Elsku, elsku, elsku: Jón Kalman Stefánssom

image

Ég hef það fyrir sið að gera upp hug minn um bækur sem ég les og setja niðurstöðuna á netið. Í þetta skipti langar mig til að fara nýja leið og láta sem ég sé að skrifa höfundinum bréf. 

Kæri Jón Kalman

Ég var að ljúka við bækurnar þínar, Fiskarnir hafa enga fætur og Eitthvað á stærð við umheiminn með undirtitlinum, ættarsaga. Nú ég geri eins og Margrét amma Ara gerði í sögunni þinni. Ég skrifa rithöfundi. Ég ætla þó ekki að biðja þig um neitt, heldur einungis þakka þér fyrir bækurnar þínar. Ég hef lesið þær flestar held ég, en það kom gloppa í lesturinn þegar augun fóru að svíkja mig. Ég gat ekki almennilega sætt mig við að hlusta í staðinn, þótt slíkur kostur sé í boði. Sem betur fer hef ég aðgang að Hljóðabókasafni Íslands, en það er er annað að hlusta en lesa.

Mig langar til að þakka þér sérstaklega fyrir þessar tvær síðustu Þetta eru fyrstu bækurnar eftir þig sem ég les síðan ég hætti að hafa milliliðslausan aðgang að textanum, túlka hann sjálf, skapa sjálf persónurnar, sjá fyrir mér landslagið með mínum augum. Nú  hlusta ég. Ég þarf að njóta bóka gegnum millilið, mér finnst ég ekki vera eins náin höfundinum. Sá sem les, skapar líka. 

Bréfið átti ekki að vera um lestrarmátann, mig langar til að segja þér af hverju ég gleðst yfir þessum tveimur síðustu bókum. Ég vona að mér takist að koma orðum að því þó að ég viti það ekki almennilega sjálf.

Mér finnst þessar bækur vera um mig og fólkið mitt og mér finnst svo mikilvægt að við fáum rödd. Rödd til að skilja okkur sjálf, rödd til að muna. Rödd til að vita hvernig þetta var og er. Bækur um okkur öll. Það er að vísu sárt hvernig þú klórar ofan af sárum sem ég hélt að væru gróin. En um leið finn ég að bækur þínar eru eins og græðandi smyrsl. En það er sárt. 

Það hafa margir rithöfundar skrifað góðar bækur um alþýðu þessa lands og meðan ég var að lesa hugsaði ég, hvað er það sem gerir þessar bækur svo sérstakar? Ég held að ég viti það. Persónurnar eru lifandi fólk, ekki táknrænir karakterar. Þær eru lifandi og margslungnar. 

Ég ætla að hlusta á þessar bækur aftur og kynnast fólkinu hans Ara betur. Og innst inni vona ég að fá enn eina bók, meira um hann. Og ég vona svo að þetta verði allt í lagi hjá honum. Mér finnst einhvern veginn að stjúpa hans (sú fyrri) sakni hans.

Kærar þakkir fyrir þessar bækur 

Kveðja frá lesanda.

 

 


Bloggfærslur 18. apríl 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 186934

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband