20.10.2023 | 17:06
Um Torfhildi Hólm
Ég hef verið óvenju kvefsækin þetta sumarið. Mér finnst orðatiltækið kvefsækin ekki nógu gott, það er eins og það gefi í skyn að einstaklingurinn í, þessu tilviki ég, hafi sjálf og viljandi sótt mér þessar pestir. En svo var ekki. Þær réðust á mig.
Nóg um það. Pestir eru ekki alvondar ef þær eru í vægari kantinum. En það voru mínar. Ég gat lesið/hlustað.
Í þetta skipti varð Torfhildur Hólm fyrir valinu. Það var ekki félagsskapur af verri endanum.
Biskupar
Bækurnar sem Torfhildur er þekktust fyrir eru um biskupana Jón Arason og Brynjólf Sveinsson. Þetta eru sögulegar skáldsögur. Ég hef ekki hugmynd um hversu sannferðugar þær eru en ég trúi hverju orði. En það er einkenni góðra bóka að þær eru samfærandi. Biskupar þessa tíma voru voldugir enda var staða kirkjunnar þá önnur en nú.
Um Torfhildi
Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm var prestsdóttir, fædd á Kálfafellsstað í Skaptafellssýslu 1845. Að henni liggja stórar ættir. Það skýrir að einhverju leyti framgang hennar í lífinu. Grunnurinn var lagður heima á Kálfafellsstað. En 17 ára var hún send til Reykjavíkur til að læra hannyrðir og ensku. Hún fór einnig til Kaupmannahafnar. Hún giftist Jakobi Hólm verslunarstjóra á Hólanesi (nú Skagaströnd) en hann dó ári síðar. Þá fór hún til frænku sinnar og fluttist síðan til Vesturheims og þar hófst rithöfundarferill hennar þegar hún skrifaði þar í blöð.
Til baka á Íslandi
Torfhildur Hólm flutti til baka til Íslands og hélt skrifum sínum áfram. En ekki bara það, hún gaf einnig út tímarit, bæði Dvöl og Draupni. Hún var fyrst manna til að fá laun frá Alþingi.
Tímaritið Dvöl var til heima hjá mér, pabbi hafði bundið það inn. Þetta var fyrsta tímaritið sem ég las og mér þótti mikið til þess koma. Mér er sérstaklega minnisstæð umræða um miðilsfundi.
Af hverju hvarf hún?
Það hefur ekki farið mikið fyrir Torfhildi í gegnum árin. Ég man ekki til þess að hún hafi komist á blað yfir listamenn sem okkur var sett fyrir að lesa eða að um hana væri rætt. Þó voru bækur hennar til á mínu heimili. Þykkar, með smáu letri og óárennilegar. Ég man að ég hugsaði Þær passa við nafnið. Sveitabarnið, ég, þekkti vel til torfs í margvíslegum myndum. Nú finnast mér þær vera ljúfir rómanar. Ég held núna að ástæðan fyrir því að þær rykféllu, sé að að þær féllu ekki að tíðarandanum. Þær fjalla um trú og siðgæði með rómantísku ívafi, en ekki um frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar sem var þeirra tíma mál málanna.
Lokaorð
Torfhildur var gáfuð kona af góðum ættum. Ef hún hefði verið karlamaður hefði hún líklega orðið biskup. Á þessu græðum við, sem lesum/hlustum á bækurnar hennar.
Torfhildur lést 1918 í spönsku veikinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2023 | 16:01
Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
Þetta er önnur bókin sem ég hef lesið eftir Andrej Kurkov, sú fyrri var Dauðinn og mörgæsin. Báðar bækurnar eru þýddar af Áslaugu Agnarsdóttur. Þetta eru dásamlegar bækur, einkennast af öllu því sem einkennir góða bók. Þær eru skemmtilegar, spennandi og innihaldsríkar og fjalla um mann og náttúru.
En hér ætla ég að tala um síðari bókina, Gráu býflugurnar.
Bókin gerist í Úkraníu og segir frá býflugnabóndanum Sergej, sem var áður öryggisvörður í kolanámum. Hann býr í úkaranísku sveitaþorpi sem allir hafa yfirgefið, nema hann og jafnaldri hans sem var þó engan veginn vinur eða kunningi þótt þeir væru bara tveir strákar í árgangi.Sergej var einu sinni giftur og á dóttur en konan fór frá honum. Nú snýst líf hans um býflugurnar og hunangið sem hann selur eða notar í vöruskiptum. Þær suða stöðugt og í fjarska suðar stríðið.
Það er dálítið einmanalegt að búa í yfirgefnu þorpi, svo hann freistast til að leggja upp í ferðalag, langar til að heilsa upp á gamlan kunningja sem hann hafði hitt á ráðstefnu býflugnabænda fyrir löngu.
Bókin fjallar um þetta
ferðalag.
Það eru ekki margir á ferðinni. Hann hefur tekið býflugurnar með sér, því hann er ábyrgur maður og hugsar að þetta sé í rauninni það eina sem hann beri ábyrgð á, þær eigi allt undir honum komið. Hann hefur líka tekið með sér nauðsynlega pappíra. Sem betur fer.Því að þótt stjórnun landsins sé í molum vantar ekki skrifræðið.
Líf og stríð
Sagan segir frá fólkinu sem hann hittir á þessu ferðalagi. Það er friðsamt og hjálpsamt og tekur honum vel. Næstum undantekningarlaust. Hann eignast vinkonu sem vill helst fá hann fyrir mann en hann veit að þeim tíma í ævi hans er lokið.
Hann heldur ferðaalagi sínu áfram til kollega síns, býflugnabóndans á Krímskaga.
Tatarar
Þar hittir hann einungis fyrir konu hans og uppkomin börn. Heimilisfaðirinn er þar ekki lengur, hann er á lista yfir menn sem er saknað.Sergej býðst til að skoða málið betur og kemst að því að stríð er ekki bara stríð, heldur líka skriffinnska. Og þar sitja ekki allir við sama borð. En þar sem hann talar rússnesku og er ekki tatari getur hann ýtt við kerfinu. Lík vinar hans er sent heim og hann fær að fylgja honum til grafar.
Hér ætla ég að láta staðarnumið í frásögninni um gráu býflugurnar.
Úkranía, þetta stóra og frjósama land, hefur þurft að þola margt í gegnum árin og aldirnar. Mig hefur lengi langað til að ferðast þangað.
En nú þegar ég hugsa þangað, koma upp í hugann húsarústir og fólk á flótta. Já og karlar í skotgröfum.
Ég á auðvelt með að sjá fyrir mér yfirgefin þorp og húsarústir. En til baka til Sergej. Eftir ferðalagið með býkúpurnar, fór hann heim í yfirgefna þorpið sitt með býkúpurnar sínar, allar nema eina, þá sem fulltrúar skriffinnskunnar höfðu handleikið.
Og enn suðar þetta stríð. Þetta vitum við þótt í augnablikinu heyrist meira frá öðru stríði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2023 | 18:35
Tugthúsið
Fátt er svo með öllu illt að .
Ég varð mér úti um leiðindapest á ferðalagi mínu um Skotland. Kvef, flensu, kóvít, eða eitthvað þaðan af verra. Ég var ekki sárþjáð en nóg samt til að ég varð að hafa hægt um mig, lá fyrir og las/hlustaði.
Ein bókanna sem ég las var Tugthúsið, söguleg skáldsaga eftir Hauk Má Helgason.
Tugthúsið var byggt á árunum 1761 til 1771. Það var svar Dana við ósk Íslendinga um að fá að hengja afbrotamenn í stað þess að kosta þá út til Danmerkur til að refsa þeim.
Það erfiðast að breyta hugarfari
Þetta voru umbrotatímar, upplýsingastefnan vildi láta betra afbrotamenn í stað þess að refsa þeim. En orð og gjörðir ganga ekki alltaf í takt og þannig var því farið um framkvæmd þessara umbóta. Orðatiltækið það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja kom ekki til af engu. Fyrst þurftu fangarnir að bera grjótið í bygginguna, síðar, þegar hún var fullbyggð, voru þeir leigðir út til að afla tekna til að reka stofnunina.Hún átti helst að vera sjálfbær. Fangarnir voru beittir miklu harðræði. En verst var hungrið.
Húsið
Miðað við íslenskar aðstæður þá var þetta fyrirmyndarhús og föngunum hefði getað liðið vel og jafnvel betrast . En annað var uppi á teningnum. Þeir sultu og þeim var þrælað út og þeir voru beittir ofbeldi. Þeir hrundu niður.
Þessu lýsir Haukur Már öllu. Hann nefnir nöfn fanga og segir frá bakgrunni þeirra. Þetta er erfið og átakanleg lesning. Eins og að lesa um Auschwits .
Ég hafði tvisvar áður hafið lestur á bókinni en gefist upp.
Í þriðja skipti tókst lesturinn.
Lokaorð
Þetta er efnismikil og fræðandi bók. Nú velti ég fyrir mér, hvort við getum lært eitthvað af henni. Ég veit ekki betur en að enn séu uppi hugmyndir um að fangelsun eigi að betra fólk. En gera þau það?Ég veit það ekki. En það sem við höfum þó lært er að fyrirbyggjandi vinna er best og skilar mestum árangri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2023 | 17:32
Það er svo gaman að vera vondur
Það er svo gaman að vera vondur sagði Láki jarðálfur, Þegar hann var búinn að fremja öll þau bellibrögð sem hann kunni í sögunni um jarðálfinn Láka,sem allir elska. Mér varð hugsað til Láka þegar ég var að hlusta á spjall, stjórnmálatríóið Jón, Bjarna og Guðrúnu Hafsteinsdóttur í tilefnis þess að hún var að taka við embætti utanríkisráðherra. Umræðan snerist strax að flóttamönnum. Þeir eru svo mikið vandamál fyrir okkur Íslendinga. Það er svo dýrt að taka á móti þeim og halda þeim uppi. Skildist mér. Það var nefnd tala. Skyldi einhver hafa reiknað út hvað við höfum grætt á flóttamönnum í gegnum árin? Og ekki örlaði á samúð með fólkinu sem hefur fundið sig tilknúið að flýja heimkynni sín. Nei þau hljómuðu öll eins og Láki það er svo gaman að vera vondur.
Önnur saga
Við erum rík þjóð, við erum aflögufær. Það fylgir því mikil gleði.Þegar þjóðir eða einstaklingar eru komnir í þá stöðu að vera aflögufær geta þau leyft sér að hugsa með hjartanu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2023 | 14:09
Ferð til Skotlands og Orkneyja
Það hefur orðið nokkur dráttur á því að ég skrifi blogg, ég veit ekki hversvegna. En það gerir mér gott að skrifa, og einstaka les þetta.En nú hef ég þó frá einhverju að segja.
Ég hef verið á ferðalagi um Skotland
og Orkneyjar, verið á slóðum Auðar djúpúðgu.
Ferðin hófst, ef svo mætti segja á Flugvellinum í Glasgow en þar tók á móti okkur rúta og þrír fararstjórar. Síðan var ekið norður Skotland.
Skotland er fallegt, meira að segja út um bílglugga. Þar skiptast á vötn, skógar, dalir og fjöll. Landið á sér merka sögu, Snorri fararstjóri okkar fræddi okkur um hana á leiðinni norður. Saga norrænna manna er aðeins hluti af henni. Þá sögu er m.a. að finna í Orkneyingasögu, sem ég hef enn ekki lesið til fulls. Lokakaflinn í Njálu gerist einnig þar, því þangað fer Kári eftir brennuna. Við skoðuðum hrundar hallir og eina fallega höll sem er til sýnis fyrir ferðamenn. Auk þess fengum við að sjá eitt almúga- hús, tilgátuhús, sem var gert eftir hugmyndum um húskost fyrri tíma. Mér fannst það minna um margt á okkar eigin torfbæi. Miðað við húsakostinn gæti ég hugsað mér að höfðingjarnir þar um slóðir hafi verið ríkari og fátæklingarnir enn fátækari en hér gerðist. Mér fannst hallir og hallarrústir bera þess vott.
Orkneyjar
Orkneyjarferjan skilaði okkur út í Orkneyjar eins og til stóð. Sú sigling minnti mig á Akraborgina fyrrum, sem ég sigldi oft með til að stytta mér akstur, þegar ég bjó í Borgarnesi.
Orkneyjar gætu alveg eins heitið Flatey, því hún rís ekki hátt úr sjó. Hún er skóglaus og því afar ólík hinu græna Skotlandi. Við fengum leiðsögn um hana og skoðuðum m.a. uppréttar steinhellur. Þessar minjar minntu mig á minjar
sem ég skoðaði eitt sinn í Svíþjóð, Aalisstenar. Þarna var líka að finna enn eldri minjar. Þ.e.a.s. frá steinöld. Mér þóttu þær ekki síður áhugaverðar. Merkilegast fannst mér þó að skoða Magnúsarkirkjuna í Kirkwall. Þetta er heljarinnar mannvirki. Bygging hennar hófst 1137. Hún var reist til minningar un Magnús Jarl Erlendsson, sem er nú helgur maður með yfirlýsingu frá páfa.
Hvenær lýkur ferð?
Við lok ferðar tókst mér að verða mér út um slæma kvefpest eða flensu. Þurfti því að hafa hægt um mig, þvert á vilja minn. Því á ferðalögum verður ævinlega til langur listi um það sem ég ætla að gera þegar ég kem heim. Þetta varð til þess að ég vann óvenju vel úr ferðalaginu. Fann mér bækur sem ég hlustaði á. Það sem mér fannst nýtast mér best, var bók um Orkneyjaferð, Í kjölfar jarla og víkinga eftir Þorgrím Gestsson. Skemmtileg bók.
Lokaorð
Nú er sú bók búin og pestin á förum. Eftir sit ég og rifja upp ferðalagið og kemst að því, að slíka ferð gæti ég vel hugsað mér að fara aftur. Þá myndi ég skoða betur búskaparhætti og þá sérstaklega dýrin, sem ég sá aðeins tilsýndar í þessari ferð. Og gefa mér tíma til að fara í söfn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2023 | 14:41
Ef
Ef pabbi hefði ekki farið suður á þing Framsóknarflokksins hefði ég líklega aldrei lært að hjóla. En það hefur verið mér dýrmæt kunnátta, bæði hér heima og erlendis. Hann keypti líka handa okkur spjald með mynd af Alþingishúsinu sem var hægt að klippa út (svona eins og dúkkulísur) og setja saman.Þetta var sem sagt föndur. Líklega það fyrsta á ævi minni. Þess vegna hef ég alla tíð haft miklar mætur á þessu húsi, sérstaklega garðskálanum, sem var erfiðasta föndur verkefnisins. Pabbi sagði sig úr Framsóknarflokknum. Sem er önnur saga.
Hjólið var stórt svart karlmannshjól svo við börnin þurftum að hjóla undir stöng en það kom ekki að sök, þetta var spennandi.
Ástæðan fyrir því að faðir minn sagði skilið við Framsókn var afstaða flokksins til hersetu Bandaríkjaanna. Hann var friðarsinni og vildi að landið væri hlutlaust.
Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp er afstaða eða afstöðuleysi Vinstri grænna til hernaðar, þegar þeim finnst sjálfsagt og eðlilegt að kjarnorkuknúin herskip sveimi að vild herraþjóðarinnar innan sem utan lögsögu Íslands.
Lokaorð
Ég veit mætavel að við búum í hörðum heimi en hvað er til ráða. Er virkilega engin önnur leið fyrir sjálfstæð og fullvalda ríki en að skríða undir væng ránfuglsins, voldugasta hernaðarríkis okkar tíma? Hvað um sjálfstæðið? Ég veit ekki. Það kann að sýnast gamaldags hugsunarháttur að finnast eitthvað athugavert við það. En í hjarta mínu finn ég að ég vildi helst af öllu tilheyra hlutlausri fullvalda þjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2023 | 13:56
Bauka Jon
Það var tilviljun sem réði því, að ég rakst á bókina Bauka-Jón eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing. Ég var að vafra um á vef Hljóðbókasafnsins, skoðandi allt og ekkert. Þegar ég rakst á bókina, ákvað ég með sjálfri mér að þetta væri einmitt bók fyrir mig.
Ég er ein af fjölmörgum sem oft hafði talmarkaðan tíma til að lesa og grúska, en huggaði mig alltaf við, að ég gæti bætt mér þetta upp síðar, þegar ég kæmist á eftirlaun. Þetta var náttúrlega hroki og heimska. Enginn kýs sér örlög.
Höggið
Þegar ég, var um sjötugt þurfti ég að endurnýja ökuskírteinið mitt og fór ég til augnlæknis til að fá vottorð. Þá kom í ljós að ég var orðin alvarlega sjónskert. Minn góði læknir, sagði mér þetta, þegar hann var búinn að skoða sjónina hjá mér. Þú ert komin með alvarlegan augnsjúkdóm, sagði hann. Hann skrifaði ekki bara vottorðið vegna ökuskírteinsins,sem ég fékk. Hann sendi líka vottorð til Hljóðbókasafnsins og pantaði tíma hjá Augndeild Landspítalans. Síðan þá hef ég hlustað á bækur í stað þess að lesa.
Þetta var óþarfur inngangur en stundum er erfitt að koma sér að efninu.
Ég ætla að snúa mér að því að tala um Bauka-Jón.
Bauka-Jón.
Hver var hann?
Bauka-Jón hét í rauninni Jón Vigfússon. Hann var fæddur 1643 og dó 1690. Hann var biskup á Hólum frá 1684 til dauðadags 1690. En Bauka Jóns viðurnefnið vísar til tímans áður en hann varð biskup.
Það sem varðveitist um fólk frá þessum tíma er fyrst og fremst tvennt, það er embættisfærslur og dómsskjöl ef menn brjóta eitthvað af sér. Jón gerði hvort tveggja. Braut af sér og fékk embætti. En fyrst um drenginn Jón.
Jón var sýslumannssonur, fæddur og uppalinn á Stórólfshvoli. Hann tók stúdentspróf tvítugur og útskrifast úr háskólanum í Kaupmannahöfn 23 ára. Að því loknu snýr hann til baka til Íslands. Hann biður sér konu, Guðríðar Þórðardóttur frá Hítardal og fær hennar. Hann verður sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu og hefur búskap. Fyrst í Hjörsey svo á Leirá. Honum búnaðist vel. En til að gera langa sögu stutta er ekki hægt að segja það sama um embættisfærslur hans, því hann var kærður og dæmdur fyrir fyrir ólöglega verslun við erlend skip. Þetta var öfugsnúið því hann átti sjálfur að vakta þau til að hindra ólöglega verslun við skipakomur. Eftir dóm alþingis
fór hann utan til Kaupmannahafnar með digran sjóð til að rétta hlut sinn. Það gekk allt að óskum, hann fékk ekki bara embættið til baka heldur líka Magistersgráðu og vonarbréf upp á að verða næsti biskup á Hólum. Og það varð hann. Prestastéttin tók því ekki fagnandi því hann hafði enga guðfræðimenntun.
Hann lést á Hólum 1690.
Þetta er skrítin saga sem bregður upp mynd af spillingu fyrr á tímum. Og vonandi var það bara þá. Ekki nú. En þó grunar mann að enn geti það komið sér vel að eiga góða að og digra sjóði.
Þetta var skemmtileg lítil bók um íslenskan athafnamann fyrri tíma. Jón Vigfússon og kona hans Guðríður Þórðardóttir frá Hítardal eignuðust mörg börn og frá þeim er kominn stór ættleggur.
Viðurnefnið, Bauka, vísar til umbúða fyrir tóbak á þessum tímum.
Bókin um Bauka Jón kom út árið 2008.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2023 | 18:49
Kákasusgerillinn
Kákasusgerillinn er fjórða bókin sem ég les eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Mér finnst hann slá nýjan og sérstakan tón í bókum sínum. Það gerir hann með því að lýsa samtímanum á raunsæjan máta. Hér og nú.
Kákasusgerillinn segir frá fjölskyldum Eiríks og Báru. Þetta virðast vera ósköp venjulegar fjölskyldur sem hugsa vel um börnin sín. Eiríkur elst upp hjá einstæðri móður. Hann veit lítið sem ekkert um föður sinn, nema að hann er útlendur og heitir Mendez. Hann veltir þessu lítið fyrir sér en finnst að það hefði verið betra ef hann hefði heitið venjulegu nafni eins og til dæmis Magnús. Hann langar ekki til að skera sig úr. Þegar hann er fimm ára eignast hann litla systur, sem honum þykir afar vænt um. Það er pabbi hennar sem gefur honum myndavél. Það gerist eftir að mamman hafði lengi nöldrað í honum að sinna föðurhlutverkinu betur. Þessi myndavél á eftir að valda straumhvörfum í lífi hans.
Fjölskylda Báru hugsar einnig vel um hana, ber hana á höndum sér. Afi hennar sinnir henni líka, fer með hana í sund. Henni finnst gaman að horfa á beru karlana í sturtunni. Henni líður vel með fjölskyldu sinni,finnst best að læra í eldhúsinu. Hún er hugfangin af efnum, sér í lagi þeim sem fólk lætur ofan í sig til að breyta líðan sinni. Hún á auðvelt með nám og við lok 7. bekkjar fær hún verðlaun fyrir góðan námsárangur. Þegar hún stendur uppi á sviðinu og tekur við verðlaununum finnur hún til tómleikatilfinningar. Eftir það fer allt að breytast. Henni gengur þó enn vel í náminu. Velur íslensku sem aðalgrein í Háskólanum og heldur úti hlaðvarpi.
Það var út af hlaðvarpi sem Bára rekst á móður Eiríks. Hún er enn að velta fyrir sér efnum sem fólk lætur ofan í sig. Man eftir gömlu viðtali við hana þar sem hún lýsir gerlinum og langar til að segja frá honum í hlaðvarpinu sínu.
Mér finnst þó sem lesanda að henni hefði átt að ganga enn betur í náminu. Líklega hafa foreldrarnir hugsað það sama.
Úr hugarheimi
Það sem gerir þessa bók svo sérstaka er ekki líf Báru og Eiríks, heldur hversu vel höfundi tekst að lýsa því sem gerist í hugarheimi þeirra. Hann er hér að lýsa nýrri kynslóð. Kynslóð sem ég ætti að þekkja í gegnum barnabörnin mín. En ég veit lítið um þennan hættulega heim. Hann virðist vera lúmskur og líklega hættulegur.
Lokaorð
Höfundur lýsir þessum heimi sem ég veit lítið um. Er erfiðara að vera ungur í dag en þegar ég var ung og lífsbaráttan var eða virtist vera erfiðari?
Nú einkennist líf ungs fólks af því að þau standa frammi fyrir endalausu vali. Já kröfum, Bára hatar töluna tíu, það einkunnin sem allir ætlast til að hún fái.
Kákasusgerillinn eins og ég þekkiti hann
Ég get ekki skilið við Kákasus gerilinn án þess að rifja upp hvernig ég minnist hans. Móðir mín átti einn slíkan. Hann var geymdur í sprunginni og spengdri leirkrús í eldhússkápnum. Hver sem var gat fengið sér súrinn og bætt mjólk við í staðinn. Mér fannst hann betri en skyr. Ég man sérstaklega eftir því þegar nágrannakona okkar, Guðlaug Pálsdóttir, kom í heimsókn. Hún var veik í maga og gat ekki borðað hvað sem var. Mamma dró fram krukkuna með gerlinum. Guðlaug vildi prófa hvort hann væri góður fyrir sig og bað mig að ná í grænmeti til að nota með honum. Þetta var áður en fólk fór almennt að rækta grænmeti. Guðlaug sagði að arfi færi vel í maga. Ég var send út til að ná í arfa. Þetta borðaði hún svo með bestu lyst. Ég smakkaði á þessu líka og fannst það ágætt.
Til baka í bókina og nútímann
Ég mæli eindregið með þessari bók. Hún bregður upp mynd af samtímanum, lífi ungs fólks. Sjálfsmyndin er að verða til, ábyrgðin er að færast frá foreldrum til barnsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2023 | 20:12
Auður Ava Ólafsdóttir: Eden
Ég hef ákveðið það með sjálfri mér, að hugsa og tala um bækur eins og þær séu fólk, lofa þær ekki né lasta , hvað þá afgreiða þær með innihaldslausum stigbeygðum lýsingarorðum. Ég hugsaði um þetta meðan ég var að lesa Eden, bók Auðar Övu. Hún yljaði mér um hjartaræturnar og fann að frumurnar í heilaberkinum stungu sér kollhnís.
Sagan er um konu í sem er hálærð í málvísindum. Hún hefur sótt fyrirlestra og ráðstefnur víðsvegar í heiminum um tungumál í útrýmingarhættu. Hún kennir við Háskólann en hefur misstigið sig á framabrautinni. Átti í of nánu sambandi við nemanda sinn. Á leiðinni heim eftir ráðstefnu um tunguál í útrýmingarhættu opnast henni ný sýn á heiminn og á lífið. Það sem hún sjái jörðina frá geimnum og hún sér hvernig allt tengist. Fyrir tilviljun sér auglýsingu um land og hús til sölu. Hún tekur eftir auglýsingunni af því í henni eru þrjár stafsetningavillur.
Hún þekkir til eigandans, glæpasagnadrottningarinnar, af því hún hefur lesið yfir bækurnar hennar fyrir forlagið sem hún vinnur fyrir. Þarna kemur fram þetta séríslenska fyrirbæri, allt spyrst út og allir þekkja til allra.
Í framhaldi af þessu segir hún upp stöðu sinni í Háskólanum og hefst handa við að gera við húsið og rækta upp þetta hrjóstruguga land sem hún er eigandi að. Það er eins og hún hugi ekki Þetta bara gerist bara.
Þessi litla saga segir frá svo mörgu.
Við fáum að kynnast fjölskyldu hennar, móður sem er dáin og föður sem er lifandi og nágranna hans Hlyn. Hún kynnist fólkinu í nálægu þorpi og fær hlutverk við að kenna innflytjendum. Píparaarnir sem gera við lögnina hjá henni er líka útlendingar í leit að betra lífi.
Það er þó ekki þessi litla hetjusaga sem gerir þessa bók dásamlega, það er hvernig hún leikur sér með tungumálið, með orðin. Það er eins og merking fyrstu málsgreinar Jóhannesarguðspjalls,í upphafi var orðið, ljúkist upp fyrir mér.
Það er furðulegt hvað rúmast í þessari litlu bók. Hún er aðeins 226 bls. og tekur 4.kls. og 43 mínútur í hlustun.
Bókin er eins og ljóð, það má lesa hana oft. Ég hef þegar lesið/hlustað á hana tvisvar.
Það er eins og að vinna stóra vinninginn í happdrætti lífsins að lesa slíka bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2023 | 18:27
Hamingja þessa heims
Hamingja þessa heims: Riddarasaga
Ég las/hlustaði á þessa bók full tilhlökkunar. Minnug síðustu Sigríðar Hagalín, Eldarnir, vissi ég að Sigríður hefur mátt til þess að flytja lesendur milli heima. Reyndar alls ekki til betri heima .
Ekki skaðaði að heimur/heimar þessarar bókar eru tveir. Annars vegar sá sem við þekkjum hér og nú, hins vegar heimur 15. aldar. Sá síðari passaði mér vel, því það er öldin sem tekur nokkurn veginn við af Sturlungu. En Sturlunga er og hefur verið mér, nú um nokkurt skeið, bók bókanna.
Hamingja þessa heims fjallar annars vegar um sagnfræðiprófessor á miðjum aldri, sem hefur enn ekki tekið mark á þeim veruleika, að konur og karlar eru jafngildar persónur. Það er sem sagt mælst til þess að hann taki sér tímabundið leyfi frá störfum og honum er jafnframt útvegað verkefni. Það er að vinna að undirbúa stofnum fræðaseturs í Dalasýslu.Fyrir tilviljun finnur hann gamalt handrit,
skrifað af manni, Sveini Þórðarsyni, sem tengdist hefðarfólki síns tíma, Vatnsfirðingum og Skarðsverjum. Hans saga hefst á Reynistað í Skagafirði, þar ólst hann upp hjá nunnunum eftir að hafa misst foreldra sína og systur í drepsótt. Bók Sigríðar er að vissu leyti byggð upp eins og sagnfræðibók. Henni fylgir ættartré Skarðsverja og Vatnsfirðinga. Eins og ég áður sagði, gerist sagan á tveim tímaplönum, í nútímanum og á 15. öld, öldinni sem svo lítið hefur verið skrifað um. Ekki vegna þess að fátt var frásagnarvert, kannski af því að það var svo mikið um að vera. Ég skoða mér til skemmtunar það sem mér var kennt í barnaskóla. Ég er svo heppin að eiga Íslandssögu Jónasar Jónsonar annað bindi. Það er sagt nokkuð ítarlega frá einmitt því sem Hamingja þessa heims fjallar um, þ.e. átökum 15. aldar. Sigríður dregur þó mun meira fram áhrif kvenna á söguna.
Mikið fæst ekki fyrir lítið
Það var talsvert verk að lesa þessa bók, e.t.v. má segja að hún sé tyrfin. Sigríður leitast við að nota málfar þessa tíma með tilheyrandi titlatogi og vísana til heilagrar Maríu og sonar hennar.Það var á vissan hátt þreytandi en sýnir vel tíðarandann. Ég þykist vita að það verði framhald.
Það var ekki vanþörf á fræðslu um fimmtándu öldina. Lesturinn ýtti af stað upprifjunum, hvað veit ég eiginlega um þennan tíma? Mér varð hugsað til hinnar vanmetnu Torfhildar Hólm, sem, ég las ekki fyrr en ég var komin á efri ár. Ég rifjaði einnig upp það sem ég hef lesið af bókum
Jan Guillou. Hann hefur skrifað skáldsögur um þessa tíma og um krossferðir.
Lokaorð
Ég veit ekki hvort það sé til þess ætlast af höfundi að lesandinn álykti eittvað um tímana tvo, nú og þá í þessari bók. En ég geri það alla vega. Okkur hefur farið fram. Það er meiri jöfnuður og friður nú en þá. Ég er auðvitað bara að tala um Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 189263
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar