Búmannsklukka Jóns á Þorvaldsstöðum og hænurnar hennar mömmu

EDD8487F-B2F9-4848-A1A4-BA834218FDE4

Búmannsklukka og hænur

Ég hef verið að reyna að átta mig á umræðunni um að breyta klukkunni. Af hverju blossar þessi umræða stöðugt upp núna í okkar rafvædda samfélagi?

Umræðan un að breyta klukkunni er ekki ný af nálinni. Í ungdæmi mínu (á fimmta tug síðustu aldar)  var sumartími og vetrartími og það þótti sjálfsagt. Reyndar gengu fæstir með klukku og höfðu alla tíð lagað líf sitt að birtunni. Heimils klukkunni var þó breytt  með viðhöfn og búið mál. Líklega hefur þetta komið til vegna útvarpsins. 

Þetta gerðu allir nema Jón á Þorvaldsstöðum, hann átti gullúr í keðju sem hann dró gjarnan upp úr vestisvasanum, trekkti það upp og sagði dálítið drjúgur með sig, fannst mér. Ég breyti aldrei klukkunni, sólin ræður. Aftur á móti er ég með búmannsklukku.Það þýddi að klukkan var alltaf hálftíma of fljót.

Þetta rifjaðist upp af því ég skil ekki alla þessa umræðu um klukku í okkar raflýsta samtíma. Þegar ég var að alast upp var myrkrið umlykjandi  og dimman svört, næstum áþreifanleg.

Úti og inni. Fólk klæddi sig við lampatýru, tók lukt með sér í fjós og fjárhús, eldsmetið var dýrt.

Ég man aldrei eftir því að það væri kvartað vegna myrkursins. Þvert á móti, margir hlökkuðu til skammdegisins. Þá var lítið hægt að gera, það fríaði menn frá amstrinu og   einungis sinnt nauðsynlegum skyldustörfum svo sem skepnuhirðingu.

Karlarnir í dalnum notuðu tímann til að spila lomber, Þeir spiluðu af ástríðu, sumur sögðu fíkn. 

Í minningunni var fólk í gamla daga alls ekki dapurt í skammdeginu, það var sátt og naut lífsins. Það var á útmánuðum sem fólki var þungt í skapi. Mér var kennt að það væri kvíði bóndans. Skyldu heybirgðirnar endast?

Það eru breyttir tímar og kannski er nútíminn svo ólíkur fortíðinni að við getum ekkert af henni lært. Þó býður mér í grun að það sé ekki myrkrið sem kvelur manneskjurnar nú til dags. Ef svo væri ætti rafvæðingin að vera meðalið. Við höfum alveg efni á að brúka meira rafmagn. 

Nei, ég held að það sem hrjáir mannskepnur dagsins sé sífelld krafa um hámarksafköst og hámarksgróða. Það er ekki bara atvinnulífið sem hugsar svo, heldur eru einstaklingarnir  búnir að taka upp hugmyndafræði kapítalismans og gera hana að sinni. Hér myndi e.t.v. hjálpa að segja Þetta er nóg.

Ég óttast sem sagt að það sé ekki nóg að breyta klukkunni. Við þurfum að breyta samfélaginu. 

Það nægði fyrir hænurnar hennar mömmu að setja ljós hjá þeim í skammdeginu. Þær verptu meira, En ég veit ekki hvort þær urðu hamingjusamari.

 

 


Bókin og myndin

C2BB7E5B-3A04-4A9C-8A2E-9C44096C3120 

Ég er ekki ein um að eiga í vandræðum við að staðsetja tenginguna á milli bókar og myndar, enda eru þessi tengsl margvísleg. Myndin er ekki sama og bókin, segja menn og halda að þar með sé málið afgreitt. Staðhæfingin sem slík er augljóslega  rétt en svarar ekki spurningunni um hvað vill kvikmyndagerðar maðurinn með einmitt þessa bók.   

Það er út af þessari pælingu sem ég dembdi mér í að lesa eða endurlesa bækur um leið og ég frétti af því, að það eigi að fara að sýna mynd sem er byggð á bók.

Þegar von var á Flateyjargátu í sjónvarpinu lagði ég dag við nótt við að endurlesa bókina. Ég sé ekki eftir því, bókin var enn betri en mig minnti. Fljótlega gerði ég mér þó grein fyrir því að það hafði verið gerð önnur saga fyrir sjónvarpsmyndina. Auðvitað sætti ég mig við það. Ef það hefði verið gerð  mynd eftir efni bókarinnar, sér í lagi ef vísanir í Flateyjarbók sjálfa hefðu fylgt, hefði sú mynd verið hrottaleg glæpasaga og alls ekkert til að horfa á í stofum landsmanna.

Það var betra að fá mynd um heimilisofbeldi og kvenfyrirlitningu.

Reyndar féll mér nýja sagan vel en það var eitthvað sem ekki gekk upp við að koma henni til skila.   

Úrvalsmynd frá Ítalíu

Sama sagan endurtók sig þegar til stóð að sýna sjónvarpsþætti, sem gerðir eru eftir bók ítalska rithöfundarins Elena Ferrante, Framúrskarandi vinkona. Ég hóf endurlestur bókanna sem eru fjórar. Bækur Ferrante líta á yfirborðinu út fyrir að vera einhvers konar „sápa“, en þarna er á ferðinni grípandi samfélagslýsing og grimm ádeila á spillingu og stéttaskiptingu. Sögumaður og aðalpersóna  Framúrskarandi vinkona er jafnaldra mín. Ósjálfrátt bar ég samfélagsþróunina  saman við það sem var að gerast hér á Íslandi. Það er undarlega margt líkt.  Í tilviki þáttanna sem gerðir eru eftir  Framúrskarandi vinkonu er greinilegt að myndhöfundur leitast við að fylgja efni bókarinnar eftir föngum. Það er gaman að sjá söguna lifna við. Þetta eru frábærir þættir.

Ófærð

Og svo eru myndir sem fylgja eigin sögu, handriti. Það á við um  Ófærð.  Ég er eins og  aðrir Íslendingar alltaf þakklát þegar ég fæ íslenskt efni. Ég er jákvæð. Ég veit að íslenskir leikarar geta leikið ef þeim er rétt stjórnað.  

Mér fannst gaman af fyrri seríunni, fannst hún lukkast, en nú hreinlega leiðist mér. Hélt  fyrst að um væri kenna aðför  myndarinnar að landafræðikunnáttu minni, en sá svo að vandinn er djúpstæðari.

Sagan er slæm. Öllu ægir saman og engu eru gerð nein skil. Listi um efnisþætti gæti verið þessi:

Græðgi

náttúruvernd

vandi sauðfjárbænda

ruglaðir unglingar

staða samkynhneigðra

útlendingahatur

og fleira og fleira

Þetta hljómar allt kunnuglega í eyrum en það örlar ekki á samfélagssýn höfunda. Hvað þá sannfæringu.

Og svo vantar ófærðina. En það var ófærðin sem hélt spennunni uppi fyrri seríunni.


Brúin á Drinu: Ivo Andric

A390BB60-6E2C-4704-AC2D-A30708946C0B

Í bók sinni, Með skör járntjaldsins, segir Jón B. Björnsson segir frá heimsókn sinni á  heimili Ivo Andric í Belgrad. Andric fæddist árið 1892 og lést 1975 en heimili hans hefur verið varðveitt sem safn.  Þessi stutta frásögn varð til þess ég ákvað að lesa einu bók sem hefur verið þýdd eftir hann á íslensku. Aðallega af forvitni um hvers vegna bókin hafði farið fram hjá mér þegar hún kom út 1963.  

Þetta er sérkennileg bók, það er eins og brú sé nokkurs konar sögumaður. Þessi brú var byggð 1577 við Visegrad í Bosníu á dögum Ottomanveldisins. Verkinu stýrði  Sinan, frægasti arkitekt og byggingameistari síns tíma. Bók er aldafarslýsing  sem hefst við byggingu brúarinnar og lýkur við lok fyrri heimstyrjaldar.

Í raun er bókin safn sögulegs fróðleiks í bland við sagnfræði.  Persónur og og atburðir eru sviðsettir. Persónur eru vel dregnar og frásagan oft dramatísk. Þannig öðlast fortíðin nálægð og mannkynssagan lifnar við.

Sumir atburðirnir eru átakanlegur og sumir hroðalegir. Þó er undirtónn sögunnar lágstemmdur.   Áhersla höfundar er á mannlífið sjálft. 

Höfundur lýsir hefðum og siðvenjum  ólíkra menningarhópa, kristinna, múhameðstrúar, gyðinga og sígauna. Oftast tekst þeim að  lifa saman  árekstralaust, en um leið og stjórnvöld blasa í herlúðra riðlast allt. Það er eins og stríðin komi að ofan. Ekki frá fólkinu.

Þessi saga minnir því á fljót eða á. Flesta daga fellur áin hljóðlát í farvegi sínum en svo koma í hana flóð, hún verður óútreiknanleg og eirir engu. 

Bókin kom út 1945 í heimalandi hans en hér kom hún út 1963.

Ivo Andric fékk Nóbelsverðlaun 1961 og þar með varð hann heimsfrægur. Séra Sveinn Víkingur hreifst af þessari bók og þýddi hana. Það kemur fram í formála, sem hann skrifar að hann hafi talið að bókin væri góð lesning fyrir okkur Íslendinga til að spegla okkur í. Einhvern veginn þannig orðar hann þetta. Þýðing hans byggir á danskri þýðingu. Mér finnst hún lipur.

En af hverju las ég ekki bókina á sínum tíma? Ég er ekki viss. Ég var enn í menntaskóla og smekkur minn hafði breyst, ég var hætt að vera alæta á bækur og farin að þróa með mér eitthvað sem ég hélt að væri bókmenntasmekkur. Ég hneigðist til ljóða. Reyndar er ég fegin að ég reyndi ekki að lesa þessa bók þá, ég hefði ekki skilið hana.

Í raun er saga þessarar gömlu fallegu brúar enn sorglegri í dag en hún var þegar hún kom út. Í Bosníu- stríðinu kom hún mjög við sögu. Hún var þá sem fyrr notuð til illra verka. Og af því ég er hálft í hvoru farin að skynja hana sem persónu, langar mig að segja að það var ekki henni að kenna, hún var þolandi.


Með skör járntjaldsins: Jón B. Björnsson

23920759-9468-458C-85D4-5D7EA7C21FB5

Hjólað inn í nýtt ár.

Nú er ég búin að lesa tvær bækur um hjólaferðir, ég er líka búin að hjóla óvenjumikið sjálf enda hefur verið verið einstaklega gott til útivistar.

Bækurnar sem ég hef lesið eru báðar eftir Jón B. Björnsson og heita Rassfar í steini og Með skör járntjaldsins. Hún verður efni þessa  pistils. 

Jón fer þessa ferð í tveimur áföngum, fyrra árið (2003) hjólar hann frá Gdansk til Kraká og hið síðara (2004)frá   Kraká til Istambúl.Á milli ferða fékk hann hjólið og afaní-vagninn geymdan á skjalasafni Kráká-borgar. Sagan um þá samninga er dásamleg og minnir á að Jón var ekki ókunnugur stjórnsýslu.

Leiðin sem Jón valdi frá Gdansk og Istanbúll var nokkurn vegin sú sama og   hið dýrmæta raf var flutt á markað á miðöldum. Ástæðan fyrir nafni bókarinnar er að þessi leið, rafvegurinn, fellur að hluta til saman við hið ósýnilega járntjald sem síðar varð.  

Það er engin tilviljun að undirtitill bókarinnar er, Hugsað upphátt, því það lýsir vel þessu ferðalagi. Það er aldrei betra að hugsa en á hjóli, nema ef vera kynni fótgangandi. En það er sérstakt að skrá þetta hjá sér og það er það sem Jón gerir.

Hver kafli leiðarinnar  sem lagður  er að baki kallar á nýtt hugarástand og nýjar hugsanir.

Meðan Jón einbeitir sér að því að fylgjast með þessari 50 sentimetra breiðu rönd,  sem hver hjólreiðarmaður  hefur til umráða vinnur hugurinn óskiptur að      úrvinnslu á úr því sem hann hefur lært á ferð sinni og undirbúningi að því sem hann ætlar að skoða. Hugsanirnar eru óbundnar tíma og rúmi, það er því vandalaust að bregða sér á milli húnversks reynsluheims sem hann þekkir og til þess að skilja betur framandi heim.  Það er margt sem rekur á fjörur fundvíss ferðalangs. Sumir kaflarnir eru afrek út af fyrir sig, ég veit bara ekki hvort Jón ætti að fá orðu í bókmenntum, náttúruvísindum eða guðfræði. Einn af mínum uppáhaldsköflum ber yfirskriftina Hin nytsama iðja ánamaðkanna. Sú frásögn er þarft innlegg í vistfræðiumræðu og skiljanleg hverjum manni.

Ein lítil frásögn af safnaheimsókn leiddi mig yfir í nýja bók sem heitir Brúin á Drinu.  Af hverju var ég ekki búin að lesa hana? Hefur örugglega verið til heima. 

Eftir að hafa lesið bækur Jóns B. Björnssonar langar mig enn meira til að hjóla  og mér finnst mikilvægt að leggja hjólavegi samhliða hringveginum. Það er mikið hægt að hugsa á hringferð um Iceland. Hugsum til framtíðar. 

Nú er ég greinilega komin út fyrir efnið. Langar samt til að sá sem les þetta, skilji að það er ekki hægt að endursegja góða bók.  

Að lokum. Þetta er gamansöm alvara. Eða öfugt.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2019
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 187200

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband