Brot af ævisögu

image

Í dag hóf ég lestur á Smásögum heimsins. Ég hef alla tíð átt erfitt með smásögur, þær eru svo krefjandi. Ég ákvað strax að lesa einungis tvær sögur á dag, vil geta melt innihaldið. Til viðbótar hóf ég lestur á Kulda eftir Ýrsu Sigurðardóttur. Þetta er ekkert slor, sem ég er að lesa. Á undan hafði ég lesið tvær bækur eftir Gyrði Elíasson, Lungnafiskar og Suðurglugginn.Lífið er dásamlegt. En hvar væri ég stödd án skáldanna?

Er búin að vera með vinum í viku í sumarhúsi á Arnarstapa. Lækurinn miðar við húshornið og spóinn vellur. Það er úti öll þraut. Einhvers staðar eru einhverjir að tala um forsetakosninigar í Bandatíkjunum og endurkomu Sigmundar Davíðs. Ég er ónæm, en verð þó enn hrygg þegar talað er um hryðjuverkin, sjúkdómseinkenni ástandsins í heiminum. 

Á morgun förum við heim og ég á eftir að velta fyrir mér framtíðinni sem bíður Snæfellsnes, þar sem tíminn stendur kyrr, á stundum. 

Komst ekki til að sjá leikhúsið í Frystiklefanum , fékk ekki stuðning ferðafélaganna, en hef fyrirgefið þeim. Sætti mig við lýðræðiislegt vald meirihlutans.

Þetta er búin að vera dásamleg ferð. Þegar ég kem heim get ég haldið áfram að lesa Smásögur heimsins og Ýrsu.  

Hvunndagurinn tekur við, ég hlakka til. 

Myndin er slitur úr gamalli heklubók en tengist ekki Arnarstapa

 

 

 


Með söguna undir fótum sér og allt um kring

image

Á öðrum degi í sumarhúsi á Arnarstapa uppgötvaði ég lagnir í jörðinni, áþekkar hitaveitustokkunum í Reykjavík, en grennri. Ósjálfrátt tengdi ég þetta við upplýsingar úr Vegahandbókinni um vikurnám Jóns Loftssonar við Snæfellsjökul (hófst 1934). Nú hef ég fræðst mikið um þennan merkilega kafla í iðnaðarsögunni, með því að lesa mér til. Vikrinum var fleytt með leysingavatni úr jöklinum, malaður og síðan fluttur með skipum. Mér fannst þetta merkilegt og gaman að sjá þessi verksummerki. Þetta er við jaðar sumarhúsabyggðarinnar.

Reyndar er mér önnur saga hugstæðari, Eyrbyggja er líklega sú Íslendingsaga sem ég hef lesið oftast, en kann þó aldrei nógu vel. Hún er endalaus uppspretta undarlegra sagna, sem halda áfram að vera dularfullar, þrátt fyrir allar tilraunir fræðimanna til skýringa. Í gær ókum við fyrir Jökul og áfram til Stykkishólms. Endalaus Eyrbyggja. Þarna er líka endalaust saga sem ekki hefur verið færð í letur. Við komum við á Hallbjarnareyri, þar sem reistur var "spítali" fyrir holdsveika 1653. Ég hef spítali í gæsalöppum af því engin lækning var þá til, þetta var fyrst og fremst staður til að einangra þá veiku, og koma þannig í veg fyrir smit. 

Hér á utanverðu Snæfellsnesi var fyrsta þéttbýli á Íslandi, það var stutt á miðin. Við eigum erfitt með að sjá þetta líf fyrir okkur, hvað þá skilja það. Gallinn er að nútímamaðurinn er stöðugt að horfa á þetta með augum nútímans. Við þurfum að æfa okkur í að fara inn í söguna og sjá með augum samtímans sem var. Þetta gerist ósjálfrátt þegar maður er með söguna undir fótunum og allt um kring. Og nægan tíma. 

Gæti verið framtíð í því að lifa meira í sögunni?

Myndin er tekin við Gufuskálavör en tengist ekki fornminjum.


Herinn fylgdi mér í gegnum byggðina

image 

Kríuherinn fylgdi mér í gegnum áhrifasvæði sitt, varplandið á Arnarstapa. Ég var undir það búin, með húfu á priki og ekki veitti af. Það er ánægjulegt að sjá atgang kríunnar, síðast þegar ég kom á kríuslóðir var dauft um að litast. 

Það er gaman að skoða sig um á Snæfellsnesi, endalaus saga og náttúra. Ég er búin að renna enn einu sinni í gegn um Bárðarsögu Snæfellsáss og reyni að fræða samferðamenn mína en þau eru leið á mér og vilja frekar lesa einhverja samsuðu af skiltum (stundum ekki góð).

Bækurnar fylgja mér í ferðalagið, Eyrbyggja verður að bíða þangað til við komum á norðanvert nesið. Í fyrra kvöld lauk eg við þýska glæpasögu sem ég hef verið að lesa lengi, lengi, Versunkene Gräber eftir Elisabeth Hermann. Kannski segi ég frá henni síðar. Í gær hóf ég endurlestur á Suðurglugganum hans Gyrðis. Það á eitthvað svo vel að lesa hana hér. Dásamleg bók, margt sem ég hef lesið áður fær nýja og nýja merkingu við endurlestur. 

Ég fann einungis tvo dauða unga á veginum, herskáar varnir kríunnar hafa greinilega skilað
góðum árangri. 

Lífið er gott það er bara stundum samhengi hlutanna sem er galið.


Axel Munthe: Sagan um San Michelle

image

Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari bók hún er allt öðru vísi en það sem ég hef áður lesið. Þetta eru margar og misstórar frásagnir sem tengjast lífi höfundar, raðað nokkurn veginn í tímaröð. Þetta er þó ekki ævisaga í bókstaflegum skilningi. Hann segir sjálfur í formála bókarinnar að hann hafi leitast við að þurrka allt persónulegt út úr sögunni. Hann fjallar t.d. ekki um foreldra sína eða bernsku heldur ekki um börn sín eða konurnar tvær sem hann giftist. Hann talar heldur ekkert um Viktoríu drottningu ( Svía) sem hann tileinkar bókina en hann var líflæknir hennar til margra ára. 

Uppistaða bókarinnar eru frásagnir um ungan sænskan lækni sem menntast í París og verður læknir þar en lendir í útistöðum við samstarfsmann sinn og meistara Charcot og fer þá til eyjarinnar Capri og sest að í San Michele. Þar lætur hann drauma sína rætast um hið fullkomna líf. Hann segir ýmsar sögur úr vinnu sinni með sjúklinga, bæði ríka og fátæka. Hann verður nokkurs konar tískulæknir og er sérfræðingur í geðlækningum þessa tíma. Hann er þó fjarri því að aðhyllast byltingarkenndar hugmyndir um þjóðfélagsbreytingar. En hugur hans stendur til að hjálpa fátækum, því hann er afar upptekinn af misskiptingu auðs. Hugmyndir hans um umbætur byggja á kærleika. Allar frásagnir hans um störf lækna eru afar áhugaverðar, sérstaklega í ljósi þess að hann er samtíðarmaður margra lækna sem áttu eftir valda straumhvörfum í lækningum.

Margar frásagnir hans fjalla un samband hans við dýr, bæði eigin gæludýr og um villt dýr. Hann er sérstakur fuglavinur og vinnur að umbótum varðandi dýravernd. Sögur hans um samband manns og náttúru er í ætt við þessar hugmyndir, þar með talin skrýtin frásaga af ferðalagi um Lappland.

Inn í allar frásagnir hans blandast rómantískar hugmyndir hans um glæsta fortíð Grikkja og Rómverja, hann er heillaður af fegurð byggingalistar þeirra tíma. Sagan um San Michele er um viðleitni til að endurreisa glæsileika fortíðarinnar á rústum fornminja sem enn stóðu í fyrstu heimsókn hans til eyjarinnar. Hann vann að því verki árum saman. 

Þessi saga fjallar um allt þetta og margt fleira en dauðinn er stöðugt nærverandi í frásögninni og verður enn meira ríkjandi þegar á líður. Dauði og forgengileiki og óræð framtíð í eilífðinni. 

Auðvitað er ég búin að lesa mér til um manninn Axel Munthe, sem er sænskur afkomandi innflytjenda frá Flandern. Ég er mest undrandi að tilvist hans skuli hafa farið fram hjá mér eins og ég reyndi að setja mig inn í sænska menningu á sínum tíma. Hann var fæddur í Oskarshamn 1857 og dó í Stokkhólmi 1949. Bókin um Sam Michele kom út á ensku 1929, hann sá svo sjálfur um að þýða hana á sænsku. Bókin kom svo út á íslensku 1933 og það voru Karl Ísfeld og Haraldur Sigurðsson sem þýddu. Íslenska bókin er prentuð í Félagsprentsmiðjunni. Hún er forkunnarfögur, það er gaman að horfa á þessa gömlu prentuðu bækur, fyrir tíma stafrænnar tölvutækni, allt er svo vel gert. Eintakið sem ég fékk að láni í Borgarbókasafninu er auk þess innbundið í skinn (kjölur og horn). Mér þykir miður að það tíðkast að líma plast utan á bækurnar og spillir það útliti fallegra bóka. Þetta er vondur siður.

Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók, fyrst. Hún er lesin af Þórarni Guðnasyni, lækni. Það er vel gert en það vantar formálann sem ég hef nú lesið með hjálp stækkunarglers. En formálinn var afbragð og skýrði margt og bætti öðru við. 

Bókin er 488 blaðsíður og það er upplifun að lesa hana. 

Hann segir sjálfur um bókina: "Það gerist á hinu hættulega landi, sem liggur milli ímyndunar og veruleika."


Kamelíufrúin: Alexander Dumas: Bók um hræsni, ást og dauða

image

Ég held mig við 19.öldina. Það er svo merkilegt að sjá öldina sem ól af sér svo marga drauma sem rættust ekki. Lýðræði, kvenréttindi, menntun og svo margt fleira.

Kamelíufrúin (kom út í íslenskri þýðingu 1938) er ekki flókin saga, hún er stutt, fjallar um brennandi ást, veikindi og dauða. Það eru engir útúrdúrar eða hliðarsögur í þessari frásögn. Sögumaður fer á uppboð á eignum látinnar konu, vændiskonu sem hafði slegið í gegn hjá ríkum og tignum karlmönnum Parísarborgar. Í framhaldi af uppboðinup hittir hann mann, sem elskaði þessa konu og hún hann og hann skráir niður frásögn hans. 

Sagan er um unga fátæka stúlku, barn? Hún yfirgefur heimili sitt og verður undrafljótt eftirsótt ástkona ríkra heldri manna. Hún er fræg. Lifir  hátt, býr í dýru húsnæði, klæðist tískufatnaði, safnar að sér fallegum hlutum og verður skuldug. Hún verður alvarlega veik en veikindin breyta litlu um hegðun hennar, þangað til hún kynnist manni sem elskar hana svo heitt, að hún elskar til baka. Þá fyrst vill hún breyta lífi sínu. En örlögin valda því að henni er ekki ætlað að eiga betra líf. Í raun fórnar hún sér fyrir ást sína. 

Lýsingin á þjáningum þessar ungu stúlku í dauðastríðinu eru ekki bara átakanleg, hún er hræðileg, grimm. 

Þessi saga byggir á annarri sögu, sem er sönn og e.t.v. enn átakanlegri. Og hún stóð nær höfundi enn hann vildi láta í veðri vaka. 

Það var kominn tími til þess fyrir mig að lesa þessa bók og það var þýðandinn, Karl Ísfeld sem réði vali mínu. Hann er snillingur. 

Eftirmáli

Ég sneiddi hjá bókum Alexanders Dumas þegar ég var á gleypialdrinum, hélt að þetta væru strákabækur. Ég hafði ekki hugmynd að þeir "Dumasarnir" væru tveir, eldri og yngri. Þess vegna las ég ekki heldur Kamelíufrúna semer svo sannarlega kvennabók (ef maður flokkar á annað borð bækur), þótt hún sé eftir karl. Líklega var eins gott að ég las hana ekki fyrr, nú er ég nógu þroskuð fyrir hana. Þegar, hún kom út á sínum tíma (1848) var hún stór biti í háls fyrir hræsnisfullan samtíma sinn. Kannski of stór. Verdi gerði samt óperu (La Traviata) sem byggir á þessari raunasögu ungu stúlkunnar sem lést úr berklum 23 ára gömul. 

Síðan ég las þessa sögu er ég búin að liggja í efni um feðgana Dumas. Alexander Dumas yngri var fæddur 1824 og dó 1895. Þeirra saga er ekki síður merkileg. Kannski á ég eftir að skrifa eitthvað um þá síðar.

Unnur Jökulsdóttir las þessa bók, hún er frábær lesari. 

Myndin sem fylgir er af pelagoníu en ég átti enga mynd af kamelíu.


Leitin að Ljúdmílu fögru eftir Alexander Púskín

image

Alveg er það dæmalaust hvað guðirnir, sem ég trúi ekki á, eru klókir að vísa mér leið í bókaskóginum. Ég var að leita að allt annarri bók og fann Ljúdmílu. Hafði aldrei heyrt um þessa sögu og þaðan af síður að hún væri til til í íslenskri þýðingu.

Ég hlusta á bókina hjá Hljóðbókasafni Íslands, það er Erlingur E. Hallórsson sem les. 

Sagan er heillandi. Ég veit ekki hvar ég á að staðsetja hana, einhvers konar sambland af Fornaldar sögum Norðurlanda (eins og við þekkjum þær), riddarasögum og ævintýrum. En þar sem ég er enginn bókmenntafræðingur les ég bara mér til skemmtunar. Reyndar minnti frásagan mig líka örlítið á kvikmyndir eftir Ang Lee.

Sagan er um riddarann Rúslan sem hefur gifst  Ljúdmílu, en hún hreinlega gufar upp, týnist. En til  þess liggja eðlilegar ástæður, galdrakarlinn  Skuggavaldi hefur numið hana á brott. 

Nú upphefst mikil leit. Það er ekki bara Rúslan sem leitar, tveir fyrrum biðlar Ljúdmílu taka einnig þátt, þeir eru svarnir óvinir Rúslans svo keppnin um að finna stúlkuna er hörð. 

Þegar ég hafði lokið við að hlusta á Erling lesa söguna, langaði mig til að fá bókina í hendurnar og skoða hana. Þetta geri ég reyndar oft því ég elska að skoða bækur, þótt ég geti ekki lesið, get ég enn skoðað bækur mér til gagns. Bókavörðurinn sem var boðinn og búinn að hjálpa mér, fann ekki bókina fyrr en það rann upp fyrir henni að þetta var barnabók. 

Bókin er dæmalaust falleg. Þýðingin er í raun endursögn er eftir Geir Kristjánsson. Það er ekki sagt hver gerir myndirnar, líklega einhver Rússi. 

Geir skrifar formála að bókinni, hann er líka merkilegur. 

Það var svo sannarlega happafengur að rekast óvart á þessa bók. 

Þessi saga, sem er ljóð, kom út í Rússlandi 1820. Þýðing Geirs kom út 1954.

Mikhail Glinka samdi tónlist við þetta ljóð, Rúslan og Ljudmíla. 

Myndin er úr bókinni.


Gangandi prjónakonur: Breyttir tímar?

image

Ég gæti ekki sent eða svarað skilaboðum á símanum meðan ég er að aka bíl, þótt ég ætti líf mitt að leysa. Þaðan af síður gæti ég skoðað Feisbókina meðan ég er að hjóla. Ég furða mig á fólki sem getur þetta, en ég get ekki sagt að mér finnist það aðdáunarvert.  Konan sem ég mætti í gærmorgun þegar ég var að hjóla í búðina trommaði þó allt sem ég hef séð í þessa veru hingað til. 

Þar sem ég hjóla í útlenska sumarveðrinu í gær sé ég að það kemur ung kona með barnavagn á móti mér. Gangstéttin er ágætlega breið en þó er þörf fyrir að fólk víki til hliðar þegar mæst er. Ég átti ekki von á öðru en stúlkan sæi mig, véki hún til hliðar, en hún gekk áfram með barnavagninn á miðri götunni og að endingu varð ég að fara af baki og leiða hjólið. Þá sá ég að hún var að lesa á símann. 

Þar sem ég er gömul kona, hvarflaði hugurinn til fyrri tíma. Í barnæsku heyrði ég oft talað um konur sem voru svo iðnar og miklar prjónakonur að þær gengu prjónandi milli bæja. Aldrei sá ég þó slíka konu. Ég heyrði líka sagt frá konu sem var svo iðin að hún lagði ekki frá sér prjónana þegar maður hennar lét vel að henni í rúminu. Þetta var að sjálfsögðu lygasaga og segir líklega meira um hvað mikið eða réttara sagthvað þessi kona fékk út úr ástalífinu. Þegar ég horfi á fólk rýnandi í símana sína hvað sem á gengur, verður mér hugsað til prjónakvennanna sem aldrei féll verk úr hendi. 

Breyttir tímar? Betri tímar?

 


Sálumessa yfir spænskum sveitamanni:Ramón J. Sender

image

Ég var næstum búin að gleyma að segja frá þessari bók, hún lætur svo lítið yfir sér. Hún kom upp í hendurnar á mér af tilviljun, stundum er eins og góðar bækur leiti mig uppi. Ég þekkti ekkert til höfundarins og man ekki eftir umræðu um hana.  Strax og ég sá nafnið vissi ég að þetta væri bókin. Ég hef komist á bragðið að lesa bækur sem rekja ættir til gömlu góð latínunnar (því miður einungis í þýðingum). 

Bókin er stutt, tekur bara tvo og hálfan tíma í afspilun (ég hlusta á bækur). Hún gerist í litlu sveitaþorpi á árunum milli stríða. Sögumaður er kaþólskur prestur, sjónarhornið er hans. Það er allt afar friðsælt í þessu litla þorpi. Í föstum skorðum. Kjör alþýðunnar eru eðlileg, fólk hefur í sig og á. Þar búa þó tveir eða þrír auðugir menn í fínum húsum. Eini fátæklingurinn, sem sagt er frá, býr í helli og á ekki einu sinni dýnu til að sofa á. Þar deyr hann. Litli drengurinn sem fer með prestinum (kórdrengur) í hellinn til að veita hinum deyjandi manni hinstu smurningu, verður svo hrærður af því að sjá lífskjör sveitunga síns, að það átti eftir að verða örlagavaldur í lífi hans. 

Í þessu þorpi er ein óforskömmuð kerling, Jerenima, nokkurs konar Gróa á Leiti. Hún dreifir sögum og er nokkurs konar fréttaveita þorpsins. Prestinum er um og ó. 

Rammi sögunnar er vinna prestsins og skyldur hans við Guð og menn. Þótt prestur sé sögumaður og sé fyrst og fremst að tala um starf sitt, er hetja sögunnar litli kórdrengurinn sem fór með honum í vitjun inn í hellinn til að þjónusta nær allslausan deyjandi mann. Það eina sem hann átti var sonur í fangelsi. Ég ætla ekki að spilla lestri bókarinnar fyrir hugsanlegum lesendum með að rekja efni hennar frekar. Læt hér nægja að segja að lesandinn skynjar, þótt það sé hvergi beinlínis sagt, að það sé einhver hætta yfirvofandi, þrátt fyrir að allt sé friðsælt í litla þorpinu. 

Höfundurinn Ramón J. Sender er fæddur 1901 í Chalamara Huesca í austurhluta Spánar. Hann var sjálfur þátttakandi í borgarastyrjöldinni sem hófst 1936 og lauk 1939. Í þessu stríði missti hann bæði konu sína og bróður og varð sjálfur að flýja föðurland sitt. Hann lifði í útlegð allt fram til dauða Francós (1975). Hann er nú talinn einn af merkustu höfundum Spánar. (Þegar ég hóf lestur bókarinnar vissi ég ekkert um þennan mann en ég hef lesið mér til). Litla sagan sem ég var að lesa er á yfirborðinu lágstemmd, ekki saga stórra atburða. En í reynd er verið að segja sögu borgarastyrjaldarinnar í hnotskurn, þorpið er smækkuð mynd. 

Bókin kom út á spænsku 1953 og á íslensku 1986 í þýðingu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur og Þorgeirs Þorgeirssonar, hann þýddi ljóðin. Þetta er bók sem maður notar um orð eins og Perla eða snilldarverk. Ég er búin að lesa hana þrisvar og leiddist ekki. Þannig er þessi bók. 

Myndina tók ég á Spáni í fyrra en hún er víðsfjarri slóðum þessarar sögu.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2016
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187190

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband