Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu: Olga Tokarczuk

7C6AF791-2F9B-458E-95C0-545877A3EFD6Bein hinna dauðu

Í bókinni, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu eftir Olgu Tokarczuk, fær lesandinn að kynnast aldraðri og veikri konu, Janinu sem býr í afskekktu sumarhúsaþorpi í Póllandi. Hún lítur eftir húsum nokkurra kunningja sinna sem eiga þarna hús líka. Reyndar finnst mér dálítið erfitt að átta mig á henni. Ég veit ekki einu sinni hversu gömul hún er. En skiptir það máli?  Auk þess að líta eftir húsunum, vinnur hún að því í samvinnu við vin sinn og fyrrum nemanda að þýða verk Williams Blake á pólsku.

Árátta eða tæki til að skilja heiminn?

Þetta er sérstök kona. Hún trúir á stjörnuspár. Líf mannanna í heiminum stýrist af gangi himintunglanna. Já, ekki bara líf mannanna, heldur allt það sem gerist í heiminum. Og Janina kann að gera stjörnuspár, með því að draga upp kort af gangi stjarnanna. Hún veit hvenær hún á að deyja. En það er ekki bara þetta sem er sérstakt við hana, hún hefur mikla ást á dýrum. Öllum dýrum. Og hún trúir því að öll líf, líf manna og dýra, séu jafn verðmæt.

Á gönguferðum sínum hefur hún fylgst með dýrunum í nágrenni þorpsins og hún veit að það eru stundaðar ólögmætar  veiðar á villtum dýrum. Hún hefur sent inn kærur til yfirvalda þar að lútandi. Tíkurnar hennar, sem hún kallar stelpurnar sínar, hafa horfið.

Að vetrarlagi er bara búið í þremur húsum í þessu þorpi. Þegar nágranni hennar bakar uppá hjá henni að næturlagi og segir henni að nágranni þeirra sé dáinn má segja að þá hefjist nýr kafli í þessari sögu. Það týnast fleiri menn. Sagan breytist að einhverju leyti í glæpasögu.

Gamla konan, aðalpersóna sögunnar, er reyndar ekki svo upptekin af þessum mannslátum. Hún sér engan mun á því að einn og einn maður hverfi og á því að það fækki í rádýrahjörðinni sem kom frá Slóvakíu.  Og svo stendur þetta allt saman skrifað í stjörnurnar.

Er þetta ekki bara klikkuð kerling?

Hvað er það þá sem er svo merkilegt við þessa kerlingu? Er hún ekki bara klikkuð eins og yfir völd segja um hana, ekki við hana, þegar hún skrifar þeim kvörtunarbréf. Kannski er hún það en málefnin sem hún trúir á og vill fá umfjöllun um eru merkileg og hennar tími og okkar tími kallar á umfjöllun um þau. Hvað er brýnna í nútímanum en að fjalla um og skilja náttúruna allt í kringum okkur. Og þá sér í lagi að skilja samskipti manns og náttúru?

Og hitt málefnið, sem hún er svo upptekin af, trúir á, þ.e.a.s. að allt sé fyrirfram ákveðið og hægt sé að lesa það út frá gangi himintunglanna. Er þarna ekki bara verið að varpa fram spurningu um frelsi mannsins. Er maðurinn frjáls og kann hann að nýta það?

En hvað þá með Blake gamla? Hvað stendur hann fyrir? Er hún ekki bara að benda á líkn listarinnar fyrir manninn á þessum óvissutímum sem hann valdi sjálfur með því að borða af skilningstré góðs og ills?

Mér fannst gaman að lesa þessa bók, af því að hún þvingaði mig til að hugsa um það sem er mikilvægt, vegna þess að við þurfum að geta svarað spurningum sem ef til vill er ekkert svar við.

Glæpasagan í sögunni spillti ekki, en í raun var hún bara eðlilegur hluti sögunnar.

Það var Árni Óskarsson sem þýddi og mikið var ég fegin að fá hana á íslensku, tungumálinu sem ég hugsa á, tungumáli drauma minna. Ég hef áður hlustað á Jakobsböckerna eftir samka  höfund á sænsku, stórkostleg bók en það hefði berið enn betra að hlusta á hana á íslensku.

Örstutt um höfundinn

Olga Tokarczuk pólskur rithöfundur, fædd 1962. Hún er menntuð sem sálfræðingur og hefur unnið sem slík. Jafnframt því að vinna að list sinni, hefur hún verið virk í jafnréttis- og lýðræðisbaráttu  í heimalandi sínu. Hún fékk Nóbelsverðlaunin 2018.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 187450

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband