Wow: Sjaldan er ein báran stök

CA343F60-5572-417D-9EC0-B67E4347ECB0

Sjaldan er ein báran stök. Sama daginn og Wow skilaði inn flugrekstrarleyfi sínu lagði sjónvarpið okkar upp laupana. Hvorugt kom sérstaklega á óvart. Aðdragandinn var í sjálfu sér ekki ólíkur. Í tilviki Wow höfðu farið fram ýmsar þreifingar. Varðandi sjónvarpið, sem maðurinn minn sér um,höfðu einnig verið gerðar ráðstafanir sem vonir voru bundnar við. Í hvorugu tilviki rættust þessar vonir.

Wow og sjónvarpið okkar voru næstum því jafnaldrar. Hvoru tveggja tákn um betri tíma. Upprisa eftir höggið sem þjóðin hafði fengið í andlitið í boði gróðafíkla. Bæði sjónvarpið og Wow höfðu fært okkur gleði. Sjónvarpið færði okkur ánægjuna heim í stofu, Wow flutti okkur til staða þar sem við nutum menningar og ævintýra. 

En það er engin ástæða til að leggjast í  volæði og þunglyndi.  Ég er hundleið á að hlusta á spár og hrakspár fróðra manna um öll þau áhrif sem þetta gjaldþrot kemur til með að hafa á þjóðarbúið. Líklega kostar það hið svokallaða þjóðarbú álíka mikið hlutfallslega að rétta sig af og það kostar okkur að rétta okkur af eftir bilað sjónvarp. Ég sagði hlutfallslega. 

Bless sjónvarp, bless Wow. Koma tímar og koma ráð. 

Maðurinn minn leysir áreiðanlega þetta með sjónvarpið og ég yrði ekkert hissa  þótt fljótlega rísi upp nýtt flugfélag úr öskunni. 

Wow - skellurinn er eins og sýnidæmi um okkar ónýtu krónu, sem  burgeisar og gróðapungar elska út af lífinu, því þannig geta þeir verið vissir um að kjarabarátta og verkföll nýtist ekki fólkinu. Seðlabankinn sér til þess. Sjálfir reka þeir svo öll sín viðskipti í erlendum gjaldmiðlum. 

Svei


Brennuöldin eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur

0B809D4A-2226-4E9B-9E26-EF10088AEB30

Það er göldrum líkast hvernig ein bók kallar á aðra. Stundum finnst mér eins og valdið til að velja sé frá mér tekið.

Þegar ég hafði lokið bók Tapio Koivukari um Galdra-Möngu, brann ég í skinninu að vita meira um þessa undarlegu tíma, þegar fólk trúði því að það gæti breytt gangi lífsins með hjálp afla, sem lágu einhvers staðar á milli náttúruafla og trúarbragða.

Ég vissi af bók Ólínu Þorvarðardóttur, um þetta efni, hún ber nafnið Brennuöldin. Hún kom út árið 2000 og ég hafði eitthvað blaðað í henni  á sínum tíma.

Nú vill svo vel til að það er nýbúið að lesa þessa bók inn sem hljóðbók hjá  Hljóðbókasafni Íslands. Það er Ólína sjálf sem les og það gerir hún framúrskarandi vel. Bókin byggir á doktorsritgerð höfundar  og er því í grunninn fræðileg. Það er því vandaverk að  lesa og koma til skila því sem er mikilvægt í slíkum bókum. Þ.e. hvert hún sækir heimildir og hvaða fræði hún leggur til grundvallar. Þetta gerir Ólína lipurlega og það truflar aldrei eðlilegt flæði og framvindu meginmáls bókarinnar.

Þetta er mikil bók, tekur tvo 26 tíma í upplestri og því er mikilvægt að átta sig vel á uppbyggingu hennar frá byrjun.

Ólína rannsakar efnið út frá tvennum ólíkum heimildum. Annarsvegar leggur hún til grundvallar dómabækur alþingis, hins vegar munnmæli og þjóðsögur. Allt þetta skoðar hún í sögulegu ljósi, því fjallar hún um sögu og hugmyndaheim galdra og galdraofsókna í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Sá  kafli var afar áhugaverður fyrir mig því þar kom margt fram sem ég vissi ekki áður. Aðalviðfangsefni rannsóknarinnar er þó um það sem gerðist á Íslandi. Mér fannst merkilegt að sjá hvernig hún varpaði ljósi á rannsóknarefnið fá þessum ólíku hliðum, þ. e. því sem stendur eins og stafur á bók í dómsskjölum og því sem lifað hefur í munnmælum og þjóðsögum. Umfjöllun hennar um þjóðsögurnar fannst mér sérstaklega gefandi, því þar fannst mér eins og mér opnaðist nýr þekkingarheimur.

Auðvitað er þetta alltof stórt og margslungið verk til að lýsa í stuttum  pistli. Mig langaði bara til að segja þeim sem ekki hafa lesið og hafa áhuga á að kynnast fortíð okkar og skilja hana, að mikið fæst ekki fyrir lítið, en það er þess virði að lesa þessa bók þótt það taki bæði tíma og fyrirhöfn. Með fyrirhöfn meina ég að lesturinn krefst einbeitingar og fullrar nærveru hugans.   

 

 

 

 

               


Hvers á landsbyggðin að gjalda?

95EE0136-13F9-4EF2-83D7-A336982BA4C1

Af hreinni tilviljun var ég nýlega búin að skoða manntalið frá 1703 þegar ég heyrði í fréttunum skýrt frá því að ríkisstjórnin hefði fyrirvaralaust kippt að sér höndunum við að greiða sveitarfélögum framlag úr Jöfnunarsjóði. Þetta framlag hefur m.a. verið nýtt til að styðja sveitarfélög í að sjá til þess að ýmis þjónusta við fólk, sem stendur höllum fæti í samfélaginu, sé sambærileg og sú þjónusta sem býðst í þéttbýli.

Ég hrökk við og hugsaði ósjálfrátt „hvers á landbyggðin að gjalda“.

Er ekki hægt að hugsa þetta reiknisdæmið  í sögulegu ljósi.Í okkar litla og fyrrum fátæka landi hefur skipulega verið unnið að því að byggja upp samfélag. Smátt og smátt hefur þetta þokast áfram og nú erum við sjálfstæð og rík og auðvitað byggir þessi uppbygging á framlagi þegnanna. Og einhverra hluta vegna hefur þjónustan ævinlega  komið fyrst á þéttbýlli staði. En hvernig urðu þessir peningar til, hvaða hendur öfluðu þeirra?

Mér segir svo hugur um að landsbyggðin hafi borgað sitt. Enda var landsbyggðarfólk  hlutfallslega fleira þá en nú.

   Manntalið á Íslandi 1703.

Mannfjöldi: 50.358

    • Karlar: 22.867
    • Konur: 27.491
  • Sunnlendingafjórðungur: 15.564
  • Vestfirðingafjórðungur: 17.831
  • Norðlendingafjórðungur: 11.777
  • Austfirðingafjórðungur: 5.186

Þetta er kannski farið fulllangt aftur í tímann. En saga er ekki bara í bókum hún er líka geymd í minni fólks sem hefur lifað tvenna og þrenna tíma.  Ég man t.d. eftir því að um það var talað að Stöðfirðingar legðu hlutfallslega mest til þjóðarbúsins, en nú er þannig komið fyrir þeirri byggð að Landbanki Íslands hefur ekki einu sinni efni á því að halda þar úti hraðbanka.

Þegar ég var barn var mér sagt frá því að Eysteinn Jónsson hefði daglega hlustað á fréttir af aflatölum og nóterað hjá sér hvað þær þýddu fyrir þjóðarbúið  í fjárlagagerðinni.

Ég held að þessi þjóð sé á villigötum eða að minnsta kosti þeir sem eiga að leiða hana.

Myndin er af þeim Jóni og Ingubjörgu af póstkorti frá 1913.  


Galdra-Manga: Dóttir hins brennda eftir Tapio Koivukari

1DE9DC85-98C8-45DA-974D-770E088EF483

Galdra-Manga:Dóttir hins brennda eftir Tapio Koivukari, var ein af jólabókum ársins. Um leið og ég frétti af henni, ákvað ég að ég að lesa hana. Það hefur ekki orðið af því fyrr en nú.

Nafnið Galdra-Manga kallaði fram góðar minningar frá árunum sem ég var enn nógu spræk  til að ganga í sumarleyfum um eyðibyggðir Vestfjarða með vinum mínum Hornstrandförum undir fararstjórn Guðmundar Hallvarðssonar. Blessuð sé minning hans. Tvisvar lá leiðin um Snæfjallaströnd. Þetta voru góðir tímar og alltaf sól. Eða að minnstakosti í minningunni. Þá heyrði ég fyrst um Galdra-Möngu.

Á leið okkar var tignarlegur foss, Möngufoss og sagan sagði að Galdra-Möngu hafi verið drekkt í hylnum fyrir neðan fossinn.

Nú hefur Tapio Koivukari skrifað sögu þessarar konu. Hún hét í raun Margrét Þórðardóttir og var fædd í Munaðarnesi á Ströndum en flúði þaðan yfir á Snæfjallaströnd í kjölfar galdraofsókna en faðir hennar hafði verið brenndur. Þótt þjóðsagan segi, að henni hafi verið drekkt, var það ekki svo.  Við manntalið 1703 kemur í ljós að hún lifir í hárri elli á Lónseyri hjá syni sínum.

Nútímafólki veitist oft erfitt að skilja fortíðina, horfir á hana í ljósi eigin gilda. Þetta á ekki síst við um sögu 17. aldar, sem hefur hlotið auknefnið Brennuöld. Á þeim tíma var ekki talað um galdraofsóknir. Dómar yfir galdrafólki var réttlætismál, ábyrg leið til að skapa betra þjóðfélag. 

Höfundur þessarar bókar er guðfræðingur að mennt og greinilega vel að sér um fræðilegar hugmyndir sem lágu að baki galdrafárinu sem geisaði um alla Evrópu. Trúlega hjálpar þessi þekking honum að skilja hugmyndir, tilfinningar og gjörðir þessa fólks, þegar galdrar voru jafn eðlilegt fyrirbæri í huga manna og veðurfar. Hann hefur líka aflað sér víðtækrar þekkingar á íslenskri sögu og aðstæðum á Vestfjörðum. Í bókinni endurskapar hann löngu liðna atburði og gefur persónunum rödd. Fólk  sem sem við einungis þekkjum úr þjóðsögum eða dómsskjölum. Það lifnar við og segir frá sjálfu sér. Ég trúi þessu fólki  og finnst að ég skilji það. Þetta er fólk eins og við.

Ég ætla ekki að rekja sögu Galdra-Möngu frekar hér. Kannski eruð þið, sem lesið þetta búin að lesa bókina og kannski eigið þið það eftir. Ég verð að geta þess hér að þar sem ég get ekki lengur lesið, hlustaði ég á bókina sem hljóðbók frá Hljóðbókasafni Íslands. Þessi útgáfa er afar vel gerð, margir lesendur koma að lestrinum. 

En ég man hvað mér var létt þegar einhver göngufélagi minn sagði mér að henni hefði ekki verið drekkt á sínum tíma, heldur sloppið og gifst prestinum á Stað á Snæfjallaströnd. Ég  hafði alveg óafvitandi fengið samkennd með þessari konu sem ég þekkti  ekki neitt.

Nú þegar ég les um „misgjörðir eða glæpi“ fyrri tíma, reyni ég að dæma ekki en snúa huganum frekar að samtíðinni og hugsa, hvað erum við að gera rangt núna? Fyrir hvað verðum við dæmd af síðari tíma fólki? Verðum við kannski dæmd fyrir það sem við gerum ekki? Gætum við t.d. ekki lagt meira að mörkum gagnvart fátæku fólki hér heima og víðs vegar að í heiminum? Er rétt að senda heilu fjölskyldurnar úr landi, jafnvel lítil börn sem eru fædd hér?

Bókin er þýdd af Sigurði Karlssyni. Það eru einhverjir galdrar sem fylgja þýðingum hans, ég heyri rödd hans, þótt hann lesi textann ekki sjálfur. 

 


Baráttudagur kvenna: Hugsað á leiðinni Blönduós-Reykjavík

F38CD360-BBFD-43F5-8415-053A3B1B3C15

Í gær, áttunda mars, var ég á leið heim úr stuttri heimsókn til Norðurlands, nánar til tekið  Blönduóss. Ég fann að mér stóð ekki á sama um að geta ekki tekið þátt í hátíðahöldum og baráttufundum dagsins. Ég ákvað því að vera með stöllum mínum í anda og hugsa til húnverskra baráttukvenna. Sú fyrsta sem í hug mér kom var Bríet Bjarnhéðinsdóttir (f. 1856) í Haukadal en ólst upp að Böðvarshólum í Vesturhópi. Það var fagurt að horfa inn til Vatnsdalsins og út til Vesturhópsins í glampandi sól, þar sem ég sat í hlýjum og þíðum og hlýjum strætó.

Næst kom mér í hug Björg Þorláksdóttir, fædd 1874 að Böðvarshólum í Vesturhópi (Tók ættarnafnið Blöndal við  giftingu).  Hún var fyrsta íslenska konan til að taka doktorspróf.

Loks varð mér hugsað til Elínar Briem, fædd 1856. Hún er að vísu ekki fædd í Húnaþingi, heldur Eyjafirði en hún átti þar merkan starfsferil, var skólastýra Kvennaskólans í Ytri-Ey.  Ég hafði í ferð minni skoðað Elínarstofu, sem sett hefur verið upp í húsi Kvennaskólans á Blönduósi. Það var góð leið til tímaflakks að dveljast þar um stund.

En úr því ég er farin að segja frá þessari ferð finnst mér við hæfi að geta þess að báðar leiðir, norður og suður, las ég (hlustaði á)  bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, Brennuöldin. Mögnuð bók.

Á leiðinni í bæinn var ég stödd í kaflanum um galdrafólk í munnmælum. Í framhaldi af því varð mér hugsað til Ólínu og fann ósjálfrátt til léttis, því mér fannst sem að á tíma galdraaldar, hefðu konur eins og hún verið líkleg fórnarlömb.

Meira um hana þegar ég hef lokið lestrinum.

Myndina tók ég í dag af ísmyndunum   


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2019
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 187294

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband