Skarphéðinn í brennunni: Uppgjör hjá tannlækni

 image

Í dag þegar ég var sest í stólinn hjá tannlækninum hugsaði ég um Skarphéðin Njáls- og Bergþóruson. Það hafði ekki bara farið fylling, heldur króna og krónur tannlækna eru dýrar krónur og eiga ekkert sameiginlegt með íslensku krónunni nema nafnið. Hvað skyldi Skarphéðni hafa gengið til þegar hann hirti jaxlinn úr Þráni Sigfússyni eftir að hann klauf á honum húskúpuna niður svo sá í jaxlana, hugsaði ég. Þetta gerði hann eftir stökkið fræga, langstökk á ís, heimsmet sem enn stendur. 

Ég er nefnilega nýbúin að sjá Njálu í Borgarleikhúsinu og ég hef ekki gert upp við mig, hvað mér finnst um verkið. Ég ákvað að hugsa um Njálu og gera upp hug minn. Því hvar er betra að gera upp hug sinn, en gapandi í undur þægilegum stól á bjartri tannlæknastofu? Slakaðu alveg á sagði tannlæknirinn og brosti til mín á bak við grímuna.

Ég var ekki búin að gera upp hug minn gagnvart sýningunni og mér fannst það heigulsháttur og síst við hæfi. Njála hefur löngum verið í uppáhaldi hjá mér, og pabbi minn hafði einnig á henni mikið dálæti. Sýningin hafði fengið mikið lof en ég óttaðist að mér yrði seint gert til hæfis og var fyrirfram ákveðin að vera opin, umburðarlynd og láta mér ekki leiðast. Ég læt mér aldrei leiðast í leikhúsi. 

Á leiðinni í leikhúsi ræddum við, ég og maðurinn minn, hvaða atriði yrðu plokkuð út og notuð. Það verða ásta og kynlífsmál Unnar og Hrúts sagði ég. Og svo vona ég að það verði sagt frá gerningaþoku Svans á Svanshóli. Galdramenn eru í tísku. Lengra komumst við ekki, allt í einu erum við komin í leikhúsið og hlýðum á fyrirlestur Guðna Kolbeinssonar, þar sem hann segir okkur allt sem við vitum fyrir um Njálu. Mig langaði til að túlkun á hinu magnaða kvæði Darraðar um stríð, það myndi sóma sér vel sem ballet. Og svo myndi Gunnar í haugnum gera sig vel í leikverki. 

Og svo hófst leikritið og við vorum ekki svikin um kynlífsvandræðin. Þegar ég var spurð í hléi gat ég það eitt sagt að leikararnir eru svo sannarlega að vinna vinnuna sína. Að sýningu lokinni var ég enn óviss hvað mér fannst. Leikararnir fóru á kostum þegar þeir fengu að segja fram texta Njálu. Þá var mér skemmt. Mér var minna skemmt þegar kom að táknrænum tilburðum við að túlka söguna og spegla hana í okkar tíma. Ég er nefnilega orðin hundleið á bjórdósum og  snjallsímum í leikhúsuuppfærslum. Plastgínurnar og plastvopnin virkuðu ekki heldur fyrir mig. Ég saknaði þess að kórinn skyldi ekki syngja kvæði Hannesar Hafstein (lag Helgi Helgason), Skarphéðinn í brennunni og í staðinn syngja Brennið þið vitar eftir Davíð Stefánsson (lag Páll Ísólfson). En ég sá að aðrir skemmtu sér. 

Ég er illa skóluð í að horfa á ballet enda var ég lengi að átta mig á löngu, fyrir mig,langdregnu atriði, þar sem fólk veltist og barðist um, í að mér fannst eins og skrokkar í kjötpokum. Ég hef nefnilega unnið í sláturhúsi. Þegar ég áttaði mig á því að þarna var verið að túlka kristnitökuna skammaðust ég mín fyrir sveitamennsku mína. 

Þetta var ég allt að hugsa hjá tannlækninum og ég skildi líka dálæti Skarphéðins á jöxlunum. Hann hefur séð fyrir dýrleika þeirra þótt þeir nýttust honum aldrei á þann veg. En hann nýtti þá þó á sína vísu, þegar hann þurfti að hefna fyrir brigslyrði Gunnars Lambasonar, þegar hann spurði hann þar sem hann stóð tepptur við gaflað, hvort hann gréti. Græt ég ei sagði Skarphéðinn, en súrnar í augum og dró jaxlinn upp út pússi sínu og kastaði að Gunnari Lambasyni svo augað lá úti á kinn. 

Þegar ég var búin í stólnum, hafði ég gert upp hug minn um leikhúsverkið. Mér leiddist ekki, fannst bara of mikil læti og viðurkenndi fyrir sjálfri mér, að mér verður seint gert til hæfis þegar kemur að Njálu. Njála er ekki hástemmd bók. Menn segja hug sinn í knöppum setningum og oftar en ekki má greina það sem á útlensku kallast understatement. Fyndnin felst í því ósagða.

Þegar kom að því að borga reikninginn hjá tannlækninum, voru viðbrögð bankans við plastkortinu mínu ansi neikvæð. Það mál verður leyst og ég er ánægð með þessa dvöl mína í stólnum, því mér tókst að gera upp hug minn um Njálu. 

Bókin er betri en leikhúsverkið. Njála stendur alltaf fyrir sínu. Það mætti gera mörg leikrit eftir þeirri bók. Vonandi er þetta bara byrjunin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 186945

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband