Bókin og myndin: Svanurinn

9A37B6E0-92BE-47FD-A0DC-974505D89B49

Um leið og ég ákvað að sjá kvikmyndina Svaninn, ákvað ég að endurlesa bókina. Ég hafði lesið hana árið sem hún kom út og það sem eftir sat var undarleg blanda af ónotatilfinningin og fegurð. Endurlesturinn nú var aðeins til að magna enn þessa tilfinningu. 

Bókin er stutt en ég var samt ekki nema rétt hálfnuð þegar ég sá myndina. Ég var ákveðin í að blanda ekki saman bók og mynd en það breytti því ekki að ég bar þessi tvö verk saman í huganum. 

Bókin segir frá níu ára gamalli stúlku sem er send í sveit vegna þess sem hún hefur gert, sveitin á að gera henni gott, hjálpa henni að þroskast. Vitneskja lesandans um það sem gerðist og gerist er fastbundinn hugarheim stúlkunnar, hann veit ekkert meira en hún og sér heiminn með hennar augum eins og hún túlkar hann. Hún er hugmyndaríkur krakki, sem spinnur upp sögur og draumar hennar, hvort sem er í vöku eða draumi, blandast  veruleikanum. Útkoman úr þessu er vægast sagt ónotaleg. Á móti kemur að stúlkan skynjar djúpt fegurðina, sem birtist henni í ótal myndum. Á meðan ég las fann ég fyrir óþoli yfir að vera fastreyrð við heim stúlkunnar og langaði að sjá út fyrir hann, sjá það sem raunverulega gerðist.

Myndin

Um leið og myndin kemur sýn stúlkunnar vel til skila, rýfur hún dulúð hún dulúð sögunnar, nú er það ekki bara stelpan sem sér og túlkar. Við gerum það líka. Um leið verður ónotatilfinningin bærilegri. 

Á meðan ég horfði á myndina velti ég fyrir mér hvort það væri betra eða verra og komst að því eins og alltaf að bókin og myndin væru aðskilin listaverk. 

Myndin er frábær. Ég þurfti að hlusta á eintal manns fyrir aftan mig sem af og til lýsti því yfir að þetta væri nú of hæggengt fyrir sig, það vantaði fúttið, um leið og hann lét skrjáfa í popkornpoka. Ég hugsaði honum þegjandi þörfina.

Þegar ég  kom heim lauk ég við bókina um Svaninn og hugsaði um myndina.

Myndin er af sóleyjarbreiðu frá liðnu sumri 

 

 


Arv og miljø: Vigdis Hjorth

65F9D8E9-05D1-4A30-A999-F8F236ABD7BF

Síðastliðinn þriðjudag fór ég á höfundakvöld í Norræna húsinu til að hlusta á Vigdis Hjorth tala um bók sína Arv og milljø, sem var tilnefnd af Norðmönnum til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ég hafði áður lesið eina bók eftir Vigdis, Tretti dagar í Sandefjord og var forvitin. Sú bók byggði á hennar eigin reynslu, þegar hún þurfti að sitja í fangelsi fyrir ölvunarakstur. 

Sunna Dís Másdóttir stýrði kynningunni í Norræna húsinu og fórst það einkar vel úr hendi. Vigdís er lífleg kona og meira en reiðubúin til að segja frá sér og verkum sínum. 

En ég fór ekki tómhent heim! Mér hugkvæmdist nefnilega í hléinu að kanna hvort bókasafnið væri opið og hvort bókin væri til og til útláns. Og sú var reyndin, meira að segja á diski, upplesin af höfundi. Nú hef ég lokið því að hlusta og er hugsi. 

Hvað er sannleikur og hver á hann?

Bókin, Arv og miljø segir frá Bergljot, sem er gagnrýnandi. Saga hennar er rakin í gegnum hugleiðingar hennar eftir að hún fréttir af veikindum móður sinnar og síðar föður.

Móðir hennar hefur tekið inn “overdos” og jafnar sig, faðir  hennar hefur dottið í stiga og er í öndunarvél. Fjölskyldan kemur saman og tekur ákvörðun um líf hans eða öllu heldur dauða. Nema Bergljot.

Bergljot hafði ekki haft samskpti við fólkið sitt í þrjátíu ár. Hún trúir því að faðir hennar hafi misnotað hana sem barn og vill að hann biðjist fyrirgefningar. Hann þrætir fyrir þetta og fjölskyldan velur að trúa honum. Bergljot heldur að afstaðan þeirra mótist fyrst og fremst af  hvað sé þægilegast fyrir þau, þeim sé sama um sannleikann.

Saga fjölskyldunnar birtist brotakennt, það er lesandans að raða þeim saman og rýna í myndina og afgera hvað raunverulega gerðist.  Tekur hann afstöðu með Bergljot eða fjölskyldunni? Stundum fær lesandinn á tilfinninguna að Bergljot sé sjálf óörugg um hvað raunverulega gerðist. Hún veit að það er eitthvað mikið að og minningarnar sem hún byggir á hafa komið til hennar í erfiðri viðtals-meðferð hjá sálfræðingi. 

Í Noregi olli bókin uppnámi. Systir höfundarins, Helga Hjorth, ásakaði Vigdis fyrir að ráðast á fjölskyldu sína og sérstaklega hana og sverta minningu föður þeirra. Hún segir að Vigdis noti raunverulega atburði úr lífi fjölskyldunnar. Fyrst gagnrýnir hún hana opið í fjölmiðlum og loks skrifar hún aðra “fjöskyldusögu”. Báðar þessar bækur hafa rokselst. 

Nú þegar ég er búin með bókina sit ég eftir með óþægilega tilfinningu um að ég hafi óvart þvælst inn í fjölskyldudeilu. Það truflar mig að vera stöðugt að velta fyrir mér hvort það sé Bergljot eða Vigdis sem ég á að hafa samúð með.

Það er eitthvað verulega ónotalegt við þessa frásögn. Hún vakti ekki bara upp spurningu um hvort óljósar minningar Vigdis væru sannar, heldur líka spurningu um raunverulegt innihald deilu þessa fullorðna og að því er virðist vel stæða fólks um arf sem það hafur enga þörf fyrir. Er hlutdeild þeirra í arfinum, táknræn fyrir ást foreldranna?

En Norðmenn eru ekki óvanir því að rithöfundar skrifi bækur sem byggja á þeirra eigin lífi. Karl Ove Knausgård gerði það opið í bókum sínum, Min kamp. Hann breytti ekki nöfnum en það gerir Vigdis Hjorth engu að síður fannst mér erfiðara að lesa hennar bók. 

 


Borgarlínan: Draumur

EAE98597-E474-4C32-8F91-81A0C2D9A7AA

Mér fannst ég vera stödd vestur í bæ, hafði mælt mér mót við vinkonu mína sem býr þar, við höfðum sammælst um að fara saman á kaffihús. Við vorum þegar draumurinn hófst, staddar á Hofsvallagötu, ekki langt frá Vesturbæjarlaug. Ég hafði heyrt af kaffihúsi, sem tengdist á einhvern hátt Gísla Marteini og stakk upp á því að við færum þangað, en þangað hafði ég aldrei komið.

Nei, Bergþóra, segir vinkona mín, nú ertu alveg úti að aka. Við förum á kaffihúsið í Borgarlínunni, og bendir í átt að Nesvegi. Áður en tími var fyrir frekari útskýringar sá ég hvar eitthvert stórt farartæki á hjólum kom brunandi. Það staðnæmdist örskotslengd frá okkur. Ég vissi bara ekki um þetta, segi ég og skammaðist mín í leyni fyrir að hafa ekki fylgst betur með umræðunni. Ég tek það fram hér að ég er mikil áhugamanneskja um samgöngur, ekki síst almenningssamgöngur. Farartækið var gríðarstórt, margir samtengdir vagnar á hjólum, kaffihúsvagninn var tveggja hæða og hægt að ganga upp í hann beint af götunni. Og það gerðum við. Hún (Borgarlínan) fer hring um austurborgina og Kópavog og það passar alveg fyrir okkur, við getum svo farið úr hér, sagði vinkona mín.

Þetta var sem sagt draumur. Tilfinningin á bak við drauminn, en draumtilfinning skiptir miklu máli ef rýnt er í drauma, var notaleg. Ég hlakkaði til þessarar kaffihúsaferðar en draumurinn  varaði ekki lengur.

Síðan mig dreymdi drauminn hef ég af og til reynt að ráða í merkingu hans. Reyndar er ég þeirrar trúar að draumar fólks segi oftast meira um hugarástand þeirra sjálfa en framtíðina og framvindu mála. Ekki hefur mér þó tekist að tengja þennan draum við neitt í fortíð minni eða væntingum. En síðan þessi draumur var dreymdur, hef ég fylgst betur með öllum fréttum um Borgarlínuna. Mér þykir miður hvað umfjöllun er oft neikvæð og einkennist af alls kyns hrakspám en aðallega þó íhaldssemi.    

 Lokaorð.

Ég læt þessa frásögn af draumi flakka þó að það sé niðurstaða rannsókna að sjaldnast takist að segja draum svo vel sé. Fólki leiðist draumar annarra. Kannski er það einmitt það sem er líkt með draumi og framtíðarsýn. Fólki leiðist hún, það er svo erfitt að koma henni til skila svo vel sé.

Myndin er af gangstétt í Berlín

 


Sóleyjarsaga: Elías Mar

F6896175-A668-4104-BE56-B627B9CA715DSóleyjarsaga
Ég hafði aldrei lesið Sóleyjarsögu og skammast mín fyrir að segja frá því. En ég var svo heppin að ég kynntist Elíasi Mar.


Sóleyjarsaga segir frá fjölskyldu sem býr í bragga á Skólavörðuholtinu, þar sem nú er Hallgrímskirkja. Þau berjast í bökkum því það er litla vinnu að fá og auk þess er fjölskyldufaðirinn drykkfelldur ofbeldismaður. Elsti sonurinn, Eiður Sær er með skáldadrauma og fluttur að heiman. Sóley, aðalpersóna sögunnar er 18 ára og yngsta barnið, Sólvin litli, er kominn að fermingu.
Þó Sóleyjarsaga hverfist í kringum Sóleyju og sé hennar saga, er sagan um leið saga þorpsins Reykjavíkur , sem rembist við að verða borg, eins og unglingsgrey sem vill vera tekinn í tölu fullorðinna. Þetta er líka síðast en ekki síst samtímasaga, saga tíðaranda.
Það sem heillar mig þó mest við þessa bók, er frásagnarmátinn. Elías beitir þeirri aðferð að það skiptast á kaflar sem eru svo vel skrifaðir, að þeir minna á ljóð og upplýsandi kaflar, sem líkjast um margt góðri blaðamennsku. Mestu máli skiptir þó að hann hefur vald að galdra fram þá blekkingu að lesandanum finnst hann þekkja þetta fólk og þetta umhverfi. Ég byrjaði að lesa bókina áður en ég lagði í langferð, lauk fyrra bindi á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll. Ég hlusta á bækur, les ekki, því gat ég ekki tekið bókina með mér. Mitt fyrsta vek, þegar ég kom í flugrútuna, komin úr langferð, var að sækja seinna bindið í Hljóðbókasafnið og halda áfram að hlusta.


Það sem einkennir stíl Elíasar eru þurrar hlutlægar lýsingar, lesandinn fær að fylgjast með því sem gerist eins og í gegnum augu og hugskoti persónanna. Þannig er lesandinn frjáls að því að taka afstöðu, láta sér líka vel eða illa. Í köflunum þar sem mér finnst líkjast blaðamennsku, fer höfundur í fræðarahlutverkið og fellir dóma. Þarna kunni ég síst að meta hann. Ég velti því t.d. fyrir mér hvort persónan Erlendur Mikjáll eigi nokkurt erindi í bókinni. Þó má e.t.v. segja að þarna hafi birst einna greinilegast mynd af aldarhættinum og ólíkum hugmyndum manna um rétt og rangt og hver bar hina raunverulegu ábyrgð á hörmungum mannanna.

Ég var sem sagt heilluð af þessari bók,bý enn að hluta til í bragganum, horfi á Sóleyju laga kjólana sína til að eltast við tískuna, hlusta á stunur veiku konunnar, móður hennar, og hef áhyggjur af handritinu sem aldrei var skilað til skáldsins. Mér er kalt. Það skýrist af svellinu undir gólfinu.


Sóleyjarsaga kom út í tveimur bindum, það fyrra kom út 1954 og það síðara 1959.
Það fór ekki hjá því að mér varð oft hugsað til Uglu í Atómstöðinni þegar ég las um Sóleyju. Hvernig er varið skyldleika þessara kvenna?
Atómstöðin kom út 1948 ef mér skjátlast ekki.

Þótt það væri yfirlýstur tilgangur Elíasar að kryfja samtíð sína og leggja sitt að mörkum til að breyta henni er fjölmargt í þessari bók sem talar beint inn í okkar eigin samtíð. Bara ef við leggjum við hlustirnar.


Takk Elías.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2018
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 186937

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband