Sælkeraveisla í Sauðlauksdal

20170913_174054 

Um þessar mundir, er engu líkara en ég sitji föst í 18. öldinni, hver bókin af annarri sem ég les , tilheyrir  henni að hluta til að minnsta kosti.

Lifandi lífslækur, Skúli fógeti og nú síðast;

Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferðir og GESTAKOMUR Í SAUÐLAUKSDAL eftir Sölva Björn Sigurðsson.

Hún fjallar um síðustu ár Björns Halldórssonar  í Sauðlauksdal (fæddur 1724, dó 1794).

Hún kom út 2011 og einhverra hluta vegna varð ekki af lestrinum fyrr en nú. Þó stóð alltaf til að lesa hana enda þekki ég dálítið til Björns Halldórssonar og veit  að  Sölvi Björn skrifar frábæran texta.

Fyrst langar mig til að greina frá því, hvað ég veit um Björn Halldórsson og hvers vegna.

Á mínum námsárum  lásu verðandi stúdentar bók  sem hét Sýnisbók íslenskra bókmennta til miðrar átjándu aldar sem Sigurður Nordal og fleiri ritstýrðu. Í þeirri bók var ljóð, sem ég lærði utan að án þess vita af því. Þetta ljóð var Ævitíminn eyðist (sjá í lok pistils) af einhverjum ástæðum fer ég stundum með þetta ljóð fyrir sjálfa mig. Í því er lífsspeki sem hentar mér. Og svo lærði ég að sjálfsögðu eitthvað um hann í Íslandssögunni, því hann var frumkvöðull í  ræktun síns tíma og bóndadóttirin, ég, var opin fyrir búvísindum. Og svo var okkur kennt að hann hefði fyrstur ræktað kartöflur á Íslandi. Það er reyndar rangt því það gerði norskur maður, Hastfer barón á Bessastöðum.

En bók Sölva er ólík sagnfræðinni sem ég kunni. Hún gerist í hugarheimi Björns eftir að hann var orðinn gamall og blindur (þó yngri en ég og líka hálfblind, því hann lést 69 ára). Í sannleika sagt veit maður ekkert um hvað af þessum áformum hans eru órar eða hreinn skáldskapur. En höfundur bókarinnar, skáldið Sölvi Björn, gætir þess þó vel að allt er það innan ramma þekkingar og tíðarramma Björns í Sauðlauksdal. Frásögnin er í senn sorgleg og skopleg.

Og af því ég er nú orðin nær ólæs nýt ég bókarinnar í boði Hljóðbókasafns Íslands. Það er Hjalti Rögnvaldsson sem les. Já það er gott að lifa ekki á átjándu öld.

Eftir að hafa hlýtt á bókina leita ég upplýsinga um Björn á Wikipediu (get stækkað textann með ipaddinum). Já, það hafa orðið framfarir. Ég kemst að því að Björn Halldórsson var strangur og gerði kröfur  til sóknarbarna um kvaðavinnu í þágu „ræktunaráráttunnar“ sinnar  og að hann dæmdi vinnumann sinn til setu í gapastokk, vegna þess að hann sýndi honum ekki fulla virðingu.

Já, hann var barn síns tíma eins og það heitir. Hvað verður sagt um okkur sem finnst eðlilegt að launafólkið sem stuðlar að velsæld okkar með vinnu  að ferðaþjónustu og hugsar um eldra fólk á hjúkrunarheimilum, geti ekki náð endum saman um hver mánaðarmót?

 

Ævitíminn eyðist,

unnið skyldi langtum meir.

Síst þeim lífið leiðist,

sem lýjist þar til út af deyr.

Þá er betra þreyttur fara að sofa,

nær vaxið hefur herrans pund,

en heimsins stund

líði í leti og dofa.

 

Eg skal þarfur þrífa

þetta gestaherbergi.

Eljan hvergi hlífa

sem heimsins góður borgari.

Einhver kemur eftir mig sem hlýtur.

Bið eg honum blessunar

þá bústaðar

minn nár í moldu nýtur.

Ps myndin er mín.

Ég sótti kvæðið á netið til að spara mér að slá það inn. Nafn Hastfer baróns á Bessastöðum er sótt til Vísindavefsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband