Sivagó læknir: Boris Pasternak l

F7AA57BE-C04A-419A-86DF-10191BAFDDA6

Ég held að ég eigi eftir að minnast þessa sumars, sem Rússlandssumarsins mikla. Það var ekki samkvæmt áætlun. Ég hef lært að láta oft tilviljanir ef þær eru góðar, stjórna lífi mínu. Það var í senn tilviljun og heppni að ég rakst á bók Jóns Þ. Þór um Katrínu miklu og las hana. Þá var ekki aftur snúið. Slík lesning kallar á framhald.

Fyrir valinu varð Sívagó læknir eftir Boris Pasternak (fæddur 1890 dó 1960). Hana hafði ég ekki lesið áður, Sem betur fer. Bókin kom út 1959 hjá Almenna bókafélaginu. Það var tveimur árum eftir að hún kom út á Ítalíu (fékkst ekki útgefin í Sovétríkjunum) ári eftir að og hann fékk Nóbelsverðlaunin, sem hann þáði ekki. Líklega tilneyddur.

Það passar ekki illa að lesa bókina í framhaldi af sögu Katrínar miklu, drottningar upplýsingastefnunnar. Hún hafði séð að byltingin í Frakklandi var afleiðing þessarar stefnu og reyndi að draga í land.

Sagan um Sívagó er í raun saga fyrri hluta 20. aldarinnar í Rússlandi. Þetta er breið saga, eitthvað í líkingu við Stríð og frið Tolstojs, nema að það vantar friðinn í hana. Hún er í senn átakanleg og fræðandi. Hún er löng (tekur 29 og hálfa stund í afspilun), persónur eru margar og rússneska nafnakerfið þvælist fyrir manni, jafnvel þó maður þekki það.

En fyrst og fremst er þetta pólitísk saga, já og heimspekileg. Pasternak skýtur föstum skotum á valdhafa  og miðar á valdhafa og skotin geiga ekki.

En Pasternak var enginn hægri maður. Síður en svo. Það kemur fram oftar en einu sinni, að í raun lætur hann viðkunnanlegar persónur segja, að ofstopamenn hafi stolið byltingunni sem þurfti að gera í Rússlandi á þeim tíma.

Það spillir svolítið fyrir mér að mér leiddist ástarsagan, sem er límið í bókinni. Mér fannst hún í senn ótrúverðug og oft væmin.

Nú liggur fyrir að ég þarf að sjá kvikmyndina, sem ég hef reyndar séð áður. Svo ætla ég að lesa bókina upp á nýtt.

Þetta er sem sagt afar góð bók.

Það er Skúli Bjarkan sem þýðir bókina en Sigurður  A. Magnússon þýðir það sem er í bundnu máli. Ég get ekki dæmt um þýðinguna. Því miður er ljóðum sem fylgja aftast í bókinni sleppt í hljóðbókarútgáfunni.

Gísli Halldórsson les textann. Hann gerir það listavel.


Jarðnæði 2: Rósa á Hraunum

 6963CBDB-CF56-416E-8A1A-EBFA5BE4ECBDÁrið 1930 fannst Sigurrós Gísladóttur, vinnukonu í Breiðdal nóg komið af vinnumennsku og ákvað að byggja bæ og vinna að sínu. Sigurrós, alltaf kölluð Rósa, var fædd 1875. Samkvæmt heimild minni, Sveitir og Jarðir í Múlaþingi III (1976), voru foreldrar hennar Sigurlaug Sigurðardóttir og Gísli Erlendsson. Faðir hennar var tvígiftur og eignaðist hana á milli kvenna (merkilegt orðalag).

Hún var sem sagt 55 ára  þegar hún hafði fengið nóg af því að vera annarra hjú. Hún fékk skika til að setja niður bæ sinn í inn og upp af Dísastöðum, þar sem hún hafði verið lengi í vist. Bærinn var með gamla laginu, tvílyftur, hlaðin tóft fyrir féð og þiljuð baðstofa uppi. Vallinkunnir handverksmenn komu að smíðinni. Einar Jónsson frá Kleifarstekk sá um hleðsluna og Hóseas í Höskuldsstaðaseli annaðist tréverkið.

Þetta er allt úr bókinni góðu, Sveitir og jarðir í Múlaþingi, en það sem á eftir fer er mitt eigið. Sem barni fannst mér eitthvað ævintýralegt við Rósu.  Í fyrsta lagi var hún með gullhringi í eyrunum, það var þá óþekkt,  í öðru lagi bjó hún ein og hafði aldrei átt mann. Seinna kom ég oft til hennar.Það sem mér fannst mest til um var garðurinn. Hann var ekki stór en þar komst margt fyrir. Fyrst tók maður eftir reyniviðarhríslunni, sem var jafn há bænum. Annað sem maður tók eftir, voru margvísleg villt blóm, sem hún hafði komið fyrir til skrauts. Og svo var náttúrlega kartöflugarður. Sagan sagði að hún vildi ekki hafa grösin há, því það slæfði vöxt kartaflanna og að  hún slægi ofan af þeim  til að þau yrðu ekki of há. Ekki veit ég um sannleiksgildi þessa.

Fallegustu blómin í garðinum hafði ég ekki séð (okkar bær stóð langt frá sjó), sem var blálilja, blóm sem hún hafði flutt utan frá Breiðdalsvík. Ekki veit ég hvort þetta blóm lifði lengi hjá henni því það þrífst einungis við sjó. En ég sá það, hreifst og lærði nafnið.

Það gekk sú saga að Rósa væri algjörlega laus við lofthræðslu og að hún klifraði upp þverhnípt klettabelti yst í Ásunnarstaðafelli,  til að fylgjast með hrafnshreiðri sem þar var. Það þótti merkilegt ekki síst vegna þess að þá tíðkaðist að steypa undan hröfnum. Og svo var þetta eiginlega ókleift.

Seinna kynntist ég Rósu vel af því ég var í vist hjá frænku minni sem var nágranni hennar og vön að hjálpa henni eftir því sem hún gat. Rósa var vön að nýta ýmislegt sem féll til í sláturhúsinu svo sem kinda lappir, vambir og fleira. Það kom í minn hlut að bera nýmetið upp að Hraunum en þangað var enginn bílvegur. Þetta sauð hún síðan og lagði í súrt og matreidd í á sína vísu.  

Rósa varð háöldru, dó 1965, og síðustu árin var hún hætt með búskap en hún bjó að sínu. 

Kveikjan að þessum skrifum var bók Oddnýjar Eirar, Jarðnæði. Á tímum Rósu var jarðnæðisvandinn eitthvað í líkingu við húsnæðisvandann í dag. Það var ekki á allra færi að búa fyrir sig. 

Rósa var stolt af bænum sínum. Þess vegna slær það mig þegar höfundar, Sveitir og jarðir í Múlaþingi, kjósa að kalla bæinn kofa. Þeir eru ekki einir um það að tala niður til fortíðarinnar.

Hvernig verður talað um okkur?

Myndun  er af blálilju, tekin af pistlahöfundi nú í sumar.  


Jarðnæði: Oddný Eir Ævarsdóttir

F76D6420-ED38-437A-88FB-C0CEF429B110

Ég hef verið að lesa bókina Jarðnæði (kom út 2011) og velti því ósjálfrátt fyrir mér hver sé kjarni þessarar bókar. Að forminu til byggist hún á dagbókarfærslum höfundar og er því ævisöguleg. En hvað þýðir það? Það er eðli hverrar sjálfsævisögu, að hún hleypir fólki ekki nær höfundi en hann vill sjálfur. Það sem hann kýs að segja er meðvitað  og einkennist ýmist af því, hvaða mynd hann vill draga upp af sér eða hvaða boðskap hann vill koma  á framfæri. Nema hvort tveggja sé. 

Í tilviki Oddnýjar finnst mér áherslan sé einkum á hið síðarnefnda, hún vill kryfja hvernig   landið, þjóðin, maðurinn og tungan tengjast og deila því með okkur lesendum sínum . Ekkert minna. Unga konan í bókinni er menntuð og nógu vel stæð til að valið er hennar. Hún vill vanda sig, velja sér land og búsetuform út frá sjálfri sér. Út frá sinni sögu, sögu fólksins síns og  því sem hentar henni, nútímakonunni. Það er mikilvægt að ganga ekki á rétt landsins. Hún vill vera sönn og frjáls. Móta líf sitt. Framtíðin er óútfyllt blað, umsókn um jarðnæði.

Bókin kemur út 2011 og er því skrifuð í kjölfar HRUNSINS, fólk er enn að leita svara um hvernig gat svona lagað gat gerst, vill læra af mistökunum og móta Lífið sitt upp á nýtt. Mér finnst frískandi að anda að mér þessu andrúmslofti.  

Þráður sögunnar er ferðalag höfundar um heiminn og Ísland þar með talið. Ég las bókina fyrir nokkru, þegar ég var sjálf í heimsókn á æskustöðvunum, gekk grónar götur og skoðaði húsatóftir bæjar sem var og hét meðan jarðnæði var enn eign. Ég var því sérstaklega móttækileg fyrir því sem ég tel aðalefni bókarinnar, að lifa í sátt við sjálfan sig og landið. Kannski hef ég lesið þetta inn í bókina, því það var áhrifamikið að heimsækja sveitina mína sem ekki er  lengur til (Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðarbyggð í síðustu kosningum).

Heimsókn hennar á slóðir Wordsworth systkinanna er bókmenntalega fróðleg, auk þess setti hún í gang vangaveltur  um nálægð. Hversu mikið þarf maður að afsala af sjálfum sér til að öðlast nálægð? Er kannski best að vera einn.

Það er margt fleira til umfjöllunar í þessari bók en jarðnæði, að lesa hana er svolítið eins og að eiga samtal við höfundinn, hún segir frá svo mörgu sem kveikir hugsanir, innra samtal.

Þegar ég yfirgaf æskuslóðir mínar voru tvær flugvélar á Egilsstaðaflugvelli. Mér var sagt að sú stærri væri í eigu mannsins sem er að kaupa upp jarðir á á Austurlandi. Hin var  frá flugfélaginu sem ég átti flug með. Það heitir erlendu nafni sem ég ætla ekki að læra.

Já, þessi bók er eins og samtal.

Myndin er frá mínum æskuslóðum.  

 


Jón Þ. Þór skrifar bók um Katrínu miklu.

C7CDD207-D38F-4F06-94A7-5332AD0B1B4D

Katrín mikla fædd 1729, dáin 1796.

Það er alltaf jafn gaman að rekast á bók, sem grípur mann svo sterkum tökum að hún ráðskast með mann. Ég á við að hún yfirskyggir það sem er að gerast í kringum mann, lætur mann sjá allt í einhverskonar endurskini frá heimi bókannar. Ég veit að ég verð eiginlega óþolandi, Þótt ég reyni að gæta mín. Það sem einkennir slíkar bækur er að það þarf að hafa talsvert fyrir þeim, jafnvel endurlesa kafla og kafla.

Ég hef verið að lesa bók Jóns Þ. Þórs sagnfræðings umKatrínu II. keisarynju, sem oftgengur undir nafninu Katrín mikla. Katrín tók völd í Rússlandi eftir að hún hafði steypt manni sínum Pétri III. af stóli. Það var hún sem gerði Rússland að raunverulegu stórveldi.

Sagan er ekki bara um Katrínu og það sem var að gerast í Rússlandi þess tíma, hún er um leið saga pólitískra hræringa í Evrópu og átaka við  Tyrki.

Manneskjan Katrín II

Katrín hét áður Sophie Friederike Auguste von Anhalt-Zebst, var af þýskum aðalsættum en fékk nafnið  Katrín, þegar hún var endurskírð 1745 er hún trúlofaðist drengnum, Karl Peter Ulrik von Holstein-Gottorp, keisaraefni. Hún var þá 16 ára og hann 15 ára. Sophia var bráðgáfuð og vel menntuð en mannsefnið enn að leika sér með tindáta. Það virðist sem sagt ekki hafa verið jafnræði með þeim og hjónabandið var misheppnað  frá byrjun, Katrín ól honum þó son, Paul (sem þó var líklega ekki hans). Þar með var fyrirhuguðu  hlutverki hennar lokið. En Katrín var klók.

Það er vonlaust að endursegja þessa bók en mig langar að fara fáum orðum  um það sem mér fannst merkilegast.

Drottning upplýsinga- stefnunnar 

Kaflinn um samskipi Katrínar við páfar upplýsingastefnunnar er frábær. Þar er lýst hvernig Katrín mótar sér stefnu sem hún fylgir staðfastlega allt þar til franska byltingin (1789) reið yfir. Þá skildi hún að hugmyndir um jöfnuð, mannúð og frelsi geta snúist í andhverfu sína.

Lagabætirinn Katrín

Katrín hafði mikinn áhuga á að bæta lagakerfið þar sem hvað rak sig á annars horn. Það var gamalt og þar gætti mikils ósamræmis. Hún hóf þessa vinnu með að skrifa uppkast að lögbók, Nakaz. Í framhaldi af þeirri vinnu boðaði hún til þjóðfundar til að ræða um drögin. Þetta var stórvirki en skilaði ekki árangi sem skyldi, því annað kom á milli, stríð við Tyrki. Þessi vinna var þó óhemju fagmannleg og endalokin minntu mig á eitthvað kunnuglegt.

Ástir og völd

Á þessum tíma voru ástir og völd nátengd. Yfirleitt var ráðskast með konur en Katrín sneri þessu við. Margir elskhugar hennar fengu hlutverk sem ráðgjafar og stjórnendur en aldrei stærra hlutverk en Katrín vildi. Ég sé Potemkin í nýju ljósi eftir lestur þessarar bókar. Hann var bæði skynsamur og frækinn.

Lokaorð

Þegar maður les  sögulegar ævisögur veltir maður því ósjálfrátt fyrir sér hvað hafi áunnist og hvað standi í stað eða sé jafnvel verra nú en þá. Framfarirnar fyrst. Staða kvenna hefur tvímælalaust batnað. Sama og jafnvel í enn ríkara mæli er hlutur læknavísinda. Mér sýnist að  áhrif sem frá þeim stafar hafi aukið velsæld meira en allt annað. Makk þjóðhöfðingja er  er um margt líkt og forðum. Þá er komið að því hvort eitthvað hafi beinlínis versnað. Fyrst hélt ég að þessi reitur væri auður En þá mundi ég eftir Trump.  Í framhaldi af því fór ég að hugsa að einvöldum hefði ef til vill ekki fækkað eins og oft er látið. En eitt er víst að menntun þeirra hefur versnað umtalsvert.

Jón Þ. Þór á þakkir skyldar fyrir þessa bók. Hún er skemmtileg og góð viðbót við þekkingu sem hjálpar manni til að skilja heiminn.  

 


Þessi pistill er um fótbolta

 

04E3DE99-973C-4A22-91FF-4E9EE7D0B961Þessi pistill er tileinkaður fótbolta. Ég er hugsi yfir því hversu margir, einkum kynsystur mínar ,láta heimsmeistarakeppnina  í Rússlandi fara í taugarnar á sér.  Sjálf nýt ég hennar í botn. Ég held að það vanti fræðslu um fótbolta, helst stutt námskeið, til að kenna fólki sem ekki hefur lært að njóta þess að horfa á fótbolta. Eitthvað fyrir byrjendur, ekki þetta samtal fótboltavitringa fyrir og eftir leik.

Ég er nefnilega sjálf alin upp við mikla  fótboltagleði, Breiðdælingar voru engir aukvisar  í fótbolta á eftirstríðsárunum. Þar var rík og góð fótboltahefð. Margir vildu þakka hana áhrifum frá séra Róbert Jack, sem var stuttan tíma prestur á Eydölum. Koma hans til Íslands var fyrir tilstilli  Alberts Guðmundssonar. Var mér sagt. Sagan sagði að presturinn hefði átt það til að lýsa því yfir úr stólnum að þetta yrði stutt messa en síðan yrði æfing á Stöðulbarðinu, sem var fyrsti  fótboltavöllur Breiðdælinga.  Eftir messu snaraði presturinn sér úr hempunni og stýrði æfingu.

Alla vega skapaðist sú hefð, að fótboltakeppnir voru oft tengdar hátíðum og skemmtanahaldi. Fyrst fótboltaleikur, síðan samkoma og loks dans. Ég man eftir æsispennandi keppni milli Breiðdælinga og Stöðfirðinga. Því miður tíðkaðist ekki að konur tækju þátt í þessari íþrótt fremur en öðrum íþróttum. Þær horfðu á.

En ég nota heimsmeistarakeppnina ekki einungis til að horfa á leiki. Ég nýt þess að dýpka landafræðiþekkingu mína og fletta  þjóðum og keppnisstöðum upp á Google og gera margvíslegan samanburð.

Og í þetta skipti hefur áhugi í minn beinst að Rússlandi.

Það var sérstakt happ í hita keppninnar að rekast á nýlega bók eftir Jón Þ. Þór,skólabróður  minn. Kaflinn um Katrínu miklu keisarynju (fædd 1729 , dáin 1796). Hún tók völd 1762 eftir að hafa steypt manni sínum Pétri III. af stóli. Hún ríkti síðan til dauðadags  1796. Það var kannski eins gott að steypa honum því hann var að undirbúa innrás í Holsetaland. Okkur hefur líklega aldrei staðið meiri ógn af Rússum. Á þessum tíma heyrði Holsetaland undir Dani og það gerði Ísland líka.

Það er gaman að lesa um þessa drottningu upplýsingatímans, ég ætla að segja frekar frá bókinni þegar ég hef lokið henni.

Ég held að hugmynd mín um námskeið eða æfingabúðir sem miði að því að kenna fólki að njóta þess að horfa á fótbolta sér til ánægju, sé í anda upplýsingastefnunnar.

Myndin er af Katrínu miklu.

 


Blátt blóð: Oddný Eir Ævarsdóttir

 6A51D4C6-14E5-4B02-A60C-6699235E3C12

Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.

Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.

(Úr lofsöng Hönnu:Dómarabókin) 

 

Ég hafði fylgst með kynningu á bókinni,  Blátt Blóð og umræðum í fjölmiðlum,vissi hvert var viðgangsefnið. Ég ég hóf lesturinn með hálfum hug og hugsaði: „Þetta getur enginn. Það er dæmt til að mistakast.

Bókin fjallar um þrá  konu eftir því að verða móðir og baráttuna við að sigrast á ófrjósemi. Og um sorgina sem fylgir því að fá ekki von sína uppfyllta.

Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt viðfangsefni, það er víða vikið að barnleysi í bókmenntum en ég hef aldrei séð það  tekið sem aðalefni, frekar í jaðri frásagnar um annað og oft afgreitt með einni setningum. “Þeim varð ekki barna auðið”,eða því er lýst sem óljósum skugga.

Sara kona Abrahams, hvetur hann til að liggja með ambátt sinni Hagar og hún ól honum son. Söru sem var komin af barneignaldri fannst hún niðurlægð. En Guð miskunnaði sig yfir haona og hún  ól honum soninn Ísak.

Konan í bók Oddnýjar Eirar er menntuð nútímakoma og nýtir sér þekkingu nútímans. Hún fylgist með tíðahringnum og hagar ástalífi eftir því. Þegar allt kemur fyrir ekki nýtir hún sér tæknifrjóvgun.Samband hennar við manninn þolir ekki álagið.  

Ég ætla ekki að rekja söguþráð bókarinnar því í bókum Oddnýjar er söguþráður ekki aðalatriði.Það sem gefur bókum hennar líf og gerir þær spennandi, eru tengingar í allar áttir. Oft heimspekilegar, sögulegar eða bókmenntalegar og oft fyndnar. En þótt höfundur leiki sér með heimspekina í hverdeginum, finnur maður tregann undir niðri.

Skáldin birtast henni í draumi og í vöku. Nietzsche svarar því til, þegar húnn biður hann að verða barnsfaðir sinn, „Þú átt verkin mín“.. Simon de Beauvoir sýnir henni hillu með bókunum sínum, þegar hún spyr hana út í barnleysið. Sjálf hugsar hún, konan í bókinni, öll góð listaverk eru gædd lífsneista. Að skapa listaverk er eins og að ala af sér líf.

Ég á erfitt með að halda þeim aðskildum, höfundi og aðalpersónu bókarinnar enda veit ég að Oddný byggir á eigin reynslu. 

Eftir að hafa lesið bókina, finnst mér að það sé afrek að skrifa um þetta tilfinningahlaðna efni.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2018
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 186946

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband