Samhengi hlutanna: Sigrún Davíðsdóttur

image

Ég hef verið að lesa Samhengi hlutanna, eftir Sigrúnu Davíðsdóttur. Þetta er annar lestur, ég las hana árið sem hún kom út, 2011. Þá var Hrunið enn ofarlega á dagskrá, það var mikil umræða í gangi og maður vissi ekki hvað sneri upp eða niður á tilverunni. Mér fannst bókin þá strembin, erfitt að skilja samhengi hlutanna. 

Bókin hefst á því að segja frá ungu,íslensku pari í London. Hún er blaðakona sem vinnur jafnframt að því að skrifa bók um fjármálaflækjurnar að baki Hrunsins, hann er listamaður. Þau eru hamingjusöm og lífsglöð. Það er hann, Arnar sem segir söguna.

Allt í einu hrynur veröldin. Hulda, blaðakonan deyr í reihjólaslysi. Sorgin leiðir til þess að Arnar er ófær að takast á við lífið, einangrar sig og sekkur dýpra og dýpra inn í einhverskonar svartnætti. Þá kemur til sögunnar gamall vinur Huldu, Ragnar, sem tekur hús á honum og sest þar að. Ragnar er blaðamaður sem er búinn að drekka sig út úr starfi, hefur nú tekið það í sig að klára ætlunarverki Huldu, vinna úr rannsóknum hennar og ljúka bókinni sem hún var með í smíðum. Arnar er þessu mótfallinn en Ragnar er einþykkur  og smám saman verður til lítill rannsóknarhópur í London sem púslar saman rannsóknum Huldu og nýrri vitneskju sem þessi litli rannsóknarhópur hefur komist að. En þræðirnir liggja víða og sumir nær Arnari en hann hefur órað fyrir. Og auðvitað endar á því að hópurinn lendir inn í atburðarás sem þar sem allt getur gerst. 

Þegar ég las þessa bók á sínum tíma fannst mér erfitt að halda utan um alla þessa þræði. Mér fannst myndin af fjármálaheiminum sem dregin var upp líkjast meira einhverskonar stjörnuþoku en sæmilega löglegu stjörnumerki. En núna, þegar ég hef skólast í eftirhrunsskólanum, veitist mér það léttara. Já,svona var þetta hugsa ég. Núna finnst mér þetta góð bók, það mætti nota hana sem kennslubók til að fræða fólk um þennan tíma, t.d. nota hana sem námsefni í framhaldsskóla. 

Eftir því sem verkinu vindur fram gengur Arnari betur að takast á við lífið. Í heimsókn sinni til Íslands kynnist hann nýjum hliðum á fjölskyldu sinni. En ég ætla ekki að rekja gang sögunnar frekar en mér var farið að þykja vænt aðalpersónurnar og vona það besta fyrir þeirra hönd. 

Það sem mér fannst best við þessa bók, er að þarna er dregin upp heilleg mynd af atburðarás sem er um margt lítt skiljanleg. Eðli málsins samkvæmt er atburðarás peningaflæðisins hönnuð til að villa um fyrir heiðvirðu fólki og laganna vörðum.

Tvær samlíkingar í bókinni sitja í mér, báðar dálítið fráhrindandi. Önnur var sem lýsti því hvernig froskar bregðast við því þegar þeir eru soðnir. Ef þú skellir lifandi froski í sjóðheitt vatn hoppar hann upp úr. En ef þú setur hann í kalt vatn og hitar hægt þar til suðumarki er náð, þá bregst hann ekki, hann hægeldast.

Hin líkingin átti að skýra hvers vegna Íslendingar trúa aldrei neinu illu um fjármálamennina sem eru að stela frá þeim og lifa hátt á kostnað almennings. Það er auðveldast að skilja þetta í ljósi líkindanna við sér nákominn, sem er staðinn að því að misnota sitt eigið barn, eða annan nákominn og þá er oftast einn eða fleiri í fjölskyldunni sem trúir ekki og rís upp til varnar við ofbeldismanninn. Tilhugsunin um að okkur nákominn, maður sem við þekkjum og elskum er okkur um megn og þess vegna stöndum við frekar með honum en fórnarlambinu. 

Mér fannst þetta í senn spennandi og fróðleg bók. Ég skil núna hvers vegna henni var svo lítið hampað á sínum tíma. Það er næstum óbærilegt að horfast í augu við að okkar eigin eignamenn og jafnvel stjórnmálamenn níðist á eigin þjóð. 

Myndin af grafinu er tekin að láni úr Rannsóknarskýrslu Alþingis og tengist ekki efninu beint.

En mér finnst gaman að skoða myndirnar sem landslag.


Gildran: Lilja Sigurðardóttir

image

Um sex vikna skeið hef ég eingöngu lesið glæpasögur. Það er jafn langur tími og ég hef verið að glíma við bakverk. Spennubækur lina verki og hafa reynst mér betri en nokkrar verkjapillur.

Eftir að hafa lesið Spor, Lilju Sigurðardóttur, ákvað ég að lesa nýjustu bók hennar, Gildruna, sem hefur fengið lof gagnrýnenda.

Fráskilin kona og móðir, Sonja, grípur til þess óyndisúrræðis að flytja eiturlyf milli landa til að bæta fjárhag sinn. Hún hefur látið fyrrverandi mannn sinn plata sig til að samþykkja að hann hafi forræði sonar þeirra, Tómasar 9 ára. Hann skammtar henni takmarkaða umgengni og hún saknar drengsins mikið. 

Hún kennir slæmum fjárhag um að það fór sem fór varðandi forræðismálið og bindur vonir við að peningarnir sem hún vinnur sér inn sem "burðardýr" geti hjálpað henni til að fá son sinn aftur.  

Inn í þetta ævintýri blandast ástarsaga hennar og Öglu, framsækinnar bankakonu, sem hefur efnast með klækjum en veit þó að það geti komist upp um hana. 

En það er önnur ástarsaga í gangi. Gamli tollvörðurinn, Bragi, þráir að hafa konuna sína heima, en hún dvelur á hjúkrunarheimili vegna þess að hún er komin með Alzheimer. Yfirmenn Braga ýta á hann að hætta að vinna og fara á eftirlaun. En Bragi hefur engan áhuga á að sitja einn í tómlegri íbúð. Hann er með önnur plön. Hann hefur tekið eftir hinni myndarlegu og vel klæddu Sonju, sem er mikið á ferðinni til útlanda. Hann bíður átekta. Hér æla ég að láta staðar numið að rekja efni sögunnar, til að spilla henni ekki fyrir lesendum mínum sem hafa ekki enn lesið bókina.

Þetta er lipurlega skrifuð spennusaga sem gerist í raunveruleika dagsins í dag, eða þannig. En hún var ekki nógu góð fyrir mig, af því ég trúi ekki orði af því sem er sagt. Galdurinn við að skrifa góða bók, er að tryggja að lesandinn trúi því meðan hann les, að svona hafi þetta verið. 

Hvaða heilvita kona myndi láta plata sig svona við skilnað. Þarf ekki  manneskja að vera ansi langt leidd til að ætla sér að redda fjárhagnum með svo áhættusamri "vinnu"? Á tímabili hélt ég Sonja hlyti að vera afar illa gefin og ósjálfstæð kona. Sú kenning gekk þó ekki upp þegar lýst var snilli hennar í burðardýrsstarfinu. Ástarævintýri kvennanna var ekki heldur sannfærandi. En ég veit ekki hvort glæpamennirnir eru trúverðugir, ég þekki svo lítið til í þeim bransa. 

Ég varð sem sagt fyrir vonbrigðum með þessa bók, sérstaklega miðað við það mikla lof sem hún hefur fengið. Ég þarf eitthvað sterkara, ég þarf að trúa á atburðarásina.

Sumar bækur með lygilegum glæpum og ótrúlegri atburðarás, verka á mig sem vönduð sagnfræði. Og er reyndar langt komin með eina slíka bók. Það er bók Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími. Hún hittir svo beint í mark að ég er verkjalaus af bakverkjum svo lengi ég les.

Meira um hana næst.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júní 2016
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 187294

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband