Ida Pfeiffer : Íslandsför

 73455CA3-B122-4AAD-B131-8549EAFD3E58Ida Pfeiffer, landkönnuður. Fædd 1797 og dáin 1858

Hér á árum áður, tíðkaðist að menn legðu á sig ferðalög til að kanna ókunn lönd. Oftast voru þetta karlmenn og ekki einir á ferð. Þetta voru leiðangrar. Landkönnuðurinn Ida Pfeiffer var undantekning. Hún var kona (ekkja) sem lagðist í ferðalög þegar synir hennar tveir voru ouppkomnir. Hún ferðaðist vítt og breitt um veröldina og skrifaði bækur um ferðir sínar. Ferðabækur hennar seldust vel og fjármögnuðu ferðirnar  að einhverju leyti.  

Frásagan um Íslandsferðina hefur nú komið út í íslenskri þýðingu Guðmundar J. Guðmundssonar.

Íslandsförin

Hingað kom hún með skipi til Hafnarfjarðar 10. maí 1845. Hún hóf þegar að skoða sig um. Langaði að faðma landið, segir hún. Torfbæirnir litu út eins og grösugir hólar. Hún hrífst af  landinu en á varla orð til að lýsa sóðaskap fólksins sem býr þar. Engu að síður skoðar hún húsakostinn og lýsingar hennar á torfbæjunum eru greinargóðar. Og ég hugsa „þetta stemmir, nokkurn vegin við lýsingu Kiljans á Sumarhúsum hart nær 100 árum seinna“. Ida nýtir tímann vel. Fyrst dvelur hún nokkra daga í Reykjavík, býr hjá Bernhöftsfólkinu. Hún skoðar sig um og undirbýr sjálft ferðalagið. Hún kaupir hesta og ræður sér leiðsögumann. Hún heimsækir Krísuvík og Þingvelli, fer þaðan til Borgarfjarðar, dvelur í Reykholti. hún fer í skoðunarferðir um hverasvæðið og skoðar  Surtshelli. Snorralaug var á þessum tíma nýtt til að þvo ull, segir hún.

Síðan fer hún til baka til Suðurlands og skoðar m.a. Geysi og gengur á Heklu. Ósjálfrátt ber ég frásögu hennar af Heklugöngunni saman við mína eigin göngu á Heklu. Ég fór með félögum úr Ferðafélagi Íslands en Ida Pfeiffer fór með eigin leiðsögumanni, ríðandi á hesti, hluta ferðarinnar.Ég vorkenni hestinum.

Eftir ferðalög sín um Suðurland og gönguna á Heklu, fer Ida til baka til Reykjavíkur.

Niðurstaða

Ida hrífst af landslaginu en verður fyrir vonbrigðum með fólkið. Hún segir sjálf að hún hafi fyrirfram gert sér háar hugmyndir um bændurna, en orðið fyrir vonbrigðum. Henni fundust Íslendingar upp til hópa latir, fégráðugir  erkisóðar og nefnir mörg dæmi þar um. Sér í lagi talar hún um drykkjuskap og neftóbaksnotkun. Hún viðurkennir að fólkið sé bláfátækt en finnst samt  að það ætti að geta þrifið sig. En landið sjálft og sérstaklega hraunin fá háa einkunn. Ida hafði viljandi í sparnaðarskyni ekki tekið með sér tjald í ferðina og verður því að gista í kirkjum  eða skemmum. Aldrei minnist hún á hvar leiðsögumaðurinn svaf.

Lokaorð

Mér fannst merkilegt að lesa þessa frásögn ókunnrar miðstéttarkonu frá Vínarborg um formæður og forfeður okkar. Það er líka merkilegt hvað er sagt og hvað er látið ósagt. Líklega hefur hún náð litlu sambandi við almenning því fáir töluðu þýsku hér um slóðir. Fyrir ferðina hafði hún að vísu lært eitthvað hrafl í dönsku. Bernhöft, hjálparhella hennar í Reykjavík, talaði þýsku. Tvisvar lýsir Ida kirkjuferð.  Í annað skiptið var um að ræða vígslu þriggja presta í dómkirkjunni, í hitt skiptið var lýsing á jarðarför frá sveitakirkju. Henni fundust athafnirnar langdregnar. Auðvitað voru þær á íslensku. Ida virðist hafa verið líkamlega hraust kona og ekki virðist henni hafa orðið meint af volkinu á Íslandi.   Hún deyr 1858 erftir dvöl á Madagaskar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 187257

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband