Svo þú villist ekki í hverfinu hérna: Patrick Mondiano

image

Ég var undir það búin að það gæti verið snúið að lesa þessa bók. Ég hafði bæði fylgst með umræðu um höfundinn vegna Nóbelsverðlaunanna og umfjöllun um bókina sjálfa. Einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni að bækur þessa höfundar væru ekki fyrir hvern sem er. En ég vissi ekki á hvaða hátt þær væru svona sérstakar. Ég vissi heldur ekki hvort ég væri hver sem er. 

Það var því ekki fyrr en bókaklúbburinn ákvað að bókin skyldi lesin, að ég lét verða af því að lesa bókina. Stundum virkar umfjöllun um bækur hamlandi fyrir mig.

Bókin er ekki löng, 176 bls. og  þrjár og hálfa klukkustund í afspilun. Örlítið kvíðin en þó spennt, hóf ég lesturinn. Kvíðin vegna þess, að ef til vill næði ég ekki skilja skáldskapinn en spennt vegna þess að þarna var Nóbelsverðlaunahafi á ferð og bókin auk þess þýdd af manni sem ég ber mikið traust til, Sigurður Pálsson. Með þessar vangaveltur í farteskinu hóf ég lesturinn. En með opnum huga. 

Frásagan er einföld. Þetta er saga um mann,að því er virðist einfara, sem verður fyrir truflun á að því sem virðist vera fast móttað og tilbreytingarlítið líf, með því að þurfa að rifja upp gleymda atburði. Lesandinn fær lítið að vita um þennan mann, hann er ríflega á miðjum aldri og hefur skrifað bækur. Reyndar efast lesandinn líka um hvort maðurinn viti almennilega sjálfur hvað á daga hans hefur drifið. Sagan gerist í París. 

Fólkið sem truflar hið kyrrláta líf sögumannsins er ekki síður órætt en sögumaðurinn. Líklega er þetta einhvers konar óreiðufólk. En upprifjun löngu liðinna atburða hefst og við fylgjumst með höfundi rifja upp persónur og atvik sem gleymskan hefur falið. Á þennan máta verða til þrjú tímaskeið.  Ég þarf að hafa mig alla við til að tapa ekki þræðinum en þó er frásögnin einföld og áreynslulaus. Það er svo mikil værð yfir þessari bók að ég þurfti að passa að sofna ekki.

Í bókinni er órætt andrúmsloft, kvíða og söknuðar eða e.t.v hræðslu. En mér féll hún vel. Ég ákvað að hlusta á hana eins og tónlist, hennar get ég notið án þess að finnast ég þurfa að skilja hana. 

Ég hlakka til að hitta stöllur mínar í bókaklúbbnum og hlusta á þeirra sjónarmið. 

Kannski ættum við að bregða okkur til Parísarborgar?

Að lokum: Ég hlustaði á þessa bók í tvígang. Í millitíðinni hafði ég lesið Aftur á kreik: Er ist wieder da,bókina um endurkomu Hitlers, sem ég skrifaði um í síðasta pistli mínum. Ólíkari bækur er tæpast hægt að hugsa sér. 

Myndin er frá París en reyndar ekki frá slóðum þessarar sögu (EÓ)

 

 


Aftur á kreik: Timur Vermes: Sjónarhorn Hitlers á nútímann

image

Bókin, Aftur á kreik, fjallar um það þegar Adolf Hitler vaknar upp  3. ágúst 2011 í Berlín og hefst þegar handa að reyna að halda áfram þar sem frá var horfið. Bókin heitir á frummálinu,  Er ist wieder da og kom út 2012. Hér kom bókin út 2015 í þýðingu Bjarna Jónssonar. Mér líkaði þýðingin vel.

Síðan ég fór á eftirlaun hef ég gripið í að rifja upp menntaskólaþýskuna. Nú er ég þangað komin í námi mínu að ég er farin að hlusta á þýska texta mér til gagns og fannst því upplagt að kaupa bókina sem hljóðbók á Audible. Jafnframt gafst mér kostur á að hlusta á hana á íslensku á Hljóðbókasafni Íslands auk þess sem ég gat rýnt í prentaða útgáfu. 

Það kom í ljós að þýskukunnáttan var ekki betri en svo að, mér reyndist betra að hlusta fyrst á íslenska textann og síðan á þýskuna. Þetta var á vissan hátt merkilegt, lesturinn er í báðum tilvikum frábær. Þýski upplesturinn hjá Audible, Christoph Maria Herbst,  er svo frábær að maður hrekkur við og heldur að Hitler sé þarna sjálfur kominn. Íslenski textinn er lesinn af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Hann er með albestu upplesurum sem ég hef hlustað á. 

Ég hef sem sagt lagt talsverða vinnu í þessa bók, fyrst hlustaði ég á einn kafla á íslensku og síðan á þýsku. Satt best að segja var þetta erfitt í bland, Hitler er óskemmtilegur karakter og ég var ekki viss um hvernig ég ætti að taka honum. Stundum langaði mig til að hætta við þessa vitleysu en ég er bæði þrjósk og þrautseig ef ég er búin að setja mér eitthvað fyrir. 

En nú er ég búin að sigra Hitler. 

Bókin fjallar um Hitler endurkominn, hann vaknar upp í heimi sem hann kann ekki á, hann er í skítugum einkennisbúningi, heimilislaus og allslaus. Góðhjartaður blaðasali miskunnar sig yfir hann og seinna tekur sjónvarpsstöð hann upp á sína arma.  Hann kann ekkert á þennan nýja heim og saknar samstarfsmanna sinna úr fyrra lífi. En Hitler er eldklár og nær ótrúlega fljótt að átta sig nægilega vel á aðstæðum til þess að ná völdum á ný. Hitler hefur ekkert breyst. Okkur gefst tækifæri til að skoða heiminn, okkur sjálf frá sjónarhorni Hitlers. 

Mér fannst þetta satt að segja afar óþægilegt og það hefur eflaust verið enn erfiðara fyrir Þjóðverja sjálfa, því að þeim beinist gagnrýnin. Bókin er fyndin á einhvern vandræðalegan hátt, maður veit aldrei almennilega hvort maður hafi leyfi til að hlæja. Það koma að vísu kaflar þar sem maður getur hlegið með góðri samvisku, t.d. þegar Hitler er að átta sig á undratækinu tölvu og þegar hann fer á október-bjórhátíðina í München. Það er afar óþægileg tilfinning þegar maður stendur sig að því að vera sammála Hitler í gagnrýni hans á nútímann. Réttlætingar hans á gjörðum koma illa við mann, ónotaleg fyndni. Verst þótti mér þó þegar mér fannst Hitler vera að tala beint inn í íslenska orðræðu. 

Ég ætla að láta þennan stutta pistil nægja en hvet alla sem áhuga hafa samfélagsmálum og sagnfræði að lesa bókina. Hún á líka sérstakt erindi til allra sem vinna við fjölmiðla.

Ég ætla ekki að reyna hér að svara áleitinni spurningu sem kemur upp fyrir, meðan og eftir lesturinn: Má svona? Þeirri spurningu verður hver að svara fyrir sig.


Verfallsfréttir frá Milton

 image

Þegar verkafólkið í Milton þurfti að horfast í augu við að það gat ekki framfleytt sér af kaupinu sem það fékk í verksmiðjunni, gerði það uppreisn. Vinnuveitandi þeirra hr. John Thornton sagði þeim að það væri ekki mögulegt að hækka launin því þá væri verksmiðjan ekki lengur samkeppnishæf. Útlend fyrirtæki myndu taka yfir markaðinn. Þau skyldu ekki láta sér detta í hug hug að gera verkfall, þá yrði kallað inn verkafólk frá Írlandi. Og þetta gekk eftir. Það var gert verkfall, það var blóðugt og herinn var kallaður til og írskt verkafólk tók við störfunum í verksmiðjunni. 

Þetta gerist í bók Gaskell,North and South frá 1855, ég er var að lesa verkfallskaflann í gær og í morgun þegar ég hlustaði á fréttirnar frá Straumsvík, hugsaði ég um hversu lítið hefur breyst. Enn eru rök atvinnurekanda þau sömu. Reyndar held ég að kjör verkafólks hafi batnað mikið en ég veit þó ekki hvort það ríkir meiri jöfnuður í samfélaginu. En North and South gerist í Bretlandi (Milton er tilbúið nafn í stað Manchester) en Straumsvík er hér og árið er 2016. Nú tíðkast að verksmiðjur og verkefni flutt til fólksins sem gerir litlar launakröfur og stjórnvöld eru ekki með íþyngjandi reglur og skattheimtu.  

Frú Gaskell vildi stuðla að réttlæti og mannréttindum í samfélaginu. Hún gerði það með skrifum sínum. North and South er í rauninni ástarsaga. Hún vissi að þannig skilaði sagan sér best til lesenda. 

Ég er ekki búin með bókina og ég hef að sjálfsögðu meiri áhuga á hvað er að gerast í Straumsvík en í Milton. Ég vona að verkamennirnir standi saman og sýni mátt             samtakanna.  Við þurfum á því að halda. 

Myndina tók ég traustataki af Wikipedíu, hún sýnir verksmiðjurnar í Milton. 

 

 


Ég hef valið mér hið góða hlutskipti

image

Nú, þegar hef lokið hlutverkið mínu á vinnumarkaði og ber ekki ábyrgð á neinum nema sjálfri mér, geri ég nákvæmlega það sem mig langar til. Og það er margt. Í raun kemst ég ekki yfir verkefnin sem ég set mér fyrir. Aðeins nokkur dæmi: Bókband, yoga, ræktun, Íslendingasögur og grúsk. Mestan tíma tekur þó skokk og bóklestur en nú hef ég fundið leið til að láta það fara saman. 

Ástæða þess að ég skrifa þennan pistil er ekki mont, heldur alvarleg pæling. Er ég að gera rétt, væri ekki nær að gera gagn. Ekki vantar verkefni í samfélaginu. Ætti ég ekki að nýta eitthvað af tímanum til að fylgjast betur með pólitík og reyna að hamla gegn niðurrifinu á opinbera kerfinu, sem komið hefur verið á fót til að hagsbóta fyrir almenning í landinu. Éig er í eðli mínu pólitísk. En ég er raunsæ. En ég læt mér nægja að fylgjast með og kýs að líta pólitíska virkni eins og ævistarfið. Ég er komin í frí og geysist inn í áhugamálaheim eins og kýr sem hleypt er út að vori. Það er svo margt skemmtilegt og tíminn hleypur frá mér. 

Allt í einu verður mér hugsað til þeirra Mörtu og Maríu (Lúkas 10:38-42). Marta klagaði í Jésú þegar systir hennar settist við fóskör meistarans og hjálpaði ekki til við heimilisstörfin. Jésú gaf þá út yfirlýsingu sem enn gildir en er þó enn jafn margræð. "María hefur valið sér hið góða hlutskipti". En hver er meistari dagsins í dag, þegar Guði hefur verið skipt út fyrir Mikla  hvell? Ég hef hreint engan áhuga á geimvísindum, nema ef vera skyldi í fagurfræðilegu tilliti. Og hvar standa hin andlegu málefni þegar heilarannsóknir taka við af að mannlegri dómgreind. Ég stoppa hér því þessi skrif eru að þróast út í einhverja vitleysu.

Minn meistari eru skáldin, lifandi og dauð.  Ég sit við fótskör þeirra, það er mitt góða hlutskipti. Eg hef lesið og hlustað á heil ósköp af skáldskap og alltaf verð ég jafn heilluð þegar skáldið nær mér inn í sinn heim, sem oftast er bærilegri en minn, þótt oftar sé fjallað um styrjaldir, veikind og vandamál í samskiptum fólks en um friðsemd, velmegun og hamingju. Í skáldskapnum er þetta allt miklu bærilegra, því það er ekki í okkar raunalega raunheimi. 

Síðustu þrjá daga hef ég verið að lesa bók frú Gaskell, North and South, um vinnudeilur í Milton (Manchester) um miðja 19.öld. Jafnframt hef ég verið að lesa bók Timur Vermes, Er ist wieder da, 2012 (Aftur á kreik). Bókin fjallar um okkar heim frá sjónarhóli hins upprisna Adolfs Hitlers . Hann er komin aftur á kreik. Satt best að segja eru þessar tvær bækur talsvert ólíkar. 

Tilbreyting er góð, ég flyt mig á milli heima með hjálp skáldskaparins. Ég veit nefnilega að þar er ég gestur og þarf ekki að gera neitt.

Það er gaman að vera í þessu langa fríi og ferðast um í tíma og rúmi.

Og ekki vantar bækurnar í heiminum. 

 


Samanburðarhamingjufræði

image

Síðan ég komst í þær eftirsóknarverðu aðstæður að ég get lesið eins og mig lystir, hef ég dvalið meira og minna á 19. öldinni. Af og til bregð ég mér yfir aldamótin aftur á bak inn í 19. öldina. Reyndar er ég svo samviskusöm að mér finnst að ég þurfi að lesa eitthvað af því sem er að koma út núna, þá dríf ég í því eins og hverju öðru verkefni, til að komast sem fyrst til baka inn í 18. öldina. Mér finnst ég eiga þar heima, þar líður mér vel. 

Þetta er svona, ég er ekki að búa það til, til að reyna að vera eitthvað merkileg. Reyndar skammast ég mín dálítið fyrir hvað ég er sátt við 19. öldina, því ég veit að lífskjör þorra fólks á 19. öld voru síst betri en nú, svo vægt sé til orða tekið. Lífskjör á Íslandi voru upp til hópa bág ef undan eru skildar fáeinar valdaættir. En ættirnar sem að mér liggja voru ekki ein af þeim, svo trúlega hefði ég alla tíð þurft að vinna fyrir aðra ef ég hefði fæðst á þessari öld sem ég hrfst svo af. 

En ég er ekki stödd á Suðausturlandi heldur í Cranford í samnefndri sögu Elisabeth Gaskell (1810 - 1865). Cranford er tilbúningur hennar, smábær þar sem fyrst og fremst lifir millistéttarfólk, og aðallega konur. Lífið er tilbreytingarlítið, stendur nánast í stað. Þessir tímar einkennast af stéttaskiptingu og misskiptingu auðs. Konurnar í Cranford fara vel með og lafa í því sem til er ætlast af þeim sem miðstéttarfólki. Stéttaskiptingin er mikil og hún þykir eðlileg. 

Munurinn á fólkinu í Cranford og fólkinu mínu, er að söguhetjur bókarinnar vinna ekki, það gerir þjónustufólkið. Ég ætla ekki að hætta mér lengra út í þennan samanburð en langar að draga fram það sem er líkt hér og þar og greina má miklar framfarir. Þá ber hæst (í mínum huga) barnadauðann. Hann kom við hjá bæði ríkum og fátækum, bæði hér og í Bretlandi. Þó grunar mig að hann oft gert sér ferð til efnaminna fólks. Annað sem er áberandi  betra nú en þá, eru réttindi kvenna og líklega mannréttindi í heild sinni.

Mig langar til að geta sagt það sama um stéttaskiptinguna en hika. Kjör fólks og tækifæri í lífinu hafa ekki jafnast í takt við réttindi þeirra. Í stað stéttaskiptingar á grundvelli ættar og tignar, er komin auðstétt, sem leikur sér að peningum.

Ég sleppi því hér að tala um tæknilegar framfarir, sem nú er eðlilegur hluti af lífi okkar, því ég hef sterka tilfinningu fyrir því að nær öllum tæknilegum framförum fylgi annmarkar, gallar, sem við sitjum uppi með. Oft ómeðvitandi. Matvaran er verri og óhollari, bættum samgöngum fylgir óhóflegt stress og bráðlæti. Fatnaður er óvandaður og oft ljótur ef undan eru skildar íþrótta- og útivistarvörur. Af hverju er ekki hægt að fá gallalaust framfarir? En er fólk hamingjusamari nú en þá. 

En auðvitað er þessi aðdáun mín á 19.öldinni ekkert annað en flótti og uppgjöf. Í raun óttast ég um að það sem unnist hefur til hagsbóta fyrir alþýðu. Til hvers eru mannréttindi og framfarir í læknisfræði ef við ætlum ekki að nýta það fyrir fólkið sem þarfnast læknisþjónustu?

Í Cranford gerði læknirinn aðgerðina á manni við kertaljós sem konurnar gáfu honum og hann setti kefli í munn sjúklingsins, svæfingar og deyfingar voru ekki á hans valdi. Nú fá sjúklingar að þjást heima hjá sér á biðlistum með aðstoð verkjalyfja, svo þeir æpi ekki. 

Er nema von að ég efist um gildi framfara? 


Nám og kennsla: Hvað situr eftir?

image

"Þið verðið ekki þreytt af því sem þið gerið krakkar mínir, þið verðið þreytt af því sem þið gerið ekki, því sem þið eigið eftir að gera." Þetta sagði minn gamli skólameistari við okkur nemendur sína í ræðu á Sal (það var kallað svo)í MA. Þetta var einhvern tíma á milli 1960 og 1964 og ég sé hann enn fyrir mér, hvernig hann stóð, ekki hár í lofti og lagði áherslu á orð sín með því að núa saman höndunum á sinn sérstaka hátt. Ég er ekki alveg viss um að hann hafi sagt "krakkar", kannski sagði hann nemendur. En ég vissi það sem hann sagði var rétt. Þórarinn kenndi mér aldrei mikið en ég var svo heppin að læra hjá honum latínu, þennan eina vetur sem ég lærði latínu. Hann var góður kennari. En nú hefur latínan skolast burt en myndin af þessum vitra manni stendur eftir. 

Annað dæmi um nám og gleymsku er úr Kennaraskólanum (1968 til 1969)og þá stóð annar maður í pontu, Broddi Jóhannesson. Broddi var þá skólastjóri og kenndi okkur lítið. Ég held að hann hafi ekki haft neina tíma á stundaskrá í okkar bekk. En hann talaði oft við okkur og það sem ég man best úr kennaranáminu er það sem Broddi sagði. Einhverju sinni tók hann að sér að kenna okkur inngang að sálarfræði, en Broddi var sjálfur sálfræðingur. Hann talaði um skilningarvitin. Þegar hann hafði lokið umfjöllun um þessi klassísku skilningarvit,sjón, heyrn, ilman, smekkur og tilfinning, bætti hann við að sér fyndist að það mætti bæta tveimur skilningarvitum við. Það var skynjun á náttúru og skynjun á list. Síðan rökstuddi hann mál sitt og það gerði hann á svo sannfærandi hátt að ég trúði honum og trúi enn. Þannig á minn góði skólastjóri, sinn þátt í að ég hef leitast við að halda þessum tveimur skilningarvitum opnum. 

En af hverju er ég að segja frá þessu núna?

Ég held að svarið sé tvíþætt. Annars vegar langar mig til gefa öðrum gjöf sem mér var gefin. Hins vegar langar mig til að benda á að nám og kennsla er flókið fyrirbæri.

Eitt er ég þó viss um. Kennarar sem gefa af sjálfum sér eru oftast góðir kennarar. 

Myndin er sótt í Carminu. Hún er eftir Jóhönnu Bogadóttur 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2016
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband