Brotamynd

00993209-7CE2-49C0-9F82-299A8FBCF76A

Brotamynd
Stundum tekur fræðimaðurinn Ármann Jakobsson sig til og semur „venjulegar“ bækur. Ég hef lesið Vonarstræti, Glæsi og Síðasti galdrameistarinn, sem er barnabók. Þessar bækur eru hver með sínu móti svo það er í raun erfitt að festa fingur á hvers konar höfundur Ármann Jakobsson er. Það hefði því ekki átt að koma mér á óvart að sagan Brotamynd væri sérstök bók. Ég held að ég hafi verið að vona að hún líktist Vonarstræti.
Ung blaðakona, fær það verkefni að skrifa bók um hina róttæku Herdísi Pálsdóttur sem hefur verið brautryðjandi á mörgum sviðum og er nú látin. Það sem virðist hafa kveikt hugmynd ritstjórans sem úthlutaði blaðakonunni ungu verkefninu að skrifa ævisöguna, er það undarlega uppátæki Herdísar er að hún arfleiðir vandalausan bandarískan ungling. Þetta vakti forvitni, því enginn vissi hvernig þau tengdust.
Blaðakonan sem er menntuð í þjóðfræði, tekur verkið að sér og hefst handa við að taka viðtöl við fólk sem þekkti Herdísi vel.
Og ég sem kunni svo vel við Vonarstræti bíð spennt eftir ævisögunni sem svarar ekki bara spurningunni um arfinn, heldur færi mér heillega mynd af þessari merkilegu konu.
Ég varð fyrir vonbrigðum, í hverju viðtali sem blaðakonan tekur, birtist ný kona. Og blaðakonan sem tekur að sér þetta gæluverkefni ritstjórans, er full efasemda. Hana langar til að skilja þessa konu, sjá heiminn með hennar augum og finna hvernig henni leið,vera hún, þó það væri bara andartak.
Smám saman geri ég mér grein fyrir að þetta er alls ekki ævisaga, þetta er saga um að skrifa slíka sögu. Blaðakonan og viðmælendur hennar eru ekki síður söguefni og e.t.v. forsenda þessa að skilja það sem þau hafa að segja. Blaðakonan efast margoft um að það sé yfirleitt hægt.
Loks var ég komin þangað í lestrinum að ég hafði ekki síður áhuga á þessari ungu konu, sem var frökk á yfirborðinu og tjáði sig á twitter (sem ég kann ekki) en undirniðri var hún óörugg og sjálfsmyndin í molum.
Hún er einhver konar táknmynd nútímakonu, sem er búin að sigra karlmennina og heiminn en stendur á berangri, þar sem ekkert skjól er í sjónmáli. Mig langar mikið til að henni lukkist með verkefnið, því það myndi styrkja hana, minnka óöryggið. Kannski getur hún þá hætt að láta ömmu sína fara í taugarnar á sér. En amman er líklega eina manneskjan sem elskar hana í raun. Mér finnst amman líka áhugaverð og finnst eins og ég kannist við hana. Aftur á móti hef ég hina mestu skömm á ritstjóranum og vona að hún losi sig sem fyrst við hann út úr lífi sínu.
Þetta eru sem sagt margar sögur og lesandinn situr uppi með að hafa látið plata sig. Eða sættir sig við að hafa fengið verðuga lexíu, áminningu um að það er ógjörningur að íklæðast hugsunum annarra. Hvað þá tilfinningum.
Síðasti kaflinn gefur mér þó von. Mér finnst sem blaðakonan sé í þann veginn að ná utan um verkefni sitt. Í þessum kafla er hún allt í einu hætt að vera miðpunktur. Í staðinn er sagt frá gamalli konu sem tekur strætó í Mjóddinni. Hún er komin á þann aldur að það tekur enginn eftir henni.

Lokaorð og líklega aukaatriði

Umræða um kynlíf í bókinni fór í taugarnar á mér. Það var opið og um leið yfirborðslegt. Það er sjálfsagt engin tilviljun að það er á þann veg, það er dæmigert fyrir yfirborðslegt líf ungu konunnar sem lengst af er í forgrunni. Ég þoli klám ömmunnar betur, hún minnir mig á ónefndar frænkur mínar. Reyndar snerti þetta mig svo lítið að þetta hefðu alveg eins verið lýsingar á krossfit. 


Flensu lestur: Leif G.W. Persson

 

imageÞað væri illa farið með góðar bókmenntir að lesa þær meðan flensan herjar. En eitthvað verður maður að lesa til að hafa ofan af fyrir sér og það verður að vera krassandi til fanga hug manns svo maður hætti að vorkenna sjálfum sér.
Kan man dö tvo gånger (2016) eftir Leif G.W.Persson var rétta bókin.
Þetta er ein af bókum Perssons með Bäckström lögregluforingja í aðalhlutverki.

Bäckström lögregluforingi, er afar ógeðfelld persóna.
Hann kallar besefann á sér súpersalami,annast um hann eins kæran félaga.
Hann er gjörspilltur og hikar ekki við að misnota aðstöðu sína þegar færi gefst, hann er húðlatur og ekki treystandi fyrir horn. Þá sjaldan sem Bäckström mætir í vinnuna býr eitthvað einkahagsmunalegt undir. En hann, það er að segja teymi, sem hann stýrir skorar hátt í því að leysa morðmál.


Það er nefnilega eitt í sambandi við afspyrnulélega yfirmenn sem allt of lítill gaumur er gefinn. Einmitt vegna þess að þeir eru óhæfir um að stjórna, spretta fram duglegir starfsmenn og oft snillingar. Þeir gera það sem þarf og á endanum situr yfirmaðurinn uppi með heiðurinn og fagnar.

Bókin hefst á því að granni hans, litli Edvin hringir á dyrabjöllunni og leitar ráða hjá honum. Hann hefur fundið hauskúpu á lítilli ey í Mälaren.Viðkomandi hefur verið skotinn. Með nútíma rannsóknartækni tekst að finna DNA en vandinn er að sú, þetta er kona fórst á Tælandi í Suami flóðbylgjunni, lík hennar fannst og var brennt. Það vaknar því spurningin, er hægt að deyja tvisvar. Hið góða rannsóknarteymi Bäckström fer á fullt.
Þessi saga er eins og kennslubók í rannsóknarvinnu. Hvað er hægt að sanna og afsanna. Person er þarna á heimavelli því hann er menntaður afbrotafræðingur og prófessor með meiru.
Það þarf sjálfsagt ekki að taka það fram, að auðvitað deyr maður bara einu sinni.
Það er gaman fyrir Svíavini að lesa bækur Leifs G.W. Persson. Hann skrifar gullaldarsænsku er bæði ósvífinn og kaldhæðinn.


Þó ég hafi hina mestu skömm á Bäckström lögregluforingja, hef ég lúmskt gaman af því þegar sagt er frá matarvali hans. Hann er hinn mesti sælkeri og raðar í sig alls konar lostæti. Lesandinn fær vatn í munninn. Þetta er engin Hemsley- systra eldamennska!



Úti að aka

8E154B6D-EF94-44E4-9654-A5D09F0FB1B3

Eg er búin að liggja í flensu en veikindin sitja enn í mér. Mér finnst allur matur smakkast eins og tveggja daga kaldur hafragrautur, drykkir eins og upppvottavatn, bækur sem ég les óáhugaverðar og öll umræða í fjölmiðlum óhemjuvitlaus. 

Ég ætla að tala um fjölmiðlaumræðu. Ég held að það sé nú búið að ræða um aksturskostnað þingmanna á fimmtu viku og enn er það aðalfrétt. Umræða um heilbrigðismál hefur eins og gufað upp ef undan er skilin umræða um umskurn sveinbarna, sem við fáum fréttir af í hverjum fréttatíma. Jarðskjálftar á Skjálfanda gefa smávon um tilbreytingu en engum, ekki einum einasta, dettur í hug að spyrja út í hvort það hafi ekki verið mistök að leggja út í uppbyggingu stóriðju á Bakka. Hvað þá um hvort þessar hræringar gætu sett strik í reikninginn.  Það er eins og það hafi slokknað á hugsuninni. Mér sýnist að bilunin sé víðtæk.

Er það út af flensunni sem mér finnst allt ömurlegt? Einu sinni í gamla daga, meðan veröldin fékk enn að vera dularfull, las ég um það, að ástæðan fyrir því að Agatha Christie týndist um skeið, hvarf, hafi verið að hún þjáðist af þunglyndi eftir slæma inflúensu. Ég trúi þessu vel núna, þótt það hafi reyndar komið fram aðrar skýringar.

Það eina sem hefur glatt mig í veikindum mínum er grein Pavels Brtoszek Einföld lausn á  umferðarvandanum í Fréttablaðinu um vannýtta vegi og vegslóða. Hún er reyndar svo skemmtileg að ég hlæ innvortis, gleðst, í hvert skipti sem ég hugsa um hana. Það besta við þessa grein var þó að hann minntist ekki á akstur alþingismanna og nefndi ekki Ásmund Friðriksson á nafn. 

Flensan er búin og nú veit  ég ekki hvort ólyst mín á mat og óánægja mín með innihaldsleysi frétta séu eftirköst eða raunveruleiki. Ég bíð eftir því að ýtt verði á rofann sem stýrir því að þjóðin hugsi. Að kerfið fari í gang. 

Dökkur dill. Mynduna tók höfundur 

 

 


Góðar Bækur: Svetlana Alexievich og Sovét

imageÓsjálfrátt hefur maður komið sér upp flokkunarkerfi og talar um að bók sé góð eða vond án þess að velta því mikið fyrir sér. Rétt eins og maður sé að tala um matinn eða veðrið.  

Ég veit að smekkur fólks er ólíkur og tala því einungis að út frá mér og mínum smekk. Ég ætla að skrifa um bók Svetlönu Alexievich. Bókin heitir á ensku Second-Hand Time: The Last of the Soviets. Ég hlustaði á hana á ensku.  Svetlana er af blönduðu þjóðerni, móðir hennar var frá í Úkraníu en faðirinn frá Hvíta Rússlandi þar sem hún ólst upp. En fyrst og fremst var hún sovétborgari og hefur skrifað allar sínar bækur á rússnesku.

Ég er svona lengi að koma mér að efninu, af  því ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari bók. Það er langt síðan ég byrjaði á henni og margoft tók ég aðrar bækur fram yfir og setti hana í bið. Ástæðan var að hún er bæði þung og það tekur á mann að hlusta endalaust á raunalegar frásagnir fólks af lífi sínu. Oft algjört vonleysi.

Bókin er er eins og aðrar bækur Svetlönu byggð á viðtölum hennar við fólk. Í þetta skipti fléttar hún saman ótal frásögnum fyrrverandi Sovétborgara um vonir og vonbrigði með hrun heimsveldis, föðurlands þeirra. Og það er ekki bara verið að tala um væntingar, margar frásagnirnar segja frá átakanlegum aðstæðum fólk, sem missir viðurværi sitt og borgaraleg réttindi og er sett út á kaldan klakann. Sumir harma gamla Sovét, aðrir eru vonsviknir, héldu að að frelsið myndi leiða til betra lífs en finnst nú að þeir hafi verið sviknir, finnst að landinu þeirra hafi verið stolið. 

Bókin hefst á sögulegum inngangi og svo taka viðtölin við. Fólkið sem hún talar við hefur ólíka sögu að segja og Svetlana vefur  þetta saman í eina heild. Það eru engir bjartir litir í þeirri voð.

Þetta var sem sagt jólalesningin mín. Ég vissi  að hverju ég gekk, því ég hef áður lesið eina bók eftir Svetlönu. Bókina um ungu konurnar sem fóru í stríð til að bjarga fósturjörðinni (bókin heitir á sænsku Kriget har inget kvinnligt ansikte). 

Er nema von að ég velti fyrir mér hvort það sé hægt að tala um að bók sé góð ef hún tekur svo á mann að maður kvíðir lestrinum? En þessi bók skilur mikið eftir, kannski er það betri mælikvarði en að velta fyrir sér hvort bók sé góð eða vond.

Svetlana fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2015 en bækur hennar hafa ekki verið þýddar á íslensku. Mér finnst það miður, því það væri fengur í því fyrir íslenskar bókmenntir að hafa betri aðgang að henni því verk hennar eru sérstök. Meira að segja svo sérstök að um það er deilt hvort þau eigi að flokkast sem bókmenntir eða blaðamennska. Reyndar finnst mér að þau hafi líka mikið pólitískt gildi, því hún sýnir svo ótvírætt að pólitík snýst um fólk. Líf fólks. 

Þótt lestur þessarar bókar væri erfiður og sæktist mér seint, mun ekki líða á löngu áður en ég verð mér út um næstu bók eftir Svetlönu Alexievich, hún hefur fundið sérstaka leið til að vera milliliður fólks, sem bæði hefur skoðanir og frá miklu að segja. 

Bók sem skilur mikið eftir hjá lesanda sínum er góð bók.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband