Plötusnúður Rauða hersins: Wladimir Kaminer

image

Var að ljúka við bókina Plötusnúður Rauða hersins eftir Wladimir Kaminer. Hún var skemmtileg og það  kom mér ekki á óvart. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir hann á íslensku en ég á nokkrar bækur eftir hann á þýsku og hef stautað mig í gegnum þær í viðleitni minni við að læra  það eðla mál. Þær hafa allar verið skemmtilegar. Oft stýra tilviljanir miklu í lífinu og það er gaman að virkja góðar tilviljanir. 

Ástæðuna fyrir því að ég þekki til Kaminers má rekja til þess að sonur minn var að læra rússnesku og hann hafði frétt af því að einhver Rússi ætlaði að lesa upp úr bók í Máli og Menningu. Ég slæddist með honum inn og þar var ungur maður, nokkurs konar uppistandari, fannst mér að romsa upp úr sér á þýsku. Líklega hefur hann verið að lesa einmitt úr þessari bók. Þetta er ágiskun því ég skildi takmarkað, því þetta var áður en ég fór að taka mér tak við þýskuna. Ég skildi þó meira en ég hefði gert ef maðurinn hefði talað rússnesku. En þetta varð til þess að ég keypti nokkrar bækur eftir þennan rússneska Þjóðverja. 

Kaminer er Rússi sem skrifar á þýsku. Hann er fæddur 1967 í Moskvu í, Sovétríkjunum. Bókin Plötusnúður Rauða hersins, er sjálfsævisöguleg og segir frá lífi hans og uppvexti í Sovét. Bókinni líkur þar sem segir frá ferðalagi hans til Berlínar, þar sem hann síðan settist að og býr nú. Hann lýsir sér sem uppátækjasömum strák. Hann hefur strax í barnaskóla einhvers konar ástríðu fyrir því að koma fram og spinna upp sögur. Hann er prakkari og kemst upp með það þangað til hann er staðinn að verki. Hann er valinn sem fulltrúi síns skóla í upplestrarkeppni og treður upp og flytur ljóð eftir Jevtusjenkó með tilþrifum. En ljóðið var bara ekki eftir skáldið, það var spuni. Dómnefndarmenn elítunnar í Moskvu voru of glöggir. Skólastjórinn fékk áminningu og drengnum var vísað úr skóla. Það þótti honum reyndar ágætt. Hann var frjáls.

Kaminer lýsir foreldrum sínum sem grandvörum sovétborgurum, þau eru bæði opinberir starfsmenn. Faðir hans hefur sótt um aðild að flokknum en ekki fengið. Þau eru í öngum sínum og vita ekki hvað eigi að gera við þennan iðjuleysingja, son sinn. Höfundur segir síðan mistrúlegar sögur af sjálfum sér og félögum sínum sem lifa einhvers konar Sovét-hippalífi, eiginlega ekki svo ólíkt því sem við sjálf könnumst við. Þó misjafnlega náið. Eini munurinn er að þessir unglingar eru í uppreisn gegn flokknum, kommúnistum. 

Þetta er skemmtilega sögð saga. Þessi ungi Wladimir er ekki bara með frásagnargáfu, hann er fjöllistamaður og er sagður einhver mikilhæfasti sérfræðingur í Sovétpoppi. Eftir að hann settist að í Berlín stóð hann fyrir lifandi menningarstarfi, upplestrarkvöldum rithöfunda. 

Ég mæli með þessum höfundi, hann kemur manni í gott skap, ekki veitir af. Sérstaklega þótti mér gaman að Meine kaukasische Schwiegermutter og Meine russischen Nachbarn.

 


Villuráfandi karlmenn í bókmenntum: Og ráðherrar

image Ég hef komið mér upp þeim kæk að mér finnst engin bók fulllesin fyrr en ég er búin að skrifa um hana blogg. Í fyrstu hugsaði ég þetta sem einhvers konar utanumhald um lestur  fyrir sjálfa mig á netinu. Ég þvinga sjálfa mig til að gera upp hug minn um hvað mér finnst um bókina og oft les ég mér til um höfundinn og fleira sem máli skiptir til að ná betur utan um efni bókarinnar. Vitneskjan um að hver sem er getur lesið þetta, agar mig. 

En hversu hörð á ég að vera við sjálfa mig? Síðustu vikur hef ég verið óvenjuiðin við lesturinn og það hafa hlaðist upp bækur sem ég hef ekki gert grein fyrir.  Og það sem verra er, ég hef ekki gert upp hug minn gagnvart þeim. Og merkilegt nokk. Ég finn til samviskubits. Þetta er rugl, ég er jú bara að gera þetta fyrir sjálfa mig.

Kannski get ég rubbað þessu einhvern veginn af. Ég renndi yfir listann yfir óafgreiddar bækur og velti fyrir mér hvort ég gæti spyrt þær saman og skrifað 4 fyrir 1 blogg. Og viti menn. Eitt augnablik fannst mér að ég hefði fundið samnefnara, nothæfan titil á slíkt blogg. Villuráfandi karlmenn.

Ég sem er á móti því að alhæfa um fólk og draga það í dilka.Fresta skrifunum og fer að fylgjast með fréttum. 

Tilfinningin um villuráfandi karlmenn magnast enn þegar ég fer að leggja við eyrun. Ég trúi þeim ekki. Þeir eru villtir, hugsa ég. Það gat ekki fundist nein önnur skýring varðandi yfirlýsingar ráðherranna um fjármál sín. Konan í hópnum er greinilega að koma af fjöllum. Þeir eru villtir og vita það ekki. Sá sem er villtur, veit það ekki sjálfur og trúir ekki þeim sem vill segja honum til vegar.

Þetta veit ég því því ég hef villst.

Það var áliðið dags og farið að skyggja. Það var létt mugga, ég vissi að spáin var slæm. Var stödd í Búðardal og vildi ná heim í Borgarnes áður en veðrið versnaði. Ætlaði Heydal, því Brekkan var lokuð. Á þessum tíma vann ég fyrir Skólaskrifstofu Vesturlands og bjó í Borgarnesi. Ég var þaulvön vetrarakstri, ferðalög milli skóla voru hluti af vinnunni. Í þetta ákveðna skipti leið mér vel, góð tilfinning að vera á heimleið. Vegurinn svo til auður en auðvelt að fylgja stikum. Í huganum fór ég yfir hvernig verkefnið sem ég var að sinna hafði gengið.  Allt í einu sat bíllinn fastur.

Þegar ég kannaði aðstæður gerði ég mér grein fyrir að að ég kæmist ekki lönd eða strönd. Ég yrði að  bíða og vona að einhver ætti leið um. Biðin varð löng. Mjög löng. Loks sá ég ljóssgeisla í gegnum hríðina.

Þegar björgunarmenn mínir, strákar á sérbúnum jeppa, sögðu mér að ég væri í Bröttubrekku, hélt ég að þeir væru rugludallar. Kjánar sem ekki kynnu á landakort. Ég var jú á leiðinni yfir Heydal. Þú hefur gleymt að beygja, sögðu þeir af stillingu.

Þetta blogg átti að vera um bækurnar sem ég á eftir að skrifa um en ég afvegaleiddist, af körlunum sem halda enn að þeir séu á réttri leið, þótt þeir sitji fastir í eða á Ódáða-Hrauni.

En nú skammast ég mín fyrir að hafa nokkurn tíma ætlað að afgreiða bækurnar með fordómafullri fyrirsögn. Í staðinn ætla ég að telja þær upp um leið og ég lofa sjálfri mér að gera upp hug minn, skrá það sem mér finnst. 

Raunir Werthers unga (Johann Wolfgang Goethe)

Plötusnúður Rauða hersins (Wladimir Kaminer)

Laura og Julio (Juan Jose Millás)

Kjalnesingasaga (höfundur óþekktur)

Þetta eru allt bækur til að tala um við vini sína. Reyndar er ég bara að lesa eina þeirra í fyrsta skipti

Lokaorð

Ég er þakklát rithöfundum fyrir að þeir hjálpa mér við að glöggva mig endalaust á leiðinni sem ég er að fara í lífinu. Skerpa hugsun mína. Og ég er þakklát ungu mönnunum sem björguðuðu mér af Bröttubrekku þegar ég hélt að ég væri stödd á Heydal. Þeir voru á leið á briddsmót og sögðust fara Bröttubrekku af prinsippástæðu af því þeir væru Dalamenn.

Ég óttast að villtum stjórnmálamönnum sé ekki hægt að bjarga nema af kjósendum. En sumir kjósendur eru líka á villigötum.

Tengist ekki efninu nema óbeint. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2016
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 17
  • Sl. sólarhring: 25
  • Sl. viku: 92
  • Frá upphafi: 187285

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 83
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband