Væntingastjórnun: Pólitík er ekki vara

image

Í síðustu viku lærði ég nýtt orð, væntingastjórnun. Það var ein af fjölmörgum skýringum sem ég hef heyrt undanfarið á slöku gengi Samfylkingarinnar. Það var stjórnmálafræðingur sem notaði orðið. Samfylkingin hefur sem sagt ekki haft stjórn á væntingum. Í sömu viku heyrði ég ekki bara einn, heldur tvo segja að frambjóðendur í formannskjöri Samfylkingarinnar, væru ekki ferskir. Það væri lítill ferskleiki yfir þeim. Allt í einu sló það mig að það er farið að ræða um pólitík eins og hverja aðra vöru, eins og hún sé búin til á auglýsingaskrifstofum og markaðssett. Er pólitík vara?

Einhvern veginn fellur mér ekki við þessa framsetningu. Mér fellur ekki heldur talið um gömlu flokkana, svo ég tali nú ekki um fjórflokkinn, enda gömul sjálf. Stefnumið flokka verða til í samstarfi fólks og pólitík ræðst,að ég held, af því hvernig tekst að koma áformum í verk.

Samfylkingunni tókst því miður ekki að koma í framkvæmd mikilvægum verkefnum. Því miður hugsa ég sem er gegnheil Samfylkingarkona og þori að segja það. Þetta síðasta segi ég vegna þess að Samfylkingin hefur um nokkuð skeið orðið fyrir mikilli gagnrýni. Það er reyndar eðlilegt og gott að stjórnmálaflokkar séu gagnrýndir. En það er ekki síður mikilvægt að átta sig á því, á hverju sú gagnrýni byggist.

Annars vegar er um að ræða gagnrýni frá andstæðingum, þ.e. stjórnmálaöflum sem eru andvíg því sem flokkurinn stendur fyrir. Hins vegar er um að ræða gagnrýni, sem kemur frá fólki sem virðis vera sammála stefnumálinum en telja að það hafi ekki verið farið rétt að.

Það er munur á þessu tvennu. Í fyrra tilvikinu, þegar gagnrýnin kemur frá mótherjum, finnst mér oft gilda, því meira því betra.

En í hinu síðarnefnda er mikilvægt að hlusta vel eftir hvað þarna er á ferðinni. Margt af þeirri umræðu sem nú fer fram í netheimum, hefði áður fyrr líklega farið fram í þrengri hópi hugsanlegra samherja. Tímarnir hafa breyst og vonandi til góðs ef rétt er á haldið. Það er mikilvægt þegar þessi gagnrýni er skoðuð að muna að Samfylkingin hefur átt sér volduga andstæðinga. Sterk viðbrögð pólitískra andstæðinga er fagnaðarefni, og síst til að kvarta yfir. 

Til viðbótar við þessa ganrýni úr ólíkum áttum bætist auðvitað við nöldur fólks sem hefur misst trú á alla pólitík (að eigin sögn). Sárast finnst mér þó að hlusta á fyrrverandi samherja sem senda kaldar kveðjur til þeirra sem hafa tekið við keflinu. Stundum lítur út fyrir að allir hafi rétt á að hnjóða í þennan flokk. Óskemmtilegt. Eða það finnst mér að minnsta kosti sem hef verið stuðningsmaður Samfylkingarinnar frá upphafi.

Það er vor í lofti og framundan eru tvennar kosningar. Ég var að kjósa formann Samfylkingarinnar og þessar vangaveltur urðu til í kjölfarið.  Mér fannst gaman að fá tækifæri til að velja á milli fjögurra álitlegra valkosta. Mér finnst kosningaár skemmtilegri en önnur ár, því það er svo mikið um að vera í samfélaginu. Pólitík er ekki vara, hún er miklu dýrmætari en svo. Það væri nær að líta á hana sem lífssýn eða hugsjón (kannski gamaldags) sem við búum til saman og eigum saman. 

Ég er orðin þó nokkuð fullorðin  og ég hef verið í stjórnmálaflokki síðan ég fékk kosningarétt og ég er stolt af því. Þannig getur maður tekið þátt í að móta stefnu þess flokks sem maður telur að sé líklegastur til stuðla að samfélaginu sem maður vill lifa í.  


Minningarorð: Herdís Erlingsdóttur frá Gilsá

image

Þeim fækkar stöðugt Breiðdælingunum sem ég þekkti vel. Í dag verður Herdís Erlingsdóttir fyrrum húsfreyja á Gilsá borin til grafar frá Eydalakirkju. Herdís var fædd 4. april 1926. Hún var frá Þorgrímsstöðum, fjórða barn í röð 7 systkina. 

Ég man vel þegar okkur á nágrannabænum Hlíðarenda var sagt frá trúlofun Sigurðar á Gilsá, en það var mikill samgangur á milli bæjanna, bæði þá og síðar. Ég man að mér fannst þetta merkilegt. Ég sé núna, þegar ég reikna árin, að ég hef verið fimm ára. Ungu hjónin á Gilsá voru vel undir búskapinn búin, hann var búfræðingur og hún hafði verið í húsmæðraskóla. 

Dísa á Gilsá var ein af þeim konum sem var svo grandvör til orðs og æðis að hætt er við að fólk taki ekki eftir þeim. Ég heyrði hana aldrei leggja illt til nokkurs manns. Og líklega hefði ég ekki þessar góðu minningar, nema af því að ég var svo heppin að kynnast henni vel. Ég var nefnilega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sem barn, "lánuð"  að Gilsá til að hjálpa til.  Ég man eftir því hvað ég hafði gaman að horfa á Dísu vinna, allt sem hún gerði, gerði hún vel og snyrtilega. Dísa var snillingur í öllu sem varðaði handavinnu, móðir mín sem kunni þar einnig vel til verka, leitaði gjarnan til hennar með ráð og aðstoð. Ég man vel eftir afar fallegum jólakjólum sem Dísa sneið og saumaði á okkur systur. Mamma lagði til efnið og svo var tekið mál og við vorum látnar máta, ekki bara einu sinni. Allt átti að passa vandlega. Mér þótti ekki gaman að máta en kjólarnir, sem voru rauðir og hvítir, voru undurfallegir.

En það er ekki alltaf nóg að búa sig vel undir lífið til að allt gangi að óskum. Lífið átti eftir að rétta þeim hjónum mörg erfið verkefni og mikla sorg. Sigurður átti við langvarandi heilsuleysi að stríða og reyndar fór Dísa ekki sjálf varhluta af því að takast á við sjúkdóma. Ég hef oft hugsað til fólksins á Gilsá þegar ég velti fyrir mér hversu gæfunni er misskipt. Það er átakanlegt að þurfa láta frá sér börn vegna veikinda þeirra og fötlunar. Hér er ég að tala um drengina þeirra tvo, tvíburana, Þorgeir og Stefán. Þeir voru fyrstu smábörnin sem ég passaði. Ég leit líka eftir Lárusi og Erlu,  eldri börnunum. Þau voru svo svo dugleg og kotroskin að ekki var við hæfi að tala um að passa þegar þau áttu í hlut. Ég veit núna að þau hafa líklega verið þriggja og sex ára. Fjölskyldan á Gilsá þurftu líka að horfa á eftir lítilli stúlku, Sólrúnu, sem lést níu ára eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. 

En Herdís Erlingsdóttir var og er í mínum augum sönn hetja. Þannig minnist ég hennar. Eins og sést á þessum orðum mínum í minningu Dísu, þá spretta fram ótal minningar, góðar og sterkar. Þær tengjast bæði henni og fólkinu á Gilsá. Þegar ég hugsa til baka, geri ég mér grein fyrir,  að það var í þeirra félagsskap sem ég lærði að það er munur á að tala um málefni og verkefni eða um fólk. Þetta var góður félagsskapur, góðir nágrannar eru dýrmætir. Þegar ég flutti úr sveitinni missti ég aldrei alveg sjónar af þeim, frétti af þeim. Ég votta aðstandendum samúð mína.   

Myndin sem fylgir, þessum pistli er brúðkaupsmynd af Sigurði og Herdísi. Hún er sótt í bók Sigurðar Lárussonar manns hennar Minningar og ljóð.  

 


Spor: Lilja Sigurðardóttir: Eins og að ráða krossgátu

image

Hver kannast ekki við tilfinninguna að vera svangur, langa í eitthvað, bara alls ekki það sem er til í ísskápnum? Eftir að hafa kvatt Anniku Bengtzon (sköpunarverk Lizu Marklund) með söknuði, vissi ég  þó að mig langaði að lesa enn fleiri krimma. Ástæðan fyrir glæpasögulestrinum var bakverkur, ég treysti mér ekki í tormelt lesefni. Bókin Spor eftir Lilju Sigurðardóttur varð fyrir valinu. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir hana áður.

Bókin byrjar ljúft, ungur maður er aðæ koma heim eftir áfengismeðferð, hann saknar sárt fyrrverandi konu sinnar ... Hún er rannsóknarlögga sem er að takast á við að leysa sitt fyrsta morðmál. Hinn myrti hefur einnig átt við áfengisvanda að stríða svo lögreglukonan leitar til fyrrverandi manns síns, biður hann að segja sér frá mönnunum sem hann hefur setið með á AA-fundum. Þetta er alveg á mörkunum að vera siðferðilega rétt en hann slær til af því hann þráir nálægð við sína fyrrverandi.  

En það er framið nýtt morð og svo enn annað og það kviknar hugmynd um að þarna sé raðmorðingi á ferð svo nú er farið að leita að munstri sem geti skýrt hver þarna sé á ferðinni. Þetta er glæpasaga sem stendur undir nafni. En til að gera langa sögu stutta, þá virðist árangursríkt að skoða morðin út frá 12 spora kerfinu. Nú vona ég að það spilli engu fyrir hugsanlegum lesendum með að upplýsa þetta en meira segi ég ekki. 

Það var fræðandi að lesa þessa bók, ég veit nú fjölmargt um líðan og langanir þeirra sem eru að halda sér þurrum og ég er enn fróðari um 12 spora kerfið. Þetta með að kúga fólk til trúar á Guð er verra en ég hélt. Reyndar ætla ég ekki að fjalla um að hér, heldur hitt að sporavinnan í bókinni skilaði árangri, morðinginn fannst. 

Þetta er formúlubók en spennandi engu að síður. En raðmorð eru ekki fyrir mig. Bæði er, að ofbeldið verður yfirgnæfandi og skyggir á fjölmargt annað sem gerir bók góða. Þar ber hæst (í mínu tilviki) að fá þá tilfinningu að höfundi liggi eitthvað á hjarta, hvað vill hann segja fólki með þessari bók? Í ofbeldisfullum bókum verður persónusköpunin og trúverðug samskipti fólks stundum út undan, þótt það eigi ekki við um þessa bók. Helstu persónur eru vel dregnar og sama gildir um samskipti þeirra. 

En raðmorð í okkar fámenna landi verða á vissan hátt afkáraleg, ég tala ekki um þegar búið er að smætta hópinn niður í alkóhólista, hvað þá ef hringurinn er gerður enn þrengri.  Gengur þetta tölfræðilega upp? En sagan gengur upp. Ég hef aftur á móti ekki lengur gaman af svona bókum. Þær gera mér sama gagn og krossgátur. Reyndar rifjast upp fyrir mér tímar þegar ég lá í bókum þar sem lausn morðsins lá í röð smáatriða eins og t.d. að stúdera tímatöflur lesta (Agatha Christie) eða í gamalli hefð við að hringja kirkjuklukku (Dorothy Sayers). Mér er sagt að höfundur Sporsins sé meðvitað að fylgja form,úlu Dan Brown, höfundar Da Vincy lykilsins. Henni tekst það svo sannarlega. Snilldarhugmynd að fræða um 12 sporakerfið. 

Það er bara ég sem er ekki á réttu róli. Nú vil ég samfélagslegar/pólitískar glæpasögur með boðskap. Reyndar ætla ég að lesa eina bók eftir Lilju í viðbót, Gildruna. Svo  ætla ég að endurlesa bók Þráins, Dauðans óvissu tími, þar sem hann spáir fyrir um hrunið. Og ef ég verð enn í glæpasögugírnum, langar mig til að lesa aftur bók  Sigrúnar Davíðsdóttur, Samhengi hlutanna, sem er tragísk hrunsaga. 

Það getur verið gaman að vera staddur í öldudal vegna bakverkja og lesa bara "léttmeti" vegna depurðar. Eða hvað?

Það er gott til þess að vita hvað það eru til magar góðar glæpasögur. Þá get ég verið döpur lengi. 

Myndin sem fylgir er úr Rannsóknarskýrslunni. Grafið minnir mig á Norðurdalsfjöllin (í Breiðdal). Mér finnst hún falleg en ekki man ég að segja hvaða hræringar þarna vor á ferð í efnahagslífinu.

 


Annika Bengtzon vinkona mín: Þar sem sólin skín

image

 

Þegar ég las síðustu bók Lizu Marklund um líf og störf söguhetjunnar Anniku Bengtzon, fannst mér eins og ég hefði misst af einhverju, sem skipti máli. Hélt að ég hefði hoppað yfir bók. Af hverju var Annika tekin aftur saman við eiginmann sinn, leiðindaskarfinn Thomas? Núna hef ég rakið mig til baka í bókunum og hef áttað mig. 

Fyrir þá sem ekki þekkja sögurnar: Annika Bengzon er ung róttæk blaðakona af alþýðuættum. Hún á erfitt með að sætta sig við óréttlæti og spillingu í samfélaginu og reyndar í heiminum öllum, ef út í það er farið. Hún flækist gjarnan inn í mál sem þetta varðar. Rannsóknir hennar eiga oftar en ekki þátt í því að þau  upplýsast. Annika er eldklár, óþolinmóð og hvatvís ung kona sem fer sínar eigin leiðir. Samstarf og hlýðni eru ekki hennar sterkustu hliðar. Hún á tvö börn og leitast við að vera góð móðir.

Bókin sem ég var að ljúka við í nótt heitir, Þar sem sólin skín. Ég hlustaði á hana sem hljóðbók, það var Sunna Björk Þórarinsdóttir sem las. Hún les vel. Ekki spillir að ég þekki Sunnu og nú hefur Annika svolítið fengið hennar svip eða er það öfugt? 

Bókin, Þar sem sólin skín, fjallar um spillingu og glæpi sem eiga rætur í fortíð. Sögusviðið spannar gamla fátæktar-Svíþjóð til lands velferðarinnar sem við könnumst við. Hluti sögunnar gerist þar sem sólin skín, á Spáni, Gíbraltar og Marokkó. Bókin er efnismikil, þræðirnir liggja víða. Annika er skilin við Tómas en saknar hans en það er pláss fyrir smá ástalíf. Eiginlega er einum of mikið um að vera í þessari bók en kaflinn um peningaþvættið er meistaraverk og á eitthvað svo vel við núna. Hún kemur út 2008 og þá var enn löglegt að vera með aflandsfélög í Evrópu, en það stóð til að uppræta þessa "þjónustu" sem var gert 2010. Það var svolítið eins og að vera komin heim að lesa þessa bók. 

En það var meira um morð og ofbeldi í þessari bók en hjá okkar mönnum, sem enginn skilur af hverju eru að vista peningana sína, sem þeim þykir svo vænt um, svo fjarri sér. Þeir græða hvort sem er ekkert á því og þurfa að borga fólki fyrir að búa til flækjur, sem þeir skilja ekki einu sinni sjálfir. En hver veit svo sem hvort þetta falda fé tengist ekki morðum og stríðum. Það er til svo mikið af óheiðarlegu fólki í heiminum og einhvers staðar þarf að þvo peninga.

Ég vona að það hafi komist til skila að mér þykir mikið koma til Lizu Marklund. Ég hef heyrt út undan mér að einhver menningarlegur bókelskandi gagnrýnandi hafi sett hana í ruslflokk og hugsa ósjálfrátt. Of pólitískt og feminiskt fyrir suma. Ég nefni engin nöfn!!!

Ég finn til viss tómleika eins og eftir allar góðar bækur. Ég veit að það líður hjá, það er mikið til af góðum bókum í henni veröld. 

Myndin er af línuriti úr Rannsóknarskýrslunni góðu. 

 


Er hvítasunnan orðin þunnur þrettándi?

image

Margir velta því fyrir sér hvað verði um frídagana sem byggja á helgum dögum kirkjunnar, nú þegar kristin trú hefur að vissu leyti úrhólkast (ætla ekki að fara nánar út í það). Fólk er fríinu fegið og hefur fundið dögunum nýjan tilgang, þótt í flestum tilvikum fari lítið fyrir helgihaldinu. Ég er utan trúfélaga og fylgi straumnum. Reyndar þarf ég ekki á frídögum að halda, því ég er komin í "langa fríið", ég get hagað hverjum degi að eigin geðþótta. 

En hvernig var þetta hugsað allt, á sínum tíma, meðan fólk tók helgidagahald alvarlega, klæddi sig í spariföt, var andaktugt og hugsaði um andleg málefni? Maður  tók mest eftir hvað var bannað. Það var náttúrlega bannað að vinna og þess vegna var ekki hægt að kaupa sér neitt, hvorki vöru eða þjónustu. Og svo var að sjálfsögðu bannað að skemmta sér. 

Mér finnst siðvenjur merkilegar og mig langar til að skilja þær, þannig öðlast ég skilning á fólkinu í kringum mig og þannig öðlast ég skilning á mér. Mér fannst alltaf gaman í gamla daga þegar fólk fór í sparifötin og amma setti upp viðhafnarsvipinn um leið og hún setti á sig sparisvuntuna utan yfir peysufatasvuntuna. En auðvita lagðist ekki af nein vinna, kýrnar voru mjólkaðar, fénaður fékk tugguna sína og svo þurfti heimilisfólkið sitt. Hvítasunnan var á vissan hátt alltaf til vandræða, því oftar en ekki truflaði hún sauðburð, mesta annatíma til sveita, sem er á vissan hátt heilagur í sjálfu sér.

Enn er það svo, ég átta mig illa á hvitasunnuhelginni. Ef maður hugsar um þrískiptingu guðdómsins er þá ekki hægt að hugsa þetta svona? 

Jólin eru hátíð Föðurins, hann gaf fólkinu Soninn

Páskarnir eru hátíð Sonarins, hann gaf fólkinu sjálfan sig

Hvítasunnan er hátíð Heilags anda, hann kom til lærisveinanna með miklum dyn

Reyndar ætti ég ekki að vera að ræða um helgidagahald, trúlaus manneskjan. Finnst sjálfsagt mörgum. En það er merkileg þverstæða að meðan kirkjan hefur einhvers konar einkarétt á því að ræða trú og andleg málefni, hafa braskararnir (þeir hinir sömu og Kristur hamaðist gegn í Musterinu) tekið forystu í að gæða gamla helgidaga merkingu og hinn svokallaði frjálsi markaður hefur tekið við hlutverki heilags anda. 

En hvað er manneskjan að fara, kann einhver að spyrja? Það er eðlilegt, umræða utanað- komandi, ég meina trúleysingja um andleg málefni er gjarnan tekin sem karp. Hvernig væri að gefa þjóðkirkjunni frí svo allir sitja við sama borð. 

Er þetta ekki bara í fínu lagi?

Ég minnist tímabils þar sem fréttir um ævintýraleg tjaldferðalög ungmenna út í guðs græna náttúruna (sem oftast var grá) voru stórfrétt Ríkisútvarpsins. Unga fólkið tók sig saman og engin gat vitað fyrirfram hvar það lenti.

Þegar þessar fréttir voru fluttar, hugsaði ég. Þetta er leitandi fólk.

Vegir Guðs eru órannsakanlegir.

 

 


Skeggbarn fer á konungsfund : Kjalnesingasaga: Orð skulu standa

 image

Ekki veit ég hversu margir lesenda minna, hafa lesið Kjalnesingasögu. Hún er knöpp í formi og full af kennileitum sem flestir þekkja eða kannast við. Vegna þess að ég var að reyna að nálgast boðskap sögunnar, flysja ég í burtu fjölmargt sem kryddar, svo sem bardaga og ástalíf.   

Þegar Helgi bjóla nam Kjalarnes var nesið viði vaxið. Hann lét gera braut í gegnum skóginn/kjarrið frá býli sínu til jarðar sem hann byggði Andríði, sem síðar varð fóstbróðir sona hans. Þar hét síðan Brautarholt. Til marks um skógarþykknið er sagan af kvígunni Mús, sem týndist en fannst  þremur vetrum síðar á nesi einu, og  var  komin með tvo dilka með sér. Þar heitir síðar Músarnes.

Andríður kvongaðist og búnaðist vel í Brautarholti, þau hjón eignuðust soninn Búa, sem þau af einhverjum ástæðum komu í fóstur til Esju á Esjubergi, en hún hafði verið samskipa Andríði til Íslands. Esja var forn í skapi segir í sögunni og á vissan hátt er hún aðalhetja þessarar sögu, um það verður ekki fjallað hér. 

Búi óx úr grasi. Hann var undarlegur, bjó sig út með vopni sem ekki tíðkaðist á Kjalarnesi og e.t.v. hvergi á norðurhveli jarðar. Hann vafði um sig slönguvað, eins og Davíð forðum þegar hann grandaði Golíat. Hann vildi heldur ekki blóta hin helgu goð. 

Þetta var náttúrlega óþolandi fyrir stjórnvöld þeirra tíma á Kjalarnesi og Þorsteinn barnabarn Helga bjólu fékk hann dæmdan útlægan. Nú urðu miklar sviptingar. Þorsteinn reynir að koma lögum yfir Búa.  Búi bregst hart við, drepur hann og brennir hofið, helgidóminn. Það sem verra er, Þorgrímur Helgason, bjólu, vegur fóstbróður sinn, Andríð. Það mæltist ekki vel fyrir. Enn magnast átök með Búa og Kjalnesingum.  En Búi sleppur úr hverri raun, það kom sér vel að eiga fjölkunnuga fósturmóður. En þar kom að jafnvel henni þótt nóg komið. Hún hjálpaði honum að fara af landi burt. Á fund Haralds Noregskonungs. 

Og þar með hefst í raun skemmtilegasti kafli sögunar. Hann er allur hinn ævintýralegasti. En einmitt þessi kafli hefur trúlega valdið því að Kjalnesingasaga var sett í nokkurs konar ruslflokk hjá fræðimönnum. 

Þegar Búi kemur á fund Noregskonungs, sitja óvinir hans þar á fleti fyrir. Noregskonungur setur honum fyrir að leysa þrautir. Fyrst á hann að sækja tafl til Dofra konungs. Þar tók á móti honum Fríður Dofradóttir og kynnir fyrir föður sínum. Dofri nefnir hann skeggbarn og veitir honum áheyrn og veislur góðar fyrir hennar orð. Þessa fyrstu þraut leysti hann. Meira um það seinna. Síðan er honum gert að glíma við blámann sem var eins konar berserkur. Dofri braut hann á bak aftur (bókstaflega). Að þessum þrautum leystum fer Búi heim en nú með blessun konungs. 

Nú bregður svo við að Búa gengur allt í haginn. Hann nær sáttum við fyrrum óvini, kvongast og verður vel stæður höfðingi. En þá er honum allt í einu stillt upp frammi fyrir gömlu loforði. Sonur hans og Fríðar er kominn til Íslands og vill að hann gangist við sér. Drengurinn heitir Jökull, bráðmyndarlegur, sem færir fram þessa frómu ósk en Búi hafnar og vill að þeir útkljái málið með glímu. Það hefði hann ekki átt að gera, því glíman fer svo að Jökull gengur að honum dauðum. 

Kjalnesingasaga á það sameiginlegt með öðrum  góðum  sögum, að það er hægt að lesa hana oft og í hvert sinn finnur maður eitthvað nýtt eða öðlast nýjan skilning á efninu. Í þetta sinn fannst mér að Kjalnesingasaga fjallaði um, hversu mikilvægt það er að standa við orð sín. Tvisvar í sögunni verða það sem kalla mætti viðsnúning (twist eða vendipunktur). Þegar Þorgrímur Helgason, bjólu, vóg fóstbróður sinn Andríð, sneri gæfan við honum bakinu. Það sama á sér stað þegar Búi efnir ekki heit sitt við Fríði Dofradóttur. Mér sýnist af þessum tveimur dæmum að það sé ógæfumerki að standa ekki við orð sín. 

Í þessari yfirferð hef ég sleppt mörgu merkilegu í þessari stuttu en þó efnismiklu sögu. Þór Rögnvaldssson gerði leikrit, Búasögu, út frá efni sögunar, sögusvið var flutt til okkar tíma. Þetta leikrit,var sett upp hjá Borgarleikhúsinu (1999). Ég sá ég ekki þá sýningu (var þá enn búsett úti á landi). En ég las ljóð Gríms Thomsen, Búarímur. Frábær kveðskapur.

Í ljósi breyttra viðhorfa í fræðaheiminum, hefur Kjalnesingasaga flust ofar á virðingartommustokk fornbókmenntanna og er nú jafnvel lesin í menntaskólum. Lýkur hér umfjöllun minni um þessa góðu bók. Og þó ég trúi því, að sagan sé að vissu leyti skemmtisaga, eins og allar góðar sögur, þá finnst mér boðskapurinn skýr: STATTU VIÐ ORÐ ÞÍN.

 

 

 


Houellebecq: Unirgefni: Ekkert fyrir mig

image

Þetta er þriðja bókin sem ég les eftir þennan höfund. Ástæðan er alltaf sú sama, honum er hrósað upp í hástert. Fyrsta bókin sem ég las hét Öreindirnar, sú næsta var Kortið af heiminum og nú bætist Undirgefni við. Mér falla ekki þessar bækur og í öllum tilvikum var ástæðan sú sama. Þetta eru heimsósómasögur,allt er bölvað, meira að segja vandlætarinn, höfuðpersónan er á barmi örvæntingar.

UNDIRGEFNI

Undirgefni vísar vísar annars vegar til að vera undirgefinn Guði almáttugum og hins vegar til hvernig konan á að vera manni sínum trú og undirgefinn. 

Þetta er lærð bók, höfundurinn svamlar eins og fiskur í vatni franskra bókmennta og það eru ótal vísanir í gangi sem ég hef engar forsendur til að skilja. Eitt höfuðviðfangsefni bókarinnar eru frönsk stjórnmál og mig grunar að þessi bók sé að einhverju leyti fyrst og fremst til heimabrúks. Aðalpersónann er miðaldra háskólakennari, sögusviðið er París og samtíðin út frá sjónarhorni þessa lífsleiða manns eru 19. aldar fræði með áherslu á höfundinn Huysmans, ég hef ekkert lesið eftir hann. Hann virðist vera einmana enda trúir hann því sjálfur að helst sé huggunar að leita í kynlífi, mat og víni. Hann hefur aldrei verið í föstu sambandi og á engan vin. Ég fer strax að leita að skammstöfunum til að skella á hann greiningu til að gera hann þolanlegri. 

En það leynir sér ekki að höfundi er mikið niðri fyrir, það liggur við að hann sé með boðskap. Hann sér fyrir sér fall franskrar menningar og þar með evrópskrar menningar. Og það er einmitt þetta sem bókin fjallar um. Frakkar hafa ekki tekið vara á franskri menningu og Íslam tekur yfir. Erfiðast er að horfa upp á hvað þetta gengur allt auðveldlega fyrir sig.

LOKAORÐ

Þetta  er vel sögð saga enda er henni hampað um allan heim. En það er eitthvað að þessum manni, ég á við höfundinn. Kvennasýn hans er svo brengluð að mér finnst ekki á hann orðum eyðandi. En það er gott að hann skuli skrifa bækur, annars væri hann trúlega virkur á kommentakerfinu að skrifa sóðalegan hatursáróður gegn konum.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2016
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 187187

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband