Hjarta spekinganna býr í sorgarhúsi en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi

image

Ég lauk loks við bókina The House of Mirth. Ég byrjaði á henni 22. ágúst, var með hana í eyrunum meðan ég hljóp. Hlaupið var mér erfitt og kannski hefur afstaða mín til sögupersónu mótast einmitt þá. Ég verð að játa að aðalpersóna sögunnar Lily Bart, fór svo í taugarnar á mér, að ég átti erfitt með að njóta bókarinnar, þótt hún sé listilega vel skrifuð.

Fyrir þá sem ekki vita. The House of Mirth (1905) eftir Edith Wharton er látin gerast í lok 19. aldar. Sögusviðið er New York en sjónarhornið er að því leyti þröngt að sagan fjallar, ég held að mér sé óhætt að fullyrða, eingöngu um líf ríka fólksins. Lily á í vanda, faðir hennar hefur orðiðið gjaldþrota svo hún er eignalaus og verður að giftast til fjár, til að halda stöðu sinni innan yfirstéttarinnar. Hún er falleg, gáfuð og eftirsótt. Staða hennar virðist því vera álitleg. Lily horfir á stöðu sína nánast eins og góður skákmaður og hugsar út leiki. En hvað eftir annað er hún of lengi að hugsa, hún fellur á tíma. Þegar hún er tilbúin til að játa bónorði, er það of seint. Að lokum stendur hún uppi ein og vinalaus og gerir loks tilraun til að vinna fyrir sér. En blóm sem er ræktað í gróðurhúsi þrífst illa þar sem allra veðra er von. Lily er ekki samkeppnisfær við stúlkur sem hafa þjálfast í að vinna. 

Loksins þegar þarna var komið sögu, fór ég að finna til með Lily. Bækur kenna manni ýmislegt um sjálfan mann. Mér hafði allan tímann leiðst hikið á henni og ég lét líka þennan þrönga heim fína fólksins pirra mig. Í raun er það höfundur bókarinnar sem leikur sér með lesandann. 

Meðan ég var að koma mér í gegnum bókina, las ég mér til um hana og höfundinn. Bókin er flokkuð sem "novel of manners". Það vísar til bóka þar sem höfundur beinir sjónum lesandans að siðvenjum fólks, hvernig það hugsar um hvað sé viðeigandi og hvað sé mikilvægt. Þetta gerir höfundur með því að lýsa samtölum og hugrenningum fólks. 

Það er ekki við öðru að búast en hinn þröngi heimur yfirstéttar New Yorkborgar fari í taugarnar á mér. Ætla þau aldrei að horfa á heiminn í kringum sig, hugsa ég. Hvenær læra þau.

En auðvitað á ég að láta mer þykja vænt um Lily, en ég geri það ekki fyrr en hún er ein og útskúfð.

Ég skammast mín. Samúð með fólki á að ná út fyrir stétt og landamæri.  Við erum rækilega minnt á það þessa dagana þegar við horfum daglega upp á neyð fólks. 

Titill þessarar bókar er sóttur í Biblíuna: Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi (Predikarinn 7:4). 


Úr öskunni í eldinn? 19. öldin heillar mig

image

Stundum finnst mér gott að flýja inn í fortíðina ef mér finnst umræðan í samtímanum þrúgandi. Upp á síðkastið hef ég hallað mér að 19. öldinni. Nú er ég að lesa tvær bækur, sitt á hvað. Maður getur ekki lesið margar bækur samtímis en báðar fylla þessar bækur huga minn í augnablikinu og ósjálfrátt ber ég þær saman. 

Önnur bókin er skáldsaga eftir bandarískan rithöfund, Edith Wharton (The House of Mirth), hin er ævisaga Einars Benediktssonar (1. bindi) eftir Guðjón Friðriksson. Það er kannski ekki alveg út í bláinn að bera þessar bækur saman. Hér skal tekið fram að ég er enn stödd í fyrstu bókinni un Einar, sem fjallar ekki síst um föður hans. Hann kemst inn í íslenska yfirstétt með  því að kvænast. Hagar sér illa og er stöðugt blankur. Söguhetjan í The House of Mirth, Lily Bart, fæðist inn í yfirstéttina em faðir hennar verður gjaldþrota. Þá er eina leiðin til bjargar fyrir Lily að gifta sig til fjár. Hún er falleg, gáfuð og eftirsótt og alin upp til að vera yfirstéttarinnar. En hún spilar illa úr stöðu sinni og því fer sem fer. Það má á vissan hátt segja að það geri Benedikt Sveinsson líka á sinn hátt. 

Það sem sér í lagi aðskilur þessi tvö vandræðabörn og styrkur Benedikts, eru stórar og brennandi hugsjónir. Hann er brennandi í andanum fyrir frelsi og lýðræði. Veikleiki hans er vínið. Aumingja Lily hugsar fyrst og fremst um hvernig best sé fyrir hana að klæðast og haga sér, til að hún reiknist til stéttarinnar sem hún vill tilheyra. Ef það örlar á einhverri þjóðfélagssýn hjá henni, hef ég ekki tekið eftir því. Nú máttu lesandi góður giska á hvort þeirra er í uppáhaldinu hjá mér. 

En til baka í nútímann. Það er kannski að fara úr öskunni í eldinn ef forðast á  erfiða og stundum ómerkilega umræðu í nútímanum, að hoppa inn í 19. öldina. Bók Wharton er ekki síst snilldarlega vel skrifuð þegar kemur að því að lýsa orðræðu, sem stundum fær merkimiðann slúður. Allar vita nákvæmlega allt um alla og siðareglur fína fólksins eru hárnákvæmar. Blæbrigðamunur getur skipt máli. Íslenska umræðan, eins og Guðjón lýsir henni, var óvægin en ekki get ég merkt að slúður hafi breytt miklu til eða frá fyrir Benedikt, bóndann á Elliðavatni og síðar sýslumann á Húsavík. Hann var líka karl og þeim leyfðist ýmislegt.

Það sem mér finnst þó allra merkilegast við þennan lestur og samanburð, er hvað orðrómur barst fljótt og vel fyrir tíma nútímafjarskiptamiðla. Það hefði verið fjör á Feisbók hjá opinberum og óopinberum álitsgjöfum 19. aldar.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2015
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband