Aftur á kreik: Timur Vermes: Sjónarhorn Hitlers á nútímann

image

Bókin, Aftur á kreik, fjallar um það þegar Adolf Hitler vaknar upp  3. ágúst 2011 í Berlín og hefst þegar handa að reyna að halda áfram þar sem frá var horfið. Bókin heitir á frummálinu,  Er ist wieder da og kom út 2012. Hér kom bókin út 2015 í þýðingu Bjarna Jónssonar. Mér líkaði þýðingin vel.

Síðan ég fór á eftirlaun hef ég gripið í að rifja upp menntaskólaþýskuna. Nú er ég þangað komin í námi mínu að ég er farin að hlusta á þýska texta mér til gagns og fannst því upplagt að kaupa bókina sem hljóðbók á Audible. Jafnframt gafst mér kostur á að hlusta á hana á íslensku á Hljóðbókasafni Íslands auk þess sem ég gat rýnt í prentaða útgáfu. 

Það kom í ljós að þýskukunnáttan var ekki betri en svo að, mér reyndist betra að hlusta fyrst á íslenska textann og síðan á þýskuna. Þetta var á vissan hátt merkilegt, lesturinn er í báðum tilvikum frábær. Þýski upplesturinn hjá Audible, Christoph Maria Herbst,  er svo frábær að maður hrekkur við og heldur að Hitler sé þarna sjálfur kominn. Íslenski textinn er lesinn af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Hann er með albestu upplesurum sem ég hef hlustað á. 

Ég hef sem sagt lagt talsverða vinnu í þessa bók, fyrst hlustaði ég á einn kafla á íslensku og síðan á þýsku. Satt best að segja var þetta erfitt í bland, Hitler er óskemmtilegur karakter og ég var ekki viss um hvernig ég ætti að taka honum. Stundum langaði mig til að hætta við þessa vitleysu en ég er bæði þrjósk og þrautseig ef ég er búin að setja mér eitthvað fyrir. 

En nú er ég búin að sigra Hitler. 

Bókin fjallar um Hitler endurkominn, hann vaknar upp í heimi sem hann kann ekki á, hann er í skítugum einkennisbúningi, heimilislaus og allslaus. Góðhjartaður blaðasali miskunnar sig yfir hann og seinna tekur sjónvarpsstöð hann upp á sína arma.  Hann kann ekkert á þennan nýja heim og saknar samstarfsmanna sinna úr fyrra lífi. En Hitler er eldklár og nær ótrúlega fljótt að átta sig nægilega vel á aðstæðum til þess að ná völdum á ný. Hitler hefur ekkert breyst. Okkur gefst tækifæri til að skoða heiminn, okkur sjálf frá sjónarhorni Hitlers. 

Mér fannst þetta satt að segja afar óþægilegt og það hefur eflaust verið enn erfiðara fyrir Þjóðverja sjálfa, því að þeim beinist gagnrýnin. Bókin er fyndin á einhvern vandræðalegan hátt, maður veit aldrei almennilega hvort maður hafi leyfi til að hlæja. Það koma að vísu kaflar þar sem maður getur hlegið með góðri samvisku, t.d. þegar Hitler er að átta sig á undratækinu tölvu og þegar hann fer á október-bjórhátíðina í München. Það er afar óþægileg tilfinning þegar maður stendur sig að því að vera sammála Hitler í gagnrýni hans á nútímann. Réttlætingar hans á gjörðum koma illa við mann, ónotaleg fyndni. Verst þótti mér þó þegar mér fannst Hitler vera að tala beint inn í íslenska orðræðu. 

Ég ætla að láta þennan stutta pistil nægja en hvet alla sem áhuga hafa samfélagsmálum og sagnfræði að lesa bókina. Hún á líka sérstakt erindi til allra sem vinna við fjölmiðla.

Ég ætla ekki að reyna hér að svara áleitinni spurningu sem kemur upp fyrir, meðan og eftir lesturinn: Má svona? Þeirri spurningu verður hver að svara fyrir sig.


Bloggfærslur 27. febrúar 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 62
  • Frá upphafi: 187424

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband