Hver á skáldin?

image

Ég er svo heppin (eða óheppin) að ég hef aðgang að Blindrabókasafninu. Undanfarið hef ég verið að hlusta á Ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson. Í dag hlustaði ég á bókina  í staðinn fyrir að hlusta á setningu Alþingis meðan ég tók til í eldhúsinu.  Ég er stödd í bindi II. Ég hef lengi komið mér hjá því að lesa þessa bók, líklega vegna þess að ég er svo leið á þjóðsagnapersónunni Einari Benediktssyni, sögunum um glæsimennið og athafnaskáldið, sem fyrstur manna skildi að Íslendingar yrðu að ná í erlent fjármagn ef þeir ætluðu einhverntíma að komast úr moldarkofunum. En ég hef alltaf kunnað meta ljóðin hans. Alveg síðan ég var látin læra Fáka utanbókar. 

Þegar ég var í barnaskóla spurði ég kennarann minn, Birgi Einarsson, hvað skáld væri besta skáld á Íslandi. Birgir svaraði því til, að það væri ekki hægt að svara svona spurningu. Mér fannst það lélegt enda var ég nýbúin að læra um hver væri önnur mesta hetja okkar Íslendinga til forna. Ég gekk því eftir svarinu og spurði hvað honum fyndist sjálfum. Birgir tók sér langan umhugsunarfrest og svaraði svo: Mér finnst Einar Benediktsson bestur. Ég hef alltaf verið Birgi þakklát fyrir að kenna mér strax þá á stundum á samanburður ekki við og enn síður goggunarröð. 

En til baka í bók Guðjóns. Það er frábærlega gaman og spennandi að ferðast með Einari Benediktssyni í gegnum lífið. Þar er sko engin lognmolla. Bókin er ekki síst skemmtileg vegna þess að höfundi tekst að draga upp mynd af aldarhætti. Það gerir hann m.a. með því að draga upp lifandi myndir af samferðafólki hans.

Þegar ég les mér til (en netið er mér ómissandi liður í að njóta bókar) um Einar Benediktsson, sá ég að víða lágu þræðir til hans frá hægri mönnum. Eina ljóðabókin sem ég á eftir Einar, Sýnisbók, er með formála eftir Bjarna Benediktsson (eldri auðvitað). Þetta kemur mér svo sem ekkert á óvart, þannig voru tímar kalda stríðsins. Skáldunum var skipt upp á milli ólíkra fylkinga. Kannski er þetta enn i gidi en skáldin okkar eiga það ekki skilið. 

En ég er enn ekki hálfnuð með bókina og ég veit hvernig hún fer. Þannig eru ævisögur um frægt fólk. Við erum alla bókina að leita skýringa af hverju fór sem fór. 

Ég hef þegar lýst því yfir að ég hef miklar mætur á skáldinu Einari Benediktssyni. En ég hef aldrei verið sannfærðari um mikilvægi þess að rugla ekki saman manni og skáldi. 

En það er vitleysa sem Einar klifar stöðugt á og margir hafa vitnað til: að peningarnir séu afl þeirra hluta sem gera skal og að það eigi að láta peningana vinna til að auðgast. 

Það er fólkið sem vinnur sem skapar auð.


Bloggfærslur 8. september 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 90
  • Frá upphafi: 187268

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 85
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband