Cranford: Ferðalag til baka í tímanum

image

Eftir að hafa lesið Ruth, gat ég ekki slitið mig frá Elisabeth Cleghorn Gaskell (1810 - 1865). Í allri umfjöllun um hana er mælt með Cranford sem hennar bestu bók svo ég valdi Cranford. 

Cranford er allt öðru vísi saga en Ruth. Í fyrstu er eins og það sé engin aðalpersóna og framvinda sögunnar er afar hæg. Ég hlusta meðan ég skokka og ég skokka hægt svo þetta passar mér ágætlega, hugsa ég, og skokka áfram. Smám saman næ ég sambandi við lífið í Cranford.

Sögumaðurinn, Mary Smith, er gestur í bænum Cranford og lýsir lífinu þar sem hún sér með gestsauga, sýnist mér. Og þó, hún lifir sig kannski of mikið inn í það sem er að gerast. Það sem gefur frásögninni undarlegan blæ, er að maður veit svo lítið um Mary annað en að hún er ekki heimamaður í Cranford. 

Lífið í Cranford stendur kyrrt. Fólkið sem býr þar lifir af litlum efnum, en þetta eru þó ekki fátæklingar í bókstaflegum skilningi, heldur miðstéttarfólk sem berst í bökkum við að lifa miðstéttarlífi. Ég var nokkra stund að átta mig á að söguþráðurinm liggur aftur á bak en ekki áfram. Ævintýrin hefðu getað gerst en urðu ekki. Sorglegt. 

Persónur eru vel dregnar og trúverðugar og lífsháttum fólks er svo vel lýst, að það er eins og maður sé gestur á blönku miðstéttarheimili, eins og sögumaðurinn. Ég kann ekkert að haga mér innan um þetta fólk. 

Bókin kom út á árunum 1851 - 1853 sem stakar sögur eða þættir í tímariti. Síðar voru þessar frásagnir gefnar út sem bók. Það var því ekkert skrýtið að ég ætti erfitt með að skynja framvindu. 

Eftir þessari sögu hefur verið gerð þáttaröð sem ég brenn í skinninu að útvega mér. Og svo langar mig að fara á slóðir frú Gaskell og skoða húsið í Manchester,  sem hún skrifaði í síðari hluta rithöfundarferils síns. 

Það verður nóg að gera. 

Myndirnar eru fengnar að láni á Wikipedíu.

image

 

 


Tilvistarlegar vangaveltur Einars Más Guðmundssonar

 Hundadagar:Einar Már Guðmundssonimage

Ég las ekki bókina, heldur hlustaði ég á Einar Má lesa hana. Ég er nefnilega farin að sjá verr, telst lögblind. Þess vegna hef ég aðgang að Hljóðbókasafninu. Ég er heppin. 

Reyndar finnst mér í flestum tilvikum skemmtilegra að lesa en hlusta en það þýðir svo sem ekkert að vera að velta þessu fyrir sér. En í þessu tilviki er þetta lán í óláni, því það er svo gaman að heyra Einar lesa eigin texta. Reyndar er ekki eins og hann sé að lesa, það er eins og hann sé að tala við mann. Stundum langar mig til svara, leggja orð í belg.

Einar er að velta fyrir sér heimspekilegum og tilvistarlegum spurningum, sem maður veit að það eru ekki til svör við. Það er samt óhjákvæmileg nauðsyn að spyrja. 

Það mætti líka segja að Einar sé að velta fyrir sér gangi sögunnar í ljósi nokkurra einstaklinga, skoða hvernig örlagaþræðirnir liggja og fléttast saman. 

Aðalpersóna þessarar sögu er Jörundur Hundadagakonungur. Hann er lykillinn. Jörundur, þessi draumóramaður, hann er veiklunda en snjall. Honum er borið á brýn að vera lýðræðissinni og byltingarmaður en er sjálfur fangi eigin lasta, spilafíknar og áfengissýki. Í lífinu er hann oft með góð spil á hendi en hann spilar illa úr þeim. Aðrar persónur sem Einar leiðir fram, eru Jón Steingrímsson eldklerkur og Finnur Magnússon leyndarráð með meiru. Og svo auðvitað stúlkurnar Guðrún Einarsdóttir Johnsen og Nora Corbett, konan sem hann giftist í útlegðinni.

Kannski er hægt að flokka bókina sem sögulega skáldsögu. Og ef maður les hana sem slíka, minnir tónninn í henni á Svartfugl Gunnar Gunnarssonar. Ef maður les hana sem glæpasögu, þeir eru margir glæpirnir í þessari bók, fer maður að velta fyrir sér hverjir séu mestir glæpamenn, hinir dæmdu eða stjórnvöldin sem setja lögin og framfylgja þeim. Reyndar þjónar engum tilgangi að flokka bækur, en hugurinn er alltaf að flokka.

Bækur eru til að njóta þeirra og til að spegla sig og samtíð sína í þeim.

 


Ég kveð Ruth með söknuð í hjarta: Takk frú Gaskell

image

Ég hef nú lokið við sögu Elisabeth Cleghorn Gaskell, un ungu stúlkuna Ruth Hilton. Seinn Ruth Dennigh. Þetta er ein af stóru bókunum í lífi mínu. Og auðvitað er hún frá 19. öldinni en ég dvel þar meira og meira. 

Sagan segir frá saumalærlingnum, eða réttara sagt saumaþrælum Ruth. Hún er 16 ára þegar sagan hefst, munaðarlaus sakleysingi. Með sakleysingi á ég við að hún er vel meinandi og á sér einskis ills von. Hún er trúuð, samviskusöm og afakr falleg. Aðbúnaður kvennanna á saumastofunni þar sem hún vinnur og býr, minnir á lýsingar sem við fáum nú um slíkan atvinnurekstur í Asíu. Hún kynnist af tilviljun ungum manni af hærri stigum, hann táldregur hana og svíkur síðan. En Ruth er heppinn, henni er bjargað af góðu fólki. Hjá þeim elur hún son, en af slíkar barneignir brjóta í bága við hræsnisfulla guðhræðslu Victoríutímans. Benson, sem er að vissu leyti fatlaður vegna slyss sem hann varð fyrir sem barn, tekur Ruth að sér með aðstoð systur sinnar. Benson er prestur en systir hans annast heimili þeirra. 

Velgerðarenn hennar láta hana skipta um nafn og kynna hana sem fjarskylda frænku sem hefur misst mann sinn. Þau eru bæði mjög trúuð en en andstætt tíðarandanum telja þau að fyrirgefning og hjálp séu meira í anda Krists en fordæming og útskúfun. Þetta gengur allt vel í fyrstu Ruth sem er ekki bara falleg, heldur líka vel gefin, menntast með hjálp vina sinna og fær síðan vinnu sem heimiliskennari á góðu og vel stæðu heimili. En "syndir" fortíðarinnar elta hana uppi, með hjálp slúðurbera. Fína fólkið getur ekki látið fallna konu kenna börnum sínum og Ruth missir vinnuna. 

Ég ætla ekki að rekja sögunna lengra. Hún er spennandi og falleg. Mér finnst merkilegt að lesa um fólk þessa tíma, sem hafði unun af blómum, náttúru og gönguferðum. Fólki sem talaði um rétta og ranga breytni. Fólki með tilfinningar. 

Mér verður hugsað til okkar 19. aldar höfunda Jóns Thotoddsen (f. 1818) og Torfhildar Hólm (f. 1845). Ég las mér Jón Thoroddssen til ánægju sem barn og reyndi að lesa Torfjildi en náði ekki sambandi. Kannski ætti ég að gera aðra tilraun. Hún var prestsfóttir og gift presti eins of frú Gaskel.

Það skýtur kannski skökku við að ég trúleysinginn skuli hafa gaman að lesa slíkar trúarbókmenntir. Enð trúarbrögð voru hluti af pólitík og heimspeki þess tíma og það er æfingavert. Hvað trúarbrögð standa fyrir í hinum kristna heimi veit ég ekki. Það er önnur saga.

Einar Már Jónsson sagnfræðingur sækir efni til Gaskell í bók sinni Örlagabotgin, því hún þykir áreiðanleg þegar kemur að því að lýsa samtíma sínum. 

Ég sakna Ruthar en ég hef þegar byrjað á annarri bók eftir þennan góða höfund.

Myndin er frá saumastofum þessa tíma, sótt á netið. 


Skarphéðinn í brennunni: Uppgjör hjá tannlækni

 image

Í dag þegar ég var sest í stólinn hjá tannlækninum hugsaði ég um Skarphéðin Njáls- og Bergþóruson. Það hafði ekki bara farið fylling, heldur króna og krónur tannlækna eru dýrar krónur og eiga ekkert sameiginlegt með íslensku krónunni nema nafnið. Hvað skyldi Skarphéðni hafa gengið til þegar hann hirti jaxlinn úr Þráni Sigfússyni eftir að hann klauf á honum húskúpuna niður svo sá í jaxlana, hugsaði ég. Þetta gerði hann eftir stökkið fræga, langstökk á ís, heimsmet sem enn stendur. 

Ég er nefnilega nýbúin að sjá Njálu í Borgarleikhúsinu og ég hef ekki gert upp við mig, hvað mér finnst um verkið. Ég ákvað að hugsa um Njálu og gera upp hug minn. Því hvar er betra að gera upp hug sinn, en gapandi í undur þægilegum stól á bjartri tannlæknastofu? Slakaðu alveg á sagði tannlæknirinn og brosti til mín á bak við grímuna.

Ég var ekki búin að gera upp hug minn gagnvart sýningunni og mér fannst það heigulsháttur og síst við hæfi. Njála hefur löngum verið í uppáhaldi hjá mér, og pabbi minn hafði einnig á henni mikið dálæti. Sýningin hafði fengið mikið lof en ég óttaðist að mér yrði seint gert til hæfis og var fyrirfram ákveðin að vera opin, umburðarlynd og láta mér ekki leiðast. Ég læt mér aldrei leiðast í leikhúsi. 

Á leiðinni í leikhúsi ræddum við, ég og maðurinn minn, hvaða atriði yrðu plokkuð út og notuð. Það verða ásta og kynlífsmál Unnar og Hrúts sagði ég. Og svo vona ég að það verði sagt frá gerningaþoku Svans á Svanshóli. Galdramenn eru í tísku. Lengra komumst við ekki, allt í einu erum við komin í leikhúsið og hlýðum á fyrirlestur Guðna Kolbeinssonar, þar sem hann segir okkur allt sem við vitum fyrir um Njálu. Mig langaði til að túlkun á hinu magnaða kvæði Darraðar um stríð, það myndi sóma sér vel sem ballet. Og svo myndi Gunnar í haugnum gera sig vel í leikverki. 

Og svo hófst leikritið og við vorum ekki svikin um kynlífsvandræðin. Þegar ég var spurð í hléi gat ég það eitt sagt að leikararnir eru svo sannarlega að vinna vinnuna sína. Að sýningu lokinni var ég enn óviss hvað mér fannst. Leikararnir fóru á kostum þegar þeir fengu að segja fram texta Njálu. Þá var mér skemmt. Mér var minna skemmt þegar kom að táknrænum tilburðum við að túlka söguna og spegla hana í okkar tíma. Ég er nefnilega orðin hundleið á bjórdósum og  snjallsímum í leikhúsuuppfærslum. Plastgínurnar og plastvopnin virkuðu ekki heldur fyrir mig. Ég saknaði þess að kórinn skyldi ekki syngja kvæði Hannesar Hafstein (lag Helgi Helgason), Skarphéðinn í brennunni og í staðinn syngja Brennið þið vitar eftir Davíð Stefánsson (lag Páll Ísólfson). En ég sá að aðrir skemmtu sér. 

Ég er illa skóluð í að horfa á ballet enda var ég lengi að átta mig á löngu, fyrir mig,langdregnu atriði, þar sem fólk veltist og barðist um, í að mér fannst eins og skrokkar í kjötpokum. Ég hef nefnilega unnið í sláturhúsi. Þegar ég áttaði mig á því að þarna var verið að túlka kristnitökuna skammaðust ég mín fyrir sveitamennsku mína. 

Þetta var ég allt að hugsa hjá tannlækninum og ég skildi líka dálæti Skarphéðins á jöxlunum. Hann hefur séð fyrir dýrleika þeirra þótt þeir nýttust honum aldrei á þann veg. En hann nýtti þá þó á sína vísu, þegar hann þurfti að hefna fyrir brigslyrði Gunnars Lambasonar, þegar hann spurði hann þar sem hann stóð tepptur við gaflað, hvort hann gréti. Græt ég ei sagði Skarphéðinn, en súrnar í augum og dró jaxlinn upp út pússi sínu og kastaði að Gunnari Lambasyni svo augað lá úti á kinn. 

Þegar ég var búin í stólnum, hafði ég gert upp hug minn um leikhúsverkið. Mér leiddist ekki, fannst bara of mikil læti og viðurkenndi fyrir sjálfri mér, að mér verður seint gert til hæfis þegar kemur að Njálu. Njála er ekki hástemmd bók. Menn segja hug sinn í knöppum setningum og oftar en ekki má greina það sem á útlensku kallast understatement. Fyndnin felst í því ósagða.

Þegar kom að því að borga reikninginn hjá tannlækninum, voru viðbrögð bankans við plastkortinu mínu ansi neikvæð. Það mál verður leyst og ég er ánægð með þessa dvöl mína í stólnum, því mér tókst að gera upp hug minn um Njálu. 

Bókin er betri en leikhúsverkið. Njála stendur alltaf fyrir sínu. Það mætti gera mörg leikrit eftir þeirri bók. Vonandi er þetta bara byrjunin.

 


Samhliða lestur: Einar Már Guðmundsson og Elizabeth Cleghorn Gaskell

image 

Ég lifi tvöföldu lífi. Þegar ég er úti við, hlusta ég á útlendar bækur í símanum mínum, inni hlusta ég á íslenskar bækur í Ipad. Nú vill svo til að báðar bækurnar sem ég er að hlusta á, gerast á 19. öld, önnur teygir sig þó inn í þá 18. Útlenda bókin er eftir frú Elizabeth Cleghorn Gaskell (f. 1810- d. 1865). Hún heitir Ruth (kom út 1853), íslenska bókin er eftir Einar Má Guðmundsson(1955) hún er um Jörgen Jörgenson. Hann kallar hana Hundadaga. Reyndar fjallar bókin ekki bara um líf þessa sérkennilega manns, hann speglar líf hans í lífi Jóns Steingrímssonar eldklerks. Um leið speglar hann átakasögu Jörundar í náttúruhamfarasögu Jóns. Þessir tveir menn mætast ekki í tíma og rúmi, Jón deyr 1791 en Jörundur fæddist 1780 og lést 1841. Ártöl eru mikilvæg. 

Þar sem ég er að lesa þessar tvær bækur samhliða, fer ekki hjá því að ég beri þær saman. Þær segja jú báðar frá lífi fólks á 19. öld. En heimur þessa fólk snertist ekki nema ef vera skyldi í kristilegum vangaveltum. Jón Steingrímssonar og hefur sinn starfa að þjóna Guði. Ruth hefur verið táldregin og svikin og á fárra kosta völ.  Hún er barnung og á engan að.  En hún er lánsöm. HGott fólk kemur henni til bjargar. Það er mikil trúarhlýja í þessari bók. Ég vil ekki segja trúarhiti, því öll framsetningin er hlý og yfirveguð. Guð er góður, ekki refsandi. Trúin er hjálpartæki fólksins um hvernig best sé að haga lífi sínu. "Hvað myndi frelsarinn vilja að þú gerðir" segir frú Benson þegar hún leiðbeini Ruth. Jón Steingrímsson talaði oftar en ekki við Guð í sínum vandræðum og margir trúðu því reyndar síðar að hann hafi beinlínis unnið kraftaverk og stoppað hraunstraum.   

Reyndar stóð alls ekki til að fara út í allan þennan samanburð. Það sem ég ætlaði að skrifa um, er það sem Einar Már segir. Það eru til tvenns konar bækur, segir hann. Þær sem gerast innanhúss og hinar sem gerast utanhúss. Þetta passar mér vel, mig hefur vantað þessa skilgreiningu. Bók Einars Más, Hundadagar utanhúss, saga frú Gaskell er innanhúss. Einar fer með sitt fólk á milli heimsálfa, Gaskell lætur sér nægja að ferðast með sitt fólk innan Bretlands. Það sem aðskilur þessar sögur þó meira en nokkuð annað, er að önnur gerist í kvennaheimi en hin í heimi karla. 

Mér finnst gaman að hlusta á Einar Má, en hann les bókina sjálfur, og það er eins og hann sé að tala við mann. Og ég verð að játa, að mér fannst þetta aldrei vera saga, mér fannst bara að Einar sé að spjalla um þetta fólk og þennan tíma. Ruth er aftur á móti saga, þar sem lesandinn er fluttur til í tíma og rúmi og fær nú óvænt að upplifa hvernig það er að vera barnung, fátæk,  einstæð móðir í Bretlandi á 19. öld. En Ruth er heppin, hún kynnist góðu fólki og hún er skynsöm og guð er miskunnsamur. 

Þessar hugleiðingar eru reyndar varla tímabærar, ég hef enn hvorugi bókinni lokið. En skyndilega kom sú hugsun til mín, að það er betra að skrifa um bækur meðan maður er að lesa þær, heldur en á eftir. Á meðan maður er að lesa er hugurinn á fullu, þegar lestri er lokið er málið afgreitt og hugurinn hægir á sér. 

Stundum þarf maður ekki að lesa lengi til  vita að bók sé góð. Nú er ég komin það langt í lestri beggja þessara bóka, að ég get mælt með þeim. Þær eru göðar, skemmtilegar og fróðlegar.

 

Myndin er af frú Gaskell 

 


Vesalings gamla fólkið

 image

Það er erfitt að eldast. Meira að segja svo erfitt, að það er tabú að tala um það. 

Að horfa á líkamann hrörna, skilningarvitin sljóvgast, hárið grána og þynnast, holdið slakna, liðina stirðna. Já upptalningin gæti orðið endalaus. Minnið á það til að vera stirt eins og liðirnir og jafnvel gloppótt og endalokin færast nær og nær. Það er eins gott að tala ekki um þetta, enda eins og að nefna snöru í hengds manns húsi. Þess vegna er tabúið. Það er ekki nema von að margt gamalt fólk verði dapurt. Þeir sem best standa verjast áföllum með því að segja kankvíslega með kímni í augnaráðinu um leið og þeir virkja vel æfðar broshrukkur; "Ég er nú komin á viðgerðaraldurinn". Það er létt yfir þeim. Og málið er afgreitt. 

En það er ekki afgreitt. Því miður.

En ýmislegt má nú laga með hentugum hjálpartækjum. Þá kemur á móti að öll þessi einföldu hjálpartæki (góð gleraugu og góð heyrnartæki) geta verið dýr svo ég tali nú ekki um tannviðgerðir. Hér skiptir máli að tekjur eldra fólks eru umtalsvert lægri en vinnandi fólks svo það er ekki á allra færi að veita sér nauðsynlega hluti. Af því getur hlotist einangrun. 

Þetta er ekki eins og að bregða sér með bílinn í þjónustu. Til að komast í viðgerð þarf fyrst að fara í gegnum mislangt greiningarferli en svo taka biðlistarnir við, þeir eru langir og þeir lengjast bara. 

Augnsteina aðgerð 3895

Hjarta og kransæðamyndatökur 171

Grindarholslíffæri 365

Legnám 189

Mjaðmaliðaskipti 523

Hnjáliðaskipti 844

Samtals eru 5987 manneskjur og þar af hafa meira en 80% beðið meira en þrjá mánuði. Þessar tölur eru frá því í október 2015 og teknar úr frétt RÚV (ég vona að ég fari nokkurn veginn rétt með).

Þetta eru manneskjur sem þjást og líða. Eðli málsins samkvæmt er þarna margt eldra fólk. Fókið sem er komið á viðgerðaraldurinn og reiknaði aldrei með að "verkstæðisþjónustan" yrði ekki í lagi, þegar og ef að þeim kæmi. Já það er erfitt að eldast. Og það er ekki nóg þetta það eru líka biðlistar inn á hjúkrunarheimili.

Þetta er nú orðið nokkuð langt og tvímælalaust dapurlegt. Við þurfum að vera bjartsýn og trúa á æskuna og landið. En þau eiga nú eftir að eldast og hvað skyldu þeir verða orðnir langir biðlistarnir þá? Það kemur alltaf nýtt og nýtt gamalt fólk.

Lokaorð. Það er skammdegi og svartnætti og heimurinn er fullur af döpru fólki á biðlistum, sem bara lengjast. Það eina jákvæða sem getur hjálpað, eina glætan, er Feisbók og netið. Þá getur gamalt fólk eins og ég skrifað svona greinar til að hafa ofan af fyrir sér. Biðin á biðlistanum verður bærilegri. Biðin eftir gröfinni. 

Forresten eru útfarir allt of dýrar, en það verður annarra að hafa áhyggjur af því.

Það er líka gott að kunna vísur. Jafnvel betra en Feisbók. 

Mér er orðið stirt um stef
og stílvopn laust í höndum,
í langnættinu lítið sef,
ljós í myrkri ekkert hef,
kaldur titra, krepptur gigtar böndum.

Húmar að mér hinsta kvöld,
horfi eg fram á veginn,
gröfin móti gapir köld,
gref ég á minn vonarskjöld
rúnir þær er ráðast hinumegin.


Hjálmar Jónsson frá Bólu

 

Myndin er af drullupollunum er frá því í sumar



 


Jójó: Steinunn Sigurðardóttir

image

Ég verð einhvern veginn að útskýra það, a.m.k. fyrir sjálfri mér, af hverju ég lét svo langan tíma líða, þangað til ég las Jójó, bók Steinunnar Sigurðardóttur. Bókin kom út fyrir 5 árum og ég var að ljúka við hana núna. Ég hafði heyrt að bókin væri um dapurleg efni og ég tek alltaf nærri mér að lesa það sem íslenskir höfundar skrifa um dapurleg efni, þótt ég þoli ýmislegt frá hendi erlendra höfunda. Og 2011 var ekki ár til þess, ekki hjá mér. Og svo gerist bókin ekki einu sinni á Íslandi

Bokin gerist í Berlín. Hún fjallar um tvo menn. Annar Martin Montag er læknir á besta aldri, sérfræðing í krabbameinslækningum. Hann á dásamlega vinkonu, Petru, sem hann elskar en þó er líf hans svo óbærilegt að hann er undir það búinn að hver dagur verði hans síðasti. Hann gengur með kveðjubréf í vasanum og veltir fyrir sér hvernig sé hreinlegast að farga sér. Við skynjum að hann býr yfir leyndarmáli sem hann getur engum sagt. Hann hefur reynt og þá var honum ekki trúað. Hann er sögumaður. Hinn maðurinn, Martin Marinetti,  er sjúklingur hans. Hann er franskur róni og útigangsmaður. Lífshættir hans hafa verið ein löng tilraun til sjálfsmorðs. Það tekst með þeim vinátta og í gegnum samtöl þeirra fær lesandinn smám saman vitneskju um hvað það er sem myrkvar heim þeirr. Eða er réttara að tala um líf þeirra. 

Þetta er bók um tvö stór alvarleg vandamál, annað snýst um sálarháska hitt um lífsháska. Kannski er ekki rétt að gera slíka aðgreiningu, því hvað er hvað er háski sem varðar sálarheill annað en lífshháski. 

Það tekst vinátta með þessum tveimur Martinum, svo ólíkir sem þeir virðast á yfirborðinu.  Og það er í gegnum samskipti þeirra sem lesiandinn fær smátt og smátt vitneskju um leyndarmálið sem þeir bera innra með sér, leyndarmálið sem mykvar heiminn. Ég veit löngu áður en það er sagt í bókinni að það muni vera kynferðislegt ofbeldi gegn barni. Vandamál mitt er, að ég næ ekki sambandi við persónurnar og ég hef ekki samúð með þeim, þó ég viti að ég eigi að gera það. Læknirinn Martin er einhvern veginn óraunverulegur ég trúi honum ekki. Og ég trúi heldur ekki á Petru, þessa ljúfu og umburðarlyndu konu. Mér gengur best að skilja franska Martin, rónann, útigöngumanninn og krabbameinssjúklinginn. Hann er meira að segja svolítið líkur höfundi sínum, skemmtilegur og sjarmerandi.  

ÞMér líður illa yfir þessari bók, vegna þess að hún fær mig ekki til að trúa sér. Ég veit ekki hvort ónotakennd mín er út af því mér finnst ég vera að bregðast Steinunni, sem ég hef fylgst með og dáðst að síðan hún fetaði sín fyrstu skref sem rithöfundur. Ég vil helst að hún sé fullkomin. Kannski líður mér bara illa vegna sjálfrar mín. Hvað nú ef skil ég ekki bókina. Kannski er eitthvað undirliggjandi sem ég næ ekki, skil ekki. 

Og hvað er þá orðið eftir af mér, ef ég skil ekki bækurnar sem ég er að lesa. 

En ég er tapper. Ég er hugrökk. Ég veit  að næsta bók á eftir Jójó, heitir Fyrir Lísu og hún fjallar um sömu persónur. Kannski skilar hún því sem ávantar, til að ég skilji fólkið og hafi eðlilega samúð með því. 


Erfiðir tímar: Skokkað með Charles Dickens

image

Stundum villist ég af leið og finn það sem ég er að leita að. Ég var að leita aðð bók eftir Charles Dickens í Audiobooks (en ég er með heilt bókasafn í símanum mínum) og ég var að búa mig af stað í að skokka.  Allt í einu kom hrífandi karlmannsrödd og ég varð að hlusta. Hann var að tala um Dickens en ég hafði verið að leita að bók eftir hann. Ég ákvað að hlusta áfram meðan ég væri að komast hringinn og skoða svo hvað þarna væri á ferðinni. 

Þegar ég kom heim og gat skoðað þetta betur, sá ég að ég hafði rambað á G. K Chesterton. Það sagði mér ekkert svo ég spurði sérfræðing minn í engilsaxneskum bókmenntum um manninn. Þarna hafði ég óverðug og illa að mér hitt á líklega merkilegasta Dockensfræðing allra tíma. Og það sem meira var. Ég skildi hann og mér fannst hann vera að tala við mig. Ég var heilluð og nú upphófst eitt skemmtilegasta skokktímabil mitt. 

Heima gróf eg mig niður í Google og las allt sem ég fann um manninn. Reyndar vissi ég þá þegar að þetta var einmitt maðurinn sem eg vildi verja tíma mínum með og engum öðrum. Ég var eins og ástfangin.

G. K. Chesterton er fæddur 1874 og dó 1936. Hann var þekktur maður í Bretlandi síns tíma fyrir þátttöku sína í umræðu um margvíslega hluti, svo sem um guðfræði, bókmenntir og stjórnmál. Hann var blaðamaður og rithöfundur og m.a.þekktur fyrir það sem kalla mætti varnarræður (apologies, ég veit ekki hvernig á að þýða þetta) um ýmis mál svo sem guðfræði og trúlega mætti flokka pistlana sem ég var að hlusta á, sem n.k. varnarræður. Hann var að verja Dickens. Honum fannst eins og hann væri annaðhvort misskilinn og settur í flokk með gamansömum, smellnum höfundum eða að hann væri að gleymast. Ein fyrsta setningin sem ég féll fyrir hjá Chesterton var á þessa leið (lauslega þýtt af mér). Ég óttaðist að Dickens væri að mást út en það er bresk menning sem er að mást út en ekki Dickens. 

Í nokkra daga hljóp ég með Chesterton í eyrunum og hlakkaði til hvers kílómetra. Af og til hugsaði ég, "það væri kannski betra að lesa fyrst bækurnar, sem hann er að tala um (en þá hafði ég eingöngu lesið Ævintýri Pickwicks). En ég gat ekki staðist seiðandi rödd hanS. Bókin sem ég var að hlusta á heitir Apppreciations and Criticisms of the Works of Charles Dickens. Þetta  var upphaflega flutt sem pistlar í BBC. Loks þegar ég hafði hlustað á Chesterton til enda, en hann er fyrir mig á mörkum hins óskiljanlega, hóf ég hlustun/lestur á Dickens. Og ég nálgaðist hann af virðingu. 

Nú er ég búin að hlusta á:

The Life and Adventures of Nicholas Nickleby 

Oliver Twist

David Copperfield

Hard Times

Glæstar vonir (Great Expectations) (leikrit á íslensku)

Ævintýri Pickwicks (íslensk þýðing).

Mikið er ég þakklát Chesterton fyrir leiðsögn hans. Enn á ég mikið eftir af bókum Dickens, það er þægilegt að vita að ég á hann að. Eftir að hafa lokið  við Hard Times, tók ég Dickens hlé, það var svo stórkostleg bók og mig langar að láta hana seitla betur inn í mig.

Af hverju hefur ekki meira verið þýtt eftir þennan góða mann og af hverju höfum við aldrei átt neinn Chesterton?

Þetta er stutt samantekt á miklum bóklestri. Ég sendi það frá mér þótt ég sé nokkuð viss um að það sé ekki líklegt til vinsælda. Niðurstaða mín er:

Mikið fæst ekki fyrir lítið.

Ávinningurinn af bóklestri liggur á mörkum þess skiljanlega.

P.s margir þekkja G.K Chesterton sem höfund sagnanna um Father Brown, en eftir þeim hafa verið gerðir vinsælir sjónvarpsþættir.

 (Mynd af G K Chesterton)

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2016
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 187199

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband