Góðar Bækur: Svetlana Alexievich og Sovét

imageÓsjálfrátt hefur maður komið sér upp flokkunarkerfi og talar um að bók sé góð eða vond án þess að velta því mikið fyrir sér. Rétt eins og maður sé að tala um matinn eða veðrið.  

Ég veit að smekkur fólks er ólíkur og tala því einungis að út frá mér og mínum smekk. Ég ætla að skrifa um bók Svetlönu Alexievich. Bókin heitir á ensku Second-Hand Time: The Last of the Soviets. Ég hlustaði á hana á ensku.  Svetlana er af blönduðu þjóðerni, móðir hennar var frá í Úkraníu en faðirinn frá Hvíta Rússlandi þar sem hún ólst upp. En fyrst og fremst var hún sovétborgari og hefur skrifað allar sínar bækur á rússnesku.

Ég er svona lengi að koma mér að efninu, af  því ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari bók. Það er langt síðan ég byrjaði á henni og margoft tók ég aðrar bækur fram yfir og setti hana í bið. Ástæðan var að hún er bæði þung og það tekur á mann að hlusta endalaust á raunalegar frásagnir fólks af lífi sínu. Oft algjört vonleysi.

Bókin er er eins og aðrar bækur Svetlönu byggð á viðtölum hennar við fólk. Í þetta skipti fléttar hún saman ótal frásögnum fyrrverandi Sovétborgara um vonir og vonbrigði með hrun heimsveldis, föðurlands þeirra. Og það er ekki bara verið að tala um væntingar, margar frásagnirnar segja frá átakanlegum aðstæðum fólk, sem missir viðurværi sitt og borgaraleg réttindi og er sett út á kaldan klakann. Sumir harma gamla Sovét, aðrir eru vonsviknir, héldu að að frelsið myndi leiða til betra lífs en finnst nú að þeir hafi verið sviknir, finnst að landinu þeirra hafi verið stolið. 

Bókin hefst á sögulegum inngangi og svo taka viðtölin við. Fólkið sem hún talar við hefur ólíka sögu að segja og Svetlana vefur  þetta saman í eina heild. Það eru engir bjartir litir í þeirri voð.

Þetta var sem sagt jólalesningin mín. Ég vissi  að hverju ég gekk, því ég hef áður lesið eina bók eftir Svetlönu. Bókina um ungu konurnar sem fóru í stríð til að bjarga fósturjörðinni (bókin heitir á sænsku Kriget har inget kvinnligt ansikte). 

Er nema von að ég velti fyrir mér hvort það sé hægt að tala um að bók sé góð ef hún tekur svo á mann að maður kvíðir lestrinum? En þessi bók skilur mikið eftir, kannski er það betri mælikvarði en að velta fyrir sér hvort bók sé góð eða vond.

Svetlana fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2015 en bækur hennar hafa ekki verið þýddar á íslensku. Mér finnst það miður, því það væri fengur í því fyrir íslenskar bókmenntir að hafa betri aðgang að henni því verk hennar eru sérstök. Meira að segja svo sérstök að um það er deilt hvort þau eigi að flokkast sem bókmenntir eða blaðamennska. Reyndar finnst mér að þau hafi líka mikið pólitískt gildi, því hún sýnir svo ótvírætt að pólitík snýst um fólk. Líf fólks. 

Þótt lestur þessarar bókar væri erfiður og sæktist mér seint, mun ekki líða á löngu áður en ég verð mér út um næstu bók eftir Svetlönu Alexievich, hún hefur fundið sérstaka leið til að vera milliliður fólks, sem bæði hefur skoðanir og frá miklu að segja. 

Bók sem skilur mikið eftir hjá lesanda sínum er góð bók.


Bloggfærslur 9. febrúar 2018

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 186936

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband