Hinir smánuðu og svívirtu: Fjodor Dostoevjevski

 7458A74C-13C6-4F3F-A61C-ABC7A1A1F0D9

Ég á mörg uppáhaldsskáld en ég er á móti því að raða þeim á einhverskonar keppnislista, HVER ER BESTUR?. Þetta væri eins og búa til slíkan lista um vini sína eða börn sín og barnabörn. En ég hef miklar mætur á Fjodor Dostojevskí og hef einhvern tíma látið það út úr mér að Karamazovbræðurnir sé mín uppáhaldsbók, best bóka. 

Það varð mér því til mikillar gleði, hjartað sló aukaslag í brjósti mínu, þegar ég sá, að það var ekki bara búið að þýða nýtt verk eftir Dostojevskí, heldur líka lesa það inn sem hljóðbók. Verkið, bókin heitir Hinir smánuðu og svívirtu.Hún kom út 1861 og var fyrsta bókin sem Dostojevskí skrifaði eftir að kom úr fangelsi og útlegð.

Það var Ingibjörg Haraldsdóttir sem hóf þýðinguna en henni entist ekki heilsa og aldur til að ljúka henni. Gunnar Þorri Pétursson tók við verkinu og lauk því. Hjá mér var hátíð í bæ, líklega er ég óþolandi meðan ég er að lesa Dostojevskí, því það kemst ekkert annað að, hvorki Hrun-afmæli, skattlagning á fiskveiðar eða óheppileg framkoma hátt settra starfsmanna Orkuveitunnar. Þetta hverfur allt í  skuggann af frásögnum um ástandið  í Pétursborg árið 1861. 

Ungur rithöfundur liggur fyrir dauðanum og ákveður að skrifa um nýliðna atburði, sem hvíla þungt á hjarta hans. Þetta er snauður maður sem hefur gefið út eina bók. Það sem íþyngir honum, hugur hans dvelur við atburði sem hann var þátttakandi í og einhvers konar umboðsmaður réttlætis, málsvari hinna smánuðu og svívirtu. 

Fjölskylda hans, þ.e. fjölskyldan sem tók hann að sér, því hann er munaðarlaus, er í vanda stödd.  blekkt og svikin af manni sem hún treysti.  Samviskulaus maður ásælist eignir hennar og það sem verra er, er sami maður, sem tekst með klækjum, að eyðileggja ástarsamband dótturinnar og sonar hans. Hann vill að hann giftist til fjár. Þarna er á ferð Vasily fursti. Unga skáldið sem ber ástarhug til fóstursystur sinnar er göfugmenni og reynir eins og honum er unnt að hjálpa henni. Í raun er vandinn sá að ungi maðurinn, sonur furstans, er einfeldningur, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Við þessar áhyggjur unga skáldsins bætist að hann hefur nýlega tekið að sér   munaðarlaust og sárveikt stúlkubarn, Nellý. Hennar saga er í senn dramatísk og átakanleg. 

Ég ætla ekki að rekja þennan þráð lengra hér, mig langar til að víkja að því sem mér finnst ekki síður heillandi við söguna, persónusköpun hennar, flækjur og spennandi atburðarás.  Það  er andrúmsloftið, lífið í Pétursborg þess tíma. Fátæktin var slík að fátæklingar á leigumarkaði urðu að sætta sig við að leigja, ekki íbúð eða herbergi,, heldur herbergishorn. Ríka fólkið átti ekki aura sinna tal og auðmennirnir voru grimmir og gráðugir. Þá sem nú.

Sumir halda að bækur Dostojevskís séu erfiðar og tormeltar. Mér finnst það ekki. Og þó svo væri, myndi ég lesa þær. Í bókmenntum gildir ekki brellumálshátturinn MIKIÐ FYRIR LÍTIÐ. Nei alls ekki.

Mín reynsla er að maður þarf oft að hafa dálítið fyrir góðum bókum. Þessi bók er full af ástríðu, ást og visku. Er það ekki eitthvað að orna sér við?


Allt sundrast: Chinua Achebe

BA0172EE-79F6-483A-8D23-5A9DC480EE9D

Bókin Allt sundrast eftir nígeríska höfundinn Achebe (f. 1930 d. 2013) kom mér á óvart. Í kynningu í káputexta er sagt að í bókinnni sé sagt frá glímu- og bardagakappanum Okonkwo, sem hafi verið þekktur í hinum níu þorpum. Jafnframt er sagt, að með útkomu bókarinnar hafi orðið kaflaskil í söguritun  Afríku.

Sagan gerist í Nígeríu í lok 19. aldar. Höfundurinn er Igbo maður og sögusviðið er Igbo- þorp. (Í Wikipediu las ég að Igbo-tungumálið sé talað af 18 milljónum). Bókin kom út 1958 og fór sigurför um heiminn. 

Fram til þess tíma hafði söguritun verið í höndum erlendra höfunda, þessi saga er skrifuð af heimamanni. Ég skildi mikilvægi þessa enn betur, eftir að ég var komin inn í bókina. Þessa sögu gæti enginn skrifað nema sá sem þekkir samfélagið sem hann er að lýsa af eigin reynslu og hefur verið hluti af því. Það var afar fróðlegt  að kynnast samfélagi sem er svo ólíkt okkar en minnir stundum á þjóðfélag sem við þekkjum í gegnum fornbókmenntir okkar. Ég hugsaði oftar en einu sinni til Eyrbyggju og fleiri sagna.

Það sem kom mér á óvart, var hvað  bókin er spennandi og oft launfyndin.  Sagan er að því leyti merkileg að hún segir sögu samfélags, sem grundvallast á allt öðrum hugmyndum en okkar. Sumar þeirra eru grimmar frá okkur séð, aðrar eru beinlínis heimskulegar. Um leið eru margar hugmyndir góðar og skynsamlegar, ég tek dæmi um að hafa friðarviku til að mýkja hug guðanna áður en ræktun er hafin. Ég held að friðarvikur eigi alltaf við. Mér fannst lýsingin á dómstólunum snilld. En það sem mestu máli skiptir er að persónurnar lifna við og lesandanum er ekki sama hvernig örlög þeirra ráðast. 

Í lok sögunnar er hvíti maðurinn kominn til sögunnar og í hans huga er aldrei neinn vafi á hvað sé best fyrir þessa villimenn. Ég hef lesið mér til um bókina og höfundinn. Og nú veit ég að þetta er fyrsta sagan af þrem og ég vona svo sannarlega að hinar eigi eftir að koma út á íslensku.

Myndin af höfundi er sótt á netið 

 


Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, þrenna eftir Jon Fosse

 AF5B7F6B-EF3E-4C99-9F2E-178FE6D67997Þeir sem hafa lesið pistlana mína, vita að að í hálft ár hef ég legið í rússneskum bókum um stríð. Þessar bækur eiga það sameiginlegt að lýsa umhverfi, atburðarás og fólki svo vel og ítarlega að það er eins og maður sé þátttakandi.

Til upprifjunar nefni ég þær: Sívagó læknir eftir Pasternak, Lygn streymir Don eftir Sjolokhov og Stríð og friður eftir Tolstoj.  Auk þess las ég bókina Dagur í lífi Ivans Denisovitch eftir Solsenitsyn sem segir frá einum degi í fangelsi. 

Eftir þessa Bjarmalandsdvöl voru það  viðbrigði að lesa bækur norðmannsins Jon Fosse (f. 1959). Ég var ekki undir það búin. Textinn er knappur. Meðan rússnesku bækurnar flæða fram eins og breitt fljót, minna bækur Fosse meira á nið lækjarsytru. Bækurnar heita Andvaka, Draumar Ólafs og  Kvöldsyfja. Þær mynda eina  heild, og segja sögu norsks alþýðufólks frá fyrri tímum. Bækurnar eru stuttar og  ljóðrænar. Frásögnin er svo knöpp að það jaðrar við naumhyggju.

Þær komu út í Noregi á árunum 2007, 2012 og 2014. Og 2015 voru höfundi veit Norrænu bókmenntaverðlaunin fyrir verkið í heild. Á Íslandi komu þær út 2016 en voru lesnar inn fyrir Hljóðbókasafnið 2018.

Hjalti Rögnvaldsson hefur þýtt bækurnar. Hjalti er leikari og  hefur lesið inn fjölda bóka fyrir Hljóðbókasafn Íslands og er hann  einn af mínum uppáhaldslesurum. En það er ekki hann sem les í þetta skipti, heldur Stefán Jónsson sem gerir  það listavel. Lesturinn skiptir enn meira máli þegar textinn er ljóðrænn, finnst mér. Ljóð eiga svo greiðan aðgang að hjartanu. 

Ég hef ekki lesið Fosse fyrr, en heyrt af honum, hann er jú margverðlaunaður fyrir bækur sínar og leikverk. Loks þegar ég las, Min kamp eftir Knausgård, ákvað ég endanlega að ég yrði að lesa þennan höfund. Knausgård  talar oft um hann og af mikilli virðingu. Þess vegna gladdist ég þegar ég sá að búið var að lesa þær inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Ég fylltist þakklæti. Þannig líður sjónskertri bókamanneskju þegar hún fær nammið sitt.

Mér finnst mikill fengur í að fá þessar bækur á íslensku, þær eru fallegar, bæði hvað varðar útlit og allan frágang. 

Nú veit ég að það finnast fleiri bækur eftir Fosse á því góða safni. En best væri auðvitað að verða sér út um bækurnar á norsku úr því ég er svo heppin að skilja það fallega mál.

 

 

 


Ævisaga Hans Roslings: Hver var hann?

B66B2E3F-B332-47A5-96D4-8F59E0929007

Stundum er eins og lánið leiki við mann. Þannig var því varið hjá mér þegar  ég var að leita mér að bók til að lesa/hlusta eftir á, eftir að hafa legið í rússneskum stríðsbókmenntum í fjóra mánuði. 

Ég ákvað að breyta til og velja sænska bók, Hur jag lärde att föstå världen. Hún er eftir og Hans Rosling og Fanny Härgestad. Hún gekk frá bókinni og byggði á efni Roslings og viðtölum sem hún átti við hann. Auk þess notar hún efni sem hann hafði sjálfur skrifað en bókin kom út að honum látnum. 

En hver var Hans Rosling? Hann var sænskur læknir og prófessor sem varð heimsfrægur fyrir fyrirlestra sína um þróun heilbrigðismála og lýðheilsu, einkum þann þátt sem sneri að fátækum löndum. Bókin er ævisaga, fyrst gerir hann  grein fyrir bakgrunni sínum, segir frá öfum sínum og ömmum sem fæddust, uxu upp og störfuðu í “fattig Sverige” (fátæku Svíþjóð) og síðan foreldrum sínum sem urðu bjargálna og tókst að koma syni sínum til mennta. Þessi hluti sögunnar er eiginlega nauðsynlegur inngangur, hann lýsir þar  hvernig hann lítur á fátækt og þróun. Það er að segja, þróun sem er mögulegt af það eru skapaaðar réttar aðstæður. Það gerðu Svíar á sínum tíma og það eru aðrar þjóðir að gera nú. 

Það er svo margt merkilegt sem Rosling segir í þessari bók, uppgötvanir sem hann gerði með því að hugsa og draga ályktanir. Hann segir t.d.frá því hvernig hann fékk áhuga á  heimsmálum sem lítill drengur þegar hann er að hlusta á fréttirnar með foreldrum sínum. “Það var ekki það sem ég heyrði í fréttunum,heldur hvernig foreldrar mínir brugðust við því”. Þá varð mér hugsað til hins nýja íslenska siðar, sem lýsir sér í því að stöðugt er sagt: “Þetta þarf að verða verkefni skólanna.”

Aftur að bókinni.

Saga Roslings er merkileg. Hún hefst á því  að segja frná ungum manni, sem vill láta gott af sér leiða. Hann menntar sig sem lækni og stofnar fjölskyldu. Seinna fer fjölskyldan til Mósambík og þar  hann vinnur þar sem læknir í tvö ár. Það er merkilegt að fylgjast með honum og fjölskyldu hans, en merkilegast er þó að heyra frásagnir hans af ályktunum sem hann dregur. Hann kennir manni að hugsa. Seinna tekst honum með hjálp tengdasonar síns og tengdadóttur að gera tölfræði rannsókna lifandi og skiljanlega með vel útfærðri tölvu grafík og verður eftirsóttur fyrirlesari um allan heim. Hingað kom hann 2014 og talaði í Hörpu. Ég var ekki þar. 

Þessi bók var kærkomin lesning eftir allar hörmungarnar í rússsnesku stríðsbókunum. Hún er full af bjartsýni.  Auk þess er hún er stutt, létt aflestrar og hún skilur mikið eftir. 

Eftir lesturinn horfði ég á nokkur myndbönd á netinu með fyrirlestrum Roslings.


Að segja bless við bók: Stríð og friður

 AF35AB96-DFC8-4CDB-A5C1-DFA7F666ED8C

Það fylgir því viss angist að ljúka bók. Þannig er þessu a.m.k. farið hjá mér. Ég tala nú ekki um, ef bókin er löng og það eru margar persónur sem þarf að kveðja. 

Ég var að ljúka við Stríð og frið eftir Leó Tolstoj. Sagan er í fjórum bókum og hún tekur u.þ.bil 31 klukkustund í hlustun. Bókin kom út í heimalandinu,

Rússlandi, 1865 til 1869, hér á Íslandi 1954. Hún segir frá baráttu Rússa við Napóleon og rússnesku samfélagi þess tíma, þ.e. þeim hluta þess, sem varðar aðalsfólk. Á þessum tíma ríkir enn bændaánauð,bændur gengu kaupum og sölum og Tolstoj, sem var frjálslyndur maður, víkur oft að meðferðinni á bændum. Alls staðar skín þó í gegn, að skilningur hans er takmarkaður. Stundum er umræðan líkarþví, þegar við tölum um, okkur beri vera góð við dýr.

Margar persónur koma við sögu en fá mismikið pláss, sumar hverfa af vettvangi næstum jafnskjótt og þeirra er getið, aðrar loða við út söguna.

Í raun er þetta saga fjögurrafjölskyldna. Þær eru:

Hinir viðsjáverðu Kuragínar.

Hið skemmtilega en síblanka Rostoffólk.

Hin ríka og alvarlega Bolkofskíjs-fjölskylda.

Og svo auðvitað aðalpesónan, Pétur Besukof, sem er einhvers konar rödd höfundar.

Rússneska nafnahefð er erfið, ég tala nú ekki um, ef maður þarf að “lesa með eyrunum” eins og ég. En þegar maður hefur náð utan um þessar ættir veitist lesturinn léttari. 

Sagan fjallar ýmist um daglegt líf þessara fjölskyldna eða um það sem er að gerast á vígstöðvunum, en allar fjölskyldurnar tengjast stríðinu.

Þegar Tolstojfæðist, eru einungis fjórtán ár liðin frá því að Napóleon yfirgaf Rússland, drengurinn hefur því eflaust alist upp við umræður um þessa afdrifaríkuatburði.Og seinna þegar hann tók til að skrifa Stríð og frið, hafði hann enn góðan aðgang að fólki sem mundi stríðið eða hafði beinlínis tekið þátt í því. Mér finnst umfjöllun Tolstojsum stríðið afar fróðleg og er í raun sama um hvort allt er nákvæmlega rétt. En á vissan hátt er gaman að sjá hvernig friðarsinninnTolstoj tekst á við þetta verkefni. Það er greinilegt að hann vill draga fram grimmd og hörmungar stríðsins, þó leynir sér ekki, að hann á sér sínar hetjur, eins og Kuluzofhershöfðingja. Snilldarlega vel dregin persóna. Persónusköpun Tolstojs er óviðjafnanleg.

En það fer ekki hjá því, eftir að hafa lesið slíka bók, að maður hugsi um fyrirbærið stríð fyrr og nú. Vopnin hafa breyst og líklega hefur föllnum hermönnum fækkað. Það er minna barist í návígi. Í dag er augljóst að stríð bitna fyrst og fremst á almennum borgurum. En ég held að það sé blekking að halda að fyrri tíma styrjaldir hafi ekki bitnað á almennum borgurum.

Herir fyrri tíma fóru eins og logi yfir akur, rænandi og ruplandi. Það var beinlínis ætlast til þess. Rétt eins og hermönnum okkar tíma er eira engu, hvorki lifandi né dauðu.

Ég vildi að ég gæti sagt skilið við stríð en haldið friðnum og dvalið með Pétri og Natösjuá búgarði þeirra og jafnvel aðstoðað þau við bústörfin. En það er auðvitað ekki hægt. Í staðinn fer ég inn í minn heim og fylgist með árásunum á Idlib.  

 


Feitar kýr

5BD2A9F8-26E0-4499-8305-B38CFED0407C

Það mikið er rætt um velsæld. Þetta hefur ekki farið fram hjá mér, þótt ég sé ekki viss um hvað átt sé við.  Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri (er sagt)  og einkaneyslan er í hámarki. Ýmsir benda þó á að hér í okkar ríka lendi sé fjármunum misskipt. Í umræðuna um kaupmátt er miðað við meðaltöl, sem er fölsk sannindi, því hér ríkir ekki jöfnuður. Langt í frá.

Flestir aðspurðir sjórnmálamenn segja, að þeir vilji stuðla að bættum kjörum hinna verst settu, en lítið gerist.

En mig langar til að skoða þennan hugmyndaheim, sem skilgreinir velsæld út frá krónum og aurum  (aurar heyra reyndar sögunni til). Mig langar til að skilja þankaganginn. 

Í mínum huga er Velsæld svo yfirgripsmikið hugtak, það nær langt út fyrir allt það sem við getum keypt, með því að draga fram budduna eða kortið. Í orðinu felst einnig  vitundin um að maður lifi eftir því gildismati, sem maður telur rétt, sé sannfærður um að maður sé góð manneskja og  vonin um að maður sjálfur og samfélagið sé á réttri leið. 

Þegar ég heyri talað um góðæri, detta mér alltaf kýrnar hans Faraós í hug. Ég kann mína Biblíu, trúlaus konan. Ótrúlega góð dæmisaga um hvað ber að gera í góðæri.

Smáupprifjun, því ég treysti því ekki að allir kunni þessa sögu.

Faró dreymdi að upp úr ánni Níl stigju sjö feitar kýr. Á eftir komu aðrar sjö magrar, sem gleyptu hinar í sig. Enn fremur dreymir hann sjö væn kornöx og sjö mjóslegin. Enginn ráðgjafi Farós treysti sér til að ráða drauminn. Útlendingurinn Jósef var kallaður til, sóttur í fangelsi. Hann réði draumana sem fyrirboða um hallæri. Jafnframt ráðlagði hann Faró að safna byrgðum til hörðu áranna. Að safna einum fimmta, hvorki meira né minna. Faró fannst þetta svo viturlegt að hann gerði Jósef  að fjármálaráðherra. 

Reyndar held ég að við Íslendingar ættum ekki að safna peningum, krónan okkar er svo dintótt og ekki treystandi. Ég held að við ættum heldur að leggja fyrir til mögru áranna með því að byggja upp innviði samfélagsins, samneysluna, listir og menntun og fleira og fleira. 

Af hverju hefur fjármálaráðherranum okkar ekki dottið þetta í hug? Ætli hann hafi skrópað í tímanum þar sem kennt var um drauma Faraós?


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2018
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187198

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband