Galdra-Manga: Dóttir hins brennda eftir Tapio Koivukari

1DE9DC85-98C8-45DA-974D-770E088EF483

Galdra-Manga:Dóttir hins brennda eftir Tapio Koivukari, var ein af jólabókum ársins. Um leið og ég frétti af henni, ákvað ég að ég að lesa hana. Það hefur ekki orðið af því fyrr en nú.

Nafnið Galdra-Manga kallaði fram góðar minningar frá árunum sem ég var enn nógu spræk  til að ganga í sumarleyfum um eyðibyggðir Vestfjarða með vinum mínum Hornstrandförum undir fararstjórn Guðmundar Hallvarðssonar. Blessuð sé minning hans. Tvisvar lá leiðin um Snæfjallaströnd. Þetta voru góðir tímar og alltaf sól. Eða að minnstakosti í minningunni. Þá heyrði ég fyrst um Galdra-Möngu.

Á leið okkar var tignarlegur foss, Möngufoss og sagan sagði að Galdra-Möngu hafi verið drekkt í hylnum fyrir neðan fossinn.

Nú hefur Tapio Koivukari skrifað sögu þessarar konu. Hún hét í raun Margrét Þórðardóttir og var fædd í Munaðarnesi á Ströndum en flúði þaðan yfir á Snæfjallaströnd í kjölfar galdraofsókna en faðir hennar hafði verið brenndur. Þótt þjóðsagan segi, að henni hafi verið drekkt, var það ekki svo.  Við manntalið 1703 kemur í ljós að hún lifir í hárri elli á Lónseyri hjá syni sínum.

Nútímafólki veitist oft erfitt að skilja fortíðina, horfir á hana í ljósi eigin gilda. Þetta á ekki síst við um sögu 17. aldar, sem hefur hlotið auknefnið Brennuöld. Á þeim tíma var ekki talað um galdraofsóknir. Dómar yfir galdrafólki var réttlætismál, ábyrg leið til að skapa betra þjóðfélag. 

Höfundur þessarar bókar er guðfræðingur að mennt og greinilega vel að sér um fræðilegar hugmyndir sem lágu að baki galdrafárinu sem geisaði um alla Evrópu. Trúlega hjálpar þessi þekking honum að skilja hugmyndir, tilfinningar og gjörðir þessa fólks, þegar galdrar voru jafn eðlilegt fyrirbæri í huga manna og veðurfar. Hann hefur líka aflað sér víðtækrar þekkingar á íslenskri sögu og aðstæðum á Vestfjörðum. Í bókinni endurskapar hann löngu liðna atburði og gefur persónunum rödd. Fólk  sem sem við einungis þekkjum úr þjóðsögum eða dómsskjölum. Það lifnar við og segir frá sjálfu sér. Ég trúi þessu fólki  og finnst að ég skilji það. Þetta er fólk eins og við.

Ég ætla ekki að rekja sögu Galdra-Möngu frekar hér. Kannski eruð þið, sem lesið þetta búin að lesa bókina og kannski eigið þið það eftir. Ég verð að geta þess hér að þar sem ég get ekki lengur lesið, hlustaði ég á bókina sem hljóðbók frá Hljóðbókasafni Íslands. Þessi útgáfa er afar vel gerð, margir lesendur koma að lestrinum. 

En ég man hvað mér var létt þegar einhver göngufélagi minn sagði mér að henni hefði ekki verið drekkt á sínum tíma, heldur sloppið og gifst prestinum á Stað á Snæfjallaströnd. Ég  hafði alveg óafvitandi fengið samkennd með þessari konu sem ég þekkti  ekki neitt.

Nú þegar ég les um „misgjörðir eða glæpi“ fyrri tíma, reyni ég að dæma ekki en snúa huganum frekar að samtíðinni og hugsa, hvað erum við að gera rangt núna? Fyrir hvað verðum við dæmd af síðari tíma fólki? Verðum við kannski dæmd fyrir það sem við gerum ekki? Gætum við t.d. ekki lagt meira að mörkum gagnvart fátæku fólki hér heima og víðs vegar að í heiminum? Er rétt að senda heilu fjölskyldurnar úr landi, jafnvel lítil börn sem eru fædd hér?

Bókin er þýdd af Sigurði Karlssyni. Það eru einhverjir galdrar sem fylgja þýðingum hans, ég heyri rödd hans, þótt hann lesi textann ekki sjálfur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 187192

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 64
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband