonar.
Íslandsförin
Hingað kom hún með skipi til Hafnarfjarðar 10. maí 1845. Hún hóf þegar að skoða sig um. Langaði að faðma landið, segir hún. Torfbæirnir litu út eins og grösugir hólar. Hún hrífst af landinu en á varla orð til að lýsa sóðaskap fólksins sem býr þar. Engu að síður skoðar hún húsakostinn og lýsingar hennar á torfbæjunum eru greinargóðar. Og ég hugsa þetta stemmir, nokkurn vegin við lýsingu Kiljans á Sumarhúsum hart nær 100 árum seinna. Ida nýtir tímann vel. Fyrst dvelur hún nokkra daga í Reykjavík, býr hjá Bernhöftsfólkinu. Hún skoðar sig um og undirbýr sjálft ferðalagið. Hún kaupir hesta og ræður sér leiðsögumann. Hún heimsækir Krísuvík og Þingvelli, fer þaðan til Borgarfjarðar, dvelur í Reykholti. hún fer í skoðunarferðir um hverasvæðið og skoðar Surtshelli. Snorralaug var á þessum tíma nýtt til að þvo ull, segir hún.
Síðan fer hún til baka til Suðurlands og skoðar m.a. Geysi og gengur á Heklu. Ósjálfrátt ber ég frásögu hennar af Heklugöngunni saman við mína eigin göngu á Heklu. Ég fór með félögum úr Ferðafélagi Íslands en Ida Pfeiffer fór með eigin leiðsögumanni, ríðandi á hesti, hluta ferðarinnar.Ég vorkenni hestinum.
Eftir ferðalög sín um Suðurland og gönguna á Heklu, fer Ida til baka til Reykjavíkur.
Niðurstaða
Ida hrífst af landslaginu en verður fyrir vonbrigðum með fólkið. Hún segir sjálf að hún hafi fyrirfram gert sér háar hugmyndir um bændurna, en orðið fyrir vonbrigðum. Henni fundust Íslendingar upp til hópa latir, fégráðugir erkisóðar og nefnir mörg dæmi þar um. Sér í lagi talar hún um drykkjuskap og neftóbaksnotkun. Hún viðurkennir að fólkið sé bláfátækt en finnst samt að það ætti að geta þrifið sig. En landið sjálft og sérstaklega hraunin fá háa einkunn. Ida hafði viljandi í sparnaðarskyni ekki tekið með sér tjald í ferðina og verður því að gista í kirkjum eða skemmum. Aldrei minnist hún á hvar leiðsögumaðurinn svaf.
Lokaorð
Mér fannst merkilegt að lesa þessa frásögn ókunnrar miðstéttarkonu frá Vínarborg um formæður og forfeður okkar. Það er líka merkilegt hvað er sagt og hvað er látið ósagt. Líklega hefur hún náð litlu sambandi við almenning því fáir töluðu þýsku hér um slóðir. Fyrir ferðina hafði hún að vísu lært eitthvað hrafl í dönsku. Bernhöft, hjálparhella hennar í Reykjavík, talaði þýsku. Tvisvar lýsir Ida kirkjuferð. Í annað skiptið var um að ræða vígslu þriggja presta í dómkirkjunni, í hitt skiptið var lýsing á jarðarför frá sveitakirkju. Henni fundust athafnirnar langdregnar. Auðvitað voru þær á íslensku. Ida virðist hafa verið líkamlega hraust kona og ekki virðist henni hafa orðið meint af volkinu á Íslandi. Hún deyr 1858 erftir dvöl á Madagaskar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2022 | 18:03
Þernan
Ég vissi ekki á hverju ég átti von þegar ég hóf lestur á þessari bók. Fannst eins og ég hefði áður lesið bók með sama nafni. En sú var ekki raunin. Bók Margaret Atwood heitir Saga þernunnar.
Þessi heitir bara Þernan og er afar ólík dystophiu Atwood. En höfundur þessarar bókar er Nita Prose er líka kanadísk.
Þernan
Aðalpersóna bókarinnar heitir Molly Gray. Hún hefur alist upp hjá ömmu sinni sem nú er látin. Hún er 25 ára og vinnur sem þerna á hóteli. Hún elskar vinnuna því hún hefur unun af því að þrífa og taka til. Mollý er óvenjuleg stúlka, í hennar heimi eru hlutirnir annað hvort eða. Svart eða hvítt, engin blæbrigði. Sama gildir um fólk. Meðan amma hennar lifði hjálpaði hún henni með að skilja heiminn með því að útskýra blæbrigði. Mollý er fluggáfuð en hún er á því sem við köllum einhverfuróf.
Nýlega las ég bók um svipaða stúlku í bókinni Kjörbúðarstúlkan. Sú elskaði að vinna í kjörbúð.
En aftur til Mollýjar. Hún er frábær starfsmaður en blandast ekki í hópinn. Það er meira að segja gert grín að henni. Hún er kölluð ryksuguvélmennið og þaðan af verra.
Harður heimur
Það er auðvelt að blekkja fólk eins og Mollý og hún er vísvitandi dregin inn í verknað sem varðar við lög. Hún kann ekki að verja sig. En hún á góðan að. Dyravörðurinn var vinur ömmu hennar. Hann tekur málin í sínar hendur. Allt fer vel að lokum. Ég er ekki að koma upp um neitt, því auðvitað fara flest mál vel. Ef sagan er nógu löng. Ef einhver saga endar illa er hún einfaldlega ekki nógu löng. Það má segja að það sé boðskapur bókarinnar.
Skínandi hreinlæti
Ég hafði reyndar mest gaman af bókinni meðan hún fjallaði fyrst og fremst um tiltektir og hreinlæti. Spennusagan í bókinni var ekki nærri því eins skemmtileg og einfaldleikinn við að það sé hægt að bæta heiminn með hreinlæti. Að það þurfi einfaldlega að taka til.
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Hún er oft fyndin og ég er ekki fjarri því að hún hafi haft áhrif á eigin tiltektir. Reyndar fékk ég ágætis tilsögn í heimahúsum fyrir margt löngu. Móðir mín lagði að mér að gera hluti vel. Hún sagði að það væri ekkert fljótlegra að gera hluti illa. Þessu trúi ég reyndar enn.
Lokaorð
Það er vel staðið að þessari bók. Magnea J. Matthíasdóttir hefur þýtt hana og það er Þórey Þórsdóttir sem les.
Ég hef gleymt að tala um fræðslugildi hennar. Molllý talar oft um að þernurnar séu á vissan hátt ósýnilegar og það sé bara tekið eftir því ef tiltekt vantar. Minnir aðeins á hlutverk húsmóðurinnar.
Ekki satt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar