Leikhúsferð á Sókrates : Trúðaópera í Borgarleikhúsinu

image

Á seinni árum hef ég lært að skilja óánægjuna eftir heima þegar ég fer í leikhús og ég finn alltaf eitthvað til að gleðjast yfir í hverju verki. En aldrei hefur það þó komið fyrir mig á mínum langa leikhúsferli, sem áhorfandi, að mér hafi fundist að verkið væri beinlínis samið fyrir mig. Þetta gerðist í  Borgarleikhúsinu í gær þegar ég fór að sjá trúðaóperuna Sókrates. Hvernig gátu þau vitað að ég vildi einmitt sjá svona leikrit núna?

Við hjónin fórum sem sagt á Sókrates í Borgarleikhúsinu í gær, við vissum ekki á hverju við áttum von, höfðum áður séð Jesús litla eftir sama höfund, Berg Þór Ingólfsson. Það verk var dásamlegt. En Sókrates var nú enginn frelsari, eða hvað? 

Leikhópurinn fjallaði um heimspeki Sókratesar og spurði grundvallarspurningar og hann var efninu trúr að því leyti, að við fengum engin svör. Það er okkar að svara. Þótt ég hefði farið í leikhúsið með opinn hug og við öllu búin, tókst leikhópnum hvað eftir annað að koma mér á óvart og það gladdi mig. Um leið og leikritið sýndi litróf mannlífsins, grimmd, tryggð, græðgi og ráðaleysi í skoplegu ljósi skildi hún þó eftir einhverja von. Ég yfirgaf leikhúsið full þakklætis. 

En þá má segja að hefjist annar þáttur þessarar merkilegu leikhúsferðar. Við hjónin fórum á stoppistöð strætó til að taka vagninn heim. Ég var undir biðina búin, það er svo gott að hafa eitthvað skemmtilegt að hugsa um þegar maður bíður eftir strætó. Biðin reyndist lengri en ég hafði gert ráð fyrir og það var óskaplega kalt. Ég velti fyrir mér hvað ég gæti tekið mér fyrir hendur í anda Sókratesar. Það lágu tvær innkaupakerrur afvelta í snjónum við strætóskýlið og ein innkaupakarfa. Mig langaði að nota tímann og fara með þær þar sem þær áttu að vera og reyndi að hugsa ekki neikvætt um þetta fólk sem vinnur spjöll á eignum verslana með kæruleysislegri umgengni við innkaupakerrur og við hin verðum að borga í vörunum sem við kaupum. Mér tókst þetta ekki alveg og þess vegna skrifa ég þetta fólk og við hin. Ég ákvað að fara ekki með kerrurnar, fólk myndi bara halda að ég væri að stela þeim en ég reisti þær við svo þær færu ekki alveg á kaf í snjóinn. 

Strætó kom ekki.

 Mér var orðið verulega kalt og ákvað að taka gamla takta frá því að ég stóð yfir fé og berja mér og hoppa um leið jafnfætis. Þetta eru orðnir verulega gamlir taktar, því ég hef ekki staðið yfir fé síðan 1952. En þetta var líka gaman, mér hlýnaði og ég velti fyrir mér hvort Sókrates hefði einhvern tíma þurft að berja sér. Ég var ágætlega klædd og fór að hugsa um búnað hermannanna á susturvígstöðvunum í Seinni heimsstyrjöldinni. Þeim var oft svo hræðilega kalt á fótunum. Ein konan sem Svetlana Aleksievits segir frá því þegar búið var að taka hana til fanga og hún gekk fram hjá hrúgu afhögginna fóta félaga sinna. Þjóðverjarnir
ætluðu að taka stígvélin til handagagns en næðu þeim ekki af gaddfrosnum líkunum. Önnur stúlka segir frá flókastígvélunum sínum, sem voru góð þangað til hlákan kom. 

Strætó kom ekki

Ég spurði manninn minn hvort við ættum ekki að hringja á leigubíl. Hann sagði að úr því við værum búin að bíða svona lengi, gætum við beðið svolítið lengur. Þetta fundust mér góð rök og við biðum. Allir strætóar voru á tíma og renndu framhjá nema okkar strætó sem er númer 14. Þessi strætó hefur reynst okkur vel, hann hefur aldrei brugðist okkur og hvers vegna ættum við að bregðast honum með því að taka leigubíl. Og við biðu og okkur skorti ekki umræðuefni eða eitthvað til að hugsa um. Kannski hefur orðið slys. Vonandi hefur enginn slasast.

Strætó kom ekki. 

Þegar hinir strætóarnir renndu fram hjá í annað (eða var það í þriðja) skiptið sagði maðurinn minn:"Við tökum bíl"

Leigubílstjórinn sem ók okkur, spurði hvort við notuðum stundum strætó, eftir að hafa fengið svar gaf hann okkur strætómiða sem einhver viðskiptamaður hafði skilið eftir í bílnum. Hann bað okkur líka afsökunar á því að það væri enn kalt í bílnum, hann væri nýkominn af bráðamóttökunni (hún ætti kannski frekar að heita hæga móttakan). Hann hafði fyrr um daginn skorist á höfði. Hann hafði hrasað í hálkunni þegar hann var að aðstoða farþega og skorist á höfði. Hann ók sjálfur á Bráðamóttökuna og nú var búið að sauma/líma sárið. Svo ók hann okkur heim og bíllinn var orðinn þokkalega heitur og ég hugsaði enn um Sókrates.

Ég gekk frá strætómiðanum og hugsaði:"Tveir srætómiðar plús einn er næstum helmingurinn af því sem kostar að taka leigubíl. Hefðum kannski átt að taka bíl strax. En þá hefðum við misst af eftirleiknum á stoppistöðinni.   

Þetta var sem sagt góð leikhúsferð. 

 

 


Brot af mannkynssögu:Ójafn leikur:Susan Abulhawa

image

Maður nokkur gekk fram á stóran rum þar sem hann var að berja á litlum dreng. Sá stóri hafði haft hann undir og lét höggin ganga, eins og hann ætlaði að ganga frá hinum. Göngumaðurinn ætlaði að ganga á milli og stoppa misþyrmingar en þá dreif að mannfjölda sem hrópaði: Láttu þetta afskiptalaust, sjaldan á einn sök þegar tveir deila (lesið jafnframt Lúk.10.29-37).

Ein besta leið til skilja líf sem er manni ókunnugt eða framandi er að lesa bækur. Ekki fræðibækur, heldur bækur um lifandi fólk, skáldsögur.

Flestar bækur sem við lesum eiga uppruna sinn í menningu sem  líkist okkar, menningu sem við þekkjum af eigin raun eða þekkjum vel til. Þó er vitað mál að einmitt lestur bóka, einkum skáldverka er ein besta leiðin til að skilja fólk frá menningarsvæðum sem eru ólík okkar. Og hvað er gagnlegra en að skilja fólk? Nema ef til vill að skilja sjálfan sig? Til þess lesum við bækur.

Í bókaklúbbnum mínum reynum við annað slagið að taka mið af þessu við val bóka. Við lesum bækur höfunda sem við þekkjum ekki um líf fólks frá löndum þar sem við þekkjum lítið til. 

Síðast varð fyrir valinu Morgnar í Jemin eftir Susan Abulhawa. Í bókinni er rakin saga einnar  fjölskyl du, um leið er sögð saga palestínsku þjóðarinnar. Sögumaður Amal, er palestínsk stúlka. Hún er sloppin úr prísundinni, palestínska þjóðin er innilokuð,og býr við velmegun í Bandaríkjunum en hún hefur misst landið sitt og það er eins og glata hluta af sjálfum sér. 

Þetta er vel sögð saga. Hún er átakanleg. Þótt við hér á Vesturlöndum séum ekki óvön því að fá fregnir frá átökum í Palestínu, oft tölur um fjölda látinna, kemur það öðru vísi við mann að lesa um fólkið sem lifir við þetta ástand og verður fyrir sprengjunum. Á sama tíma og ég var að lesa þessa bók, fylgdist ég með fréttapistlum vinkonu minnar Bjarkar Vilhelmsdóttur, sem hefur nú um nokkurt skeið verið nokkurs konar vitni á vettvangi.  Allt stemmir, enn er verið að ræna landi, enn er verið að storka fólki og lítilsvirða það.

Hversu lengi verðum við að horfa á þennan ójafna leik.

Myndin er frá Björk Vilhelmsdóttur


Ekki bara blóð sviti og tár. Frásagnir kvenna úr stríði

image

Nú hef ég lokið við að lesa bók Nóbelsverðlaunahafans Svetlana Aleksijevitsj, Kriget har inget kvinnligt ansikte og ég veit ekki hvað ég á að gera við það sem ég hef verið að lesa. Á eg bara að gleyma því og láta eins og það hafi aldrei gerst eða sé ýkjur eða uppspuni athyglissjúkra kvenna. Reynsla þessara kvenna passar hvergi inn í reynsluheim minn. Sem betur fer, hef ég enga reynslu af stríði. Eiga þessar minningar eitthvað erindi við mig?

Bókin byggir á endurminningum fjölda sovétskra kvenna sem tóku þátt í stríðinu, sem hluti af herliði eða í liði andspyrnuhreyfingarinnar (Partisana). Rætur þessarar bókar liggja í viðtölum (1978-2004) sem höfundurinn tók sem blaðamaður við hundruð kvenna. Hún skrifaði hjá sér og tók viðtölin upp á segulbönd. Að lokum fór hún í gegnum þetta mikla safn upplýsinga og fann búta þar sem henni fannst sem krisalliseraðist ný sýn, nýr sannleikur um stríðið. Hún hafði áður gert bók út frá sama efni sem var ritskoðuð. Eftir fall Sovétríkjanna tók hún enn fleiri viðtöl og skrifaði nýja bók.

Hér er líklega rétt að skjóta inn að Svetlana er fædd 1948 og alin upp sem Sovétborgari. Hún er fædd í Úkraníu, alin upp í Hvíta Rússlandi, dóttir úkranskrar móður og Hvítrússa. Andrúmsloftið var mettað af eftirköstum stríðsins. Fókus frásagnanna var á fórnina, hetjuskapinn og sigurinn. Sögubækurnar greindu frá vígstöðunni, tækjum, tólum og tölulegum upplýsingum um fjölda fallinna og særðra. Sigur stríðsins var blóm í hnappagat Stalíns.

Í stríðsmenningu kvennanna var fjallað um aðra vídd stríðsins ef svo mætti segja. Þær  sögðu  frá hverdagslegum hlutum eins og mat, fatnað og sárabindum. Reyndar er oftast talað um skort á öllu þessu. Þær tala um lús, skít og nauðganir. Þær tala um óþol sitt gagnvart rauða litnum efir allt blóðið og hvernig þær töluðu við deyjandi hermenn. Þær sögðu ástin mín þótt þær hefðu aldrei séð þá fyrr. Þessar frásagnir eru á persónulegum nótum, konurnar tala um hversu þær söknuðu mæðra sinna og um flétturnar sem voru klipptar af þeim um leið og þær tala um framlag sitt til að vinna sigur. Um leið greina sumar frá "hinu stríðinu", stríðinu sem Stalín átti við þjóð sína. Margar segja frá því, fögnuðinum þegar sigur hafði unnist, þá skutu hermennirnir upp í loftið. Þeir fengu áminningu frá yfirmanni vegna sóunar á verðmætum. Það hvarflaði ekki að þeim að það þyrfti nokkurn tíma framar að nota skotvopn. Stríðið var svo hræðilegt að þeir héldu að fólk hefði lært. 

Margar af viðmælendum Svetlönu fóru kornungar í stríðið og þær beinlínist sóttust eftir því að vera sendar í fremstu víglínu. Margar þeirra fóru beint frá prófborðinu, þær fóru hópum saman, sjálfviljugar, stúlkur enn á barnsaldri, sem aldrei höfðu áður farið að heiman. Þessar stúlkur eru orðnar gamlar konur, þegar viðtölin eru tekin og stríðið situr í þeim. Margar tala um að þær hafi aldrei getað unnið úr þessum harmleik. Mér fannst merkilegt að sjá að nokkrar töluðu um að ljóð eða tónlist hefðu hjálpað sér. Konurnar voru skaðaðar af stríðinu en samt voru þær stoltar af að hafa barist.  En hér ætla ég að láta staðar numið að segja frá efni þessa stórvirkis.

Í upphafi bókarinnar segir höfundur frá því hvað henni gekk til þegar hún var að semja hana. Hún vildi ekki bara draga hlut kvennanna sem börðust, innst inni vonaðist hún til, að myndin sem konurnar drógu upp af stríðinu (sem var önnur en karlanna) gæti stuðlað að því að fólk sæi ljótleika og grimmd í stað hetjudáða og tækju afstöðu gegn hernaðarhyggju. 

Ég er ánægð að ég hélt það út að lesa þessa bók, hún er stórvirki hvort sem á að dæma út frá bókmenntafræði, sagnfræði, pólitík  eða sem framlags til blaðamennsku. Ég vona að hún verði þýdd á íslensku. Þótt stríðið sé langt að baki, eru önnur stríð og við þurfum að hafa kjark til að  horfa og sjá. 

Myndin er tekin af lágmynd í Treptow í Berlín, en þar voru greftraðar líkamsleifar 5000 sovétskra hermanna. Ég kann ekki að túlka þessa mynd en ímynda mér að hún eigi að tákna hetjudáðir partisana


Bækurnar í lífi mínu núna

image

Þessi pistill er ekki um neina einstaka bók, hún er um bækurnar í lífi mínu núna. Ég er alltaf með fleiri en eina bók í takinu. Valið er tilviljunarkennt, bækurnar einhvern veginn rata til mín. Oftast reyni ég þó að haga því þannig að ég sé með eina sem gæti flokkast sem erfitt viðfangsefni og aðra mér til hugarléttis. En auðvitað er ekki alltaf auðvelt að vita hvernig bók er áður en maður hefur lesið hana.

Eftir að sjónin fór að dofna og ég get ekki lengur lesið venjulegar bækur, þ.e.a.s. prentaðar, takmarkast lestur minn af því hvaða bækur ég get fengið í rafrænu formi,ýmist til að lesa eða til að hlusta á. En þetta er ekki einungis slæmt, þetta hefur opnað mér heim sem ég þekkti ekki áður. Ég hef aldrei áður hlustað eins mikið á erlend tungumál, það er auðveldara en ég hélt.

Nú er ég að hlusta á/lesa þrjár bækur og engin þeirra er beinlínis létt afþreying. Það liggja ólíkar ástæður fyrir valinu og ég velti því fyrir mér núna hvort það sé tilviljun eða örlög að þessar bækur bönkuðu upp á einmitt núna, þegar heimurinn, að minnsta kosti Evrópa stendur á öndinni vegna hryðjuverkaárásar.

Bók eitt er Kriget har inget kvinnligt ansikte, ég les hana á sænsku á iPaddinum. Þessa bók valdi ég fljótlega eftir að höfundurinn, Svetlana Aleksievich hafði fengið Nóbelsverðlaunin. Það var fyrst og fremst forvitni á bak við þetta val en nú sit ég uppi með 318 blaðsíður af lýsingu af stríði. Konur tala öðru vísi um stríð en karlar, þær segja frá hrundegi stríðsins, ekki orustunum, eða vígstöðunni.  Þetta eru ótal litlar sögur brot úr viðtölum. Mósaík stríðs, grimmdar og hörmunga. 

Bók númer tvö er Morgnar í Jemen,hana valdi bókaklúbburinn fyrir mig. BóKin er eftir Susan Abulhawa og segir sögu hernáms Palestínu. Bókin kom út 2010 og kom út í íslenskri þýðingu Ásdísar Guðnadóttur. Þetta er átakanleg saga og um leið er þetta saga um grimmd. Ástæðan fyrir að ég hef frestað að lesa þessa bók fyrr en núna, er að ég óttaðist að hún myndi koma koma illa við mig.

Þriðju bókina hlusta ég á í símanum mínum meðan ég skokka. Það er Uncel Toms cabin. Hún er að ensku,en hún hefur verið þýdd á íslensku af Guðrúnu Lárusdóttur (kom út 1901) en ég hef ekki lesið þessa bók fyrr en nú. Veit ekki hvers vegna. Nú þegar ég hugsa til baka og leita svara við af hverju ég las ekki þessa bók fyrr, veit ég að þar var vegna þess að ég hélt ég, að hún skipti ekki lengur máli. Nú sé ég að hún talar beint inn í tímann. Því miður. Það er eins og verið sé að tala um flóttamenn dagsins í dag.

 Allar þessar bækur tala beint inn í hverdaginn eins og hann er núna, litaður af fréttum um stríð og hryðjuverk. Allar góðar bækur tala við mann um það sem er að gerast hér og nú. Það er það sem gerir þær sígildar. En þótt þær fjalli um óhugnað, íþyngja þær manni ekki, þær hjálpa manni að vinna úr ringulreiðinni í henni veröld.

Þess vegna les ég bækur.


Góða sálin í Sezuan: Leikhús í Berlín

image

Ég sá Góðu sálina í Sezúan í Berlín. Mér finnst það dásamlegt verk, það vekur upp svo margar spurningar. Ég sá það í undurfögru leikhúsi,Berliner Ensemble. Þar segir frá því þegar þrjár guðlegar verur komu til jarðarinnar til að kanna hvort jarðarbúar væru á vetur setjandi. Ég hef séð þetta verk tvisvar áður og það er alltaf eins og nýtt. 

Í þessari uppsetningu var áhersla lögð á hvað við lífið er oft afkáralegt. Það kemur strax í ljós að fólkið í Sezúan var ekki tilbúið að taka á móti guðunum. Allir afsaka sig. Nema vændiskonan, Shen Te. Hún tekur guðina að sér og í staðinn hjálpa þeir henni til að láta draum sinn rætast og hætta í bransanum og kaupa sér tóbaksbúð. En það er erfitt að vera í viðskiptalífinu, straks og þetta berst út, drífur að fólk sem vill að hún hjálpi sér. En Shen Te kann ekki að segja nei og það gengur ekki við reksturs fyrirtækis. Hún skiptir um gerfi. Í stað þess að vera hún sjálf, fer hún í gerfi tilbúins frænda. Í gerfi frændans getur hún ekki bara sagt nei, frændinn  reynist vera snjall athafnamaður. En ég ætla ekki að reyna að endursegja efni verksins hér. Það tók þrjá og hálfan tíma. Tónlistin var hrífandi, ljóðin og textinn. Stundum fannst mér nóg um öll skripalætin, mér fannst ekki þörf fyrir alla þessa fyndni. Textinn er fyndinn í sjálfu sér. En þetta er tíska dagsins í dag. Uppsetningin í  leikritinu  er farsakennd, hlaup og læti. Ástin er á sínum stað og meira að segja ansi nærgöngul. 

Ég hef aldrei búið í Þýskalandi og burðast því enn með mína menntaskólaþýsku og átti fullt í fangi með að ná textanum. En ég bjó að því að ég hafði lesið leikritið bæði á íslensku og á þýsku.  Það eru margar dásamlegar setningar í þessu verki. 

En ég tapaði mér í guðfræðilegar pælingar. Af hverju voru guðirnir þrír? Voru þeir sendiboðar eða höfðu þeir fullt umboð til að ákveða örlög jarðarbúa? Ég stóð mig að því að vera svo heilaþvegin í Biblíufræðum að ég átti erfitt með að taka fullt mark á þeim sem  fullgildum Guði.

Allt fór þetta vel að lokum. Guðirnir þrír komust að þeirri niðurstöðu að jarðarbúum skyldi þyrmt. Ein góð sál nægir. 

Ég man ekki hvenær ég sá Góðu sálina hér heima en ég var í skýjunum lengi á eftir. Mér fannst Brecht skilja mig og vera að tala við mig. Kannski var það öfugt. En mikið langar mig til að sjá þetta leikrit hér heima aftur.

Myndin er af styttu af Brecht fyrir utan leikhúsið.


Manneskjan er stærri en stríðið: Svetlana Aleksijevitj

image

Það er nokkuð síðan ég keypti bókina, Kriget har intet kvindeligt ansigte (eBók). Bókin er á sænsku þvi, sænska er mitt næstbesta tungumál. Bókin er skrifuð á rússnesku en hefur ekki verið þýdd á íslensku.

Ég vissi það fyrirfram að þetta væri ekki bók sem kastaði yl og birtu inn í lífið, svo það var ef til vill fráleitt að taka hana með fríð en þannig varð það. Nú er ég stödd í Berlín og ég er búin að lesa rúmleg þriðjung. Stríðið er með mér og það á kannski ekki svo illa við, því hér lauk því. 

Bókin byggir á fjölda viðtala sem Svetlana tók við sovétskar konur sem börðust í seinni heimstyrjöldinni. Þær voru kornungar þegar þær skráðu sig í herinn sjálfviljugar. Allar vildu þær komast á vígstöðvarnar. Viðtölin eru tekin 30 árum síðar, þær eru því ekki bara að rifja upp stríðið heldur einnig leggja mat á sitt eigið líf. 

Þar sem ég er núna stödd í Berlín átti heldur  ekki illa við að heimsækja minnisgrafreitinn í Treptow. Hann er í senn minnismerki um hermenn sem féllu á vígvöllum í Þýskalandi (80 þúsund) þar hvíla einnig 5000 hermenn sem féllu í orustunni um Berlin. Það var merkilegt að sjá þetta minnismerki fallinna hermanna og fallinna hugsjóna en minnisvarðinn er reistur af Sovétríkjunum. Reyndar er líka merkilegt að sjá slíkt minnismerki þar sem inngangurinn er sigurbogi í sigraða landinu.

Þetta stríð kostaði mörg mannslíf og miklar þjáningar en mannskepnan virðist þó vera enn í sömu sporum. Styrjaldirnar geisa enn, vopnin eru enn öflugri. Ég ætla að halda áfram með bókina um stúlkurnar sem fóru á vígvöllinn. Ég hef einhvern veginn tekið tryggð við þessar konur og finnst að ég þurfi að fylgja þeim á enda, þ.e. til bókarloka. Meira um það seinna.

 


Stelpubók: Líka fyir fullorðna: Schattengrund

image

Það var gott að taka fram vin minn "Kindle"í hitanum hér á Spáni og lesa þýska bók sem gerist í þýsku vetrarveðri.  Var að ljúka við bók sem ég byrjaði á fyrir nokkru, er að æfa mig í þýsku.

Bókin heitir  Schattengrund og er eftir Elisabeth Herrmann. Ég hef lesið nokkrar bækur eftir þennan höfund og kann vel við hann (hana), þær hafa allar verið með glæpaívafi. Ég áttaði mig fljótt á því að þessi var öðruvísi, einhverskonar ævintýraformúla í gangi. Svo rann það upp fyrir mér að þetta var ekki bara ævintýraleg bók, heldur líka bók ætluð ungum lesendum. Það fannst mér skemmtilegt. En glæpaívafið og spennan var á sínum stað. 

Sagan er um 17 ára stúlku, að verða 18, sem fær í hendurnar arf með skilyrðum. Gömul frænka hefur arfleitt hana að húseign í afskekktu þorpi. Stúlkan, Nico, man óljóst eftir þessari frænku sinni sem hún hefur ekki séð í 12 ár. Af einhvejum ástæðum sem Nico skilur ekki, hafna foreldrar hennar arfinum fyrir hennar hönd en Nico er ekki lögráða. Hún ákveður að fara á laun (segist gista hjá vinkonu) og skoða húsið og þorpið. Ekki tekst betur til en svo að það gengur í óveður og þorpið einangrast. Hún er innisnjóuð. Og nú taka hlutir að gerast sem Nico gat ekki órað fyrir. M.a. kynnist hún ungum manni sem er henni mikil hjálparhella, þótt hún viti ekki alltaf hvar hún hefur hann. 

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar en bókin var bæði læsileg spennandi. Það sem gerir bækur Elisabeth Herrmann góðar er, að hún er góð að draga upp mynd af persónum og umhverfi.  Mér féll bókin vel og held að sama myndi gilda um yngri lesendur. Kannski gætu fleiri en ég notað hana til að æfa sig í þýsku. 

Hef lesið nokkra þýska krimma. Af hverju eru þýskir krimmar aldrei þýddir á íslensku?


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2015
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 187121

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband