Einar Ben: Vandinn við að vera góð manneskja

image

Það skýtur e.t.v. skökku við að vera að lesa bækur Guðjóns Friðrikssonar um Einar Benediktsson núna 15-18  árum eftir að þær komu út. En þegar ég var búin að lesa bækur Edith Wharton um 19. aldar yfirstétt New York borgar, fannst mér ég þurfa að fá eitthvað mótvægi. 

Hugmyndaheimur Einars er í algjörri mótsögn við hugmyndaheiminn sem birtist í bókum Wharton (The Age of Innocence og The House of Mirth). Heimur Wharton þrengir að manni, lífið snýst um hegðun og siðvenjur, hvað má og hvað ekki. Heimur Einars Benediktssonar er víður og þar takast á menn stórra hugmynda, sem ætla að breyta þessum heimi. Þar má allt. 

En, bæta menn stórra hugmynda heiminn? Ég er sjálfsagt ekki ein um, að stundum kemur illa við mig hvað menn stórra hugmyndaleiga það til að vera ósamkvæmir sjálfum sér. Sama gildir um listamenn, ósjálfrátt gerir maður ráð fyrir  að fegurðin og göfgin sem þeir tjá í list sinni speglist í gerðum þeirra. Oft forðast ég í lengstu lög að lesa mér til um persónuna á bak við listina. Var ekki Hamsum, sem skrifaði þessar dásamlegu bækur, nasisti og Þórbergur sem hugsaði háleitari hugsanir en flestir samtímamenn, svo til ófær um að sjá um sig sjálfur? Persónan sem lýst var í kvikmyndinni um Turner var ekki líkleg til að gera undurfagrar og dulúðugar myndir. Þessi dæmi eru gripin af handahófi. Segir ekki sagan að Rousseau hafi látið vista börn sín á munaðarleysingjahæli?

Ég er fegin að þegar ég var látin læra Fáka utanbókar, vissi ég ekkert um skáldið nema að hann var mikill hestamaður. Nú grunar mig að ég hefði ekki fallið kylliflöt fyrir ljóðum hans ef ég hefði vitað hvað hann var ómerkilegur. Mikið er ég búin að vorkenna konu hans og börnum og fólkinu sem treysti honum. En ljóðin bliva og þau svíkja ekki. 

Það sem hrífur mig mest við ljóð Einars, er hvernig hann tekst á við að orða flókin sannindi og tengja saman sem anda og efni. Hann vill koma  þessu í orð og tekst það oft. Skítt með að ég sé ekki sammála honum. Hann segir reyndar hreint út í kvæðinu um Dettifoss að okkur beri að fórna náttúrunni fyrir veraldleg gæði. Sumt er þetta bölvað bögl en svo koma þessar dásamlegu setningar inn á milli. Þá gleymir maður hinu.

Enn er Einar (ég er stödd II. bindi ) aðeins liðlega fertugur og rétt kominn af stað með sínar djörfustu hugmyndir og á mikið eftir óort. 

Niðurstaða. Skáld, listamenn og menn stórra hugmynda eru jafn breiskir og aðrir menn. Það sem villir um fyrir okkur er að ósjálfrátt gerum við meiri kröfur til þeirra og  svo hafa þeir nú oft fleiri tækifæri en við sem teljum okkur venjulegt fólk, til að vera breiskir. 

 

 


Bloggfærslur 10. september 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband