Hin hljóðu tár: Hetjusaga

4D09E538-87E8-4D47-8D9C-54BCD992BB7C

Ég rakst á þessa bók af tilviljun. Var fyrst hikandi hvort ég ætti að lesa hana, bók um konu sem ég þekkti ekki eftir höfund sem ég kannaðist ekki við. En ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Einhvern vegin hefur hún farið fram hjá mér þegar hún kom út 1995. Hvar var ég eiginlega þá?

Sagan segir sögu konu sem hefur reynt margt. Það er Sigurbjörg Árnadóttir sem skráir og hún kann sitt verk. Ég dáist að því hversu vönduð bókin er og fæ á tilfinninguna að Sigurbjörg sé góður hlustandi.

Ásta Sigurbrandsdóttir man fyrst eftir sér í Flatey, þar er hún fædd 1918 og þar býr hún hjá foreldrum sínum og systkinum fyrstu æskuár sín. Flatey er á þessum tíma lítið þorp. Allt var í föstum skorðum. Hagir fjölskyldunnar áttu eftir að breytast þegar faðirinn yfirgaf fjölskylduna, eldri börnin fóru þá að vinna sem matvinnungar en móðirin fór í kaupavinnu upp á land og hafði Ástu með sér. Seinna flutti móðirin til Reykjavíkur til að vinna í fiski og bjó með telpuna í verbúð. Ásta átti því eftir að alast upp í Reykjavik og móðirin styður hana til mennta í Kvennaskólanum. Að námi loknu ræður hún sig á Landakotsspítala og tekur ákvörðun um að læra hjúkrun í Danmörku. Lýsingin á lífinu Reykjavík þessa tíma er sérlega góð og um margt einstök.

Til Kaupmannahafnar siglir hún 1938. Myndin sem hún dregur upp af sjálfri sér er af glaðværri ákveðinni stúlku, sem gengur að  því sem gefnu, að lífið sé fyrirhafnarsamt.  Stúlka sem vill ekki vera sett til hliðar þarf að vanda sig og standa á sínu.

Landið er hernumið 1940. Það kom mér á óvart hversu þessi duglega og klóka stúlka er illa að sér um pólitík. En þannig lýsir hún sjálfri sér. Eitt er þó á hreinu. Á meðan afstaðan til hernámsins klauf dönsku þjóðina, er alveg ljóst hvoru megin Ásta stóð. Hún var á móti nasisma.   

Ástin vitjar hennar í Danmörku,  hún kynnist ungum þýskum hermanni. Þegar hann er sendur á vígstöðvarmar og hún hefur lokið hjúkrunarnáminu og kemst ekki heim til Íslands, dettur henni í hug að vinna við hjúkrun í Þýskalandi. Hana langaði til að komast nær væntanlegum tengdaforeldrum og vinnan er líka vel borguð. Þetta endaði með ósköpum. Það var hart sótt að þýskum borgum og Ásta kaus að slást í för með fjölda flóttafólks. Lýsingin á þessum örvæntingarfulla flótta er hápunktur þessarar bókar.

Ásta á enn eftir að verða fyrir mörgum áföllum. Ástvinur hennar er dáinn og hún fær berkla. Hún sigrast á berklunum og kynnist manni á berklahælinu og flytur með honum til Finnlands. Hún missir þennan mann líka. Hún kynnist nýjum manni, giftist og flytur með honum út í finnska sveit.Það er stundum erfitt að greina á milli hvað er sigur og hvað er ósigur. Með þessum manni, sem reyndist ekki sá maður sem hún hélt, eignast hún tvo drengi. Samkomulagið við nýju fölskylduna var ekki eins og best verður á kosið og hana langar  oft heim. En hún ákveður að þrauka, vill að börnin njóti þess að eiga föður.

Það sem mér fannst mest gefandi við þessa góðu bók er sjónarhorn þessarar lífsreyndu konu. Það er einkum tvennt sem mér finnst einkenna hana. Hún er stolt og krefst virðingar og hún Ákveður að horfa fram á veginn.

         


Katrín frá Bóra, kona Lúthers

69283149-8306-4B3C-8009-5510C1928223

Eftir að hafa sökkt mér í hugmyndaheim Lúthers, var kærkomin hvíld að dveljast stundarkorn með konu hans, sem var þægilega jarðbundin ef marka má heimildakonu  mína Clara Schreiber. Ég var svo heppin að finna lítið bókarkorn um hana á Hljóðbókasafninu  og það ekki af verri endanum.   

Frásögnin var reyndar full tilfinningaþrungin fyrir minn smekk, en ég hélt að höfundurinn vær 19. aldar kona og fannst það eðlilegt. Skáld 19. aldar leyfa tilfinningum að flæða.   

Góður misskilningur

Ég hafi flett nafninu upp á Google og fundið þar Clara Schreiber sem er fædd 1848 í Vínarborg og trúði að hún væri höfundurinn. Ég hef   mætur á höfundum 19. aldar og les þá mér til mikillar ánægju. Nöfn eins og Elisabeth Gaskell, Charles Dickens og svo ég tali nú ekki um Edith Wharton kveikja hjá mér bæði hlýju og söknuð.

Spenna og ráðdeild

Hljóðbókin hefst á inngangi um eiginmann söguhetjunnar. Sagan hefst á frásögn um 9 ungar stúlkur sem eru að flýja úr klaustri.  Þær hafa falið sig í vöruvagni sem flutti bjór og síld til klaustursins. Vagninum stýrir Köppe vinur Lúthers. Þetta er uppreisn. Ferðinni er heitið í Ágústínusarklaustur, þar sem Lúther var einu sinni munkur en býr nú sem óbreyttur. Flóttinn tekst. Er hægt að hugsa sér meira spennandi upphaf á bók?

Stúlkurnar 9 voru frjálsar. Eða hvað? Það fyrsta sem Lúther, auðvitað stóð hann á bak við uppátækið, segir þeim,er að þær verði að giftast og hann hafði reyndar útvegað nokkrum þeirra eiginmenn. Söguhetjan okkar Katrín giftist reyndar ekki strax, henni er fundin vist á góðu heimili. Síðar giftist hún Lúther, hún vill bara þann besta. Hún var þá 26 ára og Lúther 41 árs. Hann hafði ekki viljað gifta sig því hann var bannfærður af páfanum.

Hin ráðdeildarsama Katrín 

Lúther er andríkur hugsjónamaður, fræðimaður, skáld og auk þess leikur  hann á lútu. En honum lætur ekki vel að hugsa um veraldlega hluti eða hvernig eigi að standa straum af því að reka stórt heimili,(einhvern veginn finnst mér ég kannast við slíka menn). Katrín er fyrirhyggjusöm og dugnaðarforkur. Hún tekur til í klaustrinu, ræktar landið, bruggar, bakar og elur upp grísi. Að lokum var niðurnítt klaustrið orðið eins og herragarður. Auk þessa alls elskaði hún manninn sinn og dáði og ól honum sex börn.

Heilsu Lúthers fór hrakandi og loks deyr hann (1546)  frá konu, börnum og mikilvægu starfi. Sagan segir að hann hafi sem betur fer haft þá fyrirhyggju að ganga þannig frá erfðamálum sínum að efnahag ekkjunnar var vel borgið.En Lúther sá ekki fyrir styrjaldir og farsóttir sem áttu eftir að herja. Katrín dó árið 1552. 

Einhversstaðar í lestrinum fór ég að efast um að þessi bók gæti verið skrifuð á 19. öld og enn leitaði ég á netinu. Þá fann ég bók eftir Clara S. Schreiber auglýsta á Amazon. Sú bók kom út í Ameríku 1954. Um þann höfund fann ég lítið en bók hennar, Katherine wife of Luther. Og kemur út 1954.

Upplýsingar um bækur eru mikilvægar

Sem notandi Hljóðbókasafnsins, hef ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar pirrast yfir skorti á upplýsingum um innlesnar bækur. Það er mikilvægt að vita hvað maður er með í höndunum eða eyrunum. Ég ætlaði að fá bókina lánaða á Borgarbókasafni, en var sagt að þar væri hún ekki til. Þegar ég spurðist fyrir um hana á Þjóðarbókhlöðunni,  fékk ég sama svar.

Kannski er bókin sem ég var að lesa ekki til

Hljóðbókin sem ég las og hreyfst af, er gerð eftir upplestri sögunnar í útvarp árið 1984. Það er Helgi Elíasson sem les, þýðingu Benedikts Arnkelssonar. Kannski hefur bókin aldrei verið gefin út. Mér finnst það synd, því ég held að fleiri en ég gætu haft gaman að lesa bókina.Þetta er saga um konu eftir konu. Hún er skáldskapur, byggð á sagnfræði. Ég er ekki í stakk búin að meta hversu sönn hún er, en mér nægir að hún var spennandi aða minnsta kosti framan af. Mér finnst ég vita meira um konuna í lífi Lúthers. Og mér finnst ég vita meira um stöðu kvenna á 16. öld.

Myndin er af Katrínu er máluð af  Lucas Cranach eldri, en Katrín var í vist á heimili hans áður en hún giftist.


Skollabrækur og aur ekkjunnar

9F9F7A2F-033C-4103-9102-82FD9C4C2768 

Skollabrækur

Gamlar þjóðsagnir bera oft í sér mikil sannindi. Nýleg frétt varð til þess að gömul sögn rifjaðist upp fyrir mér.   Tilefnið var  saga  úr listaheiminum, þegar málarinn Þrándur Thoroddsen fékk ekki að hengja upp mynd í Hannesarholti sem sýndi fjármálaráðherrann okkar klæða  sig í nábrækur.

Mensaldur í Papey

Sagan sem sem rifjaðist upp var um Mensaldur, sem kenndur er við Papey. Um hann gengu margar sagnir á Austfjörðum þegar ég var að alast upp. Í frásögn móður minnar hafði Mensaldur búið á Melrakkanesi í Álftafirði. Sá bær hafði vissan ljóma í frásögn mömmu, því þar höfðu afi og amma verið vinnuhjú -, áður en þau urðu eigin húsbændur.

Mensaldur þessi vissi ekki aura sinna tal og það gekk sú saga að hann hefði efnast með hjálp Skrattans. Sá gamli hafði aðstoðað hann við að verða sér úti um skollabrækur, þær voru gerðar úr skinni af dauðum manni. Ég sá þetta allt lifandi fyrir mér, enda vön að fylgjast með hvernig skrokkar voru flegnir og gærur verkaðar.  Það var mikilvægt fyrir þann, sem átti slíkar brækur, að losa sig við þær fyrir andlátið.   Ef ekki var Skrattinn vís. Sagan segir að á efri árum hafi Mensaldur gerst örlátur á fé   og nutu sveitungar hans góðs af. Látið var að liggja, að buxurnar hafi óróað hann,  góðverk voru Guði þóknanleg og honum veitti ekki af guðs blessun. Þetta örlæti hans  gæti skýrt vinsældir hans og orðspor. Fjöldi barna þar um slóðir bar seinna nafn hans, Mensaldur eða Mensaldrína.

Eðli skollabróka

Vasinn á skollabrókum virkar þannig, að hver skildingur sem í hann er settur, tvöfaldast. En helst þarf fyrsti skildingurinn að vera stolinn frá fátækri ekkju á helgum degi.

Sagt er að þegar Mensaldur komst  á efri ár, hafi hann  fitnað  og átti  í  basli með að koma að sér brókunum. Það sýnir að það var litið á skollabrækur sem íveruklæði.

Þegar Mensaldur dó, kom upp sú sögn að hann hefði falið eitthvað af fé sínu í Papey. Fólk þóttist sjá þar loga, ókennilegan loga um nætur.

Skollabrókamenn vorra tíma

Okkar núverandi skollabrókaeigendur eiga það sameiginlegt með Mensaldri, að það er talið að þeir hafi falið fé sitt á eyjum, þó ekki Papey. Hvort þar brenni logi hef ég ekki heyrt af. Það fara heldur engar sögur af gjafmildi þeirra og ekkert bendir til , að þeir hafi losað sig við auðsöfnunarbrækurnar.

En Skrattinn sækir sína.


Guð blessi Ísland; Fræði Lúthers

 

1A59CE87-7825-437A-A0A5-7BF50072D9C1Val mitt á lesefni er ekki tilviljun, það ræðst af röð atvika. Einhverskonar keðjuáhrif, rökrétt, drifið áfram af þörf. 

Það er ekki tilviljun að ég hef sökkt mér niður í fræði Lúthers. Í fyrsta lagi finnast mér trúmál áhugaverð, það er merkilegt að sjá hvernig þau í senn spegla og móta söguna og í öðru lagi finnst mér merkilegt hversu samtíminn gerir sér litla grein fyrir kenningunni sem flestir hafa játast undir. 

Í þrjár vikur sökkti ég mér á kaf í ævi Lúthers og Lútherisma. Ástæðan fyrir því að ég hafnaði þar var, að ég hafði hlustað á Sverrir Jakobsson flytja fyrirlesturinn, Hvernig skal Krist kenna, hjá Miðaldastofu. Hann hefur skrifað samnefnda bók, þar sem hann rannsakar sögnina um Krist með vinnubrögðum sagnfræðings.

Fyrirlesturinn var hrífandi og heimkomin, langaði mig að líta mér nær og skoða kristindóminn sem hefur mótað mig. Það sem ég hef lært í gegnum skólalærdóm (Biblíusögur) og fermingarundirbúning (kverið - Vegurinn eftir Jakob Jónsson). Það er útbreiddurr misskilningur að fólk kunni lítið, að það sé engin innræting í gangi. Líklega á þetta lútherska uppeldi mitt þátt í að ég lít á það sem skyldu mína að vera meðvituð, skilja.

Eftir fyrirlesturinn ákvað ég að skoða það sem stendur mér nær en frumkristnin og dembdi mér í Lúther. Í  mínu bókasafni", Hljóðbókasafninu eru tvær bækur um Lúther, bók Karls Sigurbjörnsonar, Lúther:ævi - áhrif - arfleifð,  sem er ný og bók Ronalds H. Bainton, Marteinn Lúther frá 1984. Bók Gunnars Kristjánssonar, Marteinn Lúther:Svipmyndir siðbótar hefur ekki verið lesin inn sem hljóðbók. Í staðin hlustaði ég á fyrirlestur Gunnars í tilefni af útkomu bókarinnar á youtube. 

Ég valdi bók Karls. Hún er stutt, nánast kver en innihaldsrík og spennandi. Í bókinni nær höfundur að höndla allt í senn, sögulegar aðstæður sem Lúther fæðist inn í, persónuna Martein Lúther og innihald kenninga hans um eðli Guðs, hvernig maðurinn skilgreinir sjálfan sig í ljósi þessa. Aðlaðandi lesning. Ef ég hef skilið bókina rétt, býr Lúther til hinn frjálsa einstakling sem stjórnast af samvisku sinni og er einungis ábyrgur fyrir Guði.

Og vegna þess að bóklestur fer aldrei fram í tómarúmi, heldur er í gagnvirku sambandi við innri og ytri veröld lesandans, hugsa ég mitt upp úr lestrinum, Geir Haarde hefði frekar átt að biðja fyrir sjálfum sér en þjóðinni. Og allra helst hefði hann auðvitað átt að iðrast og biðja Guð að fyrirgefa sér. 

Ég lauk lestri þessarar góðu bókar án þess að geta gert það upp við mig hvað ég sem trúleysingi ætla að gera við þessa kenningu. Það er ekki mitt að meta hver biður fyrir hverjum eftir að menn hafa verið blekktir eða blekkt aðra í ofsa græðginnar. 

Ég ákvað að skoða hvað kona Lúthers, Katrín frá Bóra, hefði til málanna að leggja, en það er til bók um hana í mínu góða safni, Hljóbókasafninu. Meira um hana síðar. 

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2018
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 187116

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband