Leiðin út í heim: Hermann Stefánsson

image

Ég hef beðið eftir þessari bók, ég var viss um að hún væri góð. Pantaði hana í jólagjöf og fékk, en var ófær um að lesa hana vegna sjóndepru. Þetta er lítil, falleg bók, næstum kver. Ég las hana sem hljóðbók en það var gaman að handleika hana.

Ég vissi að hún vísaði í bókina, Palli er einn í heiminum. Reyndar vissi ég heilmikið um hana. Hún hefur fengið tiltölulega mikla umfjöllun, næstum of mikla fyrir þann sem enn hefur ekki lesið hana.  Reyni að láta umfjöllunina ekki taka nýnæmið frá mér. Þó fagna ég allri menningarumræðu. Það er vandlifað og svo er ég sjálf að skrifa um bækur.

Ég hef oft lesið bókina um Palla sem var einn í heiminum, fyrir börn. Þegar ég var búin að hlusta tvisvar á bók Hermanns, ákvað ég að sjá hvort Palli var einn í heiminum, væri til í Hljóðbókasafninu. Og viti menn, hún er þar, lesin af Sólveigu Hauksdóttur. Listavel.  

En nú ætla ég að reyna að koma mér að efninu. Leiðin út í heim er heimspekilegar og tilvistarlegar vangaveltur um lífið, stöðu mannsins og viðhorf hans til sjálfs sín og annarra. Þetta hljómar uppskrúfað, en bókin er það ekki. Hún er skemmtileg, glettin og spennandi.  

Á ég að nota frasann "þroskasaga manns" á óræðum aldri. Hann kemst að því að það felst mikið frelsi í því að vera einn en hann saknar fólks, hann saknar mömmu sinnar. Og svo er spurning um hvort hann sé einn. Er hann tveir? Það sem gerir þessa bók góða er hvernig höfundurinn leikur sér með málið og myndlíkingar. Hann þræðir söguþráðinn í bókinni um Palla, en ég tengi mig meira við Pál/Palla í útfærslu Hermanns. Hann er ekki lengur barn. Það er stígandi í frásögninni, hún verður að hluta til absúrd. Bíókaflinn gæti verið úr framúrstefnubíómynd. Kynlífslýsingin var svo absúrd að hún var beinlínis skemmtileg. Ég sem þoli ekki klám í bókum. Hingað til hef ég auðveldlega getað blaðað hratt í gegnum slíkt, núna þegar ég þarf að hlusta á bækur gegnir öðru máli. Ég er að hlusta. Ég hafði kviðið því að þetta yrði á einhvern hátt nærgöngult, en það var í lagi. Ég hló innra með mér. En hvernig er hægt að enda svona bók? Í Palli var einn í heiminum tekur Palli flugvél traustataki, flýgur út í geim, rekst á tunglið og vaknar upp grátandi í rúminu sínu. Mamma hans huggar hann og við höldum að draumurinn hafi verið honum lexía. Öllum líður vel. 

En hvernig endar Leiðin út í heim? Atburðarásin er á yfirborðinu lík og í barnabókinni. En ég er óróleg út af Palla. Og ekki bara honum, heldur af öllum Pöllum í heiminum, sem eru orðnir of stórir til að mamma þeirra geti huggað þá.

Palli á leiðinni út í heim, vaknar að vísu upp og finnur mömmu sína. En ég veit ekki hvort hann fórst (fór til himna) eða endurfæðist. Skiptir það máli?

 


Michel Houellebeck: Góður? Ég veit það ekki

 imageMeð hvaða mælikvarða met ég bækur? Ég veit að slíkur algildur kvarði er ekki til, sem betur fer, við göngum með hann innra með okku. Líklega er hann breytilegur, vex fram, þróast smám saman. Nú ætla ég að reyna að finna minn.

Bókin þarf að skapa heim sem ég trúi og mig langar til að vita meira um. 

Persónurnar þurfa að vera trúverðugar, mér þarf ekki að geðjast að þeim. En mér leiðast bækur með fölki sem er allt jafn óheilt og/eða ómerkilegt. Líklega af því þetta stemmir ekki við mína heimsmynd. 

Bókin þarf að hafa innbyggða einhvers konar ráðgátu, sem gerir mig forvitna svo ég verði spennt að lesa meira. Af hverju er þetta svona?

Þetta þrennt eru einhvers staðar frumforsendur, til að bökin verði góð, en það þarf fleira að koma til.

Bókin þarf að skapa hughrif. En þá er ég komin að þeim þætti bókmennta sem erfiðast er að skilgreina en þó er þetta einhver mikilvægasti þátturinn. Bókin þarf að koma við þig, stækka heiminn, auka skilning þinn á samhengi hlutanna. Hjálpa þér til að skilja annað fólk og sjálfa þig. Það er mikilvægast. 

Bókin þarf að færa mér eitthvað nýtt. Hún má ekki vera eins og sumarleyfisstaður, sem maður er búinn að heimsækja svo oft og lengi að ekkert bætist við. 

Það eru sem sagt engar smákröfur sem ég geri til rithöfunda. Ástæðan til að ég fór að grufla í þessu núna er að ég var að ljúka við bók sem á að vera góð, maðurinn er heimsfrægur og hefur verið orðaður við Nóbelsverðlaunin. Samt er ég ekki almennilega sannfærð um að mér falli bókin. Mér finnst hún vera svona miðlungs krimmi, bækur Arnaldar Indriðasonar eru betri. Finnst mér. En bestu bækurnar hans eru líka afburðagóðar. 

Bókin var Kortið af heiminum eftir Michel Houellebecq (mikið er þetta erfitt í stafsetningu). Ég hef lesið eina bók áður eftir Houellebecq, Öreindirnar og mér féll hún ekki heldur og hélt þá að það væri vegna þess að mér leiðist klám. Þótt það sé bókmenntalegt. Nú veit ég að það er ekki ástæðan, heldur hitt að mér er eiginlega sama um fólkið. Trúi ekki almennilega á að það sé til svona fólk. Aðalpersónan hugsar eins og robot. Og þegar betur er að gáð eru aðrar persónur svipaðar. Sálfsagt mætti setja á hann og fleiri einhvers konar röskunargreiningu en mér leiðist að afgreiða fólk með greiningarstimplum. Þetta eru manneskjur. 

Nú er ég búin að segja hvað hvað mér mislíkaði. Ég hefði kannski átt að gera það strax en það er margt sem gerir bókina læsilega. Hún er fyndin, hún er spennandi og höfundur kemur manni oft á óvart. Ekki svo slæmt. Nú ætla ég að lesa eina bók enn eftir þennan höfund, Undirgefni. 

Bækur Houellebeck eru þýddar af Friðriki Rafnssyni, sem mér er sagt að sé mjög traustur þýðandi því trúi ég , því mér fannst bókin á lifandi og góðri íslensku.

Myndin er tekin af mér í París ekki langt frá vettvangi sögunnar


Ég er hernaðarandstæðingur

image

Ég las í blaðinu í morgun haft eftir Helga P. að yngri félagar í Félagi eldri borgara hefðu stofnað það sem þeir kalla Gráa herinn. Ég hugsaði strax þá fór það, ég kemst ekki í þann her, ég  er sjálfsagt of gömul. En ég hugsaði ekki bara þetta, um leið var til samhliða hugsun. "Ég myndi hvort sem er aldrei ganga í félag með slíku nafni, ég er hernaðarandstæðingur".

Í framhaldi af þessum samhliða hugsunum þróaðist löng upprifjun á "baráttu" minni við stríð, stríð tungunnar og hugarfarsins. Það er nefnilega langt síðan ég tók eftir því hversu föst við sitjum í orðaforða og orðatiltæki ríghalda okkur við stríð/ stríðshugarfar. Við leiðum ekki einu sinni hugann að þessu. Kosningabarátta, verkalýðsbarátta, lífsbarátta. Og oft jákvæð fyrirbæri; Hjálpræðisher, Himneskir herskarar. Sonur minn stofnaði hljómsveit sem hét 5. herdeildin. Hún hún gaf út góða diska. 

Á sama tíma og við höldum að við tjáum okkur, mótast hugsunin af orðaforðanum. Þetta gerist ósjálfrátt. Við  höldum að við tjáum okkur sjálfstætt en orðin móta hugsunina. Þetta með gagnvirk áhrif máls og hugsunar er löngu sannað og ef ég væri að skrifa vísindalegt blogg myndu hér fylgja röð af tilvitnunum. Ég er búin að glíma við þetta lengi, hvernig get ég, getum við, forðast hernaðarhugsun. Hvar eru mörkin? Ég veit að nú eru margir þegar orðnir pirraðir og hugsa. Skiptir þetta einhverju máli? En orðin móta og það er mikilvægt að vera meðvitaður. Þegar ég var að ala upp börnin mín voru vopna-leikföng bannvara á heimilinu. En synir mínir þekktu mínar veiku hliðar, og spurðu. Hvað með söguna? Hefur þú ekki sjálf áhuga á Íslendingasögunum. Í framhaldi af þessu varð til reglan: Engin nútímastríðsleikföng. Bogi, heimatilbúið sverð og skjöldur var í lagi.

En ég stóð ekki í  þessu sýsli  ein (var næstum búin að skrifa barátta), maðurinn minn var (og er) friðarsinni og við vorum sammála um, að ef börnin vildu stríðsleiki, þá færist líka í því tækifærið til að ræða um stríð. Þetta urðu drengirnir að þola, dóttirin var alla tíð friðsöm. Enn í dag er ég við sama heygarðshornið. Er þetta nokkuð stríðsleikur segi ég áður en ég lána iPadinn. Nei, það eru bara vondu karlarnir sem mega vara sig er svarið.

Því eldri sem ég verð, því uppteknari verð ég af því að hugsa og breyta friðsamlega. Og orðin móta. Er ekki bara hægt að tala um keppni? Hljómar ekki vel að segja: Liðakeppni stjórnmálaflokkanna er að hefjast? 

Ég hef ekki lausnina á þessu frekar en mörgu öðru, en stöndum saman, verum friðsöm og upprætum spillingu. Þarna tókst mér að orða hugsun án stríðsorðaforða með því að sækja líkingu til garðyrkju.

Ræktum garðinn okkar og hugarfarið. 

Mynd: Ofurhetjur og kökufat


Veröld sem var:Stefan Zweig

image

Veröld sem var, kom út hér á íslensku 1958. Hún var svo mikið lesin og rædd af minni kynslóð og eldri, að mér fannst næstum að ég hefði lesið hana. Kannski hefur hún verið lesin í Ríkisútvarpið. Eftir að hafa lesið bókina, Aftur á kreik (Timur Vermes) sem fjallar um endurkomu Hitlers og sjónarhorn hans á nútíð og fortíð, ákvað ég að lesa sjónarhorn annars Austurríkismanns á þróun Evrópu. 

Zweig (1881-1942) var fæddur í Vín en Hitler (1889 - 1945) í Braunau. Zweig var af efnaðri gyðingafjölskyldu en Hitler af millistéttarfjölskyldu. Báðir hafa þeir skrifað bækur um ævi sína. Bók Hitlers, Mein Kamp, las ég þegar ég var ung og forvitin. Ég ætla aldrei að lesa hana meir. Heimsmynd þessara manna er svo ólík að þeir hefðu getað verið hvor af sínum hnettinum.

Í raun er ekki rétt að tala um þessa bók sem ævisögu, Zweig gefur takmarkaðar upplýsingar um sitt persónulega líf. Ég saknaði þess að fá ekki meira að vita. Þetta er í raun aldarfarslýsing, saga menningar þessa tíma. Hún minnti mig strax á aðra bók sem ég hef lesið, Mein Leben eftir Marcel Reich-Ranicki (1920-2013) pólskþýskan gyðing, sem lánaðist að flýja úr gettóinu í Warsjá og varð síðar mikill menningarpostuli í Þýskalandi. 

En ég ætlaði að skrifa um Zweig og Veröld sem var. Þetta er eins og fyrr var sagt menningarsaga. Bókin hefst á því að lýsa lífinu í Vín á árunum fyrir Fyrri heimsstyrjöldina. Höfundur lýsir Vín sem paradís á jörð, menningin, vísindin og viðskiptin blómstra. Þetta er tími framfara, það er verið að vinna að því að þróa lýðræði og jafnrétti. Vínarbúar eru " glaðsinna og njóta lista. En fyrst og fremst vilja þeir njóta lífsins, "leben und leben lassen" er mottó Vínarbúa, andstætt Þjóðverjum sem lögðu meiri áherslu á framleiðslu og veraldleg verðmæti. En það voru engu að síður Austurríkismenn og Þjóðverjar sem hófu þessa styrjöld og það voru þessi lönd sem sátu uppi með að greiða skaðabæturnar. Þessi styrjöld leiddi í raun til næstu styrjaldar. 

Kjarni þessarar bókar er lýsing höfundar á menningarlífi Evrópu. Zweig fékk klassíska menntun og gat síðar, m.a. vegna góðra efna, lifað eins og fiskur í menningarvatni Evrópu.  Hann þekkti alla helstu menningarpostula þess tíma. Mörg nöfn koma við sögu og ég þekki aðein brot af þeim. En  auðvitað vissi ég að þessi saga myndi enda illa. Ég vissi að Zwðeig hafði stytt sér aldur ásamt sambýliskonu sinni. Þetta gerðist í Pedropolis í Brasilíu og hann skildi eftir kveðjubréf, þar sem hann segir að þeim hafi verið um megn að horfa upp á harmleikinn í Evrópu, þar var ekki bara slátrað fólki, heldur öllum þeim gildum sem hann trúði á. 

Þetta var afar fræðandi bók, áður hafði ég einungis lesið Manntafl eftir þennan höfund. Ég vildi að ég hefði lesið bókina fyrr, þá hefði hún verið hluti af menntun minni. En seint er betra en aldrei. 

Eftirmæli: Ég hafði sama háttinn á með þessa bók og Aftur á kreik, ég hlustaði á hana til skiptis á íslensku og þýsku. Þetta tekur tíma en mér finnst ég einhvern veginn nær kjarna efnisins. Og svo las ég mér auðvitað heil mikið til um höfundinn oh þessa tíma. Lestur sumra bóka nálgast það að vera verkefni, frekar en lestur. Og þið sem lesið þetta. Lesið endilega þessa bók, hún fjallar um heim sem við tilheyrum. 

Að lokum. Zweig lýsir vel hvernig það er að missa landið sitt, þjóðerni sitt, fólkið sitt og öll gildi sem maður trúir á. Hann lýsir því að vera flóttamaður. Zweig var vel settur, menntaður og efnaður og hann var búinn að fá landvistarleyfi í Brasilíu. Engu að síður bugaðist hann og treysti sér ekki til að lifa lengur. Mér verður hugsað til flóttamanna dagsins í dag. Þetta fólk er allslaust og það er að reyna að bjarga lífi sínu. 

Við erum ánægð með okkur að "bjarga" örfáum.

Zweig var mikill friðarsinni, það er það sem við þurfum að einbeita okkur að.

Ég hef aldrei komið til Vínar en myndin sem fylgir tengist efninu. Hún er frá heimsókn minni í sumar  til Sachenhausen 

 


Ofríki: Umsögn um góða bók og til varnar Breiðdælingum

image

Var að ljúka við lestur áhrifaríkrar bókar sem minnir okkur á hvað stutt er síðan úrræðaleysi fólks fyrr á árum var algjört, þegar kom að andlegum sjúkdómum. Reyndar finnst mér oft að við séum vanmegnug enn í dag en það er önnur saga. Þetta er bók Jóns Hjartarsonar (fyrrverandi fræðslustjóra) um Ólaf Ásgrímsson f. 1860 í Kleifarhreppi hinum forna. Ólafur er óbreyttur alþýðumaður og hefði trúlega ekki komist í bók nema vegna þess að hann og fjölskylda hans verða fyrir ógæfu sem þau réðu ekki við. Samfélagið sem þeim fannst þau tilheyra brást þeim. Ólafur tók þessu ekki þegjandi, hann leitaði réttar síns og skrifaði 7 blaðsíðna ákæruskjal. Málið gekk fram og til baka í kerfinu og þess vegna getum við vitað meira um þessa fjölskyldu en annars hefði verið. 

Framan af fara ekki sögur af Ólafi, hann vinnur fyrir sér, fyrst sem vinnumaður og síðar sem sjómaður. Hann kvænist Steinunni Sveinsdóttur 1885 og þau eignast fjórar dætur (fæddar 1888, 1890, 1899 og 1901. Litla stúlkan sem fæddist 1899 dó sama ár og sú yngsta fæddist). 1904 fær Ólafur hálfa jörðina Randversstaði í Breiðdal til ábúðar. Þetta var kirkjujörð og það var presturinn í Stöðvarprestakalli sem veitti honum jörðina. Hann hafði þá um nokkurt skeið stundað sjó á Djúpavogi, þar sem hann bjó með Steinunni konu sinni. Það var þar sem Steinunn veikist af geðveiki og varð ófær um að sjá um sjálfa sig hvað þá aðra. Ólafur vildi reyna að líta betur til með henni og útvegar sér því þessa jörð. En geðveikin er skæður sjúkdómur og hann réði ekki neitt við neitt og sveitungarnir litu hann hornauga og jörðin drabbaðist niður. Í stað þess að veita honum þá hjálp sem hann óskaði eftir, var tekin ákvörðun um að flytja hann nauðugan í sinn fæðingarhrepp. Þetta er árið 1910. Ólafur kærir meðferðina á sér og fjölskyldu sinni og upphófst nú málarekstur sem stóð í mörg ár. 

Þetta er vel sögð saga, texti höfundar knappur, tær og hrífandi. Samúðin liggur óskipt hjá fórnarlömbunum í þessum harmleik. Bófinn er oddviti í Breiðdalshreppi, reyndar fá sveitungar hans í heild að deila sök með honum. 

Mér var satt að segja dálítið brugðið að heyra þessar ályktanir um hreppstjórann sem ég þekkti af afspurn og hafði aldrei heyrt neitt misjafnt orð um. Og spurði sjálfa mig hvort hann ætti sér ekki einhverjar málsbætur? Hvað hefðu sveitungar hans gert ef hreppstjóri  hefði pungað út með styrk til veiku konunnar?

Kannski hefði hann  getað komið betur til móts við þessa fjölskyldu. En hann virðist fara að lögum? Breiðdalshreppur er á þessum tíma fátæk sveit eins og flestar sveitir voru á þessum tíma á Íslandi. Fólkið sem þá bjó í Breiðdal hafð upplifað mikil harðindi. Dóttir umrædds hreppstjóra sagði frá því að móðir sín hefði átt það til að segja við barnabörnin þegar þau voru matvönd: "Ég vildi óska að þú ættir eftir að upplifa hungursneyð." Þetta sagði hún mér.

Í hreppnum var þá starfandi bókasafn og eitt líknarfélag, sem einkum reyndi að styðja við fjölskyldur berklasjúklinga. Á þessum tíma hafði farið fram mikil umræða á landsvísu um hvernig haga skyldi fátækrahjálp, mér þykir ólíklegt að hún hafi farið fram hjá Breiðdælingum. Það var meira að segja rætt um hvað væri hægt að gera fyrir geðveika.  Í þeirri umræðu kom fram að það ætti að gera fátæktrahjálpina  mannúðlegri og að halda skyldi saman fjölskyldum. 

En þó það séu u.þ.b. 100 ár síðan snertir þessi litla saga mig djúpt. Mér finnst afgreiðsla hreppstjórans minna helst á ýmsar afgreiðslur Útlendingastofnunar á málum flóttafólks sem sent er úr landi. Lögin um sveitafesti var Dyflinarreglugerð þess tíma. 

Að lokum þetta er afar falleg og læsileg bók sem er gott að hafa í hendi. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2016
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband