Sælkeraveisla í Sauðlauksdal

20170913_174054 

Um þessar mundir, er engu líkara en ég sitji föst í 18. öldinni, hver bókin af annarri sem ég les , tilheyrir  henni að hluta til að minnsta kosti.

Lifandi lífslækur, Skúli fógeti og nú síðast;

Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferðir og GESTAKOMUR Í SAUÐLAUKSDAL eftir Sölva Björn Sigurðsson.

Hún fjallar um síðustu ár Björns Halldórssonar  í Sauðlauksdal (fæddur 1724, dó 1794).

Hún kom út 2011 og einhverra hluta vegna varð ekki af lestrinum fyrr en nú. Þó stóð alltaf til að lesa hana enda þekki ég dálítið til Björns Halldórssonar og veit  að  Sölvi Björn skrifar frábæran texta.

Fyrst langar mig til að greina frá því, hvað ég veit um Björn Halldórsson og hvers vegna.

Á mínum námsárum  lásu verðandi stúdentar bók  sem hét Sýnisbók íslenskra bókmennta til miðrar átjándu aldar sem Sigurður Nordal og fleiri ritstýrðu. Í þeirri bók var ljóð, sem ég lærði utan að án þess vita af því. Þetta ljóð var Ævitíminn eyðist (sjá í lok pistils) af einhverjum ástæðum fer ég stundum með þetta ljóð fyrir sjálfa mig. Í því er lífsspeki sem hentar mér. Og svo lærði ég að sjálfsögðu eitthvað um hann í Íslandssögunni, því hann var frumkvöðull í  ræktun síns tíma og bóndadóttirin, ég, var opin fyrir búvísindum. Og svo var okkur kennt að hann hefði fyrstur ræktað kartöflur á Íslandi. Það er reyndar rangt því það gerði norskur maður, Hastfer barón á Bessastöðum.

En bók Sölva er ólík sagnfræðinni sem ég kunni. Hún gerist í hugarheimi Björns eftir að hann var orðinn gamall og blindur (þó yngri en ég og líka hálfblind, því hann lést 69 ára). Í sannleika sagt veit maður ekkert um hvað af þessum áformum hans eru órar eða hreinn skáldskapur. En höfundur bókarinnar, skáldið Sölvi Björn, gætir þess þó vel að allt er það innan ramma þekkingar og tíðarramma Björns í Sauðlauksdal. Frásögnin er í senn sorgleg og skopleg.

Og af því ég er nú orðin nær ólæs nýt ég bókarinnar í boði Hljóðbókasafns Íslands. Það er Hjalti Rögnvaldsson sem les. Já það er gott að lifa ekki á átjándu öld.

Eftir að hafa hlýtt á bókina leita ég upplýsinga um Björn á Wikipediu (get stækkað textann með ipaddinum). Já, það hafa orðið framfarir. Ég kemst að því að Björn Halldórsson var strangur og gerði kröfur  til sóknarbarna um kvaðavinnu í þágu „ræktunaráráttunnar“ sinnar  og að hann dæmdi vinnumann sinn til setu í gapastokk, vegna þess að hann sýndi honum ekki fulla virðingu.

Já, hann var barn síns tíma eins og það heitir. Hvað verður sagt um okkur sem finnst eðlilegt að launafólkið sem stuðlar að velsæld okkar með vinnu  að ferðaþjónustu og hugsar um eldra fólk á hjúkrunarheimilum, geti ekki náð endum saman um hver mánaðarmót?

 

Ævitíminn eyðist,

unnið skyldi langtum meir.

Síst þeim lífið leiðist,

sem lýjist þar til út af deyr.

Þá er betra þreyttur fara að sofa,

nær vaxið hefur herrans pund,

en heimsins stund

líði í leti og dofa.

 

Eg skal þarfur þrífa

þetta gestaherbergi.

Eljan hvergi hlífa

sem heimsins góður borgari.

Einhver kemur eftir mig sem hlýtur.

Bið eg honum blessunar

þá bústaðar

minn nár í moldu nýtur.

Ps myndin er mín.

Ég sótti kvæðið á netið til að spara mér að slá það inn. Nafn Hastfer baróns á Bessastöðum er sótt til Vísindavefsins. 


Að skíta í flór; hugleiðingar við lestur Sextíu kíló af sólskini

20160830_174850

skíta í flór

Nú hef ég lesið Sextíu kíló af sólskini aftur. Það var mikilvægt því þetta er margslungin bók. Hún er sagnfræði ekki síður en bók Þórunnar Jörlu um Skúla fógeta. Það er merkilegt að bæði eru þau að skrifa um upphaf nútímans, Þórunn um Innréttingarnar, sem voru ekkert annað en smækkuð  mynd af iðnbyltingu Breta og Hallgrímur um iðnbyltingu Norðmanna í fiskveiðum, þ. e. síld og hval. Munurinn á þessum bókum er að Þórunn sýnir á spilin, hún bindur frásögn sína við nöfn og atburði sem gerðust í raunveruleikanum. Hallgrímur vinnur greinilega líka út frá heimildum en sýnir ekki á spilin.

Þannig    fær hann meira frelsi og kemst ef til vill nær viðfangsefni sínu, að sviðsetja það sem gerðist þegar Íslendingum bauðst að ráða sig í vinnu og hætta að vera hjú.

Ég ætla ekki að fjalla meira hér um skyldleika þessara tveggja bóka, heldur snúa mér beint að Sólskinssögunni.

Þetta er grípandi og spennandi bók. Hallgrímur er myndlistamaður og bókin ber þess merki. Hún er afar myndræn og myndirnar  eru margar sláandi. Það gera málverkin hans og teikningarnar líka, þær sitja í manni. Við þetta bætist orðsnilld hans. Sumir gagnrýna Hallgrím fyrir að vera of langorðir, það finnst mér ekki, því lengra því betra, ég nýt hvers orðs.

 Þeir sem hafa lesið fyrra blogg mitt um sömu bók, vita að hún kom á vissan hátt illa við mig og mig langar að gera betur grein fyrir því. Mér finnst bókin of mikil svarmálun á torfbæjarlífinu og torfbæjar menningunni. Þetta var menningin okkar, þjóðarinnar. Líf fólks þeirra tíma var verðugt rétt eins og okkur finnst okkar líf verðugt. Líklega er efniviður sögunnar of nærri mér í tíma. Móðurafi minn fór til fjalla og byggði sér torfbæ en föðurafi var fyrsti maður í sinni sveit til að byggja steinhús og þar ólst ég upp. Aftan við bæinn var hlóðaeldhús langömmu minnar og hlóðirnar enn nýttar t.d. við suðu á slátri og þvott á ull. Í gegnum gamla eldhúsið var innangengt í fjós og fleiri útihús. Heima hjá mér og á fleiri bæjum var ekki byggður kamar, heldur skitið í flór. Þetta var allt mjög snyrtilegt og sjálfsagt. Það þótti viðeigandi að athöfn lokinni að taka sér reku í hönd og hylja skítinn í kúamykjunni. Hafandi þessa reynslu gladdi það mig mikið þegar ég las í Biblíunni, ég held 2. Mósebók  að hermönnum Ísraels var  skylt að bera með sér litla skóflu til að hylja kúkinn þegar þeir gengu afsíðis.

En aftur að bók Hallgríms. Auðvitað á ég ekki að vera blanda minni fortíð inn í umfjöllun um góða bók. Mín eina réttlæting fyrir því er að ég lít á hana sem sagnfræði og þá getur mynd í svarthvítu verið villandi.  Hún ætti að mínhu mati að vera róf lita, allur regnboginn. Umgjörðin um líf okkar hefur breyst og flest til hins betra. Mestu framfarirnar, að sögn ömmu minna í fína steinhúsinu, voru að fá rennandi vatn inn í bæinn. Einn krani.

Þetta er sem sagt kröftug bók, sem opnar inn í fortíðina.

Næsta bók?

Mér finnst líklegt að þetta sé fyrsta bók og svo komi ein eða tvær á eftir. Ég hálfpartinn kvíði því, að horfa upp á gæðapiltinn Gest Eilífsson verða. athafnamann og síðar kapítalista.

 


Skordýrin okkar

8BEF1F23-459C-4889-9BEA-CC5F71151D70

Voveiflegar  fréttir úr heimi skordýra hræða mig. Þeim fækkar stöðugt og ef ekki tekst að sporna við þróuninni, stefnir í hrun heimsins sem við þekkjum.

Ef þessar fréttir eru réttar, hvernig er þá með aðrar tegundir smádýra? Engar fréttir af þeim?

Getur verið að  menn kalli allar pöddur skordýr?

Ég las fréttina upp á nýtt og það var augljóslega verið að fjalla um skordýr. Engar slæmar fréttir af öðrum dýrum í þeirri frétt.Eða hvernig var það nú eiginlega þetta flokkunarkerfi dýra? Ákvað að lesa mér til.  

Ég leggst á netið og uppgötva að flokkunarkerfi dýra er mun flóknara nú en það sem  ég lærði í bernsku. Þá voru flokkarnir VIII, nú er talað um 34 flokka sem lágmark. Óskaplega kann maður lítið. Ég held áfram að lesa um skordýr  þangað til að mig er farið að klæja um allan kroppinn. Svona hefur þetta alltaf verið. Þrátt fyrir   áhuga minn á náttúrufræði, hellist yfir mig kláða tilfinning þegar ég kem að smádýrum, sérstaklega þegar ég skoða myndir.

Eiginlega kemur þetta ekki málinu við, heldur hitt að líklega vitum við almennt lítið um náttúruna sem er svo mikilvæg. Og þótt menntun hafi lengst og vonandi batnað, hefur lítil áhersla verið lögð á náttúrufræði. A.m.k. þá sem snýr að lífríkinu.Ég byggi þessa fullyrðingu á reynslu minni en ekki rannsóknum. Nú er meira talað um mikilvægi tækni, þegar vísað er til hagnýtra greina sem beri að leggja rækt við, er oftast verið að tala um tækni. Við lifum í tækniheimi, segja menn.

Ég er nokkuð viss um að það er bein tenging á milli tæknidýrkunar og hruns skordýrastofnsins.

Sú vitneskja sem flestir sækjast eftir og er í boði, snýr aðallega um hvernig eigi að útrýma þeim. Hvað skyldi Erling  Ólafsson skordýrafræðingur fá margar fyrirspurnir um hvernig eigi að halda lífinu í pöddum? Ætli símtölin séu ekki oftar um hið gagnstæða?

Mannkynið er á villigötum, við þurfum að endurstilla kerfi hugmynda og finna leiðir til að lifa í sátt við náttúruna.

Það er trúlega lítil eftirspurn eftir vinalegu bloggi um skordýr, nú um miðjan vetur á Íslandi. Það væri nær að leggja svo sem eitt sprek á ófriðarbál kjaradeilna. Mig langaði bara til að skilja þetta sjálf og taka afstöðu.

Myndin er úr gamalli dýrafræði eftir Pálma Jósefsson       

 


Sextíu kíló af sólskini: Hallgrímur Helgason:Bók til að melta

F749EE9F-FF68-485A-9776-6CD9A81B98E2

Eftir að hafa lesið Sextíu kíló af sólskini, Skúla fógeta og vetrarlagi eftir Ísabellu Allende, ákvað ég að lesa 60 kíló af sólskini aftur. Ég var svolítið leið, fannst ég finna of lítinn Hallgrím í bókinni og of mikið af íslenskri fyndni og þjóðlegum fróðleik hrært saman og kryddað með sóðaskap. Það var aðallega íslenska fyndnin sem sló mig út af laginu, mér hefur alltaf leiðst hún en get stundum hlegið að því  hvað hún er ófyndin.

Sannleikurinn er að bókin kom illa við mig, fannst Hallgrímur tala niður til sveitakonunnar í mér og fór í vörn fyrir fólkið mitt. Afi minn og amma fluttu jú með fjölskyldu sína til fjalla, byggðu torfbæ rétt eins og Bjartur í Sumarhúsum. Nema, að bærinn þeirra hét Veturhús og þar ólst móðir mín og systkini hennar upp.

En auðvitað gat það ekki verið að Hallgrímur minn, með alla sína orðsnilld sem stöðugt hittir á að kitla hláturtaugar hugans, svo maður næstum tapar söguþræðinum, sé  að tala niður til alþýðunnar sem við erum komin af. Nei.

Ég ákvað að lesa hana aftur og fann minn Hallgrím.

En til hvers nú að skrifa um Hallgrím, bókin hefur verið úrskurðuð best bóka í sínum flokki og er nokkuð meira um hana að segja? Í hjarta mínu er ég á móti því að það sé hægt að raða bókum eða  höfundum í virðingarröð.Hugsa til þeirra eins og barnanna minna, ekkert þeirra er uppáhalds. Eða öll.

Núna þegar ég er búin með um um það bil 101 kíló af sólskini er ég frá mér af hrifningu, get næstum ekki hætt til að setja þetta á blað áður en það hverfur mér.  Mér finnst ég vita hvað vakir fyrir Hallgrími, hann hefur rótað í mold og fundið rætur nútímans, rætur okkar sem þjóðar.

Þjóðin sem hann lýsir er engin hnípin þjóð í vanda eins og þjóð Jónasar skáldbróður   hans. Þjóð Hallgríms er skítug og framtakslaus og á sér ekki viðreisnar von. Hún er ekki með glæsta fortíð eins og þjóð Jónasar upphefð hennar kemur að utan . Norðmennirnir, sem hún flúði frá, bjarga henni. Tær snilld. Já þessa bók má lesa oft, það er mörg í henni matarholan.

Meira þegar endurlestri  er lekið. 


Skúli fógeti

E58C3E91-88A3-4502-A668-22E658F42A04

Sagan um Skúla fógeta eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur var ljúfur lestur. Ég las hana eins og skáldsögu. Spennandi skáldsögu. Áður en ég settist við tölvuna til að gera upp hug minn, gera tilraun til að ná utan um efni bókarinnar, dró ég fram Íslandssöguna sem ég lærði á sínum tíma, ÍSLANDS SAGA  þriðja hefti eftir Jónas Jónsson. Já, þetta stemmir nokkurn veginn hugsaði ég og það gladdi mig. Nema kvennamálin og drykkjuskapurinn, enda ekki börnum bjóðandi.

En auðvitað er bók Þórunnar fyllri. Hún kannar heimildir, skoðar aldarhátt, setur í sögulegt samhengi og síðast en ekki síst tekur hún skáldlega spretti. Hún málar upp myndir um hvernig þetta   hefði getað verið EF. Ég elska þessa spretti eða hopp. Ég sé Þórunni fyrir mér hoppa.

Saga og fræði

Ég veit að ég á eftir að lesa bókina aftur og einbeita mér betur að sagnfræðinni. Hvernig ar þetta eiginlega allt saman á þessum líklega hörmulegasta tíma Íslandssögunnar? Þórunn hefur áður skrifað bók um Snorra á Húsafelli (1710 til 1803). Hann og Skúli (1711-1894) voru nánast jafngamlir. Skúla bregður fyrir í bók Þórunnar um Snorra en ekki öfugt enda sagan á háu embættismannaplani.

Aldarfar

Það er oft erfitt að horfast í augu við fortíðina vegna hörmunga af mannavöldum. Það er sárara að horfa upp á þær en hörmungarnar sen sem óblíð náttúra og óhöpp ollu. Í gömlu Íslandsögunni minni, sem mér fannst svo skemmtileg, er lítið talað um aftökur og píningar á vesalings fólkinu. En svona var aldarhátturinn og Skúli var í ábyrgðarstöðu. Ég er nýbúin að lesa bók Bergsveins Birgissonar, Lifandi lífslæk. Lýsing hans á eymd fólks á þessum árum er himinhrópandi. 

Lokaorð

Ég var hrifin af bók Þórunnar og ætla að endurlesa hana fljótlega. Hún er efnismikil og þétt og mér finnst hún hefði mátt vera lengri og Þórunn hefði mátt fara oftar á flug. Ég hefði líka haft gaman að hafa tilvitnanir aðgengilegar og ekki þurfa að fara á netið til að vita hvert vitneskjan er sótt.


Skiptidagar: Guðrún Nordal

65747036-C9D2-47D3-B929-5EA98FC4640C

Val mitt á lesefni er sjaldan tilviljun. Oftræðst það af spurningum sem bókin kveikir sem ég er að leggja frá mér, stundum ýtir umræða dagsins við mér.

Bók Guðrúnar Nordal, Skiptidagar, ákvað  ég að lesa um leið og ég heyrði af útkomu hennar. Hvort tveggja  var, að ég þekkti til Guðrúnar og að ég hafði heyrt af viðfangsefni bókarinnar, sem var hvorki meira né minna en að skoða hvernig byggja má brú milli fortíðar og framtíðar.

Er þetta mögulegt? Getur þetta síkvika NÚ, sem aldrei stöðvast, gert eitthvað í þessa veru? Það á ekki einu sinni sannfæringuna um mikilvægi verkefnisins. Já,eða nauðsyn.

Kver

Bókin Skiptidagar lætur ekki mikið yfir sér. Hún er 188 blaðsíður og tekur 5 og hálfa klukkustund í hlustun (en þannig tek ég hana til mín).

Guðrúnu finnst sem við stöndum á krossgötum og þurfum að velja okkur leið inn í nýja tíma, tíma sem einkennast af stafrænum lausnum og hver veit hverju. Maðurinn er leitandi vera. Eum leið og hann heldur að hann sé að skapa eitthvað nýtt, bæta heiminn, mótar þetta nýja hann sjálfan,  fyrr en hann varir.

Guðrún er sem sagt að rýna í sannleiksgildi orðanna: fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja, því það hefur fengið holan hljóm. Hún er lærð í íslenskum fræðum  og telur ekki eftir sér að setjast niður við krossgötur breyttra tíma meðan tíminn æðir áfram. Um leið og hún blaðar í gegnum lærdóm sinn skoðar hún eiginn uppruna, arf kynslóðanna og skoðar líf formæðra og forfeðra eins langt og hún kann að rekja. Reynir að spegla sig í örlögum þeirra.

Þótt Guðrún spyrji margra spurninga og stórra er tónninn hófstilltur og lágvær. Mér finnst bókin unaðsleg og hugsa; þessa bók ætti að kenna sem forspjallsvísindi við alla háskóla Ísalands. Um leið fyllist ég efasemdum og spyr út í loftið, eru nemendur komnir með inneign til að þeir geti skilið og notið? Væri kannski betra að skylda alla háskólakennara til að   lesa?

Það er ekki hægt að lýsa þessari bók svo vel sé frekar en ljóði.

Svona eiga fræðimenn að skrifa.

Bókin Skiptidagar kveikir á mörgum perum í höfðinu á mér, það birtir til.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 187338

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband