Gæðakonur: Steinunn Sigurðardóttir

image

Það er alltaf jafn gaman að lesa bækur Steinunnar Sigurðardóttur, hún skrifar svo fallega íslensku að hún á fáa sér líka. Mér dettur helst Indriði G. Þorsteinsson í hug, en hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ekki veit ég hvort ég skil hvað Steinunn er að fara í þessari bók. Mig grunar að hér sé á ferðinni svo djúpar pælingar og að lesandinn þurfi að hafa fyrir því að höndla hina eiginlegu merkingu. Efni bókarinnar er enn að brjótast um í mér.

Bókin er á yfirborðinu einföld. Hún fjallar um eldfjallafræðinginn Maríu, sem er enn á góðum aldri. Hún stendur á tímamótum í lífinu, þarf að taka ákvörðun um framtíð sína, um lífið. 

Ég ætla ekki að rekja atburðarás  bókarinnar, þá myndi ég ljóstra upp of miklu og spilla fyrir væntanlegum lesendum. Þess í stað ætla ég að segja lauslega frá hvaða hugmyndir koma hér við sögu. Það á ekki illa við, því hugmyndaheimur bókarinnar er það sem gerir hana sérstaka. 

María eldfjallafræðinguur er kona með fortíð. Þegar hér er komið sögu veitir hún því athygli að um svipað leyti og karlmenn hættu að gefa henni auga, eru konur farnar að horfa á hana með  blik í auga. Eins og þær langi til að gera eitthvað við hana. Nú opnast henni nýr heimur, þar sem kynferði fólks er mun fjölbreyttara en þau viðmið sem hún þekkir. Þegar ég var þarna komin í lesturinn, fór ég að velta fyrir mér hvort e.t.v. rétt væri að tala um hvar þessi eða hinn sé staddur á kynferðisrófinu, rétt eins og nú er stundum rætt um fólk með einhverfueinkenni. Þá er gjarnan talað um hvar Jón eða Gunna séu stödd á rófinu.  

Einn af mörgum efnisþáttum þessarar bókar eru fjölmargar birtingarmyndir ástar, kærleika og kynlífs. Ef ég hef skilið bókina rétt, er  ástin og birtingarmyndir hennar ein af höfuðuskepnunum, náttúruafl sem við ráðum illa eða ekki við. 

Aðalpersóna bókarinnar, María Hólm, er ekki bara góður vísindamaður á sínu sviði, hún er ástríðufull, elskar fagið og það sem að því snýr. Hún hefur sérstaka ást á fjallinu Stóra Stubb og jarðhræringum sem honum tengjast. 

Sagan gerist á tímum gossins í Eyjafjallajökli en hún lýsir ekki bara jarðhræringum, hún lýsir ekki síður umbrotum í sálarlífinu og í samfélaginu. Þegar María fer til Parísar til að flytja fyrlestur á sérsviði sínu,eldfjallafræði, kynnist hún hinni pólitísku Gemmu, sem vill umbylta heiminum með því að færa valdið frá körlunum til kvennanna. Það er heimsins einasta von, segir hún,karlarnir hafa sýnt fyrir löngu að þeir kunna ekki að fara með það vald sem þeir hafa tekið sér. Gemma kynnir sig sem trúboða, hennar boðskapur er bylting kvenna. Vegna þess að Gemma lítur á sig sem trúboða, er óvenjumikil predikun í þessar bók. Boðskapurinn er augljós og ófalinn. Ég get alveg þolað það, í 19. aldar sögunum sem ég hef verið að lesa í vetur er þetta oft á sama veg. Dæmi um það er Kofi Tómasar frænda eftir Harriet Becher Stowe (1852) þar sem höfundur rekur óhikað áróður fyrir afnámi þrælahalds og það gerir hún af miklum trúarhita. 

Mér finnst Gæðakonur góð og skemmtileg bók. Hún hristir upp í manni. Góð bók kveikir á hugsun um aðrar góðar bækur. Allt í einu var ég farin að hugsa um bókina The Volcano Lover (1992) eftir Susan Sontag. Nafnið tengir. Það er líka ástríðufull bók, um eldfjall, ástir, listir og orustur. Þetta er ástarsaga Lord Nelsons og hinnar fögru Emmu Hamilton. En þar sem minnið er svikult þyrfti ég að lesa þá bók aftur áður en lengra er haldið. Ég gæti hugað mér að lesa hana aftur og aftur. En nú er ég komin út fyrir efnið.

Það væri beinlínis rangt að tala um Gæðakonur Steinunnar Sigurðardóttur án þess að minnast á hennar lúmsku fyndni. Glettni, gáski og húmor eru samofin stílnum og efninu og eru eitt af því sem einkennir hana sem höfund. 

Lokaorð

Eins og sést á þessum skrifum mínum á ég enn langt í land með að skilja þessa bók. Það er allt í lagi, efni hennar kraumar í mér. Þetta er bók með eftirbragði.


Bloggfærslur 13. júní 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband