Ljósgildran: Guðni Elísson

170C723B-062F-4BC6-B691-8DB8659A03C1
Ljósgildran

Jæja.

Loksins hef ég lokið við að lesa/hlusta á Ljósgildruna eftir Guðna Elísson prófessor Það tók u.þ.b. 30 klukkustundir í upplestri og það var Margrét Örnólfsdóttir sem las. Hún er öruggur lesari sem kemur innihaldi bóka  og blæbrigðum vel til skila.

En ég er ekki bara búin að hlusta, ég hef endurhlustað og glöggvað mig á mörgum köflum bókanna, því þetta eru tvær bækur. Það er erfiðara að glöggva sig á hljóðbókum en bókum á pappír. Það er ekki hægt að blaða og fletta, hvað þá setja gula miða eða undirstrika.

Fyrstu viðbrögð

Ég hef aldrei lesið neitt eftir þennan höfund enda er þetta hans fyrsta bók. Ég var því forvitin um hvað biði mín.  Ég hafði ekki lesið langt þegar ég hugsaði:“Þessi maður kann að skrifa, íslenskan hans er  hrein og tær“. Það er ekkert sjálfsagt að prófessor í íslenskum skóla  skrifi gott mál. Margir vel menntaðir menn eru hallir undir enskuna án þess að vita af því. Guðni skrifar ekki bara góðan texta, margar setningar eru svo góðar að mann langar til að kunna þær og geta vitnað í þær.

Um hvað er þessi bók?

Þetta er bók um íslenskan veruleika eins og hann blasir við á árunum eftir hrun á tímum kóvít.

Þræðir sögunnar eru nokkrir. Skáldin tvö HMS Hermann og Jakob eru uppstaða þessarar bókar.  Þeir verða hvor um sig kandídatar ólíkra stjórnmálaafla án þess að bera sig eftir því. Hermann er bjartasta von forsetans,  Sjálfstæðisflokkurinn veðjar á Jakob en flokkurinn hefur ákveðið að bregða út af vana sínum. Hætta að veðja einungis á dráttarhesta atvinnu- og fjármála og koma sér upp listamanni. Þeir hafa stofnað til eigin verðlauna. Forsetinn vill vekja áhuga á sjálfum sér  sem manninum sem manni menninga og lista og plottar stuðning við Hermann. Kapítóla forsetafrú er ósammála manni sínum. Ívaf sögunnar er fjölbreytt og litríkt.

 Hans Húbert formaður í loftslagsfélaginu Kaldrana bætir enn við breidd sögunnar. Það  berst fyrir því að leiðrétta hugmyndir fræðimanna um hlýnun jarðar og sýna fram á hið gagnstæða. Pollýanna mætir óvænt á fund með afa sínum og styður málflutninginn. Ég átti svolítið bágt með að sætta mig við hlutverkið sem uppáhaldinu mínu, hinni ríflega 100 ára gömlu Pollýönnu,  var úthlutað. Hvað hefur orðið um rótæknina og gleðina  og hver er þessi afi hennar? Hún sem átti engan afa.

Nú er ég dottin í gryfju sem erfitt er að komast upp úr, það er ógjörlegt að endursegja efni bókarinnar. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast á Valhallarkaflann. Hann er stórkostlegur í heild sinni. Reyndar var það einmitt í þeim kafla sem ég var að hugsa um að hætta lestri.

Það skemmtilega við Ljósgildruna er að flestir sem þar koma við sögu, eiga sér raunverulegar fyrirmyndir. Eða gætu átt sér. Er t.d. forsætisráðherrann Bjarni eða Geir? Eða er forsetinn Guðni eða Ólafur Ragnar? Og Hermann? Er þetta nokkuð Hermann vinur minn? Þarna í Valhallarkaflanum leið ég fyrir það að ég er svo vel upp alin.Mér,okkur var uppálagt að tala ekki illa eða niðrandi um annað fólk og alls ekki tala um lýti þess eða kalla það ónöfnum. Takk pabbi og mamma. Ég hef ekki breytt um skoðun. Þessi kafli var bara einhvers konar bókmenntalegt forarfen sem ég þurfti að svamla vegna bókmenntanna sem mig langar svo til að skilja.

Kaflinn um náðhúsið á Stöng sem höfundur hefur komið fyrir á efstu hæðinni í Valhöll er meistaraverk. Svo ég tali ekki um hugleiðingar hvernig hugleiðingar skáldsins um hvernig slíkt náðhús gæti auðgað flokkstarfið og stuðlað að betri liðsheild. Þarna eru tvisvar sinnum 11 setur hlið við hlið. Passlegt fyrir þingflokksfundi.

Það er þarna sem rithöfundurinn Hermann  hittir púkann á fjósbitanum.

Gangtegundir

Það er ógjörningur að lýsa þessari sögu svo vel sé. Mér dettur í hug  að það mætti líkja höfundi við hest sem kann margar gangtegundir. Kaflarnir um Jakob væri þá mjúkt  skeið, kaflinn um forsetann væri tölt en í Valhallarkaflanum brokkar fákurinn og hleypur út undan sér, eys og prjónar.

Tilvitnanir

Þessi bók er full af tilvitnunum í gömul skáld og ný. Sum þekki ég önnur ekki. Mér finnst gaman þegar ég þekki til skáldanna og pirrast ekki þegar ég þekki ekki til þeirra. Hugsaði hlýlega til skáldanna „kannski les ég þig seinna“.

Framtíðin

Það er lítil framtíð í þessari bók, þetta er bók sem verður að lesa núna. Hún er um okkur. Höfundurinn verður heldur ekki frægur í útlöndum, því bókin er fyrst og fremst fyrir Íslendinga, það er svo gaman spá í hver er hver . Og þó, Söguramminn er svo góður að það mætti ef til vill selja hann einan og sér.

Lokaorð

Ég er á móti því að flokka bækur. Hver bók er eins og manneskja, alveg sérstök. En ef ég myndi nú flokka bækur (sem ég geri ekki) myndi ég setja þessa bók  í flokk með Eyrbyggju, Karamazov bræðurna og Sturlungu, bækur sem ég les reglulega.´´

Eftirþanki

Ég nenni ekki að tala um kynjahallann. Ég er ekki viss um að mig langi í viðlíka bók um konur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eitt það skemmtilegasta við þessa bók er hvernig höfundur notar stílinn til að vísa í hina og þessa höfunda. 

Þorsteinn Siglaugsson, 7.4.2022 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 187450

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband