Í útlandinu

703C52E1-75BB-4230-8F53-E4757F1E201DÉg hef nú verið rúman hálfan mánuð á ferðalagi og er því farin að hugsa heim. Það er ekki nema eðlilegt að velta því fyrir sér um hvað ferðalög snúist eiginlega. Trúlega finnst ekkert eitt svar. Í mínu tilviki er ég að stækka heiminn, og svo tek ég eftir því, að ég er að hluta til alltaf stödd á Íslandi. Ég er stöðugt að bera saman. Nú er ég stödd í Hamborg og mér finnst að hjólastígarnir í Reykjavík séu betri. Veðrið er betra í Hamborg að því leyti að hér er hlýrra. Það getur líka verið ókostur en rigningin er þægilegri að því leyti að að hér nægir regnhlíf, heima þarf regngalla eða pollagalla. 

 

Hér í Hamborg fá hundar að ferðast í lestunum og ég sat við hlið hundaeiganda í morgun. Hundurinn var með blíðlega augu og það hefur eigandinn eflaust haft líka. Ég horfði meira á hundinn. Ég hef líka tekið eftir að víða við dyr verslana og veitingastaða eru dallar með vatni handa hundum til að lepja í hitanum. Þetta er ekki til heima, það er óþarft.

En ég hef ekki bara verið að skoða hundamenningu hér í Hamborg. Ég er búin að skoða margar kirkjur. Þær eru glæsilegar og allar opnar. En fólkið sem ég sá, var ferðamenn. Það er eins og hlutverki kirknannan sé lokið, nema til að beran vitni um fortíð. Ég velti ósjálfrátt fyrir mér hvað hafi tekið við. Hvað tignum við í dag?

Í gær sá ég í leikhúsinu leikrit Brechts, Góða sálin í Sesúan. Og ef ég man það rétt þá var þar söngur um peninga. Jafnvel gefið í skyn að þeir séu Guði æðri. Dásamlegt leikrit. 

En það verður gaman að koma heim í hverdaginn.

Sjáumst.


Dagur í lífi Ívans Denisovich

7D3BD486-5B7B-4D64-9CB9-404D6E777E74

Eftir að hafa lesið tvær bækur, Sívagó lælni og Lygn streymir Don, kaus ég að lesa stutta bók, Dagur í lífi Ívans Denisovich eftir Alekander Solzhenitsyn (fæddur 1918 dó 2008). Ég hafði lesið hana áður, svo ég vissi að hverju ég gekk. Bókin fjallar um einn dag, eins og ráða má af titlinum. En þar með er ekki sagt að hún sé stutt, því þetta er ósegjanlega langur dagur. Tíminn er svo lengi að líða að lengd hans er óskiljanleg, eins og fjarlægðir í geimnum. 

Bókin segir frá fanganum Ívan, hann er að afplána átta ára dóm. Hann er í vinnuhóp sem vinnur að því að byggja raforkuver, það er fimbulkuldi. Hann kann orðið á lífið í búðunum og veit hvað er hægt að gera og hvað ekki. Lesandinn fylgir honum í gegn um daginn og fræðist, því hann er stöðugt að meta hvað er skynsamlegt og hvað er hægt.

Hann er múrari og vinnur að því að byggja vegg. Hann keppist við, því þannig er best að halda á sér hita og fá daginn til að líða. Um leið og hann bollaleggur um eigin framtíð, sem hann ræður engu um, tekur hann dæmi af öðrum föngum svo lesandanum finnst hann fá nokkið breiða mynd af lífinu þarna. 

Solzhenitsyn hafði sjálfur verið í fangabúðum, hann notar þá reynslu sem efnivið. Samt er þessi bók ekki sjálfsævisöguleg. Það er Krabbadeildin aftur á móti, sem kom út 1967. Þá bók las ég á ensku stuttu eftir að hún kom út. Hún hafði mikil áhrif á mig. 

Bókin, Dagur í lífi Ívans Denisovich er fyrsta útgefna verk höfundar en hún er snilld. En vegna þess að hún hafði svo mikla pólitíska þýðingu, beindist athyglin fremur að pólitísku gildi hennar en að því bókmenntalega. Þetta sé ég þegar ég les mér til um umræður þessa tíma. 

Það er auðveldara að lesa þessa bók nú, heldur en í andrúmslofti kalda stríðsins, hún fær betur notið sín. Þá fannst manni að bókin fjallaði fyrst og fremst um Sovét og ógnartíma Stalíns. Nú veit maður að harðstjórarnir eru margir. Fer í raun fjölgandi.

Solzhenitsyn segir að það hafi slegið sig, þegar hann fór að kynnast fangabúðarvistinni, hvað margt var líkt með því sem hann upplifði eða frétti af og því sem hann þekkti úr sögusögnum frá tíma Zarins. 


Rússneskir risar

42D3C581-85A1-4EE0-B630-AEFCF547B39B

Mér finnst mikið til um rússneskar sögur svo að ég get ekki slitið mig frá þeim. Því  lengri því betri. Persónurnar eru svo margar að maður týnist í mannhafinu og atburðarásin er eins og röð af Ragnarökum. Ástandið getur ekki versnað og svo versnar það.

Ég er sem sagt búin að vera stödd í Rússlandi síðan í júní. Fyrst, Elísabet mikla eftir Jón Þ. Þór, síðan Sívagó læknir og Lygn streymir Don og loks, Dagur í lífi Ívans Denisovich. Kosturinn við að taka svona skorpu, er að þá verður lesturinn áhrifameiri. Nú er ég orðin svo tengd Rússlandi (og Sovétríkjunum), að í hvert skipti sem ég tek til við lesturinn, finnst mér eins og að ég sé komin heim. Til Rússlands. 

Alltaf þegar fjallað er um rússneskar bækur, snýst umræðan að hluta til um pólitík. Þetta hafði áhrif á mat manna og hefur ef til vill enn. Ég er þar engin undantekning. Af því ég vissi að Sjolokov hefði verið tiltölulega þægur flokksmaður og af því að bækur hans  fengust gefnar út í Sovét, hélt ég að þetta væri  meinlaus bók í anda ráðstjórnarraunsæisstefnunnar. Það er rangt, sagan er grimm og gagnrýnin. Stríð er fyrst og fremst ómanneskjulegt, ekki hetjuskapur.

Tímaramminn er nokkurn veginn sá sami og í Sívagó lækni,  en stríðslýsigarnar eru enn óhugnanlegri. Og eftir að rússneski herinn hættir að berja á Þjóðverjum og snýr sér að byltingu og gagnbyltingu er grimmdin engu minni en enn átakanlegra þegar hún beinist að eigin fólki. 

Lygn streymir Don hefst sem sveitalífslýsing, segir frá lífi kósakka sem búa á bökkum Don í nágrenni Rostov. Að hluta til er þetta saga um ást í meinum, eins og sagan um Sívagó, en ástin lítur í lægra haldi, týnist í ringulreið stríðsins. Það er næstum falskt fyrir mig Íslendinginn að lesa stríðsbókmenntir, því við íslenskan á engan virkan orðaforða um tignarheiti  í hermennsku. Sem betur fer. Menn hafa að vísu lagt sig fram um að þýða þetta og búa til orð en í raun er þetta eins og að lesa nöfn á jurtum sem tilheyra ekki íslenskri flóru. 

Útgáfusaga þessarar sögu er ekki síður spennandi en sagan sjálf. Hún kom út á árunum 1925 til 1940 og  Sjolokhov er því kornungur  þegar fyrsta bókin kemur út. Á Íslandi kom hún út þegar 1945 í þýðingu Helga Sæmundssonar.  Nú þegar ég hef lokið lestri hennar og les mér til, sakna ég þess hversu umræða um bókmenntir var meiri þá en nú. Það er ekki þar með sagt að hún hafi verið betri.

Næsta rússneska bókin í langdvölum mínum í landi Pútíns er Dagur í lífi Ívans Denisovich eftir Alexander Solzhenitsyn. Hana hef ég lesið áður en góðar bækur  er gott að lesa oft. Þær batna við hvern lestur. 

Líklega er rétt að lesa Lygn streymir Don fljótlega aftur. 

Myndin er af auglýsingu um jólabókina 1945.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Ágúst 2018
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband