Sporvagninn girnd: Hugsað í leikhúsi

Jólasýning Þjóðleikhússins í ár var Sporvagninn girnd eftir Tennesee Wiliams. Við hjónin erum með fjögurra sýninga áskriftarkort og sátum á 2. bekk á annarri sýningu. Ég er við aldur og leikhúsvön en svo hefur ekki alltaf verið raunin. Meðan ég beið eftir sýningunni rifjaði ég upp í huganum fyrstu kynni mín af leikhúsi, á sjötta áratug síðustu aldar austur í Breiðdal. En þá brá Þjóðleikhúsið á það ráð til að standa undir nafni og ferðast um landi og með úrvalssýningar og sýndu við erfiðar aðstæður. Ég man t.d. eftir sýningu þar sem vín var haft um hönd. Þar sem ég sat á hörðum bekk félagsheimiisins, var sem ég flyttist til í tíma og rúmi. Ég var ekki lengur þar, ég var með fólkinu í sögunni sem leikararnir fluttu mér. Heimur minn stækkaði.  Á þessum tíma hafði ég aldrei farið í bíó og það sem ég þekkti til umheimsins var úr bókum og frásögnum annarra. Á eftir gekk saga um sveitina um vandræðaganginn við að útvega ísmola í whiskýið. Þá var ekki til nema einn ísskápur í Breiðdal og mig minnir að ísmolarnir hafi verið sóttir á Djúpavog og hálfbráðnaðir áður en þeir komu á staðinn. 

En aftur að sýningunni í gær. Nú sat ég leikhúsvön í sjálfu Þjóðleikhúsinu og þekkti vel til verksins. Það hefur margt breyst í sviðsetningu á leikverkum og ég hef oft efast um að það sé allt til bóta. Það er miklu minna gert í að láta sviðsmyndina skapa raunsannan ramma um verkið, lýsa stað og tíma. Nú er sviðsmyndin táknræn umgjörð og leikhúsgestinum er eftirlátið að ráða í aðstæður. Nú yrði trúlega ekki sóttur ís milli fjarða til að fá réttan hringlhljóm í whiskýið.

Þetta er orðinn langur formáli að stuttri leikhúsgagnrýni en hann er það vegna þess að á sýningunni í gær gerði ég loks upp við mig að mér líkar ekki við nútímann í leikhúsi en ég hef verið hálfvolg. Mér líkar ekki við tímaleysið og oft óljósa staðsetningu. Mér finnist þegar þetta tvennt er tekið burt þá verði verkið flatt. Flatt.

Leikritið í gær, Sporvagninn girnd, gerist í New Orleans stuttu eftir síðari heimsstyrjöld. Það fjallar um ofbeldi og sálarangist. Ekkert jólalegt við það. Eða hvað? Það var frábærlega vel leikið. Það vakti upp margar spurningar sem hafa sjálfsagt verið nýstárlegar þegar það var skrifað. Þessum spurningum er enn ósvarað. Þær eru um samspil ofbeldis, kúgunar og um lygar og undirgefni. Mér fannst samleikur kvennanna sem léku systurnar bera af. 

Lokaorð. Ég naut sýningarinnar en mér fannst að hún hefði getað verið enn sterkari ef verkið hefði fengið að vera trútt sínum tíma og staðsetningu. Það hefði t.d. mátt setja inn dæmigerða neworleanstónlist í staðinn fyrir einhvern tímalausan rokkbræðing.  Það hefði verið viðeigandi að láta ísmola hringla í glerglösum og gefa leikhúsgestum frí frá plastflöskum, pappírsdiskum og bjórdósum.

En ég hugsa þolinmóð. Þetta er leikhústískan í dag, kannski næ ég að lifa hana. Og svo er þetta náttúrlega ódýrara fyrir leikhúsið. 

 


Máttur og kaupmáttur

image

Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri, sagði forsætisráðherra í gær þegar hann var í senn að réttlæta og hrósa sér af því að fjárlögin voru í höfn. Hann var glaðbeittur, hallaði sér fram og lyfti sér upp á tærnar.

Ég horfi á þetta í sjónvarpinu sitjandi í sófanum heima í stofu. Ég hugsa, hann misskilur hlutverk sitt, hann veit ekki að hann á að gæta hagsmuna allra landsmanna. Hann heldur að hann ráði kjarasamningum en þeir eru eins og allir vita í höndum stéttarfélaga og viðsemjanda þeirra. Þingmennirnir ráða ekki einu sinni eigin launum og taka því sem að þeim er rétt. Þau laun hafa vissulega hækkað. En svo gafst þeim kostur að leiðrétta önnur laun, laun öryrkja og ellilífeyýrisþega en þeir voru látnir eftir. Og ekki nóg með það. Öryggi þeirra og okkar allra var skert, með því að fjársvelta þá stofnun sem ræður örlögum margra meira en nokkur kaupmáttur þegar áföll dynja á þeim og fjölskyldum þeirra. Ég er að tala um Landsspítalann. 

Reyndar er forsætisráðherrann ekki einn um að halda að kjör fólks ráðist af kaupmætti launa. Það eru margir aðrir haldnir þeirri blindu, það er fólkið sem hefur kosið þessa ríkisstjórn til valda. Það er fólk einstaklingshyggjunnar. Skyldi þetta fólk aldrei verða veikt, hugsa ég og á það engin áhugamál sem ekki ráðast beinlínis af þeirra eigin kaupmætti? En ég reyni að forðast slíkar hugsanir, því ég vil ekki vera með fordóma um fólk sem ég skil ekki. Ég vil skilja. Og ég sem hef haft atvinnu mína af því að sýsla með kennslu, skólamál og uppeldi, hugsa. Þau hafa ekki lært, þau hafa ekki fengið þá reynslu og menntun sem nýtist þeim. 

Og enn hjálpa bókmenntirnar mér að skilja hið næstum óskiljanlega.  Það er algjör tilviljun að ég er einmitt nú stödd í þeirri bók Dickens ósem einmitt fjallar um áherslur í skólanum sem átti að mennta fók framtíðarinnar um miðja 19. öld. Það er bókin Hard Times (Erfiðir tímar)' sem hefur því miður ekki verið þýdd. Þetta er á árdögum nytjastefnunnar, Thomas Gradgrind, fyrrverandi kaupmaður í borginni Coketown.  Hann er sestur í helgan stein en hefur brennandi áhuga á menntun og útskýrir fyrir börnunum í hverju vísindi séu fólgin. Vísindi eru staðreyndir, einungis staðreyndir sem hægt er að mæla og skrá með tölum. Líklega á ég alls ekki að vitna í þessa bók núna, því ég óttast að fáir lesendur mínir hafi lesið hana og enn færri rjúki til, núna í jólabókaflóðinu að lesa útlenda skáldsögu frá 1854. En ég get bara ekki stillt mig. Dickens er dásamlegur og á svo vel við núna.

Ég ætla að segja ykkur hvers vegna hann á svo vel við. Persónulýsingar Dickens eru svo góðar og grípandi að mér finnst sem ég myndi þekkja þetta gfólk ef ég mætti því á götu, eða sæi það í viðtali í sjónvarpinu. Og það sem er enn betra við lýsingar Dickens á fólki er, að persónur hans eru annað hvort góðar og vel meinandi eða skúrkar og illmenni. Það er eitthvað svo gott þegar einhver segir það hreint út. 

Nú er best að vinda sér í smákökubaksturinn. Á meðan hugsa ég um aðra persónu í Hard Times. Það er Bounerby, ríki maðurinn  sem hreykti sér af því að vera alinn upp við óblíðar aðstæður. en það reyndist síðar ekki hafa við rök að styðjast. Hvenær fáum við söguna um stjórnmálamanninn sem settist að á jörð í afskekktri sveit?

 

 


Pétur Þríhross stýrði fjárlagagerðinni

 image

Það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir því að til það að skilja staðreyndir þarf maður að leita á vit skáldskapar, helst upplognar sögur. Ég hef eins og fleiri lagt mig eftir því að fylgjast með umræðum og afgreiðslu fjárlaga. 

Ég er alltaf bjartsýn. Innst inni var ég sannfærð um að tillaga meiri hlutans væri eins og hvert annað vinnuskjal og það mætti lagfæra það í meðförum þingsins. Sníða burtu skavanka svo þjóðin fengi skynsamleg og mannúðleg fjárlög í jólagjöf. Þá myndi vinkona mín á biðlistanum sem bíður þjáð eftir aðgerð, vita að biðin á biðlistanum er að styttast, og ég...sem langar að halda í það sem eftir er af sjóninni og fá lyfið sem augnlæknirinn minn hefur sótt um fyrir mig. Ég spurði hann, hvað þetta nýja lyf gerði meira fyrir mig en það sem ég fæ nú þegar. Svarið var:"Þetta er svona nokkurn veginn eins og munurinn á því að vera á Trabant og Benz". Ég hugsaði mér að ég gæti ekki borið þetta saman. Ég hef átt Trabant en ég hef aldrei átt Benz. Ég var ágætlega ánægð með Trabantinn en þegar kemur að sjóninni langar mig til að vera á Benz.

En nú er langt liðið á fjárlagagerðina og ég veit núna að ég hef verið full bjartsýn. Síðast þegar ég fór til læknis (það var ekki út af augunum, heldur út af lungunum)sagði ég honum að ég væri alltaf að vona að þetta færi að lagast. Þá sagði hann:"Þetta sagði Sigurlína líka, hún var endalaust bjartsýn". En fyrir þá sem ekki þekkja til, þá var Soigurlína móðir Sölku Völku, sú sem Laxness lét lífið fara hvað verst með í þeirri sögu. 

En nú veit ég, að ég mun halda áfram að vera Sigurlína og ég mun ekki fá að keyra um í Benz því það er Pétur Þríhross sem stjórnar fjárlagagerðinni. Fyrir þá sem ekki þekkja bókmenntir og vita hver Pétur Þríhross er. Lesið bækurnar um Ólaf Ljósvíking, Heimsljós. Hann var hluti af útgerðarauðvaldi þess tíma og átti vini fyrir sunnan og eflaust marga á Alþingi.


Fjárlög:Can I have some more. Sir?

image

Ég er sjálf ekki mikil fjármálamanneskja og það skýtur því skökku við að ég fylgist aldrei betur með störfum Alþingis en þegar kemur að umræðunni um fjárlög. Mér finnst eins og þar sé grunnurinn lagður að velgengni okkar allra. Já mér finnst a.m.k. að þannig ætti það að vera. 

Í þessari fjárlagagerð hef ég fyrst og fremst borið tvö mál fyrir brjósti, það eru málefni öryrkja og eldri borgara og málefni Landsspítalans. Innst inni trúði ég að það yrði brugðist við réttmætum kröfum öryrkja og eldri borgara, ég hélt að það yrði leitt til lykta af því í raun er þetta ekki stórt mál. Ég trúði því líka að nú yrði hafist handa við að rétta við rekstur Landsspítalans af því það er stórt mál og varðar hag svo marga. Svona er ég bjartsýn. 

Enn hef ég ekki gefið upp alla von. Ef ekkert verður að gert varðandi sjúkrahúsin get ég ekki betur séð en ég verði að breyta hugmyndum mínum um starfið sem fram fer á okkar háa Alþingi hvað varðar fjárlagagerðina, því þá er er verið að veikja grunn og rífa stoðir í stað þess að leggja grunn og byggja upp. 

Öryrkjar og eldri borgarar eru kannski ekki sterkur baráttuhópur. Einn er þó sá maður sem hefur verið svo ötull og talsmaður þeirra að eftir er tekið. Það er Björgvin Guðmundsson fyrrverandi þingmaður sem hefur skrifað grein eftir grein. Hann er ekki bara greinargóður, hann er líka réttsýnn og sanngjarn. Ég sem er sjálf eldri borgari, hef góðan tíma til að lesa bókmenntir. Nú ligg ég í Dickens. Ég sé fyrir mér Oliver Twist þar sem hann stendur og réttir fram grautarskálina og spyr kurteislega; "Can I have some more? Sir" 

Skömm þeirra sem sveltu drengina á "vinnuhælinu" mun seint gleymast. Ég vona að sama gildi um stjórnmálamennina ef þeir bregðast ekki við sjálfsagðri bón öryrkja og ellilífeyrisþega um kjaraleiðréttingu. 

 

 


Systurminning. Ingibjörg Gísladóttir

image

Á útmánuðum 1952 fæddist hjónunum í Þrastahlíð í Breiðdal, Gísla Björgvinssyni og Sigurbjörgu Snjólfsdóttur lítið telpukorn. Þetta gerðist 7. apríl, það voru snjóalög, jarðbönn og ófærð en það var ekki langt að sækja ljósmóðurina, hún bjó á næsta bæ. Ég man þegar Valborg kom, öslandi snjóinn. 

Fyrir áttu Gísli og Sigurbjörg 3 börn, Ásdísi f. 1940 og tvíburana okkur Snjólf f. 1942. Litla stúlkan sem fékk nafnið Ingibjörg var því langyngst. Henni var því tekið fagnandi, hún var langþráð barn. Foreldrar mínir kunnu vel til verka sem uppalendur og sáu því fljótlega að eitthvað var ekki í lagi, þegar litla stúlkan þeirra þroskaðist ekki eins og önnur börn, þau voru áhyggjufull en ekki man ég eftir því að þetta hafi verið rætt við okkur hin börnin. 

Ekki man ég hvað Ingibjörg var gömul þegar þau ákváðu að taka sér far með strandferðaskipinu til Reykjavíkur til að fara með barnið til læknis. Til að spyrja hann um hvað væri að og hvað þau gætu gert. Þetta var löng ferð, það fannst okkur að minnsta kosti systkinunum, sem sáum um búskapinn í fjarveru þeirra en Sigurbjörg amma var hjá okkur.  Þegar þau komu til baka höfðu þau fengið svör við spurningum sínum. Barnið er fatlað, hún var það sem þá var kallað mongóliti (nú Dawnsheilkenni) og það var ekkert hægt að gera. Hún myndi þroskast seint, aldrei ná fullum þroska og að auki var þeim sagt að flestir einstaklingar með þessa fötlun yrðu aldrei gamlir. Ekki veit ég hvort það átti að vera einhver huggun. 

Nú tók við nýr óvissutími. Hvernig var best að ala upp barn sem var svona öðru vísi en hin börnin. Mamma talaði oft um þetta; "ég þurfti aldrei að hugsa um hvernig átti að ala ykkur upp, nú veit ég oft ekki hvað á að gera." Eiginlega tók Ingibjörg af henni ómakið og þroskaðist á sinn sérstaka hátt, tók sinn sess sem eitt af börnunum í Þrastahlíð enda um margt ekki svo ólík okkur hinum. Það var bara eitthvað með þetta eina gen. Þetta var fyrir tíma kennslu fyrir fatlaðra. Reyndar var ekki rætt mikið um fatlaða á þessum tíma, rétt eins og þeir væru ekki til. Sú umræða hófst löngu síðar. Það var mikill léttir fyrir alla aðstandendur þegar umræðan varð opnari. En það var ekki laust við að sumum fyndist að þeir hefðu misst af einhverju. Á vissan hátt brugðust þó ættingjar og vinir hárrétt við. Þeir dekruðu við Ingibjörgu og það var látið mikið með hana. Mér, sér kennaranum fannst oft að Ingibjörg hefði haft gott af skipulagðri sérkennslu, ekki í staðinn fyrir dekrið, heldur til viðbótar. 

UIngibjörg ólst á heimili sínu og fékk enga formlega skólagöngu. Hún talaði oft um það sjálf að hana langaði að vera eins og aðrir. Hún sagði það hreint út og hún þurfti þess. Það þarf oft að minna fólk á það sjálfsagða.  Það er meðal annars vegna þessa, Ingibjörg vildi vera eins og aðrir, að ég skrifa þessa minningargrein. Ingibjörg hefði viljað fá um sig minningargrein til að vera eins og annað fólk. Og auðvitað var hún eins og annað fólk. En hún var líka sérstök, eins og annað fólk. Í því liggur hin óleysanlega mótsögn.

Ingibjörg átti sér áhugamál, sterkar og veikar hliðar - og sérviskur. Hún var mússíkölsk og hafði unun af því að læra lög og vísur. Hún hafði gaman af því að hlusta á það sem var lesið fyrir hana en hún hlustaði líka á útvarp og spólur. Hún átti sína uppáhalds leikara/söngvara, Bessi Bjarnason og Megas voru hennar menn. En hún var líka stríðin og þver. Hún var aldrei almennilega sátt við að ég skyldi skilja við ljúflinginn Megas og giftast öðrum manni sem ekki var frægur. Í hvert sinn sem við Erling, maðurinn minn,  komum austur byrjaði hún á að spyrja, af hverju kom ekki Megas. Þótt hún hefði fyrir löngu fengið öll svör og útskýringar, hélt hún sinu striki. Hún var svo ánægð með að þau skyldu eiga sama afmælisdag.

Hún hafði ekkert sérstaklega gaman af handavinnu eða öðru verklegu. Hún var aldrei þolinmóð kona. Það sem henni fannst allra skemmtilegast var að spjalla við fólk og bollaleggja. Hennar aðaláhugamál var fólk. Ég held að hún hafi þekkt nær alla sveitunga sína með nafni og kunnað afmælisdaga flestra. Hún fylgdist með umræðu og vildi gjarnan leggja sitt til málanna. Af því Ingibjörg hafði gaman af fólki, voru margir sem kunnu að meta hana og sýndu það í verki. Það var þó uppalandinn móðir mín sem mest hvíldi á meðan hennar naut við. Þegar heilsu mömmu hrakaði tók systir mín Ásdís við, en hún bjó á næsta bæ. Hún tók foreldra okkar til sín 1990 og Ingibjörgu með þeim og annaðist þau öll fram í andlátið.

Ingibjörg dó á Sjúkrahúsinu í Neskaupsstað 3. desember eftir skamma legu. Hún verður jörðuð í Eydalakirkjugarði 12. desember.

Meðan ég er að skrifa þennan pistil finn ég að mig langar til að þakka mörgu fólki sem var gott og atarlegt við Ingibjörgu. Ég ætla ekki að telja það upp en þakka því hér með. Ingibjörg kunni að meta fólk sem mundi að heilsa upp á hana eða senda henni kveðju. Hún hefði líklega munað afmælisdaga ykkar allra þegar best lét.

Ásdís systir mín á miklar þakkir skilið fyrir allt framlag sitt. 

 


Stopp

image

Ég hef um nokkurt skeið verið að hugsa um hvort það sem í daglegu tali gengur undir heitinu stjórnmálaumræða verðskuldi það heiti. Oftast er rætt um framkvæmdaatriði og peninga, ekki um grundvallaratriði, forsendurnar á bak við gerðirnar. Gott dæmi um það er notkun orðsins forsendubrestur sem nú virðist sitja fastur við eitt fjármálalegt útfærsluatriði. Hann situr þar eins og klessa og engum dettur í hug að hann eigi annars staðar heima.

En forsendur geta verið margvíslegar. Ég ætla að

telja upp nokkrar forsendur sem ég vil að lagðar séu til grundvallar í stjórnmálum. Það eru t.d.:kærleikur, jöfnuður, réttlæti (þar með talið mannréttindi) og sanngirni. 

Í morgun þegar ég sá fréttina í blöðunum vissi ég að ekkert af þessum orðum eru nú talin gild forsenda þegar kemur að því að hjálpa fjölskyldu í vanda. Fjölskyldu með veikt barn sem hefur verið gestur okkar um skeið, hefur verið vísað úr landi. Hún kom vegna þess að líflátshótun vofir yfir. Það voru ekki kærleiksforsendur, réttlætisforsendur og ekki einu sinni sanngirnisforsendur til að hjálpa þessu barni og fjölskyldu þess. Það skyldi hangið á útfærsluatriði á reglum. Reglugerðarbókstafstrú.

Oft finnst mér rithöfundar hafi yfirburði yfir stjórnmálamenn þegar kemur að því að ræða um forsendur ákvarðana sem teknar eru. Þeir eru djúphyggnari. Þeir hafa alla vega hjálpað mér að skilja hið stóra samhengi og hvað skiptir máli.

Í Bræðrunum Karamazov eftir Dostojevskí er þessa sögu að finna:u

"Maður nokkur sagði að hann væri fullur af ást til mannkynsins, hann elskaði það svo mikið að það hvarflaði að honum að hann væri jafnvel reiðubúinn að fórna sér fyrir það. En þessi ást hans til mannkynsins náði ekki til einstaklinganna, hann þoldi návist þeirra illa. Ef hann þurfti að vera einn með manni í herbergi, fannst honum návist hans erfið og fór að hata hann út frá lyktinni eða hljóðunum sem hann gaf frá sér (ekki bein tilvitnun, endursögn eftir minni)." 

Væri þessi maður góður til að stjórna landi? Ég veit það ekki en hann gæti kannski búið til reglur. 

Annar höfundur, Charles Dickens, segir frá því þegar Nicholas Nickleby, æpti Stopp. Hann gerði það til til að stöðva níðingsverk. Hann sagði stopp-hættið svo hátt að það breytti gangi þeirrar sögu. Ég veit ekki hvort Dickens elskaði mannkynið en hann elskaði börn og lýsti þeim sem persónum og kjörum þeirra. Mér finnst hann vera að segja okkur að það sé mikilvægt að kunna að segja Stopp þegar horft er upp á níðingsverk og segja það hátt. Kærleikur er næg forsenda og hver einstaklingur skiptir máli. 

Virkjum kærleikann, hann er sjálfbær.

 


Kofi Tómasar frænda: Harriet Beecher Stowe

image

Ég hef lokið við bók Harriet Beecher Stowe(1811-1898) sem ber nafnið Kofi Tómasar frænda. Þetta er önnur  bandaríska skáldkonan frá 19. öld, sem ég les, nánast í einni lotu (hin var Edith Wharton). Áður hafði ég verið skeytingarlaus í að kynna mér eldri bækur þessa fyrirferðarmikla stórveldis. Satt best að segja guldu bókmenntirnar fyrir andúð mína á fjölmörgum umsvifum stórveldisins, óverðskuldað. Og svo var ég tortryggin gagnvart bókinni, einhvers staðar hafði ég fengið það frá að hún setti ekki málefni þeldökkra í rétt samhengi. 

Bókin er hreint út sagt dásamleg. Ég veit að bók er góð, þegar hún er svo áleitin að hún sækir stöðugt á hugann, hvað sem ég er að gera, þá birtast mér senur eða setningar úr bókinni. Ég tala um hana við morgunverðarborðið og við gesti, jafnvel þótt ég viti að þei hafi ekki áhuga. Ég get ekki stoppað mig. Svona er Njála, Biblían, bræðurnir Karamazov og fleiri og fleiri. Svona var Kriget har inget kvinnligt ansikte eftir Svetlönu Aleksijevitj, sem ég er nýbúin að lesa. 

En aftur að hinni 163 ára bók Hriet Beecher Stowe. Þetta er bók um hvernig manneskjan ræktar og stendur við gildi sín. Höfundurinn er trúuð kona og sögusviðið er Bandaríkin sem þá hafa sett sér stjórnarskrá þar sem rætt er um frelsi og mannréttindi. Hvað er þá nærtækara fyrir trúað fólk en að henda það á lofti benda á hvernig þrælahald brýtur í bága við trú og stjórnarskrá. 

Bók Harriet er þó ekki bara um trú, hún er ekki síður pólitísk. En fyrst og fremst er þetta snilldarlega vel sögð saga um fólk. Hún skapar lifandi persónur sem eru svo minnisstæðar að manngerðirnar hafa verið notaðar síðar af öðrum höfundum. Dramatísk örlög þeirra þurfti hún ekki að skapa, þau sótti hún í samtíð sína. Þetta er breið saga, nokkrar persónur eru í forgrunni, þar sem lýst er andrúmslofti og samskiptum húsbænda og hjúa. Líklega á hér betur við að tala um eigendur og þræla. Í frásögninni er persónum fylgt eftir um nokkurt skeið. Lesandinn þekkir þær orðið vel, það er spenna í loftinu,þá er frásögnin brotin upp og nýtt sögusvið og nýjar persónum kynntar til sögunnar og allt fer á sama veg. Það er langt síðan ég hef lesið jafn spennandi bók. 

Bókin er skrifuð af miklum trúarhita. Guð er góður og kærleiksríkur. Það er hollt fyrir mig, trúleysingjann, að lesa svona bók, nokkurs konar andlegur kollhnís. Það kemur sér vel að hafa ekki fyrir löngu, lesið Biblíuna og vera vel undirbúin.

Auðvitað er ég búin að lesa mér svolítið til um bókina og höfundinn. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að draga upp falska mynd af veruleika þrælanna. Menn efast um tilvist gu húsbændanna. Myndin af hinum auðmjúka, dygga og fyrirgefadi þræli hentaði líka illa í réttindabaráttunni, sem tók við af baráttu þrælanna fyrir sjálfstæði sínu. Og hvar stóð Guð í öllum átökum.

En ég dáist kjarki þessarar konu, frásögn hennar hrífur mig og mér finnst ósanngjarnt að saka þann sem dregur upp mynd, að vera klisjuhöfundur. Myndin er frumsmíð, það eru aðrir sem gera klisjuna. Kannski þarf maður að hafa unnið í prentsmiðju til að skilja þetta (en það hef ég). 

Það besta við þessa bók er þó að hún sannfærir mann um heilindi höfundar og maður trúir henni. Þarna er fólk sem er að velta því fyrir sér hvernig maður breytir samkvæmt lífsgildum sínum og sé sjálfum sér trúr. 

Mér finnst bókin tala beint til okkar þar sem við erum stödd í dag. Það er talið að hvatinn að því að Harriet skrifaði hana, hafi verið hert löggjöf við flóttamannavanda þess tíma, þegar sett var í lög að það væri óheimilt að hjálpa þrælum á flótta, þó þeir væru komnir til ríkja þar sem þrælahald var bannað.

Þegar ég hafði lokið lestrinum fannst mér allt í einu að ég hefði ekki fæðst inn í rétta öld. Af hverju fæddist eg ekki inn í 19. öldina þegar rithöfundar víluðuðu ekki fyrir sér að skrifa langar bækur og lesendur höfðu enn tíma til að lesa þær? Hvað sem því líður, er ég þar.

Allt í einu kann ég ekki að enda svona pistil því set ég . hér.

 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2015
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 187294

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband