Að taka stökkið

 

Það sem einkennir góðan rithöfund er að hann flytur mann til í tíma og rúmi og trúir fortakslaust að hann sé að segja satt, á hverju sem gengur. Ég var að ljúka við bókina Ethan Frome eftir Edith Wharton. Þetta er þriðja bókin sem ég les eftir þessa konu og fyrir um það bil ári síðan vissi ég ekki að hún væri til. Hinar bækurnar tvær voru Age of Innocence og The House of Mirth sem eru New York frásagnir, um líf ungs fólks á 19. öld. Allar þessar sögur hafa verið kvikmyndaðar. 

Ethan Frome kom út 1911 og var strax vel tekið. Andstætt síðari bókum hennar gerist þessi bók í sveitaumhverfi. Frásagan er lögð í munn sögumanns dvelur tímabundið í þorpinu Starkfield í Nýja Englandi. Hann tekur fljótlega eftir manni sem honum finnst skera sig úr. Þetta er hávaxinn maður sem ber það með sér að hann hefur einhverntíma orðið fyrir slysi. Fötlun han er þó ekki meiri en svo að hann fer sinna ferða, hann sér hann fyrst þegar þeir eru að sækja póstinn sinn á pósthúsið. 

imageAðkomumaðurinn forvitnast um sögu hans, sem hann fær í smábrotum frá fólkinu í þorpinu og Frome sjálfum, þegar hann verður veðurtepptur á heimili hans. Nú er tímaklukkan færð 20 ár til baka í frásögninni. 

Frome var bóndasonur sem ætlaði sér að ganga menntaveginn. Hann hafði hafið nám, en var kallaður heim, þegar faðir hans veiktist. Veikindin leiddu föður hans til dauða og þá studdi hann móður sína við reka búið og sögunarmylluna. Síðar þegar móðir hans veiktist fékk hann til sín konu, Zeenu,  til aðstoðar við hjúkrun móður sinnar. Eftir lát móður sinnar ákveður hann að giftast þessari konu. En það var misráðið. Konan var nöldurskjóða og sífellt veik. Vegna veikinda sinna fær Zeena til sín frænku sína, Mattie til að létta undir með sér. Mattie var ráðin í gustukaskyni við og ólaunað en stúlkan var einstæðingur. Ekki tókst þó  betur til en svo að Frome verður ástfanginn af frænkunni sem var yndisleg vera og nú vill, Zeena hana burt af heimilinu.Frome var örvinglaður datt í hug að stinga af með Mattie en brast kjark. Hann sá ekki fram á að geta fjármagnað slíkt uppátæki. Hann vildi þó sjálfur fylgja henni áleiðis þegar hún fór. Þetta síðasta ferðalag átti eftir að draga dilk á eftir sér. Það varð slys og þau sködduðust bæði en lifðu af.  

Eftir slysið voru þau bæði flutt til baka á býlið en nú var það Zeena sem tók að sér að hjúkra þeim. Hún sat uppi með þau og þau með hana. Svo sannarlega ekki happy end. Hún hélt áfram að vera jafn geðvond og heimilisástandið var þrúgadi. 

Þetta hljómar kannski ekki vel í endursögn og því trúlega mistök að vera að reyna að draga það saman. Töfrarnir tapast.  En sagan heldur. Lesandinn trúir hverju orði. Mér fannst sem ég þekkti ekki bara þetta fólk, ég fer strax að rifja upp minningar um annað fólk og aðstæður sem voru nauðalíkar. Son eða dóttur sem aldrei fór, sat eftir af fórnfýsi og/eða skyldurækni. Eða þá aumingjaskap. Tók aldrei stökkið. 

Mér fannst þetta góð bók en af og til meðan ég var að lesa hana, fór ég að hugsa til vesalings veiku og geðvondu Zeenu. Hún fékk litla samúð í bókinni. Athyglin er öll á karlinum og ungu stúlkunni. Og ég velti fyrir mér hvernig Zeenu dagsins í dag væri lýst. Hefur eitthvað breyst? 


Flækjustigið eykst: Púkinn á fjósbitanum fitnar

image

Ég held að flækjustig sé tiltölulega nýtt orð. Og ég held að við höfum i rauninni litla þörf fyrir það. Oftast birtist þetta orð, tengt málefnum sem brenna á fólki.  Þau eru umrædd og velkjast í kerfinu. Það sem þau eiga sameiginlegt er að það hefur aldrei staðið til að leysa  þau.  Dæmi um slíkt mál eru kjör öryrkja og eldri borgara, málefni flóttamanna og salernismál ferðalanga ( þetta eru einungis dæmi, listinn yrði of langur). Í stað þess að setja fókus á hvað er aðalatriði hvers máls, þá er settur í gang einhvers konar spuni. 

Þegar ég heyri orðið flækjustig verður mér hugsað til þjóðsögunnar um Púkann á fjósbitanum sem ég veit að allir mínir lesendur kunna. Og ég sé fyrir mér mynd af fjósi, fjósinu á bernskuheimili mínu.  

Það eru forréttindi að hafa alist upp í sveit, fyrir tíma tækninnar. Að vísu fylgdi því endalaus vinna. En ég ætla ekki að ræða um það hér. Fjósið var á vissan hátt griðastaður, því fylgdi heimspekileg ró og hlýja. Þarna stóðu þær kýrnar eða lágu á básunum sínum og fengu sína þjónustu tvisvar á dag og millimál. Þær voru þvegnar um júgrin, mjólkaðar, þeim var brynnt og svo fengu þær tugguna sína. Auk þess var mokað undan þeim, þ.e. flórinn. Þær voru ekki bara bundnar á bás, þær voru einnig með halaband. Halabandið kom í veg fyrir að þær óhreinkuðu halann í flórnum og slettu forinni með halaslætti um sig alla og  svínuðu sig út.

Ég sé fyrir mér fjósið í Odda hjá Sæmundi. Ég held að það hafi verð líkt fjósi bernsku minnar nema stærra, fleiri kýr og geldneyti. Og þó var einn reginmunur. Í okkar fjósi var enginn biti og enginn Púki. En ef púkinn hefði verið þarna, þá hefði honum verið létt um vik, að binda kýrnar saman á hölunum (með halaböndunum) og leysa þær síðan af básnum. Þá hefði svo sannarlega flækjustigið magnast í fjósinu.

En til baka að stjórnmálum dagsins í dag. Fjósamennirnir nota nú spuna í staðinn fyrir blótsyrði. Þeir eru að meira að segja með spunameistara á launum og stundum fleiri en einn. Púkinn er enn á fjósbitanum og hann fitnar og fitnar. 

En hvað sem liður púkum og spunameisturum eru málin einföld. Neyð er neyð, lygi er lygi og spilling er spilling. 

Myndin er af listaverki Alfreðs Flóka, Geðveiki


Kiljan: Bækur á færibandi

image

Ég er þakklát fyrir Kiljuna og mér finnst Egill Helgason standa sig frábærlega vel. En mér finnst búið að trimma þáttinn allt of mikið niður og tíminn notaður til að skoða hús og landslag. Hann er of stuttur. Það passar einhvern veginn ekki, finnst mér, að afgreiða bókmenntir á færibandi. Reyndar hef ég séð þetta gert á þýskri stöð (ZDF)í þættinum Der blaue Sofa. Þar fékk gagnrýnandinn bækurnar streymandi inn til sín á færibandi. Sumar fjallaði hann um en öðrum henti hann beint í ruslakörfuna. Það má segja að hann hafi látið verkin tala.  

Í Kilju gærkvöldsins var vikið að nýja Nóbelsverðlaunahafanum, Svetlana Aleksandrovna Aleksijevitj í framhjáhlaupi. Hún var sett á bás sem blaðamennskurithöfundur. Svetlana hóf að vísu ritstörf sem blaðamaður og hefur fengið verðlaun sem slík en Nóbelsnefndin verðlaunar ekki blaðamenn. Þetta kom illa við mig. Ég er að lesa bók eftir hana (Kriget har inget kvinnligt ansikte, ég les hana á sænsku). Á íslensku gæti hún heitið, Stríðið á sér enga kvenlega ásýnd. Bókin byggir á viðtölum en þetta er engin venjuleg viðtalsbók finnst mér. En ef hún er það, þá er það í lagi fyrir mér. 

Mér finnst Svetlana dásamleg. Hún hrífur mig og það sem hún segir um konurnar í sem börðust í stríðinu minnir mig á konurnar austur í Breiðdal, þar sem ég ólst upp. Þar var ekki stríð en hugmyndaheimurinn, hvernig konurnar sjá lífið, svipar til kynsystra þeirra í rússneska hernum. Ég fékk hvað eftir annað kökk í hálsinn meðan ég las. Þannig skrifa ekki blaðamenn. 

En á að setja rithöfunda á bása? Svar mitt er nei. Básar eru fyrir kýr, eða voru. Nútímakýr eiga víst rétt á að vistast í lausagöngufjósum. Reyndar finnst mér, sem þykist hafa vit á flestu, að þessi réttindi kúnna byggist á misskilningi. Það fór vel um kýrnar á básunum, ef þeir voru hæfilega stórir. Það ætti frekar að hugsa um básana sem einbýli með öllum þægindum og þjónustu.

En aftur að Kiljunni og ekki bara Kilju gærdagsins. Kiljan er ótrúlega góður þáttur, en hann þyrfti að vera lengri og mér finnst nýbreytni að heimsækja staði óþarfur. Það er verkefni fyrir Landann, sem er líka fínn þáttur. Okkur veitir ekkert af þessum tíma til að ræða bókmenntir. Nú er tími útgáfuhófanna löngu hafinn, af hverju ekki færa þau inn í stofu til okkar. Við getum sjálf séð um léttar veitingar.

 


Framúrskarandi vinkona: Kvittað fyrir bók

3_agust_2010_019.jpg

Nú hef ég lokið við að lesa, Framúrskarandi vinkona eftir Elena Ferrante. Þessi bók varð fyrir valinu af tveimur ástæðum. Hún var að koma út og hún er þýdd af sama þýðanda og bókin, Ef að vetrarnóttu ferðalangur. En sú bók fannst mér framúrskarandi. Báðar bækurnar eru þýddar af Brynja Cortes Andrésdóttir. Hún er flink.

Ég er náttúrlega búin að lesa mér til um höfundinn, sem er nokkurs konar Stella Blómkvist Ítalíu, það veit enginn hver hún er. Þessi bók er fyrsta bókin í því sem kallast er Napolí-sögur hennar. Þær fjalla um lífið í Napólí og hefjast á sjötta áratug síðustu aldar. Ítalía er að ná sér eftir stríðið. Fólkið sem bókin fjallar um býr í verkamannahverfi í Napolí og mér (lesandanum) finnst að þetta gæti eins vel verið þorp út í sveit.

Þetta er saga níu fjölskyldna í þessu úthverfi (þorpi) en þó aðallega tveggja telpna, síðar ungra stúlkna. Líf þeirra tvinnast saman.  Þetta eru gáfaðar stelpur sem keppa um að vera bestar í skóla.  Sú sem segir söguna, húsvarðardóttirin (Elena Greco) verður að láta í minni pokann fyrir skóaradótturinni (Lilu Cerullo ). Lila skarar framúr í öllu en  hættir í námi. Elena heldur áfram námi en verður á undarlegan hátt bundin þessari framúrskarandi vinkonu sinni svo  að allt sem hún gerir stjórnast af því hvað hún heldur að hin (Lila) hefði gert.

Öll bókin litast af lífsbaráttu fólksins og fátækt. Þetta er fræðandi, mynd mín af Ítalíu verður önnur . En ég á erfitt með að skilja hversu ósjálfstæð Elena er.

Vinkonunum tveimur er vel lýst og þær verða að manneskjum. Það á ekki við allar persónur í þessari bók en flestar þeirra eru lítt eða ekkert mótaðar. Þetta eru fyrst og fremst n.k. fulltrúar fjölskyldanna sem bókin fjallar um.

Tímabilið sem lýst er, eru æsku og unglingsárin mín og ég ber líf stúlknanna í Napolí stöðugt saman við lífið í Breiðdalnum á sjötta áratugnum. Þetta eru ólíkir heimar. Og þó, í Breiðdalnum stýrðist lífið og samskipti fremur af fjölskyldum en af einstaklingum. En það er meira ofbeldi í þessari bók en í Breiðdalnum í gamla daga. 

En eftir stendur að ég næ því ekki af hverju Elena Greco,var svona ósjálfstæð en það er hún sem segir söguna. 

Þessi bók olli mér vonbrigðum eftir að hafa lesið Ef að vetrarnóttu ferðalangur, en það er kannski ósanngjarnt að bera metsöluhöfundinn Ferrante saman við snillinginn Italo Calvino.  

Ég veit ekki hvort mig langar til að lesa framhaldið, tvær bækur um sömu persónur. En held þó að ég muni freistast til þess. Ef þær verða þýddar og ég lifi svo lengi.

Myndin er af sólblómi á eigin svölum


Bókasafnið mitt er að verða ónothæft

image

Ég er nú að lesa og hlusta á þrjár bækur sitt á hvað. Eina hlusta ég á í símanum á meðan ég skokka. Það er bókin Go Set a Watchman eftir Harper Lee. Mér gengur hægt með þessa bók af því ég skokka lítið. Nú er ég komin með hana á Kindilinn, þ.e. ég get lesið hana. Þá get ég glöggvað mig á því sem ég er búin að hlusta á og lesið áfram í rólegheitum heima.

En heima er ég að hlusta á, Frammúrskarandi vinkona eftir Elena Ferante. Ég hlusta á hana á streyminu ...í boði Hljóðbókasafnis Íslands.  Það er kvöldlesning.

Loks er ég að lesa þýska bók, Schattengrund. Ég er að reyna að æfa mig í þýsku, viðhalda því sem ég kann og helst komast örlítið lengra. Kannski ætti ég líka að ná í hana upplesna, ég hef nefnilega komist að því að mér gengur betur að hlusta á þýsku en að lesa hana sjálf. Það fannst mér skemmtilegt. 

Ekkert af þessu hefði ég gert nema af því sjónin er að svíkja mig, ég get ekki lengur lesið bækur nema með stækkunargleri. Ég er ein af mörgum sem hlakkaði til elliáranna og gerði plön um að þá skyldi ég lesa og endurlesa bækurnar sem ég (og maður minn) hafði safnað. Kóngur vill sigla en byr ræður. Það fer margt öðru vísi en ætlað er. Nú hjálpa ekki lengur gleraugu og góð birta, ég get ekki lesið venjulegt letur lengur. Þegar ég hafði kyngt þessarri staðreynd komst ég fljótlega í þann gír að hugsa, hvernig geri ég nú. Ég ákvað að horfa á hvað ég gæti frekar en hvað ég gæti ekki. Og það er heil stofnun með allt of löngu nafni, sem er tilbúin að leiðbeina (Þjónustu- og ráðgjafarstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga). 

En af hverju er ég að skrifa þetta? Ég veit að það er margt fólk sem er í svipaðri stöðu og ég og kannski finnst þeim gott að vita hvað er til ráða. En fyrst og fremst er ég að skrifa þetta fyrir sjálfa mig sem syrgi skerpu sjónarinnar til að geta lesið og séð. Og vegna þess að mig langar til það að geta talað opið um þetta eins og hvern annan hlut. Eins og vetrarhálkuna og hvort maður eigi að setja undir nagladekk eða láta harðkornadekk nægja. Mig langar til að það sé eðlilegt að vera fatlaður. 

Þannig hugsa reyndar allir fatlaðir og reyndar gamalt fólk líka. Þeir vilja vera venjulegt fólk sem tekið sé  mark á.

Þetta er kannski að verða einum of alvarleg og íþyngjandi lesning. Mig langar bara til að minna ykkur á, bíða ekki með að lesa bækurnar sem ykkur langar til að lesa. 

Og stundum opnar sjálf "ógæfan" nýjan glugga og við blasa ný tækifæri. Og stundum styrkleikar sem þú hafðir ekki hugmynd um.

 

Myndin er af augnfró, sem er lítið yfirlætislaust haustblóm 

 


Svínin okkar

image

Margt fólk á mínum aldri er annað hvort uppalið í sveit eða hefur verið sumarbarn í sveit (ég er komin yfir sjötugt). Sveitin sem við berum í hjarta okkar, er gamla sveitin. Þó vitum við flest betur.

Það hefur svo margt breyst. Það hafa orðið framfarir í landbúnaði, segja menn. En eitt hefur þó ekki breyst og kjör sveitafólks eru enn ekki góð í samanburði við kjör annarra stétta. Þau eru reyndar afar misjöfn og því erfitt að tala um bændur sem einn hóp. 

Þegar ég var barn, var lausnarorðið að það þyrfti að stækka búin. Ég man eftir þessum greinum úr Frey (ég las Frey sem barn), bændur áttu að stækka búin og vélvæðast. Pabbi tók þetta mjög alvarlega og þannig varð það. Skref fyrir skref vélvæðast sveitirnar, hvert skref kostar. Á sama tíma fækkaði fólkinu. En kjörin bötnuðu lítið.

Mér varð bylt við þegar ég sá myndirnar í sjónvarpinu fra íslenskum svínabúum. Ég hélt fyrst að um misskilning væri að ræða, svona lagað gæti ekki gerst á Íslandi. En þetta var ekki misskilningur, næstu viðbrögð mín voru hneykslun. Ég vissi reyndar að margt hafði breyst og hafði sjálf margsinnist hneykslast innra með mér á meðferðinni á sláturfé, sem er keyrt í vöruflutningabílumtil þvert yfir landið til slátrunar. Áður var slátrað heima í héraði og strangar reglur bæði um gripaflutninga og tíma og meðferð í sláturrétt. Þá mátti t.d ekki flytja fé á vörubílspalli án gæslu. 

En aftur að svínunum. Myndirnar sem við höfum séð sýna glæpi og það ber að bregðast við. Það er sjálfsögð krafa. Sjálf mun ég ekki kaupa svínakjöt fyrr en ég hef fengið fréttir af því að það sé búið að gera ráðstafanir sem mark er á takandi. Ég hygg að fleiri en ég hugsi líkt. Það er engin lausn að kaupa erlent kjöt. Við hér í þessu landi, þurfum að komast af hneykslunarstiginu og upphrópunarstiginu á aðgerðastigið (þetta eru löng og erfið orð en þannig er íslenskan). Ég held að við viljum flest að það þrífist landbúnaður í þessu landi, bæði vegna okkar sem neytenda og eins vegna fólksins sem vinnur þar. En það þurfa að verða breytingar. Strax. 

Það er svo sem til lítils að stræka á svínakjöt, ekki batnar meðferð dýranna við það. Hér þurfa stjónvöld að koma að og mikið vildi ég að það gæti orðið samstaða um að laga það sem er brýnast að koma í lag. 

Kannski þarf þessi vara að vera dýrari, og ef svo, þá það. Hver vill vera meðsekur í að kvelja skepnur?

Myndin er af Emil í Kattholti með grísinn sinn


Sagan okkar: Svik og prettir

image

 

Í gær hófust fyrirlestrar Miðaldastofu um Sturlungu. Þetta verður röð fyrirlestra, þar sem efnið verður krufið frá ólíkum sjónarhornum, vænti ég. Í fyrra stóð Miðaldastofa fyrir fyrirlestraröð sem var helguð Landnámu. Hún var framúrskarandi og ég reyndi að missa ekki úr dag. Þetta var geisivinsælt.  

Í fyrirlestri gærdagsins, reið Guðni Th. Jóhannesson á vaðið. Fyrirlesturinn hét, Sundrung og svik. Það var yfirskrift yfir því hvað menn hafa sér í lagi dregið fram úr Sturlungu til að leggja áherslu á mál sitt. Fyrirlesturinn var bráðskemmtilegur, Guðni sýndi stiklur úr þingræðum, viðtöl í blöðum og umræður á Feisbók, svo dæmi séu tekin. En merkilegastur fannst mér sá hluti fyrirlestrarins sem fjallaði um:

Getum við lært af sögunni ?

           og

Erum við að túlka söguna rétt?

Í vangaveltum sínum um þessar tvær spurningar fann ég að þarna var vandaður fræðimaður á ferð, það var undir þeim lestri sem kviknuðu hjá mér nýjar hugsanir, nýjar spurningar. 

Ég hlakka til vetrarins. Minn einasti vetrarkvíði tengist nú því að þessir fyrirlestrar verði of vinsælir og  sprengi utan af sér öll salarkynni. Í ljósi þess ætti ég auðvitað ekki að vera  að skrifa þennan pistil, því með því auglýsi ég fyrirlestrana enn meir. 

En mig langaði bara að segja ykkur frá þessu.

 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2015
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband